BA ritgerð. Áhrif ADHD á nám barna og unglinga

Size: px
Start display at page:

Download "BA ritgerð. Áhrif ADHD á nám barna og unglinga"

Transcription

1 BA ritgerð Félagsráðgjöf Áhrif ADHD á nám barna og unglinga Guðný Helena Guðmundsdóttir Leiðbeinandi Sigrún Harðardóttir Júní 2016

2

3 Áhrif ADHD á nám barna og unglinga Guðný Helena Guðmundsdóttir Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsráðgjöf Leiðbeinandi: Sigrún Harðardóttir Félagsráðgjafardeild Félagsvísindasvið Háskóla Íslands Júní 2016

4 Áhrif ADHD á nám barna og unglinga Ritgerð þessi er lokaverkefni til BA gráðu í Félagsráðgjöf og er óheimilt að afrita ritgerðina á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa. Guðný Helena Guðmundsdóttir, 2016

5 Útdráttur Athyglisbrestur með eða án ofvirkni og hvatvísi er talið snerta um 3-7% allra barna á skólaaldri. Mikilvægt er að greina röskunina sem fyrst til að draga úr þeim einkennum sem eru hamlandi fyrir barnið. Helstu meðferðir sem nýttar eru til að draga úr áhrifum röskunarinnar eru lyfjameðferð, óhefðbundnar meðferðir og atferlismeðferðir. Það eru margir sem nýta sér óhefðbundnar meðferðir til að draga úr einkennum röskunarinnar. Rannsóknir sýna að samsett lyfja og atferlismeðferð virkar best til að draga úr einkennum og kenna viðeigandi færni. Einnig er talið að ADHD einkenni fylgi barninu í 60-80% tilvika fram á unglingsárin. Mikilvægt er að skólinn sýni börnum og unglingum með ADHD skilning og stuðning. Skólinn þarf að geta mætt börnunum og unglingunum þar sem þau eru stödd og aðlaga sig að þeim í stað þess að börnin aðlagist skólanum. Það er einnig mikilvægur þáttur við skólagöngu barna og unglinga að skólinn búi yfir úrræði til að nemendunum líð sem best innan veggja skólans, fái notið sýn og geti sýnt styrkleika sína. 3

6 Formáli Ritgerðin er 12 eininga (ECTS) lokaverkefni mitt til BA gráðu í Félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Leiðbeinanda mínum Dr. Sigrúnu Harðardóttir vil ég þakka fyrir góða leiðsögn og góðar ábendingar við vinnslu ritgerðarinnar. Ég vil þakka öllum þeim sem veittu mér aðstoð og hvatningu við skrif ritgerðarinnar innilegar þakkir. Að lokum vil ég þakka börnum mínum Ásdísi Maríu og Andra Má og fjölskyldu fyrir allan stuðningin og skilningin sem þau hafa sýnt mér á meðan á námi mínu hefur staðið. Án ykkar hefði ritgerðin ekki orðið að veruleika. 4

7 Efnisyfirlit Útdráttur... 3 Formáli... 4 Efnisyfirlit Inngangur Þroski Þroski barna og unglinga Samantekt Hvað er ADHD Þróun þekkingar Fylgiraskanir Samantekt Áhrif á nám Lagabreytingar Skólinn ADHD og samskipti við jafnaldra Samantekt Úrræði Sjúkdómsnálgunin og félagslega sjónarhornið Lyfjameðferð Sálfélagsleg / Atferlismeðferð Óhefðbundnar meðferðir Félagsfærniþjálfun Samantekt Umræður og lokaorð Heimildaskrá

8 1 Inngangur Til að vel takist til með þroska barna skiptir miklu máli að heimilið, skólinn og nánasta umhverfi barnsins séu með gott flæði sín á milli. Barnið speglast af þessum þáttum lífsins. Skólinn hefur gríðarlega mikið að segja fyrir þroska barna og unglinga því þar er lagður grunnur að námi þess. Þar lærir barnið helstu undirstöðu atriði náms ásamt sjálfstæðri og gagnrýnni hugsun, samskipti við jafnaldra og hvaða hegðun samfélagið telur vera gilda. Það er því mikilvægt að skólagangan gangi vel því hún er undirstaða þess að barnið nái að fóta sig í framtíðinni. Mikilvægt er að mæta hverjum og einum á þeim stað sem hann er staddur hverju sinni og það á ekki síst við um þau börn sem eiga við erfiðleika tengda námi. Ástæðan fyrir því að ég valdi þetta ritgerðarefni er sú að efnið er mér mjög hugleikið. Innblásturinn kom frá leiðbeinanda mínum Sigrúnu Harðardóttur. Ég tók áfangann Skólafélagsráðgjöf hjá Sigrúnu Harðardóttur Lektor við Háskóla Íslands. Hún talaði af svo mikilli innlifun um efni áfangans og það blés frekari eldi í þær glóðir sem fyrir voru. Út frá þeim áfanga ákvað ég um hvað mig langaði að skrifa um og hvern mig langaði til að fá sem leiðbeinanda. Markmið heimildaritgerðarinnar er að varpa ljósi á hvaða áhrif ADHD hefur á nám og þau úrræði sem geta hjálpað börnum og unglingum með ADHD. Rannsóknarspurningarnar eru: Hver eru helstu áhrif ADHD á nám barna og unglinga, Hver eru helstu einkenni og fylgiraskanir ADHD og Hvaða úrræði styðja við nám barna og unglinga með ADHD. Ritgerðin skiptist í fjóra kafla. Í öðrum kafla er fjallað um þroska barna og unglinga og hversu mikilvægur eðlilegur þroski er. Einnig hversu mikilvægt er að umhverfi styðji við alhliða þroska barns. Eðlilegur og góður þroski er undirstaða velgengni í framtíðinni. Í þriðja kafla er fjallað um hvernig þekking á ADHD hefur þróast í fræðilegu samhengi. Gerð er grein fyrir hverjar orsakir ADHD eru, hversu algeng hún er, hvert kynjahlutfallið er ásamt því að farið verður í hverjar helstu fylgiraskanir ADHD eru. 6

9 Í fjórða kafla er gerð grein fyrir helstu atriðum í þróun grunnskólalaga og varpað er ljósi á hvaða áhrif lögin hafa á börn sem eru með athyglis- og hegðunar erfiðleika. Fjallað er um hvaða áhrif ADHD hefur á nám barna með athyglis- og hegðunar erfiðleika. Einnig er fjallað um nauðsyn góðra samskipta við jafnaldra. Í fimmta kafla er gerð grein fyrir hverskonar úrræði er í boði til að aðstoða börn með skólann og daglegar athafnir. Nefnd eru nokkur úrræði sem eru mikið notuð til að draga úr einkennum ADHD. Í sjötta kafla eru niðurstöður dregnar saman og þær ræddar í ljósi fræðanna og ályktanir af þeim dregnar. 7

10 2 Þroski Í þessum kafla er fjallað stuttlega um þroskaferli barna og unglinga. Hversu mikilvægur góður þroski er fyrir barnið þegar litið er til fullorðinsára með tilliti til samskipta við foreldra, kennara, vini, maka og börn. Tekið skal fram að framvegis þegar talað verður um börn þá er átt við börn og ungmenni upp að 18 ára aldri. 2.1 Þroski barna og unglinga Fræðimaðurinn Urie Bronfenbrenner var menntaður sálfræðingur og hafði mikinn áhuga á samskiptum einstaklings og umhverfis. Hann varð fyrir áhrifum frá kenningum Jean Piaget um vitsmunaþroska og Kurt Lewin sem skoðaði tengsl á milli persónuleika og umhverfis. Bronfenbrenner setti fram vistfræðikenningu og skipti henni í fjögur stig. Nærumhverfið (e. Microsystem) er nánasta umhverfi einstaklings, millikerfið (e. Mesosystem) er tengslanet á milli allra þátta í nærumhverfinu. Stofnanakerfið (e. Exosystem) eru þættir sem tengjast einstaklingnum óbeint eins og vinna foreldra, ysta lagið (e. Macrosystem) er samfélagið þar sem minni kerfin eru hluti af. Það sem hefur mest áhrif á barnið er það sem tilheyrir nærumhverfinu sem er fjölskyldan, skólinn og þær tómstundir sem barnið stundar (Beckett og Taylor, 2010). Annar fræðimaður Erik Homburger Erikson hélt því fram að sálfélagslegur þroski barna ætti rætur að rekja til samskipta barns við foreldra og nánasta umhverfi. Hann skipti þroskanum upp í átta félags- og sálfélagsleg stig. Erikson gerir ráð fyrir að ljúka þurfi þeim verkefnum sem lögð eru fyrir á hverju stigi til að komast yfir á það næsta. Því betur sem tekst til á hverju stigi því betur gengur á því næsta. Einstaklingurinn tekur þátt í þroskaferli sínu með því að skilja og samþætta daglega reynslu. Á fyrstu árum ævinnar gerir Erikson ráð fyrir því að félags- og persónulegur þroski barns mótist af samskiptum innan fjölskyldunnar síðar koma áhrif frá vinum og skóla. Þegar börn eru komin í skóla er mjög mikilvægt að þau upplifi hversu dugleg og klár þau eru því það styrkir sjálfstraust þeirra og ýtir undir áhuga á frekari námi. Við kynþroskaaldurinn fara þau að geta sett sig betur í spor annarra og mátað sig við ýmsar aðstæður (Erik H. Erikson, 1963). Fræðimennirnir John Bowlby og Mary Ainsworth settu fram tengslakenninguna og samkvæmt henni geta þau tilfinningatengsl sem barnið myndar í frumbernsku haft áhrif 8

11 á tengsl og samskipti sem þau mynda síðar á ævinni. Mikilvægt er að sinna tilfinningaþörf barns á fyrstu árum ævi þess svo að það geti myndað örugg og góð tengsl við foreldra, vini, kennara, maka og síðar sín eigin börn. Þau börn sem hafa alist upp við góð tilfinningatengsl í frumbernsku og lært að treysta umönnunaraðila eru líklegri til að ganga betur í framtíðinni. Þau eru að jafnaði með gott sjálfsálit, bera mikið traust til kennara síns og eiga í góðum samskiptum við jafnaldra sína en láta jafnframt ekki vaða yfir sig. Þau börn sem hins vegar hafa ekki alist upp við góð tilfinningatengsl eru líklegri til að hafa minna sjálfsálit, telja sig ekki geta treyst á kennara sinn og hafa slaka félags-, og tilfinningalega færni (Sigrún Aðalbjarnardóttir, 2007). Barn þarf að geta treyst öðrum og búa við öryggi ekki aðeins heima fyrir heldur einnig í skólanum. Kennarinn er þar mjög mikilvægur hlekkur því börn þurfa tækifæri til að geta þróað og fundið til öryggis í samskiptum sem stuðla að alhliða þroska þeirra og náms getu. Mikilvægt er að barn upplifi góð samskipti við aðra nemendur og kennara því það eru grunnstoðir þess að barninu bæði gangi vel og líði vel í skóla (Sigrún Aðalbjarnardóttir, 2007). Félagsfærni er hægt að lýsa sem félagslega æskilegri hegðun sem er að stórum hluta afrakstur vel þróað ferlis í félagslegum skilningi. Einstaklingar verða að vera færir um að skynja félagslegar vísbendingar og geta túlkað þær. Auk þess verða félagslega færir einstaklingar að búa yfir tilfinningahæfni til að taka á móti, túlka og senda viðeigandi skilaboð sem falla að aðstæðum. Til þess að sýna æskilega hegðun þarf að tileinka sér félagsfærni. Félagsfærni er skilgreind sem notkun á viðurkenndum tilfinningum, andlitssvipbrigðum og getu til að túlka líkamstjáningu annarra (Minne og Clikeman, 2011). Hvernig unnið er úr félagslegum skilaboðum er mikilvægur þáttur í félagsfærni. Crick og Dodge settu fram líkan um félagsfærni. Þar þarf barn að skynja ástandið, móta áætlun og hafa áhuga og þekkingu til að sýna nauðsynlega félagslega færni. Án viðeigandi þekkingar, hvatningar og kunnáttu verður ekki hægt að framkvæma viðeigandi félagslega þekkingu (Minne og Clikeman, 2011). 2.2 Samantekt Mikilvægt er að þroski barns gangi vel og að barnið þrói með sér félagsfærni til að ganga vel í samskiptum við foreldra, vini og þá sem standa þeim næst. Í næsta kafla verður farið stuttlega yfir þróun skilgreiningar ADHD, fjallað verður um helstu skilgreiningar á ADHD og hverjar helstu fylgiraskanirnar eru. 9

