BA ritgerð. Ég fékk sjálfa mig ekki einu sinni til að hvísla... ég líka

Size: px
Start display at page:

Download "BA ritgerð. Ég fékk sjálfa mig ekki einu sinni til að hvísla... ég líka"

Transcription

1 BA ritgerð Mannfræði Ég fékk sjálfa mig ekki einu sinni til að hvísla... ég líka #MeToo, bylting á samfélagsmiðlum Eygló Karlsdóttir Leiðbeinandi: Helga Þórey Björnsdóttir Júní 2018

2 Ég fékk sjálfa mig ekki einu sinni til að hvísla... ég líka #MeToo, bylting á samfélagsmiðlum Eygló Karlsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði Leiðbeinandi: Helga Þórey Björnsdóttir 12 einingar Félags og mannvísindadeild Félagsvísindasvið Háskóla Íslands Júní 2018

3 Ég fékk sjálfa mig ekki einu sinni til að hvísla... ég líka #MeToo, bylting á samfélagsmiðlum Ritgerð þessi er lokaverkefni til BA í mannfræði og er óheimilt að afrita ritgerðina á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa. Eygló Karlsdóttir, 2018 Prentun: Háskólaprent Reykjavík, Ísland, 2018

4 Útdráttur Í þessari ritgerð verður fjallað um #MeToo-byltinguna sem hófst á samfélagsmiðlum í október Með byltingunni vildu konur sýna hverri annarri stuðning ásamt því að beina athyglinni að tíðni kynferðislegrar áreitni og ofbeldis í samfélaginu. Byltingin verður skoðuð út frá femínískum kenningum mannfræðinga um kyngervi, vald og andóf. Auk þess verður stuðst við kenningar Kate Millet um feðraveldið, hugmyndir Elisabeth Schüssler Fiorenza um flókin valdatengsl kíríarkí og skrif Kimberlé Crenshaw og Niru Yuval-Davies um skaranir mismununar. Byltingin þróaðist á mismunandi hátt á ólíkum stöðum um allan heim. Í þessari ritgerð verður einblínt á þróun hennar innan Bandaríkjanna, þar sem hún hófst, og hún borin saman við áhrif hennar á Íslandi. Byltingin meðal bandarískra kvenna einkenndist að miklu leyti af einstaklingsbundnum frásögnum með von um hugarfarsbreytingar almennings, á meðan konur á Íslandi stigu fram í sameiningu með von um breytingar á stjórnkerfi landsins. Lykilhugtök: Mannfræði, kynbundin mismunun, valdatengsl, andóf, feðraveldi, kíríarkí, samfélagsmiðlar 4

5 Abstract In this essay I will be examining the #MeToo-movement using methods of discourse analysis to view the official statements from women who came forward. Beginning in October 2017 the #MeToo-movement created an international platform for women to show each other solidarity and support in sharing experiences of abuse, in doing so raising awareness on sexual harassment and violence towards women in society. To properly explore this phenomenon feminist anthropology theory regarding gender, power and resistance will be examined. In particularly, Kate Millet s theories on patriarchy, Elisabeth Schüssler Fiorenza's ideas on the power relations of kyriarchy and Kimberlé Crenshaw's and Nira Yural-Davies's articles on intersectionality. The development of the movement differed from country to country. I will be focusing on how the movement developed both in the United States (where it originated from) as well as in Iceland, comparing the differences and effects. The movement in the United States was characterised in its individual focus and hope for a change in mentality, whilst in Iceland women hoped that with a mass outpouring from this movement it would lead to administrative changes. Keywords: Anthropology, gender discrimination, power relations, resistance, patriarchy, kyriarchy, social media. 5

6 Efnisyfirlit Útdráttur... 4 Abstract... 5 Efnisyfirlit Inngangur Fræðileg umfjöllun Mannfræði og kyngervi Feðraveldi Kíríarkí og skörun mismununar Vald og andóf Réttindabarátta á samfélagsmiðlum Aðferðafræði #MeToo-byltingin Bandaríkin Upphaf byltingarinnar Þróun og áhrif byltingarinnar innan Bandaríkjanna Ísland Staðan við upphaf byltingarinnar Þróun byltingarinnar á Íslandi Áhrif byltingarinnar á Íslandi Umræður og lokaorð Heimildaskrá

7 1 Inngangur Kynferðisleg áreitni og ofbeldi hefur verið hluti af daglegu lífi margra kvenna í aldaraðir þó umræða um slíkt hafi ekki alltaf verið til staðar. Vandamálið hefur lengi verið hulið sem átt hefur sinn þátt í að margir gerendur hafa sloppið við afleiðingar gjörða sinna á meðan mikil skömm hefur verið lögð á herðar þolenda ofbeldisins sem í miklum meirihluta hafa verið og eru konur. Miklar breytingar hafa átt sér stað í jafnréttisbaráttu kynjanna síðastliðna áratugi en undanfarin ár hefur umræða tengd kynferðislegu ofbeldi og áreitni aukist til muna. Með tilkomu samfélagsmiðla hefur opnast nýr vettvangur fyrir konur og aðra undirokaða hópa til þess að láta í sér heyra. Þannig hófst ein stærsta bylting sem fram til þessa hefur komið fram í málefnum sem varða kynferðislegt ofbeldi, í október 2017 á samfélagsvefnum Twitter, undir myllumerkinu #MeToo. Byltingin opnaði dyr inn í veruleika kvenna um allan heim sem höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni og ofbeldi á lífsleið sinni. Með því að stíga fram og segja sögur sínar valdefldust konur og ögruðu hugmyndum samfélagsins um þöggun á því ofbeldi sem þær höfðu löngum sætt. Í þessari ritgerð verður #MeToo-byltingin skoðuð út frá femínískum kenningum innan mannfræðinnar og sjónum beint að því hvernig hún tengist undirokandi þáttum menningarinnar. Tilgangurinn er að varpa ljósi á hvernig misbeiting valds og undirokun birtist í þeirri orðræðu sem fylgt hefur byltingunni og hvernig hún endurspeglar hugmyndir samfélagsins um kynbundna mismunun. #MeToo-byltingin verður skoðuð í tengslum við mannfræðilegar kenningar um feðraveldi (e. patriarchy) þar sem hið félagslega skapaða kyngervi kvenna hefur verið þáttur í lágri valdastöðu almennt. Þá verða aðrir þættir sem hafa áhrif á samfélagslega stöðu einstaklinga, eins og stéttarstaða, litarhaft eða þjóðerni, skoðaðir út frá hugmyndum um kíríarkísk (e. kyriarchy) samfélög. #MeToo-byltingin verður einnig skoðuð sem andóf (e. resistance) gegn þeim samfélagsgildum sem hafa verið við lýði og hvernig hún tengist þeirri misskiptingu valds sem fyrirfinnst í menningu almennt. Með þessari ritgerð vil ég varpa ljósi á hvernig misbeiting valds og undirokun birtist í þeirri orðræðu sem hefur fylgt byltingunni og hvernig hún endurspeglar hugmyndir 7

