Leiðbeinandi: Sigrún Júlíusdóttir Nemandi: Rakel María Oddsdóttir Kennitala:

Size: px
Start display at page:

Download "Leiðbeinandi: Sigrún Júlíusdóttir Nemandi: Rakel María Oddsdóttir Kennitala:"

Transcription

1 Leiðbeinandi: Sigrún Júlíusdóttir Nemandi: Rakel María Oddsdóttir Kennitala:

2 Útdráttur Heimildaritgerð þessi er BA ritgerð nemanda í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands en efni ritgerðarinnar var afmarkað við skilnaði og áhrif þeirra á börn og ungmenni. Í þessari ritgerð verður fyrst fjallað um skilnaði almennt en síðan verður leitast við að kanna hvaða áhrif skilnaður foreldra getur haft á börn þar sem kannaðar verða ýmsar rannsóknir og heimildir um það efni. Niðurstöður ritgerðarinnar benda til þess að aukning hafi verið á skilnuðum síðastliðna áratugi og að skilnaðir hafi áhrif á börn með mismunandi hætti. Hvernig tekið er á málum er varða skilnað hefur mikið að segja um hvernig börn ná að takast á við skilnað foreldra og aðlagast breyttu lífi. Áhættuþættir skilnaða eru til dæmis deilur á milli foreldra eða skortur á samskiptum við foreldra eða aðra nákomna og geta þeir haft slæm áhrif á börn og aukið líkur á áhættuhegðun eins og til dæmis vímuefnavanda eða hegðunarvandamálum. Verndandi þættir skilnaðarbarna eru til að mynda góðir persónuleikaþættir barna, hæfir foreldrar og góður stuðningur við börnin og fjölskyldur þeirra. Ef þessir þættir eru til staðar eykur það líkur á að börn nái að aðlagast skilnuðum með góðum hætti. 2

3 Þakkarorð Ég vil nota tækifærið og þakka kennara mínum Sigrúnu Júlíusdóttur, prófessors í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, fyrir leiðsögn og ábendingar við gerð þessarar BA ritgerðar en hún hefur meðal annars unnið að gerð fjölda rannsókna á Íslandi á sviði fjölskyldufræða. Auk þess vil ég koma á framfæri þökkum til vinkonu minnar Kolbrúnar Valgeirsdóttur fyrir gagnrýnan yfirlestur. 3

4 Efnisyfirlit 1. INNGANGUR SKILNAÐIR TÍÐNI SKILNAÐA ÁSTÆÐUR SKILNAÐA SJÓNARHORN SKILNAÐA SJÓNARMIÐ SEM ÁLÍTUR SKILNAÐ EINKENNAST AF STREITU OG AÐLÖGUNARTÍMABILI EINSTAKLINGA Krísumódelið Álagsmódelið SJÓNARMIÐ SEM ÁLÍTUR EINSTAKLINGA VELJA SKILNAÐ ÁHRIF SKILNAÐA Á BÖRN KREPPU OG SORGAREINKENNI SKILNAÐARBARNA KVÍÐI SKILNAÐARBARNA SVEFNTRUFLANIR SKILNAÐARBARNA SÖKNUÐUR OG DEPURÐ SKILNAÐARBARNA REIÐI SKILNAÐARBARNA SEKTARKENND OG SJÁLFSÁSAKANIR SKILNAÐARBARNA ERFIÐLEIKAR HJÁ SKILNAÐARBÖRNUM Í SKÓLA SÁLLÍKAMLEG EINKENNI SKILNAÐARBARNA BREYTINGAR Í LÍFI BARNA Í KJÖLFAR SKILNAÐAR BREYTINGAR Á HLUTVERKUM BARNA Í KJÖLFAR SKILNAÐAR FORELDRA BREYTINGAR VARÐANDI UMGENGNI OG FORSJÁ BARNA Í KJÖLFAR SKILNAÐAR FORELDRA BREYTINGAR SEM HAFA ÁHRIF Á BÖRN VARÐANDI EFNAHAG, FÉLAGSLEGAR AÐSTÆÐUR OG UMHVERFI Í KJÖLFAR SKILNAÐAR FORELDRA BREYTINGAR BARNA Á SAMBÖNDUM OG TENGSLUM Í KJÖLFAR SKILNAÐAR FORELDRA ÍSLENSK RANNSÓKN UM REYNSLU OG SÝN SKILNAÐARUNGMENNA

5 10. RANNSÓKN UM AÐLÖGUN BARNA EFTIR SKILNAÐ HÆF OG TÆKIFÆRISSINNUÐ SKILNAÐARBÖRN HÆF OG UMHYGGJUSÖM SKILNAÐARBÖRN MEÐALHÆF SKILNAÐARBÖRN ÁRÁSARGJÖRN OG ÓÖRUGG SKILNAÐARBÖRN ÁHÆTTUÞÆTTIR SKILNAÐARBARNA VANHÆFNI FORELDRA OG ÖNNUR VANDAMÁL MILLI FORELDRA SKILNAÐARBARNA EINSTÆÐIR FORELDRAR SKILNAÐARBARNA SKORTUR Á STYÐJANDI SAMSKIPTUM OG TENGSLUM VIÐ FORELDRA OG AÐRA HAGSMUNAAÐILA SKILNAÐARBARNA FORELDRAR SKILNAÐARBARNA SEM GIFTA SIG AFTUR EÐA STOFNA TIL SAMBÚÐAR Á NÝ VERNDANDI ÞÆTTIR SKILNAÐARBARNA GÓÐIR PERSÓNULEIKAÞÆTTIR OG STERK SJÁLFSBJARGARVIÐLEITNI SKILNAÐARBARNA HÆFIR OG STYÐJANDI FORELDRAR SKILNAÐARBARNA GÓÐUR STUÐNINGUR VIÐ SKILNAÐARBÖRN OG FJÖLSKYLDUR ÞEIRRA AÐGANGUR BARNA OG FJÖLSKYLDNA AÐ FRÆÐSLU, NÁMSKEIÐUM OG MEÐFERÐARAÐILA VIÐ SKILNAÐ FORELDRA AÐRIR ÞÆTTIR SEM GETA HAFT JÁKVÆÐ ÁHRIF Á LÍF SKILNAÐARBARNA UMRÆÐA OG ÁLYKTANIR HEIMILDIR

6 1. Inngangur Skilnuðum hefur fjölgað undanfarna áratugi og mikill fjöldi barna upplifir skilnað foreldra en þeir reyna yfirleitt mikið á börn og fjölskyldur. Rannsóknir benda til þess að skilnaðir hafi áhrif á börn ekki síður en foreldra og þarf því að huga að mörgu svo skilnaður verði börnum ekki of erfiður. Fólk skilur af ýmsum ástæðum og mikilvægt er að kunna að taka rétt á skilnaðarmálum svo börn nái að aðlagast lífinu að nýju með sem bestum hætti. Það hvernig börnum tekst að vinna sig í gegnum skilnað er undir mörgum mismunandi þáttum komið. Áhættuþættir skilnaðar eru margir og vanhæfir foreldrar, slæmar heimilisaðstæður eða deilur á milli foreldra geta haft skaðleg áhrif á börn og skapað alls kyns vandamál. Einstæðir foreldrar standa oftar verr fjárhagslega og geta börn liðið skort í kjölfarið. Samskipti og tengsl við fjölskyldu og vini minnka yfirleitt við skilnað, oft gifta foreldrar sig á ný og því þurfa mörg börn að aðlagast nýrri fjölskyldugerð. Þrátt fyrir marga áhættuþætti skilnaðar þá eru margir verndandi þættir sem auka líkurnar á að skilnaðarbörn nái að aðlagast breyttum aðstæðum. Börn sem búa yfir sjálfsbjargarviðleitni og fá stuðning frá fjölskyldu og vinum gengur yfirleitt betur að aðlagast skilnaði. Að lokum má nefna mikilvægi þess að skilnaðarfjölskyldur hafi aðgang að fræðslu um skilnaðarmál. Í sumum tilfellum er nauðsynlegt að fá aðstoð frá meðferðaraðila sem getur hjálpað börnum og fjölskyldu þeirra að vinna úr erfiðum tilfinningum og vandamálum sem upp kunna að koma þegar skilnaður á sér stað. Í þessari ritgerð verður viðfangsefnið afmarkað við skilnaði og áhrif þeirra á börn og ungmenni. Fyrst verður fjallað um skilnaði almennt, því næst um áhrif skilnaða á börn og breytingar í lífi barna í kjölfar skilnaðar. Að endingu verður umfjöllun um áhættuþætti sem geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir skilnaðarbörn. Einnig er mikilvægt að skoða hvaða þættir geta aukið velferð barna og líkur þeirra á að aðlagast skilnaði. Þar geta félagsráðgjafar orðið að liði með því að byggja á styrkleikum hverrar fjölskyldu í þeim tilgangi að hún nái betur að takast á við þessar breyttu aðstæður. 6

7 2. Skilnaðir Skilnaður eða sambúðarslit getur reynt mikið á foreldra og börn og þótt bundinn sé endir á hjónaband þurfa foreldrar að huga að velferð barna sinna þar sem foreldrahlutverkinu lýkur aldrei. Skilnaður er fjölskyldumeðlimum yfirleitt erfiður tilfinningalega, ekki síst börnum, en sumar rannsóknir gefa til kynna að mesta tilfinningaáfall í lífi karla og kvenna á eftir makamissi sé skilnaður (Sigrún Júlíusdóttir, Nanna K. Sigurðardóttir, Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson, 1995; Sigrún Júlíusdóttir og Nanna K. Sigurðardóttir, 2000a; Benedikt Jóhannsson, 2004). Fólk sem hefur sambúð eða giftir sig hefur væntingar um að sambandið einkennist af gagnkvæmri virðingu og að það verði farsæl og ævilöng skuldbinding. Þeir sem stofna til sambúðar eða hjónabands ætla sjaldnast að skilja og hefur skilnaður því í för með sér sárar tilfinningar og jafnvel tilvistarkreppu. Sumir álíta skilnað þó ekki vera áfall heldur breytingu sem getur verið hluti af jákvæðri og persónulegri þróun einstaklingsins og getur fært honum möguleika á betra lífi (Amato, 2000; Benedikt Jóhannsson, 2004). Í dag er réttur hvers og eins til að skilja við maka sinn viðurkenndur (Benedikt Jóhannsson, 2004). Í hjúskaparlögum nr. 31/1993 er skýrt kveðið á um að hægt sé að sækja um skilnað. Þó má ekki gleyma að skilnaðir geta verið mjög flóknir, þegar börn koma við sögu, því að mörgu er að hyggja. Algengast er að fólk í sambúð eða hjónabandi hiki við að skilja þegar börn eru komin í spilið og reyna flestir foreldrar til hins ýtrasta að bjarga sambandinu, oft barnanna vegna (Benedikt Jóhannsson, 2004). 3. Tíðni skilnaða Skilnaður er ekkert nútímafyrirbæri og svo langt sem heimildir ná hafa skilnaðir verið til (Sigrún Júlíusdóttir, 2001). Hægt er að rekja skilnaði á Íslandi aftur til miðalda en þeir voru lítt þekktir frá 16. öld og fram á 19. öld. Í nútímasamfélagi eru skilnaðir aftur á móti algengir bæði á Íslandi og í flestum nágrannalöndum okkar þar sem álitið er að það sé nokkuð eðlilegt að skilja (Sigrún Júlíusdóttir o.fl, 1995). Hér áður fyrr var tíðni skilnaða ekki há og þeir álitnir frekar hafa verið yfirstéttarfyrirbrigði. Viðhorf og aðstæður varðandi skilnaði hafa breyst og er það talsvert áhyggjuefni hvað skilnuðum hefur fjölgað því sú hætta er fyrir hendi að þeir 7