12 3 Hvað er ADHD Í kaflanum er þróun ADHD gerð skil í fræðilegu samhengi. Fjallað er um hverjar skilgreiningar á ADHD eru og hvernig klínísk einkenni röskunarinnar koma fram. Farið verður yfir greiningarferli ADHD í stórum dráttum og hverjar helstu fylgiraskanir eru. 3.1 Þróun þekkingar Athyglisbrestur með eða án ofvirkni (ADHD) er skammstöfun á heitinu Attentiondeficit/hyperactivity disorder. ADHD er taugaþroskaröskun sem og röskun á boðefnum í heilanum. Einkennin eru einbeitingarerfiðleikar, hvatvísi og ofvirkni (Gísli Baldursson, Páll Magnússon, H. Magnús Haraldsson, Matthías Halldórsson, 2012; Gísli Baldursson, Ólafur Ó. Guðmundsson, Páll Magnússon, 2000). Læknirinn Sir Alexander Crichton var fyrstur til að benda á röskun árið 1798 sem er mjög lík nútíma skilgreiningu á ADHD. Crichton lagði áherslu á að heilbrigð athygli væri breytileg á milli einstaklinga og væri jafnvel ekki eins á mismunandi tímum hjá sama einstaklingi. Crichton setti fram tvo möguleika á óeðlilegri athygli, annars vegar að mótstöðusvið í skautum í heilanum væri of mikið eða hins vegar að það væri of lítil næmi á taugum í heilanum. Crichton taldi að röskunin væri meðfædd og að henni fylgdu oft námserfiðleikar. Skilgreining hans á þessum erfiðleikum var the incapacity of attending with a necessary degree of constancy to any one object, eða skortur á möguleikum að vinna úr ákveðnu verkefni með nægilegum stöðugleika (Lange, Reichl, Lange, Tucha og Tucha, 2010). Árið 1844 gaf læknirinn Heinrich Hoffmann út bókina Struwwelpeter í bókinni voru nokkrar barnasögur, til dæmis sagan um Fidgety Phil. Sagan er um fjölskyldukvöldverð þar sem sonurinn er allur á iði við matarborðið. Hoffmann lýsir einkennum ofvirkni og athyglisbrests í bókinni (Lange o.fl., 2010). Bandaríski læknirinn George Still fylgdist með 43 börnum árið 1902 sem höfðu fengið heilabólgu. Still lýsti einkennum barnanna sem þau sýndu mikla virkni og áttu erfitt með að hafa stjórn á hegðun sinni þannig að hún samræmdist gildum samfélagsins. Börnin sýndu einnig mikil einkenni hvatvísi og athygli þeirra var á reiki. Still fann það út að mun fleiri strákar en stúlkur voru ofvirkir. Orsökin var að öllum líkindum vegna heilaskaða á 10

13 fósturskeiði, eftir fæðingu eða vegna erfðafræðilegra vandkvæða (Gísli Baldursson o.fl., 2000). Mikill áhugi vaknaði í Bandaríkjunum á ofvirkniröskuninni eftir að heilabólgufaraldur hafði geisað í landinu á árunum 1917 og Hjá mörgum börnum sem lifðu faraldurinn af komu fram einkenni einbeitingarskorts, eirðarleysi, ofvirkni og hvatvísi. Út frá rannsóknum sem gerðar voru á börnunum í kjölfarið þróaðist sú hugmynd að þau væru með heilaskaða. Hugmyndin fékk meðbyr á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar um að börnin væru með vægan heilaskaða og væga truflun í starfsemi heilans. Einkennin voru truflun á einbeitingu, hvatvísi og ofvirkni. Börnin sýndu einnig slaka samhæfingu hreyfinga, miklar tilfinningalegar sveiflur auk þess að eiga við námserfiðleika og árásargirni. Á áttunda áratugnum kom fram vísir að nútíma skilgreiningu á röskuninni. Það er að segja að hún samanstandi af þremur flokkum sem séu hvatvísi, hreyfiofvirkni og athyglisbrestur (Gísli Baldurss o.fl., 2000). Fyrstu heimildir um meðferð á ofvirkni eru frá lækninum Charles Bradley frá árinu Fyrir tilviljun fann Bradley það út að örvandi lyfið Benzedrine bætti námsárangur barna og sló einnig á hegðunarerfiðleika þeirra. Í kjölfarið fylgdist hann með og prófaði lyfið á 30 börnum og sá að það sló verulega á hegðunarerfiðleika þeirra. Lyfið bætti einnig námsgetu þeirra að því leytinu að þau sýndu meiri áhuga á því sem þau voru að gera, unnu verkefnin hraðar og voru nákvæmari en þau höfðu verið áður (Lange o.fl., 2010). Í skýrslu sem Embætti landlæknis gaf út árið 2012 kemur fram að orsök ADHD sé ekki þekkt en talið er að orsökin sé tilkomin vegna erfða og umhverfisþátta. Það er einnig talið að áföll á meðgöngu hafi áhrif á það hvort barn sé með ADHD, en ADHD er talið mun algengara hjá fyrirburum og léttburum (Gísli Baldursson o.fl., 2012). Þeir þættir sem eru taldir vera áhættuþættir fyrir ADHD eru, streita-, reykingar og áfengis og fíkniefnaneysla móður á meðgöngu. Blýmagn í blóði og kvikasilfur eru einnig talin vera áhættuþættir fyrir ADHD eða einkennum þess (Felice, Ricceri, Venrosi, Chiarotti og Calamandrei, 2015; Thapar, Cooper, Eyre, Langley, 2013). Heilinn er mjög viðkvæmur fyrir eiturefnum þegar hann er að þroskast. Meðal annars eru námserfiðleikar, athyglisbrestur, árásagirni, ofvirkni og einkenni ADHD talin vera tilkomin vegna eiturefna (Felice o.fl., 2015). Polychlorinated biphenyles (PCBs) er eiturefni sem framleitt var til notkunar í iðnaði. Rannsóknir hafa sýnt fram á að efnið hamli starfsemi vinnsluminnis, vitsmunalegur sveigjanleiki er ekki eins mikill og einnig hamli það atferlislegum þroska. Thapar o.fl. (2013) segja að þar sem ekki hefur tekist að sannreyna hvernig tengslin séu til komin á milli þeirra 11

14 þátta sem þau nefna að hafi áhrif á ADHD og því sé þörf á frekari rannsóknum á þessu sviði (Thapar o.fl., 2013). Þá hafa áhrif mataræðis á ADHD einnig verið rannsökuð og í ljós kom að aukalitarefni í matvælum geta aukið einkenni ADHD hjá ungum börnum, hins vegar ekki talið að sykur hafi áhrif á ADHD einkenni (Cormier og Elder, 2007). Bandaríska barnalæknaakademían (e. the American Academy of Pediatrics) skilgreinir aðaleinkenni ADHD sem athyglisbrest, hvatvísi og ofvirkni. Þau hvetja barnalækna til að nota DSM-IV þegar verið er að greina ADHD. Barnalæknum er beint í þá átt að þeir skimi fyrir hliðarröskunum eins og miklum geðsveiflum og námserfiðleikum. Bandaríska barnalæknaakademían (e. the American Academy of Pediatrics) telur að það sé ekki hægt að staðfesta að ADHD sé taugasjúkdómur (e. neurobehavioral disease) því ekki liggi fyrir nægjanlegar upplýsingar á undirliggjandi erfða-, tauga-, sálfræði-, eða líffræðilegum orsökum eða að það sé skortur á greind hjá þessum hóp (Furman, 2005). Einkennin gætu verið leið barnsins til tjáningar á innri átökum, óuppfylltum tilfinningalegum þörfum eða að barnið fái ekki nægjanlega krefjandi verkefni í náminu. Börn eru mismunandi að þessu leyti, í hverju tilviki ætti barn að hafa fullan aðgang að læknisþjónustu, sálfræðingi eða geðlækni, sem og að aðlaga ætti menntun að þörfum barnsins (Furman, 2005). Klínísk einkenni ADHD samkvæmt bandarísku barnalæknaakademíunni (e. the American Academy of Pediatrics) Einkenni athyglisbrests eru m.a: Gera fljótfærnisvillur og huga illa að smáatriðum. Virðast ekki hlusta þegar talað er við þau. Eiga erfitt með að halda athygli hvort sem er við leik eða við lausn á verkefnum. Eiga erfitt með að skipuleggja verkefni, athafnir, áætla tíma og koma sér að verki. Týna oft nauðsynlegum hlutum og truflast auðveldlega af utanaðkomandi áreiti. Fylgja ekki fyrirmælum til enda og eiga erfitt með að klára verkefni sem fyrir þau eru lögð Einkenni hvatvísi eru m.a: Svara spurningu áður en henni er lokið. Grípa fram í eða ryðjast inn í samræður annarra. Eiga mjög erfitt með að bíða eftir að röðin komi að þeim, hvort sem það er í matarröð, í hópavinnu eða við leik. Taka ákvarðanir án þess að hugsa mikið út í hverjar afleiðingarnar eru 12

15 Ásókn í jaðarsport íþróttir, hraðakstur og fjárhættuspil (Grétar Sigurbergsson, e.d.). Einkenni ofvirkni eru m.a: Tala mikið. Hafa hendur og fætur mikið á hreyfingu. Príla eða hlaupa um þar sem það er ekki við hæfi. Geta ekki setið kyrr þar sem þess er krafist, til að mynda í skólastofu. Eru oft með óþarfa hljóð við leik. Birtingarmyndir ADHD ADHD birtist á ólíkan hátt hjá hverjum og einum því einkenni þess geta verið mismunandi. Sum börn geta verið róleg og gleymt sér við það sem það er að gera, á meðan getur annað barn verið á fullu og ekki setið kyrr. Inn í þetta spilar svo hvernig persónuleiki barnsins er, hvar áhugasviðið liggur og hverjir styrkleikar barnsins eru (Sigrún Harðardóttir og Tinna Halldórsdóttir, 2008). Þegar barn fer í greiningu vegna gruns um ADHD þá er notast við tvenns konar greiningarlíkön en þau er ICD-10 og DSM-IV. ICD-10 er alþjóðleg tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála og DSM-IV er greiningarkerfi sem er komið frá bandaríska geðlæknafélaginu (Gísli Baldursson o.fl., 2012; Gísli Baldursson o.fl., 2000). Samkvæmt nýjum greiningarskilmerkjum á fyrst og fremst að notast við DSM V greiningarkerfið þegar greina á ADHD en skrá niðurstöðurnar samkvæmt leiðbeiningum landlæknis í ICD-10. Nýtt og endurbætt greiningarkerfi DSM-V kom út árið 2013 og tók það við af DSM-IV. Gerðar voru þrjár breytingar í nýju útgáfunni. Í greiningarkerfi DSM-V þurfa hamlandi einkenni að hafa komið fram fyrir tólf ára aldur en samkvæmt DSM-IV var gert ráð fyrir að einkennin hafi komið fram fyrir sjö aldur. Hjá einstaklingi 17 ára eða eldri þurfa fimm af níu einkennum úr öðrum hvorum flokknum, það er að segja úr flokkunum athyglisbrestur og ofvirkni, að vera til staðar en áður voru það sex einkenni. Einnig er hægt að greina ADHD þó svo einhverfurófsröskun sé til staðar, sem var ekki hægt samkvæmt DSM-IV. Þá mega ADHD einkenni ekki vera skýrð með öðrum röskunum auk þess þurfa þau að vera íþyngjandi (Brynjar Emilsson, Gísli Baldursson, Halldóra Ólafsdóttir, Haukur Örvar Pálmasson, H. Magnús Haraldsson og Páll Magnússon, 2014). Þeir sem sjá um að greina ADHD eru heilbrigðisstarfsmenn sem eru með sérþekkingu í meðferð og greiningu á ADHD. Til að hægt sé að greina ADHD eru foreldrar barns beðnir um ítarlega þroskasögu, sjúkrasögu, ásamt upplýsingum um einkenni sem eru hamlandi fyrir 13

