Spilað í gegnum sársaukann

Size: px
Start display at page:

Download "Spilað í gegnum sársaukann"

Transcription

1 Spilað í gegnum sársaukann Eigindleg rannsókn á íslenskum knattspyrnumönnum Matthías Björnsson Lokaverkefni til BA gráðu í félagsfræði Félagsvísindasvið

2 Spilað í gegnum sársaukann Eigindleg rannsókn á íslenskum knattspyrnumönnum Matthías Björnsson Lokaverkefni til BA-gráðu í félagsfræði Leiðbeinandi: Viðar Halldórsson Félags- og mannvísindadeild Félagsvísindasvið Háskóla Íslands Júní 2014

3 Ritgerð þessi er lokaverkefni til BA-gráðu í félagsfræði og er óheimilt að afrita ritgerðina á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa. Matthías Björnsson 2014 Prentun: Svansprent Reykjavík, Ísland 2014

4 Þakkarorð Rannsókn þessi er framkvæmd til BA-prófs í félagsfræði við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinandi við rannsóknina var Viðar Halldórsson og kann ég honum miklar þakkir fyrir bæði góðar ábendingar og almennt gott samstarf í tengslum við verkefnið. Einnig vill ég koma á framfæri einlægu þakklæti til viðmælenda minna sem brugðust undantekningalaust jákvætt við bón minni um þátttöku í rannsókninni. Kann ég þeim bestu þakkir fyrir að gefa sér tíma til að taka þátt í verkefninu og fyrir að tala opinskátt um reynslu sína og viðhorf. 3

5 Útdráttur Knattspyrna er ein vinsælasta íþrótt í heimi, þar er Ísland engin undantekning. Þó svo að íþróttaiðkun stuðli að auknu heilbrigði og hreysti þá fylgir oftast nær einhver áhætta með. Í knattspyrnu eru árekstrar tíðir og geta langvarandi áhrif þess að leika knattspyrnu haft slæmar afleiðingar á líkamlega heilsu. Ýmsar kenningar innan félagsfræðinar fjalla um hvernig einstaklingar sjá sjálfa sig, hvernig þeir komast inn í félagsskap og læra að taka upp hegðun annarra. Fyrri rannsóknir hafa gefið til kynna að algengt sé í knattspyrnuheiminum að menn harki af sér meiðsli og sársauka. Ákveðið var að gera eigindlega rannsókn á íslenskum knattspyrnumönnum til að sjá hvort slíkt atferli tíðkist einnig hér og, ef svo er, hver er hvatinn fyrir því og hverjar eru andlegar afleiðingar meiðsla. Tekið var viðtal við átta núverandi og fyrrverandi knattspyrnumenn sem leikið hafa á Íslandi. Niðurstöður voru á þann veg að þeir hefðu allir á einhverjum tímapunkti ferilsins spilað meiddir. Einnig voru allir sammála um að slíkt atferli tíðkist reglulega. Gróflega má skipta undirliggjandi hvötum fyrir því að íslenskir knattspyrnumenn spila meiddir í þrjá flokka, eigin ástríðu, félagslegum og efnahagslegum þáttum. Þá komu í ljós tilfelli um að andleg líðan geti versnað mikið á meðan leikmenn eru frá meiddir. 4

6 Efnisyfirlit 1 Inngangur Kenningaleg nálgun Samskiptakenningar (e. Symbolic Interactionism) Jákvæð frávikshegðun ( e. Positive Deviance) Fyrri rannsóknir Hlutverk þjálfara Andlega hliðin Aðferð og gögn Eigindleg aðferðafræði Gagnasöfnun Þátttakendur Viðtöl og úrvinnsla Niðurstöður Aðlagast meiðslunum Eigin metnaður og ástríða Félagslegir þættir Stríðni og hugarfar leikmanna Samskipti þjálfara og leikmanna Efnahagslegir hvatar Andlegar afleiðingar meiðsla Hugrenningar þátttakenda Umræða Heimildir

7 1 Inngangur Það að stunda líkamlega þjálfun eða íþróttir stuðlar að bættri líðan líkamlega og andlega, þó fylgir ætíð einhver áhætta með. Meiðsli íþróttamanna hafa verið skoðuð gaumgæfilega, það er að segja undirliggjandi orsakir og líkamlegar afleiðingar (Drawer og Fuller, 2002; Rutherford, Stephens og Potter, 2003; Hägglund, Waldén og Ekstrand, 2005; Silva, Vaidyanathan, Kumar, Soni og Sett, 2006; Jewell, 2009; Kang, Emery og Richmond, 2013). Aftur á móti er önnur hlið á málinu sem hefur verið minna skoðuð, það er félagslegi þátturinn í tengslum við meiðsli íþróttamanna. Í heimi íþróttanna er almennt talið eðlilegt og í raun jákvætt að harka af sér og keppa þrátt fyrir meiðsli. (Hughes og Coakley, 1991; Nixon, 1993; Curry, 1993; Fenton og Pitter, 2010). Knattspyrnuheimurinn er engin undantekning á því (Roderick, Waddington og Parker, 2000; Roderick, 2006). Í sjálfsvævisögum leikmanna má einnig finna góð dæmi því til rökstuðnings. Í bók Dennis Bergkamp er lýst viðhorfunum gagnvart meiðslum í knattspyrnu, á Englandi laust fyrir aldamótin síðustu. Alið var upp í leikmönnum að sýna enga veikleika, leikmenn vildu ekki gefa þjálfaranum neina ástæðu til þess að taka þá úr liðinu, þeir hæfustu lifa af. Ef leikmaður meiddist og vildi ekki halda áfram, fékk viðkomandi leikmaður skammir og svívirðingar frá liðsfélögum sínum (Bergkamp og Winner, 2013). Zlatan Ibrahimovic skýrir frá því að þegar hann lék með Ajax, þá hafi verið mannekla í liðinu, meðal annars vegna meiðsla. Því lék Zlatan sjálfur alla leiki þrátt fyrir að vera einnig meiddur. Að lokum þurfti hann að gangast undir aðgerð vegna meiðsla sinna. Einnig talar Zlatan ítarlega um hvernig ástandið var á Ítalíu þegar hann lék með Inter Milan. Þar var gífurlega mikill þrýstingur á að hann væri með vegna mikilvægi hans í liðinu. Ef hann vantaði þá var hann beinlínis að bregðast liðsfélögum, þjálfara, stuðningsmönnum og Mílanó borg. Því var oft brugðið á það ráð að taka sterkari verkjalyf fyrir leiki og harka af sér (Ibrahimovic, Lagercrantz og Urbom 2013). Gary Neville talar um í bók sinni hversu litla samúð hann hafi haft gagnvart meiddum liðsfélögum í gegnum ferilinn, allt þar til hann lenti sjálfur í að vera frá í þrettán mánuði. Það sem byrjaði sem fremur einföld meiðsli breyttist í martröð fyrir Neville og röð bakslaga gerði honum erfitt fyrir. Lýsir hann depurðinni á meðan hann 6

8 var frá sem miklu verri en nokkurntímann sársaukanum sem fylgdi meiðslunum. Einnig talar hann um einmanleikann sem fylgdi því að æfa einn í líkamsræktinni fjarri liðsfélögum sínum (Neville, 2011). Í þessari rannsókn verður einungis einblínt á íslenska karla sem hafa spilað í deildum á vegum Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ). Í ljósi þess að fyrri rannsóknir hafa aðallega einblínt á atvinnumannadeildir sem innihalda atvinnumenn, þá er áhugavert að skoða hvernig málunum er háttað hjá íslenskum leikmönnum í deildum á vegum KSÍ. Atvinnumenn í knattspyrnu upplifa mikin þrýsting um að spila enda mikið í húfi bæði hjá leikmönnum og stuðningsmönnum. Á Íslandi er hinsvegar talsvert smækkaðri mynd að finna. Hér er aðallega iðkuð áhugamennska, það er, leikmenn hafa sjaldnast fulla atvinnu af því að leika knattspyrnu. Vissulega væri hægt að halda því fram að hjá liðum í efstu deild og þá sérstaklega hjá stærstu félögunum, sé iðkuð hálfatvinnumennska. Þrátt fyrir það er staðreyndin sú að langflestir knattspyrnumenn á Íslandi leika fyrir lítinn pening eða engann. Þar af leiðandi eru afar fáir á Íslandi, sem lifa eingöngu á því að vera knattspyrnumenn. Auk þess eru laun leikmanna á hæsta stigi sennilegast ekki næginlega há til þess að lifa á til lengri tíma, eftir að ferlinum lýkur. Algengt er að leikmenn í öllum deildum séu einnig í fullri atvinnu eða námi samhliða því að spila knattspyrnu. Því mætti ætla að hvati knattspyrnumanna á Íslandi til iðkunar sé sprottinn af áhuga, metnaði og ánægju frekar en að vera efnahagslegur. Málaflokkurinn sem um ræðir hefur fengið einhverja umfjöllun á erlendri grundu, sér í lagi á Bretlandseyjum. Þar hafa fræðimennirnir Martin Roderick og Ivan Waddington verið leiðandi afl í rannsóknum af þessu tagi. Sameiginleg rannsókn þeirra sem ber heitið Playing Hurt: Managing Injuries in English Professional Football (Roderick, Waddington og Parker, 2000), hleypti lífi í málaflokkinn. Sú rannsókn ásamt Adding Insult to Injury: Workplace Injury in English Professional Football (Roderick, 2006) eru að stóru leyti fyrirmyndir þessarar rannsóknar um knattspyrnumenn á Íslandi. Hvað karlkyns knattspyrnu á Íslandi varðar, þá er deildarfyrirkomulaginu skipt þannig niður að spilað er í fimm deildum (Knattspyrnusamband Íslands, e.d.). Þá á íslenska deildarfyrirkomulagið sér þá sérstæðu að tímabilið er töluvert styttra heldur en tíðkast erlendis. Ytra tíðkast að undirbúningstímabilið sé um og í kringum sex vikur og tímabilið stendur yfir í rúma níu mánuði. Hér er undirbúningstímabilið í kringum sex mánuði og tímabilið stendur yfir í tæpa fimm mánuði. Því fylgir að færri leikir eru 7

9 spilaðir og þar af leiðandi hefur hver leikur meira vægi, bæði í árangurstengdu samhengi og í huga leikmanna. Markmið þessarar rannsóknar er að komast að því hvort það tíðkist að karlkyns knattspyrnuleikmenn á Íslandi spili meiddir. Ef svo er, hverjir eru þá helstu hvatarnir á bakvið það, hvaða áhrif það hefur á andlegu hlið þeirra að spila meiddir sem og að vera frá vegna meiðsla. 2 Kenningaleg nálgun Þegar kemur að því að útskýra athæfið að spila í gegnum sársauka, þá er hægt að notast við ýmsar kenningar félagsfræðarinnar. Í þessari rannsókn verður þó aðallega notast við samskiptakenningar og jákvæða frávikshegðun, verður atferlið útskýrt með þær að leiðarljósi. 2.1 Samskiptakenningar (e. Symbolic Interactionism) Samskiptakenningar ganga út frá því að öll félagsleg fyrirbæri eigi rætur sínar að rekja til samskipta á milli manneskja. Fyrirbæri verða ekki til fyrr en einstaklingar eða hópar hafa lagt merkingu í sjálf fyrirbærin. Sömu lögmál gilda um manneskjur, þær eru skilgreindar í gegnum samskipti við aðra (Heiss, 1981). Sjálfið (e. Self) er hugtak eftir kenningasmiðinn George Herbert Mead og hefur það verið afar áhrifaríkt í félagsvísindum. Mead vildi meina að sjálfið gefi til kynna hvernig hver og ein manneskja hugsar um sig sjálfa líkt og hvern annan einstakling. Á unga aldri förum við að sjá sjálf okkur með augum annarra, einkum þeirra sem standa okkur næst. Sjálfsmynd okkar ræðst af miklu leyti af fyrirfram gefnum hugmyndum og væntingum samfélagsins um hvernig við eigum að vera. Viðbrögð annarra við hegðun okkar ræður mestu um hvað við gerum og segjum (Mead, 1934). Samkvæmt Mead, erum við sem manneskjur sífellt að skapa og endurskapa okkur sjálf með því að vera í samskiptum við aðra. Þá móta hugsanir okkar um hvernig við höldum að aðrir sjái okkur, hvernig við sjáum sjálf okkur. Manneskjan skilgreinir sjálfa sig og veruleikann í kringum hana út frá því hvernig við sjáum sjálf okkur og 8