8 samfélagsins um kynbundna mismunun. Umfjölluninni verður skipt í tvo meginhluta. Í þeim fyrri verður fræðileg umfjöllun og hugtök útskýrð og í þeim seinni verður fjallað um þróun og áhrif byltingarinnar í Bandaríkjunum annars vegar og á Íslandi hins vegar. Í fyrri hlutanum verður farið yfir þær kenningar sem stuðst verður við í ritgerðinni svo sem eins og kenningar femínískrar mannfræði um kyngervi, feðraveldi, kíríarkí, skörun mismunar, vald, andóf og samfélagsmiðla. Meðal annars verður byggt á skrifum Simone de Beauvoir (1949/1999) um ólíka félagslegu stöðu kynjanna, Sherry B. Ortner (1974) um hugsanlegar ástæður þess og kenningar Kate Millet (1969/2016) um áhrif feðraveldisins á ólíka valdastöðu kynjanna. Auk þess verður hugtak femínistans Elisabeth Schüssler Fiorenza um kíríarkí skoðað sem útskýring á flóknari tegundum valdatengsla samfélagsins þar sem lögð er áhersla á fjölbreytileika einstaklinga (Kim og Whitehead, 2009). Hugmyndir Kimberlé Crenshaw og Nira Yuval-Davies (2006) um skörun ólíkrar mismununar innan menningarinnar verða einnig skoðaðar í því samhengi. Að lokum verður fjallað samfélagsmiðla sem nýjan vettvang fyrir fólk til þess að láta rödd sína heyrast og taka virkan þátt í byltingum eða andófshreyfingum. Í seinni hluta ritgerðarinnar verður fjallað um þróun #MeToo-byltingarinnar á samfélagsmiðlum og hvernig kynbundin mismunun birtist í frásögnum ólíkra hópa kvenna. Þróun byltingarinnar varð ólík eftir samfélögum og fólk brást við henni á misjafnan hátt. Sjónum verður einkum beint að þeim áhrifum sem hún hefur haft í Bandaríkjunum, þar sem hún hófst, og hún borin saman við þá þróun sem átti sér stað á Íslandi. Í Bandaríkjunum virðist byltingin hafa haft mest áhrif innan takmarkaðs hóps einstaklinga í skemmtanaiðnaðinum þar í landi. Umræða málefnisins meðal þess hóps vakti þó mikla athygli og hvatti konur um allan heim til þess að koma fram með sínar eigin sögur af kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Jarðvegurinn á Íslandi var töluvert ólíkur þeim í Bandaríkjunum en hér steig breiður hópur kvenna af ólíkum starfssviðum fram með ákall um breytingar stjórnenda og stjórnvalda. Í lok ritgerðinnar verður stutt samantekt og umræða um niðurstöðurnar. 8

9 2 Fræðileg umfjöllun Í þessum hluta verður fjallað um sögulega þróun innan þeirra greina mannfræðinnar sem lúta að femínisma, kyngervi og valdeflingu kvenna. Einnig verður fjallað um mannfræði andófs sérstaklega í tengslum við feðraveldið eða kíríarkíið. Að lokum verður stuttlega farið yfir hvernig samfélagsmiðlar hafa haft áhrif á þróun réttindabaráttu kvenna í dag. 2.1 Mannfræði og kyngervi Mannfræðingar hafa í langan tíma velt fyrir sér félagslegum mun kynjanna og misskiptingu valds milli þeirra í samfélaginu. Staða þeirra innan og utan heimilisins gefur góða innsýn í það ójafnvægi sem ríkir og um það hafa margir fjallað og reynt að útskýra (La Fontaine, 1981, bls. 333). Hugtakið femínismi (e. feminism) varð til um miðja 19. öld og stóð fyrir baráttu kvenna fyrir auknum réttindum og stuðning almennings við hana. Túlkun hugtaksins átti eftir að taka nokkrum breytingum og ná meðal annars yfir almenn borgararéttindi, pólitískan jöfnuð við karla og frelsun undan kúgun (Weeks, 2011, bls ). Sagnfræðingar og femínískir mannfræðingar hafa alla jafna fjallað um kvenréttindabaráttuna í þremur bylgjum (Wrye, 2009, bls. 185). Sú fyrsta náði frá miðri 19. öld fram á þriðja áratug 20. aldar og snerist að mestu leyti um lagalega stöðu kvenna. Önnur bylgja kvenréttindabaráttunnar sneri síðan frekar að þátttökurétti kvenna á vinnumarkaðinum og rétti þeirra til þess að stunda nám jafnt á við karla (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, 1989, bls ). Í kjölfar margra sigra á þeim vettvangi töldu margir að jafnrétti kynjanna væri náð og að sá munur sem sæist á kynjunum væri þeim eðlislægur. Þriðja bylgja femínismans átti hins vegar eftir að véfengja þá hugmynd (La Fontaine, 1981) og á níunda áratug 20. aldar fóru vestrænar konur að berjast gegn þeirri þöggun sem þær höfðu orðið fyrir í samfélagi sínu og kröfðust þess að raddir þeirra heyrðust þar sem þær höfðu þekkingu sem karlar höfðu ekki og gæti nýst samfélaginu (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, 1989, bls. 94). Hugmyndir sem mótuðust innan þriðju bylgju femínisma snerust einnig um að taka 9

10 kynferði, stéttarstöðu, litarhátt og ólíkt þjóðerni kvenna meira inn í umræðuna og að berjast gegn staðalmyndum kynjanna (Wrye, 2009, bls. 185). Undanfarin ár, sérstaklega fyrir tilstilli samfélagsmiðla, hafa margir femínistar hins vegar farið að tala um fjórðu bylgju femínisma (Evans og Chamberlain, 2015, bls. 399). Harriet Kimble Wrye (2009) er ein þeirra fyrstu sem skilgreindi sig sem fjórðu bylgju femínista. Hún segir þessa nýju bylgju færa umræðuna frekar inn í 21. öldina (bls. 187), en Internetið spilar stóran þátt í því þar sem þar hefur opnast vettvangur fyrir konur til þess að ögra hugmyndum kynjamismununar og krefjast svara (Munro, 2013, bls. 23). Fjórðu bylgju femínistar byggja áherslur sínar á hugmyndum fyrri bylgja en reyna að færa þær skrefinu lengra svo þær passi við það hugarfar sem nú er í gildi. Hnattvæðingin færir okkur öll nær hvert öðru og því telur Wrye (2009, bls. 187) nauðsynlegt að færa umræðuna frá sjálfinu og yfir til allra kvenna þar sem birtingarmynd undirokunar sjáist í öðru ljósi en áður. Hún segir helstu baráttuna vera gegn kynbundnu ofbeldi og valdeflingu kvenna þvert á landamæri. Skilin milli þriðju og fjórðu bylgju virðast þó að sumra mati ekki enn vera orðin nógu skýr. Kristin Aune og Rose Holyoak (2017, bls. 4) telja til dæmis hugmyndir þriðju bylgjunnar enn vera til staðar og að baráttunni sem hófst innan hennar sé ekki enn lokið, því sé ekki hægt halda því fram að ný bylgja sé hafin. Innan femínískrar mannfræði hefur verið lögð áhersla á að rannsaka hvaða þættir það eru í raun og veru sem hafa haft áhrif á ólíka stöðu kynjanna í samfélaginu. Eftir aðra bylgju kvenréttindabaráttunnar varð hugtakið kyngervi (e. gender) miðlægt í femínískri umræðu mannfræðinnar, en það nær utan um hvernig samfélagið hefur mótað ólík hlutverk, hegðun og eiginleika kynjanna eftir því hvað telst vera við hæfi kvenna eða karla (Orðabanki íslenskrar málstöðvar, e.d.). Í bók sinni, Le Deuxième Sexe (á íslensku: Hitt kynið) sem kom fyrst út árið 1949, kom heimspekingurinn Simone de Beauvoir (1949/1999) með nýtt sjónarhorn inn í umræðuna þar sem ólík félagsleg staða kynjanna var betur rædd og hugsanlegar ástæður valdaójafnvægis milli karla og kvenna skoðaðar. Í bókinni varpar de Beauvoir meðal annars ljósi á það hvernig karllægar hugmyndir eru normið og þannig miðist allt í menningu okkar við það, þar á meðal konur. Konur eru ekki skilgreindar út frá sjálfum sér heldur því hvernig þær standa við hlið karlmannsins. Karllíkaminn er það sem allt er miðað við og þannig er hann settur í 10

