Þetta er spurning um hugarfar

Size: px
Start display at page:

Download "Þetta er spurning um hugarfar"

Transcription

1 Þetta er spurning um hugarfar Hvernig lýsa unglingar á einhverfurófi og foreldrar þeirra, félagslegum samskiptum í skóla og tómstundastarfi? Helga María Hallgrímsdóttir Júní 2017 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild

2

3 Þetta er spurning um hugarfar Hvernig lýsa unglingar á einhverfurófi og foreldrar þeirra, félagslegum samskiptum í skóla og tómstundastarfi? Helga María Hallgrímsdóttir Lokaverkefni til M.Ed.-prófs í sérkennslufræði Leiðbeinandi: Dr. Kristín Björnsdóttir Uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasvið Háskóla Íslands Júní 2017

4 Þetta er spurning um hugarfar Hvernig lýsa unglingar á einhverfurófi og foreldrar þeirra, félagslegum samskiptum í skóla og tómstundastarfi? Ritgerð þessi er 30 eininga lokaverkefni til M.Ed.-prófs í sérkennslufræði við uppeldis- og menntunarfræðideild, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands 2017, Helga María Hallgrímsdóttir Lokaverkefni má ekki afrita né dreifa rafrænt nema með leyfi höfundar. Reykjavík, 2017

5 Formáli Verkefni þetta byggir á eigindlegri rannsókn á upplifun unglinga á einhverfurófi og foreldra þeirra, af félagslegum samskiptum í skóla og tómstundastarfi. Tilefni þess að verkið hófst var reynsla mín af kennslu nemenda sem skilgreindir hafa verið á einhverfurófinu. Í störfum mínum hafði ég orðið þess áskynja að nemendur á einhverfurófi áttu oft erfitt uppdráttar félagslega og vildi ég því skoða málefnið sérstaklega. Ég vil byrja á því að þakka unglingunum og foreldrum þeirra fyrir þátttöku í rannsókninni en án þeirra hefði verkefnið ekki orðið að veruleika. Leiðbeinandi verkefnisins var dr. Kristín Björnsdóttir dósent og færi ég henni mínar bestu þakkir fyrir gott samstarf, hvatningu, leiðsögn og gagnlegar ábendingar. Sérfræðingur var dr. Guðrún Valgerður Stefánsdóttir og færi ég henni sömuleiðis þakkir fyrir góðar ábendingar og hvatningarorð. Ég vil þakka fjölskyldu minni fyrir stuðning, aðstoð, þolinmæði, umburðarlyndi og skilning í gegnum vinnuferlið. Öðrum sem komið hafa að verkefninu með einum eða öðrum hætti vil ég einnig þakka fyrir veitta aðstoð. Þetta lokaverkefni er samið af mér undirritaðri. Ég hef kynnt mér Vísindasiðareglur Háskóla Íslands. Ég hef gætt viðmiða um siðferði í rannsóknum og fyllstu ráðvendni í öflun og miðlun upplýsinga, og túlkun niðurstaðna. Ég vísa til alls efnis sem ég hef sótt til annarra eða fyrri eigin verka, hvort sem um er að ræða ábendingar, myndir, efni eða orðalag. Ég þakka öllum sem lagt hafa mér lið með einum eða öðrum hætti en ber sjálf ábyrgð á því sem missagt kann að vera. Þetta staðfesti ég með undirskrift minni. Reykjavík, 9. maí 2017 Helga María Hallgrímsdóttir 3

6 Ágrip Tilgangur rannsóknarverkefnisins var að varpa ljósi á það hvernig unglingar á einhverfurófi lýsa upplifun sinni af félagslegum samskiptum í skóla og tómstundastarfi. Hingað til hefur aðallega verið fjallað um einhverfurófið með tilliti til meðferða og aðferða og fyrir liggja talsvert mikið af slíkum rannsóknum. Lítið hefur hins vegar verið spurt um upplifun þeirra sem greindir hafa verið á einhverfurófinu en þeir eru sérfræðingar um líf sitt og reynslu. Félagsleg sjónarhorn móta rannsóknina, með félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Til að fá breiðari mynd af málefninu, var jafnframt leitað eftir sýn foreldra. Ritgerðin byggir á niðurstöðum eigindlegrar viðtalsrannsóknar og byggir gagnagreining á nálgun grundaðrar kenningar. Gagnaöflun fór fram á árunum 2016 og 2017 og voru þátttakendur í rannsókninni þrettán talsins, sex unglingar og sjö foreldrar. Unglingarnir voru á aldrinum ára, tvær stúlkur og fjórir drengir, sem fengið höfðu greiningu á einhverfurófi. Draga má þá ályktun af niðurstöðum að unglingar á einhverfurófi spegli sig gjarnan í samskiptum við aðra, til að þóknast öðrum og falla betur inn í samfélagið. Þeir eiga vini samkvæmt eigin skilgreiningu en upplifa þrátt fyrir það erfiðleika í samskiptum við aðra jafnaldra. Samskipti þeirra við jafnaldra utan skóla, fara að mestu leyti fram í gegnum samfélagsmiðla og á netheimur stóran þátt í lífi þeirra. Unglingarnir eiga almennt auðveldara með að umgangast og eiga samskipti við fullorðna en jafnaldra. Foreldrar unglinganna upplifa félagslega stöðu þeirra verri heldur en unglingarnir gera sjálfir. Foreldrar telja mikilvægt að starfsfólk skóla fái fræðslu um einhverfurófið og leggi sig fram um að kynnast einstaklingunum og sérkennum þeirra. Þátttakendur kalla eftir því að skólarnir mæti nemendum betur á forsendum hvers og eins. Niðurstöður gefa skýrar vísbendingar um að leggja þurfi meiri áherslu á félagslega þátttöku, samskiptafærni og myndun vinatengsla í skólastarfi, til að ná betur til þeirra einstaklinga sem standa höllum fæti félagslega. 4

7 Abstract It s a matter of attitude How Adolescents on the Autism Spectrum and their Parents Describe Social Interactions in Schools and during Leisure Activities The purpose of this research was to shed light on the lived experiences of adolescents on the autism spectrum, emphasizing social interactions in schools and during leisure activities. So far, a lot has been written on methods and therapies in connection with autism spectrum disorders, and quite an amount of such research have been conducted. However, the lived experiences of individuals on the autism spectrum, who are the specialists in their own lives, have not been given much thought. Social views shape this study, with an emphasis on social justice. To get a broader view, participants parents were asked to take part as well. The paper draws on the findings of a qualitative study based on grounded theory. The study was conducted during and focused on the lived experiences of 13 individuals, six teenagers (two girls and four boys) and seven parents. The adolescents were years-old who all had an autism spectrum diagnosis. The findings suggest that adolescents on the autism spectrum mirror the social interactions with others to please others and to fit better better into the community. They have friends according to their own definition but experience difficulties in communication with peers. Their relationships with peers, outside of school mostly take place through social media, and the internet plays a big role in their lives. The adolescents seem, in general, to feel more at ease when associating and communicating with adults than with peers. The parents of the adolescents experience their children s social status as worse than the adolescents do themselves. The parents emphasize the importance of the school staff being educated about autism spectrum disorders and making an effort in getting to know the individuals and their distinctive characteristics. The participants want the schools to meet individual needs better. The findings indicate that it is important to emphasize social participation, communication skills and the formation of friendships, as well as to reach out to the individuals that experience social difficulties. 5

8 Efnisyfirlit Formáli... 3 Ágrip... 4 Abstract... 5 Efnisyfirlit... 6 Myndaskrá... 9 Töfluskrá Inngangur Markmið rannsóknar og rannsóknarspurningar Hvað er einhverfuróf? Skóli án aðgreiningar og inngildandi menntun Uppbygging verkefnis Fræðileg umfjöllun Sjálfsmynd og samskipti Ólík sjónarhorn á fötlun Sérkennsluiðnaður Skóli án aðgreiningar Rannsóknir á vináttu og félagslegri þátttöku einstaklinga á einhverfurófi Samantekt Aðferðafræði rannsóknar Fræðasýn, rannsóknarsnið og grunduð kenning Þátttakendur Val þátttakenda Aðgengi Gagnasöfnun og úrvinnsla Vinnulag grundaðrar kenningar Greiningarforritið ATLAS.ti Aðferðafræðilegar og siðferðilegar áskoranir Upplifun unglinga á einhverfurófi af félagslegum samskiptum í skóla og tómstundastarfi Sjálfsmynd og stöðug sjálfsskoðun Áhugamál og tómstundir skipa stóran sess í lífi unglinganna

9 4.3 Vinatengsl eru mikilvæg Hindranir í samskiptum við jafnaldra Samskipti við fullorðna auðveldari Netheimur stærsti hluti samskipta Námskeið tengd félagsfærni Leggja þarf nýjan grunn að grunnskólanum Skólinn á að byggja upp fyrir lífið Ég vil gera eitthvað svona sérstakt fyrir mig Ég lærði meira að segja að lesa í einhverfudeildinni Tala líka með virðingu, mér finnst það mikilvægt Samantekt Upplifun foreldra af félagslegum samskiptum unglinganna Unglingurinn minn og áhugamálin Vináttan er ólík Samskipti og samskiptaleysi Netheimur er varhugaverður Félagsfærni innan og utan heimilis Einhverfurófsgreining óþörf í sumum tilfellum en gagnleg í öðrum Jákvæð og neikvæð upplifun af skólanum Víða svigrúm til nauðsynlegra breytinga Horft til baka Samantekt Umræða Sjálfsmyndin Vinir og samskipti Skólinn Sérkennsluiðnaðurinn og kerfið Horft til framtíðar - Úrbótatillögur Lokaorð Heimildaskrá Viðauki A: Viðtalsrammi fyrir unglinga Viðauki B: Viðtalsrammi fyrir foreldra Viðauki C: Kynningarbréf um rannsókn

10 Viðauki D: Upplýst samþykki Viðauki E: Staðfesting frá Persónuvernd

11 Myndaskrá Mynd 1. Tengsl þátta sem stuðla að stimplun foreldra einhverfra barna (Kinnear o.fl. 2016) Mynd 2. Myndræn útskýring á staðsetningu nemenda eftir ólíkum hugtökum (Wang, 2013) Mynd 3. Kerfislíkan af stuðningi vegna skólastarfs án aðgreiningar (European Agency for Special Needs and Inclusive Education, 2017) Mynd 4. Tengsl þema og annarra þátta á félagsleg samskipti unglinga á einhverfurófi

12 Töfluskrá Tafla 1. Bakgrunnsupplýsingar unglinga Tafla 2. Bakgrunnsupplýsingar foreldra

13 1 Inngangur Fyrirmyndir barna á fyrstu æviárum eru foreldrar þeirra og aðrir fullorðnir einstaklingar sem standa þeim nærri. Þegar unglingsárin nálgast eykst sjálfstæði og aðstæðum fjölgar þar sem unglingarnir fjarlægjast fjölskyldur sínar, eru meira eftirlitslaust með jafnöldrum og taka sjálfir ýmsar ákvarðanir sem foreldrarnir gerðu áður (Rannsóknir og greining, 2016). Á Íslandi er lagt upp úr stefnumótun í faglegu starfi fyrir börn og unglinga og gerð er krafa um nægt framboð og jöfn tækifæri til þátttöku í félags- og tómstundastarfi (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2014; Æskulýðslög nr. 70/2007). Lög kveða á um að í öllu starfi með börnum og ungmennum skuli velferð þeirra höfð að leiðarljósi og þau hvött til frumkvæðis og virkrar þátttöku. Þátttaka í félags- og tómstundastarfi á að auka félagsfærni og undirbúa unglinga til þess að taka virkan þátt í lýðræðissamfélagi. Einstaklingum á einhverfurófi reynist hins vegar félagsleg þátttaka oft erfið (Gunnhildur Jakobsdóttir, Snæfríður Þóra Egilson og Kjartan Ólafsson, 2015; Jarþrúður Þórhallsdóttir, 2013; Kluth, 2009; Snæfríður Þóra Egilson, Gunnhildur Jakobsdóttir, Kjartan Ólafsson og Þóra Leósdóttir, 2016; Þóra Leósdóttir, 2014). Mikilvægt er að huga að hugtakanotkun þegar einstaklingum og hópi þeirra er lýst og kýs ég að nota hugtakið unglingar eða einstaklingar á einhverfurófi. Í nýlegri breskri rannsókn skoðuðu Kenny o.fl. (2016) hugtakanotkun og komust að því, að þeir þátttakendur í rannsókninni sem sjálfir voru á einhverfurófi, vildu flestir láta skilgreina sig sem einstaklinga á einhverfurófi (e. on the autism spectrum). Árið 1943 skilgreindi austurríski barnageðlæknirinn Leo Kanner fyrstur manna einhverfu í grein sinni Autistic disturbances of affective contact (Kanner, 1943; Kluth, 2009). Hann rannsakaði börn sem ekki féllu undir aðrar þekktar fötlunarskilgreiningar og setti fram nýjan flokk, sem hann kallaði,,bernskueinhverfu (e. early infantile autism). Í grein sinni lýsti Kanner sérstökum hegðunareinkennum hjá ellefu börnum, þremur stúlkum og átta drengjum, á aldrinum tveggja til ellefu ára. Fram kemur að þau hafi búið við skerðingu í félagslegum samskiptum, haft takmarkaða færni til tjáningar og gátu sum ekki talað. Áhugamál þeirra voru mjög takmörkuð, þau vildu stöðugt gera það sama og á köflum voru hreyfingar þeirra sérkennilegar og síendurteknar (Evald Sæmundsen og Andrea Katrín Guðmundsdóttir, 2014; Kanner, 1943). Á sama tíma og Kanner en óháð honum, gerði austurríski barnalæknirinn Hans Asperger svipaða uppgötvun en börnin sem hann rannsakaði gátu öll tjáð sig í töluðu máli. Aspergersheilkenni (e. Asperger syndrome) var eftir þetta notað til að skilgreina 11