16 barnið og þá við hvaða aðstæður. Þegar afla þarf upplýsinga frá skóla er gott að halda fund með teymi skólans til þess að fá vitneskju um hvernig barnið er á skólatíma. Í framhaldi fer barnið í skoðun og viðtal hjá barnalækni. Þá er einnig mikilvægt að athuga hvort einhverjar fylgiraskanir séu til staðar eða önnur vandamál samhliða (Brynjar Emilsson o.fl., 2014). Tíðni Talið er að ADHD snerti um 3-7% barna á skólaaldri (Gardner og Gerdes, 2015) og einkennin fylgi barninu fram á unglingsár í 60-80% tilvika (Zendarski, Sciberras, Mensah og Hiscock, 2016). Einnig er talið að 30-70% þeirra sem greinast með ADHD í æsku séu enn með hamlandi einkenni á fullorðinsárum (Gísli Baldursson o.fl., 2012), auk þess eru strákar taldir vera þrefalt líklegri til þess að greinast með ADHD en stelpur (Zendarski o.fl., 2016). Þá er talið að stelpur sem eru með ADHD greinist síður því þær eru rólegri og trufla síður kennslustundir en strákar. Stelpur leggja meira á sig í skóla heldur en strákar og sækjast meira eftir því að fá viðurkenningu fyrir vel unnin verkefni og heimanám. Einkenni stelpna þurfa því að vera meira áberandi heldur en stráka til að þær greinist með ADHD (Ingibjörg Karlsdóttir, 2013). 3.2 Fylgiraskanir Algengar raskanir sem fylgja ADHD eru meðal annars svefntruflanir, sértækir námserfiðleikar, þunglyndi, hegðunarröskun, mótþróaþrjóskuröskun og kvíði (Ingibjörg Karlsdóttir, 2013). Hér verður fjallað um nokkrar af helstu fylgiröskunum ADHD. Einkenni svefnvandamála eru m.a: Tæplega helmingur barna sem eru með ADHD eru einnig með svefnvandamál, eða 40-50%. Svefntruflanirnar einkennast af því að verkum að þau eiga í erfiðleikum með að sofna því það er svo mikið í gangi í höfðinu á þeim og þegar þau loksins sofna þá er erfitt fyrir þau að vakna. Einkenni sértækra námserfiðleika eru m.a: Rúmlega helmingur barna sem eru með ADHD eru með sértæka námserfiðleika eða um 50-60%. Það getur haft áhrif á bæði frammistöðu barna í skóla sem og félagslega, því er mikilvægt að grípa inn í sem fyrst. Einkenni þunglyndis eru m.a: 10-30% barna eru með þunglyndi samhliða ADHD. Slök félagsleg samskipti geta leitt til þess að barninu er sjaldnar boðið í afmæli eða að leika eftir skóla. Því fleiri sem 14

17 ósigrarnir eru því meira dregur úr sjálfstrausti barnsins og það getur leitt af sér þunglyndi. Alvarlegt þunglyndi getur orsakað að barnið einangrar sig, eigi í erfiðleikum með svefn eða sefur mikið, borði lítið og tali jafnvel um það að vilja deyja. Einkenni hegðunarröskunar eru m.a: Einkenni hegðunarröskunar eru að börn geta sýnt árásahegðun gagnvart öðrum einstaklingum og dýrum. Þau geta átt það til að stela, eyðileggja hluti, virða ekki útivistartíma, segja ósatt og skrópa í skóla. Þau börn sem eru með hegðunarerfiðleika og ADHD eru í hættu á að misnota vímuefni ásamt því að vera líklegri til að eiga við lestrarerfiðleika sem og félags- og tilfinningalega erfiðleika. Það eru um 10-25% barna sem eru með þessa röskun samhliða ADHD. Einkenni mótþróaþrjóskuröskunar eru m.a: Um 40-60% barna sem eru með ADHD eru einnig með mótþróaþrjóskuröskun. Hún felur í sér að barnið fer að þræta, fylgir ekki reglum, missir stjórn á skapinu og kennir öðrum um. Barnið er í því að pikka og pota í aðra og móðgast fljótt. Börn sem eru með þessa röskun lenda oft í erfiðleikum með samskipti við aðra. Einkenni kvíða eru m.a: Ekki er alltaf auðvelt að átta sig á því að barnið sé kvíðinn því einkenni kvíðans er oft á tíðum mjög falinn. Barnið verður pirrað/ur, þreytt/ur, áhyggjufullt/ur og stressað/ur. Þau geta gleymst í skólastofunni því þau eru hæg og framtakslaus og fá því oft ekki greiningu. Það er um 25-30% barna sem eru með kvíða samhliða ADHD. Fylgiraskanir þurfa ekki að koma fram um leið og ADHD einkenni, heldur geta þær komið fram smá saman í gegnum árin og farið fjölgandi fram á fullorðinsár (Grétar Sigurbergsson, e.d.). Eins og fram hefur komið þá getur verið margt neikvætt við ADHD röskunina, því er mikilvægt að horfa á kostina og nauðsynlegt að nýta sér þá í daglegu lífi. Jákvæðu kostirnir eru sjálfstæði, sköpunarkraftur, frumkvæði og félagslyndi. Það þarf að passa að neikvæðu þættirnir séu ekki að skemma fyrir jákvæðu eiginleikunum (Sigrún Harðardóttir og Tinna Halldórsdóttir, 2008). 3.3 Samantekt Barn sem hefur verið greint með ADHD getur verið með mismunandi ráðandi einkenni, auk þess sem það er misjafnt hvort og þá hversu margar fylgiraskanir barnið er með. Þrátt fyrir 15

18 að ADHD sé mikið rannsakað þá er ekki hægt að segja með 100% vissu hvers vegna sum börn fá ADHD en önnur ekki. Þó er talið að erfðir spili þar stórt hlutverk. Í næsta kafla verður fjallað um þróun skólans og hvaða úrræði skólinn hefur fyrir börn með ADHD. Einnig hversu mikilvægt það er fyrir barnið að tengjast jafnöldrum sínum. 16

19 4 Áhrif á nám Í kaflanum er fjallað um skólann og hvernig hann hefur í gegnum árin komið til móts við nemendur sem standa höllum fæti í skólakerfinu og helstu lagabreytingar til að mæta þörfum allra barna. Í ljósi þeirra sérþarfa sem börn með ADHD standa frammi fyrir er mikilvægt að skólinn hafi tiltæk úrræði og komi til móts við þau. Einnig er fjallað um gagnreyndar aðferðir sem mikilvægt er að skólinn búi yfir, hvernig einkenni ADHD geta haft áhrif á nám sem og hvernig erfiðleikarnir koma fram og hvers eðlis þeir eru. 4.1 Lagabreytingar Í frumvarpi til laga um fávitastofnanir sem lagt var fyrir alþingi árið 1966 kom fram að allir þeir sem eru með greindarvísitölu á milli séu vanvitar og þurfi aðstoð í formi sérkennslu í skóla. Auk þess að þeir sem séu ófærir um að sjá fyrir sér sjálfir, teljist sem fávitar. Það eru þá sérstaklega þeir sem eru andlega og /eða líkamlega veikir, auk þess að vera með greindarskort eða hafa áberandi skapgerðarbresti. Þar kemur einnig fram að flestir eigi að lifa góðu lífi fyrir utan stofnun, en þeir sem teljast örvitar, hálfvitar og vanvitar eigi að fara á stofnun og helst frá bernsku (Frumvarp til laga um fávitastofnanir, 1966). Alveg frá því að fræðslulög komu til sögunnar árið 1907 og fram til ársins 1974 þegar lög um grunnskóla komu til, þá var ekki gert ráð fyrir þeim börnum sem áttu við erfiðleika tengda námi (Sigrún Harðardóttir, 2015). Með lögum um grunnskóla nr. 63/1974 var gert ráð fyrir þessum hópi barna en með þeim takmörkunum að þau þurftu sérkennslu. Sérkennsla var þá undir umsjón sérkennara og gat kennslan verið einstaklingsmiðuð, í hóp, sérdeild grunnskóla eða í sérbekk, allt eftir því sem þótti best fyrir barnið. Samkvæmt 51. og 52. gr. laga um grunnskóla nr. 63/1974 kemur fram að hægt sé að veita barni sérkennslu ef sálfræðingur, skólalæknir eða aðrir sérfræðingar úrskurða að barn skorti hæfni til að stunda sama nám, hafi ekki heilsu eða skorti líkamleg skilyrði til að stunda nám til jafns á við önnur börn. Börn sem eiga við lestrarerfiðleika, málhelti eða þurfa meiri aðstoð við nám og eiga ekki auðvelt með að aðlagast eru þar með talin seinfær börn. Í þeim tilvikum þar sem liggur fyrir dómur sérfræðinga þá skal þeim séð fyrir kennslu í sérstofnunum. Þar fá þau fræðslu við sitt hæfi enda liggur fyrir álit um að þau eigi ekki erindi í almennan skóla. Með breytingum á 17

20 lögunum var gert ráð fyrir öllum börnum í almennum skóla en að því undanskildu að börn með sérþarfir yrðu að vera með uppáskrifað frá sérfræðingi að þau ættu rétt á sérkennslu (Lög um grunnskóla nr. 63/1974). Með tilkomu Laga um grunnskóla nr. 49/ gr. þá féllu fyrri lög frá árinu 1974 úr gildi (Lög um grunnskóla nr. 49/1991). Samkvæmt 17. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 kemur fram að það eiga allir rétt á að komið sé til móts við námslegar þarfir þeirra, hvort sem það sé vegna líkamlegs eða andlegs atgervis. Þar kemur einnig fram að þeir sem eru með sértæka námsörðugleika, félagslegaeða tilfinningalega örðugleika eigi rétt á stuðningi í námi í samræmi við þarfir þeirra. Samkvæmt 13. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 kemur fram að börnum eigi að líða vel í skóla, þau eigi að geta notið hæfileika sinna, vinnuálag sé hæfilegt og þau finni til öryggis (Lög um grunnskóla nr. 91/2008). 4.2 Skólinn Barn með ADHD getur átt erfitt með skipulag og það hamlað þeim meðal annars í námi því þar er krafist sjálfstæðra og agaðra vinnubragða sem getur reynst barninu erfitt. Barn getur verið með hægan vinnsluhraða og erfiðleika í vinnsluminninu sem gerir það að verkum að erfiðara er að flokka, geyma og vinna úr upplýsingum (Ingibjörg Karlsdóttir, 2013). Stýrifærni heilans er ekki fullþroskuð við fæðingu heldur þroskast hún með aldrinum eftir því sem heilabörkur þroskast á svæði framheila. Skert starfsemi í taugaboðefnakerfi heilans er hluti af orsök skertrar stýrifærni. Mikilsvert er að kröfur og væntingar í skólaumhverfi og á heimili taki mið af því að börn með ADHD standa ekki undir sömu kröfum og jafnaldrar þeirra þar sem um eins til þriggja ára seinkun getur verið á þroska tiltekinna svæða heilans sem viðkoma stýrifærni (Ingibjörg Karlsdóttir, 2012, bls. 9). Heilinn virkar á mismunandi vegu. Til dæmis þá virkar vinstra heilahvelið fyrir reikning, lestur og skrift en í hægra heilahvelinu eru svo hugmyndir og listir. Því er mikilvægt að virkja mismunandi stöðvar í heilanum þegar kemur að námi. Hægt er að blanda saman aðferðum til að muna betur námsefnið. Hægt er að læra með því að hlusta, með því að lesa eða sjá svo eru sumum sem finnst gott að læra með því að framkvæma þá að skrifa (Sigrún Harðardóttir og Tinna Halldórsdóttir, 2008). Kennsla barna með ADHD þarf að taka mið af styrk- og veikleikum þeirra. Börnin eru með ólíka samsetningu af ráðandi ADHD einkennum og fylgiröskunum. Taka þarf tillit til þess þegar tekið er mið af kennsluaðferðum og aðstæðum fyrir börn með ADHD. Barn með ADHD getur átt auðvelt með að skilja og meðtaka námsefnið en átt í erfiðleikum með að festa í 18