11 beint samband við umheiminn og menninguna. Á meðan er kvenlíkaminn hins vegar séður sem hindrandi þáttur í því að konur komist á sama stall innan menningarinnar líkami þeirra er of nátengdur nátturunni (de Beauvoir, 1949/1999, bls ). Það er einmitt tenging kvenleikans við náttúruna sem varð vinsæl útskýring á því hvers vegna konur stæðu ekki jafnfætis körlum og hún var oft notuð til þess að réttlæta undirokunina sem þær urðu fyrir (de Beauvoir, 1949/1999, bls. 37). Mannfræðingurinn Sherry B. Ortner (1974) beindi sjónum að félagslegum muni kynjanna með því að skoða tengingu karla við menninguna annars vegar og hins vegar hvernig konur væru ávallt tengdar náttúrunni. Kenningar hennar gengu út frá tvíhyggjusjónarmiði þar sem náttúra kvenlíkamans færði konur inn á heimilið þar sem þær sáu um börn sín en karllíkaminn tengdist frekar menningunni þar sem þeir höfðu tækifæri á að fara út á vinnumarkaðinn og sjá um börn sín fjárhagslega (Ortner, 1974). Þetta sjónarmið var fljótlega gagnrýnt þar sem margir mannfræðingar sáu að röksemdarfærslan stóðst ekki og þess í stað var valdaójafnvægi kynjanna talið vera afleiðing iðnvæðingarinnar, kapítalismans (sjá til dæmis Leacock, 1981) eða annarra félagslegra áhrifa (La Fontaine, 1981). Í fyrsta lagi sáu mannfræðingar að líffræðileg útskýring á ójafnri stöðu kynjanna náði ekki yfir öll menningarsvæði heimsins þar sem fólk túlkaði líffræðilegan mun kynjanna á mjög ólíkan hátt. Í öðru lagi varð ljóst að með því að tengja konur við náttúruna og karla við menninguna var ósjálfrátt verið að setja karla í hærri stöðu innan samfélagsins (La Fontaine, 1981, bls. 334). Með því að búa til flokkunarkerfi byggt á náttúrulögmáli er í raun verið að segja að félagslegum hlutverkum kynjanna verði ekki breytt. Þroskun einstaklinga takmarkast þar af leiðandi af staðalmynd kyns þeirra og fólk fer almennt að ætlast til ólíkra hluta hvert af öðru út frá kyni þeirra sem síðan endurspeglast í þátttöku kynjanna á vinnumarkaðinum og valdastöðu þeirra í samfélaginu (La Fontaine, 1981, bls. 337). 2.2 Feðraveldi Valdaójafnvægið í samfélögum sem ríkir í sambandi karla og kvenna hefur lengi verið til staðar, en félagsvísindafólk er ekki sammála um hvar það eigi rætur sínar (Millet, 1969/2016, bls. 28). Flest er það þó sammála um að eitthvað innan margra menningarheilda hefur orðið valdur þess og telja margir það hafi verið afleiðing þess sem hefur verið kallað feðraveldið (e. patriarchy). Feðraveldishugtakið er ekki einfalt og 11

12 hefur í gegnum tíðina haft margar og nokkuð ólíkar skilgreiningar (Beechey, 1979, bls. 66). Í bókstaflegri merkingu þýðir hugtakið að faðirinn hafi valdið, en hvort vísað sé til heimilisins, samfélagsins alls eða trúarinnar er misjafnt eftir sögulegum tengingum og áherslum fræðifólks (Osborne, 2015, bls. 136). Rætur hugtaksins hafa verið raktar aftur um 10 þúsund ár, eða til nýsteinaldar, þegar fólk fór að hefja landbúnað og ráða yfir eignum þar sem karlmaðurinn tók völdin (Richards, 2013, bls. 176). Annað fræðifólk vill þó færa þróun feðraveldisins aðeins nær okkar tíma, eða fram á bronsöld sem átti sér stað um 3300 til 1200 árum fyrir okkar tímatal (sjá til dæmis Frankel og Bolger, 1997). Vinsælustu kenningar um uppruna feðraveldisins forðast líffræðilegar útskýringar og tengja þróun þess frekar við ákveðnar félagslegar stofnanir þar sem hugmyndir þess náðu að blómstra, eins og innan trúarbragða þá sérstaklega kaþólsku kirkjunnar (Millett, 1969/2016, bls. 27). Innan kirkjunnar hafa karlar alltaf verið í hærri stöðu en konur. Guð er ávarpaður í karlkyni og prestar og aðrar æðri stöður innan kirkjunnar eru iðulega fráteknar körlum á meðan konur voru notaðar til þess að mynda tengsl milli valdamikilla fjölskyldna (Richards, 2013). Konan þróaðist sem eign eiginmannsins þar sem hann hafði yfirráð yfir félagslegri stöðu hennar, líkama og kynverund (e. sexuality). Á þann hátt gat feðraveldið eytt félagslegu hlutverki konunnar og karlar stóðu upp úr í samfélaginu og fengu allt vald (Millett, 1969/2016, bls. 33). Önnur félagsleg stofnun sem mannfræðingar hafa fjallað um sem stóran þátt í þróun hugmynda feðraveldisins er hið kapítaliska framleiðslukerfi (Beechey, 1979, bls. 67). Félagsfemínistar (e. social feminists) og marxískir femínistar leggja áherslu á að skoða hvernig feðraveldið hefur myndast samhliða þróun stéttaskiptingar (Kandiyoti, 1988, bls. 274). Feðraveldishugtakið hefur því verið notað til þess að skilgreina sambandið milli lágrar stéttarstöðu kvenna við aðrar tegundir arðráns eða kúgunar samfélagsins, til dæmis kynþáttafordóma (Beechey, 1979, bls ). Sama hvar fræðifólk telur uppruna eða þróun feðraveldisins liggja, eiga allar skilgreiningar hugtaksins það sameiginlegt að vísa til yfirráða karla í samfélaginu og valdatengsla þar sem þeir hafa yfirhöndina (Beechey, 1979, bls. 66). Í einni af fyrstu mannfræðilegu úttektum á hugtakinu segir Kate Millett í bók sinni Sexual Politics (1969/2016) að samfélag okkar, eins og mannleg samfélög á öllum tímum, sé feðraveldi. Millett segir að auðvelt sé að sjá áhrif þess hvert sem litið er. Ekki aðeins í almennri 12

