Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen

Size: px
Start display at page:

Download "Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen"

Transcription

1 Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen með eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason Í þessu kveri mun ég freista þess að skýra hlutverk heimspekinnar í þeim tilgangi að lesturinn gagnist þeim sem fást við kennslu á grunnskólastigi. Hvort sem þeir fást við kennslu heimspeki eða annarra greina ætti þeim að verða ljósir möguleikar heimspekilegra aðferða í allri kennslu. Það skal fram tekið að hér verður að litlu eða engu leyti farið út í það hvernig eigi að kenna heimspeki heldur farið orðum um viðfangsefni heimspekilegrar hugsunar. Mér er ljóst að heiti kversins, Hlutverk heimspekinnar, kann að virka upphafið og jafnvel fráhindrandi fyrir þann sem aldrei hefur komist í tæri við heimspeki áður. Til er ágætis skilgreining á hlutverki heimspekinnar sem hljóðar svo: Hvers vegna skyldu menn sem verja mestum tíma sínum í að hugleiða torráðnustu gátur tilverunnar endilega hafa vit og áhuga samfélagsmálum? Hvers vegna skyldi heimspekingurinn, fangi sem losnar úr hlekkjunum, kemst upp í dagsbirtuna og nýtur veruleikans sem hann sér, snúa aftur niður í rökkvaðan hellinn til að gerast leiðtogi fanganna? Sú staðreynd að Platon telur heimspekinginn eiga erindi niður í hellinn aftur hefur sett varanlegt mark á alla hugsun okkar um hlutverk heimspekinnar. 1 Ekki er víst að allir taki fullum fetum undir þessa fullyrðingu og sérhver heimspekingur ætti ef til vill að setja sér það verkefni að sannreyna og gagnrýna ef hægt er allar slíkar kenningar út frá sinni eigin hugsun og reynslu en ekki eingöngu mynda sér skoðanir á grundvelli dauðrar þekkingar. 2 Markmið mitt með þessu kveri er að búa til nokkurs konar áttavita fyrir áhugafólk um heimspeki og heimspekilega samræðu sem kennsluaðferð. Í neðanmálsgreinum bendi ég á frekari lesefni þegar við á. Í lok skjalsins eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu kveri verður leitað svara við eftirfarandi spurningum: 1 Eyjólfur Kjalar Emilsson. (1997). Inngangur í Platon. Ríkið. Fyrra bindi. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, bls Ég sæki hugtakið dauða þekkingu til Nönnu Hlínar Halldórsdóttur (einkasamtal) út frá öðru, lifandi þekkingu, sem teflt er fram gegn því og mætti útskýra þannig að lifandi heimspeki er ætlað að leggja eitthvað til málanna og hafa áhrif á heiminn eða samfélagið hér og nú. Dæmi um dauða þekkingu væri hins vegar ráðstefna eða ritgerð um rannsóknir einhvers látins fræðimanns sem einungis gagnast þröngum hópi áhugamanna um hið tiltekna efni. Ég þakka Nönnu Hlín fyrir að kynna mér fyrir þessum hugtökum. Mér finnst gagnverkun þeirra varpa ljósi á kennslufræðilegan vanda sem bíður úrlausnar, og að lausnin felist ekki í að annað útiloki hitt heldur í nokkurs konar samspili beggja. Þá má bæta því við að samkvæmt Nönnu Hlín sé lifandi þekking að geta speglað hugmyndunum sem maður er að glíma við á sitt eigið líf. Spurningin er þá: Hvernig gerum við það í kennslu? Hvernig nálgumst við hugmyndirnar þannig að nemendur tengi við þær en lesi þær ekki sem dauðan staf upp á töflu (Nanna Hlín Halldórsdóttir, 2012). 1

2 Hvað er heimspeki? (Bls. 2) Hvað er siðfræði? (Bls. 5) Hvað er frumspeki? Hvað er þekkingarfræði? (Bls. 13) Hvað er rökfræði? (Bls. 18) Hvað er heimspeki? 3 Heimspeki er glíman við grundvallarspurningar um veruleikann, tilvist og stöðu mannsins í alheiminum. 4 Þannig gæti eitt svar við ofangreinda spurningu hljóðað. Annað svar við henni gæti verið: Heimspeki felst í því að hugsa og um leið að hugsa um hugsunina. Enn önnur leið til að svara spurningunni væri að fjalla svolítið um þær spurningar sem heimspekingar hafa fengist við í gegnum aldirnar og þær aðferðir sem þeir hafa beitt í þeirri glímu. Til að svara spurningunni hvað heimspeki sé þarf raunar að fjalla um allar þessar hliðar og e.t.v. fleiri til. Þegar nemendum er kynnt heimspeki í fyrsta sinn í grunn- eða framhaldsskóla vilja þeir auk þess í mörgum tilfellum vita að hvaða gagni hún komi. Þá er ekki óalgengt að þeir spyrji: Til hvers þurfum við að vita þetta? Sú spurning er ekki alvitlaus. Vandinn er hins vegar sá að þegar kemur að ástundun heimspeki er það sama upp á teningnum með seinni spurninguna og þá fyrri: Við henni er ekkert eitt ákveðið svar. Og ungt fólk er yfirleitt þannig gert og ekkert öðruvísi en annað fólk, að það vill helst fá skýr svör við einföldum spurningum. En þegar kemur að heimspeki er staðreyndin sú að ávinningurinn felst í glímunni við spurningunni, ekki í svarinu. Og það sem meira er, oft á tíðum búumst við ekki við að finna ákveðin svör. Heimspeki er rannsókn á möguleikum. 5 Hér á eftir ætla ég að fara þriðju leiðina, sem ég nefndi hér efst, í því að svara fyrstu spurningunni hvað er heimspeki? og fjalla örlítið um heimspekinginn Aristóteles ( f.kr.) og nokkur grunnstef heimspekinnar sem rekja má til hans og helstu fyrirrennara hans. Þessi umfjöllun er ekki tæmandi og einungis hugsuð sem almenn kynning fyrir kennara, nema og áhugamenn um heimspeki og heimspekikennslu. 6 3 Áhugasömum er bent á samnefnt greinasafn í ritstjórn Ármanns Halldórssonar og Róberts Jack. (2001). Hvað er heimspeki? tíu greinar frá tuttugustu öld. Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands. 4 Páll Skúlason. (1995). Í skjóli heimspekinnar. Reykjavík: Háskólaútgáfan, bls Hér haft eftir Hrein Pálsson í viðtali við Róbert Jack. (2011). Barnaheimspeki er rannsókn á möguleikum. Sótt 25. júní 2012 af vef verkefnisins Efling gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í skólum, Í meðförum Hreins á skilgreiningin, eins og titillinn gefur til kynna, reyndar við um barnaheimspeki en engu að síður má einnig heimfæra hana á heimspeki. 6 Áhugasömum er bent á inngang Svavars Hrafns Svavarssonar að riti Aristótelesar. (1995). Í Þorsteinn Hilmarsson (ritstj.), Siðfræði Níkomakkosar (þýð. Svavar Hrafn Svavarsson). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, bls Einnig er bent á eftirfarandi yfirlit um Aristóteles: Ólafur Jens Pétursson. (1985). Hugmyndasaga. Reykjavík: Mál og menning, bls ; Vilhjálmur Árnason. (1990). Þættir úr sögu siðfræðinnar. Reykjavík: Háskóli Íslands, bls Í eftirfarandi yfirliti sæki ég að einhverju leyti til þessara heimilda. 2

3 Aristóteles nam og kenndi um alllangt skeið við skóla Platons ( f.kr.), Akademíu, eða frá árinu 367 f.kr. til dauða læriföður síns. Eftir það ferðaðist hann í rúman áratug um Litlu-Asíu og stundaði náttúrurannsóknir. Á þessu tímabili varði hann einum vetri, f.kr., við að mennta son Makedóníukonungsins Filippusar II ( f.kr.), hinum unga Alexander ( f.kr.). Ári eftir að Alexander tók við ríkidæmi föður síns, sem hafði verið myrtur, stofnaði Aristóteles skólann Lykeion í Aþenuborg eða árið 335 f.kr. Mun hann hafa verið starfræktur í einhverri mynd í um 600 ár (Morison, 2001). Af rannsóknum Aristótelesar er það að segja að honum var ekkert óviðkomandi. Hann lagði m.a. stund á rannsóknir á náttúrufræði, frumspeki, rökfræði, líffræði og sálarfræði, jörðinni og alheiminum og siðfræði og stjórnmálum, svo eitthvað sé nefnt. Þegar ég kynni heimspeki í skóla eða kenni í fyrsta skipti, hvort sem það er í grunn- eða framhaldsskóla, byrja ég iðulega á kynningu sem inniheldur framangreind atriði að einhverju eða öllu leyti. Það er, ég fjalla um heimspeki í víðu samhengi. Síðan í sögulegu samhengi þar sem ég reifa þátt Aristótelesar í að leggja grunn að flokkun undirgreina og viðfangsefna hennar. Því næst beini ég sjónum að einhverri tiltekinni fræðigrein, t.d. rökfræði eða siðfræði og segi fyrst frá umfjöllun Aristótelesar um hana og reyni síðan að setja hana í eitthvert samhengi við samtímann. Þannig tel ég að nemendur geti öðlast skiljanlegt sjónarhorn á efnið. Í tilfelli rökfræðinnar gæti þetta sjónarhorn snúist um gagnrýna hugsun í þjóðmálaumræðunni (og samband hugsunar við tungumálið) en í tilfelli siðfræði snerist það ef til vill um borðspil og / eða tölvuleiki. Einhverjum kann að sýnast að hér sé verið að gjaldfella háleit málefni og einfalda þau um of, en staðreyndin er sú að þegar nemendur hafa öðlast sitt sjónarhorn á efnið er þeim oftast meira tamt að kafa dýpra ofan í efnið en maður hefði nokkurn tímann getað séð fyrir. Stundum fer vel á að tvinna þessar undirgreinar saman og er til dæmis hægt að útskýra sálarfræði þannig að hún snúi að einstaklingnum og leit hans að hamingju en hana öðlist hann einungis á sviði siðfræði þar sem einstaklingurinn leitast við að sætta þær öfgar, sem einkenna hann, í samfélagi við aðra. Hér er að sjálfsögðu verið að fjalla um hugðarefni Aristótelesar af nokkurri einföldun, en einhvers staðar er nauðsynlegt að hefjast handa. Við getum hugsað okkur sálina sem hljóðfæri. Sérhver einstaklingur reynir að stilla þetta hljóðfæri. Sé sálin í jafnvægi, þá er einstaklingurinn hamingjusamur. Það sem vanstillir sálina eru öfgar og því þarf einstaklingurinn í hvívetna að finna meðalhóf tveggja öfga. Sem dæmi er hugprýði meðalhóf fífldirfsku og ragmennsku, sómatilfinning er meðalhóf metorðagirndar og kæruleysis og örlæti er meðalhóf óhófs og nísku. Þessir eiginleikar, sem hér eru nefndir meðalhóf, kallar Aristóteles dygðir. Af ofansögðu þarf maðurinn á samfélagsskipan að halda þar sem hann ræktað sínar dygðir og öðlast sem mesta hamingju. Í upphafi rits Aristótelesar, Siðfræði Níkomakkosar, segir: 3