21 minni og því er mikilvægt að kennari geri greinarmun þar á. Til að auðvelda barni nám er gott að búta verkefnin niður og hafa þau stutt. Með þessu móti er dregið úr kvíða og barnið aðstoðað með að sjá fyrir endann á verkefninu. Mikilvægt er að hrósa barninu og hafa orð á því fyrir hvað er verið að hrósa. Einnig er mikilvægt að setja tímaramma á hversu löng hver vinnulota er með tilliti til úthalds nemandans (Ingibjörg Karlsdóttir, 2013). Þegar kemur að skólagöngu barna með ADHD þá er skipulag mjög mikilvægt, það þarf til dæmis að vinna heimavinnu og skila verkefnum á réttum tíma. Því er gott að kenna og benda barninu á aðferðir og leiðir sem auðvelda því að halda utan um lærdóminn, eins og að hafa minnisbók, áherslupenna og tölvur (Ingibjörg Karlsdóttir, 2013). Þegar kemur að heimavinnu þá er hún mismikil, því er mikilvægt að vinna verkefni og heimavinnu fram í tímann til að hafa jafnara álag. Margir nemendur með ADHD eiga það til að fresta verkefnunum sínum, það getur síðan komið niður á gæðum verkefna. Þar af leiðandi fá þau lakari einkunn en annars hefði verið gefin ef verkefnið hefði verið unnið á góðum tíma. Mikilvægt er því að nemandinn átti sig á því af hverju hann er að fresta verkefninu, er það vegna þess að hann skilur ekki leiðbeiningarnar eða áttar sig ekki á því hvernig eða hvar á að byrja á verkefninu. Það er því jafn mikilvægt fyrir kennarann og nemandann að hann skilji verkefnið og viti til hvers er ætlast af honum (Sigrún Harðardóttir og Tinna Halldórsdóttir, 2008). Námstækni kemur að góðum notum við heimavinnu eða við undirbúning fyrir próf. Gott er að strika undir eða yfir ártöl, staðarheiti og nöfn með áherslupenna eða mismunandi litum. Oft getur börnum með ADHD reynst erfitt að koma því til skila hversu mikla kunnáttu þau hafa á efninu, því er mikilvægt að koma til móts við þau. Hægt er að gefa þeim kost á munnlegu prófi, að taka prófið á tölvu og einnig er hægt að lesa spurningarnar fyrir nemandann sem getur hjálpað til við að fyrirbyggja misskilning (Ingibjörg Karlsdóttir, 2013). Börnum með ADHD hættir til að gleyma dótinu sínu ýmist heima eða í skólanum og þá er gott ráð að hafa tvö sett af námsbókum, þar sem eitt er staðsett heima og annað í skólanum. Þá skapar það ekki vonbrigði hjá barninu ef bækurnar gleymast í skólanum. Styrkleikar hvers og eins eru misjafnir, það sem hentar einum getur svo ekki hentað öðrum. Því eru hjálpargögn oft mikilvægur hluti af skólagöngu barnsins. Í aðstæðum þar sem mikið er um utanaðkomandi áreiti getur það hjálpað barninu að vera með heyrnahlífar, því þær dempa utan að komandi hávaða. Tónlist í eyrum getur líka komið að góðum notum bæði við að útiloka áreiti sem og til að hjálpa við einbeitingu (Ingibjörg Karlsdóttir, 2013). 19

22 Það verða ákveðin kaflaskil hjá börnum þegar þau fara frá miðstigi upp á efsta stig skólans. Það eru lok barnæskunnar og byrjun unglingsáranna (Zendarski o.fl., 2016). Á yngsta- og miðstigi skóla eru börnin yfirleitt í sinni heimastofu í almennum greinum og fara svo í aðrar stofur þegar þau fara í sérgreinar. Í þessum fyrstu bekkjum skólans halda kennarar og foreldrar vel utan um nám barnanna. Þegar komið er á efsta stigið þá taka við auknar námskröfur. Þau eiga ekki heimastofu heldur flakka á milli kennslustofa og við þetta stökk er meira álag á skipulagshæfileika og minni unglinganna. Þessar breytingar geta reynst börnum með ADHD erfiðar. Kennarar nefna oft að þeir verði meira varir við gleymsku, skipulagsleysi, skert tímaskyn og slakari námsfærni hjá unglingum (Ingibjörg Karlsdóttir, 2013). Á unglingsárum getur bilið á milli barna með ADHD og barna sem eru ekki með ADHD orðið meira. Algengt er að foreldrar og kennarar dragi úr aðhaldi þegar komið er á unglingsár og getur það reynst barni með ADHD erfitt að halda utan um námið og skipulagningu þess sjálf (Ingibjörg karlsdóttir, 2013; Zendarski o.fl., 2016). Barnið þarf að kynnast nýjum kennurum auk þess sem nám þyngist, kröfurnar verða meiri þá þarf það einnig að taka ábyrgð á eigin námi. Auk námslegra breytinga ganga þau líka í gegnum andlegar-, tilfinningarlegar- og líkamlegar breytingar sem geta verið mjög erfiðar. Ef breyting á milli skólastiga gengur ekki vel þá getur það skapað kvíða, þunglyndi, minna sjálfsálit og getur þróast í skólaleiða. Börn sem þola breytingar á milli skólastiga illa, er hætt við að falla úr skóla því þau sýna slakari námsárangur og fá minni hvatningu (Zendarski o.fl., 2016). Að hætta snemma í skóla hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér til dæmis að hafa minni lífsgæði, minni innkomu og meiri félagsleg- og tilfinningaleg vandamál. Börn sem eru með ADHD eru í meiri hættu á að ná ekki markmiðum sínum námslega. Þau fá frekar lægri einkunnir og eru líklegri til þess að ljúka ekki framhalds- og háskólanámi heldur en þeir sem eru ekki með ADHD. Breytingarnar hafaverri áhrif fyrir börn sem eru með mikil ADHD einkenni. Ef breyting milli skólastiga gengur vel hjá börnum getur það ýtt undir að þeim muni ganga betur í skóla og klári frekar það nám sem þau ætla sér (Zendarski o.fl., 2016). Gott samstarf á milli heimils og skóla er mikilvægt verkfæri til að halda utan um barnið. Foreldrar skipa stóran sess í lífi barnsins og þurfa að geta gripið inní ef það koma upp erfið atvik í skólanum og þau þurfa að geta hrósað barninu þegar vel gengur. Því er mikilvægt að skilaboð komist til skila á milli heimilis og skóla, það er hægt með fundum, í gegnum síma, með tölvupósti eða að nota Mentor, innra kerfi skólanna (Ingibjörg Karlsdóttir, 2013). 20

23 Félagslegir erfiðleikar og erfiðleikar meðal jafnaldra haldast oft í hendur þegar börnin eru að aðlagast á milli skólastiga. Það er minni hvatning á meðal jafnaldra og þau sýna erfiðari hegðun. Að mynda góð tengsl við jafnaldra og taka virkan þátt í félagslífi skólans stuðlar að betri hegðun, betri samskiptum við jafnaldra, betri félagsfærni og færri uppákomur hjá börnum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að börn með ADHD standa verr að vígi námslega séð, þau fá lægri einkunnir í stærðfræði og lestri miðað við jafnaldra sína (Zendarski o.fl., 2016). Orsakir lélegrar frammistöðu í skóla er talin vera margþætt, bæði hjá barninu sjálfu, fjölskyldu þess og hjá skólanum. Lakari námsárangur hjá yngri börnum er talin vera vegna mikilla einkenna athyglisbrests, ofvirkni, hvatvísi ásamt minni vitrænni getu, lágri greind og lélegs vinnsluminnis (Zendarski o.fl., 2016). 4.3 ADHD og samskipti við jafnaldra Talið er að um 50-70% barna með ADHD eigi í erfiðleikum í samskiptum við jafnaldra. Það segir okkur að þau börn sem eru með ADHD séu félagslega einangruð. Erfiðleikarnir byrja oft í kringum sjö ára aldurinn og verða augljósari þegar þau koma í nýjar aðstæður og kynnast nýjum félögum. Erfiðleikar í samskiptum við jafnaldra og neikvætt orðspor barnanna haldast oft út unglingsárin. Börn með ADHD eru líklegri til að sýna af sér óæskilega hegðun en jafnaldrar þeirra sem ekki eru með ADHD. Hegðunin er líklegri til að eiga sér stað þegar það er lítið eða ekkert eftirlit með aðstæðunum eins og við leik sem verður þess valdandi að samskiptin við jafnaldra skerðist enn frekar (Gardner og Gerdes, 2015). Börn með ADHD skilgreina vináttu öðruvísi en jafnaldrar þeirra sem ekki eru með ADHD. Þau skilgreina vináttu á þann hátt að besti vinur er sá sem gaman er að vera með og er skemmtilegur. Börn sem ekki eru með ADHD skilgreina vináttu á þann hátt að vinur er einhver sem veitir tilfinningalegan stuðning og öryggi. Á milli 56-76% barna með ADHD hafa ekki náð að mynda vináttutengsl við jafnaldra. Samanborið við börn sem ekki eru með ADHD, eru einungis 10-32% þeirra sem ná ekki að mynda vináttutengsl. Samskipti við jafnaldra einkennast frekar af neikvæðum samskiptum og eru ekki eins stöðug og samskipti jafnaldra þeirra sem ekki eru með ADHD. Stelpur upplifa frekar að þær eigi ekki í góðum samskiptum við jafnaldra og eiga það til að enda frekar í meiri átökum og erfiðleikum í sínum vinskap (Gardner og Gerdes, 2015). Börn með ADHD eru líklegri til að upplifa höfnun frá jafnöldrum sem getur svo stuðlað að neikvæðum samskiptum við aðra í framtíðinni. Börn með ADHD upplifa höfnun jafnaldra á 21

24 nokkrum mínútum til nokkurra klukkutíma eftir að hafa hitt þau í fyrsta skiptið. Það hversu fljót þau eru að búa til neikvæða mynd af sér getur reynst þeim erfitt þegar kemur að því að breyta viðhorfinu sem aðrir hafa á þeim við fyrstu kynni. Í framhaldi af að hafa upplifað höfnun frá jafnöldrum geta börn með ADHD bæði verið gerendur og þolendur eineltis. Bæði að vera þolandi eða gerandi getur aukið líkurnar á höfnun frá jafnöldrum (Gardner og Gerdes, 2015). Talað er um einelti sem endurtekið munnlegt, líkamlegt, eða andlegt ofbeldi af hendi eins eða fleiri. Einelti getur komið fram sem opið sem líkamlegt ofbeldi, þá með slagsmálum. Óbeint einelti getur verið í formi félagslegrar útskúfunar, illu umtali, eða útbreiðslu á sögum um þolandann. Það getur líka verið einelti ef stríðni er endurtekin og þolandinn hefur sýnt að sér mislíki það (Gardner og Gerdes, 2015; Olwusaráætlun gegn einelti, e.d.). Börn með ADHD eru mun líklegri til að verða þolendur eineltis heldur en jafnaldrar þeirra sem eru ekki með ADHD. Hvort sem börn með ADHD eru gerendur eða þolendur þá sýna þau svipuð persónueinkenni, eins og slök tilfinningaleg viðbrögð og slaka færni í úrvinnslu vandamála. Sem getur svo leitt til þess að þau sýna frekar neikvæðar tilfinningar eins og reiði, sorg og kvíða í samskiptum við jafnaldra. Skortur á gagnkvæmri vináttu, höfnun frá jafnöldrum og einelti skipar stóran sess í lífi einstaklings með ADHD (Gardner og Gerdes, 2015). Börn með ADHD eiga það til að sýna óviðeigandi hegðun meðal jafnaldra svo sem hvatvísi, átroðning, yfirgang og óvild. Þau skortir færnina í félagslegum samskiptum, að deila hlutum, skiptast á og vera í samvinnu. Börn sem reyna að komast inn í hóp jafnaldra standa oft í fyrstu fyrir utan og skoða hvernig samskipti hópsins eru. Þau reyna svo að spegla samskiptin sem þau verða vitni af og sýna hegðun sem getur falið í sér litla eða mikla áhættu í samskiptum. Barn með ADHD sýnir strax frekar mikla áhættu og óviðeigandi hegðun, ryðst inn í samtal annarra og þau verða svo í framhaldinu útskúfuð frá hópnum. Strákar, hvort sem þeir eru með ADHD eða ekki nota sömu aðferðir til að nálgast jafningja sína. Strákar með ADHD eru tvöfalt líklegri til að nota hegðun sem krefst athygli frá öðrum og tala oftar um sjálfan sig heldur en þeir sem eru ekki með ADHD. Þeir eru einnig líklegri til beita óæskilegum aðferðum til að fá samþykki leikfélaga eins og að ryðjast inn í leikinn, þeir fá einnig mun færri boð um að koma heim til jafnaldra að leika (Gardner og Gerdes, 2015). Eins og hefur komið fram þá öðlast börn viðeigandi félagslega þekkingu og færni með athugun, námi og félagslegum viðbrögðum. Kunnátta af þessu tagi er almennt skert hjá börnum með ADHD. Lélegur skilningur á félagslegum samskiptum getur leitt til misskilnings 22