13 félagslegri stéttaskiptingu heldur í öllum innviðum samfélagsins, hvort sem það er í iðnaði, innan fræðasamfélagsins, í pólitík eða í efnahagsskiptingu, þá sést að karlar hafa alltaf meiri völd en konur. Millett (bls. 25) bendir þó á að hugmyndir feðraveldisins komi ekki aðeins niður á konum, heldur séu þær einnig slæmar á margan hátt fyrir karla. Hún fjallar um hvernig feðraveldissamfélög samanstandi af tveimur meginatriðum; í fyrsta lagi snúast þau um vald karla yfir konum og í öðru lagi um vald eldri karla yfir þeim yngri. Fleiri mannfræðingar taka í sama streng, en David Richards (2013, bls. 181) hefur meðal annars fjallað um hvernig körlum er neitað um sama aðgang að fjölskyldu- og heimilislífi og konur hafa og til þess sé ætlast af þeim að þeir sækist alltaf eftir auknu valdi í krafti hugmynda feðraveldisins. Feðraveldishugtakið er gjarnan tengt annarrar bylgju femínisma, en vinsældir þess áttu eftir að dvína töluvert á níunda og tíunda áratug 20. aldar (Wilson, 2000, bls. 1493). Kynjafræðingurinn Deniz Kandiyoti (1988, bls. 274) sagði meðal annars feðraveldið vera eitt ofnotaðasta hugtak femínískra kenninga og á sama tíma illa skilgreint. Hún sagði að róttækir femínistar notuðu hugtakið of frjálslega með því að flokka allar tegundir valds af hálfu karla undir það. Hins vegar sagði hún félagsfemínista nota það í of þröngum skilningi með því að skoða það aðeins í samhengi við kapítalíska stéttaskiptingu. Undanfarin ár, með því sem margir vilja kalla fjórðu bylgju kvenréttindabaráttu, hefur umræðan um áhrif feðraveldisins komið upp á yfirborðið á ný (sbr. Ortner, 2014, bls. 5531). Með breyttum áherslum innan réttindabaráttunnar hafa áherslur á skilgreiningum hugtaksins einnig breyst. Líkt og Millett (1969/2016) benti á er nauðsynlegt að sjá áhrif feðraveldisins á bæði kyn en nú er fleira fræðifólk farið að skilgreina hugtakið út frá þeim forsendum. Gary Barker (2016, bls. 318) er einn af þeim en hann skilgreinir feðraveldi sem valdastrúktúr sem rammar inn líf karla og kvenna. Hann telur að með því að koma feðraveldinu aftur inn í femíníska umræðu sé hægt að varpa betur ljósi á ójafna valdaskiptingu kynjanna og rætur þess ofbeldis sem þar þrífst. 2.3 Kíríarkí og skörun mismununar Tilraunir til að koma feðraveldinu aftur inn í femíníska umræðu hlutu góðar undirtektir hjá hluta fræðisamfélagsins (sjá til dæmis Barker, 2016; hooks, 1981/2015) á meðan öðrum þótti skilgreining hugtaksins ekki ná yfir flókin stigveldi sem fyrirfinnast í samfélögum. Femínistinn Elisabeth Schüssler Fiorenza var ein þeirra sem sáu hömlur í 13

14 takmörkunum feðraveldishugtaksins og ákvað því að finna upp á nýju hugtaki, kíríarkí (e. kyriarchy), sem næði yfir breiðari skilgreiningu valdatengsla (Kim og Whitehead, 2009). Hugtakið er samansett úr grísku orðunum kyrios, sem þýðir stjórnandi, og archein, sem þýðir að ráða yfir (Bobel og Kissling, 2011, bls. 122). Kíríarkí nær yfir samfélög þar sem ákveðnir hópar hafa meira vald en aðrir sem eru undirgefnir og oft beittir kúgun. Á meðan feðraveldið nær utan um það vald sem karlar hafa yfir konum og öðrum lægra settum körlum, hjálpar nýja hugtakið okkur að skilja flóknari valdatengsl þar sem fjölbreytileiki samfélagsins er tekinn til greina það er að segja kyn, kyngervi, kynhneigð, stétt, litarháttur, þjóðerni, færni og aðrir þættir sem geta einkennt undirgefna hópa samfélagsins (Kim og Whitehead, 2009, bls. 6). Í umfjöllun sinni um kíríarkí bendir Natalie Osborne (2015) á að með því að horfa á samfélög út frá hugmyndum þess sé auðveldara að fá staðfesta viðurkenningu á því að kyn er ekki það eina sem setur fólk í valdastöður. Hugtakið lýsir flóknum valdakerfum sem öll tengjast á einhvern hátt. Tvíhyggjuhugmyndum feðraveldisins er afneitað og þess krafist að teknar séu inn í það hugmyndir um samband valds og kúgunar sem byggja á samvinnandi og skarandi þáttum er móta reynsluheim fólks. Með hugtakinu kíríarkí er ekki verið að setja ólíkar kúgunarformgerðir, líkt og feðraveldið, nýlenduhyggju og kynþáttahyggju, undir sama hatt þótt svipaðir eiginleikar einkenni þær allar. Þess í stað er verið að viðurkenna tilvist þeirra allra og leggja áherslu á að þær tengjast allar á sama tíma og þær eru frábrugðnar hver annarri (Osborne, 2015, bls ). Einstaklingsbundnar upplifanir af kíríarkí-samfélögum eru ekki síður mikilvægar í umræðunni. Líkt og Osborne (2015, bls. 137) bendir á þá er sú upplifun sem ákveðnir einstaklingar hafa af tiltekinni formgerð kúgunar alltaf tengd við aðrar formgerðir sem eru til staðar í lífi þeirra. Með tilkomu hugmyndarinnar um kíríarkí-samfélög er hægt að skoða þá hópa sem annars væru fyrir utan umræðuna um feðraveldið. Kvenréttindabaráttan og femínísk skrif hafa frá upphafi miðast við stöðu hvítra kvenna af millistétt og því hafa þær konur sem ekki falla undir þá skilgreiningu orðið utanvelta. Í bókinni Ain't I a Woman: Black women and feminism segir bell hooks (1981/2015, bls. ix-xi) frá því hvernig henni hafi aldrei fundist hún tilheyra bandarískum kvennahreyfingum á sama hátt og hvítar konur. Stór hluti kvenna tilheyrir fleiri en 14