4 Dagana júní 2012 kenndi undirritaður heimspeki við Háskóla unga fólksins, ásamt Ylfu Björgu Jóhannesdóttur. Ljósmyndin á síðunni hér á undan var tekin af töflu í tíma, þar sem markmið námskeiðsins var að nemendur notuðu hugmyndir Aristótelesar um samfélagið til að búa til leik eða spila eftir eigin höfði. Þegar myndin var tekin hafði ég farið nokkrum orðum um þau atriði sem nefnd eru hér að framan, á bls Að auki höfðu nemendur verið beðnir um að telja upp sínar hugmyndir um hið góða líf sem samkennari minn skrifaði orðrétt á töfluna. Því næst fengu nemendur að hanna eigin spil með leikreglum og leiðbeiningum. Allar athafnir mannsins beinast að einhverjum gæðum sem eru misjafnlega endanleg. Sérhver list og rannsókn, sérhver athöfn og val, virðist stefna að einhverju góðu. Því var hinu góða vel lýst sem markmiði alls. 7 Þessi grunnhugsun fangar nokkuð vel þar sem hér hefur verið rætt. Ljósmynd: Björn Gíslason Spurningin sem lagt var upp með rúmast á sínu eigin sviði, hún er m.ö.o. heimspekileg. Sagt er að sumar spurningar séu það ekki. Dæmi um slíka spurningu væri: Hvað er klukkan?, Hvernig fór landsleikurinn í gær?, Geturðu lánað mér sykur?. Allt eru þetta tæmandi spurningar eða staðreyndaspurningar. Þær skilja lítið eða ekkert eftir. Þegar við fáumst við heimspeki glímum við, eins og hér hefur verið gefið til kynna, við opnar spurningar eða spurningar sem hafa mörg hugsanleg svör eða stundum ekkert svar. Þær skilja eitthvað eftir. Eitthvað sem spyrjandinn heldur áfram að glíma við. Heimspeki er því að reyna 7 Aristóteles. (1995: 1094a1). 4

5 að teygja hugsun sína lengra, að reyna að sjá fleiri hliðar á einhverju máli, að freista þess að finna aðrar lausnir. Heimspeki er, eins og Aristótelesi var, ekkert óviðkomandi. Heimspekingur nokkur sagði eitt sinn: Þú veist ekki hvað þú veist fyrr en þú hefur hugsað um það, rætt það við einhvern og skrifað um það. Það er það sem heimspekingar gera. Þessi hringrás endurtekur sig í hvívetna. Og um það snýst heimspeki. Sú hætta er þó til staðar að hún fari að hverfast um sjálfa sig, að heimspekingar stundi sína heimspeki einungis fyrir sjálfa sig eða aðra heimspekinga. Þetta er stundum kallað að loka sig inni í fílabeinsturni fræðanna. Allir ættu að láta sér lífið í kringum sig og umhverfið sjálft varða og reyna að láta gott af sér leiða. Þannig ætti heimspekin, rétt eins og Aristóteles leitaðist eftir, að gera sér far um að uppfræða fólk, hjálpa því að verða meðvitað um sjálft sig og hvers konar lífi það lifir. Með nokkurri einföldun mætti segja að þess konar viðleitni sé það sem heimspeki er. En síðan er hún auðvitað líka svo margt annað, en það kemur allt saman æ betur í ljós þegar maður sökkvir sér ofan í hinar ólíku fræðigreinar hennar. Nú á dögum er heimspeki oftast skipt í þrjú svið: (1) Siðfræði, (2) þekkingarfræði og frumspeki og (3) rökfræði. Hér á eftir verður farið nokkrum orðum um þessi svið og reynt að greina sameiginlegan þráð í viðfangsefnum þeirra, en í stuttu máli er hann sá að öll fást sviðin við spurningar sem maðurinn lætur sig varða, hvort sem þær snúi að reglum og skyldum, lífi og dauða, tilvist guðs eða tímanum og stöðu mannsins gagnvart honum. Sérhverjum kennara verður ljóst að í raun má fjalla um flestar spurningar og finna á þeim heimspekilegan flöt. Oft fer vel á því að glíma við spurningar sem nemendum sjálfum hugnast og hafa stungið upp á. En til þess að geta leitt nemendur á jafn spennandi slóðir og slík kennsla býður upp á verður kennarinn fyrst að hafa kynnt sér að viðfangsefni heimspekinnar og hvert hlutverk hennar sé. Hvað er siðfræði? 8 Siðfræði er sú fræðigrein sem rannsakar ólíkar lífsreglur og áhrif breytni manna, ákvarðana og athafna á líf þeirra. Í þeirri mynd sem við þekkjum hana í dag hefur þessi rannsókn farið fram í hartnær 2500 ár. Á mismunandi tímum hafa hin og þessi siðfræðikerfi notið lýðhylli og í gegnum þau hafa menn talið sig getað kortlagt eðli mannsins. Á enn öðrum tímum hafa ýmsir hugsuðir stigið fram og hafnað 8 Áhugasömum er bent á samnefnda grein Páls Skúlasonar. (1987). Í Pælingar Safn erinda og greina. Reykjavík: ERGO, bls Og samnefnda grein Páls S. Árdal. (1997). Í Siðferði og mannlegt eðli. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, bls Einnig bók Páls Skúlasonar. (1990). Siðfræði. Reykjavík: Rannsóknarstofnun í siðfræði. Einnig má fræðast um dygðasiðfræði í eftirmálsgrein Páls Skúlasonar um Aristóteles (1987). 5

6 siðferðilegum gildum og réttmæti siðferðilegra dóma. Þrjú fyrirferðamestu siðfræðikerfin í sögu vestrænnar heimspeki eru kennd við dygðasiðfræði, skyldusiðfræði og nytjahyggju. Dæmi um stefnu sem hafnar siðferðilegum kerfum er tómhyggja. Í þessum kafla verður fjallað um þessi kerfi í þeirri röð. Í lok kaflans verður hugað að lýðræði og hlutverk þess í skólastarfi. 1. Dygðasiðfræði Hvað er hamingja og hvað er hið góða líf? Getur reynsla af tölvuleikjum eða borðspilum hjálpað þér að svara þessum spurningum? Því verður ekki haldið fram hér að slík reynsla svari þeim í eitt skipti fyrir öll, en ef til vill getur hún gert þeim sem aldrei hafa velt þessum spurningum fyrir sér kleift að setja vissa hluti er snerta glímuna við stórar spurningar af þessu tagi í samhengi við þekkingu sem margir hafa (og oft án þess að gera sér grein fyrir því). Flestir myndu svara spurningunni hvað er það sem gerir þig hamingjusaman? á þá leið að það sé ef manni sjálfum og þeim sem manni þykir vænt um farnist vel. Þannig má segja að hamingjan sé fólgin í því að manni líði vel og sé um leið háð því að manns nánustu (vinir og ættingjar) líði einnig vel. Ef þetta er rétt, þá er hægur leikur að öðlast hamingju því væntanlega þarf maður þá bara að gera það sem veitir manni hamingju og stuðla um leið að hamingju annarra til að verða hamingjusamur eða farsæll. En þá vaknar samstundis spurningin hvaða hegðun og lundarfar gerir mann hamingjusaman? Við skulum ímynda okkur að hamingja sé takmark og að við séum að keppa að þessu markmiði í tölvuleik eða borðspili. Nú skulum við spyrja okkur hvernig reglurnar eiga að vera í þessu spili. Við skulum einnig hafa það hugfast að leikurinn verður að vera skemmtilegur og sanngjarn, en jafnframt að reglurnar séu skýrar um til hvers sé ætlað af sérhverjum leikmanni og hvaða háttsemi sé til framdráttar í spilinu og, eins, hvers konar háttsemi sé refsiverð. Þegar við veltum þessum spurningum fyrir okkur erum við í rauninni að glíma við sams konar spurningar og dygðasiðfræðin reynir að svara. En hvað eru dygðir? Dygðir eru mannkostir og dygðasiðfræði er sú stefna sem gengur út á að við verðum aðeins farsæl í lífi og starfi með því að tileinka okkur góða mannkosti. Með því að leggja rækt við sálina verður 6

7 maður dygðugur og er markmið þannig lífernis að öðlast hamingju. 9 Samkvæmt þessari hugmyndafræði hefur sérhver hlutur svokallað eiginverk eða tilgang. Eiginverk hnífs er að skera og eiginverk kirkjuklukku (bjöllu) að hringja. Með öðrum orðum er eiginverk sérhvers hlutar að gera það vel sem honum er ætlað að gera. Og þannig er eiginverk mannsins einfaldlega að vera dygðugur. Líta má á þetta sem innra hlutverk okkar en jafnframt gegnum við einhverju ytra hlutverki, einhverju starfi sem við innum af hendi eða embætti sem við gegnum innan samfélagsheildarinnar. Okkur ber að kappkosta við að sinna þessu ytra hlutverki vel, alveg eins og við á um hinu innra hlutverki okkar að hlúa að sálinni og leita hamingju. Ef til vill hentar þessi stefna betur þeim sem hafa góða stöðu í þjóðfélaginu heldur en hinum sem standa í ævilöngu basli og striti. 2. Skyldusiðfræði Í sjónvarpinu er þáttur sem gengur út á það að hópur af yngismeyjum eiga að keppa um hylli piparsveins sem ætlar að kynnast sérhverri þeirra og, ef allt gengur eftir, velja eina úr hópnum sem hann mun ganga að eiga. Konurnar í þættinum vilja verða hans. Þær reyna eftir ýmsum leiðum að verða sú heppna og að sjá til þess að piparsveinninn velji sig fram yfir hinar stúlkurnar. Í daglegu máli er gjarnan talað um það að ganga í hjónaband sem að ein manneskja gangi að eiga aðra, en sögnin að eiga er þó aðeins huglæg. Í þessum sjónvarpsþætti virðist hins vegar sem bókstaflega sé verið að gefa til eiginkonu, þannig að piparsveinninn eignist yngismeyjuna. Hér sé með einhverju móti verið að hlutgera þátttakendur sjónvarpsþáttarins. Ljóst er að líf þeirrar sem stendur uppi sem heitmey piparsveinsins muni breytast til frambúðar. Sjónvarpsvélarnar fylgjast með öllu ferlinu og gera þátttakendurna að nokkurs konar viðfangi eða skemmtiefni okkar sem á þáttinn horfum. Við skemmtum okkur yfir hinum tilfinningalega rússíbana sem piparsveinninn og yngismeyjarnar ganga í gegnum fyrir allra augum. Við kímum að óheppilegum tilsvörum og gleðjumst yfir óförum þeirra sem í lok hvers þáttar þurfa að taka saman föggur sínar og halda til síns heima. Við áhorf slíks þáttar spyr maður sig hvort það fari manninum vel að vera í hlutverki þar sem hann er verkfæri í höndum annars en ekki það markmið sem býr í honum sjálfum. Til að svara því þurfum við að átta okkur á hvers konar markmið það gæti verið. Eitt svar gæti verið á þá leið að siðferðileg breytni ráðist af innbyggðri skyldu, en hér er nauðsynlegt að skýra betur þá skyldu og hvernig hún tvinnast saman við eitthvert markmið sem býr í hverjum og einum. 9 Ólafur Jens Pétursson. (1985). Hugmyndasaga. Reykjavík: Mál og menning, bls

