MS ritgerð í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum. Markaðsgreining fyrir sjávarútvegsvörur á Nígeríumarkaði. Helgi Már Magnússon

Size: px
Start display at page:

Download "MS ritgerð í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum. Markaðsgreining fyrir sjávarútvegsvörur á Nígeríumarkaði. Helgi Már Magnússon"

Transcription

1 MS ritgerð í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum Markaðsgreining fyrir sjávarútvegsvörur á Nígeríumarkaði Helgi Már Magnússon Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands Leiðbeinandi: Þórhallur Örn Guðlaugsson Febrúar 2009

2 Í þróunarlöndum á borð við ýmis ríki Afríku hefur verið mikil eftirspurn eftir innfluttum fiski undanfarna áratugi. Lönd eins og Nígería reiða sig í ríkum mæli á innflutning fiskafurða vegna þess hve ódýr og næringarríkur fiskur er. Katla Seafood er fyrirtæki sem selur fisk víðs vegar um heiminn. Um þessar mundir selur fyrirtækið fisk yfir borðstokkinn fyrir utan strendur Nígeríu. Fyrirtækið stendur að þessari rannsókn til þess að athuga möguleika sína á því hasla sér völl í landinu. Spurningin er hvort þeir ættu að hefja starfsemi í landinu og þá í hversu miklum mæli? Til þess að geta svarað þessari spurningu var ráðist í rannsókn til þess að greina viðskiptaumhverfi landsins og eiginleika þess með tilliti til Kötlu Seafood. Rannsakandi skipti rannsókn sinni niður í fjóra hluta. Fyrst rýnir rannsakandinn í fræðin. Þar skoðar hann helstu kenningar alþjóðavæðingar og inngönguaðferðir fyrirtækja á erlendan markað. Í öðrum hluta er ytra umhverfi Nígeríu skoðað með hjálp PEST-líkansins. Í þriðja hluta er innra umhverfi Nígeríu skoðað á grundvelli TASK-umhverfisins. Til þess að skoða samkeppnishluta TASK umhverfisins betur notast rannsakandi við fimm krafta líkan Porters. Í fjórða hluta eru helstu niðurstöður kynntar og greindar með Kötlu Seafood í huga. Að lokum er almenn umræða um niðurstöður rannsóknarinnar. Samkvæmt niðurstöðum reyndist hvorki nær- né fjærumhverfi í landinu gefa Kötlu Seafood tilefni til þess að hasla sér þar völl nema hugsanlega í gegnum sameiningu fyrirtækja eða með yfirtöku á fyrirtæki á markaði. Innganga á markaðinn er hugsanleg með þessum hætti en einungis með aðstoð aðila sem þekkja markaðinn og fyrirtækið treystir vel, sökum þess hve mikil óvissa og spilling ríkir á þessum markaði. Ritgerðin er trúnaðarmál til 1. febrúar

3 Demand for imported fish products has been significant in developing countries, such as certain countries of Africa. Countries like Nigeria rely heavily on imported fish products as a relatively cheap source of nutrition. Katla Seafood is a company that sells fish all over the world. Currently, it sells its products over the gunwale off the coast of Nigeria. The company commissioned this study to explore the possibility of entering the market and gaining a market share. The question is whether it should set up operations in the country and, if so, on what scale? In an attempt to answer these questions a study was conducted to analyse the market environment and the country characteristics as relevant to Katla Seafood. The study is divided into four parts. First, the researcher examines the principal theories of globalisation and entry modes used by companies that wish to take advantage of foreign market opportunities entering into foreign markets. The second part takes a look at the external macro environment using the PEST model. The third part looks at the external micro environment through the TASK environment. In order to analyse the competition aspects of the TASK environment more thoroughly, the researcher uses Porter s five forces model. In the fourth part, the main results are presented and analysed with regard to Katla Seafood. Finally, there is a general discussion of the conclusions. According to the results, there seem to be no indications from either the external macro or external micro environment that Katla Seafood should enter this market unless this is done by acquisition or through a joint venture. Market entry is a possibility using these two strategies, but only with the support of a partner who knows the market and will work in the company s best interest, owing to the uncertainty and corruption that characterises the market. The study is confidential until February 1st

4 Efnisyfirlit Inngangur Aðferðir PEST TASK-umhverfið Fimm krafta líkan Porters Kenningar varðandi alþjóðavæðingu fyrirtækja Uppsalakenningin Sálræn fjarlægð (Psychic distance) Viðskiptakostnaðarlíkanið (Transaction cost analysis model) Tengslanetslíkanið (The Network Model) Born Global fyrirtæki Inngönguaðferðir á erlendan markað Samningsbundin framleiðsla (Contract Manufacturing) Leyfisveiting (Licensing) Veiting sérleyfa (franchising) Samstarf fyrirtækja (Joint venture) Yfirtaka (Acquisition) Uppbygging frá grunni (Greenfield) Ógnir við alþjóðavæðingu Pólitískt umhverfi Stöðugleiki ríkisstjórnar Stjórnarfar Dómstólar Lög

5 4.4.1 Fasteignalög Herinn Velvilji stjórnvalda gagnvart erlendum fyrirtækjum Niðurstöður greiningar á pólitíska umhverfinu Efnahagsumhverfi Stærð markaðar Kaupmáttur neytenda Gjaldmiðill Efnahagurinn frá sjálfstæði Efnahagurinn í dag Bankastofnanir Netbankar Greiðslukort Niðurstöður greiningar á efnahagsumhverfinu Lýðfræðilegt umhverfi Aldursdreifing Fiskneysla samanborið við aðrar próteinríkarvörur Niðurstöður greiningar á lýðfræðilega umhverfinu Tæknilegt umhverfi Samgöngur Vegir Hafnir Lestarkerfið Flugvellir Samskiptakerfi Rafmagn Auðlindir Niðurstöður greiningar á tæknilega umhverfinu

6 8 Viðskiptaumhverfið (TASK environment) Markaðurinn Fiskneysla Fiskverð Innflutningur Viðskiptavinir Samkeppnisumhverfið Inngönguhindranir Staðkvæmdarvörur Samningsstaða birgja Samningsstaða kaupenda Samkeppnisaðilar Dreifileiðir Niðurstöður greiningar á viðskiptaumhverfinu Niðurstöður og umræða Heimildarskrá

7 Töflu- og myndayfirlit Mynd 1-1 Mynd 1-2 Mynd 1-3 Mynd 5-1 PEST líkanið...10 TASK umhverfið...11 Fimm krafta líkan Porters...12 Nígerísk naira gagnvart USD frá og Bonny Light olíuverð í Suður-Afríku...48 Mynd 5-2 Verðbólga Mynd 7-1 Tafla 7-1 Tafla 7-2 Tafla 7-3 Tafla 7-4 Tafla 8-1 Samgöngur...62 Fjöldi tilkynntra bílslysa...63 Tilkynnt dauðsföll sökum bílslysa...63 Samskipti...66 Kostnaður af almennu rafmagni borinn samann við einkaframleiðslu...68 Fiskframleiðsla í Nígeríu

8 Inngangur Í áraraðir hafa íslensk fyrirtæki selt fisk um allan heim. Afríka er þar engin undantekning, en mikil eftirspurn er eftir fiskafurðum í heimsálfunni. Skreið hefur t.d. verið vinsæl þar um langt skeið. Í Nígeríu hafa stjórnvöld og íbúar landsins treyst á innfluttan fisk undanfarna áratugi þar sem fiskframboð í landinu nær ekki að svara síaukinni eftirspurn markaðarins. Í Nígeríu er mikil fátækt og töluverð hungursneið. Þar af leiðandi er fiskur mikil nauðsynjavara fyrir íbúa landsins enda er hann ódýr og mjög næringarríkur. Þrátt fyrir mikla fátækt virðist markaðurinn við fyrstu sýn vera tilvalinn vettvangur fyrir útflutningsfyrirtæki í sjávarútvegi. Eftirspurn er mikil og talið er að hún aukist á komandi áratugum. En hvernig er markaðurinn í Nígeríu í raun og veru? Hvernig er ytra umhverfi markaðarins fyrir erlend fyrirtæki og hvernig er viðskiptaumhverfið? Er þetta markaður sem er áhugaverður fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki í sjávarútvegi? Reynt verður meðal annars að leita svara við þessum spurningum í þessari skýrslu. Fyrirtækið sem stendur að þessari rannsókn í samvinnu við rannsakanda er Katla Seafood. Fyrirtækið gerir út sjö verksmiðjuskip og tvö þjónustuskip við strendur Máritaníu og Marokkó. Afurðirnar eru seldar til Vestur-Afríku, Egyptalands og Rússlands. Helstu vörur fyrirtækisins eru makríll, hestamakríll, sardína og sardínella. Einnig framleiðir fyrirtækið fiskimjöl. Vörurnar eru ýmist sjófrystar heilar eða hausskornar í 20 kg eða 30 kg pakkningum. Katla er dótturfélag Samherja hf. og var stofnað árið 2007 er Samherji keypti starfsemi Sjóskipa hf. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Húsi verslunarinnar í Reykjavík, en einnig er það með skrifstofur á Las Palmas, Kanaríeyjum. Alls starfa í kringum 1400 manns hjá fyrirtækinu, þar af eru u.þ.b 80 Íslendingar (Samherji hf., 2007). Viðfangsefnið í þessari rannsókn er fiskmarkaðurinn í Nígeríu. Ætlunin er að rannsaka ítarlega viðskiptaumhverfið í landinu. Kanna á hvort það borgi sig fyrir Kötlu Seafood að færa sig framar í virðiskeðjunni og hversu framarlega fyrirtækið ætti þá að fara. Ritgerðinni er skipt í fjóra hluta. Í fyrsta hluta er fjallað um helstu kenningar alþjóðavæðingar og inngönguaðferðir fyrirtækja á erlendan markað. Í öðrum hluta er ytra umhverfi Nígeríu skoðað með hjálp PEST-líkansins. Í þriðja hluta er innra umhverfi Nígeríu skoðað á grundvelli TASK-umhverfisins. Til þess að skoða samkeppnishluta TASK umhverfisins betur notast rannsakandi við fimm krafta líkan Porters. Í fjórða hluta eru helstu niðurstöður kynntar 8

9 og greindar með Kötlu Seafood í huga. Að lokum er almenn umræða um niðurstöður rannsóknarinnar. Það sem er áhugavert við þessa rannsókn er hversu litlar upplýsingar er að finna hér á landi um viðskiptaumhverfi Nígeríu. Því er spennandi að afla nýrra upplýsinga. Töluverð óvissa virðist ríkja um ástandið í landinu og hvernig viðskipti með fiskafurðir ganga fyrir sig. Það eina sem virðist liggja á borðinu er að Nígería er stór og víðfeðmur markaður þar sem mikil eftirspurn er eftir fiski og sjávarafurðum. Katla Seafood selur nú þegar fiskafurðir sínar yfir borðstokkinn við strendur Nígeríu. Því eru nýjar upplýsingar mjög mikilvægar fyrir fyrirtækið til að meta hvert næsta skref þess á markaðinum eigi að vera. 9

10 1 Aðferðir Í þessari rannsókn voru notaðar þrjár aðferðir við að greina markaðsaðstæður í Nígeríu, en þau eru PEST-líkanið, TASK-umhverfið og fimm krafta líkan Michael Porters sem er notað til að greina samkeppnishluta TASK-umhverfisins. Einnig tók rannsakandi viðtöl við fólk frá Nígeríu og fólk sem hefur stundað viðskipti við landið í nokkur ár. Í viðauka 2 er birtur listi yfir þessa viðmælendur. 1.1 PEST Með PEST-líkaninu er greint ytra og fjærumhverfi fyrirtækja (external macro environment). Fjærumhverfi fyrirtækja byggist oft upp af þeim þáttum sem fyrirtæki hafa litla eða jafnvel enga stjórn eða áhrif á. Þættirnir eru þó þess eðlis að þeir geta haft afdrifarík áhrif á starfsemi og stefnumótun fyrirtækja. PEST-líkanið (Sjá mynd 1-1) er góður byrjunarreitur í greiningu á umhverfi fyrirtækis þar sem eftirfarandi þættir eru skoðaðir út frá starfsemi þess: pólitískt umhverfi, lýðfræðilegt umhverfi, tæknilegt umhverfi og efnahagslegt umhverfi (RapidBI Limited, 2008). Mynd 1-1. Pest-líkanið Hver þáttur verður greindur með tilliti til Kötlu og raunveruleg og hugsanleg áhrif þeirra á starfsemi fyrirtækisins verða skoðuð. Til þess að útkoma greiningarinnar gefi þær upplýsingar sem sóst er eftir er mikilvægt að greina þá þætti PEST-líkansins sem skipta miklu 10

11 máli fyrir starfsemi fyrirtækisins. Því verður fjallað ítarlegar um þá þætti en minna um aðra sem minni áhrif hafa á ytra umhverfi þess. 1.2 TASK-umhverfið Við greiningu á nýjum og óþekktum markaði nægir ekki að greina einungis ytra starfsumhverfi. Lykilatriði er að líta einnig á nærumhverfi fyrirtækisins. Í TASK-umhverfinu (Sjá mynd 1-2) er litið á þá þætti í umhverfinu sem fyrirtækið getur stjórnað eða haft áhrif á. Sú greining skiptist í fjóra hluta: markaðurinn, viðskiptavinurinn, samkeppnisumhverfið og dreifileiðir (Elenkov, 1997). Mynd 1-2. Task-umhverfið Hver þessara þátta verða greindir út af fyrir sig með tilliti til Kötlu og raunveruleg og hugsanleg áhrifa þeirra á starfsemi fyrirtækisins skoðuð. 1.3 Fimm krafta líkan Porters Til að skoða betur samkeppnisumhverfið á þessum markaði verður fimm krafta líkani Porters beitt (Sjá mynd 1-3). Það er mat rannsakanda að samkeppnisumhverfið á þessum markaði sé Kötlu Seafood mjög mikilvægt. Þó svo að samkeppni sé hluti af TASK-líkaninu þá telur rannsakandi að fimm krafta líkan Porters greini þann hluta á ítarlegri og veigameiri hátt en TASK-líkanið. Líkani Porters er ætlað að greina þá þætti sem mynda samkeppnisumhverfi fyrirtækja og skoða hversu fýsilegur markaðurinn er fyrir Kötlu. 11

12 Mynd 1-3. Fimm krafta líkan M. Porter Samkvæmt Porter þarf fyrirtæki sem fýsir að ná árangri að skoða og skilja samkeppniskrafta í umhverfi sínu. Með því að skilja samkeppniskraftana og þá þætti sem liggja þeim til grundvallar öðlast fyrirtæki betri skilning á núverandi hagnaðarmöguleikum atvinnugreinarinnar. Einnig mótar líkanið grundvöll til að spá fyrir um áhrif á samkeppni og arðsemi þegar til lengri tíma er litið. Til að ná árangri þurfa fyrirtæki að aðgreina sig á einhvern hátt. Kraftarnir sem Porter setur fram hafa áhrif á samkeppnisstöðu fyrirtækja. Ef þeim tekst að verjast þessum samkeppniskröftum og móta þá eftir þörfum fyrirtækisins getur það haft mikil áhrif á störf fyrirtækja til hins betra (Porter, 1998, 2008). Kraftarnir eru: - Inngönguhindranir. - Samningsstaða birgja. - Samningsstaða kaupenda. 12

13 - Hætta á staðkvæmdarvörum. - Samkeppni innan atvinnugreinarinnar. Eins og í PEST-líkaninu og TASK-umhverfinu verða þessir þættir greindir með tilliti til Kötlu Seafood og áhrif þeirra á starfsemi fyrirtækisins skoðuð. 13

14 2 Kenningar varðandi alþjóðavæðingu fyrirtækja Grunnályktun í fræðum um alþjóðavæðingu fyrirtækja virðist vera að erlendir markaðir séu aðgreind eining frá heimamarkaði þar sem notast þarf við sérstaka stjórnunarhætti, hugsanlega aðra en á heimamarkaði. Til eru margar mismunandi kenningar um hvernig fyrirtæki eigi að bera sig að við alþjóðavæðingu. Hjá sumum fyrirtækjum er um stigvaxandi lærdómsferli að ræða en önnur fyrirtæki líta strax frá stofnun á heiminn sem sitt markaðssvæði. Farið verður yfir nokkrar af helstu kenningum um alþjóðavæðingu og gagnrýni á þeim. 2.1 Uppsalakenningin Ein elsta kenning um alþjóðavæðingu fyrirtækja er Uppsalakenningin. Hún kemur frá sænskum fræðimönnum við Uppsalaháskólann í Svíþjóð. Þeir könnuðu erlenda framleiðslu fyrirtækja og þróuðu þessa kenningu út frá sænskum framleiðslufyrirtækjum er þeir rannsökuðu. Það fyrsta sem þeir ráku augun í var að fyrirtæki virtust hefja starfsemi sína erlendis á nálægum mörkuðum og færa sig einungis smám saman á fjarlægari markaði. Annað sem þeir tóku eftir var að fyrirtæki virtust opna sér leið inn á markaðinn með útflutningi. Mjög sjaldgæft var að fyrirtæki hösluðu sér völl á nýjum markaði með því að opna sölufyrirtæki (sales organizations) eða framleiðsluútibú (manufacturing susidiaries) í eigin eigu. Fyrirtæki að fullu eða að hluta til í eigu móðurfélags var aðeins komið á fót eftir þó nokkur ár af útflutningsstarfsemi til sama markaðar (Johanson og Vahlne, 1977). Johanson og Wiedersheim-Paul (1975) gerðu greinarmun á fjórum stigvaxandi inngönguþrepum á alþjóðlegan markað, þar sem skuldbinding á erlendum markaði eykst með hverju þrepi: - 1. þrep: Fyrirtæki hefur engan reglubundinn útflutning. Yfirleitt fær það vörur öðru hvoru frá öðru fyrirtæki og byrjar að selja óreglubundið á erlendan markað þrep: Fyrirtæki ræðst í útflutning gegnum sjálfstæða söluaðila eða umboðsmenn þrep: Fyrirtæki kemur á fót erlendri söluskrifstofu þrep: Fyrirtæki hefur framleiðslu á erlendum markaði. Sú ályktun að alþjóðavæðing fyrirtækja þróist skref fyrir skref var upphaflega studd af vísbendingum úr raunhæfu verkefni um fjögur sænsk fyrirtæki (Johanson og Wiederheim- Paul, 1975). 14

15 Hugtakið skuldbinding á erlendum markaði er talið fela í sér tvo þætti, annars vegar hversu umfangsmikil aðföng þarf að leggja til og hins vegar í hve miklum mæli fyrirtækið er tilbúið að skuldbinda sig (degree of commitment). Magni aðfanga er hægt að hagræða eftir stærð fjárfestingar á markaði, þ.e. markaðssetningarkostnaði, starfsfólki o.s.frv. Skuldbindingin er þeim mun meiri eftir því sem erfiðara er að finna annars konar not fyrir aðföngin og yfirfæra þau til nýrrar notkunar (Johanson og Vahlne, 1977). Starfsemi á erlendum mörkuðum krefst bæði almennrar þekkingar og sérstakrar þekkingar á viðkomandi markaði (market-specific). Unnt er að flytja almenna þekkingu á starfsemi fyrirtækisins milli landa en sérstök markaðsþekking er talin fást að mestu leyti með því að afla sér reynslu á hverjum markaði fyrir sig (Johanson og Vahlne, 1977). Samkvæmt Uppsalakenningunni eykst markaðsskuldbinding í litlum stigvaxandi skrefum bæði hvað varðar skuldbindingu og fjarlægð. Um er að ræða þrjár undantekningar frá þeirri meginreglu. Í fyrsta lagi hefur aukin skuldbinding í för með sér minni afleiðingar fyrir fyrirtæki sem býr yfir miklum aðföngum. Þar með getur fyrirtækið tekið stærri skref en smærri fyrirtæki. Í öðru lagi er hægt að afla sér viðeigandi upplýsinga á annan hátt en með reynslu þegar markaðsaðstæður eru stöðugar og einsleitar. Í þriðja lagi geta fyrirtæki sem hafa töluverða reynslu af mörkuðum þar sem svipaðar aðstæður ríkja hugsanlega alhæft reynsluna yfir á aðra markaði (Johanson og Vahlne, 1990). Uppsalakenningin hefur hlotið ýmsa gagnrýni t.d. að kenningin byggist á of mikilli löghyggju (determinism) (Reid, 1983; Turnbull, 1987). Rannsóknir hafa leitt í ljós að Uppsalakenningin gildir ekki um þjónustugeirann. Í einni rannsókn var könnuð alþjóðavæðing sænskra tækniráðgjafa og sýndi hún fram á að stigvaxandi aukning á skuldbindingu á erlendum mörkuðum hafi ekki verið til staðar (Sharma og Johanson, 1987). Önnur gagnrýni er að fyrirtæki nú á dögum stökkvi yfir þrep í kenningunni og ráðist ótrauð í störf á fjarlægum mörkuðum frekar en að gera það stigvaxandi. Gott dæmi um þetta er rannsókn Oviatt og McDougall (2005). Hún sýnir hversu algeng ný tegund fyrirtækja er, þ.e.a.s. fyrirtæki sem stökkva yfir hin hefðbundnu þrep og alþjóðavæðast skjótt. 2.2 Sálræn fjarlægð (Psychic distance) Nátengt stigvaxandi líkönum er hugtakið sálræn fjarlægð (Buckley og Casson, 1998) en það hefur verið notað til að útskýra útrás fyrirtækja á erlenda markaði (Johanson og Vahlne, 1990; Shoham og Albaum, 1995). 15

16 Óþekktar áskoranir geta fylgt því að starfa á erlendum mörkuðum, s.s. annað tungumál, mismunur á hegðun og kaupmætti neytenda og ólíkt lagaumhverfi. Því líkari sem viðkomandi markaður er heimamarkaði þeim mun fýsilegri er hann fyrir fyrirtæki (Johanson og Vahlne, 1990). Aðalforsenda sálrænnar fjarlægðar er að fyrirtæki eru ólíklegri til þess að stunda viðskipti við lönd sem eru af ólíkum menningarheimi, með framandi tungumál og annað lagaumhverfi þ.e. með mikla sálræna fjarlægð. Því minni sem hin sálræna fjarlægð er þeim mun meiri hvatning er hins vegar fyrir fyrirtæki að fara inn á viðkomandi markað (Stöttinger og Schlegelmilch, 1998). Hugtakið hefur verið viðtekið í fjölda fræðirita, t.d. eftir Johanson og Vahlne (1990); Klein og Roth, (1990); Shoham og Albaum (1995). Þessir fræðimenn ráðleggja fyrirtækjum að hefja útflutning á markaði sem eru líkir hvað menningu varðar áður en farið er inn á fjarlægari markaði. Einnig álykta þeir að skynsamlegast sé fyrir fyrirtæki að hasla sér fyrst völl á mörkuðum með líka menningu, afla sér þar þekkingar og reynslu og nýta hana síðan á enn fjarlægari mörkuðum (Johanson og Vahlne, 1990). Þó eru ekki allir sammála um gildi hugtaksins sálræn fjarlægð. Í rannsókn Nordström frá 1990 hélt höfundur því fram að virði hugtaksins hafi minnkað á undanförnum árum þar sem markaðir heimsins eru að verða einsleitari (Stöttinger og Schlegelmilch, 1998). Einnig benda niðurstöður úr rannsókn Stöttinger og Schlegelmilch (1998) til þess að mikilvægi kenningarinnar um sálræna fjarlægð hafi minnkað vegna aukinna samskipta milli markaða af völdum alþjóðavæðingar. Rannsakendur vilja þó ekki að hætt verði að styðjast við hugtakið, heldur að það verði lagfært þannig að það eigi betur við markaðinn eins og hann er í dag. 2.3 Viðskiptakostnaðarlíkanið (Transaction cost analysis model) Grundvallarforsenda í viðskiptakostnaðarlíkaninu er að fyrirtæki skuli halda úti starfsemi sem það getur framkvæmt á lægri kostnaði en almennt gerist á markaðinum. Hins vegar ber því að treysta á markaðinn fyrir þá starfsemi sem önnur fyrirtæki hafa forskot í, það er útvista þætti sem önnur fyrirtæki geta sinnt á hagstæðari hátt. Fyrirtæki innleiða því starfsemi til þess að minnka viðskiptakostnaðinn (Klein, Frazier og Roth, 1990; Rindfleisch og Heide, 1997). Grunnurinn að þessari kenningu var lagður af Nóbelsverðlaunahafanum Ronald Coase (1937). Coase fékk verðlaunin fyrir greiningu sína á áhrifum viðskiptakostnaðar og eignarréttar á hagkerfi og stofnanir þess (Gylfi Magnússon, 2005). Kenning hans er að í frjálsum fjármagnsviðskiptum leiti markaðurinn jafnan að hagkvæmustu samsetningu 16

17 fjármagnsins. Fyrirtækjum er skipt upp eða þau sameinuð eftir því sem hagkvæmast þykir. Með því er viðskiptakostnaður lækkaður. Hvort á t.d. að reka útgáfufyrirtæki og prentsmiðju hvort í sínu lagi eða saman? Hann áætlar að undir ákveðnum aðstæðum geti kostnaðurinn við að eiga hagræn skipti (economic exchange) á markaði verið meiri en kostnaðurinn við að sjá um skiptin innan fyrirtækisins (organizing the exchange) (Coase, 1937). Williamson jók töluvert á nákvæmni í röksemdum Coase (1937) með því að benda á tegundir skiptanna (types of exchange) sem betra væri að framkvæma innan fyrirtækis en á markaði. Hann bætti einnig við upprunalegu kenninguna með því að benda á að viðskiptakostnaður fæli í sér bæði beinan kostnað við að stjórna samböndum (manage relationships) og hugsanlega tilfallandi fórnarkostnað (opportunity cost) við að taka rangar ákvarðanir. Greiningarrammi (Microanalytic framework) Williamsson byggir á samspili milli tveggja höfuðályktana um mannlega hegðun, þ.e. um takmarkaða skynsemi (bounded rationality) og tækifærissinnaða hugsun, og tveggja mikilvægra vídda (dimensions) af viðskiptum, þ.e. sérhæfni eigna (asset specificity) og óvissu (Rindfleisch og Heide, 1997). Viðskiptakostnaður verður til þegar ágreiningur er milli kaupanda og seljanda. Hægt er að útskýra þennan ágreining með tækifærissinnaðri hegðun sem á rætur sínar að rekja til þess að einstaklingurinn hugsar um eigin hagsmuni. Í þessu felast aðferðir til þess að blekkja sem gefa klókustu aðilunum hugsanlega betri stöðu þegar kemur að vöruskiptum (Klein, Frazier og Roth, 1990). Samkvæmt viðskiptakostnaðarkenningunni útskýrir lágmörkun kostnaðar uppbyggingarákvarðanir fyrirtækja. Fyrirtæki innleiðir (internalise) ákveðna starfsemi aðeins ef hún minnkar viðskiptakostnað þess (Rindfleisch og Heide, 1997; Klein, Frazier og Roth, 1990). Skipta má viðskiptakostnaði tengdum viðskiptasambandi milli kaupanda og seljanda í fyrirframkostnað (ex ante) og eftirákostnað (ex post) (Hollensen, 2007). Ex ante kostnaður skiptist í leitarkostnað og samningsgerðarkostnað (contracting cost). Leitarkostnaður er kostnaður við að safna upplýsingum til þess að meta hugsanlega milligönguliði við útflutning. Þótt slíkur kostnaður geti verið frágangssök (prohibitive) fyrir mörg fyrirtæki er þekking á erlendum mörkuðum lykilatriði ætli fyrirtæki að njóta velgengni í útflutningi. Samningsgerðarkostnaður er allur kostnaður tengdur samningaviðræðum og gerð samnings milli kaupanda og seljanda (Hollensen, 2007). 17

18 Ex post kostnaður skiptist í eftirlitskostnað og fullnustukostnað (enforcement cost). Eftirlitskostnaður er allur sá kostnaður sem tengist eftirliti með að seljandi og kaupandi uppfylli þær skyldur er samningurinn kveður á um. Fullnustukostnaður er allur kostnaður sem tengist refsiaðgerðum standi annar aðilinn ekki við gerða samninga (Hollensen, 2007). Goshal og Moran (1996) hafa gagnrýnt upprunalegt verk Williamson þar sem hugmyndir um mannlegt eðli eru takmarkaðar (eins og tækifærisstefna og þröng túlkun á efnahagslegum markmiðum). Þeir velta einnig fyrir sér hvers vegna þróun á kenningunni hafi í megindráttum reynst ónæm fyrir eins mikilvægu framlagi og kom frá Ouchi (1980) varðandi innsýn í félagslega stjórnun. Ouchi (1980) bendir á mikilvægi millistigsmótunar (milli markaðasafla og stigveldis (hierarchy) eins og ættbálks (clan) þar sem stjórnun byggist á ávinningi fyrir alla. 2.4 Tengslanetslíkanið (The Network Model) Grundvallarályktun í tengslanetslíkaninu er að fyrirtæki sé háð aðföngum sem stjórnast af öðrum fyrirtækjum. Fyrirtæki fá aðgang að þessum aðföngum í gegnum stöðu sína í tengslanetinu. Þar sem þróun á stöðu fyrirtækis tekur tíma og er háð þeim aðföngum sem það hefur yfir að ráða verður fyrirtækið að treysta á gagnaðila í erlendu tengslaneti. Samkvæmt tengslanetslíkaninu hefst alþjóðavæðing fyrirtækja í innlendu tengslaneti sem teygir sig síðan gjarnan yfir í önnur lönd og stundum aðrar heimsálfur. Nota má sambönd fyrirtækja í innlendu tengslaneti sem brýr yfir á erlenda markaði og í erlend tengslanet (Madsen og Servais, 1997). Í stað þess að líta á alþjóðavæðingu sem ferli milli fyrirtækja og markaða lögðu Johanson og Mattson í rannsókn sinni árið 1988 áherslu á samband milli sjálfstæðra fyrirtækja sem mynduðu tengslanet. Sökum þess að fyrirtæki skipta óformlega á milli sín vinnu verður hvert fyrirtæki háð (become dependent) utanaðkomandi aðföngum í hlutfalli við þau skiptisambönd (exchange relationship) sem það myndar við önnur fyrirtæki í tengslanetinu. Tíma tekur að byggja upp og þróa slík sambönd, sérstaklega þegar um langtímasambönd er að ræða (Chetty og Blankenburg-Holm, 2000). Í viðskiptatengslaneti tengjast fyrirtæki hvort öðru á sveigjanlegan hátt sem gæti hugsanlega breyst sökum breytilegs umhverfis. Límið í þessum samböndum byggist á tæknilegum, efnahagslegum, lagalegum og einkum persónulegum böndum (Hollensen, 2007). 18

19 Johanson og Mattson skiptu staðsetningu fyrirtækja í alþjóðarvæðingarferlinu í fjóra flokka: Fyrsti flokkurinn er kallaður The Early Starter en það eru fyrirtæki með lítil alþjóðleg sambönd. Stöðu samkeppnisaðila þeirra og birgja er eins háttað. Þar af leiðandi hafa fyrirtæki sem þannig er ástatt um litla þekkingu á erlendum mörkuðum og fá tækifæri til að bæta þar úr skák. Til þess að afla sér þekkingar hagnýta slík fyrirtæki sér sölufulltrúa eða umboðsaðila til að komast á erlendan markað. Fyrirtækin nýta þannig þekkingu umboðsaðilans á markaðnum til þess að draga úr kostnaði og óvissu. Fyrirtæki af þessum toga gætu fengið hvatningu til að alþjóðavæðast frá dreifingaraðilum eða viðskiptavinum á erlendum markaði (Chetty og Blakenburg-Holm, 2000). Annar flokkurinn er kallaður The Lonely International. Þetta eru fyrirtæki sem eru mjög alþjóðavædd, en beina þó fyrst og fremst sjónum að heimamarkaði. Í raun má segja að slík fyrirtæki hafi getuna til að efla alþjóðavæðingu markaðarins. Þar sem þau hafa aflað sér þekkingar og reynslu af erlendum mörkuðum eru þau í góðri stöðu til að ná árangri. The Lonely International fyrirtæki hefur forskot á innlenda samkeppnisaðila þar sem það hefur nú þegar markað sér sess í tengslanetinu (Chetty og Blakenburg-Holm, 2000). Þriðji flokkurinn er kallaður The Late Starter. Þetta eru fyrirtæki í markaðsumhverfi sem er nú þegar alþjóðavætt. Þar af leiðandi hefur fyrirtækið óbeint samband við erlend tengslanet í gegnum birgja, viðskiptavini og samkeppnisaðila. Slík sambönd knýja fyrirtæki til alþjóðavæðingar. Vegna þeirrar alþjóðavæðingar sem fyrir er gæti verið erfitt að hasla sér völl á mörkuðum sem hafa litla sálræna fjarlægð og því gæti fyrirtækið hugsanlega kosið að hefja markaðsvinninga á fjarlægari markaði. Late Starter fyrirtæki búa við óhagstæð skilyrði þar sem samkeppnisaðilar þeirra hafa viðað að sér meiri þekkingu og erfitt er fyrir nýliða á markaði að fá inngöngu í núverandi tengslanet (Chetty og Blakenburg-Holm, 2000). Fjórði flokkurinn er kallaður The International Among Others. Þetta eru mjög alþjóðavædd fyrirtæki sem starfa í umhverfi sem einnig er mjög alþjóðavætt. Sökum þess að slík fyrirtæki búa yfir alþjóðlegri þekkingu eru þau fljót að koma á fót erlendu dótturfyrirtæki þar sem þau þurfa að öllu jöfnu að samræma aðgerðir á mismunandi mörkuðum. Fyrirtækin hafa tengsl við margs konar tengslanet sem bjóða upp á tækifæri til að öðlast utanaðkomandi aðföng (external resources) (Chetty og Blakenburg-Holm, 2000). 19

20 Í rannsókn Chetty og Blakenburg-Holm (2000) benda rannsakendur á sjö veikleika á líkani Johanson og Mattsson frá Sá fyrsti er að mælikvarðinn til að greina á milli flokka er ekki auðkennandi og því skarast flokkarnir. Sum viðmiðanna sem notuð eru fyrir Early Starter fyrirtæki gætu einnig átt við um International Among Others fyrirtæki. Annar veikleiki er að líkanið tekur ekki mið af hinu stóra hlutverki þess sem tekur ákvörðun og einkenni fyrirtækisins gegna, í því að nýta sér tækifærin til að komast inn á markaðinn (penetration), stækka fyrirtækið (extension) og ná þeirri samþættingu sem gott tengslanet gefur kost á. Þriðji veikleiki er að líkanið fjallar ekki um leiðir fyrirtækja til að yfirstíga vandamál við alþjóðavæðingu með hjálp tengslanets. Tengslanet gæti haft ráðandi áhrif á hvaða markaði fyrirtæki hefur inngöngu á og þar með ákvarðað hvernig það alþjóðavæðist. Fjórði veikleiki er að líkanið undanskilur áhrif ákveðinna ytri þátta sem geta knúið fyrirtæki til alþjóðavæðingar, t.d. mikil samkeppni á heimamarkaði og efnahagsstefna stjórnvalda. Fimmti veikleiki er að líkanið greinir ekki frá hvernig fyrirtæki fara á milli flokka. Hvert er ferlið þegar fyrirtæki færast frá einum stað líkansins yfir á annan, hvernig verður t.d. Early Starter fyrirtæki að International Among Others fyrirtæki. Sjötti veikleiki er að líkanið fjallar einungis um sambönd sem þróast lífrænt (organically). Sjöundi og síðasti veikleikinn er að það eru aðrar stærðir (dimensions) sem hvetja fyrirtæki til að alþjóðavæðast en einungis framleiðslunetið (production net) eins og Johanson og Mattson leggja áherslu á í rannsókn sinni. Má þar nefna viðskiptavini og ríkisstjórn. Dæmi eru t.d. um að ríkisstjórnir blási til verkefna sem hvetja fyrirtæki til útflutnings jafnvel þótt umrædd fyrirtæki tilheyri ekki grein sem er mjög alþjóðavædd. 2.5 Born Global fyrirtæki Undanfarin ár hafa rannsóknir greint aukinn fjölda fyrirtækja sem fylgja ekki hinu hefðbundna stigvaxandi mynstri í alþjóðavæðingarferlinu. Þvert á móti virðast þau setja stefnuna á erlenda markaði burtséð frá því hversu fjarlægir þeir eru (Brennie 1993; Moen og Servais, 2002). Þessi fyrirtæki hafa gengist undir mismunandi nöfnum, en svo virðist sem nafnið Born Global sé yfirleitt notað í viðskiptaheiminum. Með þessu er átt við fyrirtæki sem hafa nánast frá stofnun það markmið að starfa á alþjóðlegum markaði. Útþensla þeirra gengur yfirleitt fljótt fyrir sig, án þess að safnað sé reynslu á innlendum og erlendum mörkuðum (Oviatt og McDougall, 1994). Í þessu sambandi má nefna rannsókn Brennie (1993) þar sem rannsakandi bendir á þó nokkra stjórnendur fyrirtækja sem líta á heiminn sem sinn markað og hafa gert frá stofnun fyrirtækisins. Margar aðrar rannsóknir gefa vísbendingar um svipaðar niðurstöður og véfengja þannig hinar hefðbundnu stigvaxandi kenningar (Moen 20

21 og Servais, 2002; Oviatt og McDougall, 1994). Fyrir hendi eru einnig rannsóknir frá síðari hluta 8. áratugarins þar sem lýst er alþjóðavæðingarferli fyrirtækja sem svipar til Born Global fyrirtækja svo þetta er ekki alveg nýtt af nálinni (Moen og Servais, 2002). Í rannsókn Bell (1995) voru lítil hugbúnaðarfyrirtæki rannsökuð og niðurstöður bentu til þess að þau fylgdu ekki hinum almennu kenningum um stigvaxandi alþjóðavæðingu fyrirtækja. Niðurstöður voru að alþjóðavæðingarferlið hjá þessum fyrirtækjum væri háð innlendri og erlendri eftirspurn (patronage), sókn fyrirtækjanna á afmarkaða markaðsyllu (niche markets) og áherslu þeirra á stöðu greinarinnar í landinu fremur en sálræna fjarlægð markaða. Einnig gáfu niðurstöður Bell (1995) til kynna að ekki sé algilt að fyrirtæki nái fótfestu á heimamarkaði áður en haldið er á erlenda markaði. Samkvæmt niðurstöðum hans gæti þetta byggst á fyrri reynslu frumkvöðla eða tilhneigingu fyrirtækja til að hefja útflutning áður en birgjar eru fundnir. Oviatt og McDougall (1994) skilgreina Born Global fyrirtæki sem viðskiptafélag (business organisation) sem sækist frá stofnun eftir verulegu forskoti með notkun aðfanga frá mismunandi löndum og sölu á þeim víðs vegar um heim. Þetta er í samræmi við skilgreiningu Knight (1997) sem sagði þessi fyrirtæki sækjast alveg frá upphafi eftir að byggja stóran hluta af hagnaði sínum á vörusölu á erlenda markaði. Born Global fyrirtæki eru yfirleitt skilgreind sem smá eða miðlungsstór fyrirtæki með minna en 500 starfsmenn og árlegar sölutölur undir 100 milljónum USD. Þau er talin einkennast af hátækni og þróun á vörum sem skara fram úr í samanburði á markaði eða markast af nýjungum í aðferðafræði. Það sem aðgreinir Born Global fyrirtæki jafnframt frá öðrum er að þeim er gjarnan stjórnað af frumkvöðlum sem eru hugsjónamenn og líta á heiminn sem einn stóran markað án allra landamæra (Hollensen, 2007). 21

22 3 Inngönguaðferðir á erlendan markað Síðastliðna tvo áratugi hefur heimurinn alþjóðavæðst hratt. Þetta hefur orðið til þess að æ fleiri fyrirtæki móta sér stefnu til markaðsvinninga erlendis. Upprennandi markaðir Asíu og Suður-Ameríku og stöðugir markaðir Bandaríkjanna, Evrópu og Japan laða nú að sér stór og smá fyrirtæki víðs vegar að úr heiminum. Ef fyrirtæki einsetur sér að sækja inn á ákveðinn markað eða stækka við sig, verður það að ákvarða uppbyggingu starfsemi sinnar í viðkomandi landi (Osland, Taylor og Zou, 2001). Inngönguaðferðir geta verið breytilegar út frá þremur mismunandi sjónarmiðum (Chen, 2007): - Kostnaði vegna aðfanga sem eyrnamerkja þarf til verkefnisins. - Stjórn fyrirtækisins, sem veltur á eignarhaldi þess. - Áhættu tengdri fjárfestingu í eignum og margbreytileika umhverfisins sem farið er inn í. Í rannsókn Buckley og Casson (1998) er gert ráð fyrir að innganga fyrirtækis á erlendan markað krefjist ákveðins viðbótarkostnaðar. Nefndar eru þrjár kostnaðartegundir: 1. Kostnaður sem fyrirtæki þurfa að greiða fyrir markaðsþekkingu. 2. Aðlögunarkostnaður við að laga vöruna að kröfum neytenda. 3. Kostnaður við að byggja upp traust á nýfenginni framleiðslu- eða dreifingaraðstöðu á erlendum markaði. Einnig er viðbótarkostnaður sem fylgir framleiðslu í heimalandi fyrirtækisins, þ.e.a.s. ef fyrirtækið kýs að framleiða í sínu heimalandi og flytja vörurnar á erlendan markað. Í kostnaðinum felst meðal annars viðskiptakostnaður og skattar (Buckley og Casson, 1998). Rannsókn Görg (2000) bendir til þess að val á inngönguaðferð á erlendan markað velti á uppbyggingu markaðar í viðkomandi landi fyrir og eftir inngöngu fyrirtækisins og mismun á tækni fyrirtækja sem fyrir eru á markaði og þess sem kemur inn á markaðinn. Auk þess skiptir viðbótarkostnaður sem fyrirtækið verður fyrir á nýjum markaði máli (Görg, 2000). 22

23 Að velja inngöngu- eða útþensluaðferð á erlendan markað er ein af mikilvægustu ákvörðunum sem alþjóðlegt fyrirtæki þarf að taka. Vel valin aðferð getur skapað samkeppnisforskot fyrir fyrirtækið. Hins vegar getur slæmur valkostur leitt til þess að fyrirtækið detti aftur úr samkeppnisaðilum sínum eða þurfi hreinlega að fara af viðkomandi markaði (Osland, Taylor og Zou, 2001). Farið verður yfir helstu aðferðir sem fyrirtæki nota við inngöngu á erlendan markað og helstu ógnir sem þessi fyrirtæki þurfa að kljást við. 3.1 Samningsbundin framleiðsla (Contract Manufacturing) Talað er um samningsbundna framleiðslu þegar framleiðsla fer fram erlendis en rannsókn og þróun, sala og markaðsstarfsemi fer fram í heimalandinu. Erlendur aðili á vegum fyrirtækisins sérhæfir sig þá í framleiðslu og framleiðslutækni. Þetta gerir fyrirtækinu kleift að ráðast í erlenda framleiðslu án þess að skuldbinda sig endanlega. Stjórn fyrirtækisins gæti hugsanlega ekki átt nægileg aðföng eða verið ófús til að fjárfesta hlutafé í fullbúinni framleiðslu- og sölustarfsemi. Eigi að síður heldur samningsbundin framleiðsla þeim valmöguleika opnum að innleiða (implement) þróunarstefnu fyrir erlenda markaði til lengri tíma, þegar fyrirtækið telur það hentugast. Þessi leið kemur til álita fyrir fyrirtæki með takmörkuð aðföng (Chan og Chung, 2002). Helsti kosturinn við þessa aðferð er að hún býður upp á töluverðan sveigjanleika. Sé fyrirtækið á einhvern hátt óánægt með framleiðsluaðila, t.d. varðandi vörugæði, getur það einfaldlega skipt um hann. Þó veltur það á gildistíma samnings milli aðilanna tveggja. Einnig minnkar kostnaður fyrirtækisins ætli það af markaði þar sem það hefur ekkert fjárfest í framleiðsluaðstöðu í viðkomandi landi (Chan og Chung, 2002; Plambeck og Taylor, 2005). Helstu gallarnir við þessa aðferð eru að erfiðara er fyrir fyrirtæki að hafa stjórn á vörugæðum (Royal, 1999). Einnig takmarkar samningsbundin framleiðsla stjórn fyrirtækja á vöruþróun og gerir því ókleift að þróa vörumarkaði (product markets) eftir sinni getu (Plambeck og Taylor, 2005). 3.2 Leyfisveiting (Licensing) Leyfisveiting felst í grundvallaratriðum í því að aðili sem er leyfisveitandi (licensor) lætur eitthvað sem er einhvers virði af hendi til leyfishafa í skiptum fyrir ákveðna frammistöðu (performance) og greiðslu frá leyfishafanum. Kveðið er á um greiðslur og frammistöðu leyfishafa ásamt notkun á leyfinu í samningi sem gerður er milli hans og leyfisveitanda (Mottner og Johnson, 2000). 23

24 Í víðum skilningi á hugtakinu er talað um flutning á einkaleyfisupplýsingum og vörumerkjum, upplýsingum og kunnáttu, með ítarlegri útlistun, skjölum, tölvuforritum o.s.frv. sem fyrirtækið hefur einkaleyfi á. Einnig miðlar leyfisveitandi upplýsingum sem þörf er á til að selja viðkomandi vöru eða þjónustu með tilliti til markaðarins sem varan flyst til (Capon og Glazer, 1987; Kotabe, Sahay og Aulakh, 1996). Alþjóðleg leyfisveiting (international licensing) býður upp á tækifæri á alþjóðlegum markaði fyrir fyrirtæki sem eru ófús eða hreinlega ófær um að færa framleiðslu eða sölu á erlendan markað. Alþjóðleg leyfisveiting gefur fyrirtækinu kost á að hagnast með því að notfæra sér erlenda markaði án þess þó að þurfa að taka þá áhættu sem fylgir erlendri fjárfestingu. Þar af leiðandi er alþjóðleg leyfisveiting álitlegur kostur fyrir fyrirtæki sem vilja hasla sér völl á upprennandi (emerging) markaði þar sem almennt talið er að áhætta sé meiri en gengur og gerist (Mottner og Johnson, 2000). Þrátt fyrir að umræðan varðandi leyfisveitingar sé ennþá byggð á framleiðslutækni þá hefur tæknin í eðli sínu breyst, sérstaklega ef litið er til þeirra framfara sem hafa orðið í upplýsingatækni. Þar af leiðandi hefur umræða um alþjóðaleyfisveitingar í sífellt ríkari mæli snúist um hugverkaréttindi (intellectual property rights). Hugverkaréttindi eru mikið áhyggjuefni fyrir leyfisveitendur. Ekki er lengur einungis um að ræða hefðbundna leyfisveitingu á borð við not á vörumerki. Aðgengi að efni sem varið er höfundarétti hefur aukist mikið, til dæmis vegna sívaxandi tölvutækni. Samkvæmt Glazer (1991) veita fyrirtæki nú leyfi til að nota eigur sem eru í formi upplýsinga, hugmynda eða þekkingar sem öðlast þannig einkenni verslunarvöru (commodity). Leyfisveitingar hugverkaréttinda geta snúist um rannsóknar- og þróunarhugmyndir, uppfinningar, formúlur, tæknilega kunnáttu (techological know-how), þjónustu, vörumerki, list, tónlist og hönnun (Mottner og Johnson, 2000). Samkvæmt Kotabe o.fl. (1996) er unnt að líta á leyfisveitingu sem tæki til að komast inn á núverandi markaði. Einnig geta fyrirtæki notað leyfisveitingu til þess að komast inn á upprennandi markaði og ná þannig að vera fyrst á markað og skapa sér ákveðið forskot. Warner Music International gerði t.d. samkomulag um leyfisveitingu við fyrirtæki í Rúmeníu, Serbíu, Slóveníu og í öðrum Austur-Evrópulöndum í samræmi við stefnu sem kveðið var á um í markaðsáætlun fyrirtækisins árið 1997 (Mottner og Johnson, 2000). Þau fyrirtæki sem hasla sér fyrst völl á tilteknum markaði geta oft staðið sig betur á honum en ella (Luo og Peng, 1998). Í rannsókn Mottner og Johnson (2000) voru greindar sjö tegundir af áhættu sem fylgja leyfisveitingu: 24

25 1. Óhagstætt val: Fyrirtæki velja oft óhagstæðan kost sem eykur heildarkostnað þeirra þegar upp er staðið, svo sem við val á leyfishafa. 2. Hentistefna: Leyfishafar eigna sér stundum tæknina með óréttmætum hætti og nota hana sem sína eigin. 3. Gæðaáhætta: Gæði framleiðslu eða dreifingar nær oft ekki þeim staðli sem leyfisveitandi telur ásættanlegan. 4. Framleiðsluáhætta: Sú áhætta felst í því að leyfishafinn ljúki ekki framleiðslu á tilsettum tíma eða framleiði annað hvort of lítið eða of mikið magn. 5. Greiðsluáhætta: Svo kann að fara að leyfishafi greiði ekki leyfisveitanda, greiði honum of seint eða tilkynni ekki allar tekjurnar sem hann aflar. 6. Hætta á vanefndum á samningi: Leyfisveitanda getur stundum reynst erfitt að framfylgja samningum sem gerðir eru við leyfishafa. Sumir leyfisveitendur hafa t.d. ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að standa í erfiðum málaferlum og á sumum upprennandi mörkuðum er lagaumhverfinu ábótavant og því erfitt að standa í málaferlum. 7. Ónóg stjórn á markaðssetningu: Sú áhætta felst í því að óvíst er að leyfishafi sé nægilega skilvirkur í markaðssetningu á vörunni. Motter og Johnson (2000) kynntu sex leiðir sem leyfisveitendur geta notað til að takmarka áhættu: að gera nákvæmar áætlanir, vanda val á leyfishöfum, tryggja sér rétt til skaðabóta, fylgjast vel með leyfishafa og viðhalda við þá stöðugu sambandi, hafa samning við leyfishafa eins nákvæman og ítarlegan og nokkur kostur er og kveða skýrt á um nýtingu leyfisins (Organization of the Licensing Function) (Mottner og Johnson, 2000). 3.3 Veiting sérleyfa (franchising) Veiting sérleyfa (franchising) felst í því að fyrirtæki veitir öðrum aðila eða fyrirtæki sérleyfi á starfsemi sinni gegn greiðslu. Sérleyfið felur í sér að fyrirtæki fær að starfa með sama hætti og um sérleyfisveitanda sjálfan sé að ræða og nota í því sambandi m.a. nafn fyrirtækisins, starfsaðferðir og hagnýta sér þjálfun og stuðning. Þetta gerir sérleyfishöfum kleift að starfrækja sín eigin fyrirtæki með sama sniði og sömu gæðum og aðrar einingar innan sérleyfiskeðjunnar (Quinn og Alexander, 2002). Bæði fyrirtækið sem veitir sérleyfið og aðilinn sem þiggur það hafa skyldum að gegna svo samstarfið beri árangur. Sérleyfisveitandinn hefur samningsbundna skyldu til að 25

26 varðveita ímynd vörumerkisins, viðhalda stöðugri markaðssetningu og sýna stöðugleika í stjórn á öðrum sérleyfishöfum fyrirtækisins. Sérleyfishafa ber hins vegar að greiða umsamda upphæð til þess að öðlast sérleyfið. Einnig er gert ráð fyrir að hann fylgi í einu og öllu þeim stöðlum fyrirtækisins sem kveðið er á um í samningnum (Quinn og Alexander, 2002). Ávinningurinn er augljós fyrir báða aðila. Sérleyfisveitandi getur með þessu móti stækkað fyrirtækið á skjótan hátt. Jafnframt dreifir hann kostnaði og áhættu sem fylgir markaðsvinningum á fleiri aðila. Hagur sérleyfishafans er fyrst og fremst fólginn í því að mega nota nafn fyrirtækis og tileinka sér starfshætti sem þegar hafa skilað góðum árangri (Quinn og Alexander, 2002). Rannsóknir hafa gefið til kynna að fyrirtæki sem hagnýta sér sérleyfi til að hasla sér völl á erlendum markaði hefja yfirleitt starfsemi sína á nærliggjandi mörkuðum. Kanadísk fyrirtæki eru t.d. líkleg til þess að sækja fyrst inn á Bandaríkjamarkað. Rannsóknir sýna að það sama á við í Evrópu og Asíu (Quinn og Alexander, 2002). Einnig hafa fundist vísbendingar um að fyrirtæki veiti ógjarnan sérleyfi á erlendum markaði fyrr en þau hafa náð ákveðinni stærð og styrk í heimalandinu (Welch, 1990). Í grein McIntyre og Huszag (1995) aðlaga höfundar líkan Cavusgil og Nevin frá 1980 og útlista ferli sérleyfa í alþjóðavæðingu. Höfundarnir skipta ferlinu í fjögur þrep: sérleyfi innanlands, tilraunaþátttaka á erlendum mörkuðum, virk þátttaka og skuldbundin þátttaka. Í líkani McIntyre og Huszag (1995) er talið að alþjóðavæðing sérleyfa fylgi ákveðnu mynstri sem felst í því að fyrirtæki byggja fyrst upp starfsemi í heimalandinu en færa sig svo í tilraunaskyni inn á nærliggjandi markaði. Því næst tekur fyrirtækið að nýta sér þau tækifæri sem fyrir hendi eru á alþjóðlegum mörkuðum á kerfisbundinn hátt. Lokaþrepið einkennist af langtímaskuldbindingu á alþjóðlegum mörkuðum og leitar þá fyrirtækið tækifæra um allan heim. Hvert þrep fyrir sig getur tekið mislangan tíma hjá fyrirtækjum. Þessi hugmyndafræði um alþjóðarvæðingarferli sérleyfa, sem byggist á því að fyrirtæki styrki fyrst stöðu sína á heimamarkaði og hefji síðan markaðssókn erlendis, er í samræmi við rannsóknir Welch (1989, 1990) um ferli fyrirtækja við alþjóðavæðingu sérleyfa. 3.4 Samstarf fyrirtækja (Joint venture) Samstarf fyrirtækja getur byggst á samstarfi tveggja eða fleiri aðila. Grundvallarforsenda er að fyrirtæki sameini hluta af aðföngum sínum. Aðföngin felast í þekkingu hvers fyrirtækis til þess að skapa sjálfstæða rekstrareiningu (Golesorkhi, 2002). 26

27 Fjölmargar ástæður geta verið fyrir samstarfinu. Fyrirtæki getur kosið þessa leið til þess að styrkja sig með því að öðlast hlutdeild í tækni eða stjórnunarhæfileikum sem aðrir aðilar í samstarfinu búa yfir. Með því kann að vera unnt að opna nýjar dyr á því sviði sem fyrirtækið starfar nú þegar. Samstarfsaðilar gætu jafnframt flýtt fyrir inngöngu á tiltekinn markað. Enn ein ástæðan er sú að í vanþróaðri ríkjum, á borð við Kína eða Suður-Kóreu, reynir ríkisstjórnin gjarnan að takmarka eignarhald erlendra fjárfesta. Því getur samstarf við innlenda aðila á þessum mörkuðum verið leið til að komast inn á markaðinn. Loks geta fyrirtæki stofnað samstarfsfyrirtæki til þess að dreifa kostnaði af alþjóðlegri rannsóknar- og þróunarstarfsemi sem getur verið óhóflega dýr en samt sem áður nauðsynleg til þess að öðlast samkeppnisforskot á mörkuðum. Með því að stofna til samstarfs er unnt að minnka fjárhagslega byrði hvers fyrirtækis hvað það varðar (Hollensen, 2007). Til er tvenns konar samstarf fyrirtækja. Annars vegar er um að ræða samningsbundið samstarf milli fyrirtækja sem byggist á því að deila fjárfestingakostnaði, áhættu og gróða til lengri tíma litið. Hins vegar eru sameignarhlutafélög (equity joint venture) sem fela í sér stofnun nýs fyrirtækis þar sem fjárfestar deila eignarhaldi og stjórnun (Borys og Jemison, 1989). Lagalega séð eru þetta sjálfstæð fyrirtæki þannig að stjórnendur þeirra geta t.d. skuldbundið þau með undirskrift sinni. Einnig eru sameignarhlutafélög sérstök að því er varðar uppbyggingu, reglur, verklag, stjórn og starfsmenn. Í raun geta þessi fyrirtæki starfað í eigin þágu, sjálfstætt og hugsanlega í blóra við hugmyndir móðurfélaganna (Golesorkhi, 2002). Sameignarhlutafélög hafa tvö grunneinkenni: - Þau fela í sér tvö eða fleiri sjálfstæð fyrirtæki sem búa til sameiginlega einingu. Móðurfélögin taka virkan þátt í stjórnun þessarar sameiginlegu einingar. - Móðurfélögin deila hlutafjáreign (equity participation), áhættu og ávöxtun. Kostur sameignarhlutafélaga er að kostnaður við eftirlit minnkar töluvert þar sem það er móðurfélögunum í hag ef sameiginleg eining þeirra stendur sig vel. Með þessu móti komast móðurfélögin hjá því að vera stöðugt á varðbergi gagnvart frammistöðu hinna aðilanna. Samningsbundið samstarf er í eðli sínu ólíkt sameignarhlutafélögum. Það er hlutafjáreign sem tryggir góða frammistöðu hjá sameignarhlutafélögum. Samningsbundið samstarfs felur ekki í sér viðlíka tryggingar frá samstarfsaðilanum (Golesorkhi, 2002). Samkvæmt rannsóknum Hollensen (2007) má að samstarf fyrirtækja eigi sér þrjú grundvallarmarkmið: 27

28 1. Að hefja markaðssókn erlendis. Mörg fyrirtæki gera sér grein fyrir að þau skorti kunnáttu til að hasla sér völl á nýjum markaði. Í stað þess að reyna að þróa og öðlast þá þekkingu innan fyrirtækisins leita þau að öðrum fyrirtækjum sem búa yfir þeirri kunnáttu sem þarf á viðkomandi markaði. Með því móti geta fyrirtæki fært sér í nyt vöruþróun eins fyrirtækis og markaðskunnáttu annars. Útkoman úr þessari samvinnu getur þjónað þörfum markaðarins á skjótan og áhrifaríkan hátt. Samstarf getur verið sérstaklega gagnlegt þegar fyrirtæki fara inn á erlendan markað í fyrsta skipti. Það er sökum hins mikla menningarmunar sem getur verið á milli landanna tveggja. 2. Að draga úr framleiðslukostnaði. Samstarf fyrirtækja getur skapað grundvöll til að samnýta fjármagn eða framleiðsluaðstöðu til að ná fram stærðarhagkvæmni eða nýta betur framleiðsluaðstöðuna sé hún ekki fullnýtt. 3. Að þróa og dreifa tækni. Með samstarfi fyrirtækja má samnýta tæknikunnáttu til að þróa vörur sem þeim væri um megn ef þau störfuðu sjálfstætt. Með samstarfi fyrirtækja er loks unnt að flýta fyrir vörukynningu og yfirstíga fljótt og vel þær hindranir sem orðið geta á vegi fyrirtækja. Samkvæmt Newburry og Zeira (1997) er mikilvægasta forsenda þess að samstarf fyrirtækja sé farsælt að fullt traust ríki milli þeirra. Áður en gengið er til samstarfs er lykilatriði að ganga úr skugga um að allir aðilar séu sáttir við hlutafjárskipan (equity arrangements), að öll markmið séu samrýmanleg og að farið sé ítarlega yfir skyldur hvers aðila. Eftir stofnun sameignarhlutafélags er mikilvægt að viðhalda því trausti sem fyrir hendi var. Einnig er mikilvægt að fylgjast vel með græsku (hidden agenda) hinna aðilanna og að fela stjórnendum sameignarhlutafélagsins sjálfsstjórn yfir einingunni (Newburry og Zeira, 1997). Þó svo að sameignarhlutafélagi sé slitið þýðir það ekki að markmið þess hafi ekki náðst. Ástæðan fyrir því gæti einfaldlega verið að fyrirtækið hafi náð öllum þeim markmiðum sem stjórn þess hafði sett því (Buckley og Casson, 1998). 3.5 Yfirtaka (Acquisition) Yfirtaki fyrirtæki annað fyrirtæki á erlendum markaði getur það flýtt fyrir inngöngu á markaðinn. Einnig getur slík aðgerð veitt aðgang að dreifikerfi, núverandi neytendahópi og í sumum tilfellum virtu vörumerki og orðspori yfirtekna fyrirtækisins. Í sumum tilvikum heldur núverandi stjórn yfirtekna fyrirtækisins velli þrátt fyrir yfirtöku. Það skapar tengingu inn á markaðinn og gerir fyrirtækinu kleift að öðlast viðskiptareynslu í markaðsumhverfi 28

29 viðkomandi lands. Þetta gæti gagnast fyrirtæki með takmarkaða reynslu af erlendum mörkuðum (Harzing, 1998). Á mettuðum mörkuðum er samkeppnin mikil og töluverðar inngönguhindranir fyrir hendi. Þar af leiðandi er lítið rými fyrir nýjan aðila á markaði. Við slíkar aðstæður gæti yfirtaka verið vænsti kosturinn til að skapa sér grunnstöðu á markaðnum. Áður en fyrirtæki er yfirtekið er mikilvægt að rannsaka fyrirtækjamenningu þess og menningu landsins þar sem það er staðsett. Einnig er mikilvægt að tryggja að fjárhagslegt bolmagn sé fyrir hendi til að þola þá áhættu sem fylgir yfirtöku. Nauðsynlegt er að yfirtökufyrirtækið sé snarpt og dult (secretive) í samningaviðræðum. Eftir að yfirtakan er afstaðin þarf að huga að nokkrum lykilatriðum. Samlaga þarf nýja fyrirtækið að alþjóðauppbyggingu (multinational structure) fyrirtækisins. Stefna þarf markvisst að þeim niðurstöðum sem lagt var upp með. Einnig þarf að í senn að hugað að því að innleiða fyrirtækið í alþjóðlega starfsemi sína en halda um leið jákvæðum tengslum við stjórnvöld viðkomandi lands (Newburry og Yoram, 1997). 3.6 Uppbygging frá grunni (Greenfield) Greenfield-verkefni felur í sér að byggja dótturfyrirtæki (subsidiary) upp frá grunni á erlendri grundu til að skapa sér aðstöðu til að stunda sölu eða framleiðslu á erlendum markaði. Fasteign er keypt í viðkomandi landi og starfsfólk ráðið og þjálfað með hliðsjón af stjórnunarháttum, tækni og þekkingu fyrirtækisins. Starfsemin í viðkomandi landi verður því næst samþætt við alþjóðastarfsemi fyrirtækisins (Harzing, 1998). Helsta hvatning til þess að byggja aðstöðu og starfsemi fyrirtækis upp frá grunni erlendis er að við það skapast frjálsræði til að stjórna stefnu og framtíð útþenslu sinnar á alþjóðamarkaði. Einnig gæti heimaland hinnar nýju starfseiningar boðið fyrirtækinu einhvers konar hvata kjósi það að byggja upp frá grunni þar sem sú aðferð eykur fjármagnsinnflæði til landsins (Harzing, 1998). Samkvæmt Newburry og Zeira (1997) eru mikilvægustu forsendur þess að ráðast í uppbyggingu á aðstöðu erlendis að kynna sér gaumgæfilega helstu einkenni viðkomandi lands, koma upp sterkum tengslum við innlenda birgja, ganga úr skugga um að bolmagn sé til að standast þá fjárhagslegu áhættu sem fylgir þessu verkefni og rannsaka hugsanlegan ávinning við að vera fyrstur á markað. Eftir að uppbygging er afstaðin er lykilatriði að varðveita innlend tengsl og tryggja að jafnvægi sé milli þess að innleiða fyrirtækið í 29

30 alþjóðlega starfsemi sína og að halda jákvæðum tengslum við stjórnvöld viðkomandi lands, rétt eins og gildir um yfirtökur (Newburry og Yoram, 1997). Kostir við Greenfield-uppbygginu eru nokkrir. Móðurfélagið hefur t.d. fulla stjórn á fjárfestingunni og þarf þar af leiðandi ekki að hafa áhyggjur af hagsmunaárekstrum eða gruna samstarfsfyrirtæki um græsku. Einnig kemst fyrirtæki hjá þeirri erfiðu aðstöðu að taka yfir fyrirtæki sem hefur eigin fyrirtækjamenningu. Hins vegar fylgja þessari inngönguaðferð þó nokkrir gallar. Fjárhagsáhætta er til að mynda mikil. Uppbygging frá grunni er jafnframt tímafrekt og hægfara ferli og á meðan getur fyrirtækið glatað þeim ávinningi sem fylgir því að vera fyrst á markað (Newburry og Zeira, 1997). Görg (2000) rannsakaði hvort ákjósanlegra væri fyrir fyrirtæki að ráðast í yfirtöku eða byggja upp frá grunni. Í rannsókninni voru þrír kostir í boði: Að taka yfir fyrirtæki með mikla tæknigetu (high-technology), að taka yfir fyrirtæki með litla tæknigetu (low-technology) eða byggja upp frá grunni (Greenfield). Niðurstöðurnar benda til þess að yfirtaka á fyrirtæki með mikla tæknigetu sé hagstæðust fyrir fyrirtæki sem ætla sér inn á markað. Þetta á einkum við ef kostnaður við að afla sér markaðsþekkingar er hár eða ef aðlögunarkostnaður er hár við yfirtöku á lágtæknifyrirtæki (Görg, 2000). Þessar niðurstöður eru studdar af rannsókn Hennart og Park (1993). Samkvæmt niðurstöðum þeirra reynast japönsk fyrirtæki, sem hyggjast hefja starfsemi á Bandaríkjamarkaði og framleiða þar aðra vöru en þau framleiða heima fyrir, velja þann kost að taka yfir fyrirtæki sem fyrir er á þeim markaði. Í slíkum tilvikum er kostnaður við að afla sér markaðsþekkingar mikill. Auðveldasta leiðin er því að verða sér úti um hana með yfirtöku á fyrirtæki sem þegar starfar á viðkomandi markaði (Hennart og Park, 1993). 3.7 Ógnir við alþjóðavæðingu Almennt séð fara fyrirtæki á erlendan markað til þess að nýta sér hin auknu markaðstækifæri sem fylgja alþjóðavæðingu. Fjölmiðlar fara gjarnan lofsorðum um sigurför fyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum. Hins vegar er langt frá því að öll fyrirtæki nái fótfestu erlendis. Fjölmörg dæmi eru um að fyrirtæki hafi þurft að hverfa af markaði eða hreinlega leggja niður starfsemi sína sökum þess að fjárfesting á erlendum markaði hafi ekki staðið undir þeim væntingum sem til hennar voru gerðar. En hvaða erfiðleika þurfa fyrirtæki að kljást við á erlendum mörkuðum? Í rannsókn Cazzura, Maloney og Shalini (2007) svara rannsakendur þessari spurningu á grundvelli aðfangakenningar (resource-based theory). Samkvæmt þeirri kenningu er 30

31 fyrirtæki samsafn af aðföngum sem notuð eru til þess að framleiða vörur eða þjónustu sem skapa virði fyrir viðskiptavini en fyrirtækið er í samkeppni við tilboð frá öðrum fyrirtækjum. Þar af leiðandi eru tengsl milli erfiðleika fyrirtækja á erlendum markaði og aðfanganna sem fyrirtækið hefur yfir að ráða. Rannsakendur tala um tvær tegundir af aðföngum, annars vegar þær sem eru sértækar fyrir tiltekið fyrirtæki (firm-specific) og hins vegar þær sem eru almennar fyrir fleiri fyrirtæki (set of firms). Því næst skipta þeir erfiðleikum við alþjóðavæðingu í þrjá flokka: 1. Tapað forskot: Aðföng geta tapað því forskoti sem þau höfðu á heimamarkaði við flutning til annars lands. 2. Óhagræði (disadvantage): Óhagræði getur skapast af flutningi aðfanga til annars lands. 3. Skortur á stuðningsaðföngum (complimentary resources): Skortur á stuðningsaðföngum getur háð árangri í nýju landi. Tapað forskot sértækra aðfanga (firm specific): Vanhæfni til að yfirfæra forskot. Fyrirtæki þarf að horfast í augu við tapað forskot á markaði ef aðföng sem sköpuðu því forskot í heimalandi sínu eru ófær um það á erlendum markaði. Fyrirtæki geta lítið gert þessu til varnar. Þau gætu hugsanlega þróað önnur aðföng í viðkomandi landi sem skapa forskot eða leyft dótturfyrirtæki að hafa eigin stefnumótun og skapa sér þannig forskot (Birkinshaw, Hood og Jonsson, 1998). Þó gera slíkar lausnir inngöngu í nýtt land nánast tilgangslausa þar sem féð sem bundið hefur verið í þróun aðfanganna skilar engu og nýjar lausnir geta skapað ný vandamál. Lýsandi dæmi um að aðföng sem skapað hafa forskot á heimamarkaði tapi því á erlendum markaði sést á tilraunum Walmart-verslunarkeðjunnar til markaðsvinninga í Þýskalandi. Walmart hafði mikið samkeppnisforskot á Bandaríkjamarkaði vegna lágkostnaðarstefnu sem gaf því ekki sama forskot í Þýskalandi. Samkeppni var þar mun meiri þar sem fyrirtækið þurfti að kljást við lágvöruverslanir á borð við Lidl og Metro sem þegar höfðu áunnið sér styrka markaðsstöðu (Cazurra, Maloney og Manrakhan, 2007). Tapað forskot almennra aðfanga (non-firm specific): Vanhæfni til að skapa virði. Í sumum tilvikum er umhverfi á nýjum markaði svo gjörólíkt heimamarkaði að fyrirtæki geta reynst óhæf til að yfirfæra forskot sitt af heimamarkaði yfir á erlendan markað. Þó nokkrar ástæður geta skapað slíka erfiðleika. Má þar nefna lágan kostnað vinnuafls, útilokun vöru á grundvelli menningar á nýjum markaði og ýmis landfræðileg einkenni. 31

32 Samkvæmt rannsakendum gefa slíkir erfiðleikar tilefni til að forðast inngöngu á markað eða draga sig út af honum eins fljótt og auðið er (Cazurra, Maloney og Manrakhan, 2007). Óhagræði af sértækum aðföngum (firm specific): Óhagræði sem skapast af flutningi. Flutningur sumra aðfanga fyrirtækja á erlenda markaði getur verið þeim í óhag og svo rammt getur að því kveðið að virði sem skapast af öðrum aðföngum eyðileggist. Fyrirtæki þróa aðföng sín til að aðlagast þeim markaði er þau starfa á (Porter, 1990). Séu þessi aðföng færð í annað umhverfi geta þau hugsanlega ekki lagað sig að umhverfinu og því orðið fyrirtækinu í óhag. Fyrirtæki geta yfirstigið þessa erfiðleika með því að fara í saumana á því hvaða aðföng eigi erindi á viðkomandi markað og hver þeirra þarfnist aðlögunar (Bartlett og Ghoshal, 1989). Óhagræði af almennum aðföngum (non-firm specific): Óhagræði af því að vera útlendingar (foreigness) Þegar fyrirtæki stunda viðskipti á erlendum markaði gæti svo farið að ríkisstjórnir og neytendur mismuni því vegna þjóðernis (nationality). Þetta getur skapað erfiðleika fyrir fyrirtæki sem hyggja á markaðsvinninga erlendis. Til að yfirstíga mismunun af hendi ríkisstjórnar getur fyrirtæki reynt að efna til samningaviðræðna við hana. Í þeim getur fyrirtækið bent á kosti þess að fyrirtækið flytji starfsemi sína til landsins. Einnig getur fyrirtækið lagt áherslu á hversu auðveldlega það getur horfið á braut á annan markað ef ósanngjörn meðferð ríkisstjórnarinnar heldur áfram. Til að yfirstíga þá erfiðleika sem myndast vegna þjóðernisfordóma neytenda geta fyrirtæki reynt að tengja sig sem minnst við heimalandið (Cazurra, Maloney og Manrakhan, 2007). Skortur á sértækum stuðningsaðföngum (firm-specific): Erfiðleikar við útþenslu fyrirtækis, keppni í nýju starfsumhverfi og erfiðleikar sem fylgja því að vera útlendingur. Meðal þeirra erfiðleika sem myndast vegna skorts á stuðningsaðföngum eru erfiðleikar við útþenslu fyrirtækis, erfiðleikar við að keppa í nýju samkeppnisumhverfi og erfiðleikar sem fylgja því að vera útlendingur. Stjórnendur sem kljást við erfiðleika við útþenslu fyrirtækis vegna skorts á stuðningsaðföngum geta yfirstigið þá með breytingum á upplýsingakerfi, mannafla, fyrirtækjamenningu, sérþekkingu stjórnenda eða uppbyggingu. Stjórnendur sem kljást við erfiðleika við að keppa í nýju starfsumhverfi og erfiðleika sem fylgja því að vera útlendingur geta yfirstigið þá með því að þróa þau stuðningsaðföng innan fyrirtækisins sem það þarfnast til að vera samkeppnishæft á viðkomandi markaði. Einnig er hægt að kaupa þau af markaðnum, yfirtaka innlent fyrirtæki sem býr yfir þessum aðföngum 32

33 eða stofna með því bandalag. Þyngsta þrautin er að yfirstíga erfiðleika sökum þess að vera útlendingur því það getur krafist umbreytingar á rótgrónum hugmyndum um hegðun og siði (Cazurra, Maloney og Manrakhan, 2007). Skortur á almennum stuðningsaðföngum (non-firm-specific): erfiðleikar vegna innviða. Stöku sinnum geta erfiðleikar sem verða á vegi fyrirtækja stafað af skorti neytenda í stað fyrirtækisins sjálfs á stuðningsaðföngum. Án þeirra geta neytendur ekki notað vörur fyrirtækisins. Í sumum löndum er t.d. eign ísskápa ekki sjálfgefin meðal neytenda og þar með er erfitt að selja þangað vörur sem geyma skal í kæli. Stjórnendur geta yfirstigið þessa erfiðleika með því að útvega neytendum þau stuðningsaðföng sem þarf eða þá þekkingu sem nauðsynleg er til notkunar á vöru fyrirtækisins (Cazurra, Maloney og Manrakhan, 2007). 33

34 4 Pólitískt umhverfi Í þriðjaheimsríki á borð við Nígeríu getur pólitískt umhverfi haft mikil áhrif á velgengni fyrirtækja á markaði. Stöðugleiki ríkisstjórnar, stjórnarfar, her, dómstólar og velvilji stjórnvalda gagnvart erlendum fyrirtækjum eru allt atriði sem ráða pólitísku umhverfi í landinu. Í raun má segja að fyrirtækjum sé skylt að skoða þessi atriði vel áður en þau fara inn á viðkomandi markað. 4.1 Stöðugleiki ríkisstjórnar Stöðugleiki hefur ekki einkennt stjórnarfar í Nígeríu. Frá því að þjóðin öðlaðist sjálfstæði árið 1960 hefur stjórnarfarið einkennst af herstjórn, spillingu og blóðugum átökum milli stjórnarandstæðinga (Economist Intelligence Unit, 2008b; U.S. Department of State: Bureau of African Affairs, 2008). Meiri stöðugleiki hefur náðst á síðustu árum, þó töluverð spilling sé enn til staðar. Umaru Yar Adua var kjörinn forseti árið 2007 en það var í fyrsta skipti í sögu landsins að völd yfir landinu færðust friðsamlega frá einum óbreyttum borgara til annars. Yfirleitt hafa herforingjar, með stuðningi hersins, hrifsað völdin í landinu (Polgreen og Cooper, 2007; Economist Intelligence Unit, 2008b). Það sýnir hversu mikill óstöðugleiki hefur viðgengist í Nígeríu frá sjálfstæði þess. Árið 1960 þegar Nígería varð sjálfstætt land skiptist það í þrjú héruð: norður-, austur- og vesturhérað. Þessi skipting endurspeglaði menningarlegan og pólitískan mismun á þremur helstu þjóðarbrotum landsins: Hausa-Fulani, Yoruba, og Ibo. Fljótlega skapaðist mikil pólitísk spenna milli héraða sem gerði það að verkum að árið 1967 tilkynnti austurhéraðið Biafra áform sín um að slíta sig frá Nígeríu og lýsa yfir sjálfstæði. Í kjölfar þessarar sjálfstæðisyfirlýsingar hófst 30 mánaða borgarastríð þar sem um 1-3 milljónir manna létu lífið í átökum (Library of Congress - Federal Research Divison, 2008; Turner, 2008; Economist Intelligence Unit, 2008b). Eftir stríðið laut landið herstjórn allan 7. og 8. áratuginn, að undanskildum árunum frá Þáverandi forseta Alhaji Shehu Shagari var steypt af stóli af hernum undir forystu herforingjans, Muhammed Buhari, eftir að Shagari var endurkjörinn forseti í kosningum sem þóttu stórgallaðar (Turner, 2008; Economist Intelligence Unit, 2008; Library of Congress - Federal Research Divison, 2008). 34

35 Aðal ástæður fyrir óstöðugleika í stjórnarfari Nígeríu á þessum tíma voru kynþáttaárekstrar, trúarlegur mismunur íbúa, deilur vegna ráðstöfunar á sívaxandi ólíugróða, kröfur um aukna sjálfsstjórn héraða og vaxandi vald hersins. Slæmt efnahagsástand gerði það að verkum að Buhari var steypt af stóli árið 1985 af öðrum herforingja, Ibrahim Babangida. Undir hans stjórn var hrint af stað aðlögunarverkefni sem átti að hjálpa til við að bæta spilltan og þróttlítinn efnahaginn. Meiru skiptir að hann mótaði tímaáætlun um að gera Nígeríu að lýðræði og skyldi því lokið árið Sú tímaáætlun stóðst hins vegar ekki heldur dróst á langinn. Árið 1993 urðu loks forsetakosningar í landinu (Library of Congress - Federal Research Divison, 2008; Economist Intelligence Unit, 2008b). Þegar allt stefndi í öruggan sigur viðskiptamannsins og milljónamæringsins, Moshood Abiola, ógilti Babangida kosningarnar. Hins vegar voru kosningarnar, fyrir ógildingu, almennt taldar þær réttlátustu í sögu Nígeríu. Þær voru hins vegar ógiltar því margir yfirmenn í hernum voru ekki hrifnir af þeirri hugmynd að hafa sjálfstætt hugsandi forseta frá suðrinu við völd (Turner, 2008; Economist Intelligence Unit, 2008b). Í nóvember 1993 tók hershöfðinginn Sani Abacha völd af bráðabirgðaríkisstjórninni sem Babangida hafði sett eftir ógildingu kosninganna sama ár (Library of Congress - Federal Research Divison, 2008; Turner, 2008; Economist Intelligence Unit, 2008b). Abacha stjórnaði landinu í fimm ár þar til hann varð bráðkvaddur eftir hjartaáfall (Economist Intelligence Unit, 2008b). Stjórnartíð hans einkenndist af töluverðri spillingu. Til að mynda kom í ljós að hann hafði millifært á svissneskan bankareikning í eigin nafni tæplega 458 milljónir USD af olíugróða (Library of Congress - Federal Research Divison, 2008). Eftir skyndilegan dauða hans tók hæstráðandi herforingi við, Abdusalami Abubakar. Undir hans stjórn lauk herstjórn í landinu formlega með forsetakosningum árið Sigurvegari þeirra kosninga var Olusegun Obasanjo. Hann var fyrrverandi leiðtogi Nígeríu í herstjórn á 7. áratuginum en var pólitískur fangi þegar Abacha var við völd. Obasanjo naut stuðnings öflugra aðila úr norðurhéraðinu, þar á meðal nokkurra hershöfðingja er sestir voru í helgan stein (Turner, 2008; Economist Intelligence Unit, 2008b). Árið 2003 var Obasanjo endurkjörinn í vafasömum kosningum. Margir utanaðkomandi aðilar fordæmdu úrslit kosninganna sökum svika og ógnana meðan á kosningum stóð. Talið er að um 100 manns hafi látið lífið í kosningatengdu ofbeldi. Þrátt fyrir kosningasvindl sættu íbúar Nígeríu sig við úrslit kosninganna. Fáir vildu að herstjórn kæmist aftur til valda því þá yrðu mannréttindi og önnur persónuréttindi ekki virt. Svo virðist sem kosningasvindl hafi verið skárri kosturinn af tveimur slæmum (Economist Intelligence 35

36 Unit, 2008b). Obasanjo gerði tilraun til þess að lögfesta rétt sinn til að sitja sem forseti þriðja kjörtímabilið í röð en þingið samþykkti ekki þessa tillögu hans. Val hans á næsta forsetaframbjóðanda flokks síns, PDP (People s Democratic Party), kom bæði stjórnmálamönnum og almenningi á óvart. Hann valdi mann að nafni Umaru Yar Adua, lítt þekktan ríkisstjóra Kastina. Fram að þessu hafði Yar Adua ekki sýnt nein merki um að hann hefði áhuga á að verða forseti Nígeríu og vakti þetta furðu meðal fólks (Polgreen og Cooper, 2007; Economist Intelligence Unit, 2008b). Ein af ástæðum þessa vals var talin vera orðspor Yar Adua, en hann var þekktur fyrir hreinskilni í samskiptum, skynsemi í fjármálum sem fylkisstjóri og afskiptaleysi af æðri pólitískum völdum. Raunar telja margir að Obasanjo hafi þarna haft það eitt í huga að koma til valda einhverjum hljóðlátum og aðsópslitlum manni sem hann gæti stjórnað eins og strengjabrúðu. Svo fór að Yar Adua vann forsetakosningarnar árið 2007 með um 24 milljónum atkvæða, eða um 70% af atkvæðaseðlunum. Hins vegar voru þessar kosningar eins og flest allar kosningar sem áður hafa verið haldnar í Nígeríu vafasamar og illa framkvæmdar. Sumir ganga jafnvel svo langt að segja að aldrei hafi tekist verr til við stjórnun kosninga í landinu. Nánast allir sem fylgdust með kosningunum, jafnt erlendir sem innlendir, voru sammála um að þær væru meingallaðar. Um þetta eru nefnd nokkur augljós dæmi. Ófullnægjandi birgðir voru af ýmsu því sem notast þarf við í kosningum á mörgum af kjörstöðunum Margir kjörstaðir opnuðu seint og sumir alls ekki, kjörkössum var stolið, fólk undir lögaldri kaus og fulltrúar flokkanna og lögregla sögðu fólki hvern það ætti að kjósa. Hinir flokkarnir kærðu kosningarnar til æðri dómstóla (Economist Intelligence Unit, 2008b). Þrátt fyrir vafasamar kosningar hefur Yar Adua auðnast að auka fylgi sitt meðal almennings og afla sér töluverðra vinsælda. Hann kallar sjálfan sig þjónustuleiðtoga (servant leader) en honum hefur verið lýst sem auðmjúkum leiðtoga sem stjórnar innan ramma laga landsins. Hann er einnig tilbúinn að leita ráða þurfi hann þess. Með þessu er hann talinn skera sig frá fyrrverandi stjórnendum landsins. Reynslan ein mun sýna hvort framhald verði á þessu út kjörtímabil hans (Polgreen og Cooper, 2007; Economist Intelligence Unit, 2008b). Spá Economist Intelligence Unit (EIU) fyrir árið er sú að Yar Adua styrki stöðu sína sem forseti, sérstaklega í ljósi þess að dómstólar neituðu nýlega beiðni stjórnarandstöðunnar um endurkosningar. Talið er að forsetinn muni njóta góðs af nánum tengslum sínum við fyrrverandi forseta landsins, Obasanjo, þar sem sá síðarnefndi hefur enn töluverð áhrif á öryggisþjónustu landsins sem og háttsetta menn innan hersins. Á hinn bóginn munu tengsl Yar Adua við Obasanjo gera honum erfitt um vik að losna við orðsporið sem fór 36

37 af stjórnartíð Obasanjo sem var vægast sagt slæm og einkenndist af mikilli spillingu (Economist Intelligence Unit, 2008a). Yar Adua hefur nú þegar gefið til kynna að í megindráttum muni stefna hans í efnahagsmálum vera nánast óbreytt frá þeirri skipan sem fest var í sessi með efnahagsþróunarverkefninu NEEDS (National Economic Empowerment Development Strategy). Eins og nafnið gefur til kynna er NEEDS verkefni sem mótar stefnu stjórnvalda í efnahagsumbótamálum. NEEDS var kynnt til sögunnar árið Úrræðin miðast við að draga úr aðild ríkisstjórnarinnar að efnahagnum með einkavæðingu, markaðsvæðingu (deregulation), meira frjálsræði og með því stuðla að uppbyggingu, aðallega í rafmagns- og vatnsgeiranum. NEEDS beindi einnig athygli að þeim lykilsviðum efnahagsins sem gætu verið grundvöllur frekari vaxtar (engines of growth), þá sérstaklega landbúnaður, framleiðsla, steinefnaiðnaður og ferðamannaiðnaður. Auk þess var lögð áhersla á mikilvægi smárra eða meðalstórra fyrirtækja til atvinnusköpunar (Nigerian National Planning Commission, 2004). Þar sem NEEDS var að renna sitt skeið setti Yar Adua nýverið af stað NEEDS-2. Það felur í sér sjö forgangsatriði hvað viðvíkur endurbótum efnahagsins sem nánar verður rannsakað í efnahagskafla (Economist Intelligence Unit, 2008b). 4.2 Stjórnarfar Stjórnarskrá Nígeríu tók gildi 29. maí, Nígería er sambandsríki 36 fylkja. Í stjórnarskránni er kveðið á um myndun nýrra fylkja og aðlögun landamæra núverandi fylkja. Stjórnkerfið í Nígeríu er með sama sniði og stjórnkerfi Bandaríkjanna. Í stjórnarskránni er ákvæði um að forseti skuli kjörinn með meirihlutakosningu og að hann megi í mesta lagi sitja við völd í tvö fjögurra ára kjörtímabil. Forsetinn skipar ríkisráð (Federal executive council). Frá öllum fylkjum eru kjörnir 109 fulltrúar í öldungaráð og þar að auki er 360 manna fulltrúaþing kosið til fjögurra ára. Hvert af 36 fylkjum landsins kýs jafnframt eigið löggjafarþing og ríkisstjóra (Library of Congress - Federal Research Divison, 2008). 4.3 Dómstólar Menning í Nígeríu er mjög fjölskrúðug og það sama má segja um réttarkerfi lýðveldisins. Tveir alríkisdómstólar eru starfræktir. Þeirra æðstur er Hæstiréttur Nígeríu (The Federal Supreme Court). Dómstólnum stýrir forseti hæstaréttar (The Chief Justice) og með honum starfa allt að 15 dómarar sem alríkisstjórnin skipar. Hæstiréttur hefur úrslitavald í öllum deilum milli sambandslýðveldisins og einstakra fylkja og einnig innbyrðis milli fylkjanna. Hinn alríkisdómstóllinn er áfrýjunardómstóll Nígeríu (The Federal Court of 37

38 Appeal). Þangað er heimilt að skjóta málum sem ekki næst að útkljá á æðsta dómsstigi einstakra fylkja. Ef tilefni þykir til er málum áfrýjað þaðan til hæstaréttar þar sem þau hljóta endanlega dómsmeðferð (Turner, 2008). Í hverju fylki eru að meginstefnu til tvö dómsstig. Fylkin hafa ennfremur heimild til að setja á fót sérstakan áfrýjunardómstól sem myndar þá þriðja dómstigið. Æðra dómstigið (High Court) er samræmt í fylkjunum og því stýrir dómstjóri (Chief Justice) sem skipaður er af fylkisstjórninni. Dómstólar á lægra dómstigi eru margbreytilegir. Meðal þeirra eru sérdómstólar sem byggja á íslömskum lögum (sharia), en sú tilhögun er algeng í mörgum norðurfylkjum landsins. Aðrir dómstólar byggja á siðvenjum (customary law) á hverjum stað og loks dómafordæmum (common law), sem á rætur sínar að rekja til þess tíma er landið laut yfirráðum Breta. Í ágreiningi fyrir almennum dómstólum milli aðila í viðskiptum reynir yfirleitt á síðastnefndu réttarreglurnar (Turner, 2008). Ennfremur tíðkast í viðskiptum að skjóta ágreiningsefnum til samningsbundins gerðardóms. Sú meðferð er bæði hraðvirkari og einfaldari en almenna dómstólaleiðin sem í Nígeríu er talin vera ein sú seinvirkasta í heimi (U.S. Department of State, 2006). 4.4 Lög Þegar fyrirtæki hefja starfsemi á erlendum markaði er ein af helstu hindrunum sem í vegi þeirra verða annað lagaumhverfi en þau eiga að venjast. Oft geta þessi lög stangast á við þau lög sem gilda í heimalandi fyrirtækisins. Því er mikilvægt fyrir fyrirtæki að kynna sér lög viðkomandi lands vel og þá helst þau lög sem varða málefni sem snerta fyrirtækið mest. Í tilfelli Kötlu Seafood sem vill hugsanlega komast innar í landið og festa rætur er mikilvægt að kynna sér fasteignalög í landinu. Fyrirtækið mun þurfa að kaupa eða leigja fasteignir fari það inn á þennan markað, t.d. fyrir kæligeymslur og skrifstofurými Fasteignalög Í kringum 1978 fóru Nígeríubúar að gera sér grein fyrir því að mikil þörf var fyrir fasteignalög í landinu. Þetta varð til þess að skipuð var nefnd til þess að endurskoða kerfið um umráðarétt landsvæða (land tenure system) í landinu og setja á fót landnotkunar- og stjórnunarstefnu fyrir Nígeríu (land use and management policy). Útkoman úr því varð Landnotkunarúrskurður nr. 6 frá 1978 (Land Use Decree No.6 of 1978). Hann var settur í gildandi stjórnarskrá árið Lögunum var síðar breytt með Landnotkunarlögunum CAP (Oladapo og Olotuah, 2007). 38

39 Frá lagasetningu fyrir rúmlega tveimur áratugum hafa lögin verið viðfangsefni þjóðarráðstefna, námskeiða, fyrirlestra og rökræðna þar sem bent hefur verið á þó nokkuð ósamræmi, tvíræðni og mótsagnir í lögunum. Sumir fræðimenn og sérfræðingar hafa farið fram á að lögin verði endurskoðuð í heild sinni en aðrir að lögin verði afnumin. Mikil óánægja er með að stjórnun og eftirlit með öllum jarðsvæðum er í höndum fylkisstjóra hvers fylkis. Sérstaklega sökum ósiðferðislegrar hegðunar þeirra (Oladapo og Olotuah, 2007). Aðalatriði Landnotkunarlaganna eru: - Öll landssvæði innan fylkis eru á valdi fylkisstjóra. Hann stjórnar landsvæðum og útdeilir þeim með hag almennings í Nígeríu að leiðarljósi. Ekki má túlka þetta þannig að lögin veiti fylkisstjórum eignarrétt yfir öllum landssvæðum í fylkinu. Fylkisstjórar eru einungis fjárhaldsmenn (trustees) þeirra en ekki eigendur (Federal Republic of Nigeria, 1990). - Lögbundnum eignarrétti hefur verið breytt í umráðarétt með því að fela ríkisstjórninni að veita lögskipaðan rétt til umráða yfir atvinnulandssvæðum og fela sveitarstjórnum (local government authorities) að veita almennan (en ekki lögskipaðan) umráðarétt yfir dreifbýlislandssvæðum (Federal Republic of Nigeria, 1990). - Ábyrgð á úthlutun og stjórnun þéttbýlissvæða heyrir undir Landnotkunar- og úthlutunarnefnd (Land Use and Allocaton Committee) en ábyrgð á úthlutun og stjórnun landssvæða í dreifbýli fellur undir Ráðgjafanefnd til landúthlutunar (Land Allocation Advisory Committe). Skipun nefndarmanna er í höndum fylkisstjóra (Federal Republic of Nigeria, 1990). - Umráðavottorð yfir landsvæði þjónar sama tilgangi og afsal þjónaði áður en lögin tóku gildi. Þeir sem höfðu fest sér landssvæði með afsali áður en lögin voru sett teljast nú hafa umráðarétt yfir landssvæðinu. Eignarréttur breyttist sjálfkrafa í umráðarétt eins og fylkisstjórinn hefði veitt þeim hann (Federal Republic of Nigeria, 1990). - Leita þarf samþykkis fylkisstjóra áður en flutningur umráðaréttar fer fram með afsali (umráðavottorð), framsali, láni og eða tilfærslu (land transfer) fyrir bæði skipulagt og óskipulagt landssvæði (Federal Republic of Nigeria, 1990). - Fylkisstjóri hefur umboð til að hrifsa til sín umráðarétt á hvaða landssvæði sem er og hunsa hagsmuni almennings með nauðungaryfirtöku og ógildingu umráðaréttar (Compulsory Acquistion and Revocation Order) eins og segir í köflum 28, 34 og 44 í lögunum (Federal Republic of Nigeria, 1990). 39

40 - Kafli 29 fjallar ítarlega um bætur fyrir endurbætur sem gerðar hafa verið á landi sem ríkisstjórnin yfirtekur með nauðung. Bætur fyrir skipulögð landssvæði eru byggðar á rýrnuðu matsverði (replacement value), en engar bætur eru veittar fyrir óskipulögð landssvæði að undanskilinni þeirri leigu sem greidd hefur verið fyrir árið (Federal Republic of Nigeria, 1990). Tvö hliðstæð kerfi eru til staðar til þess að hafa aðgang að landi í Nígeríu, þau eru í gegnum opinbera geirann annars vegar og einkageirann hins vegar. Hið opinbera úthlutar landssvæðum fyrir hönd íbúa. Í einkageiranum er landsvæðum úthlutað á markaði. Aðgangur að landssvæði fer eftir því hvernig fólki í Nígeríu farnast efnahagslega. Aðgangur að góðu landssvæði hefur áhrif á auð íbúa og félagslega þjónustu í boði en meginhluti auðugra svæða í landinu skiptist á fáa aðila. Reglugerðir hafa verið settar um skipulagningu lands, svæðaskipan og skiptingu en þeim hefur ekki verið framfylgt vegna pólitískra afskipta. Þetta gerir það að verkum að meirihluti landsmanna hefur engin tök á að festa sér land og bendir þessi skipan mála til spillingar. Fyrirkomulag skatta og gjalda af landssvæðum er slæmt og innheimta ekki sem skyldi. Því er fé af skornum skammti til þess að byggja upp nýja innviði eða viðhalda og bæta þá sem fyrir eru í borgum landsins. Auk þess hafa endurbætur að hálfu ríkisstjórnarinnar verið óskilvirkar (Oladapo og Olotuah, 2007). 4.5 Herinn Frá 1966 til 1999 stjórnaði herinn landinu og nú um stundir er hann enn víðtækt og kraftmikið pólitískt afl. Þó stendur til að reyna að umbreyta honum í faglegri og ópólitískari stofnun (Economist Intelligence Unit, 2008b). Árið 2006 var samanlagður herafli Nígeríu um manns, en hann skiptist í landgönguliða (62.000), sjóher (9.500) og flugher (7.000) (Central Intelligence Agency, 2008; Economist Intelligence Unit, 2008b). Landgönguliðum er skipt milli herstöðva sem eru í Lagos og Abuja en þær eru tvær stærstu herstöðvar landsins. Nígería hefur margoft sýnt styrk sinn og getu til að hervæðast (mobilized), senda herinn á vettfang (deploy) og halda úti herfylkingum til stuðnings við friðaraðgerðir í Júgóslavíu, Angóla, Rúanda, Síerra Leóne, Líberíu, Súdan/Darfur og Sómalíu. Sjóherinn býr yfir herskipum og strandgæslubátum. Flugherinn er með flutningaflugvélar, þyrlur og herflugvélar (U.S. Department of State: Bureau of African Affairs, 2008). 40

41 4.6 Velvilji stjórnvalda gagnvart erlendum fyrirtækjum Ríkisstjórnin sem skipuð var árið 1999 sýndi áhuga á að gera Nígeríu opnari fyrir erlendum viðskiptum og fjárfestingum. Ríkisstjórnin réðst í einkavæðingu og ætti það að hvetja til meiri fjárfestinga erlendra aðila með auknum tækifærum í mörgum iðngreinum, svo sem olíu-, banka- og hótelgeirunum. Áform um að leggja þrjár milljónir símalína á hverju ári þarfnast t.d. erlendrar aðstoðar úr einkageiranum (private sector assistance) (Turner, 2008). Ef skýrsla World Bank Group (2008b) er skoðuð sést hvernig Nígería stendur sig í alþjóðlegum samanburði og jafnframt hvernig 10 mismunandi fylki innan Nígeríu og höfuðborgin Abjua standa sig í innbyrðis samanburði. Í hverju fylki er fjölmennasta borgin notuð sem viðmið. Niðurstaða skýrslunnar er sú að viðskiptaumhverfi Nígeríu sé ekki mjög aðlaðandi. Þörf er á umbótum ef stjórnvöld vilja auka fjárfestingu erlendra fyrirtækja í landinu. Í skýrslunni eru aðallega skoðaðir 4 þættir: að setja á fót fyrirtæki, fá öll tiltekin leyfi, skrá eignina og framfylgja samningum. Auðvitað hefur þessi skýrsla sínar takmarkanir enda skiptir fleira máli í viðskiptum t.d nauðsynleg almenningsþjónusta á borð við frárennsli, veitur, samgöngumannvirki, nálægð við stærstu markaði og eignaöryggi gagnvart þjófnaði og skemmdum. Þessi skýrsla er hluti af Nigeria Subnational Investment Climate Program sem styður fylkin í að bæta viðskiptaumhverfi sitt (World Bank Group, 2008b). Í alþjóðaskýrslu World Bank Group (2008a) þar sem 178 lönd eru borin saman út frá því hversu aðlaðandi viðskiptaumhverfi þeirra er vermir Nígería í 108. sæti. Borgin Lagos var fulltrúi Nígeríu í þessari skýrslu, en Lagos er helsta viðskiptaborg Nígeríu. Til gamans má geta eru nokkur af nágrannalöndum Nígeríu ofar á listanum, svo sem Botswana, Eþíópía, Gahna, Kenýa og Suður-Afríka (World Bank Group, 2008a). Frá árinu varð auðveldara að stunda viðskipti í Nígeríu þar sem skráning fyrirtækja varð hraðvirkari vegna tölvuvæðingar í fyrirtækjaskráningu. Einnig styttist tíminn sem það tekur að öðlast byggingarleyfi töluvert. Þrátt fyrir þessar endurbætur stóð Nígería í stað á nýjasta listanum. Ástæðan er sú að Nígería var ekki eina landið sem bætti viðskiptaumhverfi sitt. Það gerðu einnig lönd eins og Burkina Faso, Ghana, Madagascar, og Mosambique (World Bank Group, 2008b). Skýrsla World Bank Group (2008b), sem unnin er í samráði við nígerísk yfirvöld, bendir til þess að stjórnvöld séu í það minnsta að reyna að bæta viðskiptaumhverfi landsins og gera það ákjósanlegra í augum erlendra fjárfesta sem stjórnvöld vilja fá inn í landið. Hins vegar er ljóst að stjórnvöld verða að grípa til enn myndarlegri ráðstafana til að bæta 41

42 viðskiptaumhverfið ætli þau að lokka til sín fleiri erlenda fjárfesta. Þar á meðal þurfa þau að bæta ýmislegt sem ekki er fjallað um í skýrslu World Bank Group (2008b), t.d. draga úr spillingu, efla almennt öryggi, fækka skemmdarverkum og minnka pólitískan óstöðugleika. Einnig þurfa þau að laga hinn mikla mun á viðskiptaumhverfi sem er milli borga. Nígería þyrfti ekki annað til að skipa sér í 51. sæti af 178 í Doing Business skýrslu World Bank Group (2008a) en að beita á landsvísu bestu starfsháttum og reglugerðum sem þar eru í boði. Í staðinn er Nígería í 108. sæti þegar á heildina er litið. Fróðlegt er að sjá hvernig landið stendur sig í hverjum lið fyrir sig en niðurstöðurnar eru eftirfarandi: að setja á fót fyrirtæki = 80. sæti, fá öll tiltekin leyfi = 161. sæti, ráða starfsfólk = 30. sæti, skrásetja eign = 173. sæti, fá lán = 84.sæti, verja fjárfesta = 51. sæti, borga skatta = 107. sæti, stunda viðskipti við landamærin = 138.sæti, framfylgja samningum = 93. sæti og loka fyrirtæki = 89.sæti (World Bank Group, 2008a). Rannsakandi skoðaði einnig skýrslu Gfk Roper Public Affairs and Media (2008) sem mælir ímynd og orðspor 50 mismunandi landa víðs vegar um heiminn. Í henni eru niðurstöður úr viðtölum sem tekin eru á veraldarvefnum úr 20 landa kjarna (Bandaríkin, Kanada, Bretland, Þýskaland, Frakkland, Ítalía, Svíþjóð, Rússland, Pólland, Tyrkland, Japan, Kína, Indland, S-Kórea, Ástralía, Argentína, Brasilía, Mexíkó, Egyptaland og S-Afríka) þar sem viðmælendur eru 18 ára og eldri. Út úr þessum viðtölum er mældur kraftur og aðdráttarafl vörumerkjaímyndar (brand image) hvers lands. Mælingunum er skipt í sex hluta; - Útflutningur: Hvort það auki eða minnki líkur á að fólk kaupi vöru ef það veit að hún kemur frá viðkomandi landi, hvort landið hafi sérstakan styrk í vísindum og tækni, og hvort landið búi yfir sköpunarkrafti. - Stjórnun: Hvort ríkisstjórn landsins sé hæf og heiðarleg, hvort borin sé virðing fyrir íbúum landsins og hvort þeir fái sanngjarna meðferð, og loks alþjóðleg hegðun hvað viðvíkur friði, öryggi, umhverfisvernd og minnkun fátæktar í heiminum. - Menning: Þeir þættir sem eru mældir varðandi menningu eru viðhorf til arfleiðar landsins, tónlistar, kvikmynda, lista og bókmennta, sem og frammistöðu landsins í íþróttum. - Fólk: Mælikvarði á vingjarnleika fólks er hvort viðmælendum finnist þeir vera velkomnir í heimsókn til landsins. Að auki mælir skýrslan einstaklingsbundið 42

43 aðdráttarafl þegnanna, þ.e. hvort viðmælendur fýsi að eiga náinn vin frá viðkomandi landi. - Ferðaþjónusta: Viðmælendur flokka aðdráttarafl ferðaþjónustu landsins á grundvelli þriggja atriða: náttúrufegurðar, sögufrægra bygginga og minnismerkja, og hversu líflegar og aðlaðandi borgir í viðkomandi landi eru. - Innflutningur fólks og fjárfesting: Áhugi fólks á því að læra, vinna og búa í viðkomandi landi er ekki einungis notaður sem mælikvarði á hversu auðveldlega landið getur laðað að sér hæfileika og fjármagn, heldur einnig efnahagsleg hagsæld, jafnrétti, og hvort menn vænti hárra lífskjara í landinu. Loks er núverandi efnahagsog viðskiptaástand einnig notað sem mælikvarði. Þau 50 lönd sem voru rannsökuð voru: Norður Ameríka: Bandaríkin, Kanada. Vestur-Evrópa: England, Þýskaland, Frakkland, Ítalía, Spánn, Írland, Skotland, Svíþjóð, Danmörk, Noregur, Ísland, Holland, Belgía, Sviss, Finnland og Austurríki. Mið-/Austur-Evrópa: Rússland, Pólland, Tékkland, Eistland, Litháen, Ungverjaland, Tyrkland og Rúmenía. Asía: Japan, Suður-Kórea, Kína, Indland, Tæland, Indónesía, Malasía, Singapore, Tævan, Ástralía og Nýja-Sjáland. Mið-/Suður-Ameríka: Argentína, Brasilía, Mexíkó, Chile, Ekvador, Perú og Kúba. Mið-Austurlönd og Afríka: Sameinuðu arabísku furstadæmin, Íran, Egyptaland, Sádi-Arabía, Suður-Afríka og Nígería. Frammistaða Nígeríu í þessari skýrslu var 49.sæti af 50 mögulegum, en Íran var í neðsta sæti. Í útflutningi var Nígería í 50. sæti. Í stjórnun, fólki, og ferðaþjónustu var landið í 49. sæti. Sá hluti rannsóknarinnar sem Nígería kom best út var menningarhlutinn en þar var landið í 47. sæti (GfK Roper Public Affairs og Media, 2008). Því má álykta að ímynd Nígeríu í heiminum sé almennt slæm. Þetta eru ekki einu skýrslurnar sem gefa þessa mynd af landinu. Skýrsla EIU (2008a) sýnir að Nígería fékk einkunnina 4,45 af 10 mögulegum fyrir viðskiptaumhverfi sitt á árunum frá 2003 til 2007 og var í 75. sæti af 82 löndum. Til samanburðar við 16 nágrannalönd sín var Nígería í 12. sæti, en nágrannalöndin eru: Algería, Bahrain, Egyptaland, Íran, Ísrael, Jórdanía, 43

44 Kuvait, Líbýa, Marokkó, Katar, Sádí-Arabía, Túnis, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Angóla, Kenýa og Suður-Afríka. Spá EIU fyrir tímabilið frá 2008 til 2012 er sú að heildareinkunnin aukist í 4,92 og að Nígería færist upp um eitt sæti í 75. sæti, en lækki um eitt sæti til samanburðar við nágrannalönd sín niður í 13. sæti (Economist Intelligence Unit, 2008a). 4.7 Niðurstöður greiningar á pólitíska umhverfinu Pólitíska umhverfið er mikil fyrirstaða fyrir Kötlu Seafood, rétt eins og önnur fyrirtæki sem stefna á þennan markað. Bæði er það mjög óstöðugt og einnig mjög spillt. Það sést best á þeirri staðreynd að árið 2007 var fyrsta árið sem forsetaembættið gekk frá einum borgara til annars og að síðasta herstjórn var við lýði árið Mjög mikilvægt er að erlend fyrirtæki sem ætla að fjárfesta og flytja starfsemi sína til lands þar sem pólitískt umhverfi er óstöðugt geri sér grein fyrir hinni miklu áhættu sem fylgir fjárfestingunni. Allir fjármunir og starfseining fyrirtækisins í landinu gætu t.d. verið þjóðnýtt ef herstjórn tæki völdin. Slíkt hefur alloft komið fyrir í sögu Nígeríu. Fyrir fyrirtæki sem stunda viðskipti erlendis eru lög viðkomandi lands einn mikilvægasti þátturinn í viðskiptaumhverfi landsins. Lagaumhverfið í Nígeríu eins og það er nú er ekki ákjósanlegt fyrir fyrirtæki sem fýsir að hefja starfsemi í landinu og byggja upp fyrirtæki, þá sérstaklega hvað fasteignalög varðar. Bráðnauðsynlegt er að breyta fasteignalögunum þannig að stjórnvöld hafi ekki jafn mikil völd yfir landssvæðum og þau hafa nú. Færa þarf völdin frá ríkisstjórninni yfir á umráðamenn landssvæðanna. Annars munu fyrirtæki ávallt lifa við þá ógn að stjórnvöld taki yfir landsvæði þeirra. Stjórnvöld landsins eru þó velviljuð gagnvart því að fá erlenda fjárfestingu inn í landið og það verður að teljast jákvætt. Hins vegar er viðskiptaumhverfið sjálft engan veginn ásættanlegt fyrir erlend fyrirtæki. Í veginum er alltof mikið af hindrunum sem gera fyrirtækjum afar erfitt að hefja og reka fyrirtæki í landinu eins og kemur fram í skýrslu World Bank Group (2008b). Nánar verður farið í þessar hindranir í næstu köflum. Ríkisstjórnin hefur ráðist í töluverðar umbætur og sýnt örlítinn vilja í verki í tilraunum til að minnka spillingu innan landsins. Ætla má þó að það ferli taki langan tíma sökum afar mikillar spillingar í landinu á flestum stigum þjóðfélagsins. Forseti landsins virðist hægt og bítandi vera að vinna sér traust þjóðarinnar og samkvæmt spám Euromonitor mun það traust aukast á næstu árum. 44

45 Að stjórnarfarið svipi til þess bandaríska telst jákvætt þar sem menn þekkja gangverk stjórnkerfisins í Bandaríkjunum vel. Réttarkerfið er aftur á móti flókið og seinvirkt og heftir þannig getu fyrirtækja til að verja rétt sinn. Herinn og tengsl hans við landsstjórnina undanfarna áratugi er mjög óaðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta. Þó að ríkisstjórnin hafi lýst því yfir að hún hyggist minnka pólitísk tengsl hersins og breyta honum í faglegri stofnun, er það mat skýrsluhöfundar að slíkt sé hægara sagt en gert sökum þess hversu tengdur pólitík herinn hefur verið í sögu landsins. Þrátt fyrir að forsetinn hafi hleypt úr vör efnahagsúrbótaverkefni sem lítur vel út á pappír er það ekki í fyrsta skipti sem slíkt er gert, og yfirleitt standast ekki þau markmið sem sett eru. Það á þó eftir að koma í ljós hvort Yar Adua forseti nái efnahagsmarkmiðum sínum. Ef saga landsins er skoðuð eru líkurnar á að það gerist hins vegar ekki miklar. 45

46 5 Efnahagsumhverfi Til þess að geta rannsakað viðskiptaumhverfi Nígeríu með Kötlu Seafood í huga er lykilatriði að líta á helstu efnahagsþættina sem kynnu að hafa mikil áhrif á gengi fyrirtækisins þar í landi, s.s. stærð markaðar, eigin framleiðslu, innflutning, kaupmátt neytenda, sögu efnahagsins, stöðu efnahagsins í dag, bankastofnanir og gjaldmiðil. 5.1 Stærð markaðar Þar sem fiskur er ein próteinríkasta fæða sem íbúar Nígeríu komast í tæri við og vegna þess hve mikil fátækt er í landinu má segja að stærð markaðar fyrir fyrirtæki eins og Kötlu Seafood sé h.u.b. allur íbúafjöldi landsins, eða á bilinu milljónir manna. Þess ber jafnframt að geta að mikla fjölgun íbúa er spáð í landinu næstu áratugina og talið er að þeir muni einna helst reiða sig á fisk sem helsta próteingjafann (Food and Agricultural Organization of the United Nations, 2007). Nánar er farið út í lýðfræðilegt umhverfi í næsta kafla. 5.2 Kaupmáttur neytenda Stór hluti Nígeríu lifir í fátækt. Í raun er Nígería meðal fátækustu þjóða í heimi þar sem landsframleiðsla (GDP) á hvern einstakling var USD árið Talið er að um 70% af þjóðinni lifi á minna en 1 USD að meðaltali á dag og um 92% á 2 USD eða minna. Hins vegar stangast þessar tölur á við tölur sem ríkisstjórn Nígeríu hefur gefið út. Samkvæmt nýjustu lífsgæðakönnun á vegum hagstofu Nígeríu (National Bureau of Statistics) lifa 51,6 % Nígeríubúa á 1 USD eða minna. Þessi könnun hagstofunnar sýnir að fátækt í landinu er mest í þurrviðrasömum (arid) og óþróuðum fylkjum í norðurhluta ríkisins en minnst í tiltölulega þróuðum fylkjum í suðausturhluta ríkisins og olíuríku héruðunum í suðri (Economist Intelligence Unit, 2008b). Þrátt fyrir að meðaltekjur hafi aukist töluvert milli áranna hefur kaupmáttur í raun lækkað um heil 14%. Ástæðan fyrir þessu er verðbólga í landinu undanfarinn áratug. Verðbólga hefur vaxið hraðar en launahækkanir á þessu tímabili en nánar er fjallað um hana síðar (Euromonitor International, 2007). Árlegar meðalbrúttótekjur árið 2005 voru nairur eða um 361 USD miðað við gengi í lok árs Er þetta hér um bil tvöföldun frá árinu 2000 en þá voru árlegar brúttótekjur nairur að meðaltali, eða um 228 USD miðað við gengi í lok árs Lágar meðaltekjur er hugsanlega hægt að skýra með því að mikill hluti íbúa í Nígeríu eru 46

47 börn, konur vinna oft heima og atvinnuleysi er mikið vandamál. Lágmarkslaun í Nígeríu eru nairur. Tekjuskattur í Nígeríu er 30% af grunnlaunum. Vinnuveitendur hins vegar hjálpa oft starfsfólki sínu með því að hátta launum þannig að aðeins lítill hluti þeirra eru grunnlaun. Launagreiðslur geta þá verið í formi fjárstyrks til þess að greiða af húsnæði, samgöngukostnaðar, viðhalds á bifreiðum og greiðslu fyrir ýmsa þjónustu. Algengt er að fyrirtæki rukki starfsfólk sitt um skatta en skili þeim aldrei inn til skattstofu Nígeríu (Euromonitor International, 2007). 5.3 Gjaldmiðill Gjaldmiðillinn sem notaður er í Nígeríu heitir naira sem skiptist í 100 kobo. Þann 31. desember 2008 var 1 USD = 141,068 nairur á sölugengi (Oanda, 2008). Gjaldeyrisforðinn samkvæmt tölum árið 2005 var 25,2 milljarðar USD, samanborið við 1,4 milljarðar árið 1995 (Turner, 2008). Forðinn hefur breyst töluvert milli ára. Hann minnkaði t.d. allmikið þegar Seðlabanki Nígeríu reyndi að styðja við nairuna með inngripum á markað. Á undanförnum árum hefur hækkandi olíuverð gert Seðlabanka Nígeríu kleift að endurnýja gjaldeyrisforðann. Þrátt fyrir að hafa greitt það sem eftir var af Parísarsamkomulaginu, nam forðinn árið ,3 milljörðum USD. Parísarsamkomulagið var gert við lánardrottna í Parísarklúbbnum (Paris Club) til að aðstoða landið við að greiða erlendar skuldir sem það hafði átt í miklum erfiðleikum með að standa skil á sökum flöktandi olíutekna á 9. áratugnum (Economist Intelligence Unit, 2008b). Ríkisstjórnir Nígeríu hafa löngum litið á nairuna sem tákn um styrk landsins og hafa margir valdamiklir herforingjar litið á lækkandi gengi hennar sem tákn um veikleika. Út af þessum pólitísku sjónarmiðum hefur nairan oft verið verðlögð of hátt í gegnum tíðina. Það gerði það að verkum að útflutningsvörur sem ekki tengdust olíu urðu ósamkeppnishæfar og mikil aukning á innflutningi gerði innlendri framleiðslu erfitt fyrir. Árið 1999 var tvískipt gengi afnumið og ríkisstjórnin kynnti til sögunnar nýjan millibankamarkað með gjaldeyri. Kerfinu var breytt enn frekar árið 2002 þegar Seðlabankinn byrjaði að bjóða upp gjaldeyri í gegnum hollenska uppboðskerfið (dutch auction system). Það gerði það að verkum að þrátt fyrir inngrip Seðlabankans á markaðnum féll nairan í virði á árunum (Economist Intelligence Unit, 2008b). Hækkun olíuverðs árið 2004 gerði Seðlabankanum kleift að viðhalda stefnu sinni. Þar sem engin tákn voru um að olíuverð myndi lækka til millilangs tíma varð Seðlabankinn áhyggjufullur vegna áframhaldandi styrkingar gjaldmiðilsins. Bankinn tilkynnti nýja stefnu í janúar 2005 sem fól í sér að virði nairunnar yrði haldið innan 3% marka í báðar áttir með 47

48 lokagengi ársins sem viðmið. Almennt séð var þetta árangursríkt þar sem nairan var stöðug árið 2005 þannig að 129 nairur jafngiltu 1 USD (N129:1USD) en hún féll örlítið í árslok 2005 í N128:1USD og hélst þannig til ársloka Hins vegar virðist sem snúið hafi verið baki við 3% markinu árið 2007 og gengi nairunnar leyft að styrkjast í N119:1USD undir lok árs (Sjá mynd 5-1) (Economist Intelligence Unit, 2008b). Með því að færast nær fljótandi gengi á gjaldeyrismarkaði og með auknu framboði á gjaldeyri undanfarin ár hefur munurinn milli hliðstæðs gengis og opinbers gengis fallið úr u.þ.b. 20% árið 2001 í 9% árið 2003 og í einungis 5% Í von um að gera gjaldeyrisstjórnun enn frjálsari og minnka muninn sem myndast á hliðstæðum markaði (parallel market) kynnti ríkisstjórnin til sögunnar hollenska heildsöluuppboðskerfið í byrjun árs Hún bætti einnig aðgang gjaldeyrisskiptabanka að gjaldeyri. Þetta hefur hjálpað til við að minnka aukagjaldið (premium) milli opinbera gengisins og hliðstæða gengisins vel undir 5%. Ef olíuverð myndi hins vegar lækka stæði Seðlabanki Nígeríu frammi fyrir erfiðri ákvörðun um hversu langt skuli ganga í inngripum. Bankinn þarf að velja milli þess að láta virði gjaldeyrisins lækka eða viðhalda núverandi virði hans með því að ganga á gjaldeyrisforðann (Economist Intelligence Unit, 2008b). Mynd 5-1. Nígerísk naira gagnvart USD frá og Bonny Light olíuverð í Suður- Afríku. Heimild: Oanda (2008) og Bloomberg (2008). Í lok 2007 og byrjun 2008 leyfði Seðlabanki Nígeríu nairunni að hækka og hefur þannig að því er virðist snúið baki við áætlunum sínum um að halda nairunni innan þröngra 48

49 marka. Þar sem Bandaríkjadalur er veikur og olíuverð hátt mun hækkun hennar líklega halda áfram, alla vega þar til líða fer á árið 2008 skv. spá EIU, og er genginu spáð N117,6:1USD að meðaltali fyrir árið. Búist er við að Bandaríkjadalur muni síðan styrkjast örlítið árið 2009 og það ásamt hóflegu olíuverði ætti að gera það að verkum að nairan falli í verði þannig að 121 nairur jafngildi 1 USD (N121:1USD) að meðaltali (Economist Intelligence Unit, 2008c). Það hefur sýnt sig að þessi gengisspá hefur ræst að hluta til. Olíuverð hefur þó lækkað meira en gert var ráð fyrir. Ljóst er að það hefur mikil áhrif á gengi nairunnar því Seðlabankinn getur ekki endalaust haldið henni innan ákveðinna marka ef olíuverð hefur hreyfst mikið eins og áður var komið að. Það lækkaði t.d. mjög mikið á seinni hluta ársins 2008 og á sama tíma var USD að styrkjast. Þetta hefur haft mikil áhrif til lækkunar á nairunni en henni var leyft að falla í 141,06 nairur á móti 1 USD í lok árs 2008 (Sjá mynd 5-1). Þetta hefur áhrif á kaupmátt Nígeríubúa á innfluttum vörum. Seðlabanki Nígeríu hyggst á árunum gera nairuna enn frjálsari. Jákvæð afleiðing af því yrðu frekari lækkanir á aukagjaldinu milli opinbera gengisins og hliðstæða gengisins. Almennt markmið er að halda mismuninum undir 5% en innan þeirra marka telur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hann ekki vera vandamál. Þetta ætti ekki að vera of erfitt að því tilskildu að olíuverð hækki eitthvað á ný og skuldbinding Seðlabankans við aukið gengisfrelsi haldist á réttri braut (Economist Intelligence Unit, 2008c). 5.4 Efnahagurinn frá sjálfstæði Með tilkomu olíuiðnaðarins á seinni hluta 6. áratugarins og hröðum vexti hans á 7. áratugnum varð gengi nígeríska gjaldmiðilsins of hátt verðlagt. Það gróf þannig undan innlendum framleiðsluiðnaði og afurðavinnslu í landbúnaði. Þrátt fyrir að olíuiðnaðurinn leiddi til töluverðra fjárfestinga, sem margar hverjar eru í niðurníðslu núna, var helsta vandamálið mikil sóun og spilling, t.d. reyndu leiðtogar að auka orðstír sinn með ýmsum byggingum og verkefnum í eigin þágu á þéttbýlissvæðum. Þegar olíuverð féll mistókst þáverandi ríkisstjórn jafnframt að draga úr of metnaðarfullum áætlunum og af því hlaust mikil skuldsetning ríkisins. Ríkisstjórnin átti erfitt með að snúa við ójafnvæginu í efnahagslífinu sem kom í kjölfar ófullnægjandi stjórnunar á olíutekjum og hún réð ekki nægilega vel við flöktandi alþjóðlegt verð á olíu. Það er vegna þessa, ásamt mikilli fátækt, að margir íbúar Nígeríu líta frekar á olíuna sem bölvun heldur en blessun (Economist Intelligence Unit, 2008b). 49

50 Upphaf 8. áratugarins einkenndist af hnignandi efnahag, minnkandi lífsgæðum og skuldakreppu. Til að bregðast við þessum vandamálum árið 1986 steig Ibrahim Babangida, hershöfðingi og þáverandi leiðtogi Nígeríu, það hugrakka skref að innleiða endurbætur að hætti Alþjóðagjaldeyissjóðsins (IMF) (limited style reforms). Langþráðum breytingum var komið á, þar á meðal afnámi á afkastalitlum nefndum sem festu verðið á landbúnaðarvörum (Price fixing agricultural commodity boards). Dregið var hóflega úr innlendum eldsneytistyrkjum, bankastarfsemi var gerð frjálsari og gengi nairunnar var látið fljóta að hluta til (partial liberalisation of the exchange rate). Þessi stefnubreyting með áætlanir IMF að leiðarljósi gerði Nígeríu kleift að verða sér út um endurfjármögnun frá ýmsum lánadrottnum (bilateral creditors) og viðskiptabönkum. Endurbætur og utanaðkomandi fjárhagsaðstoð gerði það að verkum að hagvöxtur jókst. Í upphafi 9. áratugarins tók Babangida hins vegar að einbeita sér meira að póltíkinni og við það stöðvuðust endurbætur á efnahagnum. Eftir stutta uppsveiflu á olíuverði vegna Persaflóastríðsins jókst eyðsla stjórnvalda óhóflega og fljótlega varð fjárlagahallinn yfir 10% af þjóðarframleiðslu í kringum Undir stjórn Sani Abacha hershöfðingja frá árslokum 1993 til 1998 varð efnahagsstefnan aftur einangraðari og þjóðernissinnaðri (nationalistic stance) og samningur við IMF var ekki endurnýjaður (Economist Intelligence Unit, 2008b). Í kjölfar misheppnaðra tilrauna til þess að stjórna efnahagnum með tilskipunum og á tímum aukinnar staðbundinnar viðskiptaeftirspurnar breytti ríkisstjórnin um stefnu. Hún breytti áherslum sínum í frjálsræðisátt frá ríkisforsjá til stýrðrar markaðsvæðingar (guided deregulation). Mikilvægasti þáttur hennar var endurstofnun óháðs erlends gjaldeyrismarkaðar þar sem N21,9:USD1 var haldið sem opinberu gengi fyrir valdar opinberar færslur. Aukið frjálsræði í innflutningi árið 1995 kom fram í minnkandi skattaálögum og þannig dró úr hömlum gegn því að stunda viðskipti. Eftir fráfall Abacha hershöfðingja í júní 1998 kunngerði nýr leiðtogi landsins, Abdulsalami Abubakar, fleiri endurbætur á markaðnum. Það sem bar hæst var að ríkisstjórnin felldi úr gildi tvískipt gengi (dual exchange rate), opnaði efnahaginn fyrir erlendum fjárfestingum, dró úr höftum innlenda eldsneytisiðnaðarins og tilkynnti víðtækt einkavæðingaverkefni (Economist Intelligence Unit, 2008b). Í febrúar árið 1999 féllst Nígería aftur á að taka þátt í verkefni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins undir eftirliti hans. Það þótti benda til þess að ríkisstjórnin hefði ríkari vilja til endurbóta á markaði og úrbóta á samskiptum milli Nígeríu og Sjóðsins en þau höfðu verið stirð um árabil. Ríkisstjórnin náði hinsvegar ekki flestum af viðmiðum sínum í samkomulaginu við Sjóðinn sem talin voru léttvæg. Það var að hluta til vegna vísvitandi 50

51 stefnu um að gera engar stórvægilegar endurbætur áður en búið var að ná á lýðræði í landinu. Herstjórnin jók eyðslu ríkisins með því að ganga á gjaldeyrisforðann og það oft til persónulegra nota. Þetta leiddi til langvarandi lagadeilu núverandi ríkisstjórnar til að endurheimta hluta af gjaldeyrisforðanum sem Abacha fjölskyldan hafði tekið ófrjálsri hendi eins og áður hefur komið fram og hafa heimtur verið töluverðar (Economist Intelligence Unit, 2008b). Ríkisstjórn Obsanjo forseta lagði sig í líma við að byggja upp frjálsan og markaðsvæddan efnahag, knúinn áfram að mestu leyti af einkavæðingu. Hins vegar hafði stjórn hans einnig á stefnuskrá sinni að minnka fátækt og hygla innlendri framleiðslu og sú áhersla stangaðist stundum á við markaðsöflin. Ríkisstjórnin aðhylltist jafnframt inngrip ríkisins í ákveðnum málefnum (selected state intervention) t.d. með því að setja innflutningsbönn og veita fjárstyrki. Efnahagsúrbætur gengu mjög hægt fyrsta kjörtímabil Obsanjo því mikill tími fór í að koma á borgaralegri stjórn og menn höfðu ekki bein í nefinu til þess að ráðast í erfiðar aðgerðir í framfaraátt. Ríkisstjórninni mistókst að ná flestum af þeim metnaðarfullu markmiðunum sem fram komu í efnahagsáætlunum og gefin voru út í Nigerian Economic Policy og í framhaldi af því í Framework for Nigeria s Economic Growth and Development Við þetta má bæta að ríkisstjórnin náði lánasamkomulagi (stand-by agreement) sem nam 1,03 milljörðum USD við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í ágúst árið 2000 en litlar efndir urðu á þeim skilyrðum sem þar voru sett þó ekki sé unnt að segja að þau hafi verið mjög íþyngjandi. Þetta leiddi til þess að samkomulaginu var rift í febrúar 2002 (Economist Intelligence Unit, 2008b). Eftir endurkjör forsetans árið 2003 sýndi bæði hann og ríkisstjórnin öll einarðari vilja til að innleiða efnahagsúrbætur þá sérstaklega skynsamari fjárlagagerð. Í ársbyrjun 2004 kom ríkisstjórnin á fót áætlun varðandi innanlandsstefnu, (NEEDS), sem var á sömu nótum og áætlun Alþjóðabankans og IMF um minnkun fátæktar sem mörg nágrannalönd Nígeríu tóku upp. Ólíkt því sem áður hafði tíðkast í landinu var leitað álits hjá almenningi á einu stigi málsins. Á grundvelli þess bjuggu fylkisstjórnir til sína eigin útgáfu af NEEDS, sem gengur undir heitinu State Economic Development Strategy, eða SEEDS. Yar Adua tók við völdum árið 2007 og lofaði að viðhalda efnahagsúrbótum forvera síns og raunar að ganga enn lengra. Núverandi ríkisstjórn hefur samþykkt að hrinda NEEDS-2 í framkvæmd en samkvæmt þeirri áætlun eru helstu áhersluatriðin 7 talsins. Þau eru: að bæta framboð af rafmagni, efla landbúnað, auka atvinnumöguleika, bæta hrörlegt samgöngukerfi, endurskipuleggja eignarrétt yfir landssvæðum, auka öryggi, þá sérstaklega á Niger Delta svæðinu og bæta skólakerfi 51

52 landsins. Af þessum 7 þáttum er mesta áskorunin talin vera að bæta framboð á rafmagni. Skóinn kreppti verulega hjá síðustu ríkisstjórn í þeim málum (Economist Intelligence Unit, 2008b). Ríkisstjórnin hefur einnig lofað semja aðgerðaáætlun til að koma efnahag Nígeríu í hóp þeirra 20 öflugustu fyrir árið Lofað hefur verið að birta beinagrind þessarar áætlunar í janúar 2009 (Economist Intelligence Unit, 2008b). 5.5 Efnahagurinn í dag Efnahagur Nígeríu er mjög háður olíu. Til hennar má rekja 33% af þjóðarframleiðslu, um 80% af tekjum ríkisstjórnar og um 95% af útflutningstekjum. Frá því að landið hlaut sjálfstæði sitt hefur veik og spillt ríkisstjórn farið illa með efnahaginn. Um það bil 70% af þjóðinni lifa í fátækt, samanborið við 43% árið Svarti markaðurinn myndar 77% af opinberri þjóðarframleiðslu landsins og er það hlutfall eitt af því hæsta í heiminum (Turner, 2008). Mismunun er mjög algeng meðal íbúa landsins. Innan olíuframleiðslugeirans (rúmlega 5 milljónir manna) eru meðaltekjur u.þ.b USD á ári. Utan hans eru meðaltekjurnar u.þ.b. 200 USD á ári (Turner, 2008). Nígería er aðili að OPEC (Organization of Petrolium Exporting Countries) og árið 2006 var meðalhráolíuframleiðsla þar u.þ.b. 2 milljónir tunna á dag. Ýmislegt er að hrjá nígeríska olíuiðnaðinn. Tengslin eru slæm milli fyrirtækja og innlendra þegna ríkisins, skemmdir hafa verið unnar á innviðum olíuiðnaðarins (oil infrastructure), alvarlegt vistfræðilegt tjón hefur verið unnið og öryggi almennings hefur verið lítið á öllu Niger Delta svæðinu þar sem olía er framleidd. Nú hefur verið ýtt úr vör aðgerðum til höfuðs þessum vandamálum. Stóru olíufyrirtækin hafa t.d. ráðist í uppbyggingarverkefni í þágu samfélagsins og NDDC (Niger Delta Development Commission) var stofnað til að hvetja til efnahags- og samfélagsuppbyggingar á svæðinu (U.S. Department of State: Bureau of African Affairs, 2008). Landbúnaðurinn hefur þurft að sæta illri meðferð, óstöðugleika, fyrirhyggjuleysi í stefnu stjórnvalda og skorti á eðlilegum innviðum. Samt má rekja 41% af þjóðarframleiðslu landsmanna og 2/3 af atvinnu þeirra til þessarar greinar. Vöxtur utan olíuiðnaðarins var árið %, en hann var mestur í landbúnaði. Nígería telst ekki lengur meðal helstu útflytjenda á kakó, jarðhnetum, gúmmí, eða pálmaolíu. Kakóframleiðsla byggist mestmegnis á úreltum tegundum og of gömlum trjám og hefur staðið í stað í um tonnum árlega; fyrir 52

53 25 árum var hún tonn. Jafnvel enn meiri hnignun hefur orðið á framleiðslu á jarðhnetum og pálmaolíu. Eitt sinn var landið stærsti alifuglaframleiðandi í Afríku en framleiðsla fyrirtækja hefur fallið úr 40 milljónum fugla árlega niður í 18 milljónir fugla. Innflutningshöft hafa takmarkað framboð ýmissa aðfanga fyrir landbúnað og matvælavinnslu, t.d. fyrir alifuglaiðnaðinn og fleiri greinar (U.S. Department of State: Bureau of African Affairs, 2008). Þótt lýðræðisskipulag sé nú við lýði í ríkjasambandinu Nígeríu hafa fylkisstjórnir sumra fylkjanna þó nokkuð sjálfstæði. Þetta hefur skapað vandkvæði við þróun nýrrar efnahagsstefnu og útfærslu hennar. Sérstaklega hefur borið á þessu í ríkisfjármálum (fiscal management) þar sem fylkisstjórnir sem ekki hafa mikið fjármagn milli handanna og fá u.þ.b. helminginn af skatttekjum (public revenue) hafa ekki verið jafnaðhaldssamar í eyðslu á olíutekjum og ríkisstjórnin. Það sem flækir málið enn frekar er að fylkin hafa oft sína eigin stefnu og fjárhagsáætlanir sem í sumum tilvikum hreinlega stangast á við stefnu ríkisstjórnar landsins (Economist Intelligence Unit, 2008b). Verðbólga sem var 8,2% árið 2006 féll í 5,4% árið 2007 (Sjá mynd 5-2) sökum lægra matvælaverðs og endurbættrar peningamálastefnu. Þrátt fyrir endurbætur á stefnunni er búist við að óhófleg greiðslugeta vegna hás olíuverðs, aukin ríkisútgjöld (fiscal expenditure) og hátt alþjóðaverð á matvælum eigi eftir að reynast töluverð áskorun fyrir Seðlabankann árin við að halda verðbólgu í skefjum (Economist Intelligence Unit, 2008b). Þar að auki telur EIU að frammistaða landbúnaðar muni versna og muni það leiða til hærra matvælaverðs strax árið 2008 (Economist Intelligence Unit, 2008b). Mynd 5-2. Verðbólga Heimild: Oxford Economics (2008) 53

54 Ef litið er á jákvæðu hliðarnar mun narian, sökum þess hversu sterk hún er, halda innflutningsverði innan skikkanlegra marka. Þegar á heildina er litið er spáð hækkandi verðbólgu í 7,6% árið 2008 og 8,0% árið 2009 (Economist Intelligence Unit, 2008a). 5.6 Bankastofnanir Frá árinu 1986 tók bönkum að fjölga mjög í landinu. Árið 1985 var þar starfræktur 41 banki en árið 1997 var fjöldi þeirra kominn í 115. Árið 1998 tók ríkisstjórnin yfir 26 banka sem voru í vandræðum og minnkaði þannig heildarfjölda þeirra í 89 (51 viðskiptabanka og 38 fjárfestingarbanka). Í janúar 2001 heimilaði Seðlabanki Nígeríu bönkum að skrá sig sem alhliða banka (universal banks) og þar með þurftu þeir ekki lengur að takmarka sig annað hvort við viðskipta- eða heildsölubankastarfsemi. Minna regluverk í fjármálageiranum hrinti af stað auknum vexti fjármálafyrirtækja sem ekki eru eiginlegir bankar (non-bank financial institutions) svo sem samfélagsbanka, gjaldeyrisviðskiptabanka og húsnæðislánabanka (mortgage bank) (Economist Intelligence Unit, 2008b). Hraður vöxtur fjármálageirans reyndi meira á getu stjórnvalda (regulatory authorities) til að hafa eftirlit með honum. Þótt Seðlabankinn hafi allar götur síðan 1986 kynnt í áföngum endurbætur sem ætlað var að styrkja eignarfjárgrunn bankanna, höfðu þær lítil áhrif vegna tregðu Seðlabankans til að loka bönkum (Economist Intelligence Unit, 2008b). Hins vegar var eitt af fyrstu verkum nýs seðlabankastjóra, Chukwuma Soludo, árið 2004 að tilkynna að innborgað lágmarkshlutafé (minimum paid up capital) skyldi hækka úr 2 milljörðum naira í 25 milljarða naira hjá öllum bönkum frá 31. desember Við þetta urðu grundvallarbreytingar á fjármálakerfinu þar sem fjöldi skráðra banka hefur fallið úr 89 í 25 eftir að nýja löggjöfin tók gildi (Economist Intelligence Unit, 2008b; Euromonitor International, 2007; Siddiqi, 2006). Af þessum 25 voru einungis 6 sem stóðust nýju fjármálakröfurnar án þess að þurfa að sameinast, en afgangurinn myndaði nýjar bankasamstæður (banking groups). Þegar á heildina er litið stóðust 13 bankar ekki nýju kröfurnar og verið er að gera þá upp (liquidate). Frá því að endurbæturnar áttu sér stað hafa þó nokkrir bankar styrkt fjárhagslega stöðu sína enn frekar eftir að hafa snúið aftur á fjármálamarkaðinn til að safna fjármagni í útþensluverkefni. Í nóvember 2007, sem auðkenndist af hröðum vexti nígerísku bankanna eftir endurbæturnar, sagði Soludo að 11 bankar væru að markaðsvirði milli 1 milljarðs USD og 5,3 milljarða USD, og var búist við að nokkrir þeirra myndu gefa út hlutafé sem nam rúmlega 1 milljarði USD í árslok 2007, samanborið við enga hlutabréfaútgáfu árið Jafnframt lækkaði hlutfall lána af 54

55 heildarlánum sem ekki fengust greidd úr 23% fyrir endurbæturnar í 7% árið 2007 (Economist Intelligence Unit, 2008b). Fyrir endurbætur Soludo voru samanlagðar eignir þeirra 89 banka sem voru í landinu minni en eignir fjórða stærsta banka Suður-Afríku, og árið 2005 voru eignir þeirra metnar á 52,28 milljarða USD (Siddiqi, 2006). Hins vegar sýna tölur frá árinu 2006 frá Seðlabanka Nígeríu að eignir United Bank for Africa, sem skipar sér í efsta sæti í Nígeríu hvað eignir varðar, voru metnar á 822 milljarða naira, eða um 6,4 milljarða USD á gengi ársins Eins og sjá má hefur vöxtur verið óhemju mikill í nígeríska bankakerfinu. Sem vott um vel heppnaðar endurbætur á bankakerfinu í Nígeríu hreppti Charles Soludo titilinn Seðlabankamaður ársins eða Global Central Banker of the Year hjá hinu virðulega tímariti The Banker. Með því varð hann fyrsti afríski seðlabankastarfsmaðurinn til að hljóta þennan heiður (Siddiqi, 2006). Þrátt fyrir að nýju bankarnir séu augljóslega betur fjármagnaðir og mun skilvirkari en forverar þeirra stendur fjármálageirinn ennþá andspænis ýmsum grundvallaráskorunum. Aðallega má í því sambandi nefna að nígerískir bankar einkennast af mjög mikilli skriffinnsku og að efnahagur í Nígeríu byggist í megindráttum á reiðufé (Economist Intelligence Unit, 2008b). Seinna atriðið er mikið vandamál þar sem öryggisógnir gera flutning reiðufés mjög flókinn en um 84% af peningaforða Nígeríu er utan bankakerfisins. Einnig þjónar bankageirinn einungis lágu hlutfalli af þjóðinni allri, eða um 5 milljónum íbúa, og einungis 10% af bankalánum renna til einstaklinga (Siddiqi, 2006; Economist Intelligence Unit, 2008b). Rafrænar greiðslur eru nýtilkomnar og fjöldi hraðbanka er enn af afar skornum skammti. Þrátt fyrir þetta hefur traust á geiranum aukist í kjölfar endurfjármögnunar og erlendir bankar hafa sýnt markaðnum áhuga. Jafnframt búast flestir sérfræðingar við því að önnur sameiningarbylgja (consolidation) bankakerfisins hefjist fljótlega og þannig munu skapast jafnvel enn stærri bankar sem eru samkeppnishæfir svæðisbundið eða jafnvel á alþjóðamarkaði (Economist Intelligence Unit, 2008b) Netbankar Netbankakerfi er enn stutt á veg komið í landinu og netþjónusta flestra banka takmarkast við að viðskiptavinir geti kynnt sér stöðu á reikningum sínum. Íbúar landsins virðast ekki treysta sér til að stunda netviðskipti enn sem komið er vegna ótta við glæpi og svindl (Euromonitor International, 2007). 55

56 5.6.2 Greiðslukort Notkun greiðslukorta eykst jafnt og þétt í Nígeríu og hefur fjöldi þeirra u.þ.b. tvöfaldast frá árunum , úr í Þessa aukningu má rekja til þess að bankarnir hafa keppst við að bjóða neytendum sínum sem best kjör. Smám saman hefur þekking neytenda á notkunarmöguleikum greiðslukorta aukist þökk sé markaðssetningu fjármálafyrirtækja á greiðslukerfum sínum. Jafnframt skýrist aukin greiðslukortanotkun af því að yngri Nígeríubúar eru fljótari að aðlaga sig tækninni. Þau greiðslukort sem í boði eru í Nígeríu eru hraðbankakort, debitkort og kreditkort. Hraðbankakortin eru vinsælust þar sem bankar bjóða upp á þau ókeypis og hraðbankar eru orðnir fleiri og aðgengilegri í landinu. Færst hefur í aukana að unnt sé að borga með kortum þar sem æ fleiri sölustaðir eru búnir þeirri tækni sem þarf til að taka á móti slíkum viðskiptum. Áframhaldandi vöxtur kortanotkunar er háður því hvernig tekið verður á fjármálasvindli þeim tengdum. Enn sem komið er treysta íbúar landsins þessu kerfi ekki fullkomlega (Euromonitor International, 2007). 5.7 Niðurstöður greiningar á efnahagsumhverfinu Stærð fiskmarkaðar í Nígeríu er mjög fýsileg fyrir erlend fyrirtæki í þessum geira. Eðlilegt væri að ætla að hin mikla fátækt sem ríkir í landinu hafi neikvæð áhrif á sölumöguleika á fiski, en því er þveröfugt farið. Lítill kaupmáttur hins almenna neytanda í Nígeríu gerir það að verkum að töluvert meiri eftirspurn er eftir fiskafurðum en mörgum dýrari staðkvæmdarvörum eins og kjúklingakjöti, nautakjöti og geitakjöti. Fiskurinn er yfirleitt ódýrari og í mörgum tilvikum næringarríkari en flestar staðkvæmdarvörur sem í boði eru; þar af leiðandi er eftirspurnin mikil þrátt fyrir sára fátækt. Ljóst er að efnahagur Nígeríu er ekki upp á marga fiska í alþjóðlegum samanburði. Mikil fátækt ríkir og misskipting auðs í landinu er veruleg. Nýting helstu auðlindar landsins, olíunnar, hefur stjórnast af mikilli spillingu og ýtt undir eyðslu fylkjanna, án þess að sú eyðsla hafi skilað sér til hins almenna borgara. Efnahagur landsins er afar háður olíuverði sem hefur áhrif á gengi gjaldmiðilsins og verðbólgu. Olíuverð hverju sinni hefur áhrif á það hvernig stjórnvöld verja olíutekjunum. Þó má ekki gleyma því að töluverðar umbætur hafa orðið á efnahagskerfinu undanfarin ár. Jákvætt er að bankakerfið hefur verið tekið til gagngerrar endurskoðunar og skilvirkara regluverk liggur nú að baki því. Stjórnvöld hvetja til erlendrar fjárfestingar í landinu. Sterkt gengi nairunnar vegna olíuverðs undanfarin ár getur verið jákvætt fyrir Kötlu Seafood. Ef nairan er sterk hafa íbúar efni á meiri innfluttum fiski en ella þrátt fyrir þá fátækt sem við lýði er í landinu. Katla þarf þó að hafa í huga þá einhæfni 56

57 sem einkennir efnahag landsins, en hann byggist að mestu á olíuframleiðslu og landbúnaði. Framboðsskellir í þessum geirum gætu því haft mikil áhrif á lífsgæði í Nígeríu og kaupmátt íbúa. Miklar endurbætur á bankakerfinu undanfarin ár eru eins og áður sagði mjög jákvæðar fyrir erlenda fjárfesta. Það orðspor fer að vísu af landinu að spilling sé þar veruleg, en vitneskjan um að bankakerfið sé orðið nokkuð traust og að vaxtar sér vænst gefur tilefni til bjartsýni. Fráhrindandi er þó fyrir erlenda fjárfesta að efnahagurinn byggir að mestu leyti á reiðufé og þannig verður erfiðara um vik að flytja peninga. Annar ókostur er að spilling og fátækt veldur því að fólk treystir ekki fyllilega netbönkum og greiðslukortum. Ef unnt væri að auka notkun rafrænna greiðslukerfa yrðu fjármagnsflutningar erlendra fjárfesta mun auðveldari. Það hjálpar ekki til að stefna einstakra fylkja er í sumum tilvikum í blóra við stefnu ríkisstjórnar landsins. Helsti kostur nairunnar er að útflutningur Nígeríu á olíu rennir undir hana öflugum stoðum. Hins vegar gerir sterkt gengi aðstæður erfiðari fyrir aðrar útflutningsvörur Nígeríu því samkeppnishæfni þeirra erlendis minnkar. 57

58 6 Lýðfræðilegt umhverfi Nígería er fjölmennasta land Afríku og er 9. fjölmennasta land heims (Euromonitor International, 2007). Heildaríbúafjöldi Nígeríu er talinn vera u.þ.b milljónir en erfitt er að segja til um nákvæman íbúafjölda sökum þess hversu illa er haldið utan um manntal í landinu. Að gefnu tilefni ber að taka allri tölfræði frá Nígeríu með fyrirvara. Samkvæmt Central Intelligence Agency (2008) er heildarfjöldi íbúa 138,3 milljónir árið 2008 en samkvæmt Economist Intelligence Unit (2008b) var hann 144,7 milljónir í mars Tölur úr öðrum skýrslum, svo sem frá Euromonitor (2007), benda til þess að íbúafjöldinn sé á bilinu milljónir og rannsakandi styðst við það. Hinn mikli íbúafjöldi skýrist e.t.v. að hluta til af því að á árum áður, þegar landbúnaður var algengasta atvinna fólks, voru börn skyldug til að vinna á býlinu. Eftir því sem eftirspurn eftir vörum bóndans varð meiri jókst þörfin fyrir aukin barnafjölda og þá fyrst og fremst drengi. Þótt aðstæður hafi breyst í þessu tilliti kjósa flestir að eiga stóra fjölskyldu fremur en litla (Euromonitor International, 2007). Mælingar í mars 2006 bentu til þess að fólksfjölgun í landinu sé 3,2%. Sameinuðu þjóðirnar hafa spáð töluverðri fjölgun íbúa en samkvæmt áætlun þeirra verður heildarfólksfjöldi orðinn 203 milljónir árið 2025 og 279 milljónir árið Ef spáin rætist yrði Nígería að sjötta fjölmennasta landi í heimi (Economist Intelligence Unit, 2008b). Lestrarkunnátta fullorðinna hefur aukist á undanförnum tveimur áratugum úr 55,4 % á árunum í 69,1 % á árunum og hefur núverandi forseti lagt mikla áherslu á að efla gæði kennslu um allt land (Economist Intelligence Unit, 2008b; Central Intelligence Agency, 2008). Hins vegar hafa gæði almenningsskóla minnkað töluvert. Þar af leiðandi hefur eftirspurn vaxið eftir einkaskólum og þeim hefur fjölgað í takt við það. Einnig hefur verið mikil útþensla í háskólakerfinu. Á síðustu áratugum hefur fjöldi háskóla aukist úr 5 árið 1960 í 80 árið 2008, og þar af eru 34 einkaháskólar. Heildarfjöldi háskólanema tvöfaldaðist frá 2001 til 2005 en hann var árið 2005 (Economist Intelligence Unit, 2008b). Opinbert tungumál landsins er enska, en einnig notast íbúar Nígeríu við hausa, yoruba, igbo (ibo) og fulani sem eru tungumál sem heita eftir helstu þjóðarbrotum landsins (Central Intelligence Agency, 2008). 58

59 Heilsugæsla í Nígeríu hefur nánast ávallt verið slæm og virðist jafnframt hafa farið versnandi á undanförnum árum. Þær takmörkuðu auðlindir sem varið hefur verið í heilsugæslu hafa frekar runnið til starfsfólks en til bygginga eða tækjabúnaðar. Ríkið varði 4,5 % af útgjöldum í heilsugæslu á árunum Til þess að auka fjárstreymi til heilsugæslunnar var komið á fót heilsutryggingum fyrir nígerísku þjóðina. Gegn vægum útgjöldum var þegnunum gefinn kostur á að tryggja sér ókeypis heilsugæslu fyrir sig, maka sinn og 4 börn. Þjónusta heilsugæslunnar fól ekki í sér meðhöndlun illvígra sjúkdóma á borð við krabbamein og alnæmi (HIV/AIDS). Samkvæmt tölum frá árinu 2005 var einungis í boði eitt legurúm á hverja íbúa, hlutfall fólks og lækna var 1.059:1, og hlutfall fólks og hjúkrunarfræðinga var 714:1 (Economist Intelligence Unit, 2008b). Í hættuástand stefnir í Nígeríu sökum HIV-faraldursins. Samkvæmt stjórnvöldum hefur tekist að hægja á og minnka útbreiðslu á sjúkdómnum og hafa útbreiðslutölur lækkað úr 5,2 % árið 2004 í 4,4 % árið Þrátt fyrir þetta gerir heilbrigðisráðuneytið sér ljóst að vandamálið hefur enn alla burði til að verða gríðarstórt. Til eru landssvæði þar sem yfir 20 % af þeim íbúum sem stunda kynlíf eru smitaðir af veirunni. Mikill mismunur er milli fylkja á útbreiðslutíðni HIV-smits, sem nemur allt frá 1,2 % upp í 12 % (Economist Intelligence Unit, 2008b). 6.1 Aldursdreifing Ef litið er á aldursdreifingu landsins árið 2005 er stærstur hluti íbúa börn á aldrinum 0-4 ára, eða 21,3 milljónir, og næststærsti hópurinn er börn á aldrinum 5-9 ára, eða 18,8 milljónir (Euromonitor International, 2007). Talið er að um 40 % af heildarfjölda íbúa séu börn og unglingar yngri en 15 ára (Central Intelligence Agency, 2008; Economist Intelligence Unit, 2008b). Það mynstur sem einkennir aldursdreifingu er með öðrum orðum að því yngri sem aldurshópar eru þeim mun fjölmennari eru þeir. Meðalaldur íbúa Nígeríu var u.þ.b. 18 ár árið Nígeríska þjóðin telst mjög ung en þrátt fyrir það hefur meðalaldur hækkað hægt og rólega með árunum. Til dæmis var meðalaldurinn rúmlega 16 ár árið Samkvæmt spá Euromonitor International (2007) er áætlað að hann verði rúmlega 19 ár árið Að hluta til skýrist ungur aldur þjóðarinnar af stuttum lífslíkum en þær eru á bilinu ár (Central Intelligence Agency, 2008; Euromonitor International, 2007). Einnig eignast konur börn frekar snemma á lífsleiðinni, eða rétt rúmlega 20 ára gamlar. Þessi tala hefur þó hækkað á undanförnum árum, en árið 1990 var hún rúmlega 18 ár (Euromonitor International, 2007). 59

60 Karlar eru taldir vera tæplega helmingur af heildaríbúafjölda eða u.þ.b. 68 milljónir og verða samkvæmt spá Euromonitor International orðnir 72 milljónir árið Meirihluti karla tilheyrir yngstu aldursflokkunum, en árið 2005 var yfir helmingur þeirra undir 19 ára aldri (Central Intelligence Agency, 2008; Euromonitor International, 2007). Ástæðan fyrir þessu er talin vera léleg heilsugæsla, há tíðni ofbeldisglæpa og umferðarslysa (road accident) og mikil fátækt. Þetta leiðir til aukinna dauðsfalla meðal Nígeríubúa (Euromonitor International, 2007). Konur Nígeríu fylgja sama mynstri og karlarnir þar sem yfir helmingur þeirra er undir 19 ára aldri. Hins vegar hefur staða og hlutverk kvenna í Nígeríu breyst með árunum. Í gegnum tíðina hafa nígerískar konur gegnt hlutverki heimavinnandi húsmóður sem sér um bæði heimili og börn. Í dag eru konur í Nígeríu hins vegar farnar að gegna öðrum hlutverkum í samfélaginu með aukinni þátttöku í félagslegum, efnahagslegum og pólitískum málefnum. Konur eru örlítið fjölmennari en karlar í Nígeríu. Ástæðuna má rekja til lífsstíls karlmanna en meira álag er á þeim og þar af leiðandi eru heilsufarsvandamál mun algengari meðal þeirra en kvenna (Euromonitor International, 2007). Í heildina er talið að fjöldi vinnandi fólks hafi verið um 49,6 milljónir árið 2006 (Economist Intelligence Unit, 2008b). 6.2 Fiskneysla samanborið við aðrar próteinríkarvörur Fiskur skipar stóran sess í mataræði Nígeríubúa bæði vegna þess að auðvelt er að nálgast hann og vegna þess að hann stenst allar gæðakörfur. Í samanburði við kjötvörur er hann fremur ódýr, en samt næringarríkari og auðveldari í geymslu. Um hann stendur einnig minni styr en margar aðrar próteinríkar dýrategundir þar sem engar félagslegar, menningarlegar eða trúarlegar ástæður hindra neyslu hans. Til hans má rekja 28 % af því próteini sem fengið var úr dýrum í meðalmáltíð í Nígeríu árið 2004 (Food and Agricultural Organization of the United Nations, 2007). Hins vegar leggja stórir hópar í Nígeríu fjölmargar próteinríkar fæðutegundir sér aldrei til munns af ýmsum ástæðum, ýmist vegna trúarskoðana, menningar eða annars þess háttar. Mikill mismunur er á sérreglum um mataræði eftir búsetusvæðum og hverrar trúar viðkomandi er. Listinn er langur, en til gamans má nefna nokkur dæmi og ástæðurnar sem liggja að baki. Börnum og óléttu kvenfólki er t.d. bannað að borða egg í sumum hlutum Nígeríu, þrátt fyrir próteingildi þeirra. Hvað börnin varðar er ástæðan sú að fólkið trúir því að börn sem fá að neyta eggja verði að þjófum sem ræna til þess að geta keypt egg í framtíðinni. Hvað viðvíkur konunum er talið að egg muni gera ófætt barn þeirra of feitt þannig að móðirin geti ekki fætt barnið á venjulegan máta og barnið verði vanskapað (Onuorah og Ayo, 2003). 60

61 Annað dæmi eru svín, en í sumum hlutum Nígeríu hafa menn illan bifur á því að borða svínakjöt. Ástæðan er trúarleg en svín eru talin óhrein dýr, þar sem þau eru sögð bera orma. Einnig er sagt að neysla vanfærra kvenna á svínakjöti valdi því að afkvæmi þeirra líti út eins og svín og hrjóti alla ævi sína. Að lokum má nefna sveppi, en sumir trúa því að sveppirnir hafi verið gróðursettir af guðunum og það styggi því guðina að borða þá (Onuorah og Ayo, 2003). Þetta eru einungis nokkur dæmi af fjöldamörgum próteinríkum matvælum sem ekki er neytt af hluta íbúa Nígeríu. Þar sem fiskur hefur lítið trúarlegt eða menningarlegt gildi mun hann gegna stóru hlutverki í að næra íbúa Nígeríu á komandi árum, sérstaklega ef litið er til mikillar fjölgunar íbúa í framtíðinni. 6.3 Niðurstöður greiningar á lýðfræðilega umhverfinu Aðdráttarafl fiskmarkaðar Nígeríu felst aðallega í því hversu stór hann er og hversu miklum vexti honum er spáð næstu 40 árin. Fiskneysla er einnig mjög mikilvæg fyrir almenna heilsu íbúa og veldur það umtalsverðri eftirspurn. Fyrirtæki eygja því mikla vaxtarmöguleika fólgna í því að hasla sér völl á þessum markaði. Það sem er jákvætt við lýðfræðilegt umhverfi í Nígeríu er að nám og kennsla fara almennt batnandi með hverju árinu. Mikilvægt er að grunnmenntun sé fyrir hendi og í boði sé vel menntaður starfskraftur fyrir erlend fyrirtæki sem hyggjast stunda viðskipti í Nígeríu og ráða fólk til starfa. Lestrarkunnátta, fjöldi einkaskóla og háskóla fer vaxandi, en hins vegar hefur dregið úr gæðum almenningsskóla. Sú staðreynd að enska sé opinbert tungumál landsins er mjög jákvætt fyrir erlend fyrirtæki þar sem samskipti munu auðveldast til mikilla muna. Einnig er jákvætt að staða kvenna fer batnandi. Þetta gefur fyrirtækjum kost á að ráða fleiri konur en áður fyrr. Kvenkyns starfsmenn sem koma frá heimalandi fyrirtækisins ættu einnig að eiga auðveldara með að stunda viðskipti í Nígeríu því það þykir ekkert tiltökumál lengur. Ástand heilsugæslu í landinu er þó varhugavert. Fáir læknar, léleg aðstaða og töluverð alnæmismithætta gerir umhverfi landsins fráhrindandi til viðskipta. Þjóðin er einnig mjög ung sem gerir það að verkum að nothæft vinnuafl er mun minna en íbúafjöldi gefur til kynna. 61

62 7 Tæknilegt umhverfi Tæknilegt umhverfi getur skipt fyrirtæki á borð við Kötlu afar miklu máli í starfsemi sinni. Margt af því sem hinn vestræni heimur lítur á sem sjálfsagðan hlut getur verið af skornum skammti í Nígeríu. Athuga þarf ítarlega rafmagnsveitur og samskiptamál og þá sérstaklega samgöngur svo sem vegi, flug, lestarkerfi og hafnir. Ef Katla haslar sér völl í landinu þarf að huga sérstaklega að leiðum til að koma vörunni frá skipi í kæligeymslur eða á þá markaði þar sem hún verður seld. Halda þarf henni kældri meðan á flutningi stendur og oft getur þurft að fara talsverða vegalend. 7.1 Samgöngur Þó að samgöngur (Sjá mynd 7-1) í Nígeríu séu tiltölulega þróaðar á afrískan mælikvarða eiga þær enn langt í land með að teljast góðar og skilvirkar að vestrænum hætti. Svo virðist sem bæði samgöngutækjum og samgönguleiðum hafi ekki verið nægilega vel sinnt undanfarna áratugi. Nígería er því ekki samkeppnisfær í þessum efnum á alþjóðlega vísu (Economist Intelligence Unit, 2008b). Mynd 7-1 Samgöngur. Heimild: Economist Intelligence Unit 2008b 62

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir 1 Hvað er stjórnun viðskiptatengsla (CRM)? Stjórnun viðskiptatengsla er hugmyndafræði Stjórnun viðskiptatengsla er stefna Stjórnun viðskiptatengsla

More information

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Rannsóknarspurningin Treystir fólk sínum viðskiptabanka betur en öðrum og gæti það verið

More information

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni Aðferð til að Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni hvað er það?? Málsýni þýðing á enska orðinu language sample Dæmi um málsýni Notað í rannsóknum um máltöku

More information

Áherslur Íslandsstofu á Asíu og aðra. vaxandi markaði. Kynning fyrir Íslensk Kínverska viðskiptaráðið 13. maí Þorleifur Þór Jónsson

Áherslur Íslandsstofu á Asíu og aðra. vaxandi markaði. Kynning fyrir Íslensk Kínverska viðskiptaráðið 13. maí Þorleifur Þór Jónsson Áherslur Íslandsstofu á Asíu og aðra vaxandi markaði Kynning fyrir Íslensk Kínverska viðskiptaráðið 13. maí 2015 Þorleifur Þór Jónsson Meginstoðir stefnu og lykilárangursþættir Aukning á gjaldeyristekjum

More information

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu?

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? 8 janúar 2015 Áður en kaupferlið hefst Í kaupferlinu Eftir að kaupferlinu lýkur Í kaupferlinu Áður en kaupferlið hefst Vörulýsing og myndir Neytendur

More information

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.)

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) www.landspitali.is Nafn Læknir Hjúkrunarfræðingur Símanúmer Ræddu eftirfarandi

More information

ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki

ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki Árni H. Kristinsson arni.kristinsson@bsigroup.com Framkvæmdastjóri BSI á Íslandi 1 Dagskrá Breyttur heimur Forsendur breytinga Af hverju ISO 9001 er mikilvægur Hverjar

More information

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver 14 1 Excel Solver Excel Solver er viðbót (e. add-in) við Excel sem hjálpar til að finna bestu lausn á viðfangsefnum eins og þegar um er að ræða takmarkaðar

More information

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands VIÐSKIPTASVIÐ Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands Ritgerð til BS gráðu Nafn nemanda: Guðrún Erna Hafsteinsdóttir Leiðbeinandi: Haraldur Daði Ragnarsson

More information

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban 8. febrúar 2013 Eiríkur Gestsson Um mig Eiríkur Gestsson Tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík 2004 Hugur hf. og HugurAx frá 2004 til

More information

MS ritgerð í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum. Hvaða áhrif hefur innri markaðssetning á fyrirtækjamenningu og frammistöðu fyrirtækja

MS ritgerð í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum. Hvaða áhrif hefur innri markaðssetning á fyrirtækjamenningu og frammistöðu fyrirtækja MS ritgerð í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum Hvaða áhrif hefur innri markaðssetning á fyrirtækjamenningu og frammistöðu fyrirtækja Sara Þórunn Óladóttir Houe Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands Leiðbeinandi:

More information

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept Gagnasafnsfræði Páll Melsted 16. sept Endurtekin gildi Ef við viljum losna við endurtekin gildi er hægt að nota DISTINCT SELECT DISTINCT name FROM MovieExec, Movie, StarsIn WHERE cert = producerc AND title

More information

MARKAÐSÁÆTLANIR Markviss sókn til árangurs. Efnisyfirlit

MARKAÐSÁÆTLANIR Markviss sókn til árangurs. Efnisyfirlit Efnisyfirlit Inngangur...4 Að skilja markaðsmál...5 Fyrirtækið og markaðsáætlun...6 Hluti I. Öflun markaðsþekkingar...7 Greining tækifæra til sóknar...7 Öflun upplýsinga um markaðinn - markaðsrannsóknir..8

More information

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Háskóli Íslands 3.4.2006 Viðskipta- og hagfræðideild Vinnusálfræði Vor 2006 Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Tryggvi R. Jónsson Kennari: Hafsteinn Bragason og Ægir Már Þórisson Fjarvinna 2 Val starfa

More information

"Það virðast allir vita hvað þeir vilja :

Það virðast allir vita hvað þeir vilja : VIÐSKIPTASVIÐ "Það virðast allir vita hvað þeir vilja : Reynsla stjórnenda íslenskra hönnunarfyrirtækja af samskiptum og menningu vegna markaðssetningar í Japan, Kína og Hong Kong. Ritgerð til MS gráðu

More information

Samkeppnishæfni og markaðshneigð íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja

Samkeppnishæfni og markaðshneigð íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja Viðskipta- og hagfræðideild sept 2008 íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja Höfundur: Hinrik Fjeldsted Leiðbeinandi: Runólfur Smári Steinþórsson Háskóli Íslands Viðskipta- og hagfræðideild Odda v/suðurgötu, 101

More information

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Samtök iðnaðarins - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Framkvæmdarlýsing - félagsmannakönnun Unnið fyrir Markmið Samtök iðnaðarins Að kanna viðhorf félagsmanna SI til Evrópumála og þróun þar á Framkvæmdatími

More information

Mælitæki fyrir færni í alþjóðavæðingu: Ávinningur og gagnsemi við stjórnun

Mælitæki fyrir færni í alþjóðavæðingu: Ávinningur og gagnsemi við stjórnun www.ibr.hi.is Mælitæki fyrir færni í alþjóðavæðingu: Ávinningur og gagnsemi við stjórnun Guðjón Helgi Egilsson Gunnar Óskarsson Ritstjórar: Lára Jóhannsdóttir Snjólfur Ólafsson Sveinn Agnarsson Vorráðstefna

More information

MS ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti. Notkun Facebook til markaðsfærslu á Íslandi

MS ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti. Notkun Facebook til markaðsfærslu á Íslandi MS ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti Notkun Facebook til markaðsfærslu á Íslandi Eigindleg og megindleg rannsókn Guðjón Aðalsteinn Guðmundsson Leiðbeinandi: Auður Hermannsdóttir Viðskiptafræðideild

More information

MS ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti. Fyrirtækjamenning Innri markaðssetning mikilvægur hluti af fyrirtækjamenningu. Lára Sigríður Lýðsdóttir

MS ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti. Fyrirtækjamenning Innri markaðssetning mikilvægur hluti af fyrirtækjamenningu. Lára Sigríður Lýðsdóttir MS ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti Fyrirtækjamenning Innri markaðssetning mikilvægur hluti af fyrirtækjamenningu Lára Sigríður Lýðsdóttir Þórhallur Örn Guðlaugsson Viðskiptafræðideild Febrúar

More information

MS ritgerð í fjármálum Óefnislegar auðlindir, stefna og árangur fyrirtækja

MS ritgerð í fjármálum Óefnislegar auðlindir, stefna og árangur fyrirtækja MS ritgerð í fjármálum Óefnislegar auðlindir, stefna og árangur fyrirtækja Guðrún Tinna Ólafsdóttir Leiðbeinendur: Friðrik Eysteinsson og Kári Kristinsson Viðskiptafræðideild Júní 2011 Óefnislegar auðlindir,

More information

Áhrifaþættir á alþjóðlegan vöxt Össurar hf.

Áhrifaþættir á alþjóðlegan vöxt Össurar hf. Áhrifaþættir á alþjóðlegan vöxt Össurar hf. Auður Hermannsdóttir og Snjólfur Ólafsson Mikil breyting hefur orðið á íslensku viðskiptalífi á síðasta áratug. Íslensk fyrirtæki eru stærri og öflugri en áður

More information

Hvert er hlutverk sölustjórans?

Hvert er hlutverk sölustjórans? Viðskiptafræðisvið Hvert er hlutverk sölustjórans? Ritgerð til BS gráðu Nafn nemenda: Jóna Dóra Ásgeirsdóttir Leiðbeinandi: A. Agnes Gunnarsdóttir Haustmisseri 2015 i Hvert er hlutverk sölustjórans? Lokaverkefni

More information

Fimmtudagur, 1. apríl fundur samkeppnisráðs

Fimmtudagur, 1. apríl fundur samkeppnisráðs Fimmtudagur, 1. apríl 2004 217. fundur samkeppnisráðs Ákvörðun nr. 6/2004 Erindi Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka verslunarinnar vegna breytinga Kreditkorts hf. á gjaldskrá fyrirtækisins I. Málavextir

More information

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Umfjöllun 1. Stutt lýsing á Mati á stuðningsþörf: SIS 2. Einstaklingsbundnar

More information

BS ritgerð. Viðvarandi samkeppnisforskot hagnýt rannsókn á auðlindum og færni Poker Stars

BS ritgerð. Viðvarandi samkeppnisforskot hagnýt rannsókn á auðlindum og færni Poker Stars BS ritgerð í viðskiptafræði Viðvarandi samkeppnisforskot hagnýt rannsókn á auðlindum og færni Poker Stars Hjörtur A. Guðmundsson Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands Leiðbeinandi: Friðrik Eysteinsson Júní

More information

Endurskoðunarnefndir Áhættustýring og áhættueftirlit. Deloitte FAS Maí 2010

Endurskoðunarnefndir Áhættustýring og áhættueftirlit. Deloitte FAS Maí 2010 Endurskoðunarnefndir Áhættustýring og áhættueftirlit Deloitte FAS Maí 2010 Einingar tengdar almannahagsmunum og áhættustýring Kröfur um áhættustýringu eininga tendra almannahagsmunum er víða að finna í

More information

Ferhyrningurinn: Myndræn framsetning á ársreikningi

Ferhyrningurinn: Myndræn framsetning á ársreikningi www.ibr.hi.is Ferhyrningurinn: Myndræn framsetning á ársreikningi Einar Guðbjartsson Ritstjórar: Kári Kristinsson Magnús Pálsson Þórður Óskarsson Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands: Erindi

More information

Stefnumótun í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja

Stefnumótun í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja Stefnumótun í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja Nemandi: Tinna Ösp Brooks Skúladóttir Leiðbeinandi: Reynir Kristinsson Staðfesting lokaverkefnis til BS gráðu í viðskiptafræði Titill verkefnis: Stefnumótun

More information

Reglur um bestu framkvæmd viðskipta Samþykkt í febrúar 2017/ Áætluð endurskoðun í febrúar 2018 / Ábyrgðaraðili: Regluvarsla

Reglur um bestu framkvæmd viðskipta Samþykkt í febrúar 2017/ Áætluð endurskoðun í febrúar 2018 / Ábyrgðaraðili: Regluvarsla Reglur um bestu framkvæmd viðskipta Samþykkt í febrúar 2017/ Áætluð endurskoðun í febrúar 2018 / Ábyrgðaraðili: Regluvarsla 1. Tilgangur og gildissvið 1.1. Reglur þessar eru settar á grundvelli laga nr.

More information

Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla. Tryggvi Guðbjörn Benediktsson. B.Sc. í Viðskiptafræði

Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla. Tryggvi Guðbjörn Benediktsson. B.Sc. í Viðskiptafræði Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla Tryggvi Guðbjörn Benediktsson B.Sc. í Viðskiptafræði Vor 2012 Tryggvi Benediktsson Leiðbeinandi: Kt. 240789-2809 Arney Einarsdóttir Ágrip Persónuleiki

More information

VÍSINDI, NÝSKÖPUN OG SAMFÉLAG. Útrásin og nýsköpun. Hlutverk útrásarfyrirtækja í þekkingarsköpun á Íslandi. Ásdís Jónsdóttir. Desember 2006 RANNÍS

VÍSINDI, NÝSKÖPUN OG SAMFÉLAG. Útrásin og nýsköpun. Hlutverk útrásarfyrirtækja í þekkingarsköpun á Íslandi. Ásdís Jónsdóttir. Desember 2006 RANNÍS VÍSINDI, NÝSKÖPUN OG SAMFÉLAG Útrásin og nýsköpun Hlutverk útrásarfyrirtækja í þekkingarsköpun á Íslandi Ásdís Jónsdóttir Desember 2006 RANNÍS Vísindi, nýsköpun og samfélag Ágrip Í þessari samantekt eru

More information

EES-viðbætir. ÍSLENSK útgáfa. við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins. Nr. 40 ISSN árgangur I EES-STOFNANIR

EES-viðbætir. ÍSLENSK útgáfa. við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins. Nr. 40 ISSN árgangur I EES-STOFNANIR ÍSLENSK útgáfa EES-viðbætir við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins I EES-STOFNANIR 1. Sameiginlega EES-nefndin II EFTA-STOFNANIR 1. Fastanefnd EFTA-ríkjanna 2. Eftirlitsstofnun EFTA ISSN 1022-9337 Nr. 40

More information

Greining samkeppnisumhverfis

Greining samkeppnisumhverfis Greining samkeppnisumhverfis Samantekt um nokkra helstu þætti sem hafa áhrif á hættu á myndun samkeppnishindrana Þorsteinn Siglaugsson Greining samkeppnisumhverfis Samantekt um nokkra helstu þætti sem

More information

1 Inngangur Hvað er frammistöðumat og hvernig á að mæla það? gráðu mat/endurgjöf Gagnrýni á 360 gráðu mat...

1 Inngangur Hvað er frammistöðumat og hvernig á að mæla það? gráðu mat/endurgjöf Gagnrýni á 360 gráðu mat... Efnisyfirlit 1 Inngangur... 1 2 Hvað er frammistöðumat og hvernig á að mæla það?... 2 2.1 Ávinningur frammistöðumats... 4 2.2 Framkvæmd frammistöðumatsins... 5 2.3 Hver á að meta hvern?... 5 3 360 gráðu

More information

Ósk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um undanþágu vegna fagráðs um styrkflokkað timbur

Ósk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um undanþágu vegna fagráðs um styrkflokkað timbur Miðvikudagur, 4. júlí 2012 Ákvörðun nr. 15/2012 Ósk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um undanþágu vegna fagráðs um styrkflokkað timbur I. MÁLAVEXTIR OG MÁLSMEÐFERÐ Samkeppniseftirlitinu barst erindi þann 30.

More information

Markaðsáherslur og markaðshneigð

Markaðsáherslur og markaðshneigð Tímarit um viðskipti og efnahagsmál, Útgáfa 2004 Markaðsáherslur og markaðshneigð Þórhallur Örn Guðlaugsson. 1 Ágrip Markaðshneigð (e. market orientation) má lýsa sem einkenni á fyrirtækjamenningu, sem

More information

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta?

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? www.ibr.hi.is Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? Erna Rós Kristinsdóttir Friðrik Eysteinsson Ritstjórar: Auður Hermannsdóttir Jón Snorri Snorrason Þóra Christiansen Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar

More information

MS ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti. Stjórnun viðskiptatengsla

MS ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti. Stjórnun viðskiptatengsla MS ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti Stjórnun viðskiptatengsla Skynjun starfsmanna á notagildi og ávinningi af stjórnun viðskiptatengsla Hildur Guðjónsdóttir Leiðbeinandi Auður Hermannsdóttir Viðskiptafræðideild

More information

Meistararitgerð. Orðspor fyrirtækja

Meistararitgerð. Orðspor fyrirtækja Meistararitgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti Orðspor fyrirtækja Rannsókn á orðspori farsímafyrirtækja á Íslandi Hildur Óskarsdóttir Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands Leiðbeinandi: Þórhallur Örn Guðlaugsson,

More information

Markaðssetning Krispy Kreme á Íslandi

Markaðssetning Krispy Kreme á Íslandi VIÐSKIPTA- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Markaðssetning Krispy Kreme á Íslandi Markaðsáætlun fyrir Krispy Kreme Ritgerð til BS gráðu Nafn nemanda: Gunnar Örn Helgason Leiðbeinandi: Ragnar Már Vilhjálmsson Vorönn

More information

Viðskiptasvið. Markaðssetning nýrrar hönnunar Lykilþættir í markaðssetningu

Viðskiptasvið. Markaðssetning nýrrar hönnunar Lykilþættir í markaðssetningu Viðskiptasvið Markaðssetning nýrrar hönnunar Lykilþættir í markaðssetningu Ritgerð til BA gráðu Nafn nemanda: Úlfhildur E. Þ. Bjarnasen Leiðbeinandi: Ragnar Már Vilhjálmsson vor 2014 Markaðssetning nýrrar

More information

Hvað er heildstæð áhættustýring og hvernig má leggja mat á virkni hennar?

Hvað er heildstæð áhættustýring og hvernig má leggja mat á virkni hennar? VIÐSKIPTASVIÐ Hvað er heildstæð áhættustýring og hvernig má leggja mat á virkni hennar? Áhersla lögð á umhverfi fjármálafyrirtækja Ritgerð til BS-gráðu Nemandi: Jóhanna K. Svavarsdóttir Leiðbeinandi: Guðmundur

More information

Scrum-aðferðafræðin. Eðvald Möller. Ritstjóri: Ingjaldur Hannibalsson Viðskiptafræðideild

Scrum-aðferðafræðin. Eðvald Möller. Ritstjóri: Ingjaldur Hannibalsson Viðskiptafræðideild Eðvald Möller Ritstjóri: Ingjaldur Hannibalsson Viðskiptafræðideild Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands ISBN 978-9935-424-18-1 Eðvald Möller Í hefðbundinni verkefnastjórnun er allt ferli verkefnis

More information

Háskólinn á Bifröst Viðskiptafræðisvið. Vorönn Hvetur Social Business Software til nýsköpunar í íslenskum fyrirtækjum?

Háskólinn á Bifröst Viðskiptafræðisvið. Vorönn Hvetur Social Business Software til nýsköpunar í íslenskum fyrirtækjum? Háskólinn á Bifröst Viðskiptafræðisvið Vorönn 2014 Hvetur Social Business Software til nýsköpunar í íslenskum fyrirtækjum? Georg Kristinsson BS ritgerð Leiðbeinandi: dr. Gunnar Óskarsson Háskólinn á Bifröst

More information

Efnisyfirlit INNGANGUR KYNNING Á ÞJÓNUSTUHUGTAKINU... 6

Efnisyfirlit INNGANGUR KYNNING Á ÞJÓNUSTUHUGTAKINU... 6 Efnisyfirlit INNGANGUR... 5 1 KYNNING Á ÞJÓNUSTUHUGTAKINU... 6 1.1 Hvað er þjónusta?... 6 1.2 Áþreifanleiki/óáþreifanleiki... 6 1.3 Samanburður vöru og þjónustu... 7 1.3.1 Óáþreifanleiki (e. intangibility)...

More information

Sýnileg stjórnun á Íslandi

Sýnileg stjórnun á Íslandi VIÐSKIPTASVIÐ Sýnileg stjórnun á Íslandi Með áherslu á töflunotkun Árangursþættir og hömlur Ritgerð til MS gráðu Nafn nemanda: Sigrún Hólm Þórleifsdóttir Leiðbeinandi: Einar Svansson Vorönn 2017 Staðfesting

More information

Lean Cabin - Icelandair

Lean Cabin - Icelandair VIÐSKIPTASVIÐ Lean Cabin - Icelandair Hver var árangur Icelandair á innleiðingu Lean Cabin? Ritgerð til BS gráðu Nafn nemanda: Hafdís Hafsteinsdóttir Leiðbeinandi: Brynjar Þór Þorsteinsson Vorönn 2015

More information

BS-ritgerð í viðskiptafræði Fyrstu skref í átt að straumlínustjórnun (lean)

BS-ritgerð í viðskiptafræði Fyrstu skref í átt að straumlínustjórnun (lean) BS-ritgerð í viðskiptafræði Fyrstu skref í átt að straumlínustjórnun (lean) Undirbúningur og innleiðing Heiðdís Jónsdóttir Leiðbeinandi: Eðvald Möller Viðskiptafræðideild Október 2015 Fyrstu skref í átt

More information

Vöruþróun matvæla í smáum fyrirtækjum

Vöruþróun matvæla í smáum fyrirtækjum Vöruþróun matvæla í smáum fyrirtækjum Þóra Valsdóttir Matís ohf Inngangur Mörg fyrirtæki hafa byrjað markaðsfærslu sína með einni vöru og hafa ekki burði til að auka vöruúrval sitt þrátt fyrir að þau hafi

More information

Ágúst Einarsson. Erindi á málstofu um menningarhagfræði 11. nóv. 2003

Ágúst Einarsson. Erindi á málstofu um menningarhagfræði 11. nóv. 2003 Ágúst Einarsson Erindi á málstofu um menningarhagfræði 11. nóv. 2003 1. Lesefni og skilgreining (glærur 2-3) 2. List innan hagfræðinnar (glærur 4-10) 3. Hagræn áhrif menningar á Íslandi (glærur 11-17)

More information

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun. Auður upplýsinga

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun. Auður upplýsinga MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun Auður upplýsinga Mikilvægi innri upplýsingamiðlunar og tengsl við starfsánægju Margrét Helga Jóhannsdóttir Leiðbeinandi Þóra H. Christiansen aðjúnkt Viðskiptafræðideild

More information

Atferlisgreining sem einn af hornsteinum markaðsfræðinnar

Atferlisgreining sem einn af hornsteinum markaðsfræðinnar ISSN 1670-7168 INSTITUTE OF BUSINESS RESEARCH WORKING PAPER SERIES W06:01 September 2006 Atferlisgreining sem einn af hornsteinum markaðsfræðinnar Valdimar Sigurðsson Þórhallur Guðlaugsson Valdimar Sigurðsson,

More information

4) Þá ertu kominn inná routerinn og ætti valmyndin að líta út eins og sýnt er hér til hægri. 5) Því næst er smellt á Wizard setup

4) Þá ertu kominn inná routerinn og ætti valmyndin að líta út eins og sýnt er hér til hægri. 5) Því næst er smellt á Wizard setup Hægt er að tengjast við Zyxel 660W beininn bæði þráðlaust eða með netkapli í netkort tölvunnar. Stilla þarf tölvuna þannig að hún sæki sjálfkrafa IP tölu (Optain an IP Address Automatically). Mismunandi

More information

MS ritgerð í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum. Made in Iceland. Guðný Kjartansdóttir

MS ritgerð í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum. Made in Iceland. Guðný Kjartansdóttir MS ritgerð í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum Made in Iceland Guðný Kjartansdóttir Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands Leiðbeinandi: Margrét Sigrún Sigurðardóttir Júní 2010 Háskóli Íslands Viðskiptafræðideild

More information

Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra gatnamóta á umferðaröryggi

Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra gatnamóta á umferðaröryggi Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra Rannsóknarverkefni Vegagerðarinnar Janúar 206 www.vso.is Borgartún 20 585 9000 05 Reykjavík vso@vso.is 575 S:\205\575\v\Greinagerð\575_Greinargerð.docx Janúar 206

More information

ESB og EES-samningurinn Upprunaréttindi og tollfríðindi. Svanhvít Jóna B. Reith lögfræðingur

ESB og EES-samningurinn Upprunaréttindi og tollfríðindi. Svanhvít Jóna B. Reith lögfræðingur ESB og EES-samningurinn Upprunaréttindi og tollfríðindi Svanhvít Jóna B. Reith lögfræðingur svanhvit.reith@tollur.is Fríverslunarsamningar Upprunasannanir Aðvinnsla AEO/EORI Pan Euro Med EES ESB EFTA Sérsamningar

More information

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvernig vinna íslenskir ferðaþjónustuaðilar markaðssetningu á netinu? Aðferðafræði Icelandair og Íslandsstofu

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvernig vinna íslenskir ferðaþjónustuaðilar markaðssetningu á netinu? Aðferðafræði Icelandair og Íslandsstofu VIÐSKIPTASVIÐ Hvernig vinna íslenskir ferðaþjónustuaðilar markaðssetningu á netinu? Aðferðafræði Icelandair og Íslandsstofu Ritgerð til BS gráðu Nafn nemanda: Birgitta Guðmundsdóttir Bender Leiðbeinandi:

More information

Kaup Sands ehf. á ISS Íslandi ehf.

Kaup Sands ehf. á ISS Íslandi ehf. Reykjavík, 6. apríl 2017 Ákvörðun nr. 14/2017 Kaup Sands ehf. á ISS Íslandi ehf. I. Málavextir og málsmeðferð Þann 28. febrúar 2017 barst eftirlitinu kaupsamningur varðandi kaup Sands ehf. á öllu hlutafé

More information

Samkeppnismat stjórnvalda

Samkeppnismat stjórnvalda Þriðjudagur, 15. desember 2009 Álit nr. 2/2009 Samkeppnismat stjórnvalda Stjórnvöldum ber að meta áhrif fyrirhugaðra laga og stjórnvaldsfyrirmæla á samkeppni I. Málsmeðferð Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins

More information

BS ritgerð í viðskiptafræði Stefnumótun Fótbolta ehf.

BS ritgerð í viðskiptafræði Stefnumótun Fótbolta ehf. BS ritgerð í viðskiptafræði Stefnumótun Fótbolta ehf. Wentzel Steinarr Ragnarsson Kamban Leiðbeinandi: Þórður Sverrisson, aðjúnkt Umsjón: Þórhallur Örn Guðlaugsson, dósent Viðskiptafræðideild Febrúar 2013

More information

Samruni Samhentra Kassagerðar hf. og Frjó Umbúðasölunnar ehf.

Samruni Samhentra Kassagerðar hf. og Frjó Umbúðasölunnar ehf. Föstudagur, 2. september 2016 Ákvörðun nr. 23/2016 Samruni Samhentra Kassagerðar hf. og Frjó Umbúðasölunnar ehf. I. Málavextir og málsmeðferð Þann 20. maí 2016 barst Samkeppniseftirlitinu tilkynning um

More information

BS ritgerð í viðskiptafræði. Vörumerki í golfi

BS ritgerð í viðskiptafræði. Vörumerki í golfi BS ritgerð í viðskiptafræði Vörumerki í golfi Ímynd Tour Edge á Íslandi Guðjón Grétar Daníelsson Leiðbeinandi Dr. Þórhallur Örn Guðlaugsson, dósent Viðskiptafræðideild Október 2014 Vörumerki í golfi Ímynd

More information

1*1 Minnisblað Dags

1*1 Minnisblað Dags Tilkynntir aðilar skv. VII. kafla reglugerðar EB nr. 305/2011. Forsaga og lagagrundvöllur Málsmeðferð. Alþingi Erindi nr. Þ 143/572 komudagur 9.12.2013 Lög um mannvirki nr. 160/2010 Samkvæmt gildandi lögum

More information

BS ritgerð í viðskiptafræði

BS ritgerð í viðskiptafræði BS ritgerð í viðskiptafræði Ímynd WOW air Oddný María Kristinsdóttir Leiðbeinandi: Auður Hermannsdóttir, aðjúnkt Maí 2017 Ímynd WOW air Oddný María Kristinsdóttir Lokaverkefni til BS- prófs í viðskiptafræði

More information

Fimmtudagurinn 27. september fundur samkeppnisráðs. Kvörtun Mallands ehf. vegna misnotkunar Hörpu hf. á markaðsráðandi stöðu. I.

Fimmtudagurinn 27. september fundur samkeppnisráðs. Kvörtun Mallands ehf. vegna misnotkunar Hörpu hf. á markaðsráðandi stöðu. I. Fimmtudagurinn 27. september 2001 170. fundur samkeppnisráðs Ákvörðun nr. 28/2001 Kvörtun Mallands ehf. vegna misnotkunar Hörpu hf. á markaðsráðandi stöðu I. Erindið Með erindi, dags. 2. mars 2001, óskaði

More information

Innri endurskoðun Október 1999

Innri endurskoðun Október 1999 Innri endurskoðun Október 1999 Efnisyfirlit INNGANGUR...5 1. SKILGREINING Á INNRI ENDURSKOÐUN...7 1.1 HVAÐ ER INNRI ENDURSKOÐUN...7 1.2 HLUTVERK...7 1.3 EINKENNI...8 1.4 ÁRANGURSRÍK INNRI ENDURSKOÐUN...9

More information

Vörumerkjasamfélag Apple

Vörumerkjasamfélag Apple Vörumerkjasamfélag Apple Neytendur og einkenni B.Sc. í viðskiptafræði Davíð Hansson Viðskiptadeild Háskólans á Bifröst Leiðbeinandi: Ragnar Már Vilhjálmsson Apríl 2013 2 Staðfesting lokaverkefnis til B.Sc.

More information

Framtíðarfræði og virði framtíðarrýni við vöruþróun

Framtíðarfræði og virði framtíðarrýni við vöruþróun Framtíðarfræði og virði framtíðarrýni við vöruþróun Karl Friðriksson Runólfur Smári Steinþórsson Ritstjóri: Ingjaldur Hannibalsson Viðskiptafræðideild Framtíðarfræði og virði framtíðarrýni við vöruþróun

More information

Samkeppnishæfni þjóða

Samkeppnishæfni þjóða Mynd frá Harvard: Fólk af ýmsu þjóðerni sem kennir MOC - Samkeppnishæfni Samkeppnishæfni þjóða Runólfur Smári Steinþórsson, prófessor Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands Rannsóknarmiðstöð stefnu og samkeppnishæfni

More information

Áhrif aldurs á skammtímaminni

Áhrif aldurs á skammtímaminni Háskóli Íslands 7.5.2000 Félagsvísindadeild Þroski og lífstíðarþróun (10.02.02) Áhrif aldurs á skammtímaminni Tryggvi R. Jónsson (191177-3989) Ólafur Magnússon Kennari: Sigurður J. Grétarsson Rannsókn

More information

ENDURMAT Á STUÐNINGSÞÖRF

ENDURMAT Á STUÐNINGSÞÖRF ENDURMAT Á STUÐNINGSÞÖRF Aðdragandi Framkvæmd Niðurstöður Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins Október 2015 Endurmat á stuðningsþörf Aðdragandi Framkvæmd Niðurstöður Tryggvi Sigurðsson Greiningar- og

More information

Facebook við markaðsfærslu á Íslandi

Facebook við markaðsfærslu á Íslandi Facebook við markaðsfærslu á Íslandi Megindleg rannsókn Sveinn Björnsson Lokaverkefni til BS-gráðu í viðskiptafræði Leiðbeinandi: Auður Hermannsdóttir Viðskiptafræðideild Félagsvísindasvið Háskóla Íslands

More information

Tillaga að stefnumótun fyrir Stoðkennarann

Tillaga að stefnumótun fyrir Stoðkennarann Guðmundur Ingi Jónsson Tillaga að stefnumótun fyrir Stoðkennarann Lokaverkefni til MS prófs í alþjóðaviðskiptum við Háskólann á Bifröst Leiðbeinandi: Stefán Kalmannsson Sumar 2010 Formáli Þetta meistaraverkefni

More information

Samruni Johan Rönning hf. og Efnissölu G.E. Jóhannssonar ehf.

Samruni Johan Rönning hf. og Efnissölu G.E. Jóhannssonar ehf. Föstudagur, 13. janúar 2017 Ákvörðun nr. 2/2017 Samruni Johan Rönning hf. og Efnissölu G.E. Jóhannssonar ehf. I. Málavextir og málsmeðferð Með bréfi dags. 2. nóvember 2016 var Samkeppniseftirlitinu tilkynnt

More information

VIÐSKIPTASVIÐ. Er Ísland of lítið fyrir Big Data?

VIÐSKIPTASVIÐ. Er Ísland of lítið fyrir Big Data? VIÐSKIPTASVIÐ Er Ísland of lítið fyrir Big Data? Ritgerð til BS gráðu Nafn nemanda: Eva Þorsteinsdóttir Leiðbeinandi: Brynjar Þór Þorsteinsson Haustönn 2016 Titill lokaverkefnis: Er Ísland of lítið fyrir

More information

Leiðbeinandi tilmæli

Leiðbeinandi tilmæli Leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2014 um mat á tengslum aðila vegna reglna um stórar áhættuskuldbindingar Gefin út samkvæmt 2. mgr. 8 gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi 19. febrúar

More information

spjaldtölvur í skólastarfi

spjaldtölvur í skólastarfi spjaldtölvur í skólastarfi Á tímabilinu október 2012 til febrúar 2013 hef ég, Ómar Örn Magnússon aðstoðarskólastjóri í Hagaskóla, unnið að verkefni fyrir SFS sem miðar að því að skoða kosti, möguleika

More information

Samruni Securitas hf. og Geymslna ehf.

Samruni Securitas hf. og Geymslna ehf. Reykjavík, 30. júní 2015 Ákvörðun nr. 19/2015 Samruni Securitas hf. og Geymslna ehf. I. Málavextir og málsmeðferð Með bréfi, dags. 17. febrúar sl. var Samkeppniseftirlitinu tilkynnt um samruna Geymslna

More information

BS ritgerð. Áhrif hvatningar og endurgjafar yfirmanna á frammistöðu starfsmanna

BS ritgerð. Áhrif hvatningar og endurgjafar yfirmanna á frammistöðu starfsmanna BS ritgerð Stjórnun og forysta Áhrif hvatningar og endurgjafar yfirmanna á frammistöðu starfsmanna Ósk Guðmundsdóttir Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands Leiðbeinandi: Inga Jóna Jónsdóttir, dósent Júní

More information

Bein erlend fjárfesting í íslenskum nýsköpunar- og tæknifyrirtækjum:

Bein erlend fjárfesting í íslenskum nýsköpunar- og tæknifyrirtækjum: BSc í viðskiptafræði Bein erlend fjárfesting í íslenskum nýsköpunar- og tæknifyrirtækjum: Orsakir, áhrif og efnahagsleg þýðing Nafn nemanda: Kolbeinn Sigurðsson Kennitala: 111191-2479 Nafn nemanda: Guðjón

More information

Prímadonnur eða góðir liðsmenn?

Prímadonnur eða góðir liðsmenn? Prímadonnur eða góðir liðsmenn? Áhrif valds við stjórnun þekkingarstarfsmanna Elín Blöndal Lokaverkefni til MS-gráðu í viðskiptafræði Leiðbeinandi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent Prímadonnur eða góðir

More information

Föstudagurinn 26. febrúar 1999 kl. 11: fundur samkeppnisráðs. Fyrirhuguð kaup Coca-Cola Nordic Beverages A/S á öllu hlutafé í Vífilfelli ehf.

Föstudagurinn 26. febrúar 1999 kl. 11: fundur samkeppnisráðs. Fyrirhuguð kaup Coca-Cola Nordic Beverages A/S á öllu hlutafé í Vífilfelli ehf. Föstudagurinn 26. febrúar 1999 kl. 11:00 122. fundur samkeppnisráðs Álit nr. 3/1999 Fyrirhuguð kaup Coca-Cola Nordic Beverages A/S á öllu hlutafé í Vífilfelli ehf. I. Erindið 1. Þann 18. janúar sl. barst

More information

Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna

Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna Tímarit um menntarannsóknir, 1. árg. 2004, 9-17 9 Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna M. Allyson Macdonald Kennaraháskóla Íslands Inngangserindi á ráðstefnu 22. nóvember

More information

Leiðbeinandi tilmæli. Viðmiðunarreglur vegna álagsprófa, samþjöppunar- og vaxtaáhættu hjá fjármálafyrirtækjum. Ekki í gildi. nr.

Leiðbeinandi tilmæli. Viðmiðunarreglur vegna álagsprófa, samþjöppunar- og vaxtaáhættu hjá fjármálafyrirtækjum. Ekki í gildi. nr. Leiðbeinandi tilmæli Viðmiðunarreglur vegna álagsprófa, samþjöppunar- og vaxtaáhættu hjá fjármálafyrirtækjum nr. 2/2007 Gefið út skv. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

More information

I. Erindi Atlassíma ehf.

I. Erindi Atlassíma ehf. Málefni: Bráðabirgðaákvörðun um númeraflutning I. Erindi Atlassíma ehf. Með tölvupósti, dags. 24. apríl 2006, barst Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) kvörtun frá Atlassíma ehf. um að Síminn hf. hefði synjað

More information

Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið

Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni

More information

Samruni WOW Air ehf. og Iceland Express ehf. Efnisyfirlit

Samruni WOW Air ehf. og Iceland Express ehf. Efnisyfirlit Föstudagur, 8. mars 2013 Ákvörðun nr. 5/2013 Samruni WOW Air ehf. og Iceland Express ehf. Efnisyfirlit bls. I. Inngangur... 2 II. Málavextir og málsmeðferð... 2 III. Samruninn og aðilar hans... 3 1. Nánar

More information

Ásta Björk Andersen Sveinsdóttir

Ásta Björk Andersen Sveinsdóttir Lokaverkefni til BS-prófs í viðskiptafræði Frammistöðumat og starfsmannastjórnun Ávinningur og nýjar áherslur Ásta Björk Andersen Sveinsdóttir Svala Guðmundsdóttir, Dósent Júní 2018 Frammistöðumat og starfsmannasamtöl

More information

Efnisyfirlit (Atriðaorðaskrá)

Efnisyfirlit (Atriðaorðaskrá) Efnisyfirlit (Atriðaorðaskrá) INNGANGUR 7 1. MARKAÐSHLUTUN, MARKAÐSMIÐUN OG STAÐFÆRSLA 8 Accessibility (of segment) (Aðgengi að markhóp) 8 Actionability (of segment) (Framkvæmanleiki markhóps) 8 Behavioural

More information

Tónlist og einstaklingar

Tónlist og einstaklingar Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar Kristinn Arnar Benjamínsson Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar

More information

Vörumerki. Auðkenni markaðarins. Vörumerkjaréttur í stuttu máli Skráning vörumerkja Me höndlun umsókna Alþjó leg skráning vörumerkja

Vörumerki. Auðkenni markaðarins. Vörumerkjaréttur í stuttu máli Skráning vörumerkja Me höndlun umsókna Alþjó leg skráning vörumerkja Vörumerki Auðkenni markaðarins Vörumerkjaréttur í stuttu máli Skráning vörumerkja Me höndlun umsókna Alþjó leg skráning vörumerkja 2 EFNISYFIRLIT 4 Hvað er vörumerki? - Orðmerki - Bókstafir og tölustafir

More information

Ronald Postma: Kitchen appliance to grow mushrooms was the project. Plugin Neon for Rhino and downloaded Bongo.

Ronald Postma: Kitchen appliance to grow mushrooms was the project. Plugin Neon for Rhino and downloaded Bongo. Week 3: Computer Controlled Cutting 11.2. 2015 This week we will learn about the mechanical application of computer aided design. The assignment for this week is to design, make, and document a press-

More information

Yfirlitstafla. Háskólinn á Akureyri. Viðskipta- og raunvísindadeild. Námskeið Lokaverkefni Verktími Nóvember Apríl 2009

Yfirlitstafla. Háskólinn á Akureyri. Viðskipta- og raunvísindadeild. Námskeið Lokaverkefni Verktími Nóvember Apríl 2009 Akureyri að Vetri Viðskipta- og raunvísindadeild Markaðsfræði LOK 2106 Akureyri, 24. apríl 2009 Yfirlitstafla Staður Deild Háskólinn á Akureyri Viðskipta- og raunvísindadeild Námskeið Lokaverkefni 2106

More information

Uppsetning á Opus SMS Service

Uppsetning á Opus SMS Service Uppsetning á Opus SMS Service Undirbúningur Þetta þarf að vera til staðar: Opus SMS Service á að vera sett upp móðurtölvunni sem hýsir gagnagrunninn. Notandinn sem er innskráður á tölvunni þarf að vera

More information

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR)

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) Aldur nemenda: 10 ára og upp úr Viðfangsefni: ofbeldi, einelti, samskipti Færnimarkmið: Hugtakaleikir ná að þjálfa flesta færniþætti samræðunnar Viðhorfamarkmið: Hugtakaleikir ná

More information

Samruni Hampiðjunnar hf. og VOOT BEITU ehf.

Samruni Hampiðjunnar hf. og VOOT BEITU ehf. Föstudagur, 20. október 2017 Ákvörðun nr. 38/2017 Samruni Hampiðjunnar hf. og VOOT BEITU ehf. I. Málavextir og málsmeðferð Þann 12. júní 2017 barst Samkeppniseftirlitinu samrunatilkynning vegna kaupa Hampiðjunnar

More information

Hvað er barni fyrir bestu. Úttekt á samstarfi Leikskóla Reykjavíkur og Barnaverndar Reykjavíkur

Hvað er barni fyrir bestu. Úttekt á samstarfi Leikskóla Reykjavíkur og Barnaverndar Reykjavíkur , 23 31 23 Hvað er barni fyrir bestu. Úttekt á samstarfi Leikskóla Reykjavíkur og Barnaverndar Reykjavíkur Anna María Jónsdóttir, Félagsráðgjafi Í eftirfarandi grein eru dregnar saman fræðilegar heimildir

More information

Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft mér að

Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft mér að March 2008 Volume 3, Number 1 Flavio Baroncelli - Staðalímyndir og sannleikur 1 translated by Egill Arnarson Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft

More information

Kjósa íslensk fyrirtæki að blanda saman. ólíkum aðferðum við verkefnastjórnun. og þá hvers vegna?

Kjósa íslensk fyrirtæki að blanda saman. ólíkum aðferðum við verkefnastjórnun. og þá hvers vegna? Kjósa íslensk fyrirtæki að blanda saman ólíkum aðferðum við verkefnastjórnun og þá hvers vegna? Brynjar Þór Sumarliðason / Jónas Gylfason B.Sc. í viðskiptafræði Vor 2012 Brynjar Þór Sumarliðason Leiðbeinandi:

More information