15 einum jaðar- eða minnihlutahóp sem mótar sjálfveruleika (e. identity) þeirra ekki síður en kyngervi þeirra gerir og því er nauðsynlegt að fólk sé meðvitað um mögulegar skaranir þeirrar mismununar (e. intersectionality) sem geta komið upp í femínískri umræðu (Yuval-Davies, 2006, bls ). Hugtakið um skörun mismununar, sem hér eftir verður kallað skörun, kom fyrst inn í umræðuna 1989 þegar Kimberlé Crenshaw fjallaði um stöðu svartra kvenna á vinnumarkaðinum (Yuval-Davies, 2006, bls. 193) og svartar konur innan félagsvísindanna vildu finna leið til að skilja stöðu kvenna inna fræðasamfélagsins betur (Bolles, 2013). Hugtakið náði yfir það sem svartar konur (sbr. bell hooks, 1981/2015) í Bandaríkjunum upplifðu á þessum tíma það er að segja að tilheyra fleiri en einum undirokuðum hóp samfélagsins (Yuval-Davies, 2006). Skilgreining upplifunar þessara undirokuðu hópa er mjög takmarkandi og nær ekki utan um alla þá sem þeim tilheyra. Kynþáttahatur er til dæmis skilgreint og takmarkað við upplifun svartra karla á sama hátt og kynjamismunun er skilgreind og takmörkuð við reynsluheim hvítra kvenna. Þröngar skilgreiningar hugtakanna viðurkenna ekki annars konar kúgun sem svartar konur verða til dæmis fyrir. Þá eru samanlagðar skilgreiningar þeirra heldur ekki fullnægjandi til þess að ná utan um þá fjölþættu undirokun sem þær verða fyrir. Svartar konur upplifa kynþáttahatur á gjörólíkan hátt en svartir karlar rétt eins og þær upplifa kynjamisrétti á annan hátt en hvítar konur (Crenshaw, 1991, bls. 1252). Þegar fjallað er um skörun er mikilvægt að greina stöðu þeirra sem um ræðir á mun dýpri hátt en að flokka fólk í ólíka jaðarhópa því staða þeirra er mun flóknari en svo. Nira Yuval-Davies (2006, bls. 195) hefur bent á að ekki sé hægt að tala um fólk líkt og það hafi fleiri en eina sjálfsmynd, það er að segja að fötluð kona hafi annars vegar sjálfsmynd konu og hins vegar sjálfsmynd fatlaðs einstaklings. Hún getur vissulega samsamað sig að einhverju leyti þeirri undirokun sem konur eða fatlaðir karlar verða fyrir, en ekki fullkomlega. Sjálfverustaða hennar er ekki það einföld. Upplifun hennar er það ólík upplifun ófatlaðra kvenna eða fatlaðra karla að ný tegund upplifunar af undirokun verður til (Yuval-Davies, 2006). Í umræðunni um skörun er einnig viðurkennt að einstaklingur geti á sama tíma tilheyrt forréttindahópi og undirokuðum hópi og þannig er hægt að skoða samspilið sem getur átt sér stað þar á milli. Þannig gerir hugtakið jafnframt grein fyrir því að það sé í raun ómögulegt að aðskilja sjálfveruleika fólks á 15

16 skýran hátt, líkt og svartar konur hafa til dæmis oft verið neyddar til að gera (Osborne, 2015, bls. 133). Það minnir einnig á að kúgun getur ekki verið skilgreind niður í eina ákveðna tegund heldur vinna margir þættir saman og mynda óréttlátt og valdaskipt samfélag (Collins, 2000, bls. 18). Annað vandamál hvað varðar ólíkar tegundir kúgunar sem vert er að hafa í huga er að barátta eins hóps getur grafið undan réttindum annarra. Femínismi getur ýtt undir kynþáttahatur með því einu að taka ekki gild sjónarmið fólks af ólíkum uppruna. Að sama leyti hefur réttindabarátta svartra í Bandaríkjunum miðast út frá reynsluheimi karla og ekki tekið upplifanir svartra kvenna með í reikninginn og þannig mögulega ýtt undir kynjamisrétti. Þessi gagnkvæma útilokun setur svartar konur í vandasama stöðu þar sem þær þurfa jafnvel að velja annan málstaðinn fram yfir hinn (Crenshaw, 1991, bls. 1252). Sjálfveruleika fólks er erfitt að skilgreina en hvernig sem hann hefur mótast og sama hvaða áhrifum hann hefur orðið fyrir er alltaf mikilvægt að treysta áliti þeirra sem hafa upplifað kúgun og hafa þurft að upplifa að tilvist þeirra eigin reynsluheims er dregin í efa. Með því að taka það sjónarmið fram yfir önnur er hægt að koma í veg fyrir að upplifun þeirra sem um ræðir sé ranglega skilgreind út frá þröngu sjónarmiði mótuðu af þeim sem hafa meiri forréttindi (Walsh, 2015, bls ). Það sem felst í hugtökunum skörun og kíríarkí er leið til þess að skilja þann mun sem er á fólki innan sama hóps og á sama tíma viðurkenna tilvist ólíkra sjálfveruleika þeirra (Osborne, 2015, bls. 132). Hugtökin minna á að aldrei sé hægt að gera ráð fyrir því að ein manneskja geti talað fyrir hönd allra innan þess hóps sem hún tilheyrir. Nauðsynlegt er að skoða ólíkan reynsluheim fólks til þess að fá betri sýn á þau valdatengsl sem þrífast innan hópsins. Hugtökin gera okkur einnig kleift að skilja hvernig aðrar breytur gætu tengst og haft áhrif á það sem við erum að skoða jafnvel þótt aðeins sé einblínt á eina mismunabreytu, til dæmis kyn. Þannig er hægt að komast hjá alhæfingum eða útilokun ákveðinna hópa samfélagsins og þróa fjölþættari skilning á jaðarsetningu og kúgun (Osborne, 2015, bls ). Líkt og Kimberlé Crenshaw (1991, bls. 1299) bendir á er nauðsynlegt að fræðifólk sé meðvitað um þær skaranir sem eiga sér stað á mismunabreytum fólks. Þannig verður auðveldara að viðurkenna og staðsetja mismun milli einstaklinga og út frá því hægt að finna leið til þess að þeir geti verið betur staðsettir í pólitískri umræðu og hvers kyns réttindabaráttu. 16