8 Skyldusiðfræði leggur einstaklingnum til grundvallarreglu sem mælir fyrir um að haga skuli allri breytni þannig að samþykkja megi að aðrir tileinki sér hana líka. 10 Þær ákvarðanir sem maður tekur í samræmi við þessa reglu mega ekki vera í innri mótsögn. 11 Maðurinn er markmið í sjálfu sér, en ekki aðeins tæki. Hans mikilvægasti eiginleiki er frelsið. Með þessu er átt við að hann hefur frelsi til að vilja hið góða. Hann hefur val um það hvernig hann hagar breytni sinni. Að vilja hið góða er því í samræmi við regluna, sem einnig nefnist hið skilyrðislausa skylduboð og það að aðhyllast hinu illa stríðir gegn henni. Í ríki markmiðanna, hinu siðferðilega fyrirmyndarríki, eru allir menn markmið í sjálfu sér. 12 Samkvæmt þessari stefnu svörum við kalli skyldunnar, þ.e. hins skilyrðislausa skylduboðs, af þeirri einföldu ástæðu að hún krefur þess af okkur. Ástæðan fyrir þessu er sú að ef menn gera skyldu sína vegna þess að þeir eru að hugsa um hvað komi sér vel fyrir þá sjálfa eða aðra, um eigin hamingju eða almannaheill, þá breyta þeir ekki siðferðilega. 13 Það er sem sagt mikilvægt að hlýða hinu skilyrðislausa skylduboði vegna sjálfrar skyldunnar og eingöngu vegna hennar. Það má nota tvær samlíkingar til að lýsa annars vegar birtingarmynd þessarar reglu og hins vegar ástæðu fyrir henni. Sem dæmi um það hvernig við hlýðum henni má nota samlíkinguna við það þegar börn hlýða foreldrum sínum, en það gera þau einfaldlega vegna þess að þau eiga að gera það. Sem dæmi um það af hverju við eigum að hlýða hinni siðferðilegri skyldu má nota samlíkinguna við gildi umferðalaga. Þegar við metum tilteknar umferðarreglur getum við ekki velt því fyrir okkur hvort þær komi okkur sjálfum eða öðrum vel; ef við ætluðum að taka upp á því að vega og meta hverja reglu fyrir sig eftir einhverri hentistefnu, þá misstu umferðarlögin fljótt gildi sitt. Þau verða að gilda alls staðar og fyrir alla. Þannig eigum við, samkvæmt stefnu skyldusiðfræðinnar, að umgangast siðalögmálið. 3. Nytjahyggja Nytjahyggjan er stefna sem gengur út frá að við eigum að haga breytni okkar þannig að hún stuðli að hámarks hamingju allra. 14 Slík regla gerir ráð fyrir að það geti talist réttlætanlegt að fórna einhverjum einum fyrir hagsmunum heildarinnar. Það gefur auga leið að þetta myndi ekki 10 Kant, Immanuel. (2003). Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni (þýð. Guðmundur Heiðar Frímannsson). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, bls Þessi og næstu málsgreinar fengnar úr lokaritgerð undirritaðs: Kristian Guttesen. (2006). Að eilífum friði. Siðfræði Kants lesin í friðarhugmyndum hans. Sótt 27. júní 2012 af (Sjá bls. 3). 12 Kant, Immanuel. (2003). Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni (þýð. Guðmundur Heiðar Frímannsson). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, bls Betur má fræðast um skyldusiðfræði í eftirmálsgrein Páls Skúlasonar um Immanuel Kant (1990). 13 Vilhjálmur Árnason. (1991). Þættir úr sögu siðfræðinnar. Reykjavík: Háskóli Íslands, bls Betur má fræðast um nytjastefnuna í kafla 15 Skyldur og skuldbindingar í bók Páls Skúlasonar. (1990). Siðfræði. Nánar tiltekið í undirkafla Rót siðferðisins og heillakenningin. 8

9 samræmast viðhorfi skyldusiðfræðinnar, sem áður var rakin og héldi fram að sá sem breyti rétt af nokkurri ástæðu annarri en þeirri að breytnin er rétt geti ekki talizt dyggðugur. 15 Nytjahyggjan dæmir á hinn bóginn breytni út frá því hverjar afleiðingarnar af henni verða. Siðferðilegt markmið mannlegra athafna er að mati nytjastefnunnar velferð og hamingja fólks og engar siðakröfur geta verið svo háleitar að þessu markmiði sé fórnað. 16 Nytjahyggjan hefur líka verið kölluð afleiðingasiðfræði. En samkvæmt henni eykst siðferðilegt gildi athafnar í réttu hlutfalli við fjölda þeirra sem njóta góðs af henni, þ.e. í samræmi við það hamingjumagn sem hún hefur í för með sér. 17 Í stað siðalögmáls skyldusiðfræðinnar er því hér gengið út frá hinu svokölluðu hámarkshamingjulögmáli. Þessi stefna leggur upp úr góðri menntun og frelsi einstaklinga sem hlýst af upplýstri umræðu. (Þess ber ekki að skilja að skyldusiðfræði hafni slíkum gildum heldur hampar hún þeim á öðrum forsendum.) Samkvæmt nytjakenningunni hafa allir hæfileika til að sækjast eftir menningarverðmætum en slæmt uppeldi og erfiðar þjóðfélagsaðstæður gætu auðveldlega eyðilagt slíka hæfileika. 18 Þetta er því lykillinn að nokkurs konar velferðarkerfi. Þá vilja sumir meina að nytjahyggja leggi grunninn að jafnréttisbaráttu kvenna. Hins vegar hefur einnig komið fram gagnrýni á hana, til dæmis í skáldsögu Dickens Harðindi (e. Hard times) frá árinu 1854, en hún hefur verið túlkuð sem tilraun til að sýna fram á hvernig nytjahyggja geti boðið upp á misskiptingu auðs og illa meðferð á fátæku fólki. Annað dæmi sem sýnir misjafnar birtingarmyndir nytjahyggjunnar gæti verið svona: Fjölskylda ungs drengs flytur á framandi slóðir og hann þarf að byrja í nýjum skóla. Þar kemst hann strax að því að á skólalóðinni sé til siðs að nemendur gefi hver öðrum fingurinn og til að falla í hópinn tekur hann upp á þessu eins og aðrir. En ungi drengurinn áttar sig hins vegar ekki á því að aðrir nemar gera þetta aðeins þegar starfsfólk skólans sér ekki til en í þessum skóla liggja ströng viðurlög við því að gera svona lagað. Einhver úr kennaraliðinu sér til hans gefa samnemanda sínum fingurinn og því verður hann að sæta refsingu. Foreldrar drengsins eru boðaðir á fund skólastjórans. Móðirin rannsakar málavexti og bendir skólastjóranum á að sonur hennar hafi einungis gert það sem fyrir honum var haft, að raunar sé þetta til siðs meðal nemenda en sonur hennar hafi ekki áttað sig á samhengi hlutanna. Skólastjórinn segir að sér þyki miður ef svo sé, en engu að síður verður að refsa drengnum til þess að sýna öðrum fordæmi. Honum er því vikið einn dag úr skóla, þrátt fyrir að hið refsiverða uppátæki sé eitthvað sem tíðkast á skólalóðinni (og skólastjórinn er meðvitaður um þetta). Að mati skólastjórans þjónar það 15 Páll S. Árdal. (1997). Siðferði og mannlegt eðli. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, bls Vilhjálmur Árnason. (1991). Þættir úr sögu siðfræðinnar. Reykjavík: Háskóli Íslands, bls Sama rit: Ólafur Jens Pétursson. (1985). Hugmyndasaga. Reykjavík: Mál og menning, bls

10 best hagsmunum allra að fórna nemanum, sem í einhverjum skilningi er fórnarlamb aðstæðna, til þess að framfylgja stefnu skólans. Í þessu dæmi lúta reglur skólans og afstaða skólastjórans lögmálum nytjahyggjunnar, en glögglega má sjá hér ákveðið óréttlæti gagnvart nýja nemandanum, drengnum unga sem ekki hefur gert annað en stíga inn í aðstæður sem hann skildi ekki. Ef til vill hefði mátt taka tillit til þess. Nytjahyggjan hefur þó óneitanlega göfugt markmið. Bandaríski siðfræðingurinn James Rachels segir að í vissum skilningi [geti] enginn siðfræðingur hafnað nytjastefnunni með öllu. Allir verða að viðurkenna að afleiðingar breytni okkar hvort sem þær stuðla að hamingju eða valda böli eru ákaflega mikilvægar. John Stuart Mill sagði eitt sinn að svo fremi við værum góðviljuð í garð annarra þá yrðum við að viðurkenna nytsemismælikvarðann. Hann hafði vissulega rétt fyrir sér. Enn fremur hlýtur áhersla nytjastefnunnar á óhlutdrægni að vera þáttur í sérhverri réttlætanlegri siðfræðikenningu. 19 Í næsta undirkafla er viðhorf kynnt til sögunnar sem les þessa fullyrðingu ekki sem ástæðu fyrir að leita slíkrar kenningar heldur sem ástæðu fyrir því að hafna siðfræðikenningum með öllu. 4. Tómhyggja Á einum stað í Skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis 20 er spurt: Til hvers eru reglurnar? En þar segir að á árunum fyrir íslenska bankahrunið, sem varð árið 2008, hafi bankarnir og viðskiptaheimurinn íslenski [ ] hneigst til að fylgja lagabókstafnum fremur en anda laganna. Þetta viðhorf staðfestist hvað eftir annað í skýrslutökum af þeim sem störfuðu innan fjármálafyrirtækjanna og jafnvel það er ofmælt. Reynt var eftir mætti að komast framhjá reglunum ef þess var kostur. Í þessum efnum eins og öðrum virðast bankarnir allir hafa verið furðu samstíga. Regluvörður í Kaupþingi segir að þar hafi viðhorfið verið að taka ætti slaginn við Fjármálaeftirlitið. Og innri endurskoðandi Landsbankans tekur í sama streng: [É]g held að almennt séð hafi menn litið á reglur svona eitthvað sem hægt væri að challenge-era, eitthvað sem ætti að vinna með þannig að virðing fyrir anda reglnanna og svoleiðis hafi kannski ekki almennt verið til staðar heldur voru menn frekar viljugir til að þróa reglur þróa túlkun á reglum þannig að menn kæmust svona eins og í fótbolta, menn reyndu að tækla án þess að vera dæmdir. 21 Hér verður ekki gerð tilraun til að gera upp íslenska efnahagshrunið, en það er áhugavert að benda á að í viðhorfinu sem lýst er í tilvitnuninni hér á undan má greina siðferðilega tómhyggju eins og hún birtist í samtímanum. Hefði hún einhver einkunnarorð, þá fælu þau sennilega í sér skilaboðin að ef 19 Rachels, James. (1997). Stefnur og straumar í siðfræði (þýð. Jón Á. Kalmansson). Reykjavík: Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan, bls Í Páll Hreinsson, Sigríður Benediktsdóttir og Tryggvi Gunnarsson (ritstj.), Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir (2010). Reykjavík: Rannsóknarnefnd Alþingis, bls Sama rit:

11 eitthvað sé hægt þá er það gert. En afstaða tómhyggjunnar er ekki einhlít og henni til varnar má lesa úr henni mikilvæg gagnrýni á þau siðferðilegu gildi sem nútímamaðurinn aðhyllist. Gagnrýni tómhyggjunnar á hinn vestræna heim er tilraun til að sýna fram á hvernig öll siðferðileg gildi sem viðhöfð eru í samfélagi okkar tíma séu leifar af kristilegu siðamati (og platonisma 22 þ.e. þeirrar heimspeki sem gengur út frá því að til sé frummyndaheimur þaðan sem öll gildi eiga uppruna sinn). 23 Með þessu er átt við að til þess að réttlæta stöðu sína í lífinu hafi maðurinn snúið siðferðilegum gildum upp í eitthvað sem þau eru ekki. Þannig búum við til dæmis við það sem kalla mætti þrælasiðferði. Við látum ýmislegt yfir okkur ganga vegna þess að við teljum að það sé göfugt. Við teljum að eftir að við deyjum muni okkur launast allar þjáningar í lífinu. Til að afmarka þrælasiðferðið búum við einnig til höfðingjasiðferði. Það réttlætir stöðu þess sem býr við góða kosti og skapar þversögn sem viðheldur ákveðnu jafnvægi: Hinir valdalitu álíta, í krafti þrælasiðferðisins, sig góða og hina valdamiklu vonda á meðan þeir, í krafti höfðingjasiðferðisins, álíta sjálfa sig góða en almenning vondan. Þannig býr maðurinn við tvöfalt siðgæði. Samkvæmt tómhyggjunni eru siðferðileg gildi á borð við gott og vont innantóm. Þeir sem henni aðhyllast kalla eftir endurmati allra gilda þannig að maðurinn megi hefja sig upp yfir hið falska, tvöfalda siðgæði. Hins vegar má velta því fyrir sér hvort að slík tómhyggja leiði til siðferðilegrar afstæðishyggju, ástands þar sem allt er leyfilegt og hver og einn hagar sér í reynd eins og honum sýnist. Þessu gætu tómhyggjusinnar, nihilistar, svarað á þá leið að þetta hafi nú þegar gerst og þess vegna sé brýnt að hefja manninn upp á æðra plan, þar sem hann getur fundið sjálfan sig í lífinu hér og nú, lifi því þannig, að hann geti lifað því aftur og aftur, ótalsinnum játað af heilum huga að þetta líf er eilífð þín Lýðræði Kennurum er gert að innræta nemendum lýðræði. Í því felst að kenna um lýðræði, að sýna hvernig það virkar og lofa nemendum að iðka lýðræði. Ólafur Páll Jónsson segir í anda Deweys að hugsa megi sér að skólakerfi undirbúi nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi með þrenns konar hætti. Í fyrsta lagi með því að mennta þá og einkum fræða og þjálfa þannig að úr verði gjaldgengt starfsfólk fyrir lýðræðislegar stofnanir samfélagsins. Í öðru lagi með mun víðtækari en jafnramt 22 Á Heimspekivefnum eru tvær greinar eftir Eyjólf Kjalar Emilsson (2005a; 2005b) um platonisma aðgengilegar, Hvað hafði Platón á móti skáldskap? Árásir Platóns á skáldskapinn í Ríkinu; og Sólin, hellirinn og hugsanir Guðs. Hugleiðingar um Platonisma og samtímaheimspeki (Sóttar 5. júlí 2012). 23 Betur má fræðast um tómhyggju í eftirmálsgrein Páls Skúlasonar um Nietzsche (1990). 24 Ólafur Jens Pétursson. (1985). Hugmyndasaga. Reykjavík: Mál og menning, bls