25 og hreinnar rangtúlkunar á hegðun og fyrirætlun jafnaldra. Börn með ADHD sýna frekar fjandsamlegri og árásargjarnari viðbrögð við ögrun frá jafnöldrum miðað við börn sem ekki eru með ADHD. Þau hafa tilhneigingu til lélegs sjálfsmats og eiga erfitt með félagslega hegðun (Gardner og Gerdes, 2015). 4.4 Samantekt Þegar sagan er skoðuð í fræðilegu samhengi frá fræðslulögunum 1907 og fram til laga um grunnskóla nr. 63/1974 þá var þróunin hæg en samt í rétta átt. Börn sem áttu við erfiðleika tengda námi höfðu þá loksins rétt á því að fara í almennan skóla. Þau fengu sérkennslu til að byrja með, með því skilyrði að þau væru með það uppáskrifað frá sérfræðingi sem mat þau á þann veg að þau þyrftu á sérkennslu að halda. Það var ekki fyrr en með nýjum lögum um grunnskóla frá árinu 1991 þar sem það er komið í lög að allir eigi rétt á námi við sitt hæfi og að koma eigi til móts við nemendur þar sem þeir standa náms-, félags- og tilfinningalega. Skólinn þarf að sjá til þess að hverjum og einum líði vel í skólanum og að allir hafi námsefni við hæfi og það sé gert á forsendum einstaklingsins samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008. Mikilvægt er að kennarar þekki einkenni ADHD til að þeir geti mætt barninu með heildarsýnina að leiðarljósi. Í næsta kafla verður sagt frá hvaða úrræði eru í boði fyrir börn með ADHD. 23

26 5 Úrræði Í þessum kafla er fjallað um hvaða úrræði eru í boði fyrir börn með ADHD. Tekin verða dæmi um þau úrræði sem geta verið hentug fyrir börn með ADHD, hvort sem það er í skólastofunni eða heima fyrir. 5.1 Sjúkdómsnálgunin og félagslega sjónarhornið Það eru tvenns konar fræðileg sjónarhorn sem skólar líta til þegar þeir móta stefnu sína. Annars vegar er það félagslega líkanið og hins vegar er það sjúkdómsnálgunin. Sjúkdómsnálgunin byggist á því að barnið sé öðruvísi og að það þurfi sérkennslu, þar með er búið að sjúkdómsvæða barnið. Þegar barnið fær sérkennslu þá er í leiðinni gerðar minni kröfur til þess. Í sjúkdómsnálguninni er reynt að laga barnið að kröfum skólakerfisins en ekki verið að laga skólakerfið að þörfum barnsins. Það er ekki reynt að styrkja barnið þar sem það er sterkast svo það upplifi ekki jafn mikla höfnun á skólagöngunni (Sigrún Harðardóttir, 2015). Samkvæmt sjúkdómsnálguninni þá þarf barnið að vera með sjúkdómsgreiningu til að fá aðstoð frá skólanum. Félagslega sjónarhornið snýst um að ef samfélagið kemur til móts við einstaklinginn þá er enginn fatlaður, þetta er samspil milli einstaklings og umhverfis. Áherslan þarf því að vera á nemandanum þar sem skólinn á að koma til móts við börnin. Skólarnir þurfa að átta sig á því hvernig þeir geti breytt sínum aðferðum þannig að barnið eigi auðveldara með að læra (Sigrún Harðardóttir, 2015). Samkvæmt reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010, þá er markmið þeirra að nemendur hafi jöfn tækifæri til náms á eigin forsendum. Að komið sé til móts við félags-, líkams-, tilfinninga- og námslegar þarfir þeirra einnig að þau fái menntun sem hentar hverjum og einum og þau hafi sömu tækifæri á við aðra til að stunda nám (Reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010). 5.2 Lyfjameðferð Örvandi lyf hafa mjög mikil áhrif á meðferð við ADHD, lyfin draga úr einkennum athyglisbrests, ofvirkni og hvatvísi. Það lyf sem er oftast notað er Methylphenidate, undir því er svo Ritalín og Equazym sem eru með skammtímaverkun. Þau byrja að virka eftir

27 mínútur og eru með verkun í 3-4 klst. Ritalin Uno og Conserta eru með lengri virkni, en þau byrja að virka eftir eina klukkustund og eru virk í 8-12 klst. Mælt er með því að byrja strax að nota lyf sem eru með langverkandi virkni (Gísli Baldursson o.fl., 2012; Heilsugæslan, 2007). Örvandi lyf eru mjög skilvirk við meðhöndlun ADHD en þau draga eingöngu úr einkennum og geta ekki látið einkennin hverfa, lyfin eru ekki laus við aukaverkanir (Sinha og Efron, 2005). Lyfin atomoxetin (Strattera), clonidine (Catapresan) og risperidonum (Risperdal) eru einnig notuð til að meðhöndla ADHD. Stundum eru notuð fleiri en ein lyfjategund saman til að draga úr einkennum ADHD. Kostir þess að taka örvandi lyf er að einbeitingin verður betri það verður einnig auðveldara að byrja á og ljúka verkefnum. Börnin ná betri stjórn á eigin hegðun, þau eiga auðveldra með að skipuleggja sig og að eiga í góðum samskiptum við aðra. Þrátt fyrir marga kosti lyfja eru líka ókostir og er talað um þá sem aukaverkanir. Aukaverkanirnar geta verið magaverkur, höfuðverkur, lystarleysi, erfiðleikar með svefn sem og að skapstyggð eða kvíði getur gert vart við sig (Heilsugæslan, 2007). Vöðvakippir geta komið í ljós hjá litlum hópi barna sem taka örvandi lyf, en þessi aukaverkun er mjög sjaldgæf og gengur til baka þegar barnið hættir að taka lyfið. Einkenni ADHD geta aukist þegar lyfin eru að fara úr líkamanum en það stendur yfir í ca mínútur. Hægt er að koma í veg fyrir það með því að stytta tímann á milli lyfjagjafa, breyta skammtinum eða skipta um lyfjategund (Heilsugæslan, 2007). Mjög mikilvægt er að finna réttan skammt eftir að lyfjameðferð hefst. Því er mikilvægt að foreldrar og stofnanir séu í góðum samskiptum og hafi heildarsýnina að leiðarljósi. Fylgist með auknum einkennum, sem og breytingu á hegðun hjá barninu. Þá þarf einnig að finna út hvenær best er að gefa barninu lyfið. Yfirleitt er byrjað á litlum skammti og hann svo aukinn eftir þörfum (Heilsugæslan, 2007). Samkvæmt langtíma rannsókn sem gerð var á mismunandi meðferðarúrræðum þá minnkuðu einkenni ADHD eftir 14 mánaða meðferð. Lyfin virkuðu mun betur á þá sem tóku lyfin heldur en lyfleysa hafði á samanburðarhóp. Hópum var skipt í fjóra hópa það voru þau sem fengu lyfjameðferð, sálfélagslega meðferð, lyfja og sálfélagslega meðferð og hópur sem fékk lyf en ekkert eftirlit. Árangur þeirra sem fengu lyfjameðferð var mun betri en hjá þeim sem fengu eingöngu sálfélagslega meðferð og þeirra sem fengu hefðbundna meðferð. Sá hópur sem fékk samþætta meðferð sýndi hinsvegar bestu útkomuna og sýnir nauðsyn þess að börn fái atferlismeðferð (Gísli Baldursson o.fl., 2012). Samkvæmt rannsókn sem gerð var á 26,249 karlmönnum og 24,504 konum, þar sem kannað var hvort tengsl væru á milli neyslu örvandi lyfja og misnotkunar á fíkniefnum. Það 25

28 kom í ljós að þó að einstaklingur væri að taka lyf við ADHD þá væru ekki auknar líkur til þess að viðkomandi myndi misnota fíkniefni. Rannsóknin gaf frekar til kynna að lyfjagjöfin drægi úr líkum þess að einstaklingur misnoti fíkniefni allt að fjórum árum eftir að lyfjagjöf var hætt (Zheng o.fl., 2014). Rannsóknir hafa sýnt að þau sem eru með ADHD eru líklegri til að vera áhættusækin. Þau sækja meðal annars í áfengi, áhættusamt kynlíf og aksturs íþróttir. Þá sérstaklega það að keyra hratt og óvarlega. Þau sem eru með ADHD greiningu eru líklegri til að vera áhyggjulaus og vera sama um reglur og sækja því í áhættuhegðun (Wymbs, Molina, Belendiuk, Pedersen, Walther, Jee Won og Pelham, 2013). 5.3 Sálfélagsleg / Atferlismeðferð Þegar valin er sálfélagsleg meðferð fyrir börn með ADHD þá breytir það ekki starfsemi heilans eða einkennum ADHD. Aðferðin er eingöngu til þess fallin að draga úr þeim hömlunum sem eru af völdum ADHD (Gísli Baldursson o.fl., 2012). Mikilvægt er að styðja vel við bakið á foreldrum barna með ADHD og að þeim sé veittur skilningur og góður stuðningur. Þegar búið er að greina barnið þá er mikilvægt að fræða foreldra og forráðamenn um atferlismótandi aðferðir. Mælt er með atferlismótandi aðferðum við foreldra fyrir þau börn eru með væg eða miðlungs einkenni, en mælt er með lyfjagjöf fyrir þau börn sem eru með miðlungs eða alvarleg einkenni. Dæmi um atferlismótandi aðferðir eru SOS- námskeið og PMT (e. Parent Management Training). Þessar aðferðir byggjast upp á því að hrósa jákvætt, nota umbunarkerfi og styrkja góða hegðun (Gísli Baldursson o.fl., 2012). Bugl (Barna og unglingageðdeild ríkisins) býður upp á námskeið sem heita Snillingarnir og Rapid, en þessi námskeið eru byggð á grunni HAM meðferðarinnar (Gísli Baldursson o.fl., 2012). Ekki er nóg að reyna að breyta barninu með atferlis félagsmótun heldur þarf að breyta hegðuninni til langframa með breyttum uppeldisskilyrðum (Gísli Baldursson o.fl., 2000). PMTO foreldrafærni (e. Parent Management Training) er fyrir foreldra barna sem eru með hegðunarerfiðleika. Hægt er að fara í einstaklings- sem og hópmeðferð. Það fer eftir hverjum stað fyrir sig þar sem boðið er uppá PMTO sem meðferðarúrræði hvor aðferðin er notuð. Einstaklings- og hópmeðferðin hafa sama markmið, það er að draga úr hegðunarerfiðleikum hjá barninu. Meðferðin miðast við þarfir hverrar fjölskyldu fyrir sig. Þeir sem sækja hópmeðferðina hittast í átta vikur, tvær og hálfa klukkustund í senn, einu sinni í viku. Þeir sem fara í einstaklingsmeðferð eru einu sinni í viku, í mesta lagi 25 skipti. Bæði 26