17 2.4 Vald og andóf Vald (e. domination) og andóf (e. resistance) eru náskyld hugtök þar sem erfitt er að fjalla um annað án þess að minnast á hitt. Líkt og Michel Foucault (1978, bls ) sagði, og margir hafa tekið undir, þá er alltaf hægt að finna andóf þar sem finnst vald í samfélaginu. Þannig getur vald leitt af sér andóf sem síðan leiðir af sér frekari valdbeitingu sem aftur leiðir af sér enn frekara andóf (Hollander og Einwohner, 2004, bls. 548). Mannfræðingurinn Lila Abu-Lughod (1990, bls. 47) bendir á hversu mikilvægt það er að skoða hvað mismunandi birtingarmyndir andófs geta sagt um það vald sem þær standa gegn og þau valdatengsl sem eru til staðar í hverju samfélagi fyrir sig. Hugtakið vald var áður skilgreint innan mannfræðinnar sem stofnanamiðuð yfirráð (e. institutionalized domination) og andóf var skilgreint sem skipulögð hreyfing gegn því (Ortner, 1995, bls. 174), en vald og andóf eru mun margþættari hugtök en það. Mannfræðingurinn Pilar Alberti (1999, bls. 131) vill að í stað þess að fjallað sé um vald sé talað um valdatengsl (e. power relations) svo það nái utan um fjölþætt áhrif þess þar sem vald sést í gjörðum fólks og fléttast inn í hegðun þeirra sem sitja í valdastöðu. Kynjafræðingurinn Janet Townsend (1999) hefur tekið saman fjórar leiðir til þess að skoða birtingarmynd valdatengsla. Úttekt hennar er ekki leið til þess að flokka valdatengsl niður í undirtegundir heldur til þess að sjá hvernig ólíkar birtingarmyndir valds geta fléttast saman og styrkt hver aðra, en á þann hátt sést hversu flókið hugtakið er (Townsend, 1999, bls. 34). Fyrsta birtingarmynd valds sem Townsend (1999, bls. 27) fjallar um er það vald sem einhver hefur yfir einhverjum öðrum. Þetta er það vald sem hópur eða einstaklingur notar til þess að fá annan hóp eða einstakling til þess að gera eitthvað gegn vilja þeirra. Þess konar vald sést þegar ofbeldi eða ótta er beitt og einnig þegar reglur samfélagsins undiroka ákveðinn hóp til að samþykkja vilja hinna valdameiri. Valdið sem er beitt er því nokkuð greinilegt og auðvelt að sjá hvaða aðilar eiga í hlut. Önnur birtingarmynd valds sem Townsend (bls. 30) nefnir er það vald sem tengist sjálfstrausti og sjálfsvirðingu einstaklinga og kemur innan frá og teygir sig yfir í traust og virðingu annarra. Valdið innan frá kemur út frá viðurkenningu einstaklingsins á að hann sjálfur sé ekki það sem valdi vandamálinu, heldur sé það að hluta til tengt formgerðum samfélagsins. Þessi birtingarmynd valds tengist valdeflingu að miklu leyti. Valdefling kvenna skoðar til 17

18 dæmis vald síður út frá valdi yfir öðrum, heldur frekar í þeim skilningi að konur bæti sjálftraust sitt og innri styrk. Townsend segir mikilvægt að konur nái þess konar valdi áður en þær berjist gegn valdakerfi feðraveldisins. Á þann hátt geta þær skilið betur hvað það er í menningunni sem gerir þær að undirokuðum hópi og hvaða krafti þær búa yfir til að berjast á móti. Þriðja birtingarmynd valds í samantekt Townsend (bls ) er það vald sem hægt er að öðlast í sameiningu við aðra og annars væri erfitt að öðlast sem einstaklingur. Hún tekur fram að valdið sem hér um ræðir snúist ekki einungis um rúmtak þess heldur einnig meðvitund fólks um að kraftur fjöldans sé líklegri til þess að ná árangri, sérstaklega þegar hópur ræðst á ákveðið vandamál með sameiginlegu valdi sínu. Townsend (bls. 34) segir síðustu birtingarmynd valds sjást þegar fólk öðlast vald til þess að framkvæma hluti sem það gat ekki gert áður. Valdið hefur skapandi og virkjandi áhrif á fólk og getur verið frelsandi fyrir þann sem á í hlut. Þess konar vald má til dæmis sjá sem afleiðingu þess þegar konur endurbyggja og enduruppgötva sjálfa sig eftir að hafa öðlast vald innan frá, en þannig geta ólíkar birtingarmyndir valds tengst og haft áhrif hver á aðra. Þessar hugmyndir Townsend um ólíkar birtingarmyndir valds samræmast þeim sem Abu-Lughod (1990, bls. 42) hefur komið fram með. Þær fjalla um það hvernig umræða um vald þarf ekki að ganga út frá takmörkunum eða undirokun eins hóps á öðrum með neikvæðum afleiðingum, heldur getur vald haft jákvæð áhrif á einstaklinga og samfélög. Undirokaðir hópar geta út frá valdeflingu sinni, líkt og Townsend (1999, bls. 24) hefur bent á, veitt hinum valdameiri viðnám með andófi. Þessi birtingarmynd andófs er aðeins ein af mörgum þar sem andóf getur lýst ólíkum athöfnum á öllum þrepum félagslegs lífs, bæði milli einstaklinga, samfélaga og félagslegra stofnana, og á ólíkum vettvangi þess, þar á meðal í stjórnkerfi, atvinnulífi og listum (Hollander og Einwohner, 2004, bls. 534). Andóf sést ekki aðeins í pólitískum gjörningum eða mótmælum þó hugtakið sé oftast tengt við þess konar hreyfingar, heldur er hægt að finna það víða í menningunni. Mannfræðingurinn James C. Scott (1985) hefur fjallað um mun óformlegri mynd andófs sem getur verið hluti af daglegu lífi fólks á meðan aðrir hafa bent á mikilvægi þess að hreinn ásetningur verði að liggja að baki athæfisins svo hægt sé að tala um andóf (Ortner, 1995, bls. 175). Skilgreining hugtaksins er því á ákveðnu reiki sem hefur það í 18