10 hvað aðrir ætlast til af okkur. Fólkið sem ákveðin manneskja lítur upp til eða hefur mikið álit á, hefur sérstaklega mikil áhrif á hvernig tiltekin manneskja mótar sitt eigið sjálf (Mead, 1934). Erving Goffman fjallaði einnig um sjálfið en með eigin áherslum. Kenningar Goffman felast í því að félagslegar reglur stýri bæði tali og látbragði einstaklinga, hefðbundnir þættir líkt og atgervi, svipbrigði og líkamstjáning fólks væri hluti af leikrænni framkomu þeirra. Raunar séu þessir leikrænu tilburðir upphafið af öllum mannlegum samskiptum (Goffman, 1959). Ímyndastjórnun (e. Impression Management) er annað hugtak eftir Goffman sem snýr að þörf fólks til að sýna samfélaginu bestu hliðar sínar og öðlast þannig jákvæða stöðu í huga annarra. Lofsöm viðbrögð samfélagsins við ákveðnu atferli eru líkleg til þess að styrkja þann þátt í fari einstaklinga sem lofinu veldur. Í kjölfarið á því að hafa skapað sér ákveðna ímynd gæti einstaklingurinn þurft að bjarga andliti (e. Save Face). Eftir að hafa skapað sér ákveðna ímynd er nauðsynlegt að reyna að halda fast í hana og breyta lítið af vananum. Ef farið er reglulega út af sporinu þá glatast ímyndin og einstaklingurinn á í hættu að missa hlutverk sitt (Goffman, 1959; Goffman, 1967). Félagsmótun er afar tengd kenningum um sjálfið, félagsmótun er ferlið þar sem einstaklingar læra menningu og gildi þess samfélags sem þeir eru hluti af. Talað er um tvær tegundir af félagsmótun, frumfélagsmótun og síðfélagsmótun. Frumfélagsmótun á sér stað á bernskuárum einstaklinga og er talin afar mikilvæg í þróunarferli einstaklinga, hún mótar það sem koma skal. Námið sem verður til á frumfélagsmótunarskeiði er af tilfinningalegum toga og kemur vitsmunalegri hugsun ekki við. Sökum þess að námið er af tilfinningalegum toga þá hermir barnið eftir þeim sem hann lítur upp til og gerir atferlið að sínu, oftast foreldrum og fjölskyldum. Síðfélagsmótun á sér stað á síðari hluta uppvaxtaráranna, þá hefur fjölskyldan minni áhrif og skóli, jafningjar, félagasamtök og fleiri þættir spila stærra hlutverk. Einstaklingurinn drekkur í sig félagsleg áhrif úr öllum áttum samfélags síns og verður þannig betur upplýstur um menningu og gildi samfélagsins (Berger og Luckmann, 1967). Otmar Weiss fjallaði fimm tegundir af félagslegu samþykki (e. Social Recognition) sem hlýst í gegnum íþróttir. Rauði þráðurinn í gegnum þær snýst um jákvæðar afleiðingar þess að vera bendlaður við ákveðna íþrótt og félagslega ávinninga sem því fylgir auk styrktrar sjálfsmyndar (e. Identity Reinforcement). Til að mynda það 9

11 að vera samþykktur sem meðlimur í hóp og vera jafningi á meðal annarra. Það er ekki sjálfgefið að allir séu teknir opnum örmum inn í hóp fólks enda eiga sumir einstaklingar einfaldlega ekki samleið með hvor öðrum. En þegar vel gengur þá öðlast einstaklingar innan hópsins bæði félagslega nánd og öryggi. Þá hefur það einnig jákvæð áhrif á einstaklinga að vera bendlaður við jákvætt athæfi eða þessu tilfelli, íþrótt. Það að vera stimplaður sem íþróttmaður gefur einstaklingnum tilfinningu fyrir því að hann sé hluti af einhverju stærra og samþykkir hlutverkið sem því fylgir (Weiss, 2001). 2.2 Jákvæð frávikshegðun ( e. Positive Deviance) Frávik (e. Deviance) er í daglegu tali eitthvað sem gengur þvert á venjur samfélagsins. Frávikshegðun getur átt við um mörg sakleysisleg og hversdagsleg fyrirbæri, til dæmis samkynhneigð, geðraskanir og fleira sem fólk getur lítið gert til að breyta. Oftar en ekki er það þó notað yfir verknað sem þykir ýmist afbrigðilegur, ólöglegur eða neikvæður. Rétt eins og í samfélaginu, þá er frávikshegðun ekki vel liðin í íþróttum. Sem dæmi má nefna vandræðaseggi sem koma óorði á íþrótt sína, til að mynda með notkun á vímu- og frammistöðubætandi efnum ásamt fleiru (Hughes og Coakley, 1991; Coakley, 2003). Jákvæð frávikshegðun (e. Positive Deviance) er aftur á móti þegar frávik gefur jákvæð viðbrögð til baka. Í heimi íþróttanna er sérstaklega hvatt til hegðunar sem kann að flokkast sem frávikshegðun í öðrum lögum samfélagsins. Sem dæmi má nefna ofbeldis- eða ofsafulla hegðun og iðkun íþrótta þrátt fyrir meiðsli. Til að mynda gæti atferli sem er samþykkt í hinum ýmsu íþróttum talist sem lögbrot ef þau væru færð yfir í samfélagið. Hnefaleikakappar væru ofbeldismenn, ökuþórar ökuníðingar og keppendur í snertiíþróttum líkt og knattspyrnu myndu ekki komast upp með harða tæklingu út á götu (Hughes og Coakley, 1991; Coakley, 2003). Mismunandi gildi eru í hverri íþrótt um hvað sé ásættanlegt og hvað ekki. Sársauki virðist þó hljóta víðtækt samþykki í íþróttum, fjölmiðlar til að mynda hampa oft íþróttamönnum fyrir spila hetjulega þrátt fyrir að þjást af líkamlegum kvilla og þjálfarar hvetja leikmenn til þess að taka sársaukanum fagnandi (Nixon, 1991; Hughes og Coakley, 1991; Coakley, 2003). Til þess að vera álitinn alvöru íþróttamaður þarf að fórna ýmsu fyrir málstaðinn. Íþróttamenn þurfa að elska íþróttina, hafa frammúrskarandi hugarfar, sýna skuldbindingu og ýta öllu öðru sem gæti truflað þá í leit að árangri til hliðar. Þá þurfa 10

12 íþróttamenn að samþykkja það að spila í gegnum sársauka, standast miklar væntingar og vera óttalausir. Íþróttafólk sem sýnir slíka hegðun er líklegra til þess að fá góð meðmæli og komast lengra í íþróttinni. Samfélagið hrósar þeim einnig fyrir hugrekki og þrautseigju. Keppendurnir sjálfir líta ekki á hegðunina sem frávik né er það gert í heimi íþróttanna, frá samfélagslegu sjónarmiði er hún það samt. Hættan er sú að á leið þeirra skaði þau sjálfa sig og/eða aðra (Hughes og Coakley, 1991). Saga Paul Kimmage sýnir hvernig frávikshegðun getur verið litin jákvæðum augum í heimi íþróttanna. Kimmage er fyrrum hjólreiðakappi sem keppti meðal annars þrisvar sinnum í hinum virtu Frakklandshjólreiðum (e. Tour de France). Kimmage keppti með RMO og Fagor-MBK, hlutverk hans í liðunum var að aðstoða sigurstranglegri keppendur í liði sínu. Aðstoðin getur meðal annars falist í því að minnka vindmótstöðu með því að hjóla á undan liðsfélaga sínum og þvælast fyrir keppinautum, hægja á þeim á meðan eigin liðsfélagi eykur forskot sitt á aðra keppendur. Kimmage lenti sjálfur í vandræðum með að ljúka við keppninar vegna ofþreytu, þannig brást hann liðsfélögum sínum. Á endanum ákvað hann að taka inn frammistöðubætandi efni til þess að halda í við aðra sem voru að öllum líkindum einnig að svindla (Kimmage, 2007). 3 Fyrri rannsóknir Félagslegi þátturinn í tengslum við það að spila knattspyrnu er bæði stór og fjölþættur. Þegar kemur að því að útskýra afhverju leikmenn spila meiddir þá verður félagslegi þátturinn enn mikilvægari. Ljóst er að ótti spilar lykilhlutverk í því að leikmenn séu reiðubúnir að fórna hvort tveggja líkama sínum og heilsu. Ótti við að bregðast sjálfum sér, fólkinu í kringum sig, að hlutverk sitt innan liðsins verði minna, að glata félagslegum tengslum og að verða fyrir aðkasti. Ótti við alla þessa þætti skapar óneitanlega mikinn þrýsting fyrir leikmenn (Roderick, 2006; Roderick, Waddington og Parker, 2000). Leikmenn hræðast ekki eingöngu það að meiðast, heldur einnig viðbrögð aðila sem tengjast þeim með einum eða öðrum hætti. Algengt er að leikmenn sem meiðast upplifi þá tilfinningu að þeir séu að bregðast þjálfurum sínum, liðsfélögum, stuðningsmönnum og fjölskyldu. Til þess að hrekja þá tilfinningu kjósa leikmenn oft að 11

13 spila einfaldlega í gegnum sársaukann. Með því sýna þeir að hjarta þeirra sé á réttum stað og fá jákvæð viðbrögð (Roderick, 2006). Þá virðist það vera óskrifuð regla í knattspyrnuheiminum að leikmenn sem eru lítillega meiddir, skuli og eigi að harka af sér í leikjum. Geri þeir það ekki eigi þeir á hættu að vera lítilsvirtir af þjálfurum og liðsfélögum. Einnig er því haldið fram að vandamál leikmanna sem meiðast gjarnan eða neita að spila meiddir, séu hugarfarsleg. Slíkir leikmenn hafi einfaldlega slæmt hugarfar. Aftur á móti er afar vel liðið þegar leikmenn spila meiddir og leggja sig alla fram, þá sýna þeir fram á að þeir hafi fyrirmyndar hugarfar (Roderick, 2006; Roderick, Waddington og Parker, 2000). Sú hefð er ekki eingöngu bundin við knattspyrnu heldur íþróttir yfirleitt. Rannsókn sem fól í sér að innihaldsgreina vinsælt íþróttatímarit sýndi að stofnanabundin venja væri í samfélaginu að réttlæta áhættuna á því að meiðast í íþróttum. Einnig væri oftar en ekki athyglinni beint frá áhættunni og mögulegum afleiðingum hennar, þess í stað var einblínt á ágóðann og allt það jákvæða sem fylgdi því að taka áhættuna (Nixon, 1993). Mikilvægi leikmanna innan liðsheildarinnar hefur aukið vægi gagnvart því að spila með eymsli. Fyrirliðar eða drifkraftar í liðum fá oft á tíðum litlar pásur og er til mikils ætlast af þeim. Þeir eru bæði mikilvægir inn á vellinum í leit að árangri ásamt því að stuðla að góðum liðsanda utan vallar en þessir tveir þættir haldast í hendur. Þeir eiga að vera gott fordæmi fyrir aðra leikmenn liðsins og því taka slíkir leikmenn það meira inn á sig en aðrir að meiðast eða missa úr leikjum, enda er erfiðara að leysa þá af hólmi. Væntingarnar eru miklar á slíka leikmenn og beint eða óbeint, er ætlast til þess að þeir séu mættir á leikdegi til þess að leiða lið sitt til sigurs (Roderick, 2006). Í takt við það hafa rannsóknir einnig sýnt að, leikmenn sem eru hollir og tryggir liði sínu og einstaklingum innan þess, leggja að jafnaði meira á sig og eru reiðubúnir til að færa miklar fórnir til þess að falla inn í stefnu félagsins og hjálpa því að ná árangri (Adler og Adler, 1988; Rudd og Mondello, 2006). Á hinn bóginn er einnig algengt að leikmenn óttist að missa sæti sitt í liðinu á meðan þeir eru frá vegna meiðsla. Þótt tiltekinn leikmaður sé mikilvægur liðinu, þá er alltaf raunveruleg hætta á því að einhver annar komi inn og standi sig betur. Því geta meiðsli haft langvarandi afleiðingar á hlutverk leikmanns innan hóps. Lausnin við því í huga margra er einfaldlega að sleppa því að meiðast og harka af sér. Sama á við um ef 12