29 meðferðarúrræðin veita mikinn stuðning fyrir foreldrana, til að mynda símtöl, heimaverkefni og einnig er til staðar stuðningur í skóla. Þá er haldinn fundur í skólanum með kennurum og þeim sem koma að barninu þar (PMTO. e.d.-a). Til að foreldrar geti notfært sér PMTO þjónustu þá þarf sérfræðingur í PMTO meðferðarúrræðinu að meta barnið og hversu mikil þörf er fyrir úrræðið. Í framhaldinu af því er tekin ákvörðun í samvinnu við foreldra að sækja um PMTO þjónustu hvort sem það er hóp-, einstaklingsmeðferð eða foreldranámskeið (PMTO. e.d.-b). SMT- skólafærni (e. School Management Training) er byggt á sömu hugmyndafræði og PMTO færnin, nema SMT- skólafærnin er stílfærð fyrir skóla umhverfið. Markmiðið með SMT- skólafærni er að draga úr og koma í veg fyrir óæskilega hegðun og með því skapast gott andrúmsloft og velferð og öryggi nemanda er tryggt í leiðinni (PMTO. e.d.-c). SOS námskeiðið er fyrir foreldra og starfsfólk sem vinna með börnum meðal annars í Reykjanesbæ. Námskeiðið er með það að markmiði að veita skýr og einföld svör við því hvernig hægt sé að taka á óþekkt og óhlýðni barna einnig hvernig hægt sé að efla góða hegðun barnsins. Hvernig megi auka líkurnar á því að barnið hegði sér vel og sé vel upp alið (Reykjanesbær. e.d.). Námskeiðið byggist að miklu leyti á þremur reglum. Verðlauna fyrir góða hegðun eins fljótt og hægt er, ekki verðlauna fyrir ósækilega hegðun og refsa fyrir óæskilega hegðun en beita einungis mildum refsingum. Námskeiðið er foreldrum að kostnaðarlausu (Reykjanesbær. e.d.). 5.4 Óhefðbundnar meðferðir Notkun á fjölbreyttum meðferðum öðrum en lyfjum fer vaxandi og þar eru börn ekki undanskilin. Hægt er að beita óhefðbundnum meðferðum mun oftar hjá börnum sem eru með ADHD heldur en öðrum hópum. ADHD er viðvarandi og hefur því mikil áhrif á einstaklinginn námslega-, félagslega- og hegðunarlega. Sem getur svo haft í för með sér mikla gremju hjá fjölskyldunni sem vill leita allra leiða til að fá lausn sinna mála (Sinha og Efron, 2005). Sinha og Efron (2005) gerðu rannsókn árið 2003 þar sem 75 börn með ADHD tóku þátt. Rannsóknin sýndi fram á að meirihluti þeirra barna sem tóku þátt í rannsókninni og höfðu prófað CAM (e. complementary and alternative medicine) höfðu á einhverjum tímapunkti fengið óhefðbundna meðferð við ADHD. Til óhefðbundinna meðferða telst til dæmis chiropractor eða hnykkjari, breytt mataræði, aukin inntaka vítamína og steinefna, 27

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni Aðferð til að Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni hvað er það?? Málsýni þýðing á enska orðinu language sample Dæmi um málsýni Notað í rannsóknum um máltöku

More information

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir 1 Hvað er stjórnun viðskiptatengsla (CRM)? Stjórnun viðskiptatengsla er hugmyndafræði Stjórnun viðskiptatengsla er stefna Stjórnun viðskiptatengsla

More information

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.)

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) www.landspitali.is Nafn Læknir Hjúkrunarfræðingur Símanúmer Ræddu eftirfarandi

More information

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Rannsóknarspurningin Treystir fólk sínum viðskiptabanka betur en öðrum og gæti það verið

More information

ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki

ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki Árni H. Kristinsson arni.kristinsson@bsigroup.com Framkvæmdastjóri BSI á Íslandi 1 Dagskrá Breyttur heimur Forsendur breytinga Af hverju ISO 9001 er mikilvægur Hverjar

More information

Nemendur með ADHD. Úrræði kennara og aðstaða. Anna María Sanders. Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild

Nemendur með ADHD. Úrræði kennara og aðstaða. Anna María Sanders. Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Nemendur með ADHD Úrræði kennara og aðstaða Anna María Sanders Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Nemendur með ADHD Úrræði kennara og aðstaða Anna María Sanders Lokaverkefni til

More information

BA ritgerð. Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna

BA ritgerð. Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna BA ritgerð Félagsráðgjöf Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna Úrræði Hekla Dögg Ásmundsdóttir Gyða Hjartardóttir Maí 2017 Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna Úrræði

More information

BA ritgerð. Börn með ADHD

BA ritgerð. Börn með ADHD BA ritgerð Félagsráðgjöf Börn með ADHD Hvaða úrræði geta hentað innan skólakerfisins? Sveinn Ingi Bjarnason Leiðbeinandi Sigrún Harðardóttir maí 2017 Börn með ADHD Hvaða úrræði geta hentað innan skólakerfisins?

More information

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept Gagnasafnsfræði Páll Melsted 16. sept Endurtekin gildi Ef við viljum losna við endurtekin gildi er hægt að nota DISTINCT SELECT DISTINCT name FROM MovieExec, Movie, StarsIn WHERE cert = producerc AND title

More information

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu?

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? 8 janúar 2015 Áður en kaupferlið hefst Í kaupferlinu Eftir að kaupferlinu lýkur Í kaupferlinu Áður en kaupferlið hefst Vörulýsing og myndir Neytendur

More information

,,Af góðum hug koma góð verk

,,Af góðum hug koma góð verk ,,Af góðum hug koma góð verk Verkfæri sem nýtast kennurum nemenda með ADHD Astrid Jóhanna Kristjánsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.- prófs Háskóla Íslands Menntavísindasvið Verkfæri sem nýtast kennurum nemenda

More information

Að efla félagshæfni leikskólabarna

Að efla félagshæfni leikskólabarna Að efla félagshæfni leikskólabarna Heiða María Angantýsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs Kennaradeild Að efla félagshæfni leikskólabarna Heiða María Angantýsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í leikskólakennarafræði

More information

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Umfjöllun 1. Stutt lýsing á Mati á stuðningsþörf: SIS 2. Einstaklingsbundnar

More information

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver 14 1 Excel Solver Excel Solver er viðbót (e. add-in) við Excel sem hjálpar til að finna bestu lausn á viðfangsefnum eins og þegar um er að ræða takmarkaðar

More information

Aðstaða og úrræði fyrir ADHD nemendur í framhaldsskóla Jónas Hörður Árnason

Aðstaða og úrræði fyrir ADHD nemendur í framhaldsskóla Jónas Hörður Árnason Aðstaða og úrræði fyrir ADHD nemendur í framhaldsskóla Jónas Hörður Árnason Lokaverkefni til B.Ed-próf Háskóli Ísland Menntavísindasvið Aðstaða og úrræði fyrir ADHD nemendur í framhaldsskóla Jónas Hörður

More information

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban 8. febrúar 2013 Eiríkur Gestsson Um mig Eiríkur Gestsson Tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík 2004 Hugur hf. og HugurAx frá 2004 til

More information

Skólatengd líðan barna

Skólatengd líðan barna Skólatengd líðan barna Rannsókn á skólatengdri líðan barna með og án sérþarfa að mati foreldra Eydís Einarsdóttir Júní 2017 Lokaverkefni til MA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Skólatengd líðan

More information

Skólaskrifstofa Austurlands. Virknimat

Skólaskrifstofa Austurlands. Virknimat Skólaskrifstofa Austurlands Búðareyri 4, 730 Reyðarfjörður Virknimat Virknimat (functional behavioral assessment) er skipulagt ferli til að (Yell, Meadows, Drasgow & Shriner, 2009; Kern, O Neill & Starosta,

More information

Sjúkdómsvæðing hegðunar:

Sjúkdómsvæðing hegðunar: Lokaverkefni til MA prófs í félagsfræði Sjúkdómsvæðing hegðunar: Hlutverk skólans í greiningarferli ADHD Anna Soffía Víkingsdóttir Febrúar 2016 Sjúkdómsvæðing hegðunar: Hlutverk skólans í greiningarferli

More information

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum:

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild-menntavísindabraut Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Endurskoðun á forvörnum og eineltisstefnum í framhaldsskóla Eva Dröfn Möller Akureyri Júní, 2013 Háskólinn

More information

Tíðni svefnvanda hjá börnum með ADHD

Tíðni svefnvanda hjá börnum með ADHD Tíðni svefnvanda hjá börnum með ADHD Karitas Ósk Björgvinsdóttir Lokaverkefni til Cand. Psych. gráðu Sálfræðideild Heilbrigðisvísindasvið Tíðni svefnvanda hjá börnum með ADHD Karitas Ósk Björgvinsdóttir

More information

4) Þá ertu kominn inná routerinn og ætti valmyndin að líta út eins og sýnt er hér til hægri. 5) Því næst er smellt á Wizard setup

4) Þá ertu kominn inná routerinn og ætti valmyndin að líta út eins og sýnt er hér til hægri. 5) Því næst er smellt á Wizard setup Hægt er að tengjast við Zyxel 660W beininn bæði þráðlaust eða með netkapli í netkort tölvunnar. Stilla þarf tölvuna þannig að hún sæki sjálfkrafa IP tölu (Optain an IP Address Automatically). Mismunandi

More information

1 Inngangur. Þetta kort sýnir hvernig uppbygging ritgerðarinnar er: Vellíðan. Hvað getur skólinn gert? Íslandi. Inngangur Sjálfsmynd

1 Inngangur. Þetta kort sýnir hvernig uppbygging ritgerðarinnar er: Vellíðan. Hvað getur skólinn gert? Íslandi. Inngangur Sjálfsmynd Útdráttur Einu barni af hverjum átta í grunnskóla líður ekki vel. Þegar tekið er tillit til lakari námsárangurs, aukinnar truflunar í tímum og jafnvel enn alvarlegri afleiðinga eins og þunglyndi og sjálfsvíga,

More information

Áhrif aldurs á skammtímaminni

Áhrif aldurs á skammtímaminni Háskóli Íslands 7.5.2000 Félagsvísindadeild Þroski og lífstíðarþróun (10.02.02) Áhrif aldurs á skammtímaminni Tryggvi R. Jónsson (191177-3989) Ólafur Magnússon Kennari: Sigurður J. Grétarsson Rannsókn

More information

Tónlist og einstaklingar

Tónlist og einstaklingar Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar Kristinn Arnar Benjamínsson Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar

More information

Afleiðingar ofbeldis á börn og einkenni ADHD

Afleiðingar ofbeldis á börn og einkenni ADHD Afleiðingar ofbeldis á börn og einkenni ADHD Gunnar Gíslason Lokaverkefni til BA gráðu í félagsráðgjöf Félagsvísindasvið Afleiðingar ofbeldis á börn og einkenni ADHD Gunnar Gíslason Lokaverkefni til BA

More information

ADHD og farsæl skólaganga

ADHD og farsæl skólaganga ADHD og farsæl skólaganga Ingibjörg Karlsdóttir félagsráðgjafi og lýðheilsufræðingur MPH Kynning á handbók um ADHD gefin út af Námsgagnastofnun Teikningar eftir Sigrúnu Eldjárn Um ADHD Síðastliðna öld

More information

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness Hagir og líðan barna í Grunnskóla s Niðurstöður rannsókna meðal nemenda í., 6. og 7. bekk á i árið 27 Birna Baldursdóttir Margrét Lilja Guðmundsdóttir Álfgeir Logi Kristjánsson Inga Dóra Sigfúsdóttir Jón

More information

Stúlkur og Asperger-heilkenni

Stúlkur og Asperger-heilkenni Stúlkur og Asperger-heilkenni Kynbundin áhrif heilkennisins á sjálfsmynd og félagslega stöðu Berglind Harpa Björnsdóttir Sally Ann Vokes Lokaverkefni til B.A.-prófs Þroskaþjálfadeild Stúlkur og Asperger-heilkenni

More information

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei 1 2 3 3_1 4 5 6 6_1 7 pige ísl nei hlutlaus vel mikið læri mikið á dönsku tímum og ef ég ætla í nám til dk þá er betra að kunna dönsku veit ekki pige ísl nei hlutlaus vel mikið eg læri nytt tungumal veit

More information

Að heiman. Aðskilnaður og heimþrá. Ágrip. Aðskilnaður frá foreldrum til styttri eða lengri tíma getur haft ýmsar afleiðingar í för með sér.

Að heiman. Aðskilnaður og heimþrá. Ágrip. Aðskilnaður frá foreldrum til styttri eða lengri tíma getur haft ýmsar afleiðingar í för með sér. Að heiman Aðskilnaður og heimþrá Guðrún Helga Ástríðardóttir, ghe8@hi.is Nemi í uppeldis og menntunarfræði Sveinbjörg Zophoníasdóttir, svz2@hi.is Nemi í uppeldis og menntunarfræði Ágrip Aðskilnaður frá

More information

Viðhorf kennara og reynsla af kennslu barna með ADHD

Viðhorf kennara og reynsla af kennslu barna með ADHD Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóla Íslands Grein birt 30. desember 2009 Jónína Sæmundsdóttir Viðhorf kennara og reynsla af kennslu barna með ADHD Í greininni er fjallað um

More information

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín Kennaraháskóli Íslands Kennsluréttindabraut Kennslufræði greinasviða og æfingakennsla Kennari: Elín María Thayer Ég sem kennari: Starfskenning mín Guðlaug Erlendsdóttir Nóvember 2007 Efnisyfirlit EFNISYFIRLIT...