12 Ég hef stundum leyft nemendum mínum að spreyta sig á hlutverkaleik sem ég kalla Sprengjuleikinn. Hópnum er skipt í tvö lönd, sem látin eru gera friðarsáttmála. Þá eiga löndin að funda sitt í hvoru lagi, en þegar þegnarnir hafa safnast saman (og vita hver um sig ekki lengur hvað hitt landið ætlast fyrir) fá þeir upplýsingar um sprengjuógn sem stafar af hinu landinu. Hvort um sig þurfa löndin að ákveða hvort þau virði friðarsáttmálann eða hefji gagnárás. Í þessu ferli skapast talsverð spenna, en nemendurir ákveða einnig hvaða stjórnarform þeir munu notast við. Í lok tímans eru hóparnir leiddir saman og sagt er frá því hvaða stjórnarform hafi orðið ofan á í hvoru tilfelli fyrir sig og síðan kemur í ljós hvort friðurinn hafi haldist eða ekki persónulegri hætti þar sem áhersla er lögð á lífið frekar en starfið, á hvað það er að vera borgari í samfélagi við aðra jafningja. Og í þriðja lagi með þeim hætti að gera fólki kleift að vera sjálfráða gerendur í eigin lífi en ekki leiksoppar fávisku, fordóma eða afturhaldslegra hefða. 25 Hver sá kennari sem ætlar að undirbúa nemendur sína undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi með þessum hætti þarf sjálfur að hafa kynnst því á sömu forsendum og ég segi hér fyrir ofan að kennsla lýðræðis feli í sér. Hin formlega skilgreining á lýðræði er sú sem Björn Þorsteinsson hefur eftir Claude Lefort: Lýðræði er stjórnarform þar sem sæti valdhafans er autt. 26 Við þessu bætir Björn að raunar sé valdhafinn þjóðin (Sama rit). Í skólastofunni felst verkefni kennarans í því að skapa andrúmsloft í anda þessara hugmynda, án þess endilega að predika sjálfar kenningarnar sem vitnað er til hér á undan, þannig að samskipti nemenda og þátttaka í skólastarfi efli lýðræðisvitund þeirra. Til að sýna nemendum hvernig lýðræði virkar er til dæmis hægt að fara í hlutverkaleiki, þar sem ákvarðanir nemenda skipta máli fyrir framvindu leiksins. Til að lofa nemendum að iðka lýðræði leyfir kennarinn nemendum að taka sjálfstæðar ákvarðanir, sem þeir finna að hafa áhrif á námið eða þátttöku þeirra í skólasamfélaginu. Kjarninn í lýðræðishugsjón Deweys er fyrirtaks uppskrift að því eðli sem einkenna ætti kennara og uppalendur: Lýðræðið sem lífsmáti á rætur í einstaklingsbundinni trú í daglegri samvinnu við aðra. Lýðræði er sú trú að jafnvel þegar þarfir og markmið eða afleiðingar eru ólík frá einni manneskju til annarrar, felur það að temja sér að vinna saman af vinsemd sem getur falið í sér, t.d. í íþróttum, samkeppni og kapp ómetanlega viðbót við lífið. Með því að taka sérhvern ásteytingarstein og þeir hljóta að verða fjölmargir eftir því sem nokkur kostur er út úr andrúmslofti og umhverfi valds og aflsmunar sem leið til úrlausnar og inn í umhverfi rökræðu og skynsemi, þá lítum við á þá sem við eigum í ágreiningi við jafnvel 25 Ólafur Páll Jónsson. (2011b). Lýðræði, réttlæti og menntun. Reykjavík: Háskólaútgáfan, bls Björn Þorsteinsson. (2012). Framtíð lýðræðisins og lýðræði framtíðarinnar: Gagnrýnin hugsun í skólastofunni og víðar. Sótt 26. september 2012 af vef verkefnisins Efling gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í skólum, 12

13 djúpstæðum ágreiningi sem einstaklinga sem við getum lært af, og að sama marki sem vini. 27 Sigurlaug Hreinsdóttir orðar þetta viðhorf til lýðræðisins ágætlega með eftirfarandi hætti: Svona uppbyggt lýðræðislegt samfélag með andrúmslofti sem einkennist af vináttu og jafningjaviðhorfi hvetur nemendur til þess að taka þátt. 28 Það er vert að geta þess að hugmynd Deweys um lýðræðið er í nokkurri andstöðu við dygðasiðfræðina, sem minnst var á hér að framan, en í henni er gengið út frá því að maður hagi lífi sínu samkvæmt einhverju sem sagt er vera gott. Dewey telur hins vegar eftirsóknarvert að maður lifi í góðu lýðræðissamfélagi og að gott lýðræði verði aðeins til þar sem eru lýðræðislegar manneskjur. En þær verða einungis lýðræðislegar með því að tileinka sér lýðræðislegan lífsmáta sem snertir hugarfar og tilfinningalega nálgun, með því að lifa og hrærast í andrúmslofti sem einkennist af lýðræðislegu hugarfari. Andstæða þessara hugmynda við dygðasiðfræði er fólgin í því að hugmyndafræði Deweys byggir á verkhyggju eða gagnsemishyggju (e. pragmatism). Rannsóknir Deweys eru rannsókn á samfélaginu og við erum afurð þess, við erum afleiðing af því umhverfi sem við ölumst upp í. Hvað er frumspeki? Hvað er þekkingarfræði? Hvað er raunveruleiki? Hvað er þekking? Er ég til? Hvað get ég vitað? Þekkingarfræði og frumspeki eru skyldar greinar. Sú fyrri fjallar um eðli þekkingar og sú seinni um takmörk mannlegrar þekkingar. Í þessum kafla mun ég fara nokkrum orðum um frumspeki og þekkingarfræði og viðfangsefni þeirra og fjalla síðan um kvikmyndina The Matrix í ljósi þeirrar umfjöllunar. Seinni skilgreiningin sem ég setti fram hér að framan um frumspeki að hún sé um takmörk mannlegrar þekkingar er ef til vill of brött. Sumir gætu haldið því fram að nær væri að segja að hún fengist við grundvöll veruleikans eða einfaldlega við veruleikann. Engu að síður, þegar allt kemur til alls, þá leiðir rannsókn af þessu tagi í ljós að svið mannlegrar þekkingar er takmarkað og við getum ekki vitað allt um alla hluti. Þess vegna er glíman við veruleikann og spurningar á borð við hvernig get ég vitað að ég er til? sprottnar af þeirri staðreynd að mannleg þekking er takmörkum háð. Margir kannast við þá tilfinningu að hafa dreymt að þeir væru að vakna, en átta sig svo kannski á því, í svefnmókinu, að þeir liggja enn í 27 Ólafur Páll Jónsson. (2011b). Lýðræði, réttlæti og menntun. Reykjavík: Háskólaútgáfan, bls Sigurlaug Hreinsdóttir. (2012). Persónuleg samskipti, 27. september

14 rúminu og þurfa ef til vill að drífa sig á fætur. Enn á ný dreymir þá að þeir séu sprottnir fram úr rúminu en stuttu síðar átta þeir sig á því að þeir liggja enn á sama stað, í rúminu sínu. Nokkrir hugsuðir hafa varpað fram þeirri spurningu hvort veruleikinn sé eins og draumur af þessu tagi? Hvað ef við höldum að veruleikinn sé áþreifanlegur, en í raun og veru sé okkur að dreyma hann. Með öðrum orðum, hvernig getur maður vitað að maður sé til? Hvernig get ég vitað með fullnægjandi vissu að allar aðrar manneskjur séu líkamar og hugar, en ekki einfaldlega hlutar af mínum eigin veraldardraumi? Þessu get ég aldrei svarað með fullri vissu. Ég gæti ef til vill svarað því til að ég veit að ég er til vegna þess að annað væri fjarstæða. En við þessu væri hægt að segja að það að eitthvað sé fjarstæða þýðir ekki að það sé ekki mögulegt. Í sögulegu yfirliti um efahyggju vitnar Atli Harðarson með eftirfarandi hætti í bandaríska heimspekinginn, Hilary Putman: Í gær varst þú numinn brott af geimverum. Þær tóku heilann úr hauskúpunni og settu hann í krukku en hentu restinni af skrokknum. Æðar sem standa út úr heilanum tengdu þær við dælu sem dælir blóði jafn góðu og heilinn var vanur að fá og taugar sem bera heilanum boð tengdu þær við vélar sem búa til svipuð áreiti og þú fengir ef þú gengir enn um á jörðu niðri. Að síðustu strokuðu þær út úr heilabúi þínu allar endurminningar um þessa skurðaðgerð og allar upplýsingar sem gætu fengið þig til að gruna hvernig högum þínum er háttað. Hvernig veistu að það er ekki svona komið fyrir þér? Hvernig veistu að þú ert ekki heili í krukku? 29 Viðfangsefni þekkingarfræðinnar er hin hliðin á sama peningnum. Hér er verið að reyna að komast að því hvað sé sönn þekking og hvernig sé hægt að öðlast hana. Ímyndum okkur að sjálfur Platon birtist dag nokkurn upp í stofunni heima hjá mér. 30 Með einhverjum hætti hefði hann fallið í dá á sínu hinsta ævikvöldi og, fyrir tilstuðlan vísindanna, ferðast í gegnum ormagöng sem skilaði honum, á okkar tímum, heim í stofu til mín. Ef við gefum okkur enn fremur að við Platon hefðum sameiginlegt tungumál til þess að tjá okkur með, hverjar skyldu þá vera allra fyrstu spurningarnar sem hann myndi spyrja mig við þessar aðstæður? Ímyndum okkur að hans fyrstu spurningar myndu hljóma einhvern veginn á þessa leið: Hvar er ég? Hvert er ártalið? Atli Harðarson. (1996). Efahyggja. Í Andri Steinþór Björnsson, Torfi Sigurðsson og Vigfús Eiríksson (ritstj.) Er vit í vísindum sex ritgerðir um vísindahyggju og vísindatrú. Háskólaútgáfan: Reykjavík, bls Sótt 10. ágúst 2012 af 30 Næstu málsgreinar byggja að nokkru leyti á óbirtri skólaritgerð undirritaðs: Kristian Guttesen. (2007). Hvaða sannleikskorn er í þeirri kenningu að þekking sé skynjun (ÞS)? 31 Með fyrirvara um eða ég gef mér að við Platon gætum, eftir krókaleiðum, komið okkur saman um sameiginlegt tímatal. 14