19 för með sér að á meðan sumir geta séð andóf í öllum kimum samfélagsins, hafna aðrir því algjörlega og sjá það hvergi (Hollander og Einwohner, 2004, bls ). Þó skilgreiningar fræðifólks á andófi séu misjafnar ná þær í flestum tilvikum yfir annars vegar einhvers konar athöfn og hins vegar einhvers konar andstæður. Það helsta sem stangast á í skilgreiningum hugtaksins er mikilvægi ásetnings þess sem sýnir andófið og mikilvægi viðurkenningar annarra í samfélaginu á því (Hollander og Einwohner, 2004, bls ). Félagsfræðingarnir Jocelyn A. Hollander og Rachel L. Einwohner fjalla um nokkrar tegundir valds sem þær skilgreina út frá því hvort ásetningurinn sé meðvitaður og hvort athæfið sé viðurkennt sem andóf af þeim sem fyrir því verður eða utanaðkomandi aðila. Tvær algengustu tegundirnar af þeim sem Hollander og Einwohner (2004, bls ) nefna er annars vegar ódulið andóf (e. overt resistance) sem er sjáanlegt af öllum aðilum og er gert með það í huga, og annars vegar dulið andóf (e. covert resistance) sem er einnig meðvitað athæfi en sá sem verður fyrir því verður þess ekki var. Enn fremur ber að hafa í huga að andóf er menningarlega mótað og markmið þess, áhrif og framvinda fer eftir félagslegu umhverfi þess og sögulegu samhengi (Abu-Lughod, 1990, bls. 52). Eitt helsta dæmið um andófshreyfingu úr samtímanum sem hefur bæði verið árangursrík og náð alþjóðlegri útbreiðslu er femínismi (Ortner, 2014, bls. 530), en þau valdatengslin sem ríkja milli kynjanna hafa samt sem áður verið talin einna erfiðust að skilgreina (Abu-Lughod, 1990, bls. 42). Bæði er hægt að sjá valdatengsl milli einstaklinga og félagslegra stofnanna, þar á meðal í kyngervi einstaklinga (Alberti, 1999, bls. 137), en algengasta mynd kynjatengds valds er að karlar, eða hópur karla, hafi vald yfir konum (Townsend, 1999, bls. 27). Orðræðan um konur sem hina (e. other) og karla sem sjálfið (e. self) hefur víða verið samþykkt, sérstaklega á Vesturlöndum. Femínismi hefur frá upphafi verið andófshreyfing sem hefur hjálpað konum að verða sjálfið í eigin lífi í stað þess að vera skilgreindar út frá viðmiðum settum af körlum (Abu-Lughod, 1991, bls ). Sameiginlegt markmið femínískra andófshreyfinga er að breyta eðli þessara valdatengsla að því leyti að karlar séu gagnrýndir fyrir það hvernig þeir hafa notfært sér valdastöðu sína gagnvart konum (Alberti, 1999, bls. 137). Þannig er valdastaða þeirra, ásamt hugmyndum feðraveldisins, brotin niður og konum veitt rými í samfélaginu sem þær höfðu ekki áður (Ortner, 2014, bls ). 19

20 Sú valdefling sem konur öðlast í kjölfar slíkra andófshreyfinga getur breytt viðhorfum þeirra og meðvitund um eigin réttindi getur aukist. Í rannsókn sem Pilar Alberti (1999, bls. 138 og 140) gerði meðal mexíkóskra kvenna sá hún að skoðanir almennings, sérstaklega karla, á nýju hugarfari þeirra og aukinni kynjavitund (e. genderawareness) voru oftar en ekki neikvæðar og mörgum körlum virtist vera ógnað á þeim svæðum sem þeir höfðu áður haft fullkomið vald yfir. Líkt og áður kom fram getur andóf kallað fram frekari valdbeitingu þeirra sem andófinu er beint gegn (Hollander og Einwohner, 2004, bls. 548), en það getur haft í för með sér að andófshreyfingin eða byltingin dofni. Mannfræðingurinn Dimitrios Theodossopoulos (2014, bls ) hefur skoðað hvaða fleiri ástæður geta legið að baki því að upphafsskriður byltinga dofni smám saman svo aðstæður fari jafnvel aftur í sama far og áður. Hann telur margt geta útskýrt það, til dæmis þreyta eða klofningur innan mótmælendahópsins og skortur á þekkingu eða efni til þess að nota gegn valdameiri hópnum. Theodossopoulos (2014, bls. 425) bendir jafnframt á að þegar ójöfn valdaskipting liggur djúpt í menningu samfélaga er algengt að andófshreyfingar endurtaki sig meðal undirokaðra hópa og hjá sumum getur andóf orðið að óumflýjanlegum hluta daglegs lífs. 2.5 Réttindabarátta á samfélagsmiðlum Með aukinni Internetnotkun almennings á tíunda áratugnum og tilkomu samfélagsmiðla rúmlega áratug síðar hefur skapast nýr vettvangur fyrir réttindabaráttur og byltingar (McInerny, 2009, bls. 212). Internetið, og enn fremur samfélagsmiðlar, er nú rými þar sem fólk óháð stéttarstöðu eða búsetu, getur tekið þátt í umræðu sem það myndi jafnvel annars ekki vita af (Sutton og Pollock, 2000, bls. 701). Vettvangurinn hefur einnig veitt fólki sem í daglegu lífi hefur ekki færi á að taka þátt í samfélagslegri umræðu, til dæmis vegna fötlunar, færi á að láta rödd sína heyrast (sjá til dæmis Ginsburg, 2012). Samfélagsmiðlar hafa verið helsti vettvangur almennings til þess að mynda þessi tengsl og skapa umræður. Þá ber sérstaklega að nefna Facebook sem hefur hlotið hvað mesta fylgni með rúmlega 2 milljarða skráðra notendur með daglega virkni á vefnum (Statista, 2017), en þar getur fólk myndað hópa og búið til síður sem fjalla um ákveðið málefni. Facebook er algjörlega opinn miðill sem gefur fólki færi á að tengjast eða deila upplýsingum með hverjum sem er en mannfræðingurinn Daniel Miller (2012, bls. 149) 20

21 segir þann eiginleika miðilsins virka hvetjandi á fólk til þess að taka þátt í pólitískum hreyfingum eða gjörningum. Í grein sinni um hvernig fólk skapar sér sjálfveruleika á samfélagsmiðlum fjallar Heidi J. Figueroa Sarriera (2006, bls. 98) um hvernig sjálfsbirting einstaklinga getur verið ólík og oft í andstæðu við þá sem kemur fram í raunveruleikanum. Hún bendir á hvernig margt fólk virðist nýta vettvanginn til þess að sýna þá mynd af sjálfu sér sem það vill að aðrir sjái frekar en hvernig það er í raun og veru. Lou, Zhang og Marquis (2016, bls. 2048) benda þó á að það þurfi ekki endilega að hafa neikvæð áhrif í för með sér. Sá nýi sjálfveruleiki sem fólk hefur skapað sér á samfélagsmiðlum og nafnleysið sem honum fylgir í sumum tilfellum getur hvatt fólk til þess að taka óhrætt þátt í þeirri umræðu sem það hefur áhuga á. Mannfræðingurinn Arjun Appadurai (2000/2006, bls. 625) tekur í svipaðan streng og segir minni ótta oft fylgja því að koma fram með hugmyndir um breytt hugarfar þegar fólk á þess kost að fela sig á bak við tölvuskjáinn heldur en ef umræðan ætti sér stað í beinum samskiptum milli einstaklinga. Jafnframt telur hann hugmyndaflug fólks ekki lengur takmarkast við það sem gerist innan hugarrými hvers einstaklings heldur séu samfélagsmiðlar orðnir sameiginlegur vettvangur fólks til að velta upp hugmyndum og láta í sér heyra ef því finnst á sér brotið. Hugtakið stafræn pólitík (e. digital politics) varð til í kjölfar aukinnar notkunar Internetsins. Það nær bæði utan um þá hefðbundnu pólitík sem notar Netið sem nýjan vettvang til þess að breiða úr sér og þá pólitík sem á uppruna sinn og þrífst þar. Pólitískar hreyfingar og andófshópar sem myndast á samfélagsmiðlum byggjast á samskiptum almennings sem þar fara fram og þar mótar almenningur skoðun sína á hinum ýmsu málefnum (Postill, 2012, bls ). Rannsóknir hafa sýnt að þegar meirihluti notenda samfélagsmiðla hefur myndað sér skoðun á málefni er erfitt að fá hann til að skipta um skoðun (Lou, Zhang og Marquis, 2016, bls. 2046). Aðgerðasinnar hafa byrjað að nota Internetið sem stökkpall fyrir félagslegar breytingar og það hefur því orðið að einhvers konar miðju félagslegrar mótunar og mikilvægri einingu í félagslegri byltingu (Sutton og Pollock, 2000, bls. 699). Vettvangurinn er einnig hentugur fyrir andófs- og grasrótahreyfingar þar sem stjórnvöld og efstu valdastéttir samfélagsins eiga erfitt með að stjórna því sem þar fer fram, öfugt við annan opinberan vettvang (Postill, 2012, bls. 175). Þá getur einnig orðið erfiðara fyrir stjórnvöld og valdamikla hópa að 21