More information

Að fá barn til þess að brosa

Að fá barn til þess að brosa Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild Grunnskólakennarafræði 2012 Að fá barn til þess að brosa Sérþarfir barna með ADHD samskipti heimila og skóla Bertha Karlsdóttir og Inga Vala

More information

Orðaforðanám barna Barnabók

Orðaforðanám barna Barnabók Orðaforðanám barna Barnabók Hrund Hermannsdóttir Lokaverkefni til B.ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari: Sigurður Konráðsson Kennaradeild Menntavísindasvið Háskóla Íslands Febrúar 2012 Ágrip

More information

Ungt fólk Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna

Ungt fólk Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna Ungt fólk 2004 Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna Rannsóknir meðal nemenda í framhaldsskólum á Íslandi 2004 og 2000 Álfgeir Logi Kristjánsson Silja Björk Baldursdóttir

More information

Snillingarnir Árangursmat á meðferðarnámskeiði fyrir börn með athyglisbrest með ofvirkni

Snillingarnir Árangursmat á meðferðarnámskeiði fyrir börn með athyglisbrest með ofvirkni Sálfræði Október 2008 Snillingarnir Árangursmat á meðferðarnámskeiði fyrir börn með athyglisbrest með ofvirkni Sigrún Ólafsdóttir Leiðbeinandi: Jakob Smári Meðleiðbeinandi: Dagmar Kristín Hannesdóttir

More information

Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna: Niðurstöður kannana í framhaldsskólum frá 2000 til 2016

Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna: Niðurstöður kannana í framhaldsskólum frá 2000 til 2016 Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna: Niðurstöður kannana í framhaldsskólum frá 2000 til 2016 September 2018 Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna:

More information

Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt.

Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt. Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt. Inga Sif Ingimundardóttir Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt

More information

Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi

Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi Maduvanthi Kumari Abeyrathne Lokaverkefni til B.Ed. prófs í Leikskólakennarafræði Leiðsögukennari: Hildur Blöndal Sveinsdóttir

More information

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Gagnvirkar töflur Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum Hólmfríður Ásmundsdóttir 270369-5459 Háskóli Íslands Menntavísindasvið Kennaradeild, grunnskólakennarafræði

More information

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Háskóli Íslands 3.4.2006 Viðskipta- og hagfræðideild Vinnusálfræði Vor 2006 Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Tryggvi R. Jónsson Kennari: Hafsteinn Bragason og Ægir Már Þórisson Fjarvinna 2 Val starfa

More information

Brúum bilið. leikum og lærum í leikskólanum og grunnskólanum á Hellu. Svandís Þórhallsdóttir. aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Heklukoti

Brúum bilið. leikum og lærum í leikskólanum og grunnskólanum á Hellu. Svandís Þórhallsdóttir. aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Heklukoti Brúum bilið leikum og lærum í leikskólanum og grunnskólanum á Hellu Svandís Þórhallsdóttir aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Heklukoti Efnisyfirlit Inngangur...... 2 1.0. Markmið þróunaráætlunarinnar..........3

More information

Leiðbeinandi: Sigrún Júlíusdóttir Nemandi: Rakel María Oddsdóttir Kennitala:

Leiðbeinandi: Sigrún Júlíusdóttir Nemandi: Rakel María Oddsdóttir Kennitala: Leiðbeinandi: Sigrún Júlíusdóttir Nemandi: Rakel María Oddsdóttir Kennitala: 120478 3549 Útdráttur Heimildaritgerð þessi er BA ritgerð nemanda í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands en efni ritgerðarinnar

More information

Vinnulag við greiningu og meðferð athyglisbrests með ofvirkni

Vinnulag við greiningu og meðferð athyglisbrests með ofvirkni Vinnulag við greiningu og meðferð athyglisbrests með ofvirkni (ADHD) Stytt útgáfa leiðbeininga Júní 2014 FORMÁLI Leiðbeiningar um Vinnulag við greiningu og meðferð athyglisbrest með ofvirkni voru fyrst

More information

,,Með því að ræða, erum við að vernda

,,Með því að ræða, erum við að vernda ,,Með því að ræða, erum við að vernda Áfengisneysla unglinga og opin umræða á heimilum Helga Karólína Karlsdóttir Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild ,,Með því að ræða, erum við

More information

HVAÐ SKAL SEGJA? Ásrún Matthíasdóttir 1

HVAÐ SKAL SEGJA? Ásrún Matthíasdóttir 1 HVAÐ SKAL SEGJA? "Would you tell me, please, which way I ought to go from here?" "That depends a good deal on where you want to get to", said the Cat. "I don't much care where," said Alice. "Then it doesn

More information

Einelti í grunnskóla

Einelti í grunnskóla Einelti í grunnskóla Hvað getur umsjónarkennarinn gert? Þórdís Friðbergsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið 2 Einelti í grunnskóla Hvað getur umsjónarkennarinn gert? Þórdís

More information

Foreldrasamstarf -Hvað segja lögin?-

Foreldrasamstarf -Hvað segja lögin?- Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Grunnskólabraut 2009 Foreldrasamstarf -Hvað segja lögin?- Guðbjörg Þóra Jónsdóttir Olga Ellen Þorsteinsdóttir Lokaverkefni Háskólinn á Akureyri

More information

Hegðun barna og agastefnur í leikskólum

Hegðun barna og agastefnur í leikskólum Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild Leikskólabraut 2012 Hegðun barna og agastefnur í leikskólum -Uppeldi til ábyrgðar og SMT skólafærni- Hildur Haraldsdóttir Lokaverkefni í kennaradeild

More information

Áhrif hreyfingar á ADHD

Áhrif hreyfingar á ADHD Lokaverkefni í B.Sc. í íþróttafræði Áhrif hreyfingar á ADHD Könnun á viðhorfi hreyfistjóra á hreyfingu sem meðferðarúrræði við ADHD Maí 2017 Nafn nemanda: Dagmar Karlsdóttir Kennitala: 220193 2419 Leiðbeinandi:

More information

MA ritgerð. Svefn og sálfélagslegir erfiðleikar leikskólabarna

MA ritgerð. Svefn og sálfélagslegir erfiðleikar leikskólabarna MA ritgerð Félagsráðgjöf til starfsréttinda Svefn og sálfélagslegir erfiðleikar leikskólabarna Guðbjörg Björnsdóttir Leiðbeinandi: Halldór Sigurður Guðmundsson Nóvember 2014 Svefn og sálfélagslegir erfiðleikar

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina Kennsluáætlun haust 2018 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

Er fylgni á milli erfiðleika í lestri og stærðfræði?

Er fylgni á milli erfiðleika í lestri og stærðfræði? Er fylgni á milli erfiðleika í lestri og stærðfræði? Niðurstöður samræmdra prófa hjá einum árgangi í 4., 7. og 10. bekk Sigríður Helga Ármannsdóttir Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Er fylgni

More information

Máltaka barna. Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir

Máltaka barna. Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir Máltaka barna Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari: Sigurður Konráðsson Kennaradeild Menntavísindasvið Háskóla

More information

adhd Enginn hópur sem hægt er að hjálpa jafn mikið fyrir jafn litla peninga fréttabréf ADHD samtakanna Sjónarhóll á Akureyri Lausn án lyfja

adhd Enginn hópur sem hægt er að hjálpa jafn mikið fyrir jafn litla peninga fréttabréf ADHD samtakanna Sjónarhóll á Akureyri Lausn án lyfja adhd 1. tbl. 21. árg. 2008 fréttabréf ADHD samtakanna Sjónarhóll á Akureyri Lausn án lyfja Miðstöð heilsuverndar barna Að hafa stjórn á fjármálum Málþing Sjónarhóls Enginn hópur sem hægt er að hjálpa jafn

More information

Hegðun foreldra sem áhrifaþáttur þess að unglingar á Íslandi leggja í einelti

Hegðun foreldra sem áhrifaþáttur þess að unglingar á Íslandi leggja í einelti Running head: HEGÐUN FORELDRA TENGT EINELTI UNGLINGA 1 Hegðun foreldra sem áhrifaþáttur þess að unglingar á Íslandi leggja í einelti Sandra Melberg Pálsdóttir 2013 BSc í Sálfræði Höfundur: Sandra Melberg

More information

Leikskóli margbreytileikans. Sérkennsla í nýju ljósi

Leikskóli margbreytileikans. Sérkennsla í nýju ljósi Leikskóli margbreytileikans Sérkennsla í nýju ljósi Starfsþróunarverkefni Sigrún Arna Elvarsdóttir Lokaverkefni til M.ed. - prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið Leikskóli margbreytileikans Sérkennsla

More information

spjaldtölvur í skólastarfi

spjaldtölvur í skólastarfi spjaldtölvur í skólastarfi Á tímabilinu október 2012 til febrúar 2013 hef ég, Ómar Örn Magnússon aðstoðarskólastjóri í Hagaskóla, unnið að verkefni fyrir SFS sem miðar að því að skoða kosti, möguleika

More information

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Syngjum saman. -vefur með sönglögum, texta og gripum- Dagmar Þórdísardóttir

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Syngjum saman. -vefur með sönglögum, texta og gripum- Dagmar Þórdísardóttir Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Syngjum saman -vefur með sönglögum, texta og gripum- Dagmar Þórdísardóttir Kennaraháskóli Íslands Kennarabraut, leikskólakennarafræði Maí 2008 Lokaverkefni til B.Ed. -prófs

More information

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn?

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut 29 Lesum saman Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Guðríður Anna Sveinsdóttir Lokaverkefni Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild

More information

Félagsráðgjafardeild

Félagsráðgjafardeild Félagsráðgjafardeild BA-ritgerð Að alast upp við alkóhólisma Áhrif á börn og uppkomin börn alkóhólista Gerður Sif Stefánsdóttir Október 2009 Leiðbeinandi: Halldór S. Guðmundsson Aðstoðarleiðbeinandi: Erla

More information

Leiðsagnarmat í Menntaskóla Borgarfjarðar Hvernig hefur okkur miðað?

Leiðsagnarmat í Menntaskóla Borgarfjarðar Hvernig hefur okkur miðað? Endurmenntun HÍ - Að vanda til námsmats Umsjón: Ingvar Sigurgeirsson Leiðsagnarmat í Menntaskóla Borgarfjarðar Hvernig hefur okkur miðað? Júní 2009 Lilja S. Ólafsdóttir Efnisyfirlit Inngangur... 3 Menntaskóli

More information

Listaháskóli Íslands Leiklistar og dansdeild Samtímadans. Getur dans og hreyfimeðferð haft jákvæð og gagnleg áhrif á einstaklinga með geðhvarfasýki?

Listaháskóli Íslands Leiklistar og dansdeild Samtímadans. Getur dans og hreyfimeðferð haft jákvæð og gagnleg áhrif á einstaklinga með geðhvarfasýki? Listaháskóli Íslands Leiklistar og dansdeild Samtímadans Getur dans og hreyfimeðferð haft jákvæð og gagnleg áhrif á einstaklinga með geðhvarfasýki? Arndís Benediktsdóttir Leiðbeinandi: Ásgerður G. Gunnarsdóttir

More information

Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara

Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara Edda Kjartansdóttir Þegar skynjanir vorar, hugsanir og hugsjónir hræra strengi tilfinninganna þá fyrst kemst rót á oss, þá losnar viljinn úr læðingi og knýr

More information

Félagsráðgjafardeild

Félagsráðgjafardeild Félagsráðgjafardeild BA-ritgerð Áhrif fjölskyldugerðar á lífsgæði og öryggi barna Guðbjörg María Árnadóttir Júní 2010 Félagsráðgjafardeild BA-ritgerð Áhrif fjölskyldugerðar á lífsgæði og öryggi barna Guðbjörg

More information

Sorg og sorgarúrvinnsla barna

Sorg og sorgarúrvinnsla barna Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild 2013 Sorg og sorgarúrvinnsla barna Hvernig er hægt að koma til aðstoðar? Benný Rós Björnsdóttir Lokaverkefni Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindasvið

More information

KENNSLUAÐFERÐIR. Kennarmiðuð kennsla Nemendamiðuð kennsla Nemendasamfélagsmiðuð kennsla Tæknimiðuðu kennsla

KENNSLUAÐFERÐIR. Kennarmiðuð kennsla Nemendamiðuð kennsla Nemendasamfélagsmiðuð kennsla Tæknimiðuðu kennsla KENNSLUAÐFERÐIR Better learning will not come from finding better ways for the teacher to instruct but from giving the learner better opportunities to construct. (Papert, 1991) Flestir geta verið sammála

More information

Nemendur með ADHD í skóla án aðgreiningar

Nemendur með ADHD í skóla án aðgreiningar Nemendur með ADHD í skóla án aðgreiningar Kennsla og skapandi nám Sólveig Kanthi Engilbertsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs Kennaradeild Nemendur með ADHD í skóla án aðgreiningar Kennsla og skapandi

More information

Gerendur eineltis Orsakir og afleiðingar

Gerendur eineltis Orsakir og afleiðingar Gerendur eineltis Orsakir og afleiðingar HELGA MARÍA GUÐMUNDSDÓTTIR VALGERÐUR BÁRA BÁRÐARDÓTTIR LOKAVERKEFNI TIL BS PRÓFS Í HJÚKRUNARFRÆÐI (12 EININGAR) LEIÐBEINENDUR: DR. BRYNJA ÖRLYGSDÓTTIR, LEKTOR DR.