15 Hann væri vaknaður á stað þar sem áreiti skynjana hans ættu enga samleið með hans fyrri þekkingu og því þyrfti hann fyrst og fremst að staðsetja sig í rúmi og tíma. Þetta væri eins konar frumaðstæður manns til þess að samsama eigin þekkingu við óáreitta skynjun. Í fyrsta hluta samræðunnar Þeætetus hrekur Platon þá kenningu að þekking sé skynjun. Meginpersónur samræðunnar eru Þeætetus sem leggur til grunnkenninguna og reynir, eftir því sem samræðunni vindur áfram, að endurbæta hana og Sókrates, sem dregur brotalamir hverrar þeirra fram í ljósið, jafnóðum. Kennari Þeætetusar, Þeódórus, er viðstaddur en tekur ekki virkan þátt í samræðunni. Hann á þó heiðurinn af því að kynna Þeætetus fyrir Sókratesi, sem verður til þess að samræðan á sér stað. Sókratesi stendur hugur til að útskýra eðli þekkingar og biður Þeætetus um að vísa veginn á þeirri vitsmunaleið sem kann að leiða til úrlausnar þeirrar þrautar. Þeætetus leggur upp með þá staðhæfingu að þekking sé skynjun. 32 Að nánari athuguðu máli komast þeir að þeirri niðurstöðu að þetta sé það sama og Prótagóras hafi áður haldið fram, þegar hann sagði að maðurinn væri mælikvarði alls. Með þessu er átt við að hlutirnir eru fyrir einum manni mér eins og ég skynja þá, en fyrir öðrum manni þér eins og þú skynjar þá. Þannig getur mér fundist vindur sem blæs á okkur báða verið heitur, en þér fundist hann vera kaldur. Eins getur sami liturinn virst mismunandi hverjum og einum í ljósi aðstæðna. Eru eldingarnar í kössunum nákvæmlega sömu stærðar og í sama lit? Vandamálið við kenningu Prótagórasar er það að ef maðurinn er mælikvarði alls, þá fer sannleiksgildi hennar sjálfkrafa eftir hverjum og einum. Einnig gleymist að gera grein fyrir öðrum verum í slíku kerfi, svo sem dýrum og guðlegum öndum. Hér er sem sé búið að taka fyrir þá grunnkenningu að öll þekking sé skynjun og útiloka hana með þeim rökum að afstæðishyggjan sem hún feli í sér geri það af verkum að sé hún sönn þá sé hún líka ósönn og þar af leiðandi standist hún ekki. 32 Burnyeat, Myles. (1990). The Theaetetus of Plato (þýð. Levett, M.J.), Indianapolis og Cambridge: Hackett Publishing Company, bls. 287 (151e). 15

16 Þegar maður rýnir í hinn ímyndaða veruleika, sem Í upphafi kvikmyndarinnar The Matrix er dreginn upp, er athyglisvert að skoða nokkur heimspekiminni sem þar koma við sögu; en mynd þessi sækir sterkt í sömu vandamál og Sókrates og félagar glíma við í Samræðunni við Þeætetus. 33 Hópur uppreisnarseggja, í andófi við það sem meirihluti jarðarbúa hinir óupplýstu hefur samþykkt sem raunveruleikann, bankar upp á hjá aðalsöguhetjunni Neo. Þeirra á meðal er ung stúlka með hvítt húðflúr á öxlinni af kanínu. Neo hafði áður fengið skilaboð í tölvunni sinni um að honum bæri að elta hvítu kanínuna 34 og ákveður að slást í för með þeim. Kanínan, sem ætlar óneitanlega að leiða okkur ofan í kanínuholuna úr Lísu í undralandi (hvert leiðir hún?) 35, sækir heimspekilega tilvísun í kanínu Wittgensteins. En með henni sýnir Wittgenstein fram á að einföld teikning geti haft fleiri en eina merkingu. Skynjun leiðir af sér margvíslega þekkingu. Leit Neos að sannleikanum mun leiða hann upp stiga Wittgensteins. 36 Sá sem klífur hann verður að samþykkja fyrir fram að útsýnið (eða þær upplýsingar) sem er að finna þegar á toppinn er komið verður eitthvað svo framandi að stiginn leitin, upplýsingaöflunin verður honum gagnslaus í þeim veruleika sem þá mun blasa við honum. 37 Það er, skynþekkingin er afstæð þeirri þekkingu sem skynjunin veitir hverjum og einum. Áður en Neo er leiddur á fund leiðtoga uppreisnarseggjanna, Morpheus, spyr hann förunaut ungu stúlkunnar hvort hann kannist við þá tilfinningu að geta ekki greint með vissu á milli drauma og vöku. 38 Í þeirri spurningu kristallast viðfangsefni eins höfuðrita Descartes frá 1641, Hugleiðingar um frumspeki. En þar rannsakar hann greinarmun þekkingar og blekkingar og sýnir að án þess að ganga út frá tilveru Guðs sé ekki hægt að færa sönnur fyrir eigin tilvist, né heldur annarra. 33 Fram skal tekið að í þessum hluta styðst ég að einhverju leyti við athugasemdir heimspekinganna Dr. Cornel West og Ken Wilber (2004), sótt í aukaefni mynddisksins Ultimate Matrix Collection (The Matrix), Warner Bros. 34 Wachowski, Larry og Wachowski, Andy (leikstj.). (2004). The Matrix. Í Ultimate Matrix Collection (The Matrix), Warner Bros., 0:07: Sama verk: 0:28: Sama verk: 0:24: Logi Gunnarsson. (2005). Stigi Wittgensteins. Reykjavík: Háskólaútgáfan Heimspekistofnun, bls Wachowski, Larry og Wachowski, Andy (leikstj.). (2004): 0:08:39. 16

17 Ljóst er að varla færi nokkur kennari að styðjast við kvikmyndina The Matrix til að útskýra fyrir grunnskólabörnum samband sýndar og veruleika. Hins vegar eru líkindi á milli hugmyndafræðinnar í The Matrix og sígildra ævintýra á borð við Nýju fötin keisarans. Þannig hefur Sigurlaug Hreinsdóttir, heimspekikennari, notað það ævintýri á samræðunámskeiði til að kalla fram umræður um samband sýndarveruleika og raunveruleika: Ég sagði þessa sögu í öllum hópum, en þau tengdu við hana á mismunandi hátt. 5-6 ára krakkar voru bara skorinort um að segja sannleikann, það skipti ekki máli þótt þau misstu vinnuna, 7-9 ára krakkar vildu standa með sér og segja satt. En krakkar frá 10 ára og upp úr voru komin inn í þennan veruleika að það væri ekki sama hvernig þau voru klædd, þau öðluðust vinsældir við að eignast nýja hluti. Og þau þekktu þetta líf sem er lýst í sögunni. Frásögn Sigurlaugar er dæmi um hvernig sérhver kennari sníðir stakk eftir vexti. Konan í upphafs(bardaga)atriðinu heitir Trinity og er hún einn af undirmönnum Morpheusar. Þegar Neo sér húðflúrið af kanínunni ákveður hann að fylgja hópnum sem fer með hann á skemmtistað þar sem hann hittir Trinity í fyrsta sinn. 39 Nafnið Trinity merkir þrenning, en á þó enga beina tilvísun í Biblíuna. Hér á þrenningin fremur við um tengsl líkamans, hugans og andans (sótt í búddasið); sem og þrenninguna sem viðfangsefni myndarinnar fjallar um: Zion (síðasta borgin), sýndarveruleikinn The Matrix og vélarnar sem hafa fjötrað mannkynið í vef blekkingarinnar. Neo kemst að raun um að tími og rúm eru sveigjanleg fyrirbæri. Kvikmyndin The Matrix er tilraun til að sýna veruleika handan efnisins, það sem gæti gerst við samruna tíma og rúms. Með þessu vilja höfundar kvikmyndarinnar ef til vill segja okkur að: Ekki er allt sem sýnist. Í heildina litið eru um tvenns konar tímamótaverk að ræða þegar samræðan Þeætetus er borin saman við The Matrix. Wachawski bræður vinna að miklu leyti úr fræðum manna á borð við Einstein, Plank og Heisenberg, en fást um leið við spurningu sem Platon bar á sínum tíma fram og hefur fylgt mannkyninu um aldir alda. Spurningin sem brennur á allra vörum: Hvað er raunverulegt? Ég gef mér hér að framan að ég gæti ef til vill spurt Platon að þessu heima í stofunni hjá mér. 40 Og sjálfsagt þykja flestum það heldur ólíklegar aðstæður. En samt er forvitnilegt að velta því fyrir sér hvernig 39 Sama verk: 0:09: Óháð öllum getgátum um möguleika tímaflakks. 17

18 við kæmum hvor öðrum fyrir sjónir. Hvernig skynjun og þekking myndi orka á veru úr öðrum tíma. Ég get mig til að við myndum ekki einu sinni sjá hvorn annan. Að minnsta kosti ekki í réttu ljósi. Hvað er rökfræði? Rökfræði er skipuleg tilraun til að skýra samband hugans við heiminn. Hana má greina í nokkra þræði sem þó flettast saman og kallast á. Hér verður farin sú leið að greina fyrst þrjá þræði með ólíka innviði. Eflaust mætti hafa þræðina fleiri. Fjórði þráðurinn, en hann verður ekki rakinn hér, gæti til dæmis fjallað um sögu rökfræðinnar. 41 Að lokum mun ég fjalla um hlutverk rökfræðinnar gagnvart heimspekinni og öðrum undirgreinum hennar. Í stuttu máli fæst rökfræði við allt sem lýtur að hugsun, tungumál og hvernig binda megi samband þessara tveggja við hluti í heiminum í ákveðnar reglur. Þræðirnir þrír, sem hér verða teknir fyrir, eru: (1) Tungumál, (2) Gagnrýnin hugsun og (3) Lögmál hugsunarinnar. 1. Rökfræði og tungumál Oft er það raunin þegar fólki greinir á, hvort sem það er í ræðu eða riti, að það notar sömu orðin í málflutningi sínum en ljær þeim ólíkar merkingar. Af þessu skapast misskilningur og fólk eyðir oft löngum tíma án þess að átta sig á að það sé að tala um ólíka hluti þótt það noti sömu orðin. Þegar við fáumst við rökfræði og tungumál er mikilvægt að við byrjum á því að tileinka okkur nokkrar merkingarreglur um ákveðin tengiorð sem oft koma fyrir í mæltu og rituðu máli. Þessi orð eru meðal annars: og, ekki, sumir, allir, enginn, hvorki né, að minnsta kosti og annaðhvort eða. Þegar fólk áttar sig ekki á því nákvæmlega hvað þessi tengiorð eða setningatengi merkja er hætt við að misskilningur skapist í samskiptum manna á milli. Sanntöflur sýna merkingu setningatengja, þ.e. hvenær þau eru sönn eða ósönn. Dæmi: 41 Saga rökfræðinnar (Nokkur nöfn): Aristóteles Rökfræðileg hugsun: Spinoza, Darwin, Hegel. Nútímarökfræði: Leibniz, Boole, Schröder. Raunhyggja: Frege, Russell, Wittgenstein. 18

19 & S S S S S S S Ó S S Ó Ó S S Ó S S Ó Ó Ó S Ó S S Ó S S Ó Ó Ó Ó Ó Ó Ó Ó Ó Þegar við notum setningatengi í mæltu eða rituðu máli er hægt að beita sanntöflum til að auðkenna nákvæmlega hvað orðin sem þau vísa til merkja. Ef ég fullyrði að tvær setningar séu sannar, þá er setningatengið aðeins satt ef sannleiksgildi hvorrar setningar um sig lýtur skilyrðum sanntöflu viðkomandi setningatengis. Segjum að ég fullyrði að tvær setningar, A og B, séu sannar. Þessar fullyrðingar mega vera um hvað sem er, A gæti verið Tunglið er ostur og B gæti verið Ég er mús. Fullyrðingin mín, A og B, vísar þá til þessara setninga. Hins vegar er setningatengið og (&) aðeins satt ef báðar setningar, hvor um sig, eru sannar; að tunglið sé og ostur og að ég sé mús. Ég get beitt sömu aðferð með setningatengið eða (v). Segjum að ég fullyrði tvær setningar en tengi þær með orðinu eða, A eða B. Þessar fullyrðingar mega líka vera um hvað sem er, A gæti verið Ég er á tunglinu og B gæti verið Ég er heima hjá mér. Fullyrðingin mín, A eða B, verður þá, samkvæmt samtöflunni hér að ofan, aðeins sönn þegar önnur þessarar setningar, eða báðar, eru sannar. Ef í ljós kemur að ég sé heima hjá mér eða ef í ljós kemur að ég sé á tunglinu, þá verður fullyrðing A eða B í þessu tilviki sönn. Setningatengið eða stenst. Þegar kemur að setningatenginu annaðhvort eða, þá sjáum við á sanntöflunni að hér er aðeins leyfilegt að annað sé satt á meðan hitt sé ósatt. Ef ég fullyrði A B, þ.e. annaðhvort A eða B, þá stenst setningatengið aðeins ef önnur fullyrðingin reynist sönn og hin ósönn. Ég gæti t.d. hafa sagt: Annað hvort skín tunglið eða ekki. Setningafræði gengur út á að skrifa eða þýða, eins og sagt er, mælt mál yfir á táknmál rökfræðinnar. Hluti þeirrar vinnu er að rýna í sanntöflur eins og gert var hér á undan, en einnig er farið í það að greina orð og orðasambönd til að kanna röktengsl setninga. 19