22 leyna starfsemi sinni fyrir almenningi þar sem sífellt fleiri hafa auga með því sem þeir gera gegnum Internetið (Lou, Zhang og Marquis, 2016, bls. 2064). Undanfarin ár hefur áhugi félags- og mannfræðinga á notkun almennings á Internetinu farið stöðugt vaxandi. Fjölmargir hafa rannsakað hvernig þessi nýji vettvangur hefur haft áhrif á fólk og hvernig það getur tjáð skoðanir sínar og lífssýn (Kaun og Uldam, 2017, bls. 1). Xiaowei R. Luo, Jianjun Zhang og Christopher Marquis (2016) gerðu rannsókn á því hvaða áhrif stafrænar aðgerðastefnur (e. digital activism) geta haft á samfélagsbreytingar. Þau sáu að samfélagsmiðlar geta haft skjót áhrif á málefni og krefjast tafarlausra svara á meðan áhrif hefðbundinna fjölmiðla eru hægari þó aðkoma þeirra sé mikilvæg að því leyti að þeir undirstrika umræðuna sem á sér stað á samfélagsmiðlum og auka þannig vægi hennar. Það sem skilaði sér í nokkurra daga byltingu á Internetinu hefði því tekið fleiri mánuði, jafnvel ár, á hefðbundnum vettvangi (Luo, Zhang og Marquis, 2016, bls og 2065). Luo, Zhang og Marquis (2016, bls. 2048) tóku jafnframt eftir því að fleiri geta tekið þátt í byltingu á samfélagsmiðlum en í annars konar byltingu og þeir sem taka þátt þurfa ekki að leggja allt sitt af mörkum, heldur að jafn miklu leyti og hverjum og einum hentar. Fólk getur tekið þátt með því að skrifa greinar, deila þeim, skrifa stuttar athugasemdir, horfa á myndbönd, lesa fréttir og svo framvegis. Luo, Zhang og Marquis (2016) benda í því samhengi á að línurnar milli þess að vera þátttakandi í byltingu á samfélagsmiðlum eða ekki geta verið óskýrari en í annars konar byltingu. Ef um væri að ræða til dæmis mótmæli eða kröfugöngur telja þau að almenningur væri mun varkárari við að setja nafn sitt við málstaðinn (Luo, Zhang og Marquis, 2016, bls. 2047). 2.6 Aðferðafræði Í köflunum hér á eftir verður notast við aðferðir orðræðugreiningar (e. discourse analyses) þegar yfirlýsingar og reynslusögur einstaklinga í tengslum við #MeToobyltinguna verða skoðaðar. Orðræðugreining er í flokki eigindlegra rannsóknaraðferða sem leitast við að skilja mannlegt samfélag út frá atferli einstaklinga í stað þess að setja fram formlega tilgátu um mannlega hegðun (O'Reilly, 2005, bls. 113). Orðræðugreining nær yfir breitt svið rannsókna á textum þar sem aðferðir og áherslur hvers rannsakanda fyrir sig eru ólíkar. Sameiginlegt sjónarmið þeirra sem nota orðræðugreiningu við rannsóknir sínar felur í sér að afneita því að tungumálið sé verkfæri sem geti 22

23 endurspeglað og lýst heiminum á hlutlausan hátt. Orðræðugreining snýst að vissu leyti um að viðurkenna að sýn okkar á heiminn er ekki algild og að gagnrýna að ákveðin þekking sé tekin sem gefin. Það er mikilvægt að rannsakendur séu meðvitaðir um að þekking er félagsleg smíð og sá skilningur sem þeir hafa á tilverunni er alltaf í sögulegu og menningarlegu samhengi sem mikilvægt er að bera kennsl á. Það sem fylgir framkvæmd orðræðugreiningar er því að miklu leyti að efast um eigin hugmyndir um hvernig hlutir virka venjulega (Gill, 2000, bls ). Þegar texti er orðræðugreindur skoðar rannsakandi frásögn einstaklingsins út frá samhengi við þær aðstæður sem hún birtist í. Það skiptir því höfuðmáli að skilja að orðræða í frásögnum, líkt og þekking okkar, tengist þeim menningarlega og sögulega tíma sem hún tilheyrir (Kristín Björnsdóttir, 2003, bls. 240). Orðræða er ekki aðeins orð á blaði heldur er hún líka það sem er ósagt og eitthvað sem við sköpum með athöfnum okkar og tjáningu sama hvort þær eru meðvitaðar eða ekki (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2006, bls. 179). Í orðræðugreiningu er reynt að skoða hvernig þekking er tjáð, hvort sem það er gert með orðum eða annars konar athöfnum. Þá er einnig reynt að skoða hvernig fyrirbæri og hugtök verða til út frá orðræðu fólks og hvað er hægt eða ekki hægt að segja við hverjar aðstæður yfir sig. Við framkvæmd orðræðugreiningar skiptir höfuðmáli að reyna að varpa ljósi á hvernig einstaklingar geta mótast af orðræðunni sem er í kringum þá. Í því tilfelli er bæði verið að skoða þá sem taka þátt í umræðunni og þá sem umræðan snýst um (Kristín Björnsdóttir, 2003, bls. 242). Þegar aðferðum orðræðugreiningar er beitt er reynt að sjá endurtekin þemu sem einkenna textann, eða svokölluð þrástef (e. discursive theme). Mynstrið sem þau mynda kallast löggildingarlögmál (e. legitimating principles). Þau ná utan um þær beinu og óbeinu reglur sem segja til um hvað er viðeigandi að segja á hvaða vettvangi. Þessar reglur þurfum við að virða ef við viljum vera tekin alvarlega og að á okkur sé hlustað, en á sama tíma reynum við þó að hafa áhrif á reglurnar og jafnvel breyta þeim (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2006, bls. 179). Í orðræðugreiningu er því skoðað hvernig þessar beinu og óbeinu reglur móta einstaklinga í stað þess að reyna að lýsa upplifun þeirra, reynslu eða þekkingu (Kristín Björnsdóttir, 2003, bls. 244). Hlutverk rannsakanda sem nýtir sér aðferðir orðræðugreiningar snