Lokaritgerð til BA-gráðu í stjórnmálafræði. Atkvæðavægi, kjörsókn og jöfnuður

Size: px
Start display at page:

Download "Lokaritgerð til BA-gráðu í stjórnmálafræði. Atkvæðavægi, kjörsókn og jöfnuður"

Transcription

1 Lokaritgerð til BA-gráðu í stjórnmálafræði Atkvæðavægi, kjörsókn og jöfnuður Kosningakerfi Stúdentaráðs Háskóla Íslands Grettir Gautason Október 2017

2 Atkvæðavægi, kjörsókn og jöfnuður Kosningakerfi Stúdentaráðs Háskóla Íslands Grettir Gautason Lokaritgerð til BA-gráðu í stjórnmálafræði Leiðbeinandi: Gestur Páll Reynisson Stjórnmálafræðideild Félagsvísindasvið Háskóla Íslands Október 2017

3 Atkvæðavægi, kjörsókn og jöfnuður Ritgerð þessi er lokaverkefni til BA-gráðu í stjórnmálafræði. Óheimilt er að afrita ritgerðina á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa. Grettir Gautason, Reykjavík, Ísland, 2017

4 Útdráttur Í þessari ritgerð er kannað hvernig kosningakerfi Stúdentaráðs Háskóla Íslands hefur tekið breytingum frá því að ráðið var stofnað árið Þá er sérstaklega litið til breytinganna sem áttu sér stað árið Skoðað verður hvernig breytingin hafði áhrif á kosningaþátttöku ásamt því hvernig atkvæðavægi tók breytingum milli sviða innan Háskóla Íslands. Einnig verður farið sögulega yfir aðrar breytingar á kosningakerfi Stúdentaráðs Háskóla Íslands og hvers vegna stóð á þeim á sínum tíma. Litið verður á það hvernig Stúdentaráð Háskóla Íslands fellur inn í fræðilega ramma sem snúa að frjálsum félagasamtökum og hvort hægt sé að líta á Stúdentaráð Háskóla Íslands sem stéttarfélag. Að lokum er kannað hvort að þessar breytingar á kosningakerfinu hafi skilað tilætluðum árangri. Niðurstaðan var sú að Stúdentaráð Háskóla Íslands er ekki hægt að skilgreina sem stéttarfélag. Breytt kosningakerfi skilaði heldur ekki tilætluðum árangri, kosningaþáttaka jókst ekki svo skipti máli.

5 Abstract The subject of this thesis is to evaluate how the electoral system of the student council of the University of Iceland has evolved since the councils foundingin A special focus will be on the changes made in 2012 and examined how the changes affected voter what impact it had on the proportional voter turnout. Also the thesis will look ath the history of how different kinds of electoral systems influenced the University of Iceland student council and why these changes took place. Also it will be examined how the Student Council fits in with classical ideas of and theoretical framework of third sector or non profit organizations and if it can be classified as a labor or class union. Finally it will be examined if the changes to the electoral system fulfilled the preset purpose. The main conclusions are that the Student Union cannot be classified as a union. Changes to the electoral system also did not have the desired effect, as voter turnout did not improve.

6 Formáli Ritgerð þessi er lokaverkefni mitt til BA-gráðu við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Ritgerð þessi var unnin á sumarmisseri 2017 og er metin til 12 ECTS eininga í 180 eininga námi. Leiðbeinandi minn var Gestur Páll Reynisson og langar mig að þakka honum fyrir mikla þolinmæði í minn garð sem og gagnlegar upplýsingar og ábendingar. Elva Ellertsdóttir, deildarstjóri stjórnmálafræðideildar, sýndi mér einnig mikið langlundargeð sem ég er þakklátur fyrir. Foreldrar mínir, Berglind Einarsdóttir og Gauti Jóhannesson, voru mér einnig til halds og trausts og langar mig að þakka þeim fyrir það. Móðir mín tók auk þess að sér prófarkalestur sem ég verð henni ævinlega þakklátur fyrir. Þessi ritgerð hefði aldrei orðið að veruleika án stuðnings kærustu minnar, Sigrúnar Bjarkar Sveinbjörnsdóttur. Að lokum er ég þakklátur samnemendum mínum, þeim Þóri Stein Stefánssyni, Degi Bollasyni og Böðvari Aðalsteinssyni fyrir andlegan stuðning.

7 Efnisyfirlit Útdráttur... 4 Abstract... 5 Formáli... 6 Efnisyfirlit... 7 Töfluyfirlit Inngangur Rannsóknarspurningar og markmið Saga stúdentaráðs Stofnun Stúdentaráðs Háskóla Íslands Breytt kosningakerfi Stúdentaráðs Einstaklingsframboð á ný Hagsmunamál ávallt þau sömu Saga tveggja stærstu fylkinganna Vaka Röskva Stjórnskipulag félagasamtaka Upphaf stéttarfélaga á Íslandi Félagasamtök Mismundandi geirar Stjórnir og vinnubrögð Stúdentaráð Háskóla Íslands sem stéttarfélag Háskólaráð Kosningakerfi Stúdentaráðs Borda og D Hondt kerfið Kosningakerfið fyrir breytingar Kosningakerfið fyrir Háskólalistinn myndaður Skrökva stígur fram... 31

8 5.6 Tillögur að breytingum Hagsmunir nemenda Ástæður fyrir breytingum Kosningar Áhrif á þátttöku Vægi atkvæða Niðurstöður og umræður Heimildaskrá... 44

9 Töfluyfirlit Tafla 1. Hvernig D Hondt reikniformúlan virkar...27 Tafla 2. Kosningaþátttaka og stærð deila eftir ártali

10 1. Inngangur Breytt kosningakerfi Stúdentaráðs Háskóla Íslands er aðalviðfangsefni þessarar ritgerðar. Árið 2012 var kosningakerfinu breytt til muna, kerfi sem hafði verið nánast óbreytt síðan Rýnt verður í það hvers vegna kerfinu var breytt og hverjar breytingarnar voru. Eins verða niðurstöður kosninga sem og kosningaþátttaka skoðuð. Ítarleg úttekt á stjórnkerfi Stúdentaráðs verður einnig rædd ásamt því hvernig Stúdentaráð passar inní ramma félagasamtaka og stéttarfélaga. Farið verður gróflega yfir sögu og sögulegt hlutverk Stúdentaráðs Háskóla Íslands og hvernig áherslur innan ráðsins hafa breyst. Þegar farið verður yfir sögulega hlutann verður að mestu vitnað í bók Jóns Ólafs Ísbergs, Stúdentsárin saga stúdentaráðs. Jón fer þar ítarlega yfir sögu Stúdentaráðsins ásamt því að fara vandlega yfir helstu þátttakendurna og fylkingarnar í ráðinu. Bókin er gefin út í tilefni 75 ára afmælis Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Þar að auki verður vitnað í stúdentahreyfingarnar sjálfar sem og blaðagreina og annað efni sem komið hefur út er varðar stúdentahreyfinguna. Þá verður litið á tilgang og hlutverk einnar mikilvægustu stofnunar Háskóla Íslands, Háskólaráð. Fræðileg umfjöllun um félagasamtök og tengsl Stúdentaráðs Háskóla Íslands verður einnig til athugunar. Stúdentafylkingarnar sem og Stúdentaráð Háskóla Íslands hafa lengi stært sig af því að vera stéttarfélag fyrir nemendur skólans. Athugað verður hvort og þá hvernig Stúdentaráð Háskóla Íslands passar inn í þær kenningar sem til eru um frjáls félagasamtök. Stjórnun og rekstur félagasamtaka eftir Ómar H. Kristmundsson og Steinunni Hrafnsdóttur, en verk þeirra er helsta heimildin þegar kemur að fræðilegri umfjöllun þessarar ritgerðar. Rétt eins og með sögulega hlutann verða blaðagreinar hafðar til hliðsjónar ásamt öðrum fræðilegum greinum og rannsóknum. Ítarlega verður farið í aðdraganda þess að kosningakerfinu var breytt árið 2012, hvernig því var breytt, ástæður þeirra og áhrif á Stúdentaráð Háskóla Íslands og kosningar til ráðsins. Þeir einstaklingar sem komu að þessum breytingum eru helsta heimildin ásamt blöðum og tímaritum nemendafélaganna sem komu út í kringum breytingarnar. Tölfræðileg gögn sem Stúdentaráð Háskóla Íslands útveguðu munu einnig koma mikið við sögu.

11 Markmiðið með þessari ritgerð er því að varpa ljósi á það hvernig mismunandi kosningakerfi geta haft áhrif á niðurstöður kosninga. Litið verður til vægis atkvæða milli deilda fyrir og eftir breytingarnar Einnig er markmiðið að komast að því hvort Stúdentaráð Háskóla Íslands sé í raun þetta stéttarfélag sem meðlimir ráðsins eru svo duglegir að minna á. Nánar verður fjallað um rannsóknarmarkmið þessarar ritgerðar í 2. kafla.

12 2. Rannsóknarspurningar og markmið Eins og fram hefur komið er markmið með þessu lokaverkefni að kortleggja stjórnkerfi stúdentaráðs og greina breytingar á niðurstöðum kosninga og þátttöku þegar kosið er til Stúdentaráðs Háskóla Íslands til ársins Í ljósi þess hafa eftirfarandi rannsóknarspurningar verið lagðar fram. 1) Hvernig passar Stúdentaráð Háskóla Íslands inní fræðilegan kenningaramma um frjáls félagasamtök? Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur lengi kennt sig við stéttarfélög og þar af leiðandi sem frjáls félagasamtök. Farið verður yfir það hve vel þetta á við um Stúdentaráð Háskóla Íslands. Umfjöllunin mun taka mið af þeirri staðreynd að Stúdentaráð skilgreinir sig sem stéttarfélag 2) Hver eru áhrif þeirra breytinga sem gerðar voru á kosningakerfi stúdentaráðs árið 2012? Til að svara þessari spurningu verður litið til kosningareglna fyrir og eftir breytingar og til hliðsjónar verður gert grein fyrir ástæðum þeirra og hvaða tilgangi þær áttu að þjóna. Til hliðsjónar mun höfundur fjalla um hugmyndir um jafnt vægi atkvæða í kosningakerfum 3) Hvaða áhrif hefur breytt kosningakerfi haft á vægi atkvæða á milli sviða? Með breyttu kerfi hefur vægi hvers atkvæðis breyst. Áður en kerfinu var breytt jafngilti einn nemandi einfaldlega einu atkvæði. Félagsvísindasvið var oftar en ekki með flest atkvæði, eingöngu sökum fjölda nemenda í deildinni. Sameining við Kennaraháskóla Íslands hafði einnig áhrif. Með breyttu kerfi var skólanum í raun kjördæmaskipt. Hvert svið fékk það er að segja ákveðið marga fulltrúa inn í Stúdentaráð. Félagsvísindasvið fékk sjö fulltrúa á meðan hin sviðin fengu fimm fulltrúa inn í Stúdentaráð.

13 4) Má ætla að breytingarnar hafi skilað þeim árangri sem áætlað var? Litið verður sérstaklega til þátttöku nemenda í kosningum til Stúdentaráðs Háskóla Íslands og hvort hún hafi aukist eða minnkað með breyttu kosningakerfi. Eins og fram mun koma var eitt markmiða með breytingunum að styrkja lýðræðisþáttinn meðal annars með því að auka þátttöku.

14 3. Saga stúdentaráðs 3.1 Stofnun Stúdentaráðs Háskóla Íslands Þann 11. desember 1920 var kosið í fyrsta sinn til Stúdentaráðs Háskóla Íslands og nokkrum dögum seinna var fyrsti fundur ráðsins haldinn, þann 17. desember. Upphaflega kom hugmyndin að stofnun Stúdentaráðs frá Vilhjálmi Þ. Gíslasyni en hann bar þetta upp á fundi hjá Stúdentafélaginu seint í janúar Fyrst þurfti þó Háskólaráð að samþykkja þessa tillögu Vilhjálms. Sú samþykkt gekk hratt fyrir sig og var Vilhjálmi sjálfum og Ólafi Lárussyni, prófessor í lögfræði, falið að semja reglur og lög Stúdentaráðs. Eftir að þeir höfðu lokið vinnu sinni voru tillögur þeirra kynntar stúdentum við skólann og voru þær á endanum samþykktar, eftir talsverðan ágreining og erfiðar umræður. Þaðan fóru reglurnar fyrir Háskólaráð sem samþykkti þær að mestu leyti. Kosningar fóru fram 11. desember og í kjölfarið var Stúdentaráð Háskóla Íslands orðið að veruleika. Það leið síðan ekki á löngu þar til fyrsta erindið barst ráðinu eða í mars árið eftir. Gott er að hafa í huga að nemendur Háskóla Íslands á þessum tíma voru ekki nema 94 og kennarar 20, að meðtöldum aukakennurum. Tveir einstaklingar úr hverri deild voru kosnir inní Stúdentaráðið og síðan einn á hverju ári eftir það. Stúdentaráðið var þar af leiðandi endurnýjað á tveggja ára fresti. Alveg frá byrjun voru vægi atkvæða milli sviða ekki jöfn. Sviðin fengu tvo aðila inní Stúdentaráð án tillits til nemendafjölda innan þeirra. Ójafnt vægi atkvæða innan Stúdentaráðs á sér þannig rætur að rekja alveg til upphafs Stúdentaráðs. 2 Talsverð óánægja var með þetta kerfi en strax 1923 var lögum og reglum þeirra Vilhjálms og Ólafs breytt. Hver deild skyldi kjósa einn aðila inní ráðið og fjórir fulltrúar yrðu kosnir í almennri kosningu. Deila má um árangur þessara breytinga en í þessum kosningum fengu laganemar tvo fulltrúa og læknanemar hina tvo, en þessar tvær deildir voru fjölmennastar. Í kringum 1930 fór að bera meira á lands og flokkastjórnmálum innan Stúdentaráðs og merki íslenskra flokksstjórnmála 3 urðu sífellt meira áberandi. Til dæmis þegar Félag Róttækra Stúdenta var stofnað, en upp frá því einkenndi flokkapólitík Stúdentaráð um ókomna tíð. Árið 1932 voru til dæmis þrír í ráðinu 1 Jón Ólafur Ísberg, Stúdentsárin saga stúdentaráðs, 1. útg. (Reykjavík: Gutenberghf., 1996), 45 2 Jón Ólafur Ísberg, Stúdentsárin saga stúdentaráðs, 1. útg. (Reykjavík: Gutenberghf., 1996), Jón Ólafur Ísberg, Stúdentsárin saga stúdentaráðs, 1. útg. (Reykjavík: Gutenberghf., 1996), 68

15 skráðir í Kommúnistaflokk Íslands. Það var mikið baráttumál þeirra að afnema deildarkjörið. Þeir fengu sínu framgengt því 1936 var hætt að kjósa inn eftir deildum en í staðinn eftir fylkingum. Vald Stúdentaráðs var þó aldrei mikið á þessum tímum og var helsta hlutverk þess að halda utan um skemmtanahald fyrir nemendur skólans. Líkt og Októberfest er aðal skemmtun Stúdentaráðs í dag voru svokölluð Rússagildi stærsta skemmtun Stúdentaráðs á þeim tíma en það er önnur saga Breytt kosningakerfi Stúdentaráðs Árið 1933 var kosið í fyrsta sinn í hlutbundinni listakosningu til Stúdentaráðs. Stóð valið þá á milli A-listans, Félags róttækra stúdenta, og B-listans, lýðræðissinna. Það er að segja milli hægri og vinstri ef listarnir væru einfaldaðir. 5 Í öllum ráðum, nefndum og stjórnum var samt sem áður áfram kosið með hlutfallskosningu. 6 Flokkapólitíkin innan Stúdentaráðs var allsráðandi á þessum tíma en fylkingar innan ráðsins voru í raun framhald af þeim flokkum sem tókust á innan veggja Alþingis. Flestir flokkar sem sátu á Alþingi áttu einnig meðlimi innan raða Stúdentaráðsins. Þessir tímar í sögu Stúdentaráðs voru veigamiklir og eins og áður segir mjög litaðir af flokkapólitík. Róttækir stúdentar og þjóðernissinnaðir stúdentar tókust á í prentmiðlum og kepptust einnig við að lýsa vantrausti á hvorn annan. Íslenskir þjóðernissinnar sem töldu hallir undir Þýskaland nasismans sem og kommúnistar voru innan beggja þessara hreyfinga. Uppúr þessari valdabaráttu spratt síðan elsta fylking stúdentaráðs, Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, sem bauð sig fyrst fram árið Það ár fengu Vökuliðar um það bil 37% atkvæða en upp frá því átti Vaka eftir að setja varanlegt mark á stjórnmál Stúdentaráðs Einstaklingsframboð á ný Ekki verður farið mikið dýpra í það hvernig og hvaða fylkingar fóru með völd innan Stúdentaráðs en eitt var þó víst að óánægja var með hve lituð stúdentapólitíkin var 4 Jón Ólafur Ísberg, Stúdentsárin saga stúdentaráðs, 1. útg. (Reykjavík: Gutenberghf., 1996), 65 5 Jón Ólafur Ísberg, Stúdentsárin saga stúdentaráðs, 1. útg. (Reykjavík: Gutenberghf., 1996), Jón Ólafur Ísberg, Stúdentsárin saga stúdentaráðs, 1. útg. (Reykjavík: Gutenberghf., 1996), Vaka, Saga Vöku, (sótt 3. júní 2017)

16 af stjórnmálum. Almennt voru nemendur sammála því að grundvallarbreytingar þyrftu að eiga sér stað innan veggja skólans og gera ætti sem mest til að sameina hagsmunabaráttuna undir einn hatt. Ákveðið var að reyna að breyta kosningarkerfinu og árið 1960 var sú ákvörðun tekin með kosningum í Háskólaráði, að taka upp kerfi sem var svipað því sem var á milli Einstaklingsframboð tóku þannig við listakosningum, og hver deild fékk þá einn fulltrúa og restinni af fulltrúunum var skipt á milli deilda eftir kosningaþátttöku. Ekki er nauðsynlegt að vera mjög talnaglöggur til þess að sjá að þetta fyrirkomulag kom sér betur fyrir fjölmennari deildir eins og laga- og læknadeild. Þrír uppbótarfulltrúar voru til dæmis í boði og læknadeildin fékk tvo af þeim á meðan laga- og viðskiptadeild fékk lokafulltrúann. Nemendur þessara tveggja deilda voru rétt yfir fjórðungur af nemendum skólans. 8 Fámennari deildir áttu þannig lítil tök á að fá uppbótarfulltrúa inn í Stúdentaráð. Háskólinn var á þessum tíma frekar fámennur eða um það bil 750 nemendur. Eins og sagt er um smáþorp úti á landi þá þekktu allir alla. Stúdentaráð hætti því aldrei að vera pólitískt. Frambjóðendur voru dæmdir eftir því hverja þeir þekktu eða af hvaða mönnum þeir voru komnir. Einnig var erfitt að fela skoðanir sínar ef nemandinn var búinn að opinbera hvert hann hallaði í pólitík. 9 Fylkingar hægri og vinstri manna skiptust á að vera í forystu á meðan á þessu tímabili stóð en almennt voru stúdentar ekki ánægðir með kosningakerfið. Þetta kerfi var við lýði í 14 ár en þá voru listakosningar teknar upp að nýju. Þá í marsmánuði, 1974, var Arlín Óladóttir, læknanemi, fyrst kosin formaður 10 sem og framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands en hún var einnig fyrsta konan til að gegna stöðu formanns Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Arlín sat fyrir hönd vinstrimanna í skólanum en þeir höfðu unnið kosningarnar með yfirburðum þetta árið. Það verður þó að teljast erfitt að skilgreina hvað nákvæmlega það þýddi að vera vinstrimaður á þessum tíma þar sem vinstri mönnum kom ekki alltaf saman um það. Nemendur Háskólans voru þó sammála um það að vinstrimenn væru almennt á móti Vöku. Hvað sem fylkingarnar hétu eða fólkið sem sat í þeim gerði, þá voru fylkingarnar innan Stúdentaráðs ennþá pólitískar. Margir voru óánægðir með að Vaka kæmist sífellt til valda og kærðu sig 8 Jón Ólafur Ísberg, Stúdentsárin saga stúdentaráðs, 1. útg. (Reykjavík: Gutenberghf., 1996), Jón Ólafur Ísberg, Stúdentsárin saga stúdentaráðs, 1. útg. (Reykjavík: Gutenberghf., 1996), Jón Ólafur Ísberg, Stúdentsárin saga stúdentaráðs, 1. útg. (Reykjavík: Gutenberghf., 1996), 245

17 ekkert um að hægri menn og aðrir Sjálfstæðismenn færu með völd innan skólans. Mótvægi vantaði gegn Vöku og því var Röskva, Samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, stofnað árið 1988 en farið verður yfir sögu félagsins síðar Hagsmunamál ávallt þau sömu Gaman er að líta um öxl á þessi fyrstu ár stúdentaráðs en lítið hefur breyst. Helstu baráttumálin voru til dæmis fjöldatakmarkanir inn á sviðin og bygging heimavistar fyrir nemendur Menntaskólans en Stúdentaráðsliðar vildu ólmir komast inn á þær heimavistir. Auðvelt er að sjá samsvörun milli þess sem var að gerast þá og er að gerast í dag hvað varðar byggingu nýrra Stúdentagarða. Stúdentaráð barðist einnig fyrir bættri aðstöðu, auknum fjármunum inn í skólann og lægri skólagjöldum svo dæmi séu tekin. Helsta hlutverk Stúdentaráðs Háskóla Íslands hefur frá stofnun þess án efa verið að skemmta nemendum, hvort sem það var með gamla Rússagildinu eða Októberfest nútímans. Setja má spurningarmerki við það hve mikinn áhuga nemendur sjálfir hafa á stúdentapólitíkinni en almennt er þátttaka í henni fremur dræm. 3.5 Saga tveggja stærstu fylkinganna 3.51 Vaka Vaka, félag lýðræðislegra stúdenta, tók fyrst þátt í kosningum til Stúdentaráðs Háskóla Íslands árið Félagið var stofnað af sjálfstæðismönnum innan veggja Háskólans. 12 Vökuliðar fengu 37% fylgi þessar fyrstu kosningar sínar en það var um það bil 10% minna fylgi en andstæðingar þeirra í Félagi róttækra stúdenta. Þrátt fyrir að hafa sigrað sjálfir voru róttækir vissir um að óhreint mjöl væri í pokahorninu og kærðu niðurstöðurnar. Á þessum tíma var Bjarni Benediktsson lagaprófessor við Háskólann og hann var sammála róttækum, því var ákveðið að kjósa aftur og fengu róttækir nú hreinan meirihluta. Starfsemi Vöku byrjaði því ekki vel. Tilgangurinn með stofnun Vöku var einmitt að reyna að koma í veg fyrir að þeir sem aðhylltust 11 Röskva, Um Röskvu, (sótt 3. júní 2017) 12 Jón Ólafur Ísberg, Stúdentsárin saga stúdentaráðs, 1. útg. (Reykjavík: Gutenberghf., 1996), 122

18 kommúnisma kæmust til valda innan skólans. Einnig var markmiðið að sameina hægri sinnaða stúdenta undir einn væng. Vaka stóð samt sem áður eftir og gerir enn. 47 skipti hefur formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands komið frá Vöku Röskva Félag vinstri manna og Umbótasinna tóku sig til og sameinuðust árið 1988 í hreyfinguna Röskvu, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands. Helsta ástæðan fyrir þessari sameiningu var barátta vinstri manna og annarra gegn Vöku, félagi lýðræðissinnaðra stúdenta. 14 Ágætlega gekk í byrjun hjá Röskvu en þegar kosið var í fyrsta sinn á milli Vöku og Röskvu voru báðar fylkingar með jafn marga fulltrúa. Vaka hafði þó formannssætið. Ekki fór þó jafn vel fyrir Röskvuliðum í kosningunum árið eftir en þá vann Vaka einn af sínum stærstu sigrum. Aftur vann Vaka árið eftir en Röskva náði að klóra í bakkann og 1991 var Röskva í fyrsta sinn í formennsku í Stúdentaráði. Röskva deildi þó fulltrúasætum jafnt með Vöku. Röskva náði síðan inn hreinum meirihluta árið eftir, í fyrsta sinn. 15 Þennan meirihluta átti Röskva eftir að halda í alveg til ársins Nú í ár, 2017, vann Röskva sinn stærsta sigur en Röskva á 18 af 27 stúdentaráðsliðum Vaka, Saga Vöku, (sótt 3. júní 2017) 14 Röskva, Um Röskvu, (sótt 3. júní 2017) 15 Jón Ólafur Ísberg, Stúdentsárin saga stúdentaráðs, 1. útg. (Reykjavík: Gutenberghf., 1996), Vísir.is. Röskva sigraði í kosningum til Stúdentaráðs, visir.is, 2. febrúar (sótt 28. maí 2017)

19 4. Stjórnskipulag félagasamtaka 4.1 Upphaf stéttarfélaga á Íslandi Stúdentaráð Háskóla Íslands sem og hreyfingar líkt og Vaka og Röskva hafa lengi reynt að líkja hagsmunabaráttu sinni við hagsmunabaráttu stéttarfélaga. 17 Oftar en ekki má finna dæmi um þetta í blöðum og ritum á þeirra vegum. Þetta verður að teljast áhugavert bæði í sögulegu og fræðilegu samhengi. Þegar litið er til sögulegs hlutverks stéttarfélaga má oftar en ekki rekja upphaf þeirra til iðnbyltingarinnar sem varð á 19. öld í Evrópu og tilkomu verkamannastéttarinnar. Fólk í lægstu stétt þjóðfélaga hafði fram að því búið við slæm kjör og takmarkaði réttarstöðu hvort heldur sem var innan þjóðfélags eða gagnvart æðri stéttum. Fyrsta stéttarfélagið sem stofnað var af prenturum hér á landi 1887 hafði fengið byr undir báða vængi frá bæði góðtemplurum og samvinnuhreyfingunni sem hafði eflt félagshyggju þjóðarinnar á seinni hluta 19. aldarinnar. Til að gera langa sögu stutta var og er tilgangur stéttarfélaga að huga og hlúa að réttindum og hagsmunum þeirra sem eru í stéttarfélaginu og að veita ákveðið aðhald við atvinnurekendur og verksmiðjueigendur. 18 Stefnan var bæði skýr og einföld. Þeir sem tóku þátt í þessum félögum voru með sameiginleg markmið og voru meðlimir ekki að skiptast í fylkingar til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, eitthvað sem Stúdentaráð Háskóla Íslands og samtök innan þess hafa iðulega gert. Jafnvel þótt upp kæmu átök milli ólíkra hópa hefur almenna reglan verið sú að flokkadrættir hafa ekki náð fótfestu í stjórnskipan slíkra félaga. Þekkt er að blokkirnar og þá sérstaklega Vaka og Röskva á síðari tímum, skiptast aðallega til hægri eða vinstri og oftar en ekki virðist baráttan þeirra á milli vera í fyrirrúmi frekar en endilega hagsmunir nemenda. Eins og áður hefur komið fram hefur baráttan endurspeglað flokkastjórnmál á landsvísu. 17 Morgunblaðið, Stéttarfélag háskólastúdenta, mbl.is, 20. september (sótt 28. maí 2017) 18 Alþýðusamband Íslands, Stutt sögulegt ágrip, (sótt 29. maí 2017)

20 4.2 Félagasamtök Rétt eins og stéttarfélög er þó hægt að skilgreina Stúdentaráð sem félagasamtök að vissu leyti. Til þess að hægt sé að fjalla um Stúdentaráð sem félagasamtök þarf fyrst að útskýra hvað félagasamtök eru. Félagasamtök er viss tegund af skipulagsheildum, organization á ensku, það er skipulagður hópur sem vinnur að sameiginlegum markmiðum á fyrirfram ákveðinn og vel skilgreindan máta. 19 Tilviljun ræður því ekki að þetta er hópur fólks en ekki aðskildir einstaklingar. Eitt af markmiðunum er að virkja fólkið sem er inní hópnum til þess að ná settum markmiðum, eitthvað sem væri erfitt, ef ekki ómögulegt, ef einstaklingur ætlaði sér að ganga einn í verkið. Þar af leiðandi getur hópurinn skipt með sér verkefnum og afköst verða meiri og betri. Það hvernig félagasamtök eru byggð upp kallast stjórnskipulag en slíkt skipulag má finna í nánast hvaða geira sem er. Tilgangurinn er að sýna skýrt og greinilega hvar boðvaldið 20 liggur og hver ber ábyrgð hverju sinni. Oftar en ekki er þessu lýst á myndrænan hátt og þá í svokölluðu skipuriti. 21 Hið svokallaða boðvald er réttur yfirmanns eða stjórnanda til þess að taka ákvarðanir, skipa öðrum fyrir eða fá þær upplýsingar sem hann þarf. 22 Það þýðir þó ekki að hann hafi ótakmarkað vald. Oftar en ekki eru reglur um hvað hann sjálfur má og má ekki gera. Þessar reglur geta verið allt frá siðareglum til verklagsreglna. Þetta er gert til þess að draga úr valdi yfirmannsins, ákveðinn dempari. Auknu valdi yfirmanns fylgir þó ávallt aukin ábyrgð. Sá sem stjórnar skal alltaf vera fær um að skýra ákvarðanir sínar og á sama tíma vera tilbúinn að taka alla ábyrgð á sig ef hann gerir mistök. 19 William Richard Scott, Organizations: Rational, natural, and open systems. (New Jersey: Prentice Hall, 2003) 20 Ómar H. Kristmundsson og Steinunn Hrafnsdóttir, Stjórnun og rekstur Félagasamtaka (Reykjavík: Háskólaútgáfan/kg, 2008), Ómar H. Kristmundsson og Steinunn Hrafnsdóttir, Stjórnun og rekstur Félagasamtaka (Reykjavík: Háskólaútgáfan/kg, 2008), Ómar H. Kristmundsson og Steinunn Hrafnsdóttir, Stjórnun og rekstur Félagasamtaka (Reykjavík: Háskólaútgáfan/kg, 2008), 80

21 4.3 Mismundandi geirar Þegar félagasamtök eru skilgreind eru þau oftar en ekki borin saman við opinberar stofnanir annarsvegar eða einkageirann hinsvegar. 23 Einkageirinn er oftast kallaður fyrsti geirinn og opinberi annar geirinn. Félagasamtök eru því kennd við þriðja geirann. Geirarnir þrír eiga það sameiginlegt að þau þjónusta einhvern eða einhverja aðila, viðskiptavini eða umbjóðendur. Þessir aðilar geta verið missýnilegir eða virkir í öllum þremur geirunum. Hlutverk opinberra stofnanna er talsvert flókið en þeim er ætlað að veita einhverskonar þjónustu með litlu eða ekki neinu kostnaðarframlagi umbjóðenda sinna. Þetta er talsvert auðveldara í fyrsta geiranum, einkageiranum. Þar eru umbjóðendur oftar en ekki hluthafar í hlutafélagi og leggja þannig á sama tíma fjárframlag til fyrirtækisins. Tilgangurinn með því er oftast sá að fá seinna greiddan út arð eða önnur laun í skiptum fyrir fjármagnið. Í opinbera geiranum er fjármagnið í formi skatta eða gjalda sem einstaklingurinn borgar til ríkisins eða stofnunarinnar. Þriðji geirinn, félagasamtökin, er ekki eins og hinir tveir geirarnir þar sem erfitt getur verið að sjá hver er í raun eigandinn eða hverja félagasamtökin eiga að vera að vinna fyrir 24 enda kallað non profit á ensku sem gefur til kynna óljóst eignarhald. Oftar en ekki er þó litið á meðlimi þeirra sem eigendur samtakanna. Ólíkt fyrsta geiranum til dæmis, er meðlimur félagasamtaka ekki að leita eftir fjárhagslegum gróða og svipaða sögu má segja um opinberar stofnanir. Umbjóðandinn er ekki að sækjast eftir ákveðinni þjónustu, heldur er hann oftar en ekki að reyna að láta gott af sér leiða eða að vinna fyrir réttindum og hag komandi kynslóða. Þar af leiðandi má umbjóðandi félagasamtaka ekki eiga von á því að fá jafn mikið út úr samtökunum og hann leggur inn. Sjálfboðaliðar mynda oftast stærsta partinn af félagasamtökum. Þessir sjálfboðaliðar sitja þannig oft í stjórnum félagasamtaka, algjörlega endurgjaldslaust. Þetta getur haft bein áhrif á það hvernig félagasamtökum er stýrt. Í einkageiranum er skýrt og greinilegt hver hefur mesta boðvaldið og þeir sem starfa innan hans vita oftast hver er yfirmaður þeirra og hver er undirmaður. Ábyrgð 23 Ómar H. Kristmundsson og Steinunn Hrafnsdóttir, Stjórnun og rekstur Félagasamtaka (Reykjavík: Háskólaútgáfan/kg, 2008), Ómar H. Kristmundsson og Steinunn Hrafnsdóttir, Stjórnun og rekstur Félagasamtaka (Reykjavík: Háskólaútgáfan/kg, 2008), 86

22 hvers og eins ætti því ekki að fara á milli mála. Slíka ábyrgðarkeðju getur reynst erfitt að finna í sumum félagasamtökum. Enginn þiggur laun og því finnst sumum þeir hafa alveg jafn mikinn rétt til að tjá skoðanir sínar og vilja líkt og hinir. Þetta verður til þess að stjórnskipulag félagasamtaka er flóknara en í hinum opinbera geira og einkageiranum, eins og fram kom hér á undan. Til að koma í veg fyrir árekstra eru myndaðar stjórnir innan félagasamtaka sem hafa það hlutverk að sýna skýrt hver stjórnar og hver fer með framkvæmdavaldi. 25 Sá sem skipaður er framkvæmdastjóri, í gegnum kosningar eða ekki, fer með framkvæmdavald ásamt undirmönnum sínum í umboði stjórnarinnar. Ef engir starfsmenn eru í félagasamtökunum eða ekki er áhugi fyrir því, sinna stjórnarmeðlimir sjálfir þessum hlutverkum. Það hvernig hlutum er háttað fer eftir félagasamtökunum sjálfum. Auk þess má ekki gleyma að hver félagasamtök geta sett reglur sem skýra og einfalda verkaskiptinguna, hvort sem hún er hjá framkvæmdavaldinu eða stjórninni sjálfri. Nokkuð algengt er að daglegar framkvæmdir séu í höndum framkvæmdavaldsins á meðan framtíðarstefnur, svo sem fjárhagsáætlanir og fleira er í höndum stjórnarinnar sjálfrar. Stúdentaráð Háskóla Íslands flokkast að mestu leyti undir þriðja geirann, félagasamtök. Félagar Stúdentaráðs eru þeir sem skráðir eru í félagið, nemendurnir. Þeir eiga ekkert í því en hagsmunum þeirra er þar gætt og þeir greiða félagsgjöld, þótt það sé óbeint með skólagjöldunum. Ekki er alveg öruggt að allir nemendur Háskóla Íslands geri sér grein fyrir því. Rétt eins og í öðrum félagasamtökum er Stúdentaráð að mestu skipað sjálfboðaliðum sem vinna kauplaust. Þessir sjálfboðaliðar sitja oftar en ekki í Stúdentaráðinu sjálfu og sækja vald sitt á sama tíma til félaga sinna í skólanum, nemenda Háskóla Íslands. Þeir sækja fundi ráðsins, standa fyrir fjáröflunum og kynna ráðið út á við svo dæmi séu tekin. Ekki sitja þó allir sjálfboðaliðar á vegum Stúdentaráðs í ráðinu sjálfu og taka þar af leiðandi ekki ákvarðanir né hafa nokkra ábyrgð, enda ekki skilyrt. 25 Ómar H. Kristmundsson og Steinunn Hrafnsdóttir, Stjórnun og rekstur Félagasamtaka (Reykjavík: Háskólaútgáfan/kg, 2008), 87

23 4.4 Stjórnir og vinnubrögð Stjórn Stúdentaráðs heldur ýmsa fundi, bæði mánaðarlega og um ýmis málefni en sömu sögu má segja um önnur félagasamtök. Á þessum fundum hafa þó eingöngu þeir sem sitja í ráðinu sjálfu atkvæðarétt 26. Þeir sem ekki náðu kjöri í kosningum hafa engan rétt, þótt þér tilheyri svo sannarlega félagasamtökunum. Þeim sem eru kjörnir inn er raðað í ákveðin hlutverk og oftar en ekki eru það þeir sem eru efstir á lista og hafa þannig fengið flest atkvæði sem gegna mikilvægari og ábyrgðarfyllri stöðum, líkt og stöðu formanns, varaformanns og ritari. Í Stúdentaráði Háskóla Íslands er þessu skipt meira niður eftir því hver er í forsvari fyrir hvaða svið. Sá sem fær flest atkvæði innan síns sviðs er oftar en ekki formaður sviðsráðs þess sviðs sem hann var kosinn í. Í Stúdentaráði Háskóla Íslands er einnig framkvæmdastjóri en hann er ráðinn inn á ári hverju. Staða framkvæmdastjóra er eitt af fáum stöðugildum sem er launað innan Stúdentaráðs Háskóla Íslands en starfshlutfallið er allt frá %. Það er þó breytilegt milli ára. Áhugavert er einnig að benda á það að ekki er gerð krafa um að framkvæmdastjórinn sé innan þeirra fylkinga sem eru í stúdentaráði né að hann sé nemandi við skólann, þó það verði að teljast ólíklegt að einhver sem hefur ekki áður komið að Stúdentaráði verði ráðinn. Líkt og hjá öðrum félagasamtökum eru ákveðin fulltrúaráð innan Stúdentaráðs. Yfirfæra mætti þá skilgreiningu yfir á sviðsráðin fimm sem eru í Háskóla Íslands Stúdentaráð Háskóla Íslands sem stéttarfélag Eins og áður hefur komið fram er sífellt verið að líkja Stúdentaráði Háskóla Íslands við stéttarfélög. 28 Í lagalegum skilningi er Stúdentaráð Háskóla Íslands frjáls félagasamtök en ekki samtök sem berjast fyrir bættari hag launafólks líkt og stéttarfélög gera. Það er ýmislegt sem skilur Stúdentaráð Háskóla Íslands frá venjulegum stéttarfélögum og færa mætti rök fyrir því að Stúdentaráðið sé í raun ekki stéttarfélag nemenda. Mjög sjaldan í stéttarfélögum er tekist jafn mikið á um 26 Ómar H. Kristmundsson og Steinunn Hrafnsdóttir, Stjórnun og rekstur Félagasamtaka (Reykjavík: Háskólaútgáfan/kg, 2008), Stúdentaráð Háskóla Íslands, Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) auglýsir stöðu framkvæmdastjóra lausa til umsóknar, emdastjora_lausa_til (sótt 5. júní 2017) 28 Vaka, Munið að kjósa, Kosningablað vöku (2014): 3

24 hver situr í stjórn hverju sinni og ennþá sjaldgæfara að rótgrónar fylkingar fólks myndist. Í blaði Háskólalistans, sem kom út árið 2006 sagði meðal annars: ekki er öryrkjabandalagið svona klofið í fylkingar, út í hött að hagsmunasamtök séu að berjast innbyrðis. 29 Einnig virðist sem meiri hluti vinnu þeirra sem bjóða sig fram í Stúdentaráð Háskóla Íslands sé að komast í ráðið sjálft, en það fer áberandi minna fyrir þeim fylkingum og einstaklingum sem komast inn eftir að kosningum líkur. Einnig er það umtalað innan veggja Háskóla Íslands að lítill sem enginn munur sé á þeim fylkingum sem bjóða sig fram. Málefni lánasjóðsins eru til dæmis eitt þeirra málefna sem Vaka og Röskva berjast hvað mest fyrir þó svo að skoðanamunur fylkinganna sé lítill sem enginn á málaflokknum. Svipaða sögu má segja um Stúdentagarðana og því er eðlilegt að nemendur spyrji hvað það skilar þeim að kjósa annan flokkinn fram yfir hinn. Samhliða hagsmunavörslu um nemendur skólans má ekki gleyma því að eitt af aðalhlutverkum Stúdentaráðs Háskóla Íslands er að standa fyrir hinum og þessum skemmtunum og uppákomum. Kröftum Stúdentaráðsins er því ekki 100% varið í hagsmunavörslu og baráttu fyrir bættari kjörum nemenda heldur líka að skemmta þeim. Októberfest, Fyndnasti nemandinn og hinar og þessar kvöldvökur eru dæmi um slíkar skemmtanir. Hvort og þá hvernig þessar skemmtanir koma að bættari hagsmunum nemenda er aftur á móti önnur spurning. 4.6 Háskólaráð Stúdentaráð Háskóla Íslands á tvo fulltrúa í Háskólaráði Háskóla Íslands. Eins og áður hefur komið fram voru þeir kosnir beint inní ráðið í beinum kosningum nemenda tvö ár í senn. Eftir að kerfinu var breytt árið 2012 er þetta ekki lengur við lýði. Nú skipar Stúdentaráð Háskóla Íslands tvo nemendur inní Háskólaráð án kosninga nemenda. 11 fulltrúar eru í Háskólaráði, forseti ráðsins er ávallt rektor Háskóla Íslands. 30 Í lögum Stúdentaráðs Háskóla Íslands stendur: 29 Tíðindi, fréttabréf Háskólalistans, 1 tbl Háskóli Íslands, Háskólaráð, (sótt 23. júní 2017)

25 Á fyrstu þremur vikum febrúar ár hvert skulu kjörnir fulltrúar allra sviða Háskólans í Stúdentaráð. Annaðhvert ár skulu auk þess kjörnir fulltrúar nemenda í Háskólaráð samhliða kosningum til Stúdentaráðs. Leitast skal við eftir fremsta megni að sem flestir stúdentar nýti kosningarétt sinn. Í því skyni skal taka mið af frívikum deilda. Kjörtímabil fulltrúa í Stúdentaráð er eitt ár. Kjörtímabil fulltrúa í Háskólaráði er frá 1. júlí þess árs sem kosning fer fram til 30. júní tveimur árum síðar. 31 Fyrsta skiptið sem kosningar til Háskólaráðs Háskóla Íslands áttu að fara fram treysti Reiknisstofa Háskóla Íslands sér ekki til þess að framkvæma kosningu í tæka tíð. Þar af leiðandi óskaði Stúdentaráð Háskóla Íslands eftir undanþágu frá lögum og reglum Háskóla Íslands. Undanþágan hljómaði á þá vegu að Stúdentaráð fékk heimild til þess að tilnefna tvo fulltrúa í Háskólaráð og aðra tvo til vara. Í febrúar 2016, tveimur árum eftir að skipað var í Háskólaráð, eins og lög segja til um, ætti síðan að kjósa inn í Háskólaráð Háskóla Íslands. Stúdentaráð ákvað þrátt fyrir það á fundi sínum í nóvember 2015 að ekki ætti að kjósa inní Háskólaráðið heldur að fara ætti eftir sömu reglum og undanþágum og gert var árið Þar af leiðandi var ekki kosið í Háskólaráð Háskóla Íslands í febrúar 2016 eins og reglur Stúdentaráðs Háskóla Íslands segja til um. Stúdentaráð Háskóla Íslands fékk þar með aftur undanþágu til þess að skipa aðila inní Háskólaráð Háskóla Íslands gegn því að Stúdentaráðið breytti lögum sínum þannig að það yrði alveg örugglega kosið fyrir næsta tímabil, það er að segja að kosið verði í Háskólaráðið árið Háskólaráð Háskóla Íslands er ein af mikilvægustu einingum innan skólans. Í fréttatilkynningu til Morgunblaðsins 13. september 2016 lýsir Háskólaráð sér svona: Háskólaráð hefur m.a. það hlutverk að marka heildarstefnu í kennslu og rannsóknum og móta skipulag háskólans. Háskólaráð fer með almennt eftrlit með starfsemi háskólans í heild, einstakra fræðasviða og háskólastofnana og ber ábyrgð á því að háskólinn starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Stjórnsýsla háskólans starfar enn fremur í umboði rektors og háskólaráðs. Háskólaráð hefur einnig eftirlit með rekstri háskólans ásamt því að setja reglur fyrir skólann Stúdentaráð Háskóla Íslands, Lög SHÍ, (sótt 1. júlí 2017) 32 Visir.is. Ólýðræðisleg vinnubrögð Stúdentaráðs, visir.is 7. júní (sótt 1. júlí 2017) 33 Mbl.is Nýtt Háskólaráð HÍ skipað, mbl.is 13. september (sótt 1. júlí 2017)

26 Samkvæmt 5 gr. laga númer 85/2008 um opinbera háskóla segir einnig að stjórn háskóla er falin háskólaráði og rektor. 34 Þeir meðlimir Stúdentaráðs Háskóla Íslands sem setið hafa í Háskólaráði Háskóla Íslands, mikilvægasta ráði skólans, hafa þar af leiðandi aldrei verið kosnir inn í ráðið beint af nemendum og það kemur ekki til með að gerast fyrr en í febrúar Aldrei hafa fylkingarnar tvær, Vaka og Röskva, heldur gefið upp fyrir kosningar hverja þær koma til með að tilnefna inn í Háskólaráð Háskóla Íslands. Auk þess er hvergi minnst á það að þessir tveir fulltrúar nemanda fái borgað fyrir fundarsetu sína, upphæð sem nemur um það bil krónum á ári. Setja má spurningamerki við þá reglu að kjósa á hverju ári inní Stúdentaráð Háskóla Íslands en á tveggja ára fresti í Háskólaráð Háskóla Íslands. Í raun gætu fulltrúarnir tveir verið úr sömu fylkingu en á sama tíma gæti meirihluti Stúdentaráðs Háskóla Íslands verið í hinni fylkingunni. Erfitt er að sjá hvar hagsmunum nemenda er haldið til haga í þessu kerfi. Taka skal fram að engan rökstuðning fyrir þessu var að finna. 34 Lög um opinbera hásóla nr. 85/2008

27 5. Kosningakerfi Stúdentaráðs 5.1 Borda og D Hondt kerfið Eins og fram kemur í fræðilegri umfjöllun hefur kosningakerfi Stúdentaráðs tekið umtalsverðum breytingum síðan Stúdentaráð var stofnað árið 1920 og ýmsar útfærslur þess verið reyndar. Kerfið sem í dag er notað af Stúdentaráði er blanda af reikniaðgerðum Borda og D Hondt. Borda kerfið er nefnt eftir franska stjórnmálamanninum og stærðfræðingnum Jean-Charles de Borda en hann setti þetta kerfi fram árið Breytt útgáfa af kerfi Borda er notað í Alþingiskosningum til að raða mönnum á réttan stað á Alþingi. Kerfið eitt og sér er einfalt og þægilegt í notkun. Einstaklingum er raðað á lista og ef fimm sæti eru í boði fær efsta sætið fimm stig, annað sætið fjögur og svo koll af kolli. Einnig er hægt að gefa neðsta sætinu 0 stig. Fyrsta sætið fengi þannig 4 stig og svo aftur koll af kolli. Þriðja útfærslan er að gefa þeim í fyrsta sæti heilt stig, annað sætið fengi síðan hálft, þriðja fengi 1/3 og svo framvegis. Hefð er fyrir því að nota reikniaðferð d Hondt hér á landi í hlutfallskosningum, bæði til Alþingis og sveitarstjórna. Reikniaðferðin er þekkt fyrir það að vera hagstæðari stórum flokkum og þá sérstaklega í þeim tilfellum þegar fjöldi fulltrúa er lítill. Þetta gefur minni flokkum samt sem áður tækifæri á að græða á því að bjóða fram sameiginlegan lista. 36 Victor d Hondt fann upp á þessari reikniaðferð 1878 en hann öðlaðist heimsfrægð þegar landsfaðir Bandaríkjanna, Thomas Jefferson, tók að nota aðferðina. D Hondt reikniaðferðin segir okkur það að deila skuli atkvæðafjölda hvers flokks með tölum frá einum og upp í fjölda fulltrúa. Hæsta mögulega útkoma gefur síðan jafnmarga fulltrúa og á að kjósa St. Andrews, Jean Charles de Borda, (sótt 27. júní 2017) 36 BBC, D Hondt system for picking NI ministers in Stormont, bbc.com 11. maí (sótt 27. júní 2017) 37 Oxford Refrence, Victor d Hondt, (sótt 27. júní 2017)

28 Tafla 1. Reikniaðferð d Hondt aðferðarinnar Nefnari Flokkur A Flokkur B Flokkur C Flokkur D * * * * * * * * Sæti unnin (*) Hlutfallslegur fjöldi sæta 3,4 2,8 1,1 0,7 d Hondt reikniformúlan Atkvæðahlutfallið tryggir samt sem áður ekki flokk eða fylkingu sætafjölda í ráðinu. Fjöldi sæta sem vinnast eru háð dreifingu atkvæða á milli fylkinga en ekki eigin atkvæðahlutfalli. Reikniaðferðin snýst í grunninn um það að reikna útkomutölu fyrir hvert sæti á lista flokka. Útkomutölur eru reiknaðar fyrir alla flokka og þau sæti sem eru í boði hverju sinni lenda á hæstu útkomutölunni. Til þess að reikna þetta út er best að gefa sér dæmi. Ef flokkur X fær atkvæði þá er útkomutala fyrsta sætis 1.000/1=1, útkomutala annars sætis 1.000/2=500 og útkomutala þriðja sætis 1.000/3= Báðar reikniaðferðirnar gera ráð fyrir að hægt sé að leyfa kjósendum að raða sjálfir á eigin kjörseðil, algjörlega óháð fylkingum, hópum eða einstaklingum. Einnig er einfaldlega hægt að haka við þá fylkingu sem kjósandinn vill og þar af leiðandi raða listanum upp eins og hentar hverjum og einum. Þannig er þessu háttað á Uglunni, innri vef Háskóla Íslands. Rafrænar kosningar í gegnum Ugluna voru teknar upp árið en fyrir þann tíma fóru kosningarnar fram með skriflegum hætti. 38 Ritstjórn Stúdentablaðsins, Lýðræði í hnotskurn?, Stúdentablaðið 2 (2005): Ritstjórn Stúdentablaðsins, Kosningar, Stúdentablaðið 6 (2010):6.

29 Upphaflega stóð til að nota eingöngu Borda reikniaðferðina í kosningum Stúdentaráðs en gallinn við þá aðferð er sá að það getur leitt til þess að litlu sem engu getur munað á efstu frambjóðendunum og að niðurstöðurnar geta endað frekar ósanngjarnar ef fólk kýs eingöngu fylkingar. 40 Því var ákveðið að blanda þessum tveimur kerfum saman. Seinna í ritgerðinni verður farið ítarlega í aðdraganda og ástæður fyrir þessum breytingum. Það er ekki einsdæmi að bæði kerfin séu notuð í einu en til eru dæmi úti í heimi að slíkt hafi verið gert. Þó eru einungis tvö ríki sem hafa notfært sér þessa blöndu af Borda og d Hondt reikniaðferðum. Það eru Slóvenía og eitt minnsta ríki heimsins, Nárú. Að blanda þessum tveimur aðferðum saman hefur í för með sér hóflegar breytingar á kosninganiðurstöðum í reynd. Það er að segja að breytingin felst í raun í því að fólk getur breytt listunum og áhrif þess eru í raun eins og sá listi hefði líka verið borinn fram og kjósandinn kosið þann lista í d Hondt kerfinu. 5.2 Kosningakerfið fyrir breytingar 1974 Árið 1974 fóru fyrstu pólítísku listakosningarnar fram hjá Stúdentaráði en slíkar kosningar höfðu ekki verið framkvæmdar síðan Á milli áranna 1960 og 1974 varð Stúdentaráð talsvert sjálfstæðara og þá sérstaklega fjárhagslega en nú skyldi Stúdentaráð fá fjórðung af því sem skólinn innheimti í innritunargjöld og því voru miklir peninga í húfi miðað við það sem áður var. Sama ár og kosningakerfinu var breytt varð kona í fyrsta sinn formaður Stúdentaráðs en það var læknaneminn Arlín Óladóttir eins og áður hefur komið fram. Mikil pólitísk óreiða ríkti innan raða Stúdentaráðs nánast allan áttunda áratuginn og hluta þess níunda. Fylkingar innan skólans voru illa skipulagðar og virtust misskilja hvor aðra hvað eftir annað. Þetta átti sértstaklega við um vinstri vænginn. Jón Ólafur Ísberg, höfundur bókarinnar Stúdentsárin saga stúdentaráðs, segir meðal annars að líklega hafi tilraunastarfsemi vinstri manna náð hámarki um Vinstri vængur íslenskrar stjórnmála hefur einnig oft verið kallaður villta vinstrið. 42 Þar vísa menn til þess að allt í einu risu upp allskonar róttæklingar sem kenndu sig við vinstrið. Vinstri vængurinn, bæði innan veggja skólans sem og utan hans var því fjölmennur 40 Viktor Orri Valgarðsson, viðtal tekið af höfundi í Reykjavík, 7. mars Jón Ólafur Ísberg, Stúdentsárin saga stúdentaráðs, 1. útg. (Reykjavík: Gutenberghf., 1996), Jón Ólafur Ísberg, Stúdentsárin saga stúdentaráðs, 1. útg. (Reykjavík: Gutenberghf., 1996), 250

30 en á sama tíma klofinn. Lítið varð því um breytingar og áform. Þetta átti líka við um Stúdentaráð Háskóla Íslands. Þar af leiðandi varð ráðinu lítið úr verki á þessum tíma og það fjarlægðist stöðugt bæði nemendur og skólann sjálfan. Þetta fór þó að skána þegar að leið á níunda áratuginn en þá fóru liðar ráðsins frekar að einbeita sér að raunverulegum hagsmunum stúdenta, eins og lánamálum og Félagsstofnun Stúdenta. Uppúr aldamótum fóru síðan að heyrast sífellt háværari raddir innan skólans um að breyta þyrfti kosningakerfinu, það væri ósanngjarnt og hægt væri að útfæra kosningarnar á talsvert sanngjarnari og auðveldari hátt. Meðlimir Stúdentaráðs og aðrir áhugamenn höfðu einnig áhyggjur af því hversu illa nemendur sóttu kjörstað en sjaldséð þótti að kosningaþátttaka færi ofar en 50%. Meðlimir veltu því fyrir sér hvers vegna nemendur hefðu almennt ekki áhuga á eigin hagsmunum. 5.3 Kosningakerfið fyrir 2012 Áður en farið verður út í það hvernig og hvers vegna kosningakerfinu var breytt er rétt að líta á hvernig því var háttað fyrir breytingarnar. Á þessum tíma sátu 20 kjörnir fulltrúar í Stúdentaráði Háskóla Íslands. Tveir þeirra sátu svo í Háskólaráði en þeir voru kosnir til tveggja ára í senn. Þessir tveir fulltrúar fengu einnig sjálfkrafa sæti í Stúdentaráði. Þar af leiðandi sátu 18 eftir í Stúdentaráðinu. Kjörtímabilið var tvö ár en kosið var um helming sæta ár hvert. Atkvæðafjöldi réði því hversu margir fulltrúar af hverjum lista fóru inn í Stúdentaráð hverju sinni. Þar af leiðandi áttu fjölmennari svið, eins og Félagsvísindasvið auðveldara með að koma sínum mönnum inn í Stúdentaráð, eingöngu vegna þess að þau voru fjölmennari. Röskva og Vaka börðust um þessi sæti alveg frá því að Röskva var stofnuð árið Þessar tvær fylkingar sátu í fyrsta og eina skiptið saman í stjórn árið 2005 og mynduðu stóran meirihluta innan Stúdentaráðs en það er önnur saga. Aðrar fylkingar eins og til dæmis Alþýðulistinn höfðu einnig boðið sig fram með litlum árangri Morgunblaðið, Alþýðulistinn býður fram til stúdentaráðs HÍ, mbl.is 3. febrúar (sótt 28. maí 2017)

31 5.4 Háskólalistinn myndaður Tvær minni fylkingar áttu eftir að hafa mikil áhrif á Stúdentaráð og skólann allan. Háskólalistinn var önnur og eldri fylkingin af þeim tveimur. Háskólalistinn var stofnaður um haustið 2002 en bauð sig ekki fram í Stúdentaráðskosningum fyrr en ári seinna, Framboðið vann að hagsmunum stúdenta algjörlega óháð flokkadráttum landsmálastjórnmála, stefnum eða áhrifum. Eitt af aðal stefnumálum þess var að breyta kosningakerfinu og afnema listakosningar. Það var mat listans að einstaklingsframboð væru betri leið til að koma hagsmunum stúdenta í réttan farveg. Háskólalistinn vildi einnig að þessir sömu einstaklingar gætu boðið sig fram í nefndir innan Stúdentaráðs. Einnig talaði Háskólalistinn fyrir því að skipta skólanum upp í nokkra minni skóla. Í framhaldi af því vildi hann að hver af þessum minni skólum myndi tilnefna einn fulltrúa í hverja nefnd og því sætu sem flestir jafnir við borðið. Háskólalistinn gekk meira að segja svo langt í þessari baráttu sinni að hann kallaði stúdentapólitík heimskulega, ekkert væri betra en einstaklingsframboð Skrökva stígur fram Hinn flokkurinn var Skrökva, félag flokksbundinna framapotara. Félagið var stofnað tveimur vikum fyrir kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands árið Tilgangurinn með félaginu var að berjast fyrir einstaklingskjöri, gegn meirihlutaræði og flokkapólitíkinni í ráðinu. 46 Eins og nafnið gefur til kynna var félagið einnig stofnað til þess að gera grín að stúdentapólitíkinni og hafa gaman að. 47 Það var mat aðila innan Skrökvu að hugmyndin um flokkapólitík og kerfisbundnar meirihlutamyndanir væru mjög óeðlilegar og gætu hreinlega skaðað hagsmunabaráttuna og þar af leiðandi nemendur sjálfa. Flokkurinn vildi hanna kerfi í kringum einstaka fulltrúa sem ættu frekar að reyna að vinna saman að hagsmunum stúdenta í stað þess að vera partur af fylkingum sem ynnu hver gegn annarri. 44 Háskólalistinn, Háskólalistinn, (sótt 28. maí 2017) 45 Háskólalistinn, Stúdentapólitík er heimskuleg, (sótt 28. Maí 2017) 46 Skrökva, Skrökva, (sótt 7. mars 2016) 47 Viktor Orri Valgarðsson, viðtal tekið af höfundi í Reykjavík, 7. mars 2016.

32 5.6 Tillögur að breytingum Stefán Þór Helgason, Vökuliði, kom með hugmynd árið 2009 sem átti eftir að stuðla að núverandi kosningakerfi. Hugmyndin var að vissu leyti einföld og segja má að hún eigi rætur sínar að rekja til þeirra minni skóla sem Háskólalistinn hafði barist fyrir fjórum árum áður. Ekki er heldur ólíklegt að Stefán hafi sótt innblástur til kjördæmakerfisins sem gildir um kosningar til Alþingis Íslendinga. Stefán vildi stofna einhverskonar sviðsráð stúdenta sem ætlað væri að eiga í formlegu samráði við stjórnir fræðasviðanna. Þeir sem kosnir yrðu sem fulltrúar á sviðunum myndu á sama tíma eiga sæti í Stúdentaráðinu. Þannig gætu sviðin sérhæft sig innan eigin raða en á sama tíma reynt að þjóna hagsmunum allra stúdenta. 48 Fræðasvið Háskóla Íslands eru fimm, Félagsvísindasvið, Menntavísindasvið, Hugvísindasvið, Heilbrigðisvísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið. Þessari hugmynd Stefáns var undantekningalaust vel tekið af forsetum fræðasviðanna en þeir höfðu saknað þess að geta ekki átt í formlegri samskiptum við nemendur sína. Ekki má gleyma því að árið 2008 sameinaðist Kennaraháskóli Íslands Háskóla Íslands og fjölgaði nemendum snögglega. 49 Þetta leiddi enn frekar til þess að fámennari svið áttu sífellt erfiðara með að koma fulltrúa sínum inn í Stúdentaráð. Það var því mat Stúdentaráðsliða og fleirra að breyta þyrfti kerfinu. Stefán, sem og fleiri innan Stúdentaráðs, voru samt sem áður ekki jafn spenntir fyrir einstaklingskosningum og meðlimir Skrökvu. 50 Ástæður fyrir því gætu verið margar. Einföld íhaldssemi gæti til dæmis verið ein þeirra. Stúdentaráðsliðar óttuðust einnig að rótgrónar fylkingar myndu deyja út með einstaklingsframboðum. Hvort það séu haldbær rök sem eiga heima innan hagsmunabaráttu stúdenta má deila um. Ekki má heldur gleyma því að draugar flokkspólitíkur spiluðu að öllum líkindum inn í ákvarðanir innan Stúdentaráðs. Ekki er ólíklegt að fylkingar hafi neitað hugmyndum annarra fylkinga bara til þess eins að vera á móti þeim. Það virðist vera erfitt að standa í svona stórum breytingum á einu bretti. Aukinn meirihluta, 75%, þarf til þess að gera breytingar á lögum Stúdentaráðs. Vaka var ekki tilbúin í fyrstu til þess að styðja tillögur Skrökvu um einstaklingskjör og á sama tíma hafði eitt af helstu málefnum Skrökvu verið að 48 Stefán Þór Helgason, viðtal tekið af höfundi í Reykjavík, 6. apríl Vísir, HÍ og Kennaraháskólinn sameinast í dag, visir.is 1. júlí (sótt 6. apríl 2016) 50 Stefán Þór Helgason, viðtal tekið af höfundi í Reykjavík, 6. apríl 2016.

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Rannsóknarspurningin Treystir fólk sínum viðskiptabanka betur en öðrum og gæti það verið

More information

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.)

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) www.landspitali.is Nafn Læknir Hjúkrunarfræðingur Símanúmer Ræddu eftirfarandi

More information

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni Aðferð til að Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni hvað er það?? Málsýni þýðing á enska orðinu language sample Dæmi um málsýni Notað í rannsóknum um máltöku

More information

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir 1 Hvað er stjórnun viðskiptatengsla (CRM)? Stjórnun viðskiptatengsla er hugmyndafræði Stjórnun viðskiptatengsla er stefna Stjórnun viðskiptatengsla

More information

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept Gagnasafnsfræði Páll Melsted 16. sept Endurtekin gildi Ef við viljum losna við endurtekin gildi er hægt að nota DISTINCT SELECT DISTINCT name FROM MovieExec, Movie, StarsIn WHERE cert = producerc AND title

More information

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver 14 1 Excel Solver Excel Solver er viðbót (e. add-in) við Excel sem hjálpar til að finna bestu lausn á viðfangsefnum eins og þegar um er að ræða takmarkaðar

More information

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban 8. febrúar 2013 Eiríkur Gestsson Um mig Eiríkur Gestsson Tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík 2004 Hugur hf. og HugurAx frá 2004 til

More information

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu?

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? 8 janúar 2015 Áður en kaupferlið hefst Í kaupferlinu Eftir að kaupferlinu lýkur Í kaupferlinu Áður en kaupferlið hefst Vörulýsing og myndir Neytendur

More information

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Samtök iðnaðarins - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Framkvæmdarlýsing - félagsmannakönnun Unnið fyrir Markmið Samtök iðnaðarins Að kanna viðhorf félagsmanna SI til Evrópumála og þróun þar á Framkvæmdatími

More information

ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki

ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki Árni H. Kristinsson arni.kristinsson@bsigroup.com Framkvæmdastjóri BSI á Íslandi 1 Dagskrá Breyttur heimur Forsendur breytinga Af hverju ISO 9001 er mikilvægur Hverjar

More information

ÍÞRÓTTADEILD. Vildbjerg - Danmark

ÍÞRÓTTADEILD. Vildbjerg - Danmark ÍÞRÓTTADEILD Vildbjerg - Danmark Úrval Útsýn Saga fyrirtæksins nær allt aftur til ársins 936. Markmið leiðandi ferðaskrifstofa á íslenskum markaði með framúrskarandi þjónustu. Vildbjerg 9.júlí - 5.ágúst

More information

Áhrif aldurs á skammtímaminni

Áhrif aldurs á skammtímaminni Háskóli Íslands 7.5.2000 Félagsvísindadeild Þroski og lífstíðarþróun (10.02.02) Áhrif aldurs á skammtímaminni Tryggvi R. Jónsson (191177-3989) Ólafur Magnússon Kennari: Sigurður J. Grétarsson Rannsókn

More information

Inngangur. Web ADI skjöl. Október, 2018 [WEB ADI - NOTENDALEIÐBEININGAR]

Inngangur. Web ADI skjöl. Október, 2018 [WEB ADI - NOTENDALEIÐBEININGAR] Inngangur Nokkrar stofnanir nota Web ADI (Web Oracle Applications Desktop Integrator) til að skrá fylgiskjöl í Excel og flytja síðan færslurnar í fjárhag Orra (GL). Með útgáfu 12.2.7 af Orra breytist virknin

More information

4) Þá ertu kominn inná routerinn og ætti valmyndin að líta út eins og sýnt er hér til hægri. 5) Því næst er smellt á Wizard setup

4) Þá ertu kominn inná routerinn og ætti valmyndin að líta út eins og sýnt er hér til hægri. 5) Því næst er smellt á Wizard setup Hægt er að tengjast við Zyxel 660W beininn bæði þráðlaust eða með netkapli í netkort tölvunnar. Stilla þarf tölvuna þannig að hún sæki sjálfkrafa IP tölu (Optain an IP Address Automatically). Mismunandi

More information

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei 1 2 3 3_1 4 5 6 6_1 7 pige ísl nei hlutlaus vel mikið læri mikið á dönsku tímum og ef ég ætla í nám til dk þá er betra að kunna dönsku veit ekki pige ísl nei hlutlaus vel mikið eg læri nytt tungumal veit

More information

Facebook og flokkarnir: Rannsókn á notkun íslenskra stjórnmálaflokka á samfélagsmiðlum

Facebook og flokkarnir: Rannsókn á notkun íslenskra stjórnmálaflokka á samfélagsmiðlum n Fræðigreinar STJÓRNMÁL Facebook og flokkarnir: Rannsókn á notkun íslenskra stjórnmálaflokka á samfélagsmiðlum Baldvin Þór Bergsson, doktorsnemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands Útdráttur Vægi samfélagsmiðla

More information

Uppsetning á Opus SMS Service

Uppsetning á Opus SMS Service Uppsetning á Opus SMS Service Undirbúningur Þetta þarf að vera til staðar: Opus SMS Service á að vera sett upp móðurtölvunni sem hýsir gagnagrunninn. Notandinn sem er innskráður á tölvunni þarf að vera

More information

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR)

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) Aldur nemenda: 10 ára og upp úr Viðfangsefni: ofbeldi, einelti, samskipti Færnimarkmið: Hugtakaleikir ná að þjálfa flesta færniþætti samræðunnar Viðhorfamarkmið: Hugtakaleikir ná

More information

GUIDELINES FOR WRITING THE STUDENT REPORT You can write the report either in English or Icelandic

GUIDELINES FOR WRITING THE STUDENT REPORT You can write the report either in English or Icelandic GUIDELINES FOR WRITING THE STUDENT REPORT You can write the report either in English or Icelandic Name of the University: ESCP Europe Names of the students: Tryggvi Benediktsson & Stefanía Guðrúnardóttir

More information

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Gagnvirkar töflur Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum Hólmfríður Ásmundsdóttir 270369-5459 Háskóli Íslands Menntavísindasvið Kennaradeild, grunnskólakennarafræði

More information

Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on.

Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on. Mánudagur 6. nóvember 2017. http://www.capfrance-terrou.com/ Rene about vocabulary Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on. Dvelopment

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vorönn 2019 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

Leiðsagnarmat í Menntaskóla Borgarfjarðar Hvernig hefur okkur miðað?

Leiðsagnarmat í Menntaskóla Borgarfjarðar Hvernig hefur okkur miðað? Endurmenntun HÍ - Að vanda til námsmats Umsjón: Ingvar Sigurgeirsson Leiðsagnarmat í Menntaskóla Borgarfjarðar Hvernig hefur okkur miðað? Júní 2009 Lilja S. Ólafsdóttir Efnisyfirlit Inngangur... 3 Menntaskóli

More information

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Háskóli Íslands 3.4.2006 Viðskipta- og hagfræðideild Vinnusálfræði Vor 2006 Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Tryggvi R. Jónsson Kennari: Hafsteinn Bragason og Ægir Már Þórisson Fjarvinna 2 Val starfa

More information

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands VIÐSKIPTASVIÐ Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands Ritgerð til BS gráðu Nafn nemanda: Guðrún Erna Hafsteinsdóttir Leiðbeinandi: Haraldur Daði Ragnarsson

More information

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín Kennaraháskóli Íslands Kennsluréttindabraut Kennslufræði greinasviða og æfingakennsla Kennari: Elín María Thayer Ég sem kennari: Starfskenning mín Guðlaug Erlendsdóttir Nóvember 2007 Efnisyfirlit EFNISYFIRLIT...

More information

Tónlist og einstaklingar

Tónlist og einstaklingar Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar Kristinn Arnar Benjamínsson Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar

More information

Ronald Postma: Kitchen appliance to grow mushrooms was the project. Plugin Neon for Rhino and downloaded Bongo.

Ronald Postma: Kitchen appliance to grow mushrooms was the project. Plugin Neon for Rhino and downloaded Bongo. Week 3: Computer Controlled Cutting 11.2. 2015 This week we will learn about the mechanical application of computer aided design. The assignment for this week is to design, make, and document a press-

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina Kennsluáætlun haust 2018 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara

Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara Edda Kjartansdóttir Þegar skynjanir vorar, hugsanir og hugsjónir hræra strengi tilfinninganna þá fyrst kemst rót á oss, þá losnar viljinn úr læðingi og knýr

More information

Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft mér að

Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft mér að March 2008 Volume 3, Number 1 Flavio Baroncelli - Staðalímyndir og sannleikur 1 translated by Egill Arnarson Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft

More information

Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla. Tryggvi Guðbjörn Benediktsson. B.Sc. í Viðskiptafræði

Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla. Tryggvi Guðbjörn Benediktsson. B.Sc. í Viðskiptafræði Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla Tryggvi Guðbjörn Benediktsson B.Sc. í Viðskiptafræði Vor 2012 Tryggvi Benediktsson Leiðbeinandi: Kt. 240789-2809 Arney Einarsdóttir Ágrip Persónuleiki

More information

Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012

Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012 Þjónustukönnun 2012-1 Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012 Niðurstöður könnunar á viðhorfum fullorðinna legudeildarsjúklinga til þjónustu á Landspítala. Ábyrgðarmenn Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri

More information

Elli. Ari Hlynur Guðmundsson. Lokaritgerð til BA-prófs Listaháskóli Íslands Hönnunar- og arkitektúrdeild

Elli. Ari Hlynur Guðmundsson. Lokaritgerð til BA-prófs Listaháskóli Íslands Hönnunar- og arkitektúrdeild Elli Barnabók um ADHD Ari Hlynur Guðmundsson Lokaritgerð til BA-prófs Listaháskóli Íslands Hönnunar- og arkitektúrdeild Elli Barnabók um ADHD Ari Hlynur Guðmundsson Lokaverkefni til BA-prófs í grafískri

More information

Ferð til Brussel til að taka þátt í ráðstefnu um starfsmenntun og vinnustaðanám. Febrúar 2014.

Ferð til Brussel til að taka þátt í ráðstefnu um starfsmenntun og vinnustaðanám. Febrúar 2014. Verkmenntaskólinn á Akureyri stýrði verkefninu Workmentor Mentoring in the workplace for VET (VET merkir Vocational Education and Training) árin 2011 2013. Sótt var um verkefnið til Skrifstofu Menntaáætlunar

More information

Minnkandi kjörsókn. Hvaða þættir hafa áhrif á þátttöku almennings í kosningum? Fanney Skúladóttir. Lokaverkefni til MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu

Minnkandi kjörsókn. Hvaða þættir hafa áhrif á þátttöku almennings í kosningum? Fanney Skúladóttir. Lokaverkefni til MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu Minnkandi kjörsókn Hvaða þættir hafa áhrif á þátttöku almennings í kosningum? Fanney Skúladóttir Lokaverkefni til MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu Félagsvísindasvið Júní 2016 Minnkandi kjörsókn Hvaða

More information

Hugvísindasvið. Annað líf. Er réttlætanlegt að ætla samþykki fyrir líffæragjöf? Ritgerð til MA-prófs í hagnýtri siðfræði.

Hugvísindasvið. Annað líf. Er réttlætanlegt að ætla samþykki fyrir líffæragjöf? Ritgerð til MA-prófs í hagnýtri siðfræði. Hugvísindasvið Annað líf Er réttlætanlegt að ætla samþykki fyrir líffæragjöf? Ritgerð til MA-prófs í hagnýtri siðfræði Héðinn Árnason September 2012 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Hagnýt siðfræði Annað

More information

Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf. Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir og Kristín Dýrfjörð

Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf. Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir og Kristín Dýrfjörð Athugið ritið er ekki prófarkalesið Röggur Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir gudrun@unak.is og Kristín Dýrfjörð dyr@unak.is 1 tbl. 4.

More information

Hvernig eflum við gæði náms og kennslu?

Hvernig eflum við gæði náms og kennslu? Hvernig eflum við gæði náms og kennslu? Betri í dag en í gær ráðstefna um nám og gæði í íslenskum háskólum - 30. maí 2011 Anna Ólafsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri Gæði háskólanáms og -kennslu

More information

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Syngjum saman. -vefur með sönglögum, texta og gripum- Dagmar Þórdísardóttir

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Syngjum saman. -vefur með sönglögum, texta og gripum- Dagmar Þórdísardóttir Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Syngjum saman -vefur með sönglögum, texta og gripum- Dagmar Þórdísardóttir Kennaraháskóli Íslands Kennarabraut, leikskólakennarafræði Maí 2008 Lokaverkefni til B.Ed. -prófs

More information

Stjórnun í anda AGILE aðferðafræðinnar

Stjórnun í anda AGILE aðferðafræðinnar www.ibr.hi.is Stjórnun í anda AGILE aðferðafræðinnar Snjólfur Ólafsson Ritstjórar: Kári Kristinsson Magnús Pálsson Þórður Óskarsson Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands: Erindi flutt á

More information

Háskólinn á Akureyri Kennaradeild Kennari í starfi (KÍS1155) Vor Ígrundunardagbók Verkefni 6

Háskólinn á Akureyri Kennaradeild Kennari í starfi (KÍS1155) Vor Ígrundunardagbók Verkefni 6 Háskólinn á Akureyri 5.2.2006 Kennaradeild Kennari í starfi (KÍS1155) Vor 2006 Ígrundunardagbók Verkefni 6 Tryggvi R. Jónsson Kennari: Eygló Björnsdóttir Guðmundur H. Frímansson 2 Katrín Fjóla Guðmundsdóttir

More information

Könnunarverkefnið. Unnið var með Könnunaraðferðinni (The Project Approach). Stuðst var við bókina Young Investigators

Könnunarverkefnið. Unnið var með Könnunaraðferðinni (The Project Approach). Stuðst var við bókina Young Investigators Könnunarverkefnið Sjóræningjar Unnið var með Könnunaraðferðinni (The Project Approach). Stuðst var við bókina Young Investigators The Project approach in the early years. Eftir: Judy Harris Helm og Lilian

More information

Hvert er hlutverk sölustjórans?

Hvert er hlutverk sölustjórans? Viðskiptafræðisvið Hvert er hlutverk sölustjórans? Ritgerð til BS gráðu Nafn nemenda: Jóna Dóra Ásgeirsdóttir Leiðbeinandi: A. Agnes Gunnarsdóttir Haustmisseri 2015 i Hvert er hlutverk sölustjórans? Lokaverkefni

More information

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Umfjöllun 1. Stutt lýsing á Mati á stuðningsþörf: SIS 2. Einstaklingsbundnar

More information

Ferhyrningurinn: Myndræn framsetning á ársreikningi

Ferhyrningurinn: Myndræn framsetning á ársreikningi www.ibr.hi.is Ferhyrningurinn: Myndræn framsetning á ársreikningi Einar Guðbjartsson Ritstjórar: Kári Kristinsson Magnús Pálsson Þórður Óskarsson Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands: Erindi

More information

adhd Enginn hópur sem hægt er að hjálpa jafn mikið fyrir jafn litla peninga fréttabréf ADHD samtakanna Sjónarhóll á Akureyri Lausn án lyfja

adhd Enginn hópur sem hægt er að hjálpa jafn mikið fyrir jafn litla peninga fréttabréf ADHD samtakanna Sjónarhóll á Akureyri Lausn án lyfja adhd 1. tbl. 21. árg. 2008 fréttabréf ADHD samtakanna Sjónarhóll á Akureyri Lausn án lyfja Miðstöð heilsuverndar barna Að hafa stjórn á fjármálum Málþing Sjónarhóls Enginn hópur sem hægt er að hjálpa jafn

More information

Þróun starfshátta í Laugalækjarskóla

Þróun starfshátta í Laugalækjarskóla Þróun starfshátta í Laugalækjarskóla 2000-2008 Auður Árný Stefánsdóttir Lokaverkefni til M.ed. gráðu Háskóli Íslands Menntavísindasvið Þróun starfshátta í Laugalækjarskóla 2000-2008 Auður Árný Stefánsdóttir

More information

spjaldtölvur í skólastarfi

spjaldtölvur í skólastarfi spjaldtölvur í skólastarfi Á tímabilinu október 2012 til febrúar 2013 hef ég, Ómar Örn Magnússon aðstoðarskólastjóri í Hagaskóla, unnið að verkefni fyrir SFS sem miðar að því að skoða kosti, möguleika

More information

Reglur um bestu framkvæmd viðskipta Samþykkt í febrúar 2017/ Áætluð endurskoðun í febrúar 2018 / Ábyrgðaraðili: Regluvarsla

Reglur um bestu framkvæmd viðskipta Samþykkt í febrúar 2017/ Áætluð endurskoðun í febrúar 2018 / Ábyrgðaraðili: Regluvarsla Reglur um bestu framkvæmd viðskipta Samþykkt í febrúar 2017/ Áætluð endurskoðun í febrúar 2018 / Ábyrgðaraðili: Regluvarsla 1. Tilgangur og gildissvið 1.1. Reglur þessar eru settar á grundvelli laga nr.

More information

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness Hagir og líðan barna í Grunnskóla s Niðurstöður rannsókna meðal nemenda í., 6. og 7. bekk á i árið 27 Birna Baldursdóttir Margrét Lilja Guðmundsdóttir Álfgeir Logi Kristjánsson Inga Dóra Sigfúsdóttir Jón

More information

Umbætur á kosningakerfinu:

Umbætur á kosningakerfinu: Umbætur á kosningakerfinu: I. Jöfnun atkvæðavægis Þorkell Helgason, fyrrv. prófessor í stærðfræði Pistill þessi er sá fyrsti fjögurra pistla sem koma í kjölfar yfirlitsgreinar um umbætur á kosningakerfinu

More information

MS ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti. Notkun Facebook til markaðsfærslu á Íslandi

MS ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti. Notkun Facebook til markaðsfærslu á Íslandi MS ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti Notkun Facebook til markaðsfærslu á Íslandi Eigindleg og megindleg rannsókn Guðjón Aðalsteinn Guðmundsson Leiðbeinandi: Auður Hermannsdóttir Viðskiptafræðideild

More information

Heimildir og tilvísanir. Rétt notkun tilvísana og uppsetning heimildaskrár

Heimildir og tilvísanir. Rétt notkun tilvísana og uppsetning heimildaskrár Heimildir og tilvísanir Rétt notkun tilvísana og uppsetning heimildaskrár Notkun heimilda Það þarf alltaf að vísa í heimildir þegar fjallað er um efni sem þið hafið lesið um annars staðar og notið hugmyndir

More information

Náttúruhyggja Kants. Háskóli Íslands. Hugvísindasvið Heimspeki. Ævarandi friður sem markmið mannkynsins. Ritgerð til B.A.-prófs

Náttúruhyggja Kants. Háskóli Íslands. Hugvísindasvið Heimspeki. Ævarandi friður sem markmið mannkynsins. Ritgerð til B.A.-prófs Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Náttúruhyggja Kants Ævarandi friður sem markmið mannkynsins Ritgerð til B.A.-prófs Baldur Hrafn Vilmundarson Kt.: 180881-3879 Leiðbeinandi: Gunnar Harðarson Maí

More information

Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna

Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna Tímarit um menntarannsóknir, 1. árg. 2004, 9-17 9 Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna M. Allyson Macdonald Kennaraháskóla Íslands Inngangserindi á ráðstefnu 22. nóvember

More information

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði.

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði. Spilin á borðið Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Spilin á borðið: Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum

More information

Skilgreining á hugtakinu tómstundir

Skilgreining á hugtakinu tómstundir Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2010 Vanda Sigurgeirsdóttir Skilgreining á hugtakinu tómstundir Í greininni er leitast við að skilgreina hugtakið tómstundir (e. leisure).

More information

Orðaforðanám barna Barnabók

Orðaforðanám barna Barnabók Orðaforðanám barna Barnabók Hrund Hermannsdóttir Lokaverkefni til B.ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari: Sigurður Konráðsson Kennaradeild Menntavísindasvið Háskóla Íslands Febrúar 2012 Ágrip

More information

Henry Miller: Listamaðurinn gegn heiminum

Henry Miller: Listamaðurinn gegn heiminum Hugvísindasvið Henry Miller: Listamaðurinn gegn heiminum Greining á virkni listamannsins í verkum Henry Millers Ritgerð til M.A.-prófs Atli Sigurjónsson Maí 2011 2 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Almenn

More information

Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra gatnamóta á umferðaröryggi

Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra gatnamóta á umferðaröryggi Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra Rannsóknarverkefni Vegagerðarinnar Janúar 206 www.vso.is Borgartún 20 585 9000 05 Reykjavík vso@vso.is 575 S:\205\575\v\Greinagerð\575_Greinargerð.docx Janúar 206

More information

BS ritgerð í viðskiptafræði. Upplifun viðskiptafræðinemenda Háskóla Íslands á BS-ritgerðarskrifum

BS ritgerð í viðskiptafræði. Upplifun viðskiptafræðinemenda Háskóla Íslands á BS-ritgerðarskrifum BS ritgerð í viðskiptafræði Upplifun viðskiptafræðinemenda Háskóla Íslands á BS-ritgerðarskrifum Hefur skipulagning og utanumhald á BS-ritgerðum áhrif á brottfall nemenda úr námskeiðinu? Helga Steinunn

More information

Samtal er sorgar læknir

Samtal er sorgar læknir Samtal er sorgar læknir Leiðirnar til betra lífs Áslaug Tóka Gunnlaugsdóttir 221274-6019 Lokaverkefni til MA- prófs í Hagnýtri Menningarmiðlun Leiðbeinendur; Ármann H. Gunnarsson og Sumarliði Ísleifsson

More information

Miðvikudagur, 3. desember Ákvörðun nr. 35/2014

Miðvikudagur, 3. desember Ákvörðun nr. 35/2014 Miðvikudagur, 3. desember 2014 Ákvörðun nr. 35/2014 Ósk leigubílastöðvarinnar Hreyfils um undanþágu frá bannákvæðum samkeppnislaga til að gefa út sameiginlegan ökutaxta fyrir leigubifreiðar sem aka undir

More information

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta?

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? www.ibr.hi.is Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? Erna Rós Kristinsdóttir Friðrik Eysteinsson Ritstjórar: Auður Hermannsdóttir Jón Snorri Snorrason Þóra Christiansen Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar

More information

Tillögur vinnuhóps um íbúalýðræði og gagnsæja stjórnsýslu

Tillögur vinnuhóps um íbúalýðræði og gagnsæja stjórnsýslu 2016 Tillögur vinnuhóps um íbúalýðræði og gagnsæja stjórnsýslu DRÖG 24. JANÚAR 2016 ANDREA HJÁLMSDÓTTIR ALBERTÍNA FRIÐBJÖRG ELÍASDÓTTIR GUÐMUNDUR HEIÐAR FRÍMANNSSON Upplýsingagjöf sveitarfélagsins gerð

More information

Gagnsemi handleiðslu fyrir leikskólastjóra

Gagnsemi handleiðslu fyrir leikskólastjóra Gagnsemi handleiðslu fyrir leikskólastjóra Guðrún Jóna Thorarensen Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið Gagnsemi handleiðslu fyrir leikskólastjóra Guðrún Jóna Thorarensen Lokaverkefni

More information

Mín skoðun skiptir máli Þátttaka nemenda í skólaráði grunnskóla

Mín skoðun skiptir máli Þátttaka nemenda í skólaráði grunnskóla Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Sérrit 2016 Menntun, mannvit og margbreytileiki. Greinar frá Menntakviku Menntavísindasvið Háskóli Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2016 Yfirlit greina Þorbjörg

More information

Leiðbeinandi: Stefán Kalmansson Vor Umboðsvandi. Í íslensku og erlendu viðskiptalífi. Tómas Örn Sigurbjörnsson.

Leiðbeinandi: Stefán Kalmansson Vor Umboðsvandi. Í íslensku og erlendu viðskiptalífi. Tómas Örn Sigurbjörnsson. Háskólinn á Bifröst BS ritgerð Leiðbeinandi: Stefán Kalmansson Vor 2009 Umboðsvandi Í íslensku og erlendu viðskiptalífi Tómas Örn Sigurbjörnsson Kt: 110974-5319 Háskólinn á Bifröst BS ritgerð Leiðbeinandi:

More information

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvernig vinna íslenskir ferðaþjónustuaðilar markaðssetningu á netinu? Aðferðafræði Icelandair og Íslandsstofu

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvernig vinna íslenskir ferðaþjónustuaðilar markaðssetningu á netinu? Aðferðafræði Icelandair og Íslandsstofu VIÐSKIPTASVIÐ Hvernig vinna íslenskir ferðaþjónustuaðilar markaðssetningu á netinu? Aðferðafræði Icelandair og Íslandsstofu Ritgerð til BS gráðu Nafn nemanda: Birgitta Guðmundsdóttir Bender Leiðbeinandi:

More information

Fartölvur í námi og kennslu í Menntaskólanum á Akureyri

Fartölvur í námi og kennslu í Menntaskólanum á Akureyri Fartölvur í námi og kennslu í Menntaskólanum á Akureyri 1999-2002 Lára Stefánsdóttir Meistaraprófsverkefni lagt fram til fullnaðar M.Ed.-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði við Kennaraháskóla Íslands með

More information

Efnisyfirlit. Inngangur Saga Harry Potters Harry Potter og heimavistarskólasögur Þemu í Harry Potter bókunum Dauðinn...

Efnisyfirlit. Inngangur Saga Harry Potters Harry Potter og heimavistarskólasögur Þemu í Harry Potter bókunum Dauðinn... Efnisyfirlit. Inngangur.... 1 Saga Harry Potters.... 2 Harry Potter og heimavistarskólasögur... 5 Þemu í Harry Potter bókunum.... 8 Dauðinn... 9 Ástin: Munurinn á Harry og Voldemort.... 12 Harry Potter

More information

Áhrif þess að jafna vægi atkvæða

Áhrif þess að jafna vægi atkvæða Áhrif þess að jafna vægi atkvæða Birgir Guðmundsson og Grétar Þór Eyþórsson Stjórnlaganefnd fór þess á leit við Birgi Guðmundson dósent við Háskólann á Akureyri og Grétar Þór Eyþórsson prófessor við Háskólann

More information

Vormisseri Ekki bara leikur. Knattspyrna: Lífstíll og menning eða trú? Gunnar Stígur Reynisson

Vormisseri Ekki bara leikur. Knattspyrna: Lífstíll og menning eða trú? Gunnar Stígur Reynisson Háskóli Íslands Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Vormisseri 2009 GFR402G BA-ritgerð í guðfræði Dr. Pétur Pétursson Ekki bara leikur Knattspyrna: Lífstíll og menning eða trú? Gunnar Stígur Reynisson 271081-5109

More information

Á vegferð til fortíðar?

Á vegferð til fortíðar? Á vegferð til fortíðar? Rússland undir stjórn Pútín Ármann Snævarr Lokaverkefni til MA-gráðu í alþjóðasamskiptum Félagsvísindasvið Júní 2015 Á vegferð til fortíðar? Rússland undir stjórn Pútíns Ármann

More information

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn?

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut 29 Lesum saman Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Guðríður Anna Sveinsdóttir Lokaverkefni Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild

More information

1 Inngangur Hvað er frammistöðumat og hvernig á að mæla það? gráðu mat/endurgjöf Gagnrýni á 360 gráðu mat...

1 Inngangur Hvað er frammistöðumat og hvernig á að mæla það? gráðu mat/endurgjöf Gagnrýni á 360 gráðu mat... Efnisyfirlit 1 Inngangur... 1 2 Hvað er frammistöðumat og hvernig á að mæla það?... 2 2.1 Ávinningur frammistöðumats... 4 2.2 Framkvæmd frammistöðumatsins... 5 2.3 Hver á að meta hvern?... 5 3 360 gráðu

More information

Stefnumótun í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja

Stefnumótun í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja Stefnumótun í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja Nemandi: Tinna Ösp Brooks Skúladóttir Leiðbeinandi: Reynir Kristinsson Staðfesting lokaverkefnis til BS gráðu í viðskiptafræði Titill verkefnis: Stefnumótun

More information

Leiðbeiningar um gerð grisjunaráætlana

Leiðbeiningar um gerð grisjunaráætlana Leiðbeiningar um gerð grisjunaráætlana Þjóðminjasafn Íslands Júní 2017 Inngangur Söfn byggja starfsemi sína á safnkosti, sem hin margvíslegu hlutverk safnastarfsins hverfast um. Mikilvægt er að standa

More information

Námsvefur um GeoGebra

Námsvefur um GeoGebra Námsvefur um GeoGebra Guðfinna Guðjónsdóttir Lokaverkefni lagt fram til fullnaðar B.Ed.-gráðu í kennslufræði við Háskóla Íslands, Menntavísindasvið September 2009 Efnisyfirlit Inngangur... 3 Nýting tækni

More information

Scrum-aðferðafræðin. Eðvald Möller. Ritstjóri: Ingjaldur Hannibalsson Viðskiptafræðideild

Scrum-aðferðafræðin. Eðvald Möller. Ritstjóri: Ingjaldur Hannibalsson Viðskiptafræðideild Eðvald Möller Ritstjóri: Ingjaldur Hannibalsson Viðskiptafræðideild Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands ISBN 978-9935-424-18-1 Eðvald Möller Í hefðbundinni verkefnastjórnun er allt ferli verkefnis

More information

Ungt fólk Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna

Ungt fólk Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna Ungt fólk 2004 Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna Rannsóknir meðal nemenda í framhaldsskólum á Íslandi 2004 og 2000 Álfgeir Logi Kristjánsson Silja Björk Baldursdóttir

More information

Þar var kominn afgangurinn af hópnum og allir innrituðu sig í flug WOW125 til Boston.

Þar var kominn afgangurinn af hópnum og allir innrituðu sig í flug WOW125 til Boston. Föstudagur 29. maí 2015 Nokkur hluti hópsins var mættur af gömlum vana í A álmu VMA um kl. 6.30 að morgni föstudags. Frekar snemmt fyrir venjulegan vinnudag. Alls fóru 29 manns af stað í rútu SBA undir

More information

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum:

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild-menntavísindabraut Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Endurskoðun á forvörnum og eineltisstefnum í framhaldsskóla Eva Dröfn Möller Akureyri Júní, 2013 Háskólinn

More information

Hvað mótar hugmyndir háskólakennara um skipulag náms og kennslu?

Hvað mótar hugmyndir háskólakennara um skipulag náms og kennslu? Tímarit um menntarannsóknir, 1. árg. 2004, 163-173 163 Hvað mótar hugmyndir háskólakennara um skipulag náms og kennslu? Guðrún Geirsdóttir Háskóla Íslands Eitt af því sem greinir háskólakennara frá kennurum

More information

Education Policy Analysis Edition. Greining á menntunarstefnu 2004 útgáfa. Summary in Icelandic. Útdráttur á íslensku

Education Policy Analysis Edition. Greining á menntunarstefnu 2004 útgáfa. Summary in Icelandic. Útdráttur á íslensku Education Policy Analysis -- 2004 Edition Summary in Icelandic Greining á menntunarstefnu 2004 útgáfa Útdráttur á íslensku Kafli 1 sækir aftur í þema sem fyrst var rannsakað af OECD fyrir um 30 árum og

More information

Í upphafi skyldi endinn skoða

Í upphafi skyldi endinn skoða Ingibjörg E. Jónsdóttir Í upphafi skyldi endinn skoða Skýrsla um þróunarverkefni í leikskólanum Bakka árið 2008 2009 Efnisyfirlit Efnisyfirlit... 2 Útdráttur... 3 Inngangur og kynning... 4 Safnað í sarpinn...

More information

Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi

Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2015 Yfirlit greina Guðrún V. Stefánsdóttir Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu

More information

Ósk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um undanþágu vegna fagráðs um styrkflokkað timbur

Ósk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um undanþágu vegna fagráðs um styrkflokkað timbur Miðvikudagur, 4. júlí 2012 Ákvörðun nr. 15/2012 Ósk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um undanþágu vegna fagráðs um styrkflokkað timbur I. MÁLAVEXTIR OG MÁLSMEÐFERÐ Samkeppniseftirlitinu barst erindi þann 30.

More information

Undir himni fjarstæðunnar

Undir himni fjarstæðunnar Hugvísindasvið Undir himni fjarstæðunnar Úttekt á fjarstæðri rökhugsun Alberts Camus Ritgerð til B.A.-prófs Alexander Stefánsson Janúar 2012 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Undir himni fjarstæðunnar

More information

Halldóra Alexandersdóttir. Viðtal við Halldóru varðandi lífið og tilveruna og hvernig hefur tekist til með verkefnin sem hún hefur verið að vinna að.

Halldóra Alexandersdóttir. Viðtal við Halldóru varðandi lífið og tilveruna og hvernig hefur tekist til með verkefnin sem hún hefur verið að vinna að. Lauf félag flogaveikra I 1. tölublað I 27. árgangur I 2017 Halldóra Alexandersdóttir Viðtal við Halldóru varðandi lífið og tilveruna og hvernig hefur tekist til með verkefnin sem hún hefur verið að vinna

More information

Vefskoðarinn Internet Explorer

Vefskoðarinn Internet Explorer Vefskoðarinn Internet Explorer Sitt lítið af hverju um IE6 Í flestum tilfellum er hægt að opna IE með því að tvísmella á táknmynd þess á skjáborðinu eða smella einu sinni á tákn þess á flýtistikunni (Quick

More information

STJÓRNMÁL & STJÓRNSÝSLA

STJÓRNMÁL & STJÓRNSÝSLA FRÆÐIGREINAR STJÓRNMÁL Akademískt frelsi 1 Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við kennaradeild HA Útdráttur Í greininni er fjallað um akademískt frelsi og leitast við að skýra það og hlutverk þess.

More information

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun. Námstengd hvatning

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun. Námstengd hvatning MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun Námstengd hvatning Hvað hvetur háskólanema á Íslandi í námi? Kolbrún Eva Sigurjónsdóttir Leiðbeinandi: Kári Kristinsson, lektor Viðskiptafræðideild Febrúar 2012 Námstengdhvatning

More information

ENDURMAT Á STUÐNINGSÞÖRF

ENDURMAT Á STUÐNINGSÞÖRF ENDURMAT Á STUÐNINGSÞÖRF Aðdragandi Framkvæmd Niðurstöður Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins Október 2015 Endurmat á stuðningsþörf Aðdragandi Framkvæmd Niðurstöður Tryggvi Sigurðsson Greiningar- og

More information

Aukin þátttaka barna í ákvörðunum um verkefni og vinnubrögð

Aukin þátttaka barna í ákvörðunum um verkefni og vinnubrögð Aukin þátttaka barna í ákvörðunum um verkefni og vinnubrögð Þróunarverkefni í leikskólanum Hæðarbóli veturinn 2015 2016 Höfundur: Hjördís Braga Sigurðardóttir Efnisyfirlit Inngangur... 2 Markmið verkefnisins...

More information

BS ritgerð. Áhrif hvatningar og endurgjafar yfirmanna á frammistöðu starfsmanna

BS ritgerð. Áhrif hvatningar og endurgjafar yfirmanna á frammistöðu starfsmanna BS ritgerð Stjórnun og forysta Áhrif hvatningar og endurgjafar yfirmanna á frammistöðu starfsmanna Ósk Guðmundsdóttir Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands Leiðbeinandi: Inga Jóna Jónsdóttir, dósent Júní

More information

Strákunum gengur ágætlega en stelpunum gengur alltaf vel...

Strákunum gengur ágætlega en stelpunum gengur alltaf vel... Hug- og félagsvísindasvið Samfélags- og hagþróunarfræði 2010 Strákunum gengur ágætlega en stelpunum gengur alltaf vel... Mismunur á hegðun stelpna og stráka í kennslustundum og árangri í stöðluðum prófum

More information

Þú getur ekki sagt að þetta sé leiðinlegt því þú ákveður hvað þú ert að gera. Ferilmöppur leið til að efla sjálfstæði og ábyrgð nemenda

Þú getur ekki sagt að þetta sé leiðinlegt því þú ákveður hvað þú ert að gera. Ferilmöppur leið til að efla sjálfstæði og ábyrgð nemenda Þú getur ekki sagt að þetta sé leiðinlegt því þú ákveður hvað þú ert að gera. Ferilmöppur leið til að efla sjálfstæði og ábyrgð nemenda Björk Pálmadóttir Sýnt hefur verið fram á að nemendasjálfstæði, eða

More information

BA ritgerð. Meira en bara besti vinur mannsins?

BA ritgerð. Meira en bara besti vinur mannsins? BA ritgerð Mannfræði Meira en bara besti vinur mannsins? Hversu nánir mega menn verða dýrum og hvar grípa menningarleg tabú þar inn í? Kristín Björg Björnsdóttir Leiðbeinandi Sveinn Eggertsson Febrúar

More information