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir 1 Hvað er stjórnun viðskiptatengsla (CRM)? Stjórnun viðskiptatengsla er hugmyndafræði Stjórnun viðskiptatengsla er stefna Stjórnun viðskiptatengsla

More information

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni Aðferð til að Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni hvað er það?? Málsýni þýðing á enska orðinu language sample Dæmi um málsýni Notað í rannsóknum um máltöku

More information

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver 14 1 Excel Solver Excel Solver er viðbót (e. add-in) við Excel sem hjálpar til að finna bestu lausn á viðfangsefnum eins og þegar um er að ræða takmarkaðar

More information

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Rannsóknarspurningin Treystir fólk sínum viðskiptabanka betur en öðrum og gæti það verið

More information

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept Gagnasafnsfræði Páll Melsted 16. sept Endurtekin gildi Ef við viljum losna við endurtekin gildi er hægt að nota DISTINCT SELECT DISTINCT name FROM MovieExec, Movie, StarsIn WHERE cert = producerc AND title

More information

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.)

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) www.landspitali.is Nafn Læknir Hjúkrunarfræðingur Símanúmer Ræddu eftirfarandi

More information

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR)

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) Aldur nemenda: 10 ára og upp úr Viðfangsefni: ofbeldi, einelti, samskipti Færnimarkmið: Hugtakaleikir ná að þjálfa flesta færniþætti samræðunnar Viðhorfamarkmið: Hugtakaleikir ná

More information

4) Þá ertu kominn inná routerinn og ætti valmyndin að líta út eins og sýnt er hér til hægri. 5) Því næst er smellt á Wizard setup

4) Þá ertu kominn inná routerinn og ætti valmyndin að líta út eins og sýnt er hér til hægri. 5) Því næst er smellt á Wizard setup Hægt er að tengjast við Zyxel 660W beininn bæði þráðlaust eða með netkapli í netkort tölvunnar. Stilla þarf tölvuna þannig að hún sæki sjálfkrafa IP tölu (Optain an IP Address Automatically). Mismunandi

More information

Hugvísindasvið. Ábyrgð Vesturlanda. Berum við ábyrgð á að hjálpa fólki í þriðja heiminum? Ritgerð til B.A.-prófs.

Hugvísindasvið. Ábyrgð Vesturlanda. Berum við ábyrgð á að hjálpa fólki í þriðja heiminum? Ritgerð til B.A.-prófs. Hugvísindasvið Ábyrgð Vesturlanda Berum við ábyrgð á að hjálpa fólki í þriðja heiminum? Ritgerð til B.A.-prófs Naomi Lea Grosman Janúar 2010 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Ábyrgð Vesturlanda

More information

Efling gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í íslenskum skólum

Efling gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í íslenskum skólum Lokaskýrsla til Nýsköpunarsjóðs námsmanna Sumar 2011 Efling gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í íslenskum skólum Höfundur: Elsa Haraldsdóttir Verkefnisstjóri: Dr. Henry Alexander Henrysson Verkefnisstjórn:

More information

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín Kennaraháskóli Íslands Kennsluréttindabraut Kennslufræði greinasviða og æfingakennsla Kennari: Elín María Thayer Ég sem kennari: Starfskenning mín Guðlaug Erlendsdóttir Nóvember 2007 Efnisyfirlit EFNISYFIRLIT...

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina Kennsluáætlun haust 2018 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei 1 2 3 3_1 4 5 6 6_1 7 pige ísl nei hlutlaus vel mikið læri mikið á dönsku tímum og ef ég ætla í nám til dk þá er betra að kunna dönsku veit ekki pige ísl nei hlutlaus vel mikið eg læri nytt tungumal veit

More information

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu?

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? 8 janúar 2015 Áður en kaupferlið hefst Í kaupferlinu Eftir að kaupferlinu lýkur Í kaupferlinu Áður en kaupferlið hefst Vörulýsing og myndir Neytendur

More information

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Umfjöllun 1. Stutt lýsing á Mati á stuðningsþörf: SIS 2. Einstaklingsbundnar

More information

Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft mér að

Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft mér að March 2008 Volume 3, Number 1 Flavio Baroncelli - Staðalímyndir og sannleikur 1 translated by Egill Arnarson Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft

More information

Uppsetning á Opus SMS Service

Uppsetning á Opus SMS Service Uppsetning á Opus SMS Service Undirbúningur Þetta þarf að vera til staðar: Opus SMS Service á að vera sett upp móðurtölvunni sem hýsir gagnagrunninn. Notandinn sem er innskráður á tölvunni þarf að vera

More information

Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara

Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara Edda Kjartansdóttir Þegar skynjanir vorar, hugsanir og hugsjónir hræra strengi tilfinninganna þá fyrst kemst rót á oss, þá losnar viljinn úr læðingi og knýr

More information

Eðlishyggja í endurskoðun

Eðlishyggja í endurskoðun Eðlishyggja í endurskoðun Komiði sæl. Gaman að sjá ykkur svona mörg hér. Eins og Sigríður sagði er ég að vinna að doktorsritgerð í heimspeki þar sem reyni að færa frumspekileg rök fyrir konstrúktivisma

More information

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban 8. febrúar 2013 Eiríkur Gestsson Um mig Eiríkur Gestsson Tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík 2004 Hugur hf. og HugurAx frá 2004 til

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vorönn 2019 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

Náttúruhyggja Kants. Háskóli Íslands. Hugvísindasvið Heimspeki. Ævarandi friður sem markmið mannkynsins. Ritgerð til B.A.-prófs

Náttúruhyggja Kants. Háskóli Íslands. Hugvísindasvið Heimspeki. Ævarandi friður sem markmið mannkynsins. Ritgerð til B.A.-prófs Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Náttúruhyggja Kants Ævarandi friður sem markmið mannkynsins Ritgerð til B.A.-prófs Baldur Hrafn Vilmundarson Kt.: 180881-3879 Leiðbeinandi: Gunnar Harðarson Maí

More information

Heimspekin sýnir okkur heiminn

Heimspekin sýnir okkur heiminn Menntavísindasvið Háskóla Íslands Grein birt 31. ágúst 2015 Yfirlit greina Ólafur Páll Jónsson Heimspekin sýnir okkur heiminn Minning um Pál Skúlason (1945 2015) Páll Skúlason heimspekingur fjallaði um

More information

2

2 Hugvísindadeild Þar sem hættan er... Vandamálið um gleymsku í heimspeki Kierkegaards og Heideggers Ritgerð til BA. prófs Jóhann Helgi Heiðdal Maí 2009 2 Háskóli Íslands Hugvísindadeild Heimspekiskor Þar

More information

um lífi Si fræ i fyr ir ungt fólk Vinnublöð

um lífi Si fræ i fyr ir ungt fólk Vinnublöð Lei flín um lífi Si fræ i fyr ir ungt fólk Vinnublöð Leonore Brauer Dr. Richard Breun Dr. Astrid Erdmann Maritta Schöne Íslensk þýðing: 2008 Skúli Pálsson Gefið út með leyfi Ernst Klett Schulbuchverlag

More information

Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012

Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012 Þjónustukönnun 2012-1 Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012 Niðurstöður könnunar á viðhorfum fullorðinna legudeildarsjúklinga til þjónustu á Landspítala. Ábyrgðarmenn Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri

More information

Hver er tilgangur heimspekinnar?

Hver er tilgangur heimspekinnar? Hugvísindasvið Hver er tilgangur heimspekinnar? Ritgerð til B.A.-prófs í heimspeki Flóki Snorrason Maí 2011 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Hver er tilgangur heimspekinnar? Ritgerð til B.A.-prófs

More information

Ronald Postma: Kitchen appliance to grow mushrooms was the project. Plugin Neon for Rhino and downloaded Bongo.

Ronald Postma: Kitchen appliance to grow mushrooms was the project. Plugin Neon for Rhino and downloaded Bongo. Week 3: Computer Controlled Cutting 11.2. 2015 This week we will learn about the mechanical application of computer aided design. The assignment for this week is to design, make, and document a press-

More information

GREINAR UM BÆKUR ÁSTA KRISTJANA SVEINSDÓTTIR. Kvenna megin

GREINAR UM BÆKUR ÁSTA KRISTJANA SVEINSDÓTTIR. Kvenna megin GREINAR UM BÆKUR ÁSTA KRISTJANA SVEINSDÓTTIR Kvenna megin Sigríður Þorgeirsdóttir Kvenna megin: ritgerðir um femíníska heimspeki Hið íslenska bókmenntafélag, 2001 Mikið gleðiefni er að út sé komin bók

More information

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Fólkstegundir. Um veitingu félagslegra eiginleika

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Fólkstegundir. Um veitingu félagslegra eiginleika Hugur 21. ár, 2009 s. 52 62 Ásta Kristjana Sveinsdóttir Fólkstegundir Um veitingu félagslegra eiginleika Um langt skeið hefur verið umræða í fræðaheiminum, jafnt sem annars staðar, um hvort ýmis fyrirbæri

More information

Jákvæð samskipti af hverju eru þau mikilvæg? Páll Ólafsson Félagsráðgjafi

Jákvæð samskipti af hverju eru þau mikilvæg? Páll Ólafsson Félagsráðgjafi Jákvæð samskipti af hverju eru þau mikilvæg? Páll Ólafsson Félagsráðgjafi Getur verið að þetta sé svona einfalt? Að börn þroskist best - ef þau eru elskuð fyrir það sem þau ERU en ekki vegna þess sem þau

More information

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Gagnvirkar töflur Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum Hólmfríður Ásmundsdóttir 270369-5459 Háskóli Íslands Menntavísindasvið Kennaradeild, grunnskólakennarafræði

More information

Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna

Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna Tímarit um menntarannsóknir, 1. árg. 2004, 9-17 9 Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna M. Allyson Macdonald Kennaraháskóla Íslands Inngangserindi á ráðstefnu 22. nóvember

More information

HEIMSPEKI Í UMHVERFINU (TÍU VERKEFNI EFTIR GUÐRÚNU HÓLMGEIRSDÓTTUR)

HEIMSPEKI Í UMHVERFINU (TÍU VERKEFNI EFTIR GUÐRÚNU HÓLMGEIRSDÓTTUR) HEIMSPEKI Í UMHVERFINU (TÍU VERKEFNI EFTIR GUÐRÚNU HÓLMGEIRSDÓTTUR) Aldur nemenda: Framhaldsskólastig Viðfangsefni: Ýmis heimspekileg viðfangsefni: hópefli, spurningar, tilgangur lífsins, sókratísk samræða,

More information

Inngangur. Web ADI skjöl. Október, 2018 [WEB ADI - NOTENDALEIÐBEININGAR]

Inngangur. Web ADI skjöl. Október, 2018 [WEB ADI - NOTENDALEIÐBEININGAR] Inngangur Nokkrar stofnanir nota Web ADI (Web Oracle Applications Desktop Integrator) til að skrá fylgiskjöl í Excel og flytja síðan færslurnar í fjárhag Orra (GL). Með útgáfu 12.2.7 af Orra breytist virknin

More information

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness Hagir og líðan barna í Grunnskóla s Niðurstöður rannsókna meðal nemenda í., 6. og 7. bekk á i árið 27 Birna Baldursdóttir Margrét Lilja Guðmundsdóttir Álfgeir Logi Kristjánsson Inga Dóra Sigfúsdóttir Jón

More information

Hugvísindasvið. Að eilífum friði. Siðfræði Kants lesin í friðarhugmyndum hans. Ritgerð til B.A.-prófs. Kristian Guttesen

Hugvísindasvið. Að eilífum friði. Siðfræði Kants lesin í friðarhugmyndum hans. Ritgerð til B.A.-prófs. Kristian Guttesen Hugvísindasvið Siðfræði Kants lesin í friðarhugmyndum hans Ritgerð til B.A.-prófs Kristian Guttesen Maí 2009 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Sagnfræði- og heimspekideild Siðfræði Kants lesin í friðarhugmyndum

More information

Um prófsteina gjörða okkar

Um prófsteina gjörða okkar Hugvísindasvið Um prófsteina gjörða okkar Sartre og Mill vísa lesendum veginn en lýsa ekki upp sömu leið Ritgerð til B.A.-prófs Helgi Vífill Júlíusson Janúar 2012 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki

More information

Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið

Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni

More information

STJÓRNMÁL & STJÓRNSÝSLA

STJÓRNMÁL & STJÓRNSÝSLA FRÆÐIGREINAR STJÓRNMÁL Akademískt frelsi 1 Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við kennaradeild HA Útdráttur Í greininni er fjallað um akademískt frelsi og leitast við að skýra það og hlutverk þess.