14 þýðingarmiklir leikir eru framundan. Í slíkum aðstæðum vilja leikmenn ekki gefa þjálfaranum neina ástæðu til að taka sig úr liðinu í von um að spila stóru leikina (Roderick, Waddington og Parker, 2000). Leikmenn bregðast oft við meiðslum með því að hlýfa þeim hluta líkamans sem er í ólagi. Dæmi um það er að breyta hlaupastílnum, forðast snöggar hreyfingar og taka skynsamlegri hlaup. Ókosturinn við þá aðferð er þó að þegar líkamanum er beitt öðruvísi en hann er vanur að gera, þá getur það komið niður á öðrum hlutum líkamans og orsakað ný meiðsli (Roderick, Waddington og Parker, 2000). Ein af algengari birtingarmyndum þrýstings um að harka af sér, er í gegnum húmor eða grín. Grínið er á yfirborðinu góðlátlegt og flokkast sem hluti af liðsandanum eða jafnvel klefamenningunni sem skapast hjá knattspyrnuliðum. Í sumum tilfellum eru eflaust engin illindi á bakvið grínið, það getur þó einnig virkað sem hljóðdeyfir á beitt skilaboð eða móðganir. Sí endurtekið áreiti getur fellt sterkustu menn. Þetta á sérstaklega við um meiðslagjarna leikmenn sem fást við langvarandi og þrálát meiðsli, eru viðkvæmari fyrir höggum eða meiðast auðveldlega. Stríðnin er af hendi liðsfélagana og beinast til dæmis að því að meiddur leikmaður sé latur, linur eða velji sér þær æfingar og leiki sem honum lystir. Dæmi eru um að leikmenn fái nóg af stríðninni, láti sem ekkert sé þótt þeir finni til og harki af sér til að komast undan áreitinu (Roderick, 2006). Meiddir leikmenn upplifa þá einnig reglulega einmanleika. Oft á tíðum æfa meiddir leikmenn ekki með liði sínu, þess í stað starfa þeir með sjúkraþjálfara, eru einir í líkamsræktinni að byggja upp styrk eða einfaldlega að hvíla. Daglegu venjurnar í lífi þeirra eru gjörbreyttar og fólkið sem þeir eru vanir að umgangast eru ekki innan seilingar. Sú breyting gerir það að verkum að þeir þrá heitar að sameinast með liðsfélögum sínum á ný, því flýta þeir batanum til þess að uppfylla félagslegar þarfir sínar (Roderick, 2006). Þá geta efnahagslegir hvatar haft sitt að segja varðandi það hvort leikmenn spili í gegnum meiðsli eða ekki. Upphæðir í samningum leikmanna eru oft á tíðum háðar því hversu margar leiki leikmenn spila. Ýmist eru þóknanir greiddar út fyrir hvern spilaðan leik eða vera valinn í leikmannahóp, einnig tíðkast að leikmenn fái þóknanir eftir að hafa uppfyllt ákveðin skilyrði, til að mynda spila ákveðin fjölda leikja yfir tímabilið. Dæmi eru um að leikmenn píni sig í gegnum leiki eða þiggji deyfingu til þess að 13

15 uppfylla samningsskilyrði eða fá aukalega þóknun (Roderick, Waddington og Parker, 2000). 3.1 Hlutverk þjálfara Knattspyrnustjórar eða þjálfarar eru mjög mikilvægir og hafa mikil völd í sínum höndum. Þeir eru höfuðið yfir hópnum, stýra æfingum, velja liðið, geta bæði glatt og sært margar sálir. Til þess að vera farsæll knattspyrnuþjálfari þarf að búa yfir mikilli leiðtogahæfni og fá þannig alla til að róa í sömu átt. Innslag þjálfara til leikmanns getur haft mikla þýðingu en í loks dags er það undir honum komið hvort tiltekinn leikmaður eigi hlutverk í liðinu eða ekki. Þrátt fyrir nauðsynlega eiginleika knattspyrnustjóra og þjálfara, þá eru þeir mannlegir og mismunandi eins og allir aðrir. Til eru þekktar staðalímyndir um persónugerð þjálfara, þeir geta verið harðstjórar, skilningsríkir, taktískir og fleira. Oftar en ekki helst staðalímyndin um harðstjórann og gamaldags þjálfara í hendur, engu að síður eru ennþá gamaldags þjálfarar starfandi. Dæmi eru til um að slíkir þjálfarar láti leikmenn heyra það ef þeim þykir þeir vera heldur linir eða brothættir, skipi þeim að harka af sér og halda áfram. Önnur aðferð sem virðist vinsæl er einfaldlega að hunsa slasaðan leikmann, enda gegnir sá leikmaður engum tilgangi í liði sínu (Roderick, 2006; Roderick, Waddington og Parker, 2000). Ögn lævísari aðferð, hvort sem hún er framkvæmd með vitund og vilja eða ekki, er þegar þjálfari nálgast meiddan leikmann og spyr hvort hann sé ekki að verða leikfær. Spurningin er í sjálfu sér einföld en blæbrigðin geta gefið aðra merkingu. Fyrir leikmann að fá þessa spurningu til sín frá þjálfara sínum, sem mætti líkja við yfirmanni á vinnustað, getur verið tvíræð. Að einu leyti gæti þjálfarinn verið að forvitnast um hvort það styttist ekki í leikmanninn vegna þess að hann þurfi á honum að halda. Að öðru leyti gæti þjálfarinn verið að gefa til kynna að leikmaðurinn sé búinn að vera nógu lengi frá og tími sé kominn til að harka af sér. Hver svo sem raunverulega meiningin á bakvið spurninguna er, þá er niðurstaðan sú sama. Leikmaðurinn finnur fyrir þrýsting á að flýta sér til baka vegna þess að þörf sé fyrir hann í liðinu (Roderick, 2006). Ofan á það eru dæmi um að þjálfarar ásaki leikmenn sína einfaldlega um að gera sér upp meiðsli til þess að víkja sér undan ábyrgð, afsaka mistök eða koma sér undan erfiðum æfingum. Því geta leikmenn átt í hættu á því staða þeirra innan liðsins versni 14

16 svo um muni ef þeir tilkynna sig meidda. Þjálfarar geta oft á tíðum ekki vitað með vissu hversu alvarlega meiddur leikmaður sé, aðeins leikmaðurinn sjálfur veit hvernig hann upplifir líkamlegt ástand sitt. Sjúkraþjálfarar geta greint vandann en hlutverk þeirra innan liða snýst jafnan um að koma leikmönnum í leikhæft ástand frekar en að lækna vandann. Af því gefnu þurfa meiddir leikmenn að vanda orðaval sitt vel þegar þeir tilkynna meiðsli sín, þeir vilja ekki sýnast linir eða draga úr vægi sínu innan liðsins (Roderick, 2006). Þá hefur verið gefið í skyn að þjálfarar spili bæði viljandi og óviljandi með tilfinningar leikmanna sinna. Þeir búi til umhverfi þar sem fullorðnir menn upplifa sig ennþá sem unglinga. Það er gert bæði með því að gera óþarflega miklar kröfur á leikmenn sína, innan sem og utan æfinga, auk þess að svelta þá af andlegu öryggi varðandi hlutverk þeirra innan liðsins. Við slíkar aðstæður þurfa allir að vera sífellt á varðbergi og leggja sig alla fram í von um að heilla þjálfarann sinn. Þannig umhverfi bíður upp á, og í raun krefst þess, að menn séu sífellt við góða heilsu og haldi sínu striki þrátt fyrir áföll (Hughes og Coakley, 1991). 3.2 Andlega hliðin Afleiðingar líkamlega meiðsla geta einnig komið fram í andlegu formi. Rannsóknir hafa sýnt fram á andlegar afleiðingar þess að meiðast og líkurnar á andlegum erfiðleikum hækka eftir því sem meiðslin halda viðkomandi lengur frá. Íþróttamenn sem meiðast eru í hættu á því að þjást af þunglyndi, áfallastreituröskun og aðlögunarröskun (Brewer, Linder og Phelps, 1995). Talið er að meiddir íþróttamenn séu sex sinnum líklegri til að upplifa þunglyndi heldur en líkamlega heilbrigðir íþróttamenn (Appaneal, Levine, Perna og Roh, 2009). Þá eru meiddir íþróttamenn líklegri til þess að upplifa meiri streitu og þjást af lægra sjálfsáliti (Lambert, Leddy og Ogles, 1994). Vegna mikilvægi sjálfsmyndar í tengslum við íþróttir, þá þarf það ekki að koma á óvart að fjarvera frá íþróttinni getur tekið á. Það að geta ekki stundað íþrótt sína og áhugamál vegna meiðsla, getur orskaða andlega erfiðleika hjá viðkomandi. Sérstaklega á það við um það íþróttafólk sem á fáar stoðir í lífinu utan íþróttarinnar. Í því samhengi hefur verið nefnt að fólk í hópíþróttum geti átt erfiðara uppdráttar en aðrir. Meiðsli geta gert það að verkum að mikilvægi einstaklings hjá liði sínu minnki, að minnsta kosti 15

17 tímabundið. Auk þess umgengst hann liðsfélaga sína ekki í sama mæli og hann gerði fyrir meiðsli, þar með dvínar andlegur stuðningur sem leikmaðurinn er vanur að fá. Auk þess er hætt við því að leikmaðurinn sjálfur glati sjálfsmynd sinni og upplifi sig bæði sem vald- og tilgangslausan (Brown og Hartley, 1998). Slíkar niðurstöður ríma vel við rannsókn á leikmönnum. Meiddir leikmenn eiga í erfiðleikum með að aðlagast breyttu umhverfi og kröfum. Þá er andlegur stuðningur af afar skornum skammti og samúðin lítil sem enginn. Í einhverjum tilfellum geta þeir upplifað sig yfirgefna og ætlast er til að þeir tjasli sér saman upp á eigin spýtur. Andlegar afleiðingar þess að meiðast koma þá oftar en ekki niður á persónulega lífi þeirra (Roderick, Waddington og Parker, 2000). Sjálfsmynd leikmanna snýr að því að þeir eru knattspyrnumenn, þegar þeir geta ekki spilað fótbolta þá brotnar sjálfsmyndin og veldur skertu sjálfstrausti og sjálfsmati. Ofan á það geta leikmenn fundið fyrir nagandi sektarkennd vegna þess að þeir eru meiddir, sérstaklega ef batinn gengur hægar en búist var við. Í þeirra huga eru þeir að bregðast öllum væntingum sem gerðar eru til þeirra. Þó svo að þeir hafi lítið getað gert til þess að fyrirbyggja meiðslin, þá upplifa þeir stöðugt tilfinninguna um að meiðslin séu þeim sjálfum að kenna (Roderick, Waddington og Parker, 2000). 4 Aðferð og gögn Innan félagsfræðinar eru tvö rannsóknarsnið sem eru iðkuð, eigindlegar- og megindlegar rannsóknir. Í grunninn felst munurinn á þessum tveim ólíku rannsóknarsniðum í því að eigindlegar rannsóknaraðferðir skoða smá mengi á meðan megindlegar rannsóknaraðferðir skoða stærri mengi (Esterberg, 2002). Þegar kemur að því að rannsaka hvort það tíðkist á meðal íslenskra knattspyrnumanna að spila meiddir þá er hægt að notast við nokkrar aðferðir. Mögulegt er að gera megindlega rannsókn og til að mynda leggja spurningarlista fyrir leikmenn eða notast við eigindlegar rannsóknaraðferðir, svo sem vettvangsathugunir eða viðtöl líkt og gert er í þessari rannsókn. 16

18 4.1 Eigindleg aðferðafræði Eigindlegar rannsóknaraðferðir snúast um að fá innsýn í félagslegan veruleika og komast að sameiginlegri merkingu. Rannsakandi fer á vettvang til að öðlast skilning á því hvað skiptir máli og hvað hann vill rannsaka, ákveðin aðleiðsla. Rannsakandi er ekki með fyrirfram mótaða kenningu heldur mótar hann kenningu sína með tímanum. Markmið eigindlegra aðferða er að mæla hvaða hugsun fólk leggur í aðstæður sínar, tilfinningar þeirra, atferli og upplifun. Reynt er að fá góða lýsingu á sjónarhorni, aðstæðum og reynsluheimi þátttakenda. Ákveðið samskiptaferli fer fram þar sem þátttakendur deila reynslu sinni og upplifun, rannsakandi verður síðan að setja sig í spor þátttakandans og skilja veruleika hans (Esterberg, 2002). 4.2 Gagnasöfnun Í ljósi þess að rannsóknin einblínir á knattspyrnumenn, reynslu þeirra og viðhorf, þá var notast við tilgangsúrtak. Það þýðir að sérstaklega var leitað eftir leikmönnum sem annaðhvort eru enn virkir eða hafa nýlega lagt skóna á hilluna. Til þess að tryggja að þátttakandi hefði talsverða reynslu á bakinu, var ákveðið að miða við að viðkomandi væri að minnsta kosti á 25. aldursári. Ekki voru gerðar sérstakar kröfur um á hvaða stigi leikmaðurinn hafi spilað annað en að hann hafi leikið með meistaraflokki. Alls var rætt við átta einstaklinga. 4.3 Þátttakendur Þeir leikmenn sem rætt var við höfðu flestir dágóða reynslu á herðum sínum, bæði úr yngri flokkum sem og í meistaraflokk. Yngsti viðmælendinn var á 25. aldursári en sá elsti 39. Meðalaldur þátttakenda ef miðað er við fæðingarár var 29,75. Af þátttakendum eru þrír þeirra, að eigin sögn, búnir að leggja skóna á hilluna. Leikmennirnir eru íslenskir og hafa allir leikið allan meistaraflokksferil sinn á Íslandi. Ef litið er til þýði þátttakenda þá eru fulltrúar úr öllum deildum á vegum KSÍ, tveir þátttakendana höfðu til að mynda leikið í öllum deildum, ef nýja 4. deildin er undanskilin. Samanlagt höfðu 17

19 leikmennirnir spilað 675 meistaraflokksleiki á vegum KSÍ þegar rannsóknin var framkvæmd. 1 Að neðan er farið nánar yfir feril hvers viðmælanda. Þátttakandi er 25 ára og á 46 mótsleiki með tveim félögum. Á öllum meistaraflokksferli sínum til þessa hefur hann spilað í annarri og þriðju deild. Þátttakandi æfði upp alla yngri flokkana en hefur misst út tvö tímabil, eitt vegna meiðsla og annað vegna anna á öðrum sviðum. Þátttakandi er 25 ára og á 37 mótsleiki með tveimur félögum. Ferill hans í meistaraflokki hefur farið fram í annarri og þriðju deild. Viðmælandi æfði upp alla yngri flokkana en tók sér pásu í eitt sumar í meistaraflokk. Þátttakandi er 25 ára og á 14 meistaraflokssleiki með einu liði. Viðmælandi hefur einungis leikið í þriðju deild. Hann æfði upp alla yngri flokkana þangað til þrálát meiðsli gerðu vart við sig í öðrum flokki. Leikmaðurinn var þó viðloðin knattspyrnu allan tímann og náði nokkrum leikjum. Eftir að hann komst á meistaraflokksaldur var hann alveg frá vegna meiðsla í nokkur ár en hyggst nú bæta upp fyrir tapaðan tíma. Þátttakandi er 26 ára og á 43 mótsleiki með tveimur liðum. Leikmaðurinn lék einungis í þriðju deild. Hann æfði upp alla yngri flokka og hélt áfram í meistaraflokk þar til hann lagði nýverið skóna á hilluna vegna anna á öðrum sviðum. Þátttakandi er 27 ára og á 71 mótsleiki. Viðmælandi hefur alla tíð leikið með uppeldisfélagi sínu og hefur meistaraflokksferill hans alfarið farið fram í fyrstu deild. Æfði upp alla yngri flokkana en vegna meiðsla missti hann af fjórum tímabilum í meistaraflokk. 1 Leikir í undirbúningsmótum eru ekki á vegum KSÍ og telja því ekki með, sama á við um ónotaða varamenn í leikjum á vegum KSÍ. 18

20 Þátttakandi er 35 ára og á 64 mótsleiki með sex liðum. Hefur leikið í efstu, fyrstu og þriðju deild auk þess að æfa upp alla yngri flokka. Þátttakandi lék sem markvörður og eyddi stærstum hluta ferilsins í efstu og fyrstu deild, ýmist sem aðal- eða varamarkvörður. Leikmaðurinn hefur lagt hanskana á hilluna. Þátttakandi er 36 ára og á 187 mótsleiki með fimm liðum. Hefur leikið í efstu, fyrstu, annarri og þriðju deild auk yngri flokka. Eyddi megninu af meistaraflokks ferlinum í efstu og fyrstu deild. Hefur spilað minna undanfarin tímabil en er þó ekki hættur með öllu. Þátttakandi er 39 ára og á 213 mótsleiki með fimm liðum. Hefur leikið í efstu, fyrstu, annarri og þriðju deild auk yngri flokka. Varði lengstum tíma í fyrstu deildinni. Lagði nýverið skóna á hilluna. 4.4 Viðtöl og úrvinnsla Fyrirkomulagið á viðtölum við þessa rannsókn var með þeim hætti að þau voru hálfopin. Með því er átt við að viðtalið var frekar eins og samtal á milli rannsakanda og þátttakanda, þó með stöðluðu formi. Rannsakandi er með fyrirfram ákveðnar spurningar sem hann leitar svara við, hinsvegar er hann vakandi fyrir því að spyrja nánari spurningar eða grípa áhugaverð atriði á lofti. Með slíku fyrirkomulagi skapast vettvangur fyrir frjálsari umræður en ella. Þátttakandi fær fullt frelsi til að tjá sig og rými til að veita rannsakanda betri heildarmynd af aðstæðum, viðhorfum og eigin líðan. Tímalengd viðtalana fór alfarið eftir því hversu mikið viðmælendur voru tilbúnir að gefa af sér, til að mynda varði stysta viðtalið einungis í rúmar 17 mínútur á meðan það lengsta teygðist í 61 mínútur. Meðallengd viðtala var í kringum 35 mínútur. Þátttakendur réðu alfarið sjálfir hvar viðtalið yrði tekið upp, þannig gátu þeir valið þá staðsetningu sem bæði hentaði viðmælandanum og honum liði vel í. Rannsakandi lagði þó áherslu á að viðtalið yrði að fara fram í friðsælu umhverfi. Svo fór að sex viðtöl voru tekin upp á heimilum þátttakenda, eitt í fundarherbergi á vinnustað þátttakanda og eitt á heimili rannsakanda. Viðtölin voru tekin upp á fartölvu rannsakanda og voru síðan eftirrituð inn á sömu tölvu. Að lokum var svörum viðmælenda skipt upp í þemu með 19

21 það fyrir augum að finna sameiginlegar reynslur, viðhorf og því sem skar sig út í samanburði við aðra viðmælendur. 5 Niðurstöður Varðandi algengi þess að knattspyrnumenn spili meiddir eða tæpir voru þátttakendur almennt á þeirri skoðun að það tíðkist. Flestir töluðu um að leikmenn bæru oft með sér minniháttar meiðsli sem þeir spila í gegnum: Ég held að margir séu jafnvel bara flestir séu ekki oft 100% heilir. Það er alltaf eitthvað svona þó það sé ekki nema eitthvað pínulítið, þá er alltaf eitthvað pínu að, sérstaklega þegar álag er mikið. Ályktun sú er í takt við fyrri rannsóknir sem segja að leikmenn sem séu lítillega meiddir eigi að harka af sér (Roderick, 2006; Roderick, Waddington og Parker, 2000). Tveir þátttakendur töluðu þó á aðeins frábrugðnari nótum. Annar þeirra taldi að algengt væri að menn spiluðu meiddir og á sama tíma setti hann spurningarmerki við hvort þeir sem gerðu það ekki væru nægjanlega harðir af sér. Hvað hinn þátttakandann varðar, þá var hann spurður hvort það væri algengt að leikmenn spili meiddir. Svar hans hljóðaði svo: Nei, nei, mér finnst það ekki á Íslandi. Þér að segja þá fór það mjög mikið í taugarnar á mér upp allan ferilinn að horfa á leikmenn... sumir voru með verk í tánum og spiluðu ekki sko, það pirraði mig alltaf mjög mikið að sjá... svona væl. Það var alveg ótrúlegt að sjá svona, alltaf þegar menn voru með tak aftan í læri, fundu fyrir í náranum, þá var bara hvílt. Welcome to my world (AR 2 : Velkominn í minn heim) prófiði að vera ég í einn dag maður, horfiði á leikinn á móti (lið) þegar ég reif lærvöðvann sko og spilaði í 70. mínútur og gat 2 Athugasemd rannsakanda 20

22 ekki stigið í fótinn. Mér fannst menn alltaf fljótir að detta í vælið, svo hittir maður einstaka nagla og maður ber virðingu fyrir þannig mönnum, ég hef alltaf haft miklu meira álit á þannig leikmönnum. Þarna viðurkennir viðmælandi greinilega að það ekki bara tíðkist að menn spili meiddir, heldur eigi þeir að gera það. Það þarf að vera eitthvað mikið að til þess að menn megi hætta (sbr. Roderick, 2006; Roderick, Waddington og Parker, 2000). Það að viðmælandi hafi hærra álit á leikmönnum sem hann taldi vera harða af sér gefur til kynna að það að spila meiddur, sé litið jákvæðum augum innan knattspyrnunar (sbr. Hughes og Coakley, 1991; Coakley, 2003). Aðspurður hvort hann teldi að þeir leikmenn sem drógu sig oftar út væru jafnvel bara skynsamari og huguðu betur að eigin líkama sagði þátttakandi: Auðvitað eru þeir það líka, ég áttaði mig alveg á því seinna. En vá sumt af þessu get ég ekki kallað skynsemi samt sko, jú jú vissulega eru sumir þarna sem eru bara skynsamari sko. En ég, samt... það er ekki einusinni 50% af þessu sko, 70% væl og 30% skynsemi, eigum við ekki að segja það. Þá skiptist það eftir... ekki tilfellum heldur karakterum. Viðmælandi viðurkennir að í sumum tilfellum væri einfaldlega um skynsama leikmenn að ræða, engu að síður væri meirihluti þeirra eingöngu að kvarta yfir smávægilegum meiðslum. Ýjar hann síðan að því að þetta hafi meira hugarfar þeirra að gera heldur en alvarleika meiðslanna. Sú skoðun er í takt við algeng viðhorf ytra um að ákveðnar tegundir af leikmönnum séu einfaldlega með slæmt hugarfar frekar en að þeir séu raunverulega meiddir (Roderick, 2006; Roderick, Waddington og Parker, 2000). Einnig vekur athygli að umræddur þátttakandi lýsti sjálfur yfir hvernig sínir eigin liðsfélagar gátu ekki skilið hvað hann væri að ganga daglega í gegnum. Samt sem áður gagnrýnir hann eigin liðsfélaga með svipuðum hætti og virðist ekki hafa haft skilning á aðstæðum liðsfélaga sinna. Allir þátttakendur þessarar rannsóknar viðurkenndu að þeir hefðu á einhverjum tímapunkti spilað meiddir á ferli sínum. Hinsvegar var ákveðin stigsmunur á alvarleika 21

23 meiðslana og viðhorfum gagnvart því að spila meiddur. Það sem einum er eðlislægt að harka af sér kann að vera óhugsandi í huga annars. Meirihluti þátttakenda töldu eðlilegt að spila meiddir og játuðu að hafa gert það oft eða reglulega. Hjá öðrum var þetta meira bundið við stök og langvarandi meiðsli. Viðhorf leikmanna til þess sem flestir þeirra titluðu sem lítilsháttar meiðsli, voru með slíkum hætti að þau væru í raun og veru ekki meiðsli heldur hnjask eða óþægindi. Þar eiga leikmenn við um vægar vöðvatoganir, snúna ökkla, támeiðsli og fleira þessháttar. Að þeirra sögn eru þetta áverkar sem trufla þá og hefta frammistöðu þeirra, hinsvegar eru hvorki verkirnir né eðli meiðslanna næginlega slæm til þess að sleppa æfingu eða draga sig úr hóp fyrir leik. Öllu heldur er þetta bara fylgifiskur þess að leika knattspyrnu, eftirfarandi dæmi bera þess merki: Oft í gegnum tíðina hef ég verið með, hvað segir maður, blæðingar inn á stóru tá, það gerist reglulega, það er stigið á mann og það er mjög vont, en einhvernveginn er það ekki nóg til þess að hætta. Síðan fær maður smávægilegar tognanir, aumur í ökkla, fá högg í læri í miðjum leik og harka það af sér. Oft hlutir sem maður gleymir svona þegar líða tekur á leikinn eða í hita leiksins. Ég tognaði í ökkla í nokkur skipti, en samt, það var það lítið að ég missti eiginlega aldrei úr leik, ég var alltaf teipaður og spilaði svona, hvernig eigum við að orða þetta, hálfmeiddur.eða hálf, ég var alveg leikfær en kannski ekki alveg 100%. Ætli ég hafi ekki farið tvisvar í báðum nárum og hef þurft að spila í hitabuxum til að halda þeim góðum. Ég fékk líka innlegg í skóinn sem átti að hjálpa til. Annars sjá hitabuxurnar um að halda þeim góðum en það er alveg svona vottur af þessu ennþá. Ef ég þarf að gera eitthvað snöggt þá kemur þetta strax. En þetta er samt ekkert svona til að stoppa mann. 22

24 Öll þessi dæmi bera merki um ákveðna tvíræðni, þátttakendurnir viðurkenna að meiðslin hefðu annaðhvort meitt eða heft sig að einhverju leyti, samt sem áður fallast þeir ekki á það að hafa verið meiddir. Viðhorf þessi eru í takt við ríkjandi viðhorf á Englandi um að harka af sér og fótbolti sé enginn vettvangur fyrir kvein (Roderick, 2006; Roderick, Waddington og Parker, 2000). Þó svo að viðmælendurnir átta hafi allir viðurkennt að hafa spilað meiddir, þá skiptist þýðið engu að síður í tvo hópa hvað varðar algengi þess að spila meiddur og alvarleika meiðslanna. Þannig var svo að skilja að fimm þátttakenndana voru reiðubúnir til að spila reglulega meiddir og harka af sér erfið meiðsli, hinir þrír voru heldur varkárari. Einn þátttakandi lýsti ítarlega tildrögum þess þegar hann sleit krossband í mótsleik. Eftir að atvikið hafði skeð í frásögn hans, segir hann: Það var alveg ólýsanlega vont í einhverjar mínútur, lítið sem maður getur gert, maður bara svona engist um á jörðinni... mjög nálægt því að gráta. Síðan eftir svona smá aðhlynningu og smá tíma utanvallar, þá var ég í það skiptið tilbúinn að koma aftur inn á. Þegar þarna er komið við sögu vissi leikmaðurinn ekki um alvarleika meiðslanna. Þrátt fyrir að vera gráti nær, hélt hann aftur inn á völlinn eftir aðhlynningu þar til hann hné aftur niður í grasið. Þar með var leik hans lokið þann daginn. Næstu daga æfði hann sjálfur með það í huga að spila næsta leik, það var ekki fyrr en kvöldið fyrir leik, sem hann sætti sig við að hann gæti ekki spilað. Stuttu síðar komu niðurstöður úr myndatöku sem sýndu eðli meiðslanna. Þrír viðmælandana lýstu hvernig þeir hefðu harkað af sér vöðvameiðsli og beinbrot. Meiðslin gátu ýmist verið viðvarandi eða komið upp í miðjum leik, þrátt fyrir það var ekki möguleiki að hætta leik. Sá fimmti skýrði frá fjölmörgum meiðslum sem hefðu hrjáð hann í gegnum tíðina, þrátt fyrir það gaf hann nær alltaf kost á sér. Á meðal dæma sem hann nefnir er að tveimur dögum fyrir bikarúrslitaleik, springur brjósk út úr hálsliðum hans: 23

25 Ég var bara öskrandi úr kvölum, gat ekki hreyft á mér hálsinn. Ég er sendur til hnykkjara sjö sinnum á einum sólahring. Hann hnykkti mig klukkan eitt um nóttina, fjögur um nóttina, sjö um morgunin þriggja tíma fresti bara, var verið að hnykkja mig fram að bikarúrslitaleik. Þar voru mér gefin einhver lyf fyrir leik og ég var svo slæmur af verkjum að ég ældi í hálfleik og var sprautaður niður þá og eitthvað. Við það má bæta að leikmaðurinn spilaði 90. mínútur í umræddum leik þökk sé deyfingunni sem hann hlaut í hálfleik. Það að leikmenn séu reiðubúnir að leggja mikið á sig til þess að spila þýðingarmikla leiki hefur orðið á vegi rannsakenda áður (Roderick, Waddington og Parker, 2000). Viðmælandi hafði fjölmörg dæmi um hvernig hann spilaði þrátt fyrir að þjást af ótrúlegum kvölum og meiðslum sem heftu hreyfigetu hans, raunar var hann að eigin sögn aldrei heill. Í viðtalinu kom upp í umræðuna að þátttakandi hafði notast eingöngu við eitt par af legghlífum allan feril sinn. Að hans sögn væru þær afar druslulegar og veittu litla sem enga vernd. Hlutverk þeirra var eingöngu að uppfylla kröfurnar sem eru gerðar til leikmanna um að leika með legghlífar. Útskýrir hann ástæðuna fyrir því: Það skipti eiginlega engu máli hvað hinir gátu sparkað fast í legginn á mér því það yfirbugaði aldrei kvalirnar sem ég bar hvort sem er. Það var bara tittlingaskítur, þessvegna spilaði ég ökklabrotinn í eitt ár, jú jú ég var að drepast og ökklinn á mér var eins og tennisbolti alltaf. Þú veist ég var alltaf bólginn þarna og svo fer ég þarna semsagt(ar: á spítala), það sást ekkert á myndum sko útaf ég var svo bólginn, það var ekki hægt að sjá það á röngten. Viðmælandi lýsti með eigin orðum stuttu síðar að nýr sársauki hafi oft á tíðum verið velkominn til að draga hug hans frá öðrum verkjum. Verkjum sem hann fann að öðru leyti fyrir á hverjum degi. Því taldi hann lítið vit í því að verja leggi sína með nothæfum legghlífum. Það að spila ökklabrotinn var skárra heldur en að fást við kvalirnar sem hann var vanur lifa með. Þó ber að taka fram að leikmaðurinn vissi ekki 24

26 að hann væri ökklabrotinn sökum þess að erfitt var að fá greiningu vegna bólgunar. Saga hans ýtir undir þær kenningar að íþróttamenn þurfi að samþykkja að spila í gegnum sársauka (Hughes og Coakley, 1991; Nixon, 1993; Coakley, 2003). Af þeim þrem viðmælendum sem höfðu skynsamari nálgun gagnvart meiðslum, höfðu tveir þeirra glímt við þrálát meiðsli og hætt um skeið vegna þeirra. Báðir viðurkenndu að hafa áður spilað reglulega meiddir og sérstaklega í gegnum stök þrálát meiðsli, en nú væru breyttir tímar. Báðir töluðu um hvernig þeir þekktu betur einkennin og afleiðingarnar af því að þvinga líkamann áfram. Því draga þeir sig úr leik um leið og þeir finna einhver einkenni. Þriðji leikmaðurinn útskýrði að hann hefði ef til vill meiri þekkingu á líkamanum heldur en flestir aðrir leikmenn í ljósi menntunar sinnar. Því væri hann betur í stakk búinn til þess að taka rökstudda ákvörðun um hvort hann ætti að spila þegar hann var meiddur: Ef maður veit nokkurnveginn hvers eðlis meiðslin eru og veit að maður gerir þau ekkert verri við að spila, þá gerir maður það. Eftir á var sársaukinn ekkert meiri og maður var ekkert verri, bara þreyttari en vanalega og sérstaklega á svæðinu þar sem maður var tæpur. Síðan hugsar maður bara vel um sjálfan sig, kæla strax eftir leik og svona. Viðmælandi sá horfði frekar til heildarmyndarinnar, ef hann gat ekki beitt sér með þeim hætti að hann hjálpaði liðinu, þá var enginn ástæða til þess að spila. Einnig vildi hann síður hætta á að gera meiðslin verri en þau voru. Þó svo að sársaukinn hafi ekki verið verri á eftir, þá gefa orð hans til kynna að sársaukinn hafi vissulega verið til staðar á meðan hann spilaði. Það ýtir undir rannsóknir og kenningar fræðimanna sem telja að íþróttamenn þurfi að samþykkja sársauka sem hluta af lífi sínu (Hughes og Coakley, 1991; Nixon, 1993; Coakley, 2003). 5.1 Aðlagast meiðslunum Í rannsókn sem var framkvæmd ytra koma fram dæmi um hvernig leikmenn aðlaga leik sinn að meiðslum sínum og hvernig þeir hlýfa sérstaklega meiddum svæðum og halda 25

27 sér þannig gangandi (Roderick, Waddington og Parker, 2000). Þátttakendur í þessari rannsókn deildu einnig þeim sið og gáfu dæmi. Til að mynda lýsir einn þátttakendana hvernig hann ristarbrotnaði þegar hann var í þriðja flokk, þá 16 ára gamall. Honum hugnaðist ekki að taka sér frí og hélt ótrauður áfram, notaðist hann frekar við veikari fót sinn sem var heill og spyrnti eingöngu innanfótar þar sem hann var brotinn, til að vernda ristarbeinið. Annar leikmaður sem átti við þrálát nárameiðsli að stríða, lýsti hvernig hann takmarkaði leik sinn líkamlega á meðan hann reyndi að harka af sér meiðslin: Það voru ýmsar hreyfingar sem ég reyndi að passa, reyndi svona að beita líkamanum þannig að ég þyrfti ekki að gera þær. En ef maður þurfti að grípa til örþrifaráða þá fékk ég alltaf verki strax í nárann. Þá skýrði einn þátttakandi frá því að þegar hann var í kringum 16 ára aldur uppgvötaðist að hann væri með brotna hryggsúlu sem skemmdi mikið út frá sér. Þjáningarnar sem fylgdu voru það miklar að um tíma gat hann varla gengið, því hélt hann sig frá grasinu græna um skeið. Lýsir hann því tímabili sem miklum vonbrigðum og útskýrir í kjölfarið hvernig hann vann sig út úr erfiðleikunum eftir að hann sneri aftur á völlinn, ögn betri í bakinu: Ég þurfti bara að læra að spila leikinn upp á nýtt, ég var litli tekníski leikmaðurinn sem enginn gat náð og tók alla á fyrstu metrunum. Þegar ég byrjaði aftur þá var það bara ekkert að ganga, vegna þess að ég var of kvalinn til þess að taka snöggar hreyfingar, snúninga og þessháttar. Það þurfti bara að tosa í mig og þá var ég búinn út leikinn útaf bakinu á mér, það þoldi bara ekki peysutog og annað. Þannig ég þurfti að breyta um stíl, ég þurfti bara að fara verða meiri svona kraftspilari, svona meira á styrk, sem ég hef aldrei unnið neitt í og vissi ekki að ég byggi yfir þá, aldrei reynt á það einusinni. Hér er að finna gott dæmi um hvernig leikmenn eru tilbúnir að leggja mikla vinnu á sig til þess að halda sér inn á vellinum. Leikmaðurinn sem var þá afar ungur á 26

28 árum ákvað að breyta sjálfum sér sem leikmanni í von um að eiga framtíð í knattspynu. Vegna líkamlegra takmarkanna, þá fór hann úr því að vera leikin leikmaður sem hefur hraða framyfir flesta, yfir í að vera leikmaður sem getur haldið knettinum frá andstæðingum og einblínir á líkamlegan styrk. Saga viðmælenda ber einnig þess merki að hann hafi séð sig sem knattspyrnumann, þrátt fyrir áfallið hafi ekki komið til greina að breyta ímynd sinni og einbeita sér að öðrum hlutum (Mead, 1934; Goffman, 1959; Goffman, 1967; Weiss, 2001). 5.2 Eigin metnaður og ástríða Líkt og ýjað var að í inngangi þessarar rannsóknar þá var búist við því að leikmenn á Íslandi færu langt á eigin hvatningu og ástríðu fyrir leiknum. Svo kom daginn að allir þátttakendur nefndu á einhverjum tímapunkti í viðtölunum hvernig metnaður og ástríða þeirra fyrir leiknum hélt þeim gangandi. Einn þátttakandi sagði ástæðuna fyrir því að hann neitaði að horfast í augu við það að vera meiddur hafi verið sú að hann var í besta formi lífs síns og vildi ekki hægja á framförum sínum. Annar viðmælandi talaði um hvernig hugrenningar hans í aðdraganda bikarúrslitaleiks hafi verið á meðan hann var meiddur: Þetta var ekki neitt maður, þekki ekkert annað, þetta var bara sársauki. Ég var ekkert að fara láta einhvern sársauka stoppa mig í því að spila stærsta leik lífs míns. Dæmi þetta rímar við fyrri rannsóknir um hvernig leikmenn finna fyrir meiri þrýstingi, hvort sem hann er uppsprottinn frá sjálfum þeim eða öðrum, um að spila mikilvæga leiki (Roderick, Waddington og Parker, 2000). Sami viðmælandi talaði frjálslega um þær væntingar og vonir sem gerðar voru til hans á yngri árum en vegna þrálátra meiðsla leikmannsins stóðust þær væntingar ekki. Hann útskýrir þó hvað hélt honum við efnið þrátt fyrir líkamlega vankanta: 27

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Rannsóknarspurningin Treystir fólk sínum viðskiptabanka betur en öðrum og gæti það verið

More information

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni Aðferð til að Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni hvað er það?? Málsýni þýðing á enska orðinu language sample Dæmi um málsýni Notað í rannsóknum um máltöku

More information

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.)

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) www.landspitali.is Nafn Læknir Hjúkrunarfræðingur Símanúmer Ræddu eftirfarandi

More information

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir 1 Hvað er stjórnun viðskiptatengsla (CRM)? Stjórnun viðskiptatengsla er hugmyndafræði Stjórnun viðskiptatengsla er stefna Stjórnun viðskiptatengsla

More information

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu?

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? 8 janúar 2015 Áður en kaupferlið hefst Í kaupferlinu Eftir að kaupferlinu lýkur Í kaupferlinu Áður en kaupferlið hefst Vörulýsing og myndir Neytendur

More information

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept Gagnasafnsfræði Páll Melsted 16. sept Endurtekin gildi Ef við viljum losna við endurtekin gildi er hægt að nota DISTINCT SELECT DISTINCT name FROM MovieExec, Movie, StarsIn WHERE cert = producerc AND title

More information

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver 14 1 Excel Solver Excel Solver er viðbót (e. add-in) við Excel sem hjálpar til að finna bestu lausn á viðfangsefnum eins og þegar um er að ræða takmarkaðar

More information

Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012

Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012 Þjónustukönnun 2012-1 Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012 Niðurstöður könnunar á viðhorfum fullorðinna legudeildarsjúklinga til þjónustu á Landspítala. Ábyrgðarmenn Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri

More information

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði.

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði. Spilin á borðið Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Spilin á borðið: Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum

More information

Lokaverkefni í íþróttafræði BSc

Lokaverkefni í íþróttafræði BSc BAKGRUNNUR KNATTSPYRNUMANNA Á ÍSLANDI: RANNSÓKN Á LEIKMÖNNUM Í PEPSI DEILD, 1. DEILD OG 2. DEILD Kristján Gylfi Guðmundsson og Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson Lokaverkefni í íþróttafræði BSc 2012 Höfundur/höfundar:

More information

4) Þá ertu kominn inná routerinn og ætti valmyndin að líta út eins og sýnt er hér til hægri. 5) Því næst er smellt á Wizard setup

4) Þá ertu kominn inná routerinn og ætti valmyndin að líta út eins og sýnt er hér til hægri. 5) Því næst er smellt á Wizard setup Hægt er að tengjast við Zyxel 660W beininn bæði þráðlaust eða með netkapli í netkort tölvunnar. Stilla þarf tölvuna þannig að hún sæki sjálfkrafa IP tölu (Optain an IP Address Automatically). Mismunandi

More information

Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið

Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni

More information

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei 1 2 3 3_1 4 5 6 6_1 7 pige ísl nei hlutlaus vel mikið læri mikið á dönsku tímum og ef ég ætla í nám til dk þá er betra að kunna dönsku veit ekki pige ísl nei hlutlaus vel mikið eg læri nytt tungumal veit

More information

Uppsetning á Opus SMS Service

Uppsetning á Opus SMS Service Uppsetning á Opus SMS Service Undirbúningur Þetta þarf að vera til staðar: Opus SMS Service á að vera sett upp móðurtölvunni sem hýsir gagnagrunninn. Notandinn sem er innskráður á tölvunni þarf að vera

More information

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban 8. febrúar 2013 Eiríkur Gestsson Um mig Eiríkur Gestsson Tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík 2004 Hugur hf. og HugurAx frá 2004 til

More information

Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft mér að

Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft mér að March 2008 Volume 3, Number 1 Flavio Baroncelli - Staðalímyndir og sannleikur 1 translated by Egill Arnarson Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft

More information

ÍÞRÓTTADEILD. Vildbjerg - Danmark

ÍÞRÓTTADEILD. Vildbjerg - Danmark ÍÞRÓTTADEILD Vildbjerg - Danmark Úrval Útsýn Saga fyrirtæksins nær allt aftur til ársins 936. Markmið leiðandi ferðaskrifstofa á íslenskum markaði með framúrskarandi þjónustu. Vildbjerg 9.júlí - 5.ágúst

More information

Tónlist og einstaklingar

Tónlist og einstaklingar Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar Kristinn Arnar Benjamínsson Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar

More information

Áhrif aldurs á skammtímaminni

Áhrif aldurs á skammtímaminni Háskóli Íslands 7.5.2000 Félagsvísindadeild Þroski og lífstíðarþróun (10.02.02) Áhrif aldurs á skammtímaminni Tryggvi R. Jónsson (191177-3989) Ólafur Magnússon Kennari: Sigurður J. Grétarsson Rannsókn

More information

Tengsl skotleikjaspilunar og árásarhneigðar.

Tengsl skotleikjaspilunar og árásarhneigðar. Tengsl skotleikjaspilunar og árásarhneigðar. Greining á rannsókn meðal grunnskólabarna á Íslandi Arnór Helgi Knútsson HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni til BA gráðu í Sálfræði Sálfræðideild Maí 2015

More information

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR)

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) Aldur nemenda: 10 ára og upp úr Viðfangsefni: ofbeldi, einelti, samskipti Færnimarkmið: Hugtakaleikir ná að þjálfa flesta færniþætti samræðunnar Viðhorfamarkmið: Hugtakaleikir ná

More information

ÁNÆGJUVOGIN. Leiðarvísir um áherslur í íþróttastarfi barna og ungmenna

ÁNÆGJUVOGIN. Leiðarvísir um áherslur í íþróttastarfi barna og ungmenna ÁNÆGJUVOGIN Leiðarvísir um áherslur í íþróttastarfi barna og ungmenna Haust 2009 Ágæti lesandi Leiðarvísir þessi er hugsaður sem hjálpargagn við íþróttaþjálfun barna og ungmenna. Hann byggir á grunnstefnu

More information

Sjálfið á tímum stafræns veruleika

Sjálfið á tímum stafræns veruleika Sjálfið á tímum stafræns veruleika Upplifun einstaklinga af samskiptum í gegnum samfélagsmiðla, togstreita, áhrifastjórnun og skert geta til alhæfingar um mótleikara í stafrænum samskiptum. Lokaverkefni

More information

Heimsókn til Florida State University og IMG Academy

Heimsókn til Florida State University og IMG Academy Heimsókn til Florida State University og IMG Academy Dagana 28. mars til 6. apríl 2012 heimsótti undirritaður knattspyrnuleið Florida State University og IMG Academy í Flórída. Til þess naut ég ferðastyrks

More information

Sjúkdómsvæðing hegðunar:

Sjúkdómsvæðing hegðunar: Lokaverkefni til MA prófs í félagsfræði Sjúkdómsvæðing hegðunar: Hlutverk skólans í greiningarferli ADHD Anna Soffía Víkingsdóttir Febrúar 2016 Sjúkdómsvæðing hegðunar: Hlutverk skólans í greiningarferli

More information

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta?

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? www.ibr.hi.is Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? Erna Rós Kristinsdóttir Friðrik Eysteinsson Ritstjórar: Auður Hermannsdóttir Jón Snorri Snorrason Þóra Christiansen Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar

More information

Tak burt minn myrka kvíða

Tak burt minn myrka kvíða Lokaverkefni til BA-prófs í félagsfræði Tak burt minn myrka kvíða Sorgarferli aðstandenda eftir sjálfsvíg Katrín Gunnarsdóttir febrúar 2017 Tak burt minn myrka kvíða Sorgarferli aðstandenda eftir sjálfsvíg

More information

Eðlishyggja í endurskoðun

Eðlishyggja í endurskoðun Eðlishyggja í endurskoðun Komiði sæl. Gaman að sjá ykkur svona mörg hér. Eins og Sigríður sagði er ég að vinna að doktorsritgerð í heimspeki þar sem reyni að færa frumspekileg rök fyrir konstrúktivisma

More information

Námsferð í knattspyrnu til Philadelphiu í janúar 2014

Námsferð í knattspyrnu til Philadelphiu í janúar 2014 Námsferð í knattspyrnu til Philadelphiu í janúar 2014 Höfundar: Sverrir Óskarsson Arnar Bill Gunnarsson Guðmundur Brynjólfsson Ráðstefna í Philadelphiu í USA Ráðstefna amerísku þjálfarasamtakana, sem stóð

More information

Hver eru viðhorf þjálfara yngri flokka í handbolta til styrktarþjálfunar

Hver eru viðhorf þjálfara yngri flokka í handbolta til styrktarþjálfunar Hver eru viðhorf þjálfara yngri flokka í handbolta til styrktarþjálfunar Leifur Óskarsson Lokaverkefni í íþróttafræði BSc 2015 Höfundur: Leifur Óskarsson Kennitala: 130889-2209 Leiðbeinendur: Kristján

More information

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín Kennaraháskóli Íslands Kennsluréttindabraut Kennslufræði greinasviða og æfingakennsla Kennari: Elín María Thayer Ég sem kennari: Starfskenning mín Guðlaug Erlendsdóttir Nóvember 2007 Efnisyfirlit EFNISYFIRLIT...

More information

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Háskóli Íslands 3.4.2006 Viðskipta- og hagfræðideild Vinnusálfræði Vor 2006 Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Tryggvi R. Jónsson Kennari: Hafsteinn Bragason og Ægir Már Þórisson Fjarvinna 2 Val starfa

More information

Listaháskóli Íslands Leiklistar og dansdeild Samtímadans. Getur dans og hreyfimeðferð haft jákvæð og gagnleg áhrif á einstaklinga með geðhvarfasýki?

Listaháskóli Íslands Leiklistar og dansdeild Samtímadans. Getur dans og hreyfimeðferð haft jákvæð og gagnleg áhrif á einstaklinga með geðhvarfasýki? Listaháskóli Íslands Leiklistar og dansdeild Samtímadans Getur dans og hreyfimeðferð haft jákvæð og gagnleg áhrif á einstaklinga með geðhvarfasýki? Arndís Benediktsdóttir Leiðbeinandi: Ásgerður G. Gunnarsdóttir

More information

Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf. Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir og Kristín Dýrfjörð

Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf. Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir og Kristín Dýrfjörð Athugið ritið er ekki prófarkalesið Röggur Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir gudrun@unak.is og Kristín Dýrfjörð dyr@unak.is 1 tbl. 4.

More information

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Samtök iðnaðarins - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Framkvæmdarlýsing - félagsmannakönnun Unnið fyrir Markmið Samtök iðnaðarins Að kanna viðhorf félagsmanna SI til Evrópumála og þróun þar á Framkvæmdatími

More information

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Fólkstegundir. Um veitingu félagslegra eiginleika

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Fólkstegundir. Um veitingu félagslegra eiginleika Hugur 21. ár, 2009 s. 52 62 Ásta Kristjana Sveinsdóttir Fólkstegundir Um veitingu félagslegra eiginleika Um langt skeið hefur verið umræða í fræðaheiminum, jafnt sem annars staðar, um hvort ýmis fyrirbæri

More information

Jákvæð samskipti af hverju eru þau mikilvæg? Páll Ólafsson Félagsráðgjafi

Jákvæð samskipti af hverju eru þau mikilvæg? Páll Ólafsson Félagsráðgjafi Jákvæð samskipti af hverju eru þau mikilvæg? Páll Ólafsson Félagsráðgjafi Getur verið að þetta sé svona einfalt? Að börn þroskist best - ef þau eru elskuð fyrir það sem þau ERU en ekki vegna þess sem þau

More information

Stúlkur og Asperger-heilkenni

Stúlkur og Asperger-heilkenni Stúlkur og Asperger-heilkenni Kynbundin áhrif heilkennisins á sjálfsmynd og félagslega stöðu Berglind Harpa Björnsdóttir Sally Ann Vokes Lokaverkefni til B.A.-prófs Þroskaþjálfadeild Stúlkur og Asperger-heilkenni

More information

Á vaktinni með sveigjanlegum stöðugleika. Hildur Fjóla Antonsdóttir Guðbjörg Linda Rafnsdóttir Herdís Sveinsdóttir Hólmfríður K.

Á vaktinni með sveigjanlegum stöðugleika. Hildur Fjóla Antonsdóttir Guðbjörg Linda Rafnsdóttir Herdís Sveinsdóttir Hólmfríður K. Á vaktinni með sveigjanlegum stöðugleika Hildur Fjóla Antonsdóttir Guðbjörg Linda Rafnsdóttir Herdís Sveinsdóttir Hólmfríður K. Gunnarsdóttir Skýrsla Rannsóknastofu í vinnuvernd unnin fyrir starfshóp um

More information

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun. Námstengd hvatning

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun. Námstengd hvatning MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun Námstengd hvatning Hvað hvetur háskólanema á Íslandi í námi? Kolbrún Eva Sigurjónsdóttir Leiðbeinandi: Kári Kristinsson, lektor Viðskiptafræðideild Febrúar 2012 Námstengdhvatning

More information

Að efla félagshæfni leikskólabarna

Að efla félagshæfni leikskólabarna Að efla félagshæfni leikskólabarna Heiða María Angantýsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs Kennaradeild Að efla félagshæfni leikskólabarna Heiða María Angantýsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í leikskólakennarafræði

More information

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness Hagir og líðan barna í Grunnskóla s Niðurstöður rannsókna meðal nemenda í., 6. og 7. bekk á i árið 27 Birna Baldursdóttir Margrét Lilja Guðmundsdóttir Álfgeir Logi Kristjánsson Inga Dóra Sigfúsdóttir Jón

More information

Þetta er starfið sem fer fram, ekki staðurinn Rannsókn á vettvangi ungmennahúsa

Þetta er starfið sem fer fram, ekki staðurinn Rannsókn á vettvangi ungmennahúsa Þetta er starfið sem fer fram, ekki staðurinn Rannsókn á vettvangi ungmennahúsa Hafsteinn Bjarnason Kristján Ari Halldórsson Lokaverkefni til BA-prófs Íþrótta-, tómstunda og þroskaþjálfadeild Þetta er

More information

Að heiman. Aðskilnaður og heimþrá. Ágrip. Aðskilnaður frá foreldrum til styttri eða lengri tíma getur haft ýmsar afleiðingar í för með sér.

Að heiman. Aðskilnaður og heimþrá. Ágrip. Aðskilnaður frá foreldrum til styttri eða lengri tíma getur haft ýmsar afleiðingar í för með sér. Að heiman Aðskilnaður og heimþrá Guðrún Helga Ástríðardóttir, ghe8@hi.is Nemi í uppeldis og menntunarfræði Sveinbjörg Zophoníasdóttir, svz2@hi.is Nemi í uppeldis og menntunarfræði Ágrip Aðskilnaður frá

More information

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum:

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild-menntavísindabraut Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Endurskoðun á forvörnum og eineltisstefnum í framhaldsskóla Eva Dröfn Möller Akureyri Júní, 2013 Háskólinn

More information

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Umfjöllun 1. Stutt lýsing á Mati á stuðningsþörf: SIS 2. Einstaklingsbundnar

More information

Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra gatnamóta á umferðaröryggi

Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra gatnamóta á umferðaröryggi Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra Rannsóknarverkefni Vegagerðarinnar Janúar 206 www.vso.is Borgartún 20 585 9000 05 Reykjavík vso@vso.is 575 S:\205\575\v\Greinagerð\575_Greinargerð.docx Janúar 206

More information

Hvert er hlutverk sölustjórans?

Hvert er hlutverk sölustjórans? Viðskiptafræðisvið Hvert er hlutverk sölustjórans? Ritgerð til BS gráðu Nafn nemenda: Jóna Dóra Ásgeirsdóttir Leiðbeinandi: A. Agnes Gunnarsdóttir Haustmisseri 2015 i Hvert er hlutverk sölustjórans? Lokaverkefni

More information

Máltaka barna. Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir

Máltaka barna. Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir Máltaka barna Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari: Sigurður Konráðsson Kennaradeild Menntavísindasvið Háskóla

More information

Beauty tips byltingin

Beauty tips byltingin Beauty tips byltingin Rannsókn á samfélagsmiðlasíðunni Beauty tips byggð á félagsvísindum Kolfinna María Níelsdóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni til BA gráðu í félagsvísindum Hug- og félagsvísindasvið

More information

Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir

Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir Ásthildur Embla Friðgeirsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði Júní 2015 Eru börn gerendur eða bjargarlausar

More information

KARFAN TÍMARIT KÖRFUKNATTLEIKSDEILDAR KR ÚRSLITAKEPPNIR 2018 KR KARFAN 1

KARFAN TÍMARIT KÖRFUKNATTLEIKSDEILDAR KR ÚRSLITAKEPPNIR 2018 KR KARFAN 1 KARFAN TÍMARIT KÖRFUKNATTLEIKSDEILDAR KR ÚRSLITAKEPPNIR 2018 KR KARFAN 1 2 KR KARFAN Kæru KR-ingar Þegar sólin tekur að hækka á lofti kemur að skemmtilegasta tímanum í körfuboltanum, úrslitakeppninni.

More information

Ronald Postma: Kitchen appliance to grow mushrooms was the project. Plugin Neon for Rhino and downloaded Bongo.

Ronald Postma: Kitchen appliance to grow mushrooms was the project. Plugin Neon for Rhino and downloaded Bongo. Week 3: Computer Controlled Cutting 11.2. 2015 This week we will learn about the mechanical application of computer aided design. The assignment for this week is to design, make, and document a press-

More information

Hugvísindasvið. Ábyrgð Vesturlanda. Berum við ábyrgð á að hjálpa fólki í þriðja heiminum? Ritgerð til B.A.-prófs.

Hugvísindasvið. Ábyrgð Vesturlanda. Berum við ábyrgð á að hjálpa fólki í þriðja heiminum? Ritgerð til B.A.-prófs. Hugvísindasvið Ábyrgð Vesturlanda Berum við ábyrgð á að hjálpa fólki í þriðja heiminum? Ritgerð til B.A.-prófs Naomi Lea Grosman Janúar 2010 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Ábyrgð Vesturlanda

More information

Samtöl um dauðann. Fyrirbærafræðileg rannsókn á viðhorfum aldraðra til lífs og dauða og til meðferðar við lífslok. Ágrip

Samtöl um dauðann. Fyrirbærafræðileg rannsókn á viðhorfum aldraðra til lífs og dauða og til meðferðar við lífslok. Ágrip Samtöl um dauðann Fyrirbærafræðileg rannsókn á viðhorfum aldraðra til lífs og dauða og til meðferðar við lífslok Helga Hansdóttir 1 sérfræðingur í lyf- og öldrunarlækningum Sigríður Halldórsdóttir 2 hjúkrunarfræðingur,

More information

Skólaskrifstofa Austurlands. Virknimat

Skólaskrifstofa Austurlands. Virknimat Skólaskrifstofa Austurlands Búðareyri 4, 730 Reyðarfjörður Virknimat Virknimat (functional behavioral assessment) er skipulagt ferli til að (Yell, Meadows, Drasgow & Shriner, 2009; Kern, O Neill & Starosta,

More information

Ég nota alla lausa tíma sem ég hef

Ég nota alla lausa tíma sem ég hef Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 22. desember 2014 Yfirlit greina Hjördís Sigursteinsdóttir, Eva Halapi og Kjartan Ólafsson Ég nota alla lausa tíma sem ég hef Netnotkun íslenskra ungmenna

More information

Atriði úr Mastering Metrics

Atriði úr Mastering Metrics Atriði úr Mastering Metrics Helgi Tómasson 13. september 2015 Helgi Tómasson Atriði úr Mastering Metrics 13. september 2015 1 / 11 Ýmis atriði ACA= Care Act er umdeilt efni í USA. Hafa heilbrigðistryggingar

More information

um lífi Si fræ i fyr ir ungt fólk Vinnublöð

um lífi Si fræ i fyr ir ungt fólk Vinnublöð Lei flín um lífi Si fræ i fyr ir ungt fólk Vinnublöð Leonore Brauer Dr. Richard Breun Dr. Astrid Erdmann Maritta Schöne Íslensk þýðing: 2008 Skúli Pálsson Gefið út með leyfi Ernst Klett Schulbuchverlag

More information

Ég ætla að verða hel-massaður -Áhrif útlitsdýrkunar á unga karlmenn-

Ég ætla að verða hel-massaður -Áhrif útlitsdýrkunar á unga karlmenn- Ég ætla að verða hel-massaður -Áhrif útlitsdýrkunar á unga karlmenn- Arna Björk Árnadóttir Dagný Edda Þórisdóttir Þórunn Vignisdóttir Lokaverkefni lagt fram til fullnaðar B.A.-gráðu í Tómstunda-og félagsmálafræði

More information

Þetta er ég en samt með þessu twisti Sviðsetning lífstílsbloggara

Þetta er ég en samt með þessu twisti Sviðsetning lífstílsbloggara Þetta er ég en samt með þessu twisti Sviðsetning lífstílsbloggara Ríkey Guðmundsdóttir Eydal Lokaverkefni til BA-gráðu í þjóðfræði Félagsvísindasvið Þetta er ég en samt með þessu twisti Sviðsetning lífstílsbloggara

More information

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands VIÐSKIPTASVIÐ Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands Ritgerð til BS gráðu Nafn nemanda: Guðrún Erna Hafsteinsdóttir Leiðbeinandi: Haraldur Daði Ragnarsson

More information

Lokaverkefni til BS-prófs í viðskiptafræði

Lokaverkefni til BS-prófs í viðskiptafræði Lokaverkefni til BS-prófs í viðskiptafræði Vöruinnsetningar og duldar auglýsingar Sjónarhorn bloggara og snappara Eva María Schiöth Jóhannsdóttir Leiðbeinandi: Auður Hermannsdóttir, aðjúnkt Febrúar 2017

More information

Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla. Tryggvi Guðbjörn Benediktsson. B.Sc. í Viðskiptafræði

Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla. Tryggvi Guðbjörn Benediktsson. B.Sc. í Viðskiptafræði Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla Tryggvi Guðbjörn Benediktsson B.Sc. í Viðskiptafræði Vor 2012 Tryggvi Benediktsson Leiðbeinandi: Kt. 240789-2809 Arney Einarsdóttir Ágrip Persónuleiki

More information

Facebook og flokkarnir: Rannsókn á notkun íslenskra stjórnmálaflokka á samfélagsmiðlum

Facebook og flokkarnir: Rannsókn á notkun íslenskra stjórnmálaflokka á samfélagsmiðlum n Fræðigreinar STJÓRNMÁL Facebook og flokkarnir: Rannsókn á notkun íslenskra stjórnmálaflokka á samfélagsmiðlum Baldvin Þór Bergsson, doktorsnemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands Útdráttur Vægi samfélagsmiðla

More information

Orðaforðanám barna Barnabók

Orðaforðanám barna Barnabók Orðaforðanám barna Barnabók Hrund Hermannsdóttir Lokaverkefni til B.ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari: Sigurður Konráðsson Kennaradeild Menntavísindasvið Háskóla Íslands Febrúar 2012 Ágrip

More information

Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi

Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2015 Yfirlit greina Guðrún V. Stefánsdóttir Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu

More information

Efnisyfirlit. Æfingar - Peter Knäbel Yves Débonnaire Dany Ryser 40. Samantekt 42. Bókalisti 43. Þakkir Myndasafn...

Efnisyfirlit. Æfingar - Peter Knäbel Yves Débonnaire Dany Ryser 40. Samantekt 42. Bókalisti 43. Þakkir Myndasafn... Efnisyfirlit Formáli... 3 Hansruedi Hasler Fræðslustjóri knattspyrnusambands Sviss..... 4 Markus Frie - Aðalþjálfari Grasshoppers..... 12 Peter Knäbel Yfirþjálfari barnaþjálfunar í FC Basel... 17 Yves

More information

Markþjálfun. Hvað er nú það? Signý Hlíf Árnadóttir. Lokaverkefni til BA-prófs Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild

Markþjálfun. Hvað er nú það? Signý Hlíf Árnadóttir. Lokaverkefni til BA-prófs Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild Markþjálfun Hvað er nú það? Signý Hlíf Árnadóttir Lokaverkefni til BA-prófs Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild Markþjálfun Hvað er nú það? Signý Hlíf Árnadóttir Lokaverkefni til BA-prófs í tómstunda-

More information

Svefn- og matarvenjur knattspyrnumanna á Suðurnesjum

Svefn- og matarvenjur knattspyrnumanna á Suðurnesjum Svefn- og matarvenjur knattspyrnumanna á Suðurnesjum Þórir Rafn Hauksson Íþróttafræði Kennslufræði- og lýðheilsudeild Vor 28 Útdráttur Meginmarkmið og tilgangur þessarar rannsóknar er að kanna hvernig

More information

Vormisseri Ekki bara leikur. Knattspyrna: Lífstíll og menning eða trú? Gunnar Stígur Reynisson

Vormisseri Ekki bara leikur. Knattspyrna: Lífstíll og menning eða trú? Gunnar Stígur Reynisson Háskóli Íslands Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Vormisseri 2009 GFR402G BA-ritgerð í guðfræði Dr. Pétur Pétursson Ekki bara leikur Knattspyrna: Lífstíll og menning eða trú? Gunnar Stígur Reynisson 271081-5109

More information

Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on.

Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on. Mánudagur 6. nóvember 2017. http://www.capfrance-terrou.com/ Rene about vocabulary Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on. Dvelopment

More information

Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara

Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara Edda Kjartansdóttir Þegar skynjanir vorar, hugsanir og hugsjónir hræra strengi tilfinninganna þá fyrst kemst rót á oss, þá losnar viljinn úr læðingi og knýr

More information

Jákvæður agi Jákvæður agi kennir félagsfærni og lífsleikni

Jákvæður agi Jákvæður agi kennir félagsfærni og lífsleikni Jákvæður agi Í starfi okkar leggjum við til grundvallar uppeldisstefnu sem nefnist Jákvæður agi (Positive Discipline). Stefnan byggir á sjálfsstjórnarkenningum, sem fela það í sér að horft er á orsakir

More information

1 Inngangur Hvað er frammistöðumat og hvernig á að mæla það? gráðu mat/endurgjöf Gagnrýni á 360 gráðu mat...

1 Inngangur Hvað er frammistöðumat og hvernig á að mæla það? gráðu mat/endurgjöf Gagnrýni á 360 gráðu mat... Efnisyfirlit 1 Inngangur... 1 2 Hvað er frammistöðumat og hvernig á að mæla það?... 2 2.1 Ávinningur frammistöðumats... 4 2.2 Framkvæmd frammistöðumatsins... 5 2.3 Hver á að meta hvern?... 5 3 360 gráðu

More information

Leiðbeinandi: Sigrún Júlíusdóttir Nemandi: Rakel María Oddsdóttir Kennitala:

Leiðbeinandi: Sigrún Júlíusdóttir Nemandi: Rakel María Oddsdóttir Kennitala: Leiðbeinandi: Sigrún Júlíusdóttir Nemandi: Rakel María Oddsdóttir Kennitala: 120478 3549 Útdráttur Heimildaritgerð þessi er BA ritgerð nemanda í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands en efni ritgerðarinnar

More information

Þetta er einhver alveg ólýsanleg tenging, þessi tilfinning að vera svona einn með náttúrunni.

Þetta er einhver alveg ólýsanleg tenging, þessi tilfinning að vera svona einn með náttúrunni. Þetta er einhver alveg ólýsanleg tenging, þessi tilfinning að vera svona einn með náttúrunni. Eigindleg rannsókn á upplifun víðerna og viðhorfum um afmörkun og stýringu meðal ólíkra útivistarhópa á miðhálendinu

More information

Hegðun foreldra sem áhrifaþáttur þess að unglingar á Íslandi leggja í einelti

Hegðun foreldra sem áhrifaþáttur þess að unglingar á Íslandi leggja í einelti Running head: HEGÐUN FORELDRA TENGT EINELTI UNGLINGA 1 Hegðun foreldra sem áhrifaþáttur þess að unglingar á Íslandi leggja í einelti Sandra Melberg Pálsdóttir 2013 BSc í Sálfræði Höfundur: Sandra Melberg

More information

Viðhorf formanna knattspyrnudeilda til Pepsi-deild karla á Íslandi

Viðhorf formanna knattspyrnudeilda til Pepsi-deild karla á Íslandi BSc í Íþróttafræði Viðhorf formanna knattspyrnudeilda til Pepsi-deild karla á Íslandi Maí, 2017 Höfundur: Davíð Sævarsson Kennitala: 221090-2849 Leiðbeinendur: Birnir Egilsson og Margrét Lilja Guðmundsdóttir

More information

BS ritgerð í viðskiptafræði. Upplifun viðskiptafræðinemenda Háskóla Íslands á BS-ritgerðarskrifum

BS ritgerð í viðskiptafræði. Upplifun viðskiptafræðinemenda Háskóla Íslands á BS-ritgerðarskrifum BS ritgerð í viðskiptafræði Upplifun viðskiptafræðinemenda Háskóla Íslands á BS-ritgerðarskrifum Hefur skipulagning og utanumhald á BS-ritgerðum áhrif á brottfall nemenda úr námskeiðinu? Helga Steinunn

More information

Ungt fólk Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna

Ungt fólk Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna Ungt fólk 2004 Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna Rannsóknir meðal nemenda í framhaldsskólum á Íslandi 2004 og 2000 Álfgeir Logi Kristjánsson Silja Björk Baldursdóttir

More information

1 Inngangur. Þetta kort sýnir hvernig uppbygging ritgerðarinnar er: Vellíðan. Hvað getur skólinn gert? Íslandi. Inngangur Sjálfsmynd

1 Inngangur. Þetta kort sýnir hvernig uppbygging ritgerðarinnar er: Vellíðan. Hvað getur skólinn gert? Íslandi. Inngangur Sjálfsmynd Útdráttur Einu barni af hverjum átta í grunnskóla líður ekki vel. Þegar tekið er tillit til lakari námsárangurs, aukinnar truflunar í tímum og jafnvel enn alvarlegri afleiðinga eins og þunglyndi og sjálfsvíga,

More information

Alzheimers-sjúkdómur. Jón Snædal yfirlæknir, öldrunarlækningadeild

Alzheimers-sjúkdómur. Jón Snædal yfirlæknir, öldrunarlækningadeild Alzheimers-sjúkdómur Jón Snædal yfirlæknir, öldrunarlækningadeild LSH Landakoti Hvað er Alzheimers-sjúkdómur? Alzheimers-sjúkdómur er hrörnunarsjúkdómur í heila og er án þekktrar ástæðu í flestum tilfellum.

More information

Á vegferð til fortíðar?

Á vegferð til fortíðar? Á vegferð til fortíðar? Rússland undir stjórn Pútín Ármann Snævarr Lokaverkefni til MA-gráðu í alþjóðasamskiptum Félagsvísindasvið Júní 2015 Á vegferð til fortíðar? Rússland undir stjórn Pútíns Ármann

More information

Háskóli Íslands Menntavísindasvið leikskólakennaradeild Leikir sem kennsluaðferð GLF034G-V09 Ingvar Sigurgeirsson

Háskóli Íslands Menntavísindasvið leikskólakennaradeild Leikir sem kennsluaðferð GLF034G-V09 Ingvar Sigurgeirsson Háskóli Íslands Menntavísindasvið leikskólakennaradeild Leikir sem kennsluaðferð GLF034G-V09 Ingvar Sigurgeirsson Anna Egilsdóttir 080781-3269 ane8@hi.is Sólvellir 19 600 Akureyri 1 Efnisyfirlit 1 Inngangur...

More information

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Gagnvirkar töflur Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum Hólmfríður Ásmundsdóttir 270369-5459 Háskóli Íslands Menntavísindasvið Kennaradeild, grunnskólakennarafræði

More information

Lean Cabin - Icelandair

Lean Cabin - Icelandair VIÐSKIPTASVIÐ Lean Cabin - Icelandair Hver var árangur Icelandair á innleiðingu Lean Cabin? Ritgerð til BS gráðu Nafn nemanda: Hafdís Hafsteinsdóttir Leiðbeinandi: Brynjar Þór Þorsteinsson Vorönn 2015

More information

Þeir vilja ekki leika, bara tala saman

Þeir vilja ekki leika, bara tala saman Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóli Íslands Ritrýnd grein birt 28. desember 2017 Yfirlit greina Sara M. Ólafsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir Þeir vilja ekki leika, bara tala

More information

Eftirfarandi er reynsla þriggja einstaklinga sem eiga við þráhyggju-árátturöskun að stríða...

Eftirfarandi er reynsla þriggja einstaklinga sem eiga við þráhyggju-árátturöskun að stríða... Eftirfarandi er reynsla þriggja einstaklinga sem eiga við þráhyggju-árátturöskun að stríða... Ég óttast að smitast af einhverju af öðrum, ég óttast það að sýklarnir og bakteríurnar, sem aðrir bera með

More information

Viðskiptasvið. Markaðssetning nýrrar hönnunar Lykilþættir í markaðssetningu

Viðskiptasvið. Markaðssetning nýrrar hönnunar Lykilþættir í markaðssetningu Viðskiptasvið Markaðssetning nýrrar hönnunar Lykilþættir í markaðssetningu Ritgerð til BA gráðu Nafn nemanda: Úlfhildur E. Þ. Bjarnasen Leiðbeinandi: Ragnar Már Vilhjálmsson vor 2014 Markaðssetning nýrrar

More information

,,Með því að ræða, erum við að vernda

,,Með því að ræða, erum við að vernda ,,Með því að ræða, erum við að vernda Áfengisneysla unglinga og opin umræða á heimilum Helga Karólína Karlsdóttir Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild ,,Með því að ræða, erum við

More information

Samtal er sorgar læknir

Samtal er sorgar læknir Samtal er sorgar læknir Leiðirnar til betra lífs Áslaug Tóka Gunnlaugsdóttir 221274-6019 Lokaverkefni til MA- prófs í Hagnýtri Menningarmiðlun Leiðbeinendur; Ármann H. Gunnarsson og Sumarliði Ísleifsson

More information

Ofbeldissamband yfirgefið

Ofbeldissamband yfirgefið Ritrýndar greinar Ofbeldissamband yfirgefið Ingólfur V. Gíslason, fil. dr. í félagsfræði, dósent við Háskóla Íslands. Valgerður S. Kristjánsdóttir, MA í félagsfræði, hjá Leikskólanum Grænuborg. Ingólfur

More information

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn?

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut 29 Lesum saman Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Guðríður Anna Sveinsdóttir Lokaverkefni Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild

More information

Ætla má að hátt á 10 þúsund manns hafi sótt þessa ráðstefnu.

Ætla má að hátt á 10 þúsund manns hafi sótt þessa ráðstefnu. Þjálfararáðstefna NSCAA (National Soccer Coaches Association of America) 13.-17.janúar 2010 Undirritaður sótti árlega þjálfararáðstefnu Bandaríska þjálfarasambandsins dagana 13.-17. Janúar 2010. Með í

More information

Jesús Kristur eða Jesús Navas:

Jesús Kristur eða Jesús Navas: Jesús Kristur eða Jesús Navas: Getum við lagt knattspyrnu að jöfnu við trúarbrögð? Runólfur Trausti Þórhallsson Maí 2016 Jesús Kristur eða Jesús Navas: Getum við lagt knattspyrnu að jöfnu við trúarbrögð?

More information

10. kafli fordómar og mismunun

10. kafli fordómar og mismunun 10. kafli fordómar og mismunun Eðli og víddir fordóma (nature and dimensions of prejudice) Þegar einn hópur fólks hatar annan hóp svo mikið að þeir geta af ásettu ráði pynt og myrt saklausa óbreytta borgara

More information

Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi

Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi Maduvanthi Kumari Abeyrathne Lokaverkefni til B.Ed. prófs í Leikskólakennarafræði Leiðsögukennari: Hildur Blöndal Sveinsdóttir

More information

Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu

Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu Ritgerð til BA prófs í listfræði Þóra Vilhjálmsdóttir Maí 2014 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Listfræði Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina Kennsluáætlun haust 2018 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information