More information

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Farsæl skólabyrjun

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Farsæl skólabyrjun Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Farsæl skólabyrjun Fræðileg umfjöllun um aðlögun barna í grunnskóla og hugmyndir að skipulagi fyrir fyrstu 4 vikurnar í 1.bekk Helga Jóhanna Harðardóttir Kennaraháskóli Íslands

More information

Áfallaáætlanir í Fjarðabyggð

Áfallaáætlanir í Fjarðabyggð Áfallaáætlanir í Fjarðabyggð Stuðningur við grunnskólanemendur Sigríður Ósk Atladóttir Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Áfallaáætlanir í Fjarðabyggð Stuðningur við grunnskólanemendur Sigríður

More information

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR)

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) Aldur nemenda: 10 ára og upp úr Viðfangsefni: ofbeldi, einelti, samskipti Færnimarkmið: Hugtakaleikir ná að þjálfa flesta færniþætti samræðunnar Viðhorfamarkmið: Hugtakaleikir ná

More information

Öll börn eiga rétt á uppeldi. notkun PMTO sem stuðningur við foreldra í uppeldishlutverkinu

Öll börn eiga rétt á uppeldi. notkun PMTO sem stuðningur við foreldra í uppeldishlutverkinu Öll börn eiga rétt á uppeldi notkun PMTO sem stuðningur við foreldra í uppeldishlutverkinu Birna Hjaltalín Pálmadóttir og Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDADEILD Lokaverkefni til BA gráðu

More information

BA ritgerð. Þunglyndi barna

BA ritgerð. Þunglyndi barna BA ritgerð Félagsráðgjöf Þunglyndi barna Hefur þunglyndi foreldra áhrif á börn þeirra og ef svo er, á hvaða hátt? Guðlaug Birna Steinarsdóttir Leiðbeinandi: Gyða Hjartardóttir Júní 2017 Þunglyndi barna

More information

Á ég virkilega rödd?

Á ég virkilega rödd? Á ég virkilega rödd? Hver er upplifun foreldra barna á einhverfurófinnu af menntastefnunni skóli án aðgreiningar? Guðrún Ása Jóhannsdóttir Júní 2016 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Á ég virkilega

More information

Skóli án aðgreiningar

Skóli án aðgreiningar Skóli án aðgreiningar Hugmyndir skólastjóra í grunnskólum um skóla án aðgreiningar? Ólafía María Gunnarsdóttir Lokaverkefni til M.Ed. prófs Uppeldis og menntunarfræðideild 1 Skóli án aðgreiningar Hugmyndir

More information

Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild Einelti. og samskipti kennara við foreldra gerenda eineltis

Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild Einelti. og samskipti kennara við foreldra gerenda eineltis Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild 2012 Einelti og samskipti kennara við foreldra gerenda eineltis Bjarnheiður Jónsdóttir og Elín Birna Vigfúsdóttir Lokaverkefni Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild

More information

Ólögmæt dreifing örvandi lyfseðilsskyldra lyfja meðal unglinga í 10. bekk

Ólögmæt dreifing örvandi lyfseðilsskyldra lyfja meðal unglinga í 10. bekk Ólögmæt dreifing örvandi lyfseðilsskyldra lyfja meðal unglinga í 10. bekk Gísli Kristófersson 1 geðhjúkrunarfræðingur, Ársæll Arnarsson 2 faraldsfræðingur, Guðmundur Heimisson 3 próffræðingur, Dagbjörg

More information

Einhverfa og einstaklingsnámskrá barna

Einhverfa og einstaklingsnámskrá barna Háskólinn á Akureyri Kennaradeild Leikskólabraut 2004 Einhverfa og einstaklingsnámskrá barna Sif Jóhannsdótti Lokaverkefni í kennaradeild 1 Háskólinn á Akureyri Kennaradeild Leikskólabraut Akureyri, Apríl

More information

Gildi hreyfingar og leikja í yngri barna kennslu

Gildi hreyfingar og leikja í yngri barna kennslu Lokaverkefni til B.Ed. prófs Gildi hreyfingar og leikja í yngri barna kennslu Fræðileg umfjöllun og hagnýtar upplýsingar Daggrós Stefánsdóttir 170184-2469 Edda Rún Gunnarsdóttir 051184-3199 Kennaraháskóli

More information

Allir VINIR. Forvarnir gegn einelti. Höfundur: Vanda Sigurgeirsdóttir Lektor í tómstunda- og félagsmálafræði Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Allir VINIR. Forvarnir gegn einelti. Höfundur: Vanda Sigurgeirsdóttir Lektor í tómstunda- og félagsmálafræði Menntavísindasvið Háskóla Íslands Allir VINIR Forvarnir gegn einelti Höfundur: Vanda Sigurgeirsdóttir Lektor í tómstunda- og félagsmálafræði Menntavísindasvið Háskóla Íslands 2 Efnisyfirlit Inngangur... 4 Fræðilegur bakgrunnur... 4 Undirstöður

More information

Þemahefti um na msmat í leikskó lum

Þemahefti um na msmat í leikskó lum Þemahefti um na msmat í leikskó lum Mennta- og menningarmálaráðuneytið: Þemahefti um námsmat í leikskólum Desember 2013 Útgefandi: Mennta- og menningarmálaráðuneytið Sölvhólsgötu 4 150 Reykjavík Sími:

More information

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun. Námstengd hvatning

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun. Námstengd hvatning MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun Námstengd hvatning Hvað hvetur háskólanema á Íslandi í námi? Kolbrún Eva Sigurjónsdóttir Leiðbeinandi: Kári Kristinsson, lektor Viðskiptafræðideild Febrúar 2012 Námstengdhvatning

More information

Tilfinningagreind í hlutverkaleik þriggja til fjögurra ára barna. Birgitta Ósk Sveinbjörnsdóttir

Tilfinningagreind í hlutverkaleik þriggja til fjögurra ára barna. Birgitta Ósk Sveinbjörnsdóttir Tilfinningagreind í hlutverkaleik þriggja til fjögurra ára barna Birgitta Ósk Sveinbjörnsdóttir Kennaradeild Hug- og félagsvísindasvið Háskólinn á Akureyri 2015 Tilfinningagreind í hlutverkaleik þriggja

More information

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands VIÐSKIPTASVIÐ Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands Ritgerð til BS gráðu Nafn nemanda: Guðrún Erna Hafsteinsdóttir Leiðbeinandi: Haraldur Daði Ragnarsson

More information

Jákvæður agi Jákvæður agi kennir félagsfærni og lífsleikni

Jákvæður agi Jákvæður agi kennir félagsfærni og lífsleikni Jákvæður agi Í starfi okkar leggjum við til grundvallar uppeldisstefnu sem nefnist Jákvæður agi (Positive Discipline). Stefnan byggir á sjálfsstjórnarkenningum, sem fela það í sér að horft er á orsakir

More information

The students sat in serried ranks, They wrote with all their might. But as they wrote it all by rote, They did not write it right.

The students sat in serried ranks, They wrote with all their might. But as they wrote it all by rote, They did not write it right. NÁMSMAT Á NÝRRI ÖLD The students sat in serried ranks, They wrote with all their might. But as they wrote it all by rote, They did not write it right. The studetns wrote in serried ranks, Their writing

More information

Færni til framtíðar. Handbók um örvun hreyfifærni barna úti í nánasta umhverfi og greinargerð. Sabína Steinunn Halldórsdóttir

Færni til framtíðar. Handbók um örvun hreyfifærni barna úti í nánasta umhverfi og greinargerð. Sabína Steinunn Halldórsdóttir Færni til framtíðar Handbók um örvun hreyfifærni barna úti í nánasta umhverfi og greinargerð Sabína Steinunn Halldórsdóttir Lokaverkefni til M.Ed.-gráðu Háskóli Íslands Menntavísindasvið Færni til framtíðar

More information

Einhverfurófið og svefn

Einhverfurófið og svefn Einhverfurófið og svefn Fræðileg úttekt á meðferðarúrræðum og virkni þeirra María Kristín H. Antonsdóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni til BA gráðu í sálfræði Félagsvísindadeild Apríl 2016 Einhverfurófið

More information

Lotta og Emil læra að haga sér vel

Lotta og Emil læra að haga sér vel Menntavísindasvið Háskóla Íslands Grein birt 31. desember 2010 Anna-Lind Pétursdóttir Lotta og Emil læra að haga sér vel Áhrif virknimats og stuðningsáætlunar Fjallað er um einstaklingsmiðaða stuðningsáætlun

More information

Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna

Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna Tímarit um menntarannsóknir, 1. árg. 2004, 9-17 9 Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna M. Allyson Macdonald Kennaraháskóla Íslands Inngangserindi á ráðstefnu 22. nóvember

More information

Uppsetning á Opus SMS Service

Uppsetning á Opus SMS Service Uppsetning á Opus SMS Service Undirbúningur Þetta þarf að vera til staðar: Opus SMS Service á að vera sett upp móðurtölvunni sem hýsir gagnagrunninn. Notandinn sem er innskráður á tölvunni þarf að vera

More information

MA ritgerð. Ég fór þetta bara á hnefanum

MA ritgerð. Ég fór þetta bara á hnefanum MA ritgerð Félagsráðgjöf til starfsréttinda Ég fór þetta bara á hnefanum Reynsla og upplifun barna af því að eiga foreldri í fangelsi Svava Davíðsdóttir Leiðbeinandi: Steinunn Hrafnsdóttir Aðstoðarleiðbeinandi:

More information

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Samtök iðnaðarins - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Framkvæmdarlýsing - félagsmannakönnun Unnið fyrir Markmið Samtök iðnaðarins Að kanna viðhorf félagsmanna SI til Evrópumála og þróun þar á Framkvæmdatími

More information

Námsvefur um GeoGebra

Námsvefur um GeoGebra Námsvefur um GeoGebra Guðfinna Guðjónsdóttir Lokaverkefni lagt fram til fullnaðar B.Ed.-gráðu í kennslufræði við Háskóla Íslands, Menntavísindasvið September 2009 Efnisyfirlit Inngangur... 3 Nýting tækni

More information

Áfallaáætlun fyrir leikskólann Dal

Áfallaáætlun fyrir leikskólann Dal Áfallaáætlun fyrir leikskólann Dal Hanna María Ásgrímsdóttir Lokaverkefni lagt fram til fullnaðar B.Ed. gráðu í Leikskólakennarfræði við Háskóla Íslands, Menntavísindasvið Apríl 2009 Lokaverkefni til B.Ed.

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vorönn 2019 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

Handbók fyrir kennara við Háskóla Íslands

Handbók fyrir kennara við Háskóla Íslands Handbók fyrir kennara við Háskóla Íslands Ágætu háskólakennarar, Háskóli Íslands hefur sett sér þá stefnu að á vegum hans fari fram framúrskarandi kennsla. Hlutverk Kennslumiðstöðvar er að styðja við framkvæmd

More information

Árangur og brottfall í hugrænni atferlismeðferð í hópi með teknu tilliti til þunglyndis, kvíða, streitu og félagsfælni

Árangur og brottfall í hugrænni atferlismeðferð í hópi með teknu tilliti til þunglyndis, kvíða, streitu og félagsfælni Árangur og brottfall í hugrænni atferlismeðferð í hópi með teknu tilliti til þunglyndis, kvíða, streitu og félagsfælni Einar Kristinsson HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni til B.A. gráðu í sálfræði

More information