More information

Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf. Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir og Kristín Dýrfjörð

Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf. Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir og Kristín Dýrfjörð Athugið ritið er ekki prófarkalesið Röggur Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir gudrun@unak.is og Kristín Dýrfjörð dyr@unak.is 1 tbl. 4.

More information

Kennsluleiðbeiningar. Sólborg Jónsdóttir og Þorbjörg Halldórsdóttir.

Kennsluleiðbeiningar. Sólborg Jónsdóttir og Þorbjörg Halldórsdóttir. Sólborg Jónsdóttir og Þorbjörg Halldórsdóttir Íslenska fyrir alla. Sólborg Jónsdóttir og Þorbjörg Halldórsdóttir. 1 Efnisyfirlit 1. Hvað þýða táknin?... 3 2. Almennar kennsluleiðbeiningar... 4 3. Kennsluleiðbeiningar...

More information

Orðaforðanám barna Barnabók

Orðaforðanám barna Barnabók Orðaforðanám barna Barnabók Hrund Hermannsdóttir Lokaverkefni til B.ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari: Sigurður Konráðsson Kennaradeild Menntavísindasvið Háskóla Íslands Febrúar 2012 Ágrip

More information

Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla. Þórunn Kjartansdóttir. Lokaverkefni til MA gráðu í þjóðfræði.

Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla. Þórunn Kjartansdóttir. Lokaverkefni til MA gráðu í þjóðfræði. Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla Þórunn Kjartansdóttir Lokaverkefni til MA gráðu í þjóðfræði Félagsvísindasvið Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla Þórunn

More information

spjaldtölvur í skólastarfi

spjaldtölvur í skólastarfi spjaldtölvur í skólastarfi Á tímabilinu október 2012 til febrúar 2013 hef ég, Ómar Örn Magnússon aðstoðarskólastjóri í Hagaskóla, unnið að verkefni fyrir SFS sem miðar að því að skoða kosti, möguleika

More information

Hvað mótar hugmyndir háskólakennara um skipulag náms og kennslu?

Hvað mótar hugmyndir háskólakennara um skipulag náms og kennslu? Tímarit um menntarannsóknir, 1. árg. 2004, 163-173 163 Hvað mótar hugmyndir háskólakennara um skipulag náms og kennslu? Guðrún Geirsdóttir Háskóla Íslands Eitt af því sem greinir háskólakennara frá kennurum

More information

Undir himni fjarstæðunnar

Undir himni fjarstæðunnar Hugvísindasvið Undir himni fjarstæðunnar Úttekt á fjarstæðri rökhugsun Alberts Camus Ritgerð til B.A.-prófs Alexander Stefánsson Janúar 2012 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Undir himni fjarstæðunnar

More information

Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on.

Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on. Mánudagur 6. nóvember 2017. http://www.capfrance-terrou.com/ Rene about vocabulary Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on. Dvelopment

More information

Hugræn fræði (e. cognitive studies) hafa sótt í sig veðrið upp á

Hugræn fræði (e. cognitive studies) hafa sótt í sig veðrið upp á Þórhallur Eyþórsson Háskóla Íslands Bara hrægammar Myndhvörf hjá Lakoff og Pinker 1. Myndhvörf í tungumáli og hugsun Hugræn fræði (e. cognitive studies) hafa sótt í sig veðrið upp á síðkastið og eru vindar

More information

Forspjall um forvera

Forspjall um forvera Efnisyfirlit Forspjall um forvera... 2 Garðurinn I... 3 Þekkingarfræði... 6 Leiðin að farsæld líkaminn... 11 Ánægja, farsæld og hið góða líf... 14 Leiðin að farsæld hugurinn... 18 Ánægja og sársauki...

More information

KENNSLUAÐFERÐIR. Kennarmiðuð kennsla Nemendamiðuð kennsla Nemendasamfélagsmiðuð kennsla Tæknimiðuðu kennsla

KENNSLUAÐFERÐIR. Kennarmiðuð kennsla Nemendamiðuð kennsla Nemendasamfélagsmiðuð kennsla Tæknimiðuðu kennsla KENNSLUAÐFERÐIR Better learning will not come from finding better ways for the teacher to instruct but from giving the learner better opportunities to construct. (Papert, 1991) Flestir geta verið sammála

More information

Allt sem kennari segir og gerir og allt sem kennari segir og gerir ekki hefur siðferðileg áhrif Starfssiðfræði kennara

Allt sem kennari segir og gerir og allt sem kennari segir og gerir ekki hefur siðferðileg áhrif Starfssiðfræði kennara Allt sem kennari segir og gerir og allt sem kennari segir og gerir ekki hefur siðferðileg áhrif Starfssiðfræði kennara Guðmundína Arndís Haraldsdóttir Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Allt sem

More information

Heimildir og tilvísanir. Rétt notkun tilvísana og uppsetning heimildaskrár

Heimildir og tilvísanir. Rétt notkun tilvísana og uppsetning heimildaskrár Heimildir og tilvísanir Rétt notkun tilvísana og uppsetning heimildaskrár Notkun heimilda Það þarf alltaf að vísa í heimildir þegar fjallað er um efni sem þið hafið lesið um annars staðar og notið hugmyndir

More information

Þunglyndi og depurð. Leiðbeiningabæklingur

Þunglyndi og depurð. Leiðbeiningabæklingur Þunglyndi og depurð Leiðbeiningabæklingur Dæmi um hugsanir tveggja þunglyndra einstaklinga Mér líður eins og ég sé alein og yfirgefin, ég hitti vini mína aldrei núorðið, ætli þeir hafi ekki gefist upp

More information

FYRSTI KAFLI Inngangur

FYRSTI KAFLI Inngangur JOHN STUART MILL Frelsið Íslenzk þýðing eftir JÓN HNEFIL AÐALSTEINSSUN og ÞORSTEIN GYLFASON sem líka ritar forspjall HIÐ ÍSLENZKA BÓKMENNTAFÉLAG Reykjnvik 1970 John Stuart Mill (1806-1873), var enskur

More information

ÍÞRÓTTADEILD. Vildbjerg - Danmark

ÍÞRÓTTADEILD. Vildbjerg - Danmark ÍÞRÓTTADEILD Vildbjerg - Danmark Úrval Útsýn Saga fyrirtæksins nær allt aftur til ársins 936. Markmið leiðandi ferðaskrifstofa á íslenskum markaði með framúrskarandi þjónustu. Vildbjerg 9.júlí - 5.ágúst

More information

Hvernig eflum við gæði náms og kennslu?

Hvernig eflum við gæði náms og kennslu? Hvernig eflum við gæði náms og kennslu? Betri í dag en í gær ráðstefna um nám og gæði í íslenskum háskólum - 30. maí 2011 Anna Ólafsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri Gæði háskólanáms og -kennslu

More information

The students sat in serried ranks, They wrote with all their might. But as they wrote it all by rote, They did not write it right.

The students sat in serried ranks, They wrote with all their might. But as they wrote it all by rote, They did not write it right. NÁMSMAT Á NÝRRI ÖLD The students sat in serried ranks, They wrote with all their might. But as they wrote it all by rote, They did not write it right. The studetns wrote in serried ranks, Their writing

More information

Atli Harðarson VÉLMENNI 1

Atli Harðarson VÉLMENNI 1 Atli Harðarson VÉLMENNI 1 1. KAFLI: KENNING ALAN TURING Árið 1950 birtist grein eftir Alan Turing í enska heimspekitímaritinu Mind. Greinin heitir "Computing Machinery and Intelligence". Það mætti kalla

More information

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn?

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut 29 Lesum saman Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Guðríður Anna Sveinsdóttir Lokaverkefni Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild

More information

Eftirfarandi er reynsla þriggja einstaklinga sem eiga við þráhyggju-árátturöskun að stríða...

Eftirfarandi er reynsla þriggja einstaklinga sem eiga við þráhyggju-árátturöskun að stríða... Eftirfarandi er reynsla þriggja einstaklinga sem eiga við þráhyggju-árátturöskun að stríða... Ég óttast að smitast af einhverju af öðrum, ég óttast það að sýklarnir og bakteríurnar, sem aðrir bera með

More information

Staðreyndir,og,gildi

Staðreyndir,og,gildi % Félagsvísindasvið Staðreyndir,og,gildi íslensk þýðing á kaflanum Fact and value í bókinni Reason, truth, and history eftir Hilary Putnam Ritgerð til BA gráðu Nafn nemanda: Fannar Þór Guðmundsson Leiðbeinandi:

More information

Henry Miller: Listamaðurinn gegn heiminum

Henry Miller: Listamaðurinn gegn heiminum Hugvísindasvið Henry Miller: Listamaðurinn gegn heiminum Greining á virkni listamannsins í verkum Henry Millers Ritgerð til M.A.-prófs Atli Sigurjónsson Maí 2011 2 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Almenn

More information

Hafsteinn Karlsson. Að lesa og skrifa. Handbók fyrir kennara

Hafsteinn Karlsson. Að lesa og skrifa. Handbók fyrir kennara Hafsteinn Karlsson Að lesa og skrifa Handbók fyrir kennara 2 Hafsteinn Karlsson Að lesa og skrifa Handbók fyrir kennara Fyrsta útgáfa 1991 Önnur útgáfa 2005 3 Efnisyfirlit Efnisyfirlit...4 Formáli annarrar

More information

Réttlætiskenning Rousseau

Réttlætiskenning Rousseau Hugvísindasvið Réttlætiskenning Rousseau Á Samfélagssáttmáli Jean-Jacques Rousseau erindi við 21.öldina? Ritgerð til B.A.-prófs Einar Pétur Heiðarsson Maí 2009 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki

More information

1 Inngangur. Þetta kort sýnir hvernig uppbygging ritgerðarinnar er: Vellíðan. Hvað getur skólinn gert? Íslandi. Inngangur Sjálfsmynd

1 Inngangur. Þetta kort sýnir hvernig uppbygging ritgerðarinnar er: Vellíðan. Hvað getur skólinn gert? Íslandi. Inngangur Sjálfsmynd Útdráttur Einu barni af hverjum átta í grunnskóla líður ekki vel. Þegar tekið er tillit til lakari námsárangurs, aukinnar truflunar í tímum og jafnvel enn alvarlegri afleiðinga eins og þunglyndi og sjálfsvíga,

More information

Til varnar hugsmíðahyggju

Til varnar hugsmíðahyggju 32 Miranda Fricker Hugur 29. ár, 2018 s. 33 51 vitnisburðarranglæti er verið að vísa til hinnar sögulegu víddar í alvarlegu ranglæti af þessu tagi á meðan kerfislægt vitnisburðarranglæti vísar til samtímavíddarinnar.

More information

Samtöl um dauðann. Fyrirbærafræðileg rannsókn á viðhorfum aldraðra til lífs og dauða og til meðferðar við lífslok. Ágrip

Samtöl um dauðann. Fyrirbærafræðileg rannsókn á viðhorfum aldraðra til lífs og dauða og til meðferðar við lífslok. Ágrip Samtöl um dauðann Fyrirbærafræðileg rannsókn á viðhorfum aldraðra til lífs og dauða og til meðferðar við lífslok Helga Hansdóttir 1 sérfræðingur í lyf- og öldrunarlækningum Sigríður Halldórsdóttir 2 hjúkrunarfræðingur,

More information

Siðferði og almannatengsl Hvar eru mörkin?

Siðferði og almannatengsl Hvar eru mörkin? FÉLAGSVÍSINDA- OG LAGASVIÐ Siðferði og almannatengsl Hvar eru mörkin? Ritgerð til BA gráðu Nafn nemanda: Ingunn Heiða Ingimarsdóttir Leiðbeinandi: Sævar Ari Finnbogason (Haustönn 2017) Staðfesting á lokaverkefni

More information

Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu

Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu Ritgerð til BA prófs í listfræði Þóra Vilhjálmsdóttir Maí 2014 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Listfræði Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu

More information

TÖL203F Reiknirit, rökfræði og reiknanleiki

TÖL203F Reiknirit, rökfræði og reiknanleiki TÖL203F Reiknirit, rökfræði og reiknanleiki 26. apríl, 2016, 9:00 12:00 Aids: One handwritten A4 page (text on both sides). An Icelandic translation of the problems is on the last four pages. There are

More information

Tengsl skotleikjaspilunar og árásarhneigðar.

Tengsl skotleikjaspilunar og árásarhneigðar. Tengsl skotleikjaspilunar og árásarhneigðar. Greining á rannsókn meðal grunnskólabarna á Íslandi Arnór Helgi Knútsson HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni til BA gráðu í Sálfræði Sálfræðideild Maí 2015

More information

Hugvísindasvið. Annað líf. Er réttlætanlegt að ætla samþykki fyrir líffæragjöf? Ritgerð til MA-prófs í hagnýtri siðfræði.

Hugvísindasvið. Annað líf. Er réttlætanlegt að ætla samþykki fyrir líffæragjöf? Ritgerð til MA-prófs í hagnýtri siðfræði. Hugvísindasvið Annað líf Er réttlætanlegt að ætla samþykki fyrir líffæragjöf? Ritgerð til MA-prófs í hagnýtri siðfræði Héðinn Árnason September 2012 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Hagnýt siðfræði Annað

More information

Kennaramenntun og skólastarf í ljósi ólíkra viðhorfa til náms

Kennaramenntun og skólastarf í ljósi ólíkra viðhorfa til náms Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2012 Hafþór Guðjónsson Kennaramenntun og skólastarf í ljósi ólíkra viðhorfa til náms Í grein þessari er fjallað um kennaramenntun og skólastarf

More information

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Samtök iðnaðarins - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Framkvæmdarlýsing - félagsmannakönnun Unnið fyrir Markmið Samtök iðnaðarins Að kanna viðhorf félagsmanna SI til Evrópumála og þróun þar á Framkvæmdatími

More information

Handbók fyrir kennara við Háskóla Íslands

Handbók fyrir kennara við Háskóla Íslands Handbók fyrir kennara við Háskóla Íslands Ágætu háskólakennarar, Háskóli Íslands hefur sett sér þá stefnu að á vegum hans fari fram framúrskarandi kennsla. Hlutverk Kennslumiðstöðvar er að styðja við framkvæmd

More information

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði.

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði. Spilin á borðið Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Spilin á borðið: Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum

More information

Samtal er sorgar læknir

Samtal er sorgar læknir Samtal er sorgar læknir Leiðirnar til betra lífs Áslaug Tóka Gunnlaugsdóttir 221274-6019 Lokaverkefni til MA- prófs í Hagnýtri Menningarmiðlun Leiðbeinendur; Ármann H. Gunnarsson og Sumarliði Ísleifsson

More information

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun. Námstengd hvatning

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun. Námstengd hvatning MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun Námstengd hvatning Hvað hvetur háskólanema á Íslandi í námi? Kolbrún Eva Sigurjónsdóttir Leiðbeinandi: Kári Kristinsson, lektor Viðskiptafræðideild Febrúar 2012 Námstengdhvatning

More information

Þvingun og valdbeiting á heimilum fatlaðs fólks

Þvingun og valdbeiting á heimilum fatlaðs fólks Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Þvingun og valdbeiting á heimilum fatlaðs fólks Ritgerð til BA-prófs í heimspeki Friðrik Atlason Kt.: 051275-4389 Leiðbeinandi: Vilhjálmur Árnason Febrúar 2017

More information

ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki

ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki Árni H. Kristinsson arni.kristinsson@bsigroup.com Framkvæmdastjóri BSI á Íslandi 1 Dagskrá Breyttur heimur Forsendur breytinga Af hverju ISO 9001 er mikilvægur Hverjar

More information

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta?

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? www.ibr.hi.is Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? Erna Rós Kristinsdóttir Friðrik Eysteinsson Ritstjórar: Auður Hermannsdóttir Jón Snorri Snorrason Þóra Christiansen Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar

More information

Námsspil í náttúrufræði og umhverfismennt

Námsspil í náttúrufræði og umhverfismennt Námsspil í náttúrufræði og umhverfismennt Katrín Ósk Ómarsdóttir og Kristjana Jóhannsdóttir Lokaverkefni lagt fram til fullnaðar B.Ed.-gráðu í grunnskólakennarafræði við Háskóla Íslands, Menntavísindasvið

More information

Handbók kennarans. Leiðarvísir í fjölmenningarlegu námssamfélagi 10/12/2015

Handbók kennarans. Leiðarvísir í fjölmenningarlegu námssamfélagi 10/12/2015 Háskóli Íslands NAF003F Kennari: Hróbjartur Árnason 10/12/2015 Handbók kennarans Leiðarvísir í fjölmenningarlegu námssamfélagi Anna Sigríður Pétursdóttir, Helga Baldursdóttir og Ingibjörg Kr. Ferdinandsdóttir

More information

Á vegferð til fortíðar?

Á vegferð til fortíðar? Á vegferð til fortíðar? Rússland undir stjórn Pútín Ármann Snævarr Lokaverkefni til MA-gráðu í alþjóðasamskiptum Félagsvísindasvið Júní 2015 Á vegferð til fortíðar? Rússland undir stjórn Pútíns Ármann

More information

Hafa aldraðir rétt til að deyja með reisn?

Hafa aldraðir rétt til að deyja með reisn? Hugvísindasvið Hafa aldraðir rétt til að deyja með reisn? Hugtökin virðing og réttur skilgreind með notagildi þeirra í raunverulegum aðstæðum í huga Ritgerð til M.A.-prófs Arnrún Halla Arnórsdóttir Febrúar

More information

Kennarar ígrunda og rannsaka eigið starf

Kennarar ígrunda og rannsaka eigið starf Tímarit um menntarannsóknir, 1. árg. 2004, 27-38 27 Kennarar ígrunda og rannsaka eigið starf Hafdís Guðjónsdóttir Kennaraháskóla Íslands Í þessari grein verður sagt frá rannsóknaraðferðum sem notaðar voru

More information

Kolbrún Björt Sigfúsdóttir Fræði og framkvæmd. Hinir útvöldu -um leiklistardeild Listaháskóla Íslands og líkindi hennar við költ

Kolbrún Björt Sigfúsdóttir Fræði og framkvæmd. Hinir útvöldu -um leiklistardeild Listaháskóla Íslands og líkindi hennar við költ Kolbrún Björt Sigfúsdóttir Fræði og framkvæmd Hinir útvöldu -um leiklistardeild Listaháskóla Íslands og líkindi hennar við költ Leiðbeinandi: Magnús Þór Þorbergsson Febrúar 2008 Efnisyfirlit Athugarsemd

More information

Leiðsagnarmat í Menntaskóla Borgarfjarðar Hvernig hefur okkur miðað?

Leiðsagnarmat í Menntaskóla Borgarfjarðar Hvernig hefur okkur miðað? Endurmenntun HÍ - Að vanda til námsmats Umsjón: Ingvar Sigurgeirsson Leiðsagnarmat í Menntaskóla Borgarfjarðar Hvernig hefur okkur miðað? Júní 2009 Lilja S. Ólafsdóttir Efnisyfirlit Inngangur... 3 Menntaskóli

More information

Sjálfið á tímum stafræns veruleika

Sjálfið á tímum stafræns veruleika Sjálfið á tímum stafræns veruleika Upplifun einstaklinga af samskiptum í gegnum samfélagsmiðla, togstreita, áhrifastjórnun og skert geta til alhæfingar um mótleikara í stafrænum samskiptum. Lokaverkefni

More information

BA ritgerð. Meira en bara besti vinur mannsins?

BA ritgerð. Meira en bara besti vinur mannsins? BA ritgerð Mannfræði Meira en bara besti vinur mannsins? Hversu nánir mega menn verða dýrum og hvar grípa menningarleg tabú þar inn í? Kristín Björg Björnsdóttir Leiðbeinandi Sveinn Eggertsson Febrúar

More information

Vefskoðarinn Internet Explorer

Vefskoðarinn Internet Explorer Vefskoðarinn Internet Explorer Sitt lítið af hverju um IE6 Í flestum tilfellum er hægt að opna IE með því að tvísmella á táknmynd þess á skjáborðinu eða smella einu sinni á tákn þess á flýtistikunni (Quick

More information

Tónlist og einstaklingar

Tónlist og einstaklingar Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar Kristinn Arnar Benjamínsson Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar

More information

Skóli án aðgreiningar

Skóli án aðgreiningar Skóli án aðgreiningar Hugmyndir skólastjóra í grunnskólum um skóla án aðgreiningar? Ólafía María Gunnarsdóttir Lokaverkefni til M.Ed. prófs Uppeldis og menntunarfræðideild 1 Skóli án aðgreiningar Hugmyndir

More information

Máltaka barna. Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir

Máltaka barna. Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir Máltaka barna Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari: Sigurður Konráðsson Kennaradeild Menntavísindasvið Háskóla

More information

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum:

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild-menntavísindabraut Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Endurskoðun á forvörnum og eineltisstefnum í framhaldsskóla Eva Dröfn Möller Akureyri Júní, 2013 Háskólinn

More information

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Háskóli Íslands 3.4.2006 Viðskipta- og hagfræðideild Vinnusálfræði Vor 2006 Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Tryggvi R. Jónsson Kennari: Hafsteinn Bragason og Ægir Már Þórisson Fjarvinna 2 Val starfa

More information

Claudia Hausfeld. neptún magazine #02. Myndlist Art

Claudia Hausfeld. neptún magazine #02. Myndlist Art Claudia Hausfeld fæddist í Austur-Berlín árið 1980, en er nú búsett á Íslandi. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2012. Í verkum sínum vinnur Claudia með ýmsa miðla, einkum innsetningar og

More information

Svo ólíkt því sem við erum búin að vera að gera

Svo ólíkt því sem við erum búin að vera að gera Svo ólíkt því sem við erum búin að vera að gera Dogme sem kennsluaðferð í tungumálanámi Ellen Mörk Björnsdóttir Október 2016 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Svo ólíkt því sem við erum búin að

More information

Leikskóli margbreytileikans. Sérkennsla í nýju ljósi

Leikskóli margbreytileikans. Sérkennsla í nýju ljósi Leikskóli margbreytileikans Sérkennsla í nýju ljósi Starfsþróunarverkefni Sigrún Arna Elvarsdóttir Lokaverkefni til M.ed. - prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið Leikskóli margbreytileikans Sérkennsla

More information