8 hafi slæm áhrif á börn (Sigrún Júlíusdóttir o.fl., 1995; Benedikt Jóhannsson, 2004). Há skilnaðartíðni hefur áhrif á uppeldi og félagslega aðlögun barna og meira en helmingur allra skilnaða varða börn sem eru undir 18 ára aldri. Meira en ein milljón barna upplifa skilnað foreldra árlega og um 40% allra barna munu ganga í gegnum skilnað foreldra áður en þau ná fullorðinsárum (Amato, 2000). Á Norðurlöndunum um aldamótin 1900 lauk aðeins um 1% hjónabanda með skilnaði en á 20. öldinni jókst tíðni skilnaða á Vesturlöndunum til mikilla muna. Hlutfall skilnaða af hjónavígslum á Norðurlöndunum er um 40% en er allt að 50% í Bandaríkjunum og árið 2002 var skilnaðartíðnin hæst í Bandaríkjunum (Benedikt Jóhannsson, 2004; Berk, 2004; Sigrún Júlíusdóttir, Jóhanna Rósa Arnardóttir og Guðlaug Magnúsdóttir, 2008a). Um miðja 19. öld lauk aðeins um 5% hjónabanda með skilnaði (Amato, 2000). Skilnaðartíðnin jókst hvað hraðast upp úr 1970 á Íslandi og náði hámarki 1990 (Sigrún Júlíusdóttir o.fl, 1995; Benedikt Jóhannsson, 2004). Um þriðjungur barna sem alast upp hjá báðum foreldrum eiga eftir að reyna skilnað foreldra og um helmingur allra skilnaðarbarna munu að minnsta kosti búa tímabundið með einstæðu foreldri sem oftast er móðir. Stór hluti þessarra barna eiga síðan eftir að sameinast annarri fjölskyldu sem nefnist stjúpfjölskylda (Amato, 2000; Sigrún Júlíusdóttir o.fl., 2000a). Talið er að um þriðjungur barna á Vesturlöndunum sem fædd eru á níunda áratugnum muni búa einhvern hluta uppvaxtarára sinna hjá öðru foreldri sínu og mun hluti þessarra barna upplifa skilnað foreldra oftar en einu sinni. Ef skoðuð er skilnaðartíðnin á Íslandi, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð árin 1990 til 2006 sýna niðurstöður að skilnaðartíðnin er lægst á Íslandi en hæst í Danmörku. Þrátt fyrir lægri skilnaðartíðni á Íslandi upplifa á annað þúsund börn skilnað foreldra. Skilnaðartíðnin er hlutfallslega há á Vesturlöndunum á fyrstu árum hjónabands eða eftir fæðingu fyrsta barns enda er mikið álag í fjölskyldum á því lífsskeiði og hjónaskilnaðir algengari á því tímabili (Sigrún Júlíusdóttir o.fl., 2008a). Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands voru 506 sem luku hjúskap árið 1955 en 662 árið Árið 1975 voru 982 sem bundu endi á hjúskap en árið 1985 voru hjúskaparslit komin 8

9 upp í Árið 2005 voru 1281 sem skildu en þessar tölur sýna glöggt að hjúskaparslitum hefur fjölgað á Íslandi (Hagstofa Íslands, e.d.a). 4. Ástæður skilnaða Foreldrar sem standa í skilnaði í dag eru ef til vill í betra andlegu jafnvægi og standa betur félagslega en áður var og í vestrænum samfélögum er skilnaður nú almennt viðurkenndur sem útgönguleið ef par finnur ekki lausn á vandamálum sínum (Benedikt Jóhannsson, 2004). Mismunandi ástæður eru fyrir því að fólk tekur ákvörðun um að skilja. Þættir sem hafa áhrif eru til dæmis ólíkt gildismat hjóna, ósætti foreldra sem eru í óhamingjusömu hjónabandi, lögggjöf sem tryggir hjónum greiðan aðgang að skilnaði eða álag vegna slæmra lífskjara sem getur valdið skilnaði í kjölfarið. Auk þess getur stundum verið um alvarlega árekstra að ræða eða að hjón ná ekki að leysa ágreiningsmál sín á lausnamiðaðan hátt. Skilnaður getur verið léttir fyrir fjölskyldumeðlimi ef bundinn er endir á alvarlegt ástand sem ríkt hefur á heimilinu. Hjón geta fjarlægst hvort annað eða haft mismunandi væntingar til hjónabandsins á meðan önnur þróa með sér þegjandi fjandskap og tilfinningalega fjarlægð. Ástin getur fjarað út eða maki sýnt áhugaleysi og framhjáhald, vanvirða og svik geta einnig valdið skilnaði sem og skortur á samheldni hjóna. Þeir einstaklingar sem álíta skilnað vera persónulegan harmleik eru oftar þeir sem eru ósáttir við að skilja á meðan þeir sem yfirleitt krefjast skilnaðarins eru þeir sem horfa á skilnað sem lausn frá hjónabandi sem er í upplausn. Ástæðurnar eru eins mismunandi og þær eru margar og fara eftir einstaklingunum sem í hlut eiga (Amato, 2000; Sigrún Júlíusdóttir o.fl., 2000a; Berk, 2004; Sigrún Júlíusdóttir o.fl., 2008a). Íslensk könnun leiddi í ljós að meðalvinnutími íslenskra fjölskyldna, sem eru foreldrar á aldrinum 25 til 45 ára að meðaltali með tvö börn, eru 56 klukkustundir á viku. Ef tekinn er samanlagður vinnutími beggja hjóna, sem oft eru í fleiri en einu starfi, er hann 77,8 klukkustundir á viku en algengt er að hjón kvarti bæði undan miklu vinnuálagi og of litlum tíma til að sinna börnunum og hjónabandinu (Sigrún Júlíusdóttir, 2001). 9

10 5. Sjónarhorn skilnaða Sumstaðar ríkir það sjónarmið að það að hafa tvo foreldra í fjölskyldu tryggi börnum stöðugleika og öryggi sem skili því að börn verði að heilbrigðum og hæfum einstaklingum. Einnig er álitið að einstæðir foreldrar geti ekki tryggt börnum sínum slíkt með sama hætti og eigi frekar við félagsleg vandamál að stríða vegna erfiðra aðstæðna eftir skilnað. Annað sjónarmið lítur svo á að fullorðið fólk sem tekur ákvörðun um að skilja uppfylli væntingar sínar og að börn þeirra þroskist farsællega þrátt fyrir miklar breytingar á fjölskyldulífi. Innan þess sjónarmiðs eru skilnaðir álitnir vera, þrátt fyrir tímabundið streitutímabil í lífi einstaklinga, tækifæri fyrir fullorðið fólk að finna hamingjuna að nýju. Í mörg horn eru að líta þegar skilnaður á sér stað en hér á eftir verður farið yfir tvö sjónarmið skilnaðar Sjónarmið sem álítur skilnað einkennast af streitu og aðlögunartímabili einstaklinga Sjónarmið sem álítur skilnað einkennast af streitu og aðlögunartímabili einstaklinga lítur svo á að skilnaðarferlið byrji yfirleitt með ósamlyndi milli hjóna og tilfinningalegra vandamála sem veldur óánægju í sambandinu. Makar ná ekki samkomulagi, reyna að eyða tíma í að laga sambandið eða forðast vandamálið. Margir atburðir verða streituvaldandi í samskiptum para sem leiðir til skilnaðar. Innan þess sjónarmiðs sem telur skilnað einkennast af streitu og aðlögunartímabili eru tvö andstæð módel sem eru annars vegar krísumódelið og hins vegar álagsmódelið Krísumódelið Krísumódelið gerir ráð fyrir að skilnaður valdi ákveðinni krísu sem leiðir til ójafnvægis sem flestir einstaklingar ná að aðlagast með tímanum. Samkvæmt því módeli hefur sjálfsbjargarviðleitni og önnur bjargráð einstaklinga áhrif á hve aðlögun að skilnaðinum tekur langan tíma. Ef einstaklingar fá nægan tíma til að aðlagast skilnaðinum og breytingunum sem honum fylgja ná flestir einstaklingar jafnvægi og eðlilegri virkni á ný í daglegu lífi. 10

11 Álagsmódelið Álagsmódelið gerir ráð fyrir að skilnaður valdi einstaklingum langvarandi álagi. Efnahagslegir erfiðleikar, ábyrgð einstæðra foreldra sem sinna uppeldishlutverki, léleg sjálfsbjargarviðleitni og jafnvel einmanaleiki geta valdið foreldrum langvarandi áhyggjum og álagi. Í sumum tilfellum hverfa vandamál ekki eftir skilnað og halda áfram að vera til staðar en slíkt getur haft slæm áhrif á velferð einstaklinga og dregið úr lífsgæðum þeirra. Álagsmódelið hefur fengið á sig gagnrýni fyrir að einblína of mikið á neikvætt sjónarhorn skilnaðarins og það lítur frekar framhjá jákvæðri útkomu skilnaðarins. Líf kvenna og barna getur batnað til muna ef til dæmis samband við ofbeldisfullan eiginmann tekur endi við hjónaskilnað. Margir þeirra kennismiða sem aðhyllast álagsmódelið hafa deilt um að hugsanlega geta streituvaldandi atburðir eins og skilnaður er, til langs tíma litið, haft jákvæðar afleiðingar ef fólk nær að leysa vandamál sín á farsælan hátt Sjónarmið sem álítur einstaklinga velja skilnað Sjónarmið sem álítur skilnað einkennast af vali einstaklinga lítur svo á að fólk sem nær ekki að aðlagast hjónabandi með góðum hætti velji að skilja. Til dæmis auka samskiptaerfiðleikar og persónuleg vandamál hjóna líkur þeirra á að velja skilnað. Aðlögunarvandamál koma oft í ljós snemma í hjónabandi hjá þeim sem skilja eða jafnvel í sambúð hjá pari áður en það giftir sig. Fólk kemur oft með ákveðna þætti inn í hjónaband sem auka líkur á skilnaði eins og til dæmis þunglyndi eða önnur vandamál (Amato, 2000). 6. Áhrif skilnaða á börn Líkt og áður hefur komið fram er skilnaður foreldra nánast alltaf vonbrigði fyrir börn og raskar óhjákvæmilega lífi þeirra. Börn upplifa oft álag og streitu við skilnað en samt sem áður getur skilnaður bæði haft jákvæðar eða neikvæðar afleiðingar fyrir börn enda aðstæður og staða þeirra misjöfn. Flest börn ná andlegu jafnvægi eftir skilnað þar sem talið er að það taki eitt til þrjú ár að aðlaga sig að skilnaðinum. 11

12 Margar rannsóknir styðja þá niðurstöðu að það hvernig staðið er að málum sem tengjast skilnaði foreldra skiptir meira máli heldur en skilnaðurinn sjálfur. Mikilvægt er að huga að velferð barna sem upplifa skilnað foreldra og nauðsynlegt að kunna að bregðast við á áhrifaríkan hátt. Börn þurfa að læra að takast á við skilnaðinn og aðlagast honum svo hann verði þeim ekki of þungbær. Rannsóknir benda til þess að árekstrar foreldra, tengsl barna við foreldra, aðlögun forsjárforeldris, fjárhagur foreldra og annað álag í lífi barna ráði einkum úrslitum varðandi langtímaáhrif skilnaðar á börn (Sigrún Júlíusdóttir o.fl., 1995; Benedikt Jóhannsson, 2004; Berk, 2004). Viðbrögð barna við skilnaði geta valdið sálfræðilegum, tilfinningalegum og hegðunarlegum vandkvæðum. Börn sem upplifa mikla vanlíðan við skilnað geta þróað með sér geðraskanir sem getur fylgt börnunum til fullorðinsára og í sumum tilfellum getur það haft áhrif á þeirra eigið hjónaband síðar á ævinni. Til eru börn sem trúa því að bernska þeirra eigi eftir að vera erfiðari miðað við börn sem ekki upplifa skilnað og að hann muni hafa mikil áhrif á framtíð þeirra. Þeim finnst þau vera dæmd til að endurtaka mistök foreldra sinna þar sem þau eru ekki fær um að aðskilja sig sjálf frá vandamálum foreldra sinna (Portnoy, 2008). Margar rannsóknir renna stoðum undir það að skilnaðarbörn séu yfirleitt í verra jafnvægi en önnur börn. Þrátt fyrir það vegnar meirihluta barna vel eftir skilnað og sýna sumar rannsóknir að um 80% skilnaðarbarna gengur vel bæði félagslega og tilfinningalega en um 20% þeirra eiga í erfiðleikum og nær það til þeirra barna sem alast upp í stjúpfjölskyldum. Um 38% barna sem upplifað hafa meira en einn skilnað foreldra koma oft töluvert illa út úr þeim og eiga í talsverðum vanda. Á móti eiga aðeins um 10% barna sem alast upp hjá báðum líffræðilegum foreldrum við talsverðan vanda að etja. Svo virðist sem alvarleg hegðunarvandamál séu allt að helmingi algengari meðal skilnaðarbarna en annarra barna. Margar rannsóknir sýna fram á að skilnaðarbörn eiga í marktækt meiri vanda en önnur börn og benda ýmsar rannsóknir til þess að skilnaðarbörn séu verr aðlöguð en önnur börn (Benedikt Jóhannsson, 2004). Drengir upplifa oft álag við skilnað foreldra og eiga mun erfiðara með að aðlaga sig að honum, samanborið við stúlkur. Drengir eiga einnig erfiðara með að aðlaga sig félagslega eftir skilnað foreldra og eiga mun oftar við hegðunarvandamál að stríða. Sumir drengir 12

13 upplifa jafnvel vonleysi og kjarkleysi í kjölfar skilnaðar (Amato, 2000; Benedikt Jóhannsson, 2004; Portnoy, 2008). Stúlkur sem upplifa skilnað foreldra eru líklegri til að finna fyrir depurð og taka vandann heldur inn á sig í formi vanlíðunar og sumar þróa jafnvel með sér hegðunarvanda (Benedikt Jóhannsson, 2004). Sumar stúlkur sem upplifa skilnað foreldra eiga frekar í hættu á að verða grátgjarnar, sjálfsgagnrýnar, hlédrægar eða þær krefjast mikillar athygli (Berk, 2004). Skilnaðarbörn geta þó náð góðum félagslegum þroska sem gera þau síðar á lífsleiðinni hæfari til að takast á við ýmis krefjandi verkefni en á þetta þó einkum við stúlkur sem gengið hafa í gegnum skilnað foreldra sinna (Benedikt Jóhannsson, 2004). Niðurstöður ýmissa rannsókna sýna að skilnaðarbörn koma verr út miðað við önnur börn, annars vegar varðandi líðan, samskipti við félaga og árangur í námi og hins vegar varðandi einelti og samskipti við foreldra (Berk, 2004; Benedikt Jóhannsson, 2004, 2007). Sumar alþjóðlegar rannsóknir sýna að skilnaðarbörn hafa minni áhuga á að mennta sig, sýna lélegri námsárangur, eru tvisvar til þrisvar sinnum líklegri til að hætta í skóla, öðlast minni menntun og fá bæði lélegri starfsstöður og tekjur miðað við börn sem ekki hafa reynt skilnað forelda. Einnig sýna margar rannsóknir að unglingar sem upplifa skilnað foreldra stofna fyrr til ástarsambands, byrja snemma að stunda kynlíf, eignast frekar óskilgetin börn og flytja ungir að heiman. Auk þess eru skilnaðarbörn í áhættuhóp þeirra sem sýna andfélagslega hegðun eins og að strjúka burt af heimilum, taka þátt í afbrotum og eiga í útistöðum við yfirvöld (Benedikt Jóhannsson, 2004; Berk, 2004; Portnoy, 2008). Norsk könnun leiddi í ljós að reykingar voru tvisvar sinnum tíðari hjá framhaldsskólanemum sem upplifað höfðu skilnað foreldra og var alvarleg vímuefnanotkun fjórum sinnum tíðari. Sænsk rannsókn leiddi í ljós að alvarlegur áfengisvandi var tvisvar sinnum algengari meðal ungra manna ef foreldrar þeirra höfðu skilið en íslensk rannsókn frá árinu 1998 á íslenskum unglingum í 9. og 10. bekk gaf svipaðar niðurstöður. Niðurstöður þeirrar rannsóknar sýndu að unglingar sem koma frá skilnaðarheimilum drekka áfengi mun oftar, í meira magni og eru einnig líklegri til að nota eiturlyf miðað við þau börn sem ekki hafa upplifað skilnað foreldra og eru því í áhættuhópi (Benedikt Jóhannsson, 2004). 13

14 7. Kreppu og sorgareinkenni skilnaðarbarna Almennt er viðurkennt að skilnaðarbörn ganga í gegnum ákveðið sorgarferli í kjölfar skilnaðar þar sem þau upplifa ákveðinn missi þegar annað foreldrið flytur í burtu og er sorgarferlið ákveðin leið sem börn fara til að laga sig að breyttum aðstæðum. Sorgarferli barna eftir skilnað birtist með ýmsum hætti en hér á eftir verður fjallað um helstu kreppu og sorgareinkenni skilnaðarbarna Kvíði skilnaðarbarna Eins og áður hefur komið fram finna börn oft fyrir miklum missi þegar eitt foreldrið flytur í burtu í kjölfar skilnaðar og upplifa sum börn öryggisleysi. Fjölskylduaðstæður og tengsl barna við aðra skipta miklu máli fyrir börn sem óttast að ekki verði hugsað eins vel um þau og áður. Börn þurfa að fá fullvissu um að þau njóti ennþá umönnunar og öryggis eftir skilnað og því er mikilvægt að gefa þeim tíma og skapa aðstæður sem uppfylla þá þætti. Ýmsar rannsóknir gefa til kynna að skilnaðarbörn sýni frekar einkenni kvíða og þunglyndis og hafi lægra sjálfsálit miðað við önnur börn (Sigurður Pálsson, 1998). Sumar rannsóknir á skilnaðarbörnum sýna fram á marktækan mun á þunglyndi meðal stúlkna sem upplifað hafa skilnað foreldra miðað við stúlkur sem ekki hafa gengið í gegnum þá lífsreynslu. Ef þunglyndi mælist mikið hjá börnum virðist það halda áfram að fylgja þeim á fullorðinsárum, bæði hjá konum og körlum. Önnur rannsókn varðandi líðan skilnaðarbarna sýndi að þau eru ekki kvíðnari eða þunglyndari en önnur börn en þau greina frekar frá vanlíðunartilfinningum í kjölfar skilnaðar (Portnoy, 2008) Svefntruflanir skilnaðarbarna Sum börn sem upplifa skilnað foreldra sinna sem mikinn missi geta átt erfitt með svefn. Börnin geta átt erfitt með að sofna á kvöldin, til dæmis vegna umhugsunar um það sem gerst hefur, eða þau hrökkva upp á nóttunni og sum fá martraðir. Álitið er að þau börn sem ekki fá tækifæri á að ræða um missinn og sorgina sem fylgir skilnaði, og reyna að bægja hugsuninni frá um það sem gerst hefur, séu líklegri en önnur börn til að glíma við svefntruflanir. 14

15 7.3. Söknuður og depurð skilnaðarbarna Algengt er að börn finni fyrir söknuði þegar foreldrar skilja og í kjölfarið geta börn orðið döpur. Barnið saknar þess að eiga ekki eins margar samverustundir með því foreldri sem flytur í burtu við skilnað og það að eitthvað sem barnið gerði áður með foreldrinu minnkar eða hættir við skilnaðinn getur reynst barninu erfitt. Það getur einnig reynst skilnaðarbörnum afar erfitt að sjá önnur börn gleðjast með foreldrum sínum. Þörfin fyrir að sleppa taki á fortíðinni og þörfin fyrir að halda í það sem var, brýst um í brjósti skilnaðarbarna. Börn þurfa að ná að vinna sig í gegnum sorgarferlið með því að takast á við þessar erfiðu tilfinningar og sætta sig við þær. Mikilvægt er að leyfa börnum að syrgja skilnaðinn eins og þau sjálf hafa þörf fyrir. Sum börn finna missinum farveg og gráta þar sem þau fá útrás fyrir sársauka og vanlíðan en önnur börn verða innhverf, hlédræg og einangra sig. Enn önnur börn dylja sorg sína til að hlífa tilfinningum foreldra sinna og segjast vera að gráta af allt öðru tilefni. Mikilvægt er að gefa börnum tækifæri á að koma söknuðinum, sem þau glíma við, í orð og leyfa þeim að tjá sig Reiði skilnaðarbarna Reiði er sterk og áhrifarík tilfinning og börn sem upplifa ástvinamissi við skilnað finna oft fyrir slíkri tilfinningu. Reiðitilfinningu fylgir einnig oft hjálpar og vonleysistilfinning og getur reiði barna beinst í ýmsar áttir eins og að foreldrunum eða barninu sjálfu sem stundum finnst það bera ábyrgð á skilnaði foreldra sinna. Reiðiköst barna geta brotist út á ýmsan hátt meðal annars með öskrum, barsmíðum og andmælum sem beinast gegn þeim sem annast þau. Slík viðbrögð barna geta verið tilraun þeirra til að sækja í athygli eða vekja athygli á þörfum sínum. Drengir eiga oft erfiðara með að tjá tilfinningar sínar og virðist reiðin vera hefðbundið atferli hjá þeim þar sem þeir grípa oft til reiðinnar til að finna tilfinningum sínum farveg. Það hvernig börnum tekst að vinna úr missi og sorg fer eftir því hvort foreldrarnir hvetja þau til að takast á við erfiðar tilfinningar. Reiði er heilbrigð tilfinning og þurfa börn að læra að finna reiðinni farveg svo hún skaði hvorki þau sjálf né þá sem í kringum þau eru. Ræða þarf reiðina við börnin, komast að því hvað gerir börnin reið og finna uppbyggjandi leiðir til að finna henni farveg. Sumum börnum hentar að losa sig við reiði með líkamlegri áreynslu, eins og 15

16 ástundun íþrótta, en önnur kjósa jafnvel að teikna eða skrifa til að losa um reiðitilfinningar. Tilfinningar einstaklinga eru mismunandi og börn misvel í stakk búin til að koma lífi sínu í eðlilegan farveg eftir skilnað. Það að börn jafni sig eftir skilnað foreldra sinna getur tekið tíma og ekki er hægt að stytta sér leið að því marki (Sigurður Pálsson, 1998). Sumar rannsóknir hafa gefið til kynna að skilnaðarbörn séu reiðigjarnari en önnur börn (Benedikt Jóhannsson, 2004) Sektarkennd og sjálfsásakanir skilnaðarbarna Börn sem upplifa missi þegar foreldri flytur í burtu eftir skilnað geta fundið fyrir sektarkennd og ásakað sjálf sig um skilnaðinn. Það getur tengst erfiðum samskiptum við það foreldri sem flytur í burtu eða vegna þess sem aldrei var sagt eða gert áður en foreldrarnir skildu. Börn sem upplifa slíkar tilfinningar þurfa aðstoð við að tjá þær og vinna sig út úr þeim á raunsæjan hátt (Sigurður Pálsson, 1998). Mikilvægt er að skilnaðarbörn nái að sætta sig við skilnað foreldra og að þau kenni sjálfum sér ekki um hann (Portnoy, 2008) Erfiðleikar hjá skilnaðarbörnum í skóla Börn sem upplifa skilnað eru oft með hugann við missinn og minningar fortíðar geta valdið börnunum sársauka og söknuðar þar sem börnin kvíða framtíð án samvista við það foreldri sem flytur frá þeim. Börn sem áður voru virk og áhugasöm verða stundum áhugalaus og geta átt erfitt með athygli og einbeitingu en auk þess getur minni þeirra versnað. Slíkt getur valdið börnunum erfiðleikum í skólakerfinu þar sem þau geta átt í vandræðum með að lesa upphátt og svara spurningum á viðeigandi hátt. Sum börn sem venjulega eru félagslynd geta tekið upp á því að einangra sig vegna vanlíðunar eftir skilnað foreldra sinna Sállíkamleg einkenni skilnaðarbarna Sum börn sem upplifa skilnað og missi eiga það til að fá ýmis konar sállíkamleg einkenni eins og til dæmis höfuðverk, ógleði, magakveisu og vöðvaspennu. Slík einkenni eru oft eðlileg 16

17 viðbrögð við miklu tilfinningalegu álagi og geta verið leið barnsins til að kalla eftir athygli og hjálp. Ef börn njóta skilnings, umönnunar og umburðarlyndis hverfa þessi einkenni smám saman en ef einkennin virðast ætla að setjast að er ástæða til að leita aðstoðar fagaðila, bæði fyrir barnið og fjölskyldu þess (Sigurður Pálsson, 1998). Sumar rannsóknir sýna fram á að líkamleg og andleg heilsa skilnaðarbarna sé verri en annarra barna (Benedikt Jóhannsson, 2004). 8. Breytingar í lífi barna í kjölfar skilnaðar Breytingar í lífi barna eru óhjákvæmilegur fylgifiskur skilnaða og mikilvægt er að átta sig á þeim breytingum. Hér á eftir verður umfjöllun um þær fjórar helstu breytingar sem verða í lífi barna við skilnað foreldra Breytingar á hlutverkum barna í kjölfar skilnaðar foreldra Skilnaður getur haft mikil áhrif á eða breytt algerlega stöðu barnsins í fjölskyldu þess. Breytingar verða á hlutverkum innan fjölskyldunnar við skilnað þar sem staða barnsins breytist oft þegar fólk giftir sig aftur og barn eða unglingur sem er vant því að vera elst í fjölskyldunni sér hlutverk sitt hverfa þegar annað stjúpsystkini kemur í fjölskylduna. Litla barnið í fjölskyldunni getur skyndilega átt yngra stjúpsystkini sem það þarf að berjast við um athyglina en slíkar breytingar geta skapað spennu í stjúpfjölskyldum (Newman og Grauerholz, 2002; Sigrún Júlíusdóttir o.fl., 2008a). Ábyrgðar og fullorðinshlutverk of snemma, þar sem börn hegða sér á mun þroskaðri hátt miðað við aldur þeirra, getur haft áhrif á skilnaðarbörn. Ef krafist er of mikils sjálfstæðis af skilnaðarbörnum taka þessi börn oft á sig meiri ábyrgð, til dæmis sinna heimilisstörfum, gæta systkina og jafnvel ganga það langt að vera tilfinningalegur stuðningur mæðra sem haldnar eru kvíða og þunglyndi. Skilnaðarbörn sem ná ekki að standa undir óraunhæfum kröfum um ábyrgð geta þróað með sér hegðunarvanda (Berk, 2004; Sigrún Júlíusdóttir o.fl., 2008a). 17

18 8.2. Breytingar varðandi umgengni og forsjá barna í kjölfar skilnaðar foreldra Staða fráskilinna foreldra gagnvart börnunum breytist óhjákvæmilega þar sem foreldrið sem fer með fulla forsjá ber oftar en ekki meiri ábyrgð á umönnun barna og foreldrið sem er án forsjár missir ákveðið samband við barnið. Skilnaður foreldra getur leitt til lakara foreldrahlutverks hjá því foreldri sem er með fulla forsjá vegna mikils álags og tilfinningakreppu og þátttaka forsjárlauss foreldris í lífi barna minnkar. Sumir foreldrar halda jafnvel áfram að eiga í deilum við fyrrverandi maka og komast ekki að samkomulagi um mikilvæga þætti sem snúa að barninu eins og til dæmis meðlagsgreiðslur, umgengni eða forræði (Amato, 2000). Þeir feður sem forðast að greiða meðlagsgreiðslur með börnum sínum geta átt í hættu á að vera ekki í reglulegu sambandi við börn sín (Portnoy, 2008). Börn eru yfirleitt mun betur aðlöguð eftir skilnað ef þau hafa reglulega umgengni við föður sinn en það getur haft í för með sér jákvæðari sjálfsmynd, vellíðan, góða hegðun og betri námsárangur, einkum meðal drengja. Íslensk könnun frá árinu 1993 varðandi umgengni og forsjá barna leiddi í ljós að 35% forsjárforeldra voru ósátt við hvernig umgengninni var háttað. Þar kom í ljós að um 14% skilnaðarbarna hafa litla sem enga umgengni við það foreldri sem þau búa ekki hjá. Í könnun meðal íslenskra foreldra sem skildu á árunum 1994 til 1996 kom í ljós að um einn þriðji barnanna dvöldu tvisvar til fjórum sinnum í mánuði hjá því foreldri sem þau bjuggu ekki hjá (Sigrún Júlíusdóttir o.fl., 1995; Benedikt Jóhannsson, 2004). Sumir fráskildir foreldrar hafa prófað sig áfram með að börn dvelji að hluta til hjá því foreldri sem er án forsjár eða að þau búi jafnvel til skiptis hjá báðum foreldrunum. Á árunum 1994 til 1996 bjuggu um 9% íslenskra skilnaðarbarna til skiptis hjá báðum foreldrum en slíkt er hægt ef samkomulag foreldra er gott og ekki er verra ef stutt er á milli heimila þeirra. Þó að fyrirkomulag af þessu tagi geti verið heppilegt leggur flest fagfólk áherslu á að barnið eigi samastað hjá öðru foreldrinu. Það að börn séu sífellt að flytjast á milli heimila getur skapað öryggisleysi hjá börnunum. Samt sem áður eru börn yfirleitt ánægð með að fá að dvelja oftar en aðra hverja helgi hjá því foreldri sem barnið hefur ekki lögheimili hjá. Algengt er að börn séu til skiptis hjá foreldrum sínum, til dæmis í skólafríum, og getur það haft þau áhrif að börn finni sig heimkomin á heimilum beggja foreldra. Við slíkar aðstæður vaknar síður hjá þeim söknuður og áhyggjur af foreldrinu sem þau búa ekki hjá. Nokkru eftir skilnað er algengt að unglingar kjósi að búa alfarið hjá öðru foreldrinu og er það gjarnan foreldri af sama kyni 18

19 (Benedikt Jóhannsson, 2004). Ein rannsókn leiddi í ljós að skilnaðarbörn sem bjuggu að staðaldri hjá öðru foreldrinu greindu meira frá missi miðað við börn foreldra sem deildu sameiginlegu forræði og þar sem börn voru í góðum tengslum við báða foreldra (Portnoy, 2008). Með barnalögum frá árinu 1992 var möguleikinn á sameiginlegri forsjá leiddur í íslensk lög. Þar var heimilað að foreldrar kæmu sér saman um að fara sameiginlega með forsjá barna sinna eftir skilnað. Samkvæmt ákvæðum barnalaga nr. 76/2003 felur sameiginleg forsjá í sér ýmis réttindi fyrir börn og foreldra. Börn eiga til að mynda rétt á forsjá, eins eða beggja foreldra sinna, þangað til þau verða sjálfráða og þeir foreldrar sem fara með forsjá barna ráða persónulegum högum og ákveða búsetustað þeirra. Ef foreldrar deila sameiginlegri forsjá barna er öðru foreldrinu óheimilt að fara með börnin úr landi án samþykkis hins og ef annað foreldrið andast þá fer eftirlifandi foreldrið eitt með forsjána ásamt maka sínum. Foreldri sem fer eitt með forsjá er skylt að stuðla að því að börn njóti umgengni við hitt foreldrið nema hún sé andstæð hag og þörfum barnanna. Sameiginleg forsjá foreldra eftir skilnað hefur færst í aukana síðastliðin ár, bæði á Íslandi og í nágrannalöndunum, og voru Íslendingar síðastir allra Norðurlandaþjóða til að innleiða löggjöf um sameiginlega forsjá barna sem aðalreglu við skilnað en hún tók ekki gildi hérlendis fyrr en með breytingu á barnalögum árið Foreldrum sem skildu var í fyrsta sinn á Íslandi tryggður jafn réttur varðandi forsjá barna sinna. Sameiginleg forsjá felur í sér að barnið á lögheimili hjá öðru foreldrinu og er því aðeins um lagalegt forræði að ræða sem felur ekki í sér að börn skuli búa jafnt hjá báðum foreldrum. Feður sem hafa sameiginlegt forræði yfir börnum sínum eru yfirleitt ánægðari og eiga oftar í meiri og betri samskiptum við börn sín. Ýmislegt bendir til að börnunum líði betur og séu betur aðlöguð þegar forræðið er sameiginlegt (Sigrún Júlíusdóttir o.fl. 2008a; Sigrún Júlíusdóttir og Jóhanna Rósa Arnardóttir, 2008b). Íslensk rannsókn á sameiginlegri forsjá foreldra sýndi að hún er talin þjóna hagsmunum barna og standa vörð um velferð þeirra. Auk þess er sameiginleg forsjá talin vera sanngjörn fyrir báða foreldra þar sem börn hafa betri aðgang að foreldrum sínum. Fráskildir foreldrar sem voru vel upplýstir um stöðu sína og foreldraábyrgð voru strax tilbúnir til að velja sameiginlega forsjá barna sinna og kjör foreldra 19

20 sem fara sameiginlega með forsjá eru jafnari en foreldra sem fara einir með forsjá (Sigrún Júlíusdóttir og Nanna K. Sigurðardóttir, 2005). Ef foreldrar deila mikið eftir skilnað og fara sameiginlega með forræði barna getur það stuðlað að meira ójafnvægi hjá börnunum. Í sumum tilfellum er ekki ráðlagt að foreldrar hafi sameiginlegt forræði yfir börnum sínum því ef þeir eiga í hatrömmum deilum er sú hætta fyrir hendi að börn séu dregin inn í deilur foreldranna en það getur haft skaðleg áhrif á þau. Því virðist gott samkomulag milli foreldra skipta sköpum fyrir velferð barna og skiptir þá ekki öllu máli hvort foreldrar búa saman eður ei. Mikilvægt er að samskipti barna og foreldra eftir skilnað séu uppbyggjandi þar sem hornsteinn góðra samskipta er gagnkvæmt traust og góð samvinna. Svo virðist sem samvinna foreldra og gæði samskipta milli barna og foreldra skipti meira máli fyrir velferð barnanna en hið formlega fyrirkomulag um forsjá og umgengni (Benedikt Jóhannsson, 2004; Sigrún Júlíusdóttir o.fl., 2008a; Portnoy, 2008). Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands nutu 81,1% barna sameiginlegrar forsjár foreldra sinna árið 2008 (Hagstofa Íslands, e.d.b). Rannsókn varðandi sameiginlega forsjá á Íslandi leiddi í ljós að langflestir foreldrar vænta þess að bera jafna ábyrgð á uppeldi barna sinna eftir skilnað en hlutfallið var 82% hjá feðrum og 70% hjá mæðrum. Varðandi sameiginlega forsjá eftir skilnað hefur meirihluti foreldra, eða 58%, góða reynslu af henni en hlutfallið var 67% hjá feðrum og 50% hjá mæðrum (Benedikt Jóhannsson, 2004). Í rannsókn varðandi velferð og réttarstöðu íslenskra barna við skilnað kemur fram að um 90% barna eiga lögheimili hjá móður eftir skilnað en aðeins um 10% barna hjá föður. Varðandi daglegar samvistir foreldra og barna umgangast börnin móðurina meira eða í 83% tilfella en föðurinn meira í aðeins 10% tilfella. Í 36% tilvika dvelja börn hjá föður sínum aðra hverja helgi eða oftar og í 25% tilvika dvelja þau hjá föður aðra hverja helgi. Algengasta umgengnisform barna og feðra með sameiginlega forsjá er því að börnin séu í samvistum við þá aðra hverja helgi eða oftar eða í 61% tilvika. Einnig kom fram í rannsókninni að heilsufar og líðan fráskildra foreldra, sem fara sameiginlega með forsjá, virðist í flestum tilvikum vera gott. Þunglyndi var skoðað meðal fráskildra foreldra og sögðust 36% feðra án forsjár hafa fundið fyrir þunglyndi en aðeins 17% feðra sem voru með sameiginlega forsjá. Hins vegar sögðust 19% mæðra, sem fóru einar 20

21 með forsjá, finna fyrir þunglyndi en mæður með sameiginlega forsjá fundu fyrir þunglyndi í 17% tilvika (Sigrún Júlíusdóttir og Nanna K. Sigurðardóttir, 2000b) Breytingar sem hafa áhrif á börn varðandi efnahag, félagslegar aðstæður og umhverfi í kjölfar skilnaðar foreldra Efnahagur kvenna á það til að versna eftir skilnað og börn sem búa hjá einstæðu foreldri, sem yfirleitt er móðirin, búa oft við lakari lífskjör en önnur börn. Foreldrið sem flytur burt skilar ekki lengur tekjum inn á heimilið eftir skilnað þó svo að því beri vissulega skylda til að greiða meðlag með börnunum. Einstætt foreldri getur þurft að vinna meira utan heimilis með þeim afleiðingum að börnin eyða minni tíma með foreldrum sínum en áður og getur slíkt verið álag á fjölskylduna. Rannsóknir hafa sýnt að ef fjárhagur forsjárforeldris er góður eftir skilnað eiga börn að jafnaði betra með að aðlaga sig félagslega og frammistaða þeirra í skóla getur batnað. Börn sem búa hjá einstæðu foreldri eftir skilnað þar sem fjárhagsaðstæður á heimili eru slæmar geta þurft að flytja oft í nýtt húsnæði og neyðast jafnvel til að flytja í annað hverfi. Konur standa oftar í búferlaflutningum og flytja oftar í léleg hverfi eftir skilnað miðað við þá karla sem skilja. Börn geta jafnvel þurft að skipta um skóla en við slíka röskun á heimilislífi geta börnin átt í hættu á að missa tengsl og stuðning jafningja sinna og vina en slíkt getur truflað börn og valdið því að þau eiga erfiðara með að aðlaga sig að skilnaðinum. Þannig getur ýmis skortur á heimili skilnaðarbarna þýtt að lífsgæði þeirra skerðast og getur það haft áhrif á stöðugleika og daglegt líf þessara barna. Auk þess getur það haft áhrif á geðheilsu barnanna og í sumum tilfellum getur það aukið líkurnar á þunglyndi (Benedikt Jóhannsson, 2004; Berk, 2004; Portnoy, 2008; Sigrún Júlíusdóttir o.fl., 2008a). Í heildina litið ber rannsóknum á Íslandi saman um að skilnaðarbörn eigi undir högg að sækja í samanburði við börn sem búa hjá báðum foreldrum. Fjölskyldugerð virðist hafa áhrif á lífsgæði barna á Íslandi en um þriðjungur einstæðra foreldra lifir við lágtekjumörk og algengt er að börn í lágtekjufjölskyldum hafi áhyggjur af fjárhagsafkomu foreldra sinna (Sigrún Júlíusdóttir, 2009a). 21