14 þann hóp (Kluth, 2009). Asperger lýsti fjórum drengjum á aldrinum sex til ellefu ára sem voru getumiklir hvað varðar vitsmuna- og og málþroska en bjuggu við erfiðleika í félagslegum samskiptum. Þeir höfðu mikinn áhuga á afmörkuðum viðfangsefnum sem þeir höfðu sterka tilhneigingu til að ræða um, algjörlega óháð áhuga viðmælanda þeirra (Evald Sæmundsen og Andrea Katrín Guðmundsdóttir, 2014). 1.1 Markmið rannsóknar og rannsóknarspurningar Markmið verkefnisins var að afla þekkingar og skilnings á ferli félagslegra samskipta unglinga á einhverfurófi, út frá þeirra eigin reynslu, upplifun og sýn. Til að varpa enn betur ljósi á málefnið, var jafnframt leitað eftir sýn foreldra þeirra. Með því að beina sjónum að sýn unglinganna sjálfra og foreldra þeirra, er hægt að koma auga á hvernig bæta megi skólastarf og auka þar með félagslega þátttöku nemenda á einhverfurófi, með félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Ég rannsakaði út frá félagslegu sjónarhorni, þar sem áhersla var lögð á að skoða samspil einstaklinga og umhverfis. Með því var dregin athygli frá skerðingu og að umhverfi eða samhengi. Í verkefninu er fjallað um upplifun íslenskra unglinga á einhverfurófi af félagslegum samskiptum í skóla og tómstundastarfi. Hingað til hefur aðallega verið fjallað um einhverfurófið með tilliti til kennsluaðferða og ýmissa sannreyndra (e. evidence based) aðferða og fyrir liggja talsvert mikið af slíkum rannsóknum (Guðný Stefánsdóttir, 2008; Wong o.fl., 2015; Þórhalla Guðmundsdóttir, 2012). Lítið hefur hins vegar verið spurt um upplifun þeirra sem greindir hafa verið á einhverfurófinu og eru sérfræðingar um líf sitt og reynslu, með fáum undantekningum þó en Jarþrúður Þórhallsdóttir (2013), Laufey Ingibjörg Gunnarsdóttir (2010) og Linda Björk Ólafsdóttir, Snæfríður Þóra Egilson og Kjartan Ólafsson (2014) rannsökuðu reynslu íslenskra einstaklinga á einhverfurófi. Tilgangur þessarar rannsóknar var að varpa ljósi á það hvernig unglingar á einhverfurófi lýsa upplifun sinni af félagslegum samskiptum í skóla og tómstundastarfi. Margar og ólíkar rannsóknir hafa sýnt fram á að einstaklingar á einhverfurófi virðast oft eiga í erfiðleikum með félagsleg samskipti (Bauminger og Kasari, 2000; Carrington og Graham, 2001; DePape og Lindsay 2015; Jarþrúður Þórhallsdóttir, 2013; Laufey Ingibjörg Gunnarsdóttir, 2009; Linda Björk Ólafsdóttir o.fl., 2014; Müller, Schuler og Yates, 2008; van Asselt-Goverts, Embregts, Hendriks, Wegmann og Teunisse, 2015) og því er mikilvægt að skoða hvernig þeir upplifa þessi samskipti og hvernig hægt væri að styðja þá til aukinnar félagslegrar þátttöku, sem er mikilvæg á unglingsárum. 12

15 Meginástæða fyrir vali mínu á viðfangsefni verkefnisins er reynsla af kennslu nemenda sem skilgreindir hafa verið á einhverfurófinu. Í störfum mínum innan grunnskólans hef ég orðið þess áskynja að nemendur á einhverfurófi eiga oft erfitt uppdráttar félagslega. Ég hef oft leitt hugann að því að skólasamfélagið hljóti að geta gert betur þegar kemur að því að efla ólíka hópa félagslega og lá því vel við að skoða málefnið sérstaklega. Eftirfarandi rannsóknarspurningar voru settar fram: 1. Hvernig lýsa unglingar á einhverfurófi félagslegum samskiptum í skóla og tómstundastarfi? 2. Hvernig mótast sjálfsmynd unglinga á einhverfurófi í félagslegum samskiptum? 3. Hvernig lýsa foreldrar unglinga á einhverfurófi félagslegum samskiptum þeirra í skóla og tómstundastarfi? 4. Hvernig getur skólasamfélagið stuðlað að aukinni félagslegri þátttöku nemenda á einhverfurófi? Verkefnið er mikilvægt þar sem leitað er til unglinganna sjálfra og foreldra þeirra um mikilvæga þætti er snúa að lífsgæðum unglinganna. Skilgreining á skóla án aðgreiningar felur meðal annars í sér félagslegt réttlæti án hvers konar mismununar og til að svo megi verða í reynd, er nauðsynlegt að heyra raddir hóps unglinga sem rannsóknir sýna að standa oft höllum fæti félagslega og einnig raddir foreldra þeirra. 1.2 Hvað er einhverfuróf? Eins og fram hefur komið fjallar þetta verkefni um unglinga sem hafa fengið einhverfurófsgreiningu en skilningur á hugtakinu er breytilegur. Læknisfræðileg skýring einhverfu er samkvæmt skrifum Timimi og McCabe (2016) talin vera röskun í taugaþroska og hefur hlutfall þeirra sem taldir eru búa við röskunina, aukist úr því að vera fjórir af hverjum tíu þúsund einstaklingum á sjöunda áratugi síðustu aldar, yfir í einn af hverjum 50, eða 50 föld aukning. Samkvæmt DSM 5 flokkunarkerfinu (American Psychiatric Association, 2013) eru greiningarviðmið fyrir röskun á einhverfurófi, erfiðleikar í félagslegum samskiptum, áráttukennd hegðun og áhugi, auk þess sem einkenni þurfa að hafa verið til staðar frá því snemma í barnæsku. Greining á einhverfurófi fer ekki fram með líffræðilegu prófi, heilaskanna eða blóðprufu, heldur hafa verið þróuð hin ýmsu sálfræðilegu mælitæki og matslistar, sem byggja á því að skoða og meta hegðunareinkenni. Hafa verður í huga að útfylling slíkra lista byggir á huglægu mati þess sem fyllir út. 13

16 Breski barnageðlæknirinn Lorna Wing (1988) setti fyrst fram hugmyndina um einhverfuróf (e. autism spectrum). Hugtakið einhverfuróf hefur verið notað til að lýsa einhverfu, Aspergers og öðrum skyldum heilkennum. Luke Jackson (2002) sem er á einhverfurófi, skrifaði bók 13 ára gamall. Hann sagði marga hugsa um einhverfurófið sem einskonar regnhlíf, sem sé að mörgu leyti gagnlegt en gallinn við þá samlíkingu sé að það rigni mun meira á suma en aðra á einhverfurófinu, sem eigi sér ekki stað undir venjulegri regnhlíf. Einhverfurófshugtakið vísar til þess að einhverfir einstaklingar hafa mjög ólík einkenni og sérkenni og búa yfir ólíkri hæfni en í grunninn eru ákveðnir sameiginlegir þættir. Eftirfarandi grunnþættir eru algengir hjá einstaklingum á einhverfurófi: Tilhneiging til að víkja frá, sumir lítið en aðrir verulega, einkum á tveimur sviðum; félagslega og samskiptalega. Sérstakt hegðunarmynstur tengt hreyfingu, ákveðnum hlutum og endurtekningum og ólík áhugasvið (Kluth, 2009). Í rannsóknum og fjölmiðlum er of mikið rætt um þá skerðingu og erfiðleika sem tengjast einhverfu en ekki lögð nægileg áhersla á það sem einstaklingar á einhverfurófi geta og geta jafnvel mun betur en þeir sem ekki eru á rófinu. Tekinn var saman listi yfir algengustu sameiginlegu jákvæðu þættina sem oft tengjast lífi á einhverfurófi: Listræn hæfni (e. artistic ability) Auga fyrir smáu hlutunum (e. attention to detail) Sköpun (e. creativity) Orka (e. energy) Framúrskarandi hæfni í stærðfræði, tónlist eða til að læra ný tungumál (e. exceptional skill in mathematics, music, or learning new languages) Nákvæmni/Smámunasemi (e. fastidiousness) Gott minni (e. good memory). Heiðarleiki (e. honesty) Einstaklingseðli (e. individuality) Heilindi (e. integrity) Áhugasamir/nákvæmir áhorfendur(e. keen observational skills) Aðferðafræðilegar venjur (e. methodical habits) Snyrtimennska (e. neatness) Fordómaleysi (e. nonjudgmental attitude) Hugsun út fyrir kassann (e. out-of-the-box thinking) Ástríða (e. passion) Fullkomnunarsinnar (e. perfectionism) Kímnigáfa (e. quirky sense of humor) Ferskt/hressandi sjónarhorn (e. refreshing perspective) 14

17 Áreiðanleiki (e. reliability) Halda sér við efnið (e. stick-to-itiveness) Sterk vélræn færni (e. strong mechanical skills) (Kluth, 2009, bls ). Listi þessi er á engan hátt tæmandi en gefur ákveðna mynd sem flestir á einhverfurófi og þeir sem þekkja einstaklinga á einhverfurófi, geta tengt við að einhverju leyti. 1.3 Skóli án aðgreiningar og inngildandi menntun Skóli án aðgreiningar er opinber skólastefna á Íslandi, sem í felst að koma eigi til móts við náms- og félagslegar þarfir allra nemenda í almennu skólastarfi. Skóli án aðgreiningar er íslensk þýðing á enska hugtakinu inclusion en á síðustu misserum hefur skóli margbreytileikans verið notað til að beina sjónum að margbreytilegum nemendahópi grunnskólans (Steingerður Ólafsdóttir, Sigrún Sif Jóelsdóttir, Lára Rut Sigurvinsdóttir, Dóra S. Bjarnason, Anna Kristín Sigurðardóttir og Kristín Erla Harðardóttir, 2014). Berglind Rós Magnúsdóttir (2016) hefur þýtt inclusive education sem inngildandi menntun og segir það vísa til þess að einstaklingur sé tekinn inn í hóp sem fullgildur þátttakandi. Útilokun er andstæðan við inngildingu. Ég mun nota þessi hugtök meðal annars þegar ég rýni í skólagöngu þátttakenda og ræði skólakerfið. 1.4 Uppbygging verkefnis Verkefnið skiptist í sex kafla. Í inngangi er fjallað um markmið rannsóknarinnar og rannsóknarspurningar. Þar á eftir er fjallað um skilgreiningar á einhverfu og einhverfurófinu, auk þess sem skóli án aðgreiningar og inngildandi menntun eru skilgreind. Annar kafli fjallar um þann fræðilega grunn sem liggur að baki verkefninu og er honum skipt í undirkafla. Fjallað er um sjálfsmynd og samskipti, ólík sjónarhorn á fötlun, sérkennsluiðnað, skóla án aðgreiningar og rannsóknir á vináttu og félagslegri þátttöku einstaklinga á einhverfurófi. Í lok kaflans er stutt samantekt. Í þriðja kafla er fjallað um aðferðafræði rannsóknarinnar. Þar er gerð grein fyrir þeirri eigindlegu rannsóknaraðferð sem beitt er. Rannsóknaraðferðin er rökstudd, farið er yfir val á þátttakendum og aðgengi, gagnaöflun, -úrvinnslu og -greiningu, grundaða kenningu og tölvuforritið atlas.ti. Einnig er fjallað um aðferðafræðilegar og siðferðilegar áskoranir. Í fjórða og fimmta kafla er greint frá niðurstöðum úr viðtölum. Við gagnagreiningu komu fram upplýsingar sem dregnar eru saman í þemaflokka til þess að lýsa innihaldi 15

18 viðtalanna sem best og eru fyrirsagnir undirkaflanna þemaheitin. Í lok kaflanna eru stuttar samantektir. Sjötti kafli er umræðukafli þar sem helstu niðurstöður eru dregnar saman og settar í samhengi við fræðin, með hliðsjón af rannsóknarspurningum verkefnisins. Reynt er að svara rannsóknarspurningunum, koma með hugmyndir og tillögur að úrbótum. 16

19 2 Fræðileg umfjöllun Hér verður gerð grein fyrir þeim fræðilega grunni sem liggur að baki viðfangsefni rannsóknarverkefnisins. Fjallað er um mótun sjálfsins, sjálfsmynd og samskipti, ólík sjónarhorn á fötlun, sérkennsluiðnað, skóla án aðgreiningar og rannsóknir á vináttu og félagslegri þátttöku einstaklinga á einhverfurófi. 2.1 Sjálfsmynd og samskipti Kanadíski félagsfræðingurinn Erving Goffman (1959) rannsakaði dagleg samskipti fólks og fjallaði um mótun sjálfsins í félagslegum samskiptum. Hann líkti því við leikrit með ákveðnu handriti, sem sett væri á svið. Samkvæmt hugmyndum hans er fólk í hlutverkaleik í daglegu lífi, þar sem hver og einn leikur mörg hlutverk. Áhorfendur eru aðrir einstaklingar sem fylgjast með hlutverkaleiknum og bregðast við honum í félagslegum samskiptum, eins og á leiksviði, þar sem leikarar eru á sviði fyrir framan áhorfendur. Meðvitund leikaranna um áhorfendur og þær væntingar sem áhorfendur hafa til hlutverka leikaranna, hefur áhrif á hegðun þeirra og frammistöðu. Í brennidepli kenningarinnar er stöðugt ferli ímyndarsköpunar (e. impression management), sem fólk stundar á meðan það á í félagslegum samskiptum. Með því reynir það að sýna ákveðna mynd af sér til að koma í veg fyrir að verða sjálfum sér og öðrum til skammar. Þetta er fyrst og fremst gert til þess að einstaklingar sem eru hluti af ákveðnum samskiptum hafi sama skilning og skilgreiningu á aðstæðum, séu meðvitaðir um hvað gerist í aðstæðunum, hverju megi búast við frá öðrum og hvernig viðkomandi eigi að hegða sér sjálfur. Goffman (1959) skilgreindi þætti leikræna sviðsins (e. the elements of the dramaturgical framework) í smærri þætti: Framkoma/flutningur (e. performance). Hugtakið nær yfir allt atferli einstaklings fyrir framan áhorfendur eða áheyrendur. Sviðsmynd (e. setting). Aðstæðurnar sem framkoman/flutningurinn á sér stað við. Útlit (e. appearance). Snýr að því að sýna áhorfendum félagslega stöðu þess er flytur. Háttsemi (e. manner). Sýnir hvernig einstaklingurinn leikur hlutverkið. Framhlið (e. front). Er sá hluti í flutningi einstaklingsins sem skilgreinir aðstæðurnar fyrir áhorfendum og gefur ákveðna ímynd. Aðalsvið (e. front stage). Einstaklingarnir setja á svið formlegan flutning, vita af áhorfendum og koma fram í samræmi við það. 17

20 Baksvið (e. back stage). Einstaklingar geta slakað á í hlutverkaleik og verið þeir sjálfir. Utan sviðs (e. off stage). Einstaklingar hitta áhorfendur á einstaklingsgrundvelli, óháð hópflutningi á aðalsviði. Hér gefst kostur á einkaflutningi ef aðstæður eru þess eðlis. Samkvæmt umfjöllun Goffman ríkir almennur félagslegur stöðugleiki en truflun getur orðið á honum ef handritið er einhverra hluta vegna ekki notað. Tilgangurinn er að viðhalda ákveðnu félagslegu jafnvægi. Embla Guðrúnardóttir Ágústsdóttir (2016) skoðaði þau áhrif og afleiðingar sem það hefur fyrir fatlað fólk ef tilvist þess ein og sér veldur truflun félagslegs stöðugleika. Fatlað fólk upplifir sig bera ábyrgð á því að halda félagslegu jafnvægi, því skerðing þeirra veldur ójafnvægi. Embla sagði hverja félagslegu athöfn vera einskonar þrautabraut, þar sem fatlað fólk bæri meginþungann af því að endurskapa stöðugleikann sem tilvist þeirra ein og sér rústar. Goffman (1963) skoðaði einnig svokallaða skaddaða sjálfsmynd (e. spoiled identity) (MacLeod, Lewis og Robertson, 2013). Samkvæmt skrifum Goffman stimplar samfélagið einstaklinga vegna útlits, viðhorfa eða athafna. Verður stimplunin (e. stigma) þá aðalhlutverk einstaklingsins og stuðlar að viðbrögðum og atferli annarra, sem verður til þess að lífsgæði og möguleikar taka mið af stimpluninni. Með þessu er einstaklingurinn færður út á jaðar samfélagsins (Dóra S. Bjarnason, 2001). Samfélagið býr til staðalímyndir af hinum brennimerkta hóp, gefur sér ákveðnar forsendur um hann og lítur eftir það á alla innan hópsins út frá fyrirfram ákveðnum forsendum, færir sig svo frá brennimerkta hópnum og gefur með því til kynna að hópurinn sé í grunninn ólíkur öðru fólki. Tilfinningar eins og hræðslu, ónot og truflun er oft að finna gagnvart stimplaða hópnum og einstaklingar innan stimplaða hópsins upplifa skömm og smán. Samfélagið notar svo staðalímyndir og tilfinningar til að mismuna einstaklingum í stimpluðu hópunum og neita þeim til að mynda um aðgengi að þeim gæðum sem stendur öðrum samfélagsþegnum til boða (Kinnear Link, Ballan og Fischbach, 2016). Stimplun veldur misræmi í persónulegri og félagslegri sjálfsmynd einstaklinga, sem hefur neikvæðar afleiðingar fyrir þá, ef samsömunin er meiri við skaddaða sjálfsmynd (MacLeod o.fl., 2013). Í fræðilegum skrifum um einhverfu hefur stimplunarhugtakið verið notað til þess að greina skömm og félagslega útilokun foreldra einhverfra barna og fram hefur komið að foreldrar og systkini upplifa gjarnan að þeir deili stimplinum með einstaklingnum á einhverfurófi (Kinnear o.fl., 2016). Líkja fræðimenn því við það sem Goffman (1963) kallaði (e. associative stigma). Upphafleg skilgreining hugtaksins tengdist valkvæðum tengslum við hinn stimplaða hóp en fræðimenn hafa yfirfært hugtakið á tengsl foreldra 18

21 og barna (Farrugia, 2009; Gray, 2002; Kinnear o.fl., 2016). Fræðimennirnir komust að því að foreldrar einhverfra barna ættu í ákveðinni togstreitu, því þeir vildu bæði eiga í góðu sambandi við börn sín en á sama tíma var löngun til að aftengja sig frá skemmdu félagslegu sjálfi (e. spoiled social identity), sem fylgdi læknisfræðilegri greiningu barnsins. Mæður upplifðu meiri stimplun en feður. Einnig upplifðu foreldrar barna með meiri skerðingar og foreldrar barna yngri en tólf ára, meiri stimplun (Gray, 1993, 2002). Kinnear o.fl. (2016) skoðuðu hvernig ólíkir þættir hefðu áhrif á stimplun og hvernig hver þeirra yki erfiðleikana við uppeldi barns á einhverfurófi. Rannsakendur settu fram hugmyndafræðilegt líkan eins og sjá má á mynd 1. Samkvæmt líkaninu hafa félags- og lýðfræðilegir umhverfisþættir (e. sociodemographic controls) áhrif á einhverfutengd hegðunareinkenni barnsins (e. child s autism related behaviours), sem er upphafspunktur stimplunarferlisins. Viðbrögð samfélagsins byggjast ekki alltaf á þekkingu, heldur oft á vanþekkingu, hugmyndum um lélegt uppeldi og óþekkt í börnunum. Hegðunin sjálf bætist við staðalímyndir og kallar fram höfnun (e. stereotypes and rejection) sem veldur einangrun og útilokun (e. isolation and exclusion) í félagslegum aðstæðum. Foreldrar ákveða umfang/styrk stimplunarinnar (e. difficulty of stigma) sem þeir festa í sessi innra með sér. Að síðustu, með tilliti til allra þessara þátta, meta foreldrar erfiðleikastig þess að eiga barn á einhverfurófi (e. difficulty of having a child with autism). Líkanið gerir ráð fyrir að félagslegt ferli stimplunar geri það að verkum að reynsla af uppeldi einhverfs barns verði erfiðari. Niðurstöður rannsóknarinnar studdu líkanið og sýndu fram á mikilvægi þess að auka skilning og umburðarlyndi í samfélaginu, til að draga úr stimplun og um leið þeim neikvæðu áhrifum sem hún hefur á foreldra einhverfra barna og áhyggjum þeirra af uppeldi barna sinna (Kinnear o.fl. 2016). Mynd 1. Tengsl þátta sem stuðla að stimplun foreldra einhverfra barna (Kinnear o.fl. 2016). 19

22 Félagsleg sjálfsmyndarkenning (e. social identity theory) kannar það hvernig hópar og félagsleg staða þeirra hefur áhrif á sjálfsmynd einstaklinga innan hópanna (Turner, 1999). Það hvernig einstaklingur samsamar sig tilteknu sjálfi, fer eftir læknisfræðilegum, félagslegum og menningarlegum skilningi þeirra á sjálfinu. Til þess að einstaklingar á einhverfurófi geti litið á einhverfurófið sem hluta af sjálfsmynd sinni, eða tileinkað sér svokallað einhverfusjálf (e. autism identity), þurfa þeir að vita af hópi annarra einstaklinga á einhverfurófinu. Það fer svo eftir áliti annarra á hópnum og hvernig hópurinn sér sig sjálfur, hvort einhverfusjálfið verði upplifað jákvætt eða neikvætt (Beart, Hardy og Buchan, 2005; MacLeod o.fl., 2013). Áberandi staðalímyndir af einstaklingum á einhverfurófi hafa gjarnan verið verulega á skjön við félagsleg norm, eins og aðalpersónurnar í kvikmyndinni Rain Man og bókinni Undarlegt háttarlag hunds um nótt (e. The Curious Incident of the Dog in the the Night-time). Hjá mörgum einstaklingum á einhverurófi, sérstaklega einstaklingum sem þróað hafa með sér færni til að takast á við daglegt líf, er skerðingin falin. Ef hugtaki Goffman (1963) er beitt, þá afneita einstaklingar stundum erfiðleikum sínum, til þess að forðast stimplun, sem á móti getur orðið til þess að erfiðleikar þeirra verði vanmetnir og þeir því sniðgengnir um þjónustu sem þeir hafa þörf fyrir. Þetta getur því valdið ákveðinni togstreitu. Mikilvægt er að ungt fólk sjái jákvæðar fyrirmyndir í einstaklingum á einhverfurófi, svo samsömun við hópinn verði styrkjandi fyrir alla einstaklinga (MacLeod o.fl., 2013). Sex fullorðnir háskólanemar á einhverfurófi tóku þátt í rannsókn MacLeod o.fl. (2013) um eigin upplifun af einhverfurófsgreiningunni. Þátttakendur upplifðu það allir eftir greiningu, að hafa fundið mjög takmarkaðar og almennar upplýsingar, byggðar á alhæfingum, sem skrifaðar voru af einstaklingum sem ekki voru sérfræðingar um einhverfurófið og áttu þeir erfitt með að samsama sig við lýsingarnar. Sumir þátttakendanna höfðu því komist að þeirri niðurstöðu að þeir væru óeðlilegir (e. atypical), þar sem þeir pössuðu ekki við lýsinguna. Rannsókn Humprey og Lewis (2008) leiddi í ljós að börnum á einhverfurófi fannst þau eiga margt sameiginlegt með öðrum bekkjarfélögum en upplifðu sig samt ólík öðrum. Þau upplifðu á sama tíma samþykki og höfnun. Margir einstaklingar, þar með talið einstaklingar á einhverfurófinu, líta ekki á einhverfu eða Asperger sem fötlun, heldur sem hluta af sjálfsmynd þeirra. Þeir líta á það sem eðlilegan hluta af því að vera mannlegur og fagna þeim forréttindum sem því fylgir að vera á rófinu (Kluth, 2009). Luke Jackson (2002) segir að það sem sumir kalli fötlun, kalli hann náðargáfu og þó það sé stundum erfitt að vera á einhverfurófinu og eiga í erfiðleikum í félagslegum samskiptum, þá séu jákvæðu þættirnir fleiri en þeir neikvæðu. 20

23 Talsmenn réttindabaráttu einhverfra einstaklinga vilja að einhverfa verði viðurkennd sem önnur heilastarfsemi og önnur birtingarmynd í samskiptum og vitsmunaþroska. Þeir gagnrýna á þeim forsendum að einhverfum einstaklingum sé mismunað og vilja að hópurinn verði viðurkenndur sem minnihlutahópur í samfélaginu en réttindabarátta heyrnarlausra var þeim innblástur að þessu leyti (Baggs, 2007; Dekker, 2000; Sinclair, 1993). Í stað þess að tala um venjulegt fólk til aðgreiningar frá einhverfum einstaklingum, hefur hugtakið taugafræðilega dæmigerður (e. neurologically typical) verið notað (Dekker, 2000). Shakespeare (1996) segir að fatlaðir einstaklingar upplifi það sterkt í skilaboðum umhverfisins að þeir séu óæðri, sem hafi áhrif á sjálfsmynd þeirra. Þegar einstaklingar ræða sjálfa sig og fötlun sína, miða þeir stundum við þá sem þeir meta að hafi það verr og telja sig heppna við hliðina á þeim, því má segja að um einskonar stigveldi eða pýramída sé að ræða, þar sem þyngstu skerðingarnar eru neðst í stigveldinu. Undir orð Shakespeare taka Vehmas og Watson (2013) sem fjalla um stigveldið í grein sinni en skiptar skoðanir eru um gagnsemi og tilverurétt þess. Kristín Björnsdóttir og Steindór Jónsson (2015) hafa haldið því fram að stigveldið valdi markvissri jaðarsetningu fólks með þroskahömlun, geðraskanir eða önnur frávik og hafi áhrif á hagsmunabaráttu viðkomandi einstaklinga. Í rannsókn Kristínar Björnsdóttur og Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar (2009) kemur fram að fatlaðir einstaklingar upplifðu það að velgengni þeirra væri góðhjörtuðu, ófötluðu fagfólki að þakka. Í umfjölluninni kom einnig fram að upplifi einstaklingurinn skort á valdi yfir lífi sínu þá finnist honum að hann þurfi á slíkri heppni að halda, það er góðhjörtuðu, ófötluðu fagfólki, til að eiga möguleika á velgengni í lífinu. Snæfríður Þóra Egilson (2003) rannsakaði tækifæri og hindranir í umhverfi hreyfihamlaðra nemenda í almennum grunnskólum. Í ljós kom að tilviljun og heppni virtist oft ráða því hvort fatlaðir nemendur fengju viðunandi kennslu. Kennarinn gegnir lykilhlutverki og kennaraskipti breyta oft miklu. Nálgun og viðhorf kennarans skiptir gífurlegu máli varðandi það hvernig til tekst. Með tilkomu Internetsins opnuðust margir möguleikar fyrir einstaklinga á einhverfurófi til að tjá sig án þess að eiga beint samneyti við aðra. Þar sem líkamstjáning, svipbrigði og aðrir þættir sem fólk notar gjarnan í samskiptum geta verið ófyrirsjáanlegir og erfiðir fyrir einstaklinga á einhverfurófi að lesa í, getur það einfaldað þeim samskiptin til muna að tjá sig skriflega (Benford og Standen, 2009; Davidson, 2008). Einnig kemur fram að menn hafi viljað líkja mikilvægi Internetsins fyrir einhverft fólk, við þýðingu táknmáls fyrir heyrnarlaust fólk (Davidson, 2008). Í rannsókn sem framkvæmd var meðal 76 einstaklinga á einhverfurófi, kom meðal annars fram að þeir kusu að eiga frekar 21

24 samskipti í netheimi en augliti til auglitis í raunheimi. Skýringarnar voru meðal annars þær að samskipti í netheimi væru hlutbundin, bara orð, ekkert hljómfall eða látbragð sem þyrfti að túlka. Þátttakendur tóku þó fram að neikvæða hliðin á samskiptum í netheimi, væri sú að stöðugt meiri tími af lífi þeirra færu í samskipti á netinu (Davidson, Edwards og Hemsworth, 2012). Íslenskir unglingar verja drjúgum tíma í netheimi, ýmist á samskiptamiðlum, í tölvuleikjum eða við þátta- og kvikmyndaáhorf (Rannsóknir og greining, 2016). Mestur tími fer í samskiptamiðla en tæplega 40% unglinga í áttunda til tíunda bekk ver hálfri til heilli klukkustund á dag á samfélagsmiðlum. Rúmlega 30% ver tveimur til þremur klukkustundum á samfélagsmiðlum og tæplega 30% ver þar fjórum klukkustundum eða meira daglega. Internetið er tvíeggjað sverð, hefur jákvæðar hliðar en einnig neikvæðar. Íslensk rannsókn var unnin úr viðtölum við 13 unglinga á aldrinum ára, sem sýnt höfðu merki um netfíkn samkvæmt skimunarprófi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að sumar fjölskyldur áttu í erfiðleikum vegna netnotkunar unglinga. Niðurstöðurnar bentu einnig til þess að unglingar sem glíma við vanda vegna netfíknar, þyrftu á því að halda að foreldrar settu þeim skýr mörk. Þeir unglingar sem lýstu óskýrum mörkum foreldra, virtust eiga í meiri erfiðleikum og fram komu alvarlegri einkenni netfíknar í lýsingum þeirra (Ólína Freysteinsdóttir, Halldór S. Guðmundsson og Kjartan Ólafsson, 2015). Rannsóknir hafa sýnt fram á aukna hættu netfíknar hjá einstaklingum á einhverfurófi og neikvæð áhrif mikillar netnotkunar á atferli þeirra (Mazurek o.fl., 2012, Mazurek og Wenstrup; 2012; Romano, Truzzoli, Osborne og Reed, 2014). 2.2 Ólík sjónarhorn á fötlun Hvernig ber að skilja hugtakið fötlun? Ólík sjónarhorn hafa verið sett fram í gegnum tíðina. Merking fötlunar verður ávallt til í tiltekinni menningu og orðræðu. Menning snýst um þær reglur, viðmið og gildi sem hvert samfélag setur sér (Hanna Björg Sigurjónsdóttir, Ármann Jakobsson og Kristín Björnsdóttir, 2013). Læknisfræðilegt sjónarhorn á fötlun virðist vera lífseigt og hefur sterk ítök í samfélaginu. Því tengt má nefna svokallaða mæðraskömm (e. mother-blame), sem í felst að kenna mæðrum um ósýnilegar skerðingar barna sinna, eins og félags-, tilfinninga- og hegðunarvanda (Blum, 2007). Í rannsókn Blum kom fram að mæður upplifi fordóma frá umhverfinu, samfélagið hafi mikla skoðun á því hvernig börnin séu alin upp, þær deili greiningunni og stimplinum með börnum sínum og upplifi að þeim sé kennt um vanda barna sinna. Í umfjöllun Dóru S. Bjarnasonar (2001) kemur fram að læknisfræðilegt sjónarhorn á fötlun einblíni á skerðingu og það gangi út frá þeirri hugmynd að galli búi í einstaklingnum sjálfum. Þá er 22

25 það hlutverk lækna, sérkennara og þjálfara að gera við einstaklinginn og gera hann eðlilegan. Í skrifum Hönnu Bjargar Sigurjónsdóttur o.fl. (2013), kemur eftirfarandi fram: Jafnframt því sem læknisfræðilegum skilgreiningum á fötlun er beitt til að ákvarða hver eigi rétt á velferðarþjónustu í samræmi við lög og reglugerðir, þá flokka þær jafnframt einstaklinga og draga í dilka. Þetta er nátengt þeirri hneigð læknavísindanna að líta til einstakra líkamshluta í stað þess að horfa á líkamann sem eina heild og hugsa um einstaklinga sem sjúklinga sem verða fyrst til með krankleikanum og eru skilgreindir út frá honum (bls. 8). Þau segja hluta af vandanum einmitt vera flokkunarkerfi, þar sem fötlun og skerðing eru skilgreind meðvitað og ómeðvitað sem stöðug og óbreytanleg fyrirbæri og þannig séu dregin mörk á milli ófatlaðs og fatlaðs fólks. Á síðustu áratugum 20. aldarinnar fóru fræðimenn að rannsaka fötlun út frá sjónarhóli fatlaðs fólks. Þeir aðhylltust félagsleg sjónarhorn á fötlun, sem horfir til samspils einstaklingsins og þess umhverfis sem tekur einungis mið af ófötluðu fólk (Dóra S. Bjarnason, 2001). Með þessu var hinu læknisfræðilega sjónarhorni ögrað. Shakespeare (2006) segir ávinning félagslegra sjónarhorna vera þann að þau færi athygli frá einstaklingum og þeirra líkamlegu eða andlegu skerðingum, að því hvernig samfélagið bregðist við þeim. Með því að hafna þeim skilningi að rekja megi þær hindranir sem fatlaðir einstaklingar verða fyrir til skerðingar þeirra og að fötlun sé galli, hefur ábyrgðinni verið skilað af fötluðum einstaklingum og færð til samfélagsins. Það er síðan á ábyrgð stjórnvalda og samfélagsins að uppræta hindranirnar og tryggja jafnan rétt (Hanna Björg Sigurjónsdóttir o.fl., 2013). Á níunda áratugi síðustu aldar komu fram hugmyndir um að eitt af því sem einkenndi einstaklinga með einhverfu væri skortur á hugarkenningu (e. Theory of Mind). Hugarkenningin vísar til þeirrar hæfni að hafa skilning á því að aðrir hafi sínar eigin áætlanir, hugsanir og tilfinningar (Timimi og McCabe, 2016). Kenning þessi um skort á hugarkenningu, sem skýringu á einhverfu, er samkvæmt Davies (2016), afsprengi skilgreininga Kanner og Asperger og er meðal annars grunnur læknisfræðilegra greiningarviðmiða í dag. Allar byggja þessar hugmyndir á læknisfræðilegu sjónarhorni á fötlun en miklar hugmyndafræðilegar breytingar hafa átt sér stað á undanförnum áratugum. Breytingar yfir í nútímaskilgreiningu á einhverfurófi eru til komnar vegna hugmyndafræðilegra breytinga, fremur en nýrrar vísindalegrar þekkingar (Timimi og McCabe, 2016). 23

26 Fötlunarfræðingurinn Katherine Runswick-Cole (2016) segir að eftir hugmyndafræðilegt ferðalag sitt undanfarin ár, sé hún þeirrar skoðunar að einhverfa sé nútíma menningarlegt fyrirbæri og að það sé engum gagnlegt lengur að fá formlega læknisfræðilega einhverfugreiningu. Timimi og McCabe (2016) taka það fram að alltaf verði til einstaklingar sem við eigum ekki auðvelt með að skilja, sem við upplifum öðruvísi og það að lifa í samfélagi ólíkra einstaklinga sé eitthvað sem öllum sé hollt. Með því að hverfa frá einhverfugreiningum, getur skapast ákveðið svigrúm til þess að styðja við einstaklinga sem upplifa erfiðleika sem eru einkennandi fyrir einhverfurófið, óháð greiningum (Runswick-Cole, Mallett og Timimi, 2016). Núverandi tilhögun fjárveitinga til menntakerfisins er þess eðlis að það skiptir öllu máli hvoru megin við greiningarviðmið viðkomandi lendir, þegar kemur að stuðningi þ.e. formleg greining þarf að vera til staðar til þess að viðbótarstuðningur fáist. Læknisfræðilega sjónarhornið virðist eiga sér afar sterkar rætur. Margir eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta og í kringum einhverfu er mikill sérkennsluiðnaður. Meðferðir og lausnir sem eiga að lækna hinn einhverfa eru seldar dýrum dómum (Mallett og Runswick-Cole, 2016) Sérkennsluiðnaður Tomlinson (2012) hefur fjallað um markaðsvæðingu sérkennsluiðnaðarins, sem hún segir að sé mjög mikil og að miklir fjármunir fari í gegnum sérkennsluiðnaðinn. Hún segir lækna og aðrir sérfræðinga fá greitt fyrir að setja ýmsa merkimiða, eins og einhverfu á börn og lyfjafyrirtæki fá greitt fyrir lyf sem talin eru nauðsynleg í kjölfar greininga. Skólar fái meira fjármagn fyrir börn með greiningar. Jafnframt að foreldrar vilji að börnin þeirra fái greiningu, til þess að geta farið fram á meiri þjónustu þeim til handa. Hún bendir á að kröfur á almenna skóla hafi aukist í kjölfar skóla án aðgreiningar, því nú eigi þeir að mæta þörfum þeirra sem áður voru í sérskólum eða sérdeildum. Umfjöllun Slee (2011) er á svipuðum nótum, þar kemur fram að mikil pólitík virðist vera fyrir hendi þegar verið er að útbúa nýja viðmiðunarstaðla sem notaðir eru til að greina geðsjúkdóma og hegðunarraskanir. Tekið er dæmi af DSM flokkunarkerfinu (Diagnostic and statistical manual of mental disorders). Hver útgáfa segi þar nýja og ólíka sögu og það er ekki vegna nýrrar vísindalegrar þekkingar, heldur liggi aðrar og pólitískari ástæður að baki. Slee (2011) segir mikilvægt að gera sér grein fyrir þessum hliðum málsins og jafnframt: Markmiðið er ekki að afsanna vísindin, því vísindin gera það sjálf reglulega. Markmiðið er að varpa ljósi á hugsanaferlin sem eru kveikja þeirra, hvernig þau hafa áhrif á börn og skóla og kalla fram mynstur inngildingar og útilokunar (bls. 136, mín þýðing). Hann talar fyrir því að skoða rót vandans í stað þess að einblína á lyfjagjöf fyrir nemendur, segir 24

27 algengt að fólk líti undan erfiðum aðstæðum annarra, oft ómeðvitað og leggur áherslu á að við látum okkur aðstæður annarra varða. Orðræðan skiptir miklu máli og umræða til að mynda um mikinn hegðunarvanda nemenda setur á pressu um greiningar, sem leiðir í mörgum tilfellum af sér aukið fjárframlag til fjársveltra skóla. 2.4 Skóli án aðgreiningar Á Íslandi er skóli án aðgreiningar, opinber skólastefna (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013; Reglugerð 585/2010). Skilgreining á skóla án aðgreiningar er svohljóðandi í reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla: Með skóla án aðgreiningar er átt við grunnskóla í heimabyggð eða nærumhverfi nemenda þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi (Reglugerð 585/2010, 2. gr.). Mennta- og menningarmálaráðuneytið fól Menntavísindastofnun Háskóla Íslands að vinna skýrslu um skóla án aðgreiningar. Fram kemur í skýrslunni að þegar íslensk löggjöf sé skoðuð er vilji löggjafans skýr og í samræmi við alþjóðasamþykktir. Einnig að nokkuð gott samræmi sé milli lagatexta og fyrirmæla sem varða skóla án aðgreiningar. Þegar hins vegar kemur að lagasetningu um menntagæði eða framkvæmd, sem byggir meðal annars á hæfni starfsfólks, innra starfi og samstarfi við önnur kerfi, kemur fram að íslenskt lagaumhverfi styðji ekki nógu vel við menntun og nám án aðgreiningar (Steingerður Ólafsdóttir o.fl., 2014). Í Aðalnámskrá grunnskóla 2011 er fjallað um menntun án aðgreiningar meðal annars á eftirfarandi hátt: Menntun án aðgreiningar er samfellt ferli sem hefur það að markmiði að bjóða upp á góða menntun fyrir alla. Borin er virðing fyrir fjölbreytileika og mismunandi þörfum, hæfileikum og einkennum nemenda og leggja skal áherslu á að útrýma öllum gerðum mismununar og aðgreiningar í skólum (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 41). Í skýrslunni kemur fram að ekki séu ákvæði í lögum og reglugerðum um símenntun kennara og að í kennaranáminu þurfi að huga betur að fræðslu og kennslufræðilegri þjálfun sem tengist stefnunni um skóla án aðgreiningar. Skýrsluhöfundar taka fram að margt hafi tekist vel í innleiðingu stefnunnar hér á landi. Vilji og áherslur séu skýrar hvað varðar heildarlöggjöf. Einnig kemur fram að hlutfall nemenda sem stunda nám í 25

28 sérskólum eða öðrum sérúrræðum hér á landi, sé með því lægsta sem gerist í Evrópu. Fram kemur að skólastefnan sjálf sé umdeild og takmarkaður skilningur virðist vera á því hvað skóli án aðgreiningar merki í raun og veru. Mikilvægt sé að hver og einn eigi sín lágmarksréttindi og að ryðja þurfi burt hindrunum í skólastarfi, sem færi nemendur út að jaðri skólans, í sérdeildir eða sérskóla (Steingerður Ólafsdóttir o.fl., 2014). Félagslegar þarfir og félagslegt réttlæti nemenda er nefnt sérstaklega í skilgreiningu á skóla án aðgreiningar. Samkvæmt skrifum Ólafs Páls Jónssonar (2011) er skóli án aðgreiningar margrætt hugtak sem á sér djúpar rætur í hugmyndum um jöfnuð, félagslegt réttlæti, lýðræðislega þátttöku og borgaraskyldum og réttindum. Samkvæmt hugmyndum Berglindar Rósar Magnúsdóttur (2016) er skóli án aðgreiningar orðasamband sem notað hefur verið sem þýðing á hugtakinu inclusive education og merkir að skipulagt skólastarf aðgreinir ekki nemendur í sérstaka skóla, deildir eða bekki eftir fötlun, uppruna, námsgetu o.fl. Einnig fjallar hún um, inngildandi menntun og vísar inngilding til þess að einstaklingur sé tekinn inn í hóp sem fullgildur þátttakandi. Blöndun og inngilding er ekki það sama, eins og sjá má á mynd 2. Mynd 2. Myndræn útskýring á staðsetningu nemenda eftir ólíkum hugtökum (Wang, 2013). 26

29 Skilgreiningar á mynd 2 með dæmum (Wang, 2013): Aðgreining (e. segregation): Aðgreining eða einangrun nemenda vegna fötlunar, þjóðernis, stéttar eða annarra þátta. Aðgreining er fyrirfram ákveðinn aðskilnaður, þar sem formgerðin gerir ráð fyrir einum hóp en ekki öðrum. Dæmi um aðgreiningu eru sérdeildir og sérskólar. Blöndun (e. integration): Einstaklingar af ólíkum hópum eru hafðir saman. Þegar lítill hópur verður hluti af stærri hóp, þýðir það ekki endilega að hóparnir tvinnist saman eða að minni hópurinn fái að taka þátt með sama hætti. Útilokun (e. exclusion): Þátttaka útilokuð vegna líkamlegra eða andlegra hindrana. Dæmi: Hjólastólaaðgengi er ábótavant. Inngilding (e. inclusion): Inngilding þýðir að einstaklingur með fötlun hefur sama val, réttindi og aðgengi og aðrir í samfélaginu. Inngilding er nú talin vera almenn mannréttindi. Wang (2013) segir að þegar við höfum gert okkur grein fyrir því hvað inngilding gerir líf okkar allra innihaldsríkara, sé það áfall að sjá einstaklinga vera synjað um slík mannréttindi. Hér á Íslandi hefur skólastefnan um skóla án aðgreiningar verið umdeild og því jafnvel haldið fram að hún sé innantóm orð. Átökin um stefnuna hafa meðal annars orðið til þess að fram fór úttekt Evrópumiðstöðvar um menntun án aðgreiningar á Íslandi (European agency for Special Needs and Inclusive Education, 2017). Mikilvægt er að þessi atriði séu skoðuð vandlega, því upplifun unglinga á einhverfurófi eru að einhverju leyti mörkuð af þeim stuðningi sem þeir fá í skólanum. Nýlega voru niðurstöður úttektarinnar kynntar. Helstu niðurstöður voru teknar saman í sjö kafla og er hver kafli tileinkaður ákveðnu feitletruðu viðmiði sem fjallað er um: 1. Allir sem sinna menntamálum sjái í skóla án aðgreiningar leið til að gefa öllum nemendum kost á betri menntun. Mismunandi skilningur er lagður í hugtakið, útskýra þarf hugtakið betur og hvernig standa skuli að framkvæmdinni. 2. Löggjöf og stefnumótun á sviði menntunar án aðgreiningar hafi það markmið að tryggja öllum nemendum jöfn tækifæri. Löggjöf og stefnumótun fela í sér stuðning og samstaða er um markmiðin en þörf er á skýrari leiðsögn til að hrinda þeim almennilega í framkvæmd. Einnig er þörf á leiðsögn varðandi eftirlit og mat á árangri. 3. Stefnunni sem mörkuð hefur verið á sviði menntunar án aðgreiningar sé komið í framkvæmd í reynd á öllum skólastigum. Starfsfólk upplifir að það hafi ekki notið nægilegs stuðnings til þess að vinna að framgangi stefnunnar. 27

30 4. Öllum sem vinna að menntamálum, á hvaða skólastigi sem þeir starfa, sé gert kleift að ígrunda og framkvæma dagleg störf sín með menntun án aðgreiningar að leiðarljósi. Margir segjast fá ófullnægjandi stuðning til að framkvæma störf sín með inngildandi menntun að leiðarljósi. Á öllum stigum skólakerfisins má finna dæmi um umbætur í rétta átt en þau vinnubrögð hafa þó ekki náð mikilli útbreiðslu. 5. Fjárveitingar taki mið af sjónarmiðum um jafnræði, skilvirkni og hagkvæmni. Flestir þeirra sem sinna menntamálum, telja núverandi tilhögun fjárveitinga hvorki taka mið af jafnræðissjónarmiðum né hugmyndum um skilvirkni. Telja margir hana hindra framfarir á sviði menntunar án aðgreiningar. 6. Umsýslu- og gæðastjórnunarmálum sé skipað með þeim hætti að stefnumótun og framkvæmd á sviði menntunar án aðgreiningar nái fram að ganga á samhæfðan og árangursríkan hátt. Starfsfólk telur núverandi gæðastjórn ekki gagnast alltaf með þeim hætti að hún stuðli að þróun skólastarfs eða umbótum. 7. Unnið sé á árangursríkan hátt að málefnum sem varða starfsþróun á öllum skólastigum. Margir starfsmenn efast um að grunnmenntun þeirra og tækifæri til starfsþróunar nýtist sem skyldi fyrir skólastarf án aðgreiningar. Margt af því sem fram kemur í skýrslunni ber saman við skýrslu Steingerðar Ólafsdóttur o.fl. (2014), sérstaklega mál er varða stuðning við framkvæmd skólastefnunnar og fræðslu/símenntun starfsfólks. Ég staldra við liði tvö, fjögur og fimm í skýrslunni. Undir lið tvö kemur fram að samstaða sé um þessi markmið og áherslur meðal flestra þeirra sem sinna menntamálum. Hins vegar sé þörf á skýrari leiðsögn um hvernig standa eigi að því að fella þessi stefnumið inn í áætlanir sveitarfélaga og hrinda þeim í framkvæmd en það er gífurlega mikilvægt. Í lið fjögur kemur fram að starfsfólk skóla segist fá ófullnægjandi stuðning til að ígrunda og framkvæma dagleg störf sín með menntun án aðgreiningar að leiðarljósi en fræðimennirnir Slee (2011) og Rix (2015) benda báðir á að viðhorf starfsfólks skóla skipti gífurlegu máli þegar kemur að framkvæmd inngildandi menntunar. Amalía Björnsdóttir (2011), fjallaði um íslenska rannsókn á viðhorfi til skólastarfs. Þar kom fram að 74% skólastjórnenda þyki mjög eða frekar mikilvægt að öll börn gangi í heimaskóla, 70% deildarstjóra, 65% foreldra og sérkennara en 51% annarra kennara. Það er sláandi að einungis 65% sérkennara og 51% annarra kennara þyki mjög eða frekar mikilvægt að öll börn gangi í heimaskóla en hafa verður í huga að nokkur ár eru síðan rannsóknin var framkvæmd. Þess má einnig geta að kennarar á Íslandi telja þekkingu sína og getu til að sinna þörfum nemanda á einhverfurófi góða (Björn Gauti Björnsson, 2012). Rannsóknir sýna að samband kennara og nemenda 28

31 á einhverfurófi skiptir miklu máli fyrir ánægju og þátttöku þeirra í skólanum (Humphrey og Lewis, 2008; Jarþrúður Þórhallsdóttir, 2013). Undir fimmta lið úttektar Evrópumiðstöðvarinnar kemur fram að flestir þeirra sem sinna menntamálum, telja núverandi tilhögun fjárveitinga hvorki taka mið af jafnræðissjónarmiðum né hugmyndum um skilvirkni. Telja margir hana hindra framfarir á sviði menntunar án aðgreiningar. Hér hefur sérkennsluiðnaðurinn einnig mikil áhrif. Í áðurnefndum hugmyndum Tomlinson (2012) var fjallað um markaðsvæðingu sérkennsluiðnaðarins, þar sem læknar og aðrir sérfræðingar fá greitt fyrir að setja ýmsa merkimiða, eins og einhverfu á börn. Skólar fá svo meira fjármagn fyrir börn með greiningar. Úttektarhópurinn setti fram tillögur sem teknar voru saman með vísan til kerfis lykilþátta sem hafa þýðingu fyrir nemendur, áhuga þeirra á námsframboði og þátttöku í námi, eins og sjá má á mynd 3. Með því er litið á þroska- og námsferils hvers og eins sem samspil milli nemandans sjálfs og umhverfis hans. Má segja að með þessu sé stigið skref í átt að félagslegu sjónarhorni á fötlun og nemendur með sérþarfir. Mynd 3. Kerfislíkan af stuðningi vegna skólastarfs án aðgreiningar (European Agency for Special Needs and Inclusive Education, 2017). 29

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni Aðferð til að Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni hvað er það?? Málsýni þýðing á enska orðinu language sample Dæmi um málsýni Notað í rannsóknum um máltöku

More information

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir 1 Hvað er stjórnun viðskiptatengsla (CRM)? Stjórnun viðskiptatengsla er hugmyndafræði Stjórnun viðskiptatengsla er stefna Stjórnun viðskiptatengsla

More information

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Rannsóknarspurningin Treystir fólk sínum viðskiptabanka betur en öðrum og gæti það verið

More information

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Umfjöllun 1. Stutt lýsing á Mati á stuðningsþörf: SIS 2. Einstaklingsbundnar

More information

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.)

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) www.landspitali.is Nafn Læknir Hjúkrunarfræðingur Símanúmer Ræddu eftirfarandi

More information

Á ég virkilega rödd?

Á ég virkilega rödd? Á ég virkilega rödd? Hver er upplifun foreldra barna á einhverfurófinnu af menntastefnunni skóli án aðgreiningar? Guðrún Ása Jóhannsdóttir Júní 2016 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Á ég virkilega

More information

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept Gagnasafnsfræði Páll Melsted 16. sept Endurtekin gildi Ef við viljum losna við endurtekin gildi er hægt að nota DISTINCT SELECT DISTINCT name FROM MovieExec, Movie, StarsIn WHERE cert = producerc AND title

More information

Það var bara yfir eina götu að fara

Það var bara yfir eina götu að fara Það var bara yfir eina götu að fara Reynsla mæðra barna með þroskahömlun af skólagöngu þeirra Sigrún Jónsdóttir Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið Það var bara yfir eina götu

More information

Skóli án aðgreiningar

Skóli án aðgreiningar Skóli án aðgreiningar Hugmyndir skólastjóra í grunnskólum um skóla án aðgreiningar? Ólafía María Gunnarsdóttir Lokaverkefni til M.Ed. prófs Uppeldis og menntunarfræðideild 1 Skóli án aðgreiningar Hugmyndir

More information

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver 14 1 Excel Solver Excel Solver er viðbót (e. add-in) við Excel sem hjálpar til að finna bestu lausn á viðfangsefnum eins og þegar um er að ræða takmarkaðar

More information

Leikskóli margbreytileikans. Sérkennsla í nýju ljósi

Leikskóli margbreytileikans. Sérkennsla í nýju ljósi Leikskóli margbreytileikans Sérkennsla í nýju ljósi Starfsþróunarverkefni Sigrún Arna Elvarsdóttir Lokaverkefni til M.ed. - prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið Leikskóli margbreytileikans Sérkennsla

More information

Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara

Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara Edda Kjartansdóttir Þegar skynjanir vorar, hugsanir og hugsjónir hræra strengi tilfinninganna þá fyrst kemst rót á oss, þá losnar viljinn úr læðingi og knýr

More information

Að efla félagshæfni leikskólabarna

Að efla félagshæfni leikskólabarna Að efla félagshæfni leikskólabarna Heiða María Angantýsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs Kennaradeild Að efla félagshæfni leikskólabarna Heiða María Angantýsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í leikskólakennarafræði

More information

Stúlkur og Asperger-heilkenni

Stúlkur og Asperger-heilkenni Stúlkur og Asperger-heilkenni Kynbundin áhrif heilkennisins á sjálfsmynd og félagslega stöðu Berglind Harpa Björnsdóttir Sally Ann Vokes Lokaverkefni til B.A.-prófs Þroskaþjálfadeild Stúlkur og Asperger-heilkenni

More information

Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi

Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2015 Yfirlit greina Guðrún V. Stefánsdóttir Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu

More information

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu?

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? 8 janúar 2015 Áður en kaupferlið hefst Í kaupferlinu Eftir að kaupferlinu lýkur Í kaupferlinu Áður en kaupferlið hefst Vörulýsing og myndir Neytendur

More information

Einstaklingsmiðað nám í samvinnu við nemendur

Einstaklingsmiðað nám í samvinnu við nemendur Einstaklingsmiðað nám í samvinnu við nemendur Notagildi einstaklingsáætlunar í grunnskóla Magnús G. Sigurðsson Lokaverkefni til BA-prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið Einstaklingsmiðað nám í samvinnu

More information

Sjúkdómsvæðing hegðunar:

Sjúkdómsvæðing hegðunar: Lokaverkefni til MA prófs í félagsfræði Sjúkdómsvæðing hegðunar: Hlutverk skólans í greiningarferli ADHD Anna Soffía Víkingsdóttir Febrúar 2016 Sjúkdómsvæðing hegðunar: Hlutverk skólans í greiningarferli

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina Kennsluáætlun haust 2018 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín Kennaraháskóli Íslands Kennsluréttindabraut Kennslufræði greinasviða og æfingakennsla Kennari: Elín María Thayer Ég sem kennari: Starfskenning mín Guðlaug Erlendsdóttir Nóvember 2007 Efnisyfirlit EFNISYFIRLIT...

More information

Skólatengd líðan barna

Skólatengd líðan barna Skólatengd líðan barna Rannsókn á skólatengdri líðan barna með og án sérþarfa að mati foreldra Eydís Einarsdóttir Júní 2017 Lokaverkefni til MA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Skólatengd líðan

More information

Mín skoðun skiptir máli Þátttaka nemenda í skólaráði grunnskóla

Mín skoðun skiptir máli Þátttaka nemenda í skólaráði grunnskóla Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Sérrit 2016 Menntun, mannvit og margbreytileiki. Greinar frá Menntakviku Menntavísindasvið Háskóli Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2016 Yfirlit greina Þorbjörg

More information

1 Inngangur. Þetta kort sýnir hvernig uppbygging ritgerðarinnar er: Vellíðan. Hvað getur skólinn gert? Íslandi. Inngangur Sjálfsmynd

1 Inngangur. Þetta kort sýnir hvernig uppbygging ritgerðarinnar er: Vellíðan. Hvað getur skólinn gert? Íslandi. Inngangur Sjálfsmynd Útdráttur Einu barni af hverjum átta í grunnskóla líður ekki vel. Þegar tekið er tillit til lakari námsárangurs, aukinnar truflunar í tímum og jafnvel enn alvarlegri afleiðinga eins og þunglyndi og sjálfsvíga,

More information

Að flytja úr foreldrahúsum

Að flytja úr foreldrahúsum Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Sérrit 2015 Hlutverk og menntun þroskaþjálfa Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2015 Yfirlit greina Sigrún Þ. Broddadóttir og Guðrún

More information

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Háskóli Íslands 3.4.2006 Viðskipta- og hagfræðideild Vinnusálfræði Vor 2006 Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Tryggvi R. Jónsson Kennari: Hafsteinn Bragason og Ægir Már Þórisson Fjarvinna 2 Val starfa

More information

Orðaforðanám barna Barnabók

Orðaforðanám barna Barnabók Orðaforðanám barna Barnabók Hrund Hermannsdóttir Lokaverkefni til B.ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari: Sigurður Konráðsson Kennaradeild Menntavísindasvið Háskóla Íslands Febrúar 2012 Ágrip

More information

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban 8. febrúar 2013 Eiríkur Gestsson Um mig Eiríkur Gestsson Tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík 2004 Hugur hf. og HugurAx frá 2004 til

More information

Einhverfa og einstaklingsnámskrá barna

Einhverfa og einstaklingsnámskrá barna Háskólinn á Akureyri Kennaradeild Leikskólabraut 2004 Einhverfa og einstaklingsnámskrá barna Sif Jóhannsdótti Lokaverkefni í kennaradeild 1 Háskólinn á Akureyri Kennaradeild Leikskólabraut Akureyri, Apríl

More information

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness Hagir og líðan barna í Grunnskóla s Niðurstöður rannsókna meðal nemenda í., 6. og 7. bekk á i árið 27 Birna Baldursdóttir Margrét Lilja Guðmundsdóttir Álfgeir Logi Kristjánsson Inga Dóra Sigfúsdóttir Jón

More information

Sköpun í stafrænum heimi

Sköpun í stafrænum heimi Sköpun í stafrænum heimi Sjónarmið myndmenntakennara Sigríður Ólafsdóttir Október 2017 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Sköpun í stafrænum heimi Sjónarmið myndmenntakennara Sigríður Ólafsdóttir

More information

Sjálfið á tímum stafræns veruleika

Sjálfið á tímum stafræns veruleika Sjálfið á tímum stafræns veruleika Upplifun einstaklinga af samskiptum í gegnum samfélagsmiðla, togstreita, áhrifastjórnun og skert geta til alhæfingar um mótleikara í stafrænum samskiptum. Lokaverkefni

More information

Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna

Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna Tímarit um menntarannsóknir, 1. árg. 2004, 9-17 9 Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna M. Allyson Macdonald Kennaraháskóla Íslands Inngangserindi á ráðstefnu 22. nóvember

More information

ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki

ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki Árni H. Kristinsson arni.kristinsson@bsigroup.com Framkvæmdastjóri BSI á Íslandi 1 Dagskrá Breyttur heimur Forsendur breytinga Af hverju ISO 9001 er mikilvægur Hverjar

More information

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum:

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild-menntavísindabraut Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Endurskoðun á forvörnum og eineltisstefnum í framhaldsskóla Eva Dröfn Möller Akureyri Júní, 2013 Háskólinn

More information

Þetta er starfið sem fer fram, ekki staðurinn Rannsókn á vettvangi ungmennahúsa

Þetta er starfið sem fer fram, ekki staðurinn Rannsókn á vettvangi ungmennahúsa Þetta er starfið sem fer fram, ekki staðurinn Rannsókn á vettvangi ungmennahúsa Hafsteinn Bjarnason Kristján Ari Halldórsson Lokaverkefni til BA-prófs Íþrótta-, tómstunda og þroskaþjálfadeild Þetta er

More information

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta?

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? www.ibr.hi.is Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? Erna Rós Kristinsdóttir Friðrik Eysteinsson Ritstjórar: Auður Hermannsdóttir Jón Snorri Snorrason Þóra Christiansen Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar

More information

Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla. Þórunn Kjartansdóttir. Lokaverkefni til MA gráðu í þjóðfræði.

Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla. Þórunn Kjartansdóttir. Lokaverkefni til MA gráðu í þjóðfræði. Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla Þórunn Kjartansdóttir Lokaverkefni til MA gráðu í þjóðfræði Félagsvísindasvið Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla Þórunn

More information

Tónlist og einstaklingar

Tónlist og einstaklingar Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar Kristinn Arnar Benjamínsson Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar

More information

Óhreinu börnin hennar Evu

Óhreinu börnin hennar Evu Óhreinu börnin hennar Evu Um samspil skóla án aðgreiningar og ADHD Ásdís Ýr Arnardóttir Lokaverkefni til MA gráðu í fötlunarfræði Félagsvísindasvið Óhreinu börnin hennar Evu Um samspil skóla án aðgreiningar

More information

ART á Suðurlandi. Mat á framkvæmd og ávinningi verkefnisins. Júlí Andrea G. Dofradóttir Hrefna Guðmundsdóttir

ART á Suðurlandi. Mat á framkvæmd og ávinningi verkefnisins. Júlí Andrea G. Dofradóttir Hrefna Guðmundsdóttir ART á Suðurlandi Mat á framkvæmd og ávinningi verkefnisins Júlí 2009 Andrea G. Dofradóttir Hrefna Guðmundsdóttir Efnisyfirlit Yfirlit um helstu niðurstöður... 2 Inngangur... 4 ART á Suðurlandi... 4 ART

More information

Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi

Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi Maduvanthi Kumari Abeyrathne Lokaverkefni til B.Ed. prófs í Leikskólakennarafræði Leiðsögukennari: Hildur Blöndal Sveinsdóttir

More information

Eru unglingar með fötlun mismunað á Suðurnesjum? Af aðgengi að tómstundastarfi félagsmiðstöðva á Suðurnesjunum. Sverrir Rúts Sverrisson

Eru unglingar með fötlun mismunað á Suðurnesjum? Af aðgengi að tómstundastarfi félagsmiðstöðva á Suðurnesjunum. Sverrir Rúts Sverrisson Eru unglingar með fötlun mismunað á Suðurnesjum? Af aðgengi að tómstundastarfi félagsmiðstöðva á Suðurnesjunum. Sverrir Rúts Sverrisson Lokaverkefni til BA-prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið Eru unglingar

More information

Skólaskrifstofa Austurlands. Virknimat

Skólaskrifstofa Austurlands. Virknimat Skólaskrifstofa Austurlands Búðareyri 4, 730 Reyðarfjörður Virknimat Virknimat (functional behavioral assessment) er skipulagt ferli til að (Yell, Meadows, Drasgow & Shriner, 2009; Kern, O Neill & Starosta,

More information

SIS - matið og hvað svo?

SIS - matið og hvað svo? SIS - matið og hvað svo? Þörf fatlaðs fólks fyrir stuðning í daglegu lífi Bjargey Una Hinriksdóttir Lokaverkefni til MA - gráðu í fötlunarfræði Félagsvísindasvið SIS - matið og hvað svo? Þörf fatlaðs fólks

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vorönn 2019 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

Gagnsemi handleiðslu fyrir leikskólastjóra

Gagnsemi handleiðslu fyrir leikskólastjóra Gagnsemi handleiðslu fyrir leikskólastjóra Guðrún Jóna Thorarensen Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið Gagnsemi handleiðslu fyrir leikskólastjóra Guðrún Jóna Thorarensen Lokaverkefni

More information

Tilfinningagreind í hlutverkaleik þriggja til fjögurra ára barna. Birgitta Ósk Sveinbjörnsdóttir

Tilfinningagreind í hlutverkaleik þriggja til fjögurra ára barna. Birgitta Ósk Sveinbjörnsdóttir Tilfinningagreind í hlutverkaleik þriggja til fjögurra ára barna Birgitta Ósk Sveinbjörnsdóttir Kennaradeild Hug- og félagsvísindasvið Háskólinn á Akureyri 2015 Tilfinningagreind í hlutverkaleik þriggja

More information

Þroskaþjálfar í skóla án aðgreiningar Þróun, hlutverk og starfsaðferðir

Þroskaþjálfar í skóla án aðgreiningar Þróun, hlutverk og starfsaðferðir Háskóli Íslands Haustmisseri Menntavísindasvið September 2009 B.A. ritgerð Þroskaþjálfar í skóla án aðgreiningar Þróun, hlutverk og starfsaðferðir Guðmunda Ásgeirsdóttir Sigurlaug Vilbergsdóttir Leiðbeinandi:

More information

Leiðsagnarmat í Menntaskóla Borgarfjarðar Hvernig hefur okkur miðað?

Leiðsagnarmat í Menntaskóla Borgarfjarðar Hvernig hefur okkur miðað? Endurmenntun HÍ - Að vanda til námsmats Umsjón: Ingvar Sigurgeirsson Leiðsagnarmat í Menntaskóla Borgarfjarðar Hvernig hefur okkur miðað? Júní 2009 Lilja S. Ólafsdóttir Efnisyfirlit Inngangur... 3 Menntaskóli

More information

Áhrif aldurs á skammtímaminni

Áhrif aldurs á skammtímaminni Háskóli Íslands 7.5.2000 Félagsvísindadeild Þroski og lífstíðarþróun (10.02.02) Áhrif aldurs á skammtímaminni Tryggvi R. Jónsson (191177-3989) Ólafur Magnússon Kennari: Sigurður J. Grétarsson Rannsókn

More information

ÍLögum um grunnskóla (nr. 66/1995),

ÍLögum um grunnskóla (nr. 66/1995), Mig langar soldið til þess að geta gert svipað og aðrir krakkar - Upplifun og reynsla nemenda með líkamlega skerðingu á skólaumhverfi sínu og notagildi íslenskrar staðfæringar á matstækinu Upplifun nemenda

More information

Rannsókn á starfsþróun kennara og stjórnenda í fjórum grunnskólum

Rannsókn á starfsþróun kennara og stjórnenda í fjórum grunnskólum Von er ekki aðferð Rannsókn á starfsþróun kennara og stjórnenda í fjórum grunnskólum Gunnar Gíslason Kennaradeild Hug- og félagsvísindasvið Háskólinn á Akureyri 2015 Von er ekki aðferð Rannsókn á starfsþróun

More information

BA ritgerð. Áhrif ADHD á nám barna og unglinga

BA ritgerð. Áhrif ADHD á nám barna og unglinga BA ritgerð Félagsráðgjöf Áhrif ADHD á nám barna og unglinga Guðný Helena Guðmundsdóttir Leiðbeinandi Sigrún Harðardóttir Júní 2016 Áhrif ADHD á nám barna og unglinga Guðný Helena Guðmundsdóttir 040577-4759

More information

Þátttökurannsókn á tómstundastarfi fyrir 10 til 12 ára börn

Þátttökurannsókn á tómstundastarfi fyrir 10 til 12 ára börn Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2015 Yfirlit greina Ruth Jörgensdóttir Rauterberg og Kolbrún Þ. Pálsdóttir Þátttökurannsókn á tómstundastarfi

More information

Róma. Etnísk skilgreining og sköpun. Silja Lind Haraldsdóttir. Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði. Félagsvísindasvið

Róma. Etnísk skilgreining og sköpun. Silja Lind Haraldsdóttir. Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði. Félagsvísindasvið Róma Etnísk skilgreining og sköpun Silja Lind Haraldsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði Félagsvísindasvið Róma Etnísk skilgreining og sköpun Silja Lind Haraldsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu

More information

Allt sem kennari segir og gerir og allt sem kennari segir og gerir ekki hefur siðferðileg áhrif Starfssiðfræði kennara

Allt sem kennari segir og gerir og allt sem kennari segir og gerir ekki hefur siðferðileg áhrif Starfssiðfræði kennara Allt sem kennari segir og gerir og allt sem kennari segir og gerir ekki hefur siðferðileg áhrif Starfssiðfræði kennara Guðmundína Arndís Haraldsdóttir Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Allt sem

More information

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR)

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) Aldur nemenda: 10 ára og upp úr Viðfangsefni: ofbeldi, einelti, samskipti Færnimarkmið: Hugtakaleikir ná að þjálfa flesta færniþætti samræðunnar Viðhorfamarkmið: Hugtakaleikir ná

More information

Við viljum börnunum okkar alltaf það besta

Við viljum börnunum okkar alltaf það besta Við viljum börnunum okkar alltaf það besta Upplifun foreldra sem eru Vottar Jehóva á skólakerfinu á Íslandi og á Spáni Harpa Gísladóttir Júní 2017 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Við viljum

More information

Nemendur með ADHD í skóla án aðgreiningar

Nemendur með ADHD í skóla án aðgreiningar Nemendur með ADHD í skóla án aðgreiningar Kennsla og skapandi nám Sólveig Kanthi Engilbertsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs Kennaradeild Nemendur með ADHD í skóla án aðgreiningar Kennsla og skapandi

More information

Einelti í grunnskóla

Einelti í grunnskóla Einelti í grunnskóla Hvað getur umsjónarkennarinn gert? Þórdís Friðbergsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið 2 Einelti í grunnskóla Hvað getur umsjónarkennarinn gert? Þórdís

More information

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Farsæl skólabyrjun

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Farsæl skólabyrjun Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Farsæl skólabyrjun Fræðileg umfjöllun um aðlögun barna í grunnskóla og hugmyndir að skipulagi fyrir fyrstu 4 vikurnar í 1.bekk Helga Jóhanna Harðardóttir Kennaraháskóli Íslands

More information

Hvernig eflum við gæði náms og kennslu?

Hvernig eflum við gæði náms og kennslu? Hvernig eflum við gæði náms og kennslu? Betri í dag en í gær ráðstefna um nám og gæði í íslenskum háskólum - 30. maí 2011 Anna Ólafsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri Gæði háskólanáms og -kennslu

More information

Beauty tips byltingin

Beauty tips byltingin Beauty tips byltingin Rannsókn á samfélagsmiðlasíðunni Beauty tips byggð á félagsvísindum Kolfinna María Níelsdóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni til BA gráðu í félagsvísindum Hug- og félagsvísindasvið

More information

Mikilvægi starfsmannaþjálfunar fyrir starfsfólk sem vinnur með einhverfum með hegðunarvanda. Helga Sigurðadóttir Valentina H.

Mikilvægi starfsmannaþjálfunar fyrir starfsfólk sem vinnur með einhverfum með hegðunarvanda. Helga Sigurðadóttir Valentina H. Mikilvægi starfsmannaþjálfunar fyrir starfsfólk sem vinnur með einhverfum með hegðunarvanda Helga Sigurðadóttir Valentina H. Michelsen Lokaverkefni lagt fram til fullnaðar B.A.-gráðu í Þroskaþjálfaræði

More information

Fagleg sjálfsrýni: Starfsþróun kennara og skipulag kennslu í íslensku sem öðru tungumáli í grunnskóla

Fagleg sjálfsrýni: Starfsþróun kennara og skipulag kennslu í íslensku sem öðru tungumáli í grunnskóla Fagleg sjálfsrýni: Starfsþróun kennara og skipulag kennslu í íslensku sem öðru tungumáli í grunnskóla Anna Guðrún Júlíusdóttir Júní 2017 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Fagleg sjálfsrýni: Starfsþróun

More information

Þróun og innleiðing Námsframvindu, nýrrar einingar til að efla faglegt starf kennara og styrkja einstaklingsmiðað nám

Þróun og innleiðing Námsframvindu, nýrrar einingar til að efla faglegt starf kennara og styrkja einstaklingsmiðað nám Menntavísindasvið Háskóla Íslands Grein birt 31. desember 2010 Bryndís Ásta Böðvarsdóttir Mentor í grunnskólum Þróun og innleiðing Námsframvindu, nýrrar einingar til að efla faglegt starf kennara og styrkja

More information

Þemahefti um na msmat í leikskó lum

Þemahefti um na msmat í leikskó lum Þemahefti um na msmat í leikskó lum Mennta- og menningarmálaráðuneytið: Þemahefti um námsmat í leikskólum Desember 2013 Útgefandi: Mennta- og menningarmálaráðuneytið Sölvhólsgötu 4 150 Reykjavík Sími:

More information

Að fá barn til þess að brosa

Að fá barn til þess að brosa Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild Grunnskólakennarafræði 2012 Að fá barn til þess að brosa Sérþarfir barna með ADHD samskipti heimila og skóla Bertha Karlsdóttir og Inga Vala

More information

spjaldtölvur í skólastarfi

spjaldtölvur í skólastarfi spjaldtölvur í skólastarfi Á tímabilinu október 2012 til febrúar 2013 hef ég, Ómar Örn Magnússon aðstoðarskólastjóri í Hagaskóla, unnið að verkefni fyrir SFS sem miðar að því að skoða kosti, möguleika

More information

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði.

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði. Spilin á borðið Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Spilin á borðið: Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum

More information

Nemendamiðuð forysta

Nemendamiðuð forysta Nemendamiðuð forysta Aðstoðarskólastjóri á fyrsta starfsári. Íris Anna Steinarrsdóttir Júní 2017 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Nemendamiðuð forysta Aðstoðarskólastjóri á

More information

BA ritgerð. Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna

BA ritgerð. Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna BA ritgerð Félagsráðgjöf Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna Úrræði Hekla Dögg Ásmundsdóttir Gyða Hjartardóttir Maí 2017 Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna Úrræði

More information

Skilgreining á hugtakinu tómstundir

Skilgreining á hugtakinu tómstundir Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2010 Vanda Sigurgeirsdóttir Skilgreining á hugtakinu tómstundir Í greininni er leitast við að skilgreina hugtakið tómstundir (e. leisure).

More information

Tilvist og uppbygging áfallaáætlana í grunnskóla

Tilvist og uppbygging áfallaáætlana í grunnskóla Ráðstefnurit Netlu Menntakvika 2010 Menntavísindasvið Háskóla Íslands Grein birt 31. desember 2010 Gunnar E. Finnbogason og Hildur Björg Gunnarsdóttir Tilvist og uppbygging áfallaáætlana í grunnskóla Í

More information

Hvert liggur leiðin? Leit sjónskertrar stúlku að framhaldsskóla

Hvert liggur leiðin? Leit sjónskertrar stúlku að framhaldsskóla Hvert liggur leiðin? Leit sjónskertrar stúlku að framhaldsskóla Aðalbjörg Óskarsdóttir Lokaverkefni lagt fram til fullnaðar B.Ed.-gráðu í grunnskólakennarafræði við Háskóla Íslands, Menntavísindasvið Apríl

More information

MA ritgerð. Ég fór þetta bara á hnefanum

MA ritgerð. Ég fór þetta bara á hnefanum MA ritgerð Félagsráðgjöf til starfsréttinda Ég fór þetta bara á hnefanum Reynsla og upplifun barna af því að eiga foreldri í fangelsi Svava Davíðsdóttir Leiðbeinandi: Steinunn Hrafnsdóttir Aðstoðarleiðbeinandi:

More information

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Fólkstegundir. Um veitingu félagslegra eiginleika

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Fólkstegundir. Um veitingu félagslegra eiginleika Hugur 21. ár, 2009 s. 52 62 Ásta Kristjana Sveinsdóttir Fólkstegundir Um veitingu félagslegra eiginleika Um langt skeið hefur verið umræða í fræðaheiminum, jafnt sem annars staðar, um hvort ýmis fyrirbæri

More information

Sérkennsla í Evrópu. (2. bindi) NÁMSÚRRÆÐI AÐ BARNASKÓLASTIGI LOKNU. Þemarit

Sérkennsla í Evrópu. (2. bindi) NÁMSÚRRÆÐI AÐ BARNASKÓLASTIGI LOKNU. Þemarit Sérkennsla í Evrópu (2. bindi) NÁMSÚRRÆÐI AÐ BARNASKÓLASTIGI LOKNU Þemarit Evrópumiðstöðin fyrir þróun í sérkennslu Evrópumiðstöðin fyrir þróun í sérkennslu hefur unnið að þessari skýrslu í samvinnu við

More information

Brúum bilið. leikum og lærum í leikskólanum og grunnskólanum á Hellu. Svandís Þórhallsdóttir. aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Heklukoti

Brúum bilið. leikum og lærum í leikskólanum og grunnskólanum á Hellu. Svandís Þórhallsdóttir. aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Heklukoti Brúum bilið leikum og lærum í leikskólanum og grunnskólanum á Hellu Svandís Þórhallsdóttir aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Heklukoti Efnisyfirlit Inngangur...... 2 1.0. Markmið þróunaráætlunarinnar..........3

More information

Einhverfa og íslenska kerfið

Einhverfa og íslenska kerfið Einhverfa og íslenska kerfið Börn með sérþarfir og fjölskyldur þeirra Súsanna Reinholdt Sæbergsdóttir Lokaverkefni til BA-gráðu í félagsráðgjöf Háskóli Íslands Félagsvísindasvið Einhverfa og íslenska kerfið

More information

Leiðbeinandi: Sigrún Júlíusdóttir Nemandi: Rakel María Oddsdóttir Kennitala:

Leiðbeinandi: Sigrún Júlíusdóttir Nemandi: Rakel María Oddsdóttir Kennitala: Leiðbeinandi: Sigrún Júlíusdóttir Nemandi: Rakel María Oddsdóttir Kennitala: 120478 3549 Útdráttur Heimildaritgerð þessi er BA ritgerð nemanda í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands en efni ritgerðarinnar

More information

Að fá og skilja upplýsingar

Að fá og skilja upplýsingar Heilbrigðisdeild Lokaverkefni til B.Sc. gráðu í Hjúkrunarfræði 2009 Að fá og skilja upplýsingar Reynsla sjúklinga af þátttöku í undirbúningi og eftirmeðferð skurðaðgerðar Axel Wilhelm Einarsson Jóhanna

More information

Sköpunarkraftur og sköpunarferli í skólastarfi

Sköpunarkraftur og sköpunarferli í skólastarfi Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2013 Yfirlit greina Hrafnhildur Eiðsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir Sköpunarkraftur og sköpunarferli

More information

Þátttaka, samskipti og umhyggja í þremur íslenskum

Þátttaka, samskipti og umhyggja í þremur íslenskum Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Sérrit 2016 Námsrými félagslegs réttlætis og menntunar án aðgreiningar/learning spaces for inclusion and social justice Menntavísindasvið Háskóli Íslands Ritrýnd

More information

Hvað mótar hugmyndir háskólakennara um skipulag náms og kennslu?

Hvað mótar hugmyndir háskólakennara um skipulag náms og kennslu? Tímarit um menntarannsóknir, 1. árg. 2004, 163-173 163 Hvað mótar hugmyndir háskólakennara um skipulag náms og kennslu? Guðrún Geirsdóttir Háskóla Íslands Eitt af því sem greinir háskólakennara frá kennurum

More information

Ég nota alla lausa tíma sem ég hef

Ég nota alla lausa tíma sem ég hef Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 22. desember 2014 Yfirlit greina Hjördís Sigursteinsdóttir, Eva Halapi og Kjartan Ólafsson Ég nota alla lausa tíma sem ég hef Netnotkun íslenskra ungmenna

More information

Þeir vilja ekki leika, bara tala saman

Þeir vilja ekki leika, bara tala saman Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóli Íslands Ritrýnd grein birt 28. desember 2017 Yfirlit greina Sara M. Ólafsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir Þeir vilja ekki leika, bara tala

More information

Ungt fólk Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna

Ungt fólk Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna Ungt fólk 2004 Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna Rannsóknir meðal nemenda í framhaldsskólum á Íslandi 2004 og 2000 Álfgeir Logi Kristjánsson Silja Björk Baldursdóttir

More information

Færni í ritun er góð skemmtun

Færni í ritun er góð skemmtun Færni í ritun er góð skemmtun Um ritlist og ritunarkennslu Fanney Úlfarsdóttir Júní 2018 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Færni í ritun er góð skemmtun Um ritlist og ritunarkennslu Fanney Úlfarsdóttir

More information

Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir

Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir Ásthildur Embla Friðgeirsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði Júní 2015 Eru börn gerendur eða bjargarlausar

More information

Um leið og þau fá val, fer þeim að finnast þetta skemmtilegt

Um leið og þau fá val, fer þeim að finnast þetta skemmtilegt Um leið og þau fá val, fer þeim að finnast þetta skemmtilegt Um vinnustofur Grunnskólans á Bakkafirði Hrefna Ýr Guðjónsdóttir Júní 2016 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Um leið og þau fá val,

More information

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Samtök iðnaðarins - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Framkvæmdarlýsing - félagsmannakönnun Unnið fyrir Markmið Samtök iðnaðarins Að kanna viðhorf félagsmanna SI til Evrópumála og þróun þar á Framkvæmdatími

More information

ENDURMAT Á STUÐNINGSÞÖRF

ENDURMAT Á STUÐNINGSÞÖRF ENDURMAT Á STUÐNINGSÞÖRF Aðdragandi Framkvæmd Niðurstöður Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins Október 2015 Endurmat á stuðningsþörf Aðdragandi Framkvæmd Niðurstöður Tryggvi Sigurðsson Greiningar- og

More information

Foreldrasamstarf -Hvað segja lögin?-

Foreldrasamstarf -Hvað segja lögin?- Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Grunnskólabraut 2009 Foreldrasamstarf -Hvað segja lögin?- Guðbjörg Þóra Jónsdóttir Olga Ellen Þorsteinsdóttir Lokaverkefni Háskólinn á Akureyri

More information

Atriði úr Mastering Metrics

Atriði úr Mastering Metrics Atriði úr Mastering Metrics Helgi Tómasson 13. september 2015 Helgi Tómasson Atriði úr Mastering Metrics 13. september 2015 1 / 11 Ýmis atriði ACA= Care Act er umdeilt efni í USA. Hafa heilbrigðistryggingar

More information

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Gagnvirkar töflur Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum Hólmfríður Ásmundsdóttir 270369-5459 Háskóli Íslands Menntavísindasvið Kennaradeild, grunnskólakennarafræði

More information

Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt.

Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt. Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt. Inga Sif Ingimundardóttir Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt

More information

Spjaldtölvur í skólastarfi: Áætlun um innleiðingu. Unnur Ósk Unnsteinsdóttir

Spjaldtölvur í skólastarfi: Áætlun um innleiðingu. Unnur Ósk Unnsteinsdóttir Spjaldtölvur í skólastarfi: Áætlun um innleiðingu Unnur Ósk Unnsteinsdóttir Kennaradeild Hug- og félagsvísindasvið Háskólinn á Akureyri 2015 Spjaldtölvur í skólastarfi: Áætlun um innleiðingu Unnur Ósk

More information

Félagsleg ígrundun kennaranema

Félagsleg ígrundun kennaranema Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2011 Ragnhildur Bjarnadóttir Félagsleg ígrundun kennaranema Leið til að vinna úr vettvangsreynslu Markmið greinarinnar er að varpa ljósi

More information

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun. Námstengd hvatning

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun. Námstengd hvatning MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun Námstengd hvatning Hvað hvetur háskólanema á Íslandi í námi? Kolbrún Eva Sigurjónsdóttir Leiðbeinandi: Kári Kristinsson, lektor Viðskiptafræðideild Febrúar 2012 Námstengdhvatning

More information