22 8.4. Breytingar barna á samböndum og tengslum í kjölfar skilnaðar foreldra Niðurstöður íslenskrar rannsóknar varðandi fjölskyldutengsl skilnaðarungmenna sýndi að þau upplifa sig nánari móður sinni ef miðað er við svipað hlutfall barna sem ekki höfðu gengið í gegnum skilnað. En þessu var öðruvísi farið varðandi föðurinn því um 70% barna sem eiga gifta foreldra skýra frá slíkri nánd við föður á meðan minna en 30% skilnaðarbarna greina frá slíkri nánd við föður sinn. Auk þess kom fram í rannsókninni að um 65% skilnaðarbarna telja sig fá stuðning frá móður sinni á skilnaðartímabilinu og um 48% frá föður. Þátttakendur voru spurðir við hverja þeir töluðu þegar þeim leið illa og í ljós kom að um 75% skilnaðarbarna leita til móður sinnar en um 24% til föður en áhugavert var að um 78% þátttakenda í rannsókninni leita til vina en ekki nema um 30% til systkina (Sigrún Júlíusdóttir o.fl., 2008a). Hátt hlutfall feðra sem búa fjarri börnum sínum eftir skilnað taka ekki þátt í lífi barna sinna en ástæður þess geta verið áframhaldandi ágreiningur milli foreldra eða ósamkomulag varðandi forræði barna. Slíkur ágreiningur meðal fráskildra getur valdið lágmarksþátttöku feðra í lífi barna sinna og gera foreldrar sér oft ekki grein fyrir því að það bitni á börnunum. Sumir unglingar sem koma frá skilnaðarheimilum upplifa það að feður sýni þeim minni umhyggju og sumir unglingar ganga það langt að efast um það hvort feður sínir elski þá í raun og veru (Portnoy, 2008). 9. Íslensk rannsókn um reynslu og sýn skilnaðarungmenna Rannsókn um reynslu og sýn skilnaðarungmenna á þriðja ári í framhaldsskóla á Íslandi gefur áhugaverðar niðurstöður þar sem aðstæður skilnaðarungmenna voru aðgreindar frá aðstæðum þeirra sem ekki hafa gengið í gegnum skilnað foreldra. Niðurstöður rannsóknarinnar eru mjög áhugaverðar. Um 24% nemenda svöruðu því að foreldrar sínir hefðu skilið eða slitið sambúð. Um 74% svarenda höfðu upplifað skilnað foreldra fyrir 11 ára aldur en aðeins um þriðjungur á forskólaaldri. Varðandi forsjárskipan voru um 53% svarenda sem sögðu að foreldrar hefðu tekið ákvörðun um sameiginlega forsjá en um 10% foreldra deildu um forsjárfyrirkomulagið. 22

23 Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að því sé ábótavant að vel sé til þess vandað hvernig börnum er sagt frá skilnaði foreldra sinna en skortur á undirbúningi skilnaðarins getur valdið börnunum kvíða. Börn eru næm fyrir aðdraganda skilnaðar þar sem þau finna oft fyrir spennu á heimilinu eða verða jafnvel vitni að átökum á milli foreldra sem undirbúa skilnað. Slíkt getur valdið börnum óvissu um hvað sé á ferðinni sem veldur þeim bæði óöryggi og kvíða sérstaklega ef þau fá engar útskýringar. Þegar börn voru spurð að því hvort þeim hafi fundist skilnaðurinn hafa verið einhverjum að kenna svöruðu um 87% að skilnaðurinn hafi verið föðurnum að kenna en aðeins um 3% að hann væri móðurinni að kenna (Sigrún Júlíusdóttir o.fl., 2008a). Til eru rannsóknir sem styðja við áðurnefnda niðurstöðu um að skilnaðarbörn eigi það sameiginlegt að þau kenna feðrum sínum oftast um skilnaðinn (Portnoy, 2008). Varðandi stuðning við skilnaðinn svöruðu um 65% barnanna að þau hefðu fengið stuðning frá móður og jafnframt kom fram að móðuramma veitir mjög góðan stuðning. Móðirin virðist hafa mikið vægi í lífi barna og kemur móðurleggur sterkar inn hvað varðar stuðning og hjálp í vanlíðan. Algengara er að börn missi tengslin og minnki samskipti við föðurfjölskyldu sína við skilnað. Í rannsókninni kom fram að skilnaðarbörn hafa meiri áhyggjur af móður en föður og mestar áhyggjur hafa þau af líðan þeirra og líkamlegu ástandi. Auk þess hefur hátt hlutfall barnanna áhyggjur af fjárhagsstöðu móður við skilnað og framtíðarmöguleikum hennar. Rannsókn þessi styður margar aðrar rannsóknir um að skilnaður sé töluverð röskun sem veldur því að börn þurfa að aðlagast breyttum aðstæðum. Svo dæmi séu tekin þurfa börn oft að flytja á nýtt heimili, skipta um skóla og eignast nýja vini. Aðeins um 20% ungmenna búa í göngufæri við það foreldri sem þau eiga ekki lögheimili hjá, um 45% búa í tíu til þrjátíu mínútna akstursfjarlægð og um einn þriðji býr í mikilli fjarlægð frá foreldrinu. Rannsóknin sýndi einnig að mörg barnanna þurftu að aðlagast nýju fjölskyldumynstri og um 70% svarenda sögðu frá því að mæður þeirra hefðu hafið nýja sambúð eftir skilnaðinn en í 77% tilvika voru það feður. Um 38% mæðra höfðu eignast barn með nýjum maka og um 45% feðra. Miklar breytingar á fjölskyldumynstri þar sem stjúptengsl og flókin samskipti koma til sögunnar getur reynt á börn. Börn þurfa að kynnast stjúpfjölskyldu sinni og ábyrgðarstaða barnanna getur breyst í fjölskyldunni. Svo virðist sem skilnaðarbörn óski 23

24 fremur eftir fleiri samverustundum, meiri nánd og virkari þátttöku nánustu fjölskyldu í lífi sínu miðað við önnur börn. Yfir þriðjungur svarenda í rannsókninni voru sorgmæddir, reiðir, daprir, einbeitingarlausir og fundu til vonbrigða. Skilnaðarungmennin virtust í meiri mæli hafa fundið fyrir þessum tilfinningum miðað við þau börn sem ekki höfðu upplifað skilnað foreldra. Einnig kom fram í rannsókninni að heilsa skilnaðarbarna reynist oft vera verri sem ef til vill tengist þeim miklu breytingum og því álagi sem börn upplifa í tengslum við skilnaðinn (Sigrún Júlíusdóttir o.fl., 2008a). 10. Rannsókn um aðlögun barna eftir skilnað Rannsókn varðandi aðlögun barna eftir skilnað sýndi að börn eru misjafnlega í stakk búinn til að takast á við skilnað. Rannsóknin greindi ákveðin aðlögunarmynstur barna og voru þau flokkuð í mismunandi flokka eftir því hvort þau höfðu getu til að aðlagast vel skilnaði foreldra sinna eða ekki. Hér fyrir neðan verður fjallað um fjóra þessara flokka barna Hæf og tækifærissinnuð skilnaðarbörn Börn í þessum hópi náðu að aðlagast skilnaði foreldra sinna vel. Þeim kom vel saman við aðra, voru þroskuð, sýndu sjálfsstjórn, áttu við fá hegðunarvandamál að stríða en áttu til að vera stjórnsöm. Börnin leituðu til einstaklinga sem þeim fannst gagnast sér og áttu það til að skipta um vini eftir hentisemi. Þegar þessi börn uxu úr grasi urðu þau farsæl í starfi sínu. Þessi hópur barna samanstóð af meirihluta karlkyns þátttakenda Hæf og umhyggjusöm skilnaðarbörn Börn í þessum hópi náðu einnig að aðlagast skilnaði foreldra sinna vel. Þau höfðu tekið að sér ábyrgðar og umönnunarskyldur ung að aldri. Þau voru með sömu jákvæðu einkennin og hæfu og tækifærissinnuðu skilnaðarbörnin og náðu því að aðlagast skilnaði. Í ljós kom að þessi börn voru ekki stjórnsöm. Börnin höfðu tilhneigingu til að sækjast eftir að hjálpa öðru 24

25 fólki og völdu sér oft starfsgrein sem fólst í að hjálpa öðrum þegar þau urðu fullorðin. Þessi hópur barna samanstóð af meirihluta kvenkyns þátttakenda Meðalhæf skilnaðarbörn Börn í þessum hópi aðlöguðust skilnaðinum sæmilega en þau byrjuðu mjög ung að hugsa um ósjálfstæða foreldra sína. Sambandið milli barnanna og foreldra var svolítið öfgakennt og vanhæfni barnanna til að leysa vandamál foreldranna og óvissa um eigin færni, jafnvel fyrir skilnaðinn, gerðu börnin kvíðin. Börnin áttu það til að setja sér of há markmið og fundu oft fyrir því að þau hefðu ekki náð markmiðum sínum. Þegar börnin urðu fullorðin nutu þau farsældar félagslega, í námi og starfi. En börnin tókust á við vægt, langvinnt þunglyndi og lélega sjálfsmynd. Hópurinn sem hér um ræðir samanstóð aðallega af kvenkyns þátttakendum Árásargjörn og óörugg skilnaðarbörn Börn sem tilheyrðu þessum hópi náðu ekki að aðlagast skilnaði foreldra sinna með góðum hætti. Algengt var að þessi börn kæmu úr fjölskyldum þar sem ágreiningur var á milli foreldra en þessi börn upplifðu stundum höfnun og jafnvel vanrækslu. Þessi börn áttu það oft sameiginlegt að hafa fundið fyrir reiði og streitu og áttu stundum við hegðunarerfiðleika að stríða. Þau áttu í hættu á unglingsárunum að leiðast út í áfengisneyslu og afbrot. Börn sem tilheyrðu þessum hópi voru með hæstu tíðni ótímabærra þungana og sjálfsmorðstíðni. Þessi hópur skiptist í tvo undirhópa, annað hvort börn sem sýndu andfélagslega hegðun eða börn sem voru bæði þunglynd og kvíðin (Portnoy, 2008). 11. Áhættuþættir skilnaðarbarna Skilnaður breytir lífi barna og fjölskyldna og hefur mismunandi mikil áhrif á börn en þættir sem geta haft slæm áhrif á velferð barna við skilnað verða hér nefndir áhættuþættir. 25

26 11.1. Vanhæfni foreldra og önnur vandamál milli foreldra skilnaðarbarna Ágreiningur á milli foreldra getur haft neikvæð áhrif á skilnaðarbörn sem upplifa oft mikla vanlíðan í kjölfarið en sumar rannsóknir sýna að um 20% til 25% fráskilinna halda áfram að eiga í ágreiningi eftir skilnað. Börn eiga ekki að þurfa að dragast inn í deilur foreldra eða hlusta á þá tala illa um hvort um annað. Stundum lenda börn í því að foreldri sem er ósátt við fyrrverandi maka baktalar hann og hvetur barnið jafnvel til að binda endi á öll samskipti við þann aðila. Foreldrar sem skilja virðast með óæskilegri hegðun sinni ekki hafa hagsmuni barnanna í fyrirrúmi heldur hugsa aðeins um eigin þarfir sem kemur niður á börnunum (Portnoy, 2008). Sumar rannsóknir benda til þess að vandamál skilnaðarbarna séu afleiðingar af ósætti foreldra sem voru í óhamingjusömu hjónabandi (Amato, 2000). Ýmsar rannsóknir á skilnuðum sýna að foreldrar sem veita börnum sínum ófullnægjandi leiðsögn og eru fjarlægir þeim svipta þau oft hlýju og stuðningi sem þau þarfnast. Einnig getur of mikil eða lítil leiðsögn foreldra skilnaðarbarna leitt til þess að börn eiga erfiðara með sjálfsstjórnun og tengslamyndun sem er nauðsynleg fyrir þroska barnanna (Benedikt Jóhannsson, 2004; Portnoy, 2008). Rannsókn frá árinu 1998 á íslenskum unglingum í 9. og 10. bekk sýndi greinileg tengsl milli rifrildis og ofbeldis hjá foreldrum og depurðar og reiði hjá unglingum. Unglingar sem komu úr skilnaðarfjölskyldum áttu frekar við vandamál að stríða og voru reiðir vegna erfiðra heimilisaðstæðna og voru líklegri til að fremja afbrot. Jafnframt virtust stúlkur vera viðkvæmari fyrir árekstrum milli foreldra og vera háðari stuðningi foreldra ef miðað er við drengi í sömu aðstæðum. Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna og til eru rannsóknir sem sýna að foreldrar sem eiga í erfiðleikum í einkalífi sínu og ná ekki að leysa sín deilumál eiga einnig erfitt með að kenna börnum sínum að leysa deilur á skynsaman hátt. Ef foreldrar rífast mikið áður en þau skilja getur það haft áhrif á frammistöðu barna í námi, hegðun þeirra og líðan í skóla. Hegðun barna sem líður illa getur versnað og á það sérstaklega við ef börn eru dregin inn í deilur foreldranna. Íslensk rannsókn gaf niðurstöður um að foreldrar sem eru að skilja deila í um 20% tilvika um eignaskipti en í um 26% tilvika um forsjá barna. Rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum sýndi að um helmingur foreldra eiga erfitt með friðsamleg samskipti eftir 26

Félags- og mannvísindadeild

Félags- og mannvísindadeild Félags- og mannvísindadeild BA-ritgerð félagsfræði Tengsl feðra við börn sín sem eiga fasta búsetu hjá móður Fjóla Bjarnadóttir Júní 2009 Leiðbeinandi: Þorgerður Einarsdóttir Nemandi: Fjóla Bjarnadóttir

More information

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni Aðferð til að Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni hvað er það?? Málsýni þýðing á enska orðinu language sample Dæmi um málsýni Notað í rannsóknum um máltöku

More information

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Rannsóknarspurningin Treystir fólk sínum viðskiptabanka betur en öðrum og gæti það verið

More information

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir 1 Hvað er stjórnun viðskiptatengsla (CRM)? Stjórnun viðskiptatengsla er hugmyndafræði Stjórnun viðskiptatengsla er stefna Stjórnun viðskiptatengsla

More information

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.)

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) www.landspitali.is Nafn Læknir Hjúkrunarfræðingur Símanúmer Ræddu eftirfarandi

More information

Félagsráðgjafardeild

Félagsráðgjafardeild Félagsráðgjafardeild BA-ritgerð Áhrif fjölskyldugerðar á lífsgæði og öryggi barna Guðbjörg María Árnadóttir Júní 2010 Félagsráðgjafardeild BA-ritgerð Áhrif fjölskyldugerðar á lífsgæði og öryggi barna Guðbjörg

More information

Að heiman. Aðskilnaður og heimþrá. Ágrip. Aðskilnaður frá foreldrum til styttri eða lengri tíma getur haft ýmsar afleiðingar í för með sér.

Að heiman. Aðskilnaður og heimþrá. Ágrip. Aðskilnaður frá foreldrum til styttri eða lengri tíma getur haft ýmsar afleiðingar í för með sér. Að heiman Aðskilnaður og heimþrá Guðrún Helga Ástríðardóttir, ghe8@hi.is Nemi í uppeldis og menntunarfræði Sveinbjörg Zophoníasdóttir, svz2@hi.is Nemi í uppeldis og menntunarfræði Ágrip Aðskilnaður frá

More information

MA ritgerð. Þetta er stórt púsluspil

MA ritgerð. Þetta er stórt púsluspil MA ritgerð Félagsráðgjöf til starfsréttinda Þetta er stórt púsluspil Búseta barna í stjúpfjölskyldum Diljá Kristjánsdóttir Leiðbeinandi Sigrún Harðardóttir Nóvember 2015 Háskóli Íslands Félagsvísindasvið

More information

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver 14 1 Excel Solver Excel Solver er viðbót (e. add-in) við Excel sem hjálpar til að finna bestu lausn á viðfangsefnum eins og þegar um er að ræða takmarkaðar

More information

Að efla félagshæfni leikskólabarna

Að efla félagshæfni leikskólabarna Að efla félagshæfni leikskólabarna Heiða María Angantýsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs Kennaradeild Að efla félagshæfni leikskólabarna Heiða María Angantýsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í leikskólakennarafræði

More information

MA ritgerð. Ég fór þetta bara á hnefanum

MA ritgerð. Ég fór þetta bara á hnefanum MA ritgerð Félagsráðgjöf til starfsréttinda Ég fór þetta bara á hnefanum Reynsla og upplifun barna af því að eiga foreldri í fangelsi Svava Davíðsdóttir Leiðbeinandi: Steinunn Hrafnsdóttir Aðstoðarleiðbeinandi:

More information

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu?

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? 8 janúar 2015 Áður en kaupferlið hefst Í kaupferlinu Eftir að kaupferlinu lýkur Í kaupferlinu Áður en kaupferlið hefst Vörulýsing og myndir Neytendur

More information

Hegðun foreldra sem áhrifaþáttur þess að unglingar á Íslandi leggja í einelti

Hegðun foreldra sem áhrifaþáttur þess að unglingar á Íslandi leggja í einelti Running head: HEGÐUN FORELDRA TENGT EINELTI UNGLINGA 1 Hegðun foreldra sem áhrifaþáttur þess að unglingar á Íslandi leggja í einelti Sandra Melberg Pálsdóttir 2013 BSc í Sálfræði Höfundur: Sandra Melberg

More information

BA ritgerð. Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna

BA ritgerð. Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna BA ritgerð Félagsráðgjöf Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna Úrræði Hekla Dögg Ásmundsdóttir Gyða Hjartardóttir Maí 2017 Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna Úrræði

More information

Sorg og sorgarúrvinnsla barna

Sorg og sorgarúrvinnsla barna Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild 2013 Sorg og sorgarúrvinnsla barna Hvernig er hægt að koma til aðstoðar? Benný Rós Björnsdóttir Lokaverkefni Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindasvið

More information

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Samtök iðnaðarins - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Framkvæmdarlýsing - félagsmannakönnun Unnið fyrir Markmið Samtök iðnaðarins Að kanna viðhorf félagsmanna SI til Evrópumála og þróun þar á Framkvæmdatími

More information

Tónlist og einstaklingar

Tónlist og einstaklingar Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar Kristinn Arnar Benjamínsson Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar

More information

Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna: Niðurstöður kannana í framhaldsskólum frá 2000 til 2016

Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna: Niðurstöður kannana í framhaldsskólum frá 2000 til 2016 Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna: Niðurstöður kannana í framhaldsskólum frá 2000 til 2016 September 2018 Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna:

More information

Áfallaáætlun fyrir leikskólann Dal

Áfallaáætlun fyrir leikskólann Dal Áfallaáætlun fyrir leikskólann Dal Hanna María Ásgrímsdóttir Lokaverkefni lagt fram til fullnaðar B.Ed. gráðu í Leikskólakennarfræði við Háskóla Íslands, Menntavísindasvið Apríl 2009 Lokaverkefni til B.Ed.

More information

Sálrænir áhættuþættir fyrir þunglyndi og kvíða á meðgöngu

Sálrænir áhættuþættir fyrir þunglyndi og kvíða á meðgöngu Sálrænir áhættuþættir fyrir þunglyndi og kvíða á meðgöngu Bryndís Sveinsdóttir Lokaverkefni til Cand.Psych.-gráðu Sálfræðideild Heilbrigðisvísindasvið Sálrænir áhættuþættir fyrir þunglyndi og kvíða á meðgöngu

More information

BA ritgerð. Þunglyndi barna

BA ritgerð. Þunglyndi barna BA ritgerð Félagsráðgjöf Þunglyndi barna Hefur þunglyndi foreldra áhrif á börn þeirra og ef svo er, á hvaða hátt? Guðlaug Birna Steinarsdóttir Leiðbeinandi: Gyða Hjartardóttir Júní 2017 Þunglyndi barna

More information

Áhrif stjórnrótar á smit þunglyndis hjá hjónum

Áhrif stjórnrótar á smit þunglyndis hjá hjónum Hug- og félagsvísindadeild Sálfræði 2009 Áhrif stjórnrótar á smit þunglyndis hjá hjónum Margrét Eiríksdóttir Ranveig S. Tausen Lokaverkefni í Hug- og félagsvísindadeild Hug- og félagsvísindadeild Sálfræði

More information

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness Hagir og líðan barna í Grunnskóla s Niðurstöður rannsókna meðal nemenda í., 6. og 7. bekk á i árið 27 Birna Baldursdóttir Margrét Lilja Guðmundsdóttir Álfgeir Logi Kristjánsson Inga Dóra Sigfúsdóttir Jón

More information

MA ritgerð. Ungar ekkjur, áfallaviðbrögð í kjölfar andláts maka og úrvinnsla

MA ritgerð. Ungar ekkjur, áfallaviðbrögð í kjölfar andláts maka og úrvinnsla MA ritgerð Félagsráðgjöf til starfsréttinda Ungar ekkjur, áfallaviðbrögð í kjölfar andláts maka og úrvinnsla Matthildur Jóhannsdóttir Hrefna Ólafsdóttir Félagsvísindasvið Ungar ekkjur, áfallaviðbrögð

More information

,,Með því að ræða, erum við að vernda

,,Með því að ræða, erum við að vernda ,,Með því að ræða, erum við að vernda Áfengisneysla unglinga og opin umræða á heimilum Helga Karólína Karlsdóttir Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild ,,Með því að ræða, erum við

More information

Ungt fólk Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna

Ungt fólk Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna Ungt fólk 2004 Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna Rannsóknir meðal nemenda í framhaldsskólum á Íslandi 2004 og 2000 Álfgeir Logi Kristjánsson Silja Björk Baldursdóttir

More information

Fjölskyldulíf, áfengisneysla og kynhegðun íslenskra unglinga Niðurstöður landskönnunar í 10. bekk

Fjölskyldulíf, áfengisneysla og kynhegðun íslenskra unglinga Niðurstöður landskönnunar í 10. bekk Fjölskyldulíf, áfengisneysla og kynhegðun íslenskra unglinga Niðurstöður landskönnunar í 10. bekk HILDUR HJARTARDÓTTIR RUT GUÐNADÓTTIR LOKAVERKEFNI TIL BS PRÓFS Í HJÚKRUNARFRÆÐI (12 EININGAR) LEIÐBEINANDI:

More information

1 Inngangur. Þetta kort sýnir hvernig uppbygging ritgerðarinnar er: Vellíðan. Hvað getur skólinn gert? Íslandi. Inngangur Sjálfsmynd

1 Inngangur. Þetta kort sýnir hvernig uppbygging ritgerðarinnar er: Vellíðan. Hvað getur skólinn gert? Íslandi. Inngangur Sjálfsmynd Útdráttur Einu barni af hverjum átta í grunnskóla líður ekki vel. Þegar tekið er tillit til lakari námsárangurs, aukinnar truflunar í tímum og jafnvel enn alvarlegri afleiðinga eins og þunglyndi og sjálfsvíga,

More information

Raddir skilnaðarbarna: Um jafna búsetu hjá foreldrum eftir skilnað

Raddir skilnaðarbarna: Um jafna búsetu hjá foreldrum eftir skilnað Tímarit um uppeldi og menntun / Icelandic Journal of Education 25(1), 2016, 3 23 SIGRÚN JÚLÍUSDÓTTIR FÉLAGSRÁÐGJAFARDEILD HÁSKÓLA ÍSLANDS SÓLVEIG SIGURÐARDÓTTIR VELFERÐAR- OG MANNRÉTTINDASVIÐI AKRANESKAUPSTAÐAR

More information

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum:

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild-menntavísindabraut Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Endurskoðun á forvörnum og eineltisstefnum í framhaldsskóla Eva Dröfn Möller Akureyri Júní, 2013 Háskólinn

More information

Hvar á ég heima; hver hlustar á mig?

Hvar á ég heima; hver hlustar á mig? Hvar á ég heima; hver hlustar á mig? Ragnheiður Björg Guðmundsdóttir 180671-3589 Lokaverkefni til MA gráðu í fjölskyldumeðferð Umsjónarkennari: Sigrún Júlíusdóttir Félagsráðgjafardeild Félagsvísindasvið

More information

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Háskóli Íslands 3.4.2006 Viðskipta- og hagfræðideild Vinnusálfræði Vor 2006 Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Tryggvi R. Jónsson Kennari: Hafsteinn Bragason og Ægir Már Þórisson Fjarvinna 2 Val starfa

More information

Áhrif aldurs á skammtímaminni

Áhrif aldurs á skammtímaminni Háskóli Íslands 7.5.2000 Félagsvísindadeild Þroski og lífstíðarþróun (10.02.02) Áhrif aldurs á skammtímaminni Tryggvi R. Jónsson (191177-3989) Ólafur Magnússon Kennari: Sigurður J. Grétarsson Rannsókn

More information

Félagsráðgjafardeild

Félagsráðgjafardeild Félagsráðgjafardeild BA-ritgerð Að alast upp við alkóhólisma Áhrif á börn og uppkomin börn alkóhólista Gerður Sif Stefánsdóttir Október 2009 Leiðbeinandi: Halldór S. Guðmundsson Aðstoðarleiðbeinandi: Erla

More information

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei 1 2 3 3_1 4 5 6 6_1 7 pige ísl nei hlutlaus vel mikið læri mikið á dönsku tímum og ef ég ætla í nám til dk þá er betra að kunna dönsku veit ekki pige ísl nei hlutlaus vel mikið eg læri nytt tungumal veit

More information

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn?

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut 29 Lesum saman Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Guðríður Anna Sveinsdóttir Lokaverkefni Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild

More information

Gerendur eineltis Orsakir og afleiðingar

Gerendur eineltis Orsakir og afleiðingar Gerendur eineltis Orsakir og afleiðingar HELGA MARÍA GUÐMUNDSDÓTTIR VALGERÐUR BÁRA BÁRÐARDÓTTIR LOKAVERKEFNI TIL BS PRÓFS Í HJÚKRUNARFRÆÐI (12 EININGAR) LEIÐBEINENDUR: DR. BRYNJA ÖRLYGSDÓTTIR, LEKTOR DR.

More information

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept Gagnasafnsfræði Páll Melsted 16. sept Endurtekin gildi Ef við viljum losna við endurtekin gildi er hægt að nota DISTINCT SELECT DISTINCT name FROM MovieExec, Movie, StarsIn WHERE cert = producerc AND title

More information

Kristín Rún Friðriksdóttir, Ragnheiður Halldórsdóttir, Eydís K. Sveinbjarnardóttir og Páll Biering

Kristín Rún Friðriksdóttir, Ragnheiður Halldórsdóttir, Eydís K. Sveinbjarnardóttir og Páll Biering Kristín Rún Friðriksdóttir, Ragnheiður Halldórsdóttir, Eydís K. Sveinbjarnardóttir og Páll Biering Börn sem eiga foreldra með geðsjúkdóma Kristín Rún Friðriksdóttir er hjúkrunarfræðingur, BS, á Vogi. Ragnheiður

More information

BA ritgerð. Áhrif ADHD á nám barna og unglinga

BA ritgerð. Áhrif ADHD á nám barna og unglinga BA ritgerð Félagsráðgjöf Áhrif ADHD á nám barna og unglinga Guðný Helena Guðmundsdóttir Leiðbeinandi Sigrún Harðardóttir Júní 2016 Áhrif ADHD á nám barna og unglinga Guðný Helena Guðmundsdóttir 040577-4759

More information

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban 8. febrúar 2013 Eiríkur Gestsson Um mig Eiríkur Gestsson Tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík 2004 Hugur hf. og HugurAx frá 2004 til

More information

Börnum straffað með hendi og vendi. Barnaverndartilkynningar er varða líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum

Börnum straffað með hendi og vendi. Barnaverndartilkynningar er varða líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum Börnum straffað með hendi og vendi Barnaverndartilkynningar er varða líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum Steinunn Bergmann 2010 1 Formáli Rannsókn þessi á tilkynningum til barnaverndarnefnda er varða grun

More information

Afleiðingar ofbeldis á börn og einkenni ADHD

Afleiðingar ofbeldis á börn og einkenni ADHD Afleiðingar ofbeldis á börn og einkenni ADHD Gunnar Gíslason Lokaverkefni til BA gráðu í félagsráðgjöf Félagsvísindasvið Afleiðingar ofbeldis á börn og einkenni ADHD Gunnar Gíslason Lokaverkefni til BA

More information

Máltaka barna. Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir

Máltaka barna. Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir Máltaka barna Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari: Sigurður Konráðsson Kennaradeild Menntavísindasvið Háskóla

More information

Áfallaáætlanir í Fjarðabyggð

Áfallaáætlanir í Fjarðabyggð Áfallaáætlanir í Fjarðabyggð Stuðningur við grunnskólanemendur Sigríður Ósk Atladóttir Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Áfallaáætlanir í Fjarðabyggð Stuðningur við grunnskólanemendur Sigríður

More information

Að bera kennsl á kynferðisofbeldi hjá börnum á leikskólaaldri Hvernig taka leikskólastjórar á málefninu í starfi?

Að bera kennsl á kynferðisofbeldi hjá börnum á leikskólaaldri Hvernig taka leikskólastjórar á málefninu í starfi? Að bera kennsl á kynferðisofbeldi hjá börnum á leikskólaaldri Hvernig taka leikskólastjórar á málefninu í starfi? Vigdís Guðmundsdóttir Lokaverkefni til M.Ed.-gráðu Háskóli Íslands Menntavísindasvið Að

More information

Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi

Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2015 Yfirlit greina Guðrún V. Stefánsdóttir Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu

More information

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR)

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) Aldur nemenda: 10 ára og upp úr Viðfangsefni: ofbeldi, einelti, samskipti Færnimarkmið: Hugtakaleikir ná að þjálfa flesta færniþætti samræðunnar Viðhorfamarkmið: Hugtakaleikir ná

More information

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Umfjöllun 1. Stutt lýsing á Mati á stuðningsþörf: SIS 2. Einstaklingsbundnar

More information

Algengi kynferðislegrar áreitni og ofbeldis gegn íslenskum unglingum

Algengi kynferðislegrar áreitni og ofbeldis gegn íslenskum unglingum http://dx.doi.org/10.17992/lbl.2016.06.87 RANNSÓKN Algengi kynferðislegrar áreitni og ofbeldis gegn íslenskum unglingum Ársæll Már Arnarsson 1 faraldsfræðingur, Kristín Heba Gísladóttir 1 sérfræðingur

More information

Tímarit félagsráðgjafa, 3. árgangur 2008, bls Börn og fátækt

Tímarit félagsráðgjafa, 3. árgangur 2008, bls Börn og fátækt , bls. 17 25 17 Börn og fátækt Guðný Björk Eydal dósent í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og Cynthia Lisa Jeans félagsráðgjafi (MA) Doktorsnemi við Bath University í Englandi. Á undanförnum árum hafa

More information

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín Kennaraháskóli Íslands Kennsluréttindabraut Kennslufræði greinasviða og æfingakennsla Kennari: Elín María Thayer Ég sem kennari: Starfskenning mín Guðlaug Erlendsdóttir Nóvember 2007 Efnisyfirlit EFNISYFIRLIT...

More information

Börn alkóhólista og seigla þeirra á fullorðinsárum

Börn alkóhólista og seigla þeirra á fullorðinsárum Börn alkóhólista og seigla þeirra á fullorðinsárum Hverjir eru verndandi þættir í umhverfi þeirra? Daníel Trausti Róbertsson Lokaverkefni til BA prófs í Uppeldis- og menntunarfræði Leiðsögukennari: Sigurlína

More information

Hvað er barni fyrir bestu. Úttekt á samstarfi Leikskóla Reykjavíkur og Barnaverndar Reykjavíkur

Hvað er barni fyrir bestu. Úttekt á samstarfi Leikskóla Reykjavíkur og Barnaverndar Reykjavíkur , 23 31 23 Hvað er barni fyrir bestu. Úttekt á samstarfi Leikskóla Reykjavíkur og Barnaverndar Reykjavíkur Anna María Jónsdóttir, Félagsráðgjafi Í eftirfarandi grein eru dregnar saman fræðilegar heimildir

More information

Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi

Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi Maduvanthi Kumari Abeyrathne Lokaverkefni til B.Ed. prófs í Leikskólakennarafræði Leiðsögukennari: Hildur Blöndal Sveinsdóttir

More information

BA ritgerð. Gleym Mér Ei

BA ritgerð. Gleym Mér Ei BA ritgerð Félagsráðgjöf Gleym Mér Ei Alzheimers-sjúkdómur og áhrif hans á aðstandendur. Þjónusta og úrræði. Kristín Sunna Tryggvadóttir Leiðbeinandi: Steinunn Hrafnsdóttir Febrúar 2017 1 Gleym Mér Ei

More information

Að flytja úr foreldrahúsum

Að flytja úr foreldrahúsum Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Sérrit 2015 Hlutverk og menntun þroskaþjálfa Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2015 Yfirlit greina Sigrún Þ. Broddadóttir og Guðrún

More information

Er fylgni á milli erfiðleika í lestri og stærðfræði?

Er fylgni á milli erfiðleika í lestri og stærðfræði? Er fylgni á milli erfiðleika í lestri og stærðfræði? Niðurstöður samræmdra prófa hjá einum árgangi í 4., 7. og 10. bekk Sigríður Helga Ármannsdóttir Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Er fylgni

More information

Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir

Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir Ásthildur Embla Friðgeirsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði Júní 2015 Eru börn gerendur eða bjargarlausar

More information

Tilvist og uppbygging áfallaáætlana í grunnskóla

Tilvist og uppbygging áfallaáætlana í grunnskóla Ráðstefnurit Netlu Menntakvika 2010 Menntavísindasvið Háskóla Íslands Grein birt 31. desember 2010 Gunnar E. Finnbogason og Hildur Björg Gunnarsdóttir Tilvist og uppbygging áfallaáætlana í grunnskóla Í

More information

Tengsl líkamsmyndar við kynhegðun unglinga

Tengsl líkamsmyndar við kynhegðun unglinga Hug- og félagsvísindasvið Sálfræði 2014 Tengsl líkamsmyndar við kynhegðun unglinga Andrea Elsa Ágústsdóttir Lokaverkefni við Hug- og félagsvísindasvið Hug- og félagsvísindasvið Sálfræði 2014 Tengsl líkamsmyndar

More information

Tengsl ófrjósemi og tilfinninga

Tengsl ófrjósemi og tilfinninga Tengsl ófrjósemi og tilfinninga Áhrif ófrjósemi á einstaklinga Elín Heiða Ólafsdóttir Íris Stella Sverrisdóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni til BA gráðu í sálfræði Hug- og félagsvísindadeild

More information

Þunglyndi og depurð. Leiðbeiningabæklingur

Þunglyndi og depurð. Leiðbeiningabæklingur Þunglyndi og depurð Leiðbeiningabæklingur Dæmi um hugsanir tveggja þunglyndra einstaklinga Mér líður eins og ég sé alein og yfirgefin, ég hitti vini mína aldrei núorðið, ætli þeir hafi ekki gefist upp

More information

MA ritgerð. Svefn og sálfélagslegir erfiðleikar leikskólabarna

MA ritgerð. Svefn og sálfélagslegir erfiðleikar leikskólabarna MA ritgerð Félagsráðgjöf til starfsréttinda Svefn og sálfélagslegir erfiðleikar leikskólabarna Guðbjörg Björnsdóttir Leiðbeinandi: Halldór Sigurður Guðmundsson Nóvember 2014 Svefn og sálfélagslegir erfiðleikar

More information

Foreldrasamstarf -Hvað segja lögin?-

Foreldrasamstarf -Hvað segja lögin?- Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Grunnskólabraut 2009 Foreldrasamstarf -Hvað segja lögin?- Guðbjörg Þóra Jónsdóttir Olga Ellen Þorsteinsdóttir Lokaverkefni Háskólinn á Akureyri

More information

Tak burt minn myrka kvíða

Tak burt minn myrka kvíða Lokaverkefni til BA-prófs í félagsfræði Tak burt minn myrka kvíða Sorgarferli aðstandenda eftir sjálfsvíg Katrín Gunnarsdóttir febrúar 2017 Tak burt minn myrka kvíða Sorgarferli aðstandenda eftir sjálfsvíg

More information

Ólögmæt dreifing örvandi lyfseðilsskyldra lyfja meðal unglinga í 10. bekk

Ólögmæt dreifing örvandi lyfseðilsskyldra lyfja meðal unglinga í 10. bekk Ólögmæt dreifing örvandi lyfseðilsskyldra lyfja meðal unglinga í 10. bekk Gísli Kristófersson 1 geðhjúkrunarfræðingur, Ársæll Arnarsson 2 faraldsfræðingur, Guðmundur Heimisson 3 próffræðingur, Dagbjörg

More information

Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra gatnamóta á umferðaröryggi

Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra gatnamóta á umferðaröryggi Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra Rannsóknarverkefni Vegagerðarinnar Janúar 206 www.vso.is Borgartún 20 585 9000 05 Reykjavík vso@vso.is 575 S:\205\575\v\Greinagerð\575_Greinargerð.docx Janúar 206

More information

Hagnýt ráð í uppeldi barna með kvíða

Hagnýt ráð í uppeldi barna með kvíða Hagnýt ráð í uppeldi barna með kvíða Kolbrún Karlsdóttir Sálfræðingur - Fróðir foreldrar - Kvíði Kvíði/ótti er gagnlegur og gerir okkur kleift að forðast eða takast á við hættulegar aðstæður Berjast eða

More information

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta?

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? www.ibr.hi.is Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? Erna Rós Kristinsdóttir Friðrik Eysteinsson Ritstjórar: Auður Hermannsdóttir Jón Snorri Snorrason Þóra Christiansen Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar

More information

Aðkoma barns að ákvörðun um umgengni

Aðkoma barns að ákvörðun um umgengni BA-ritgerð í lögfræði Aðkoma barns að ákvörðun um umgengni Réttur barns til að tjá sitt viðhorf á umgengni Ester Petra Gunnarsdóttir Elísabet Gísladóttir Apríl 2017 BA-ritgerð í lögfræði Aðkoma barns að

More information

Skaðsemi af völdum kannabisneyslu og kannabisneysla unglinga á Íslandi

Skaðsemi af völdum kannabisneyslu og kannabisneysla unglinga á Íslandi Skaðsemi af völdum kannabisneyslu og kannabisneysla unglinga á Íslandi Sara Sif Sveinsdóttir Sunneva Einarsdóttir Lokaverkefni til BA-gráðu í félagsráðgjöf Háskóli Íslands Félagsvísindasvið Skaðsemi af

More information

Sjúkdómsvæðing hegðunar:

Sjúkdómsvæðing hegðunar: Lokaverkefni til MA prófs í félagsfræði Sjúkdómsvæðing hegðunar: Hlutverk skólans í greiningarferli ADHD Anna Soffía Víkingsdóttir Febrúar 2016 Sjúkdómsvæðing hegðunar: Hlutverk skólans í greiningarferli

More information

Orðaforðanám barna Barnabók

Orðaforðanám barna Barnabók Orðaforðanám barna Barnabók Hrund Hermannsdóttir Lokaverkefni til B.ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari: Sigurður Konráðsson Kennaradeild Menntavísindasvið Háskóla Íslands Febrúar 2012 Ágrip

More information

Lokaverkefni í félagsráðgjöf. Hver er ég, hvaðan kem ég?

Lokaverkefni í félagsráðgjöf. Hver er ég, hvaðan kem ég? Lokaverkefni í félagsráðgjöf til BA-gráðu Hver er ég, hvaðan kem ég? Um rétt barna til að þekkja uppruna sinn Snjólaug Aðalgeirsdóttir Leiðbeinandi Helga Sól Ólafsdóttir Júní 2014 Hver er ég, hvaðan kem

More information

Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands Fréttabréf nr

Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands Fréttabréf nr Verkaskipting kynjanna Fyrir og eftir bankahrun Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands Fréttabréf nr. 10 2010 Verkaskipting kynjanna fyrir og eftir bankahrun Karlar verja meiri tíma í heimilisstörf en þeir gerðu

More information

Skólatengd líðan barna

Skólatengd líðan barna Skólatengd líðan barna Rannsókn á skólatengdri líðan barna með og án sérþarfa að mati foreldra Eydís Einarsdóttir Júní 2017 Lokaverkefni til MA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Skólatengd líðan

More information

Tengsl kynferðislegs ofbeldis og slagsmála meðal unglinga

Tengsl kynferðislegs ofbeldis og slagsmála meðal unglinga Tengsl kynferðislegs ofbeldis og slagsmála meðal unglinga Sóley Björk Gunnlaugsdóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni við Hug- og félagsvísindasvið Fé Tengsl kynferðislegs ofbeldis og slagsmála

More information

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði.

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði. Spilin á borðið Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Spilin á borðið: Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum

More information

Jákvæður agi Jákvæður agi kennir félagsfærni og lífsleikni

Jákvæður agi Jákvæður agi kennir félagsfærni og lífsleikni Jákvæður agi Í starfi okkar leggjum við til grundvallar uppeldisstefnu sem nefnist Jákvæður agi (Positive Discipline). Stefnan byggir á sjálfsstjórnarkenningum, sem fela það í sér að horft er á orsakir

More information

Öll börn eiga rétt á uppeldi. notkun PMTO sem stuðningur við foreldra í uppeldishlutverkinu

Öll börn eiga rétt á uppeldi. notkun PMTO sem stuðningur við foreldra í uppeldishlutverkinu Öll börn eiga rétt á uppeldi notkun PMTO sem stuðningur við foreldra í uppeldishlutverkinu Birna Hjaltalín Pálmadóttir og Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDADEILD Lokaverkefni til BA gráðu

More information

ÞÁTTTAKA BARNA Í VÍSINDARANNSÓKNUM ALMENN LEIÐSÖGN

ÞÁTTTAKA BARNA Í VÍSINDARANNSÓKNUM ALMENN LEIÐSÖGN ÞÁTTTAKA BARNA Í VÍSINDARANNSÓKNUM ALMENN LEIÐSÖGN Guðrún Kristinsdóttir prófessor emerita Guðrún Kristinsdóttir 2017 Birt að tilhlutan Vísindasiðanefndar Háskóla Íslands 1 Formáli Í vinnu við umsagnir

More information

Stúlkur og Asperger-heilkenni

Stúlkur og Asperger-heilkenni Stúlkur og Asperger-heilkenni Kynbundin áhrif heilkennisins á sjálfsmynd og félagslega stöðu Berglind Harpa Björnsdóttir Sally Ann Vokes Lokaverkefni til B.A.-prófs Þroskaþjálfadeild Stúlkur og Asperger-heilkenni

More information

Allir VINIR. Forvarnir gegn einelti. Höfundur: Vanda Sigurgeirsdóttir Lektor í tómstunda- og félagsmálafræði Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Allir VINIR. Forvarnir gegn einelti. Höfundur: Vanda Sigurgeirsdóttir Lektor í tómstunda- og félagsmálafræði Menntavísindasvið Háskóla Íslands Allir VINIR Forvarnir gegn einelti Höfundur: Vanda Sigurgeirsdóttir Lektor í tómstunda- og félagsmálafræði Menntavísindasvið Háskóla Íslands 2 Efnisyfirlit Inngangur... 4 Fræðilegur bakgrunnur... 4 Undirstöður

More information

Snillingarnir Árangursmat á meðferðarnámskeiði fyrir börn með athyglisbrest með ofvirkni

Snillingarnir Árangursmat á meðferðarnámskeiði fyrir börn með athyglisbrest með ofvirkni Sálfræði Október 2008 Snillingarnir Árangursmat á meðferðarnámskeiði fyrir börn með athyglisbrest með ofvirkni Sigrún Ólafsdóttir Leiðbeinandi: Jakob Smári Meðleiðbeinandi: Dagmar Kristín Hannesdóttir

More information

Alzheimers-sjúkdómur. Jón Snædal yfirlæknir, öldrunarlækningadeild

Alzheimers-sjúkdómur. Jón Snædal yfirlæknir, öldrunarlækningadeild Alzheimers-sjúkdómur Jón Snædal yfirlæknir, öldrunarlækningadeild LSH Landakoti Hvað er Alzheimers-sjúkdómur? Alzheimers-sjúkdómur er hrörnunarsjúkdómur í heila og er án þekktrar ástæðu í flestum tilfellum.

More information

LENGI BÝR AÐ FYRSTU GERÐ

LENGI BÝR AÐ FYRSTU GERÐ LENGI BÝR AÐ FYRSTU GERÐ Kennsluleiðbeiningar fyrir leikskólastarf með 1 3 ára börnum Flugvél eftir Matthías Loga Nesheim 2 ára 2006 Guðrún Alda Harðardóttir Sigríður Síta Pétursdóttir Efnisyfirlit Inngangur...

More information

Einelti í grunnskóla

Einelti í grunnskóla Einelti í grunnskóla Hvað getur umsjónarkennarinn gert? Þórdís Friðbergsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið 2 Einelti í grunnskóla Hvað getur umsjónarkennarinn gert? Þórdís

More information

KYNFERÐISOFBELDI GEGN BÖRNUM. Sifjaspell og afleiðingar þeirra

KYNFERÐISOFBELDI GEGN BÖRNUM. Sifjaspell og afleiðingar þeirra KYNFERÐISOFBELDI GEGN BÖRNUM Sifjaspell og afleiðingar þeirra KYNFERÐISOFBELDI GEGN BÖRNUM sifjaspell og afleiðingar þeirra Dr. Guðrún Jónsdóttir félags ráð gjafi tók bækling inn saman í samvinnu við konur

More information

Ég nota alla lausa tíma sem ég hef

Ég nota alla lausa tíma sem ég hef Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 22. desember 2014 Yfirlit greina Hjördís Sigursteinsdóttir, Eva Halapi og Kjartan Ólafsson Ég nota alla lausa tíma sem ég hef Netnotkun íslenskra ungmenna

More information

Sálfélags- og heilsufarsleg tengls við tíðabyrjun íslenskra stúlkna

Sálfélags- og heilsufarsleg tengls við tíðabyrjun íslenskra stúlkna Sálfélags- og heilsufarsleg tengls við tíðabyrjun íslenskra stúlkna Rannsókn unnin upp úr gagnasafni HBSC María Guðmundsdóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni við hug- og félagsvísindasvið Félagsvísindadeild

More information

Tilfinningagreind í hlutverkaleik þriggja til fjögurra ára barna. Birgitta Ósk Sveinbjörnsdóttir

Tilfinningagreind í hlutverkaleik þriggja til fjögurra ára barna. Birgitta Ósk Sveinbjörnsdóttir Tilfinningagreind í hlutverkaleik þriggja til fjögurra ára barna Birgitta Ósk Sveinbjörnsdóttir Kennaradeild Hug- og félagsvísindasvið Háskólinn á Akureyri 2015 Tilfinningagreind í hlutverkaleik þriggja

More information

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands VIÐSKIPTASVIÐ Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands Ritgerð til BS gráðu Nafn nemanda: Guðrún Erna Hafsteinsdóttir Leiðbeinandi: Haraldur Daði Ragnarsson

More information

Maður reiknaði aldrei með því að þetta yrði bara dans á rósum.

Maður reiknaði aldrei með því að þetta yrði bara dans á rósum. Maður reiknaði aldrei með því að þetta yrði bara dans á rósum. Lykill að löngu og farsælu hjónabandi, einkenni þeirra og gildi hjá íslenskum gagnkynhneigðum pörum Freydís Jóna Freysteinsdóttir, félagsráðgjafi

More information

Leikskóli margbreytileikans. Sérkennsla í nýju ljósi

Leikskóli margbreytileikans. Sérkennsla í nýju ljósi Leikskóli margbreytileikans Sérkennsla í nýju ljósi Starfsþróunarverkefni Sigrún Arna Elvarsdóttir Lokaverkefni til M.ed. - prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið Leikskóli margbreytileikans Sérkennsla

More information

Skólaskrifstofa Austurlands. Virknimat

Skólaskrifstofa Austurlands. Virknimat Skólaskrifstofa Austurlands Búðareyri 4, 730 Reyðarfjörður Virknimat Virknimat (functional behavioral assessment) er skipulagt ferli til að (Yell, Meadows, Drasgow & Shriner, 2009; Kern, O Neill & Starosta,

More information

Tíðni svefnvanda hjá börnum með ADHD

Tíðni svefnvanda hjá börnum með ADHD Tíðni svefnvanda hjá börnum með ADHD Karitas Ósk Björgvinsdóttir Lokaverkefni til Cand. Psych. gráðu Sálfræðideild Heilbrigðisvísindasvið Tíðni svefnvanda hjá börnum með ADHD Karitas Ósk Björgvinsdóttir

More information

Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara

Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara Edda Kjartansdóttir Þegar skynjanir vorar, hugsanir og hugsjónir hræra strengi tilfinninganna þá fyrst kemst rót á oss, þá losnar viljinn úr læðingi og knýr

More information

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Fólkstegundir. Um veitingu félagslegra eiginleika

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Fólkstegundir. Um veitingu félagslegra eiginleika Hugur 21. ár, 2009 s. 52 62 Ásta Kristjana Sveinsdóttir Fólkstegundir Um veitingu félagslegra eiginleika Um langt skeið hefur verið umræða í fræðaheiminum, jafnt sem annars staðar, um hvort ýmis fyrirbæri

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina Kennsluáætlun haust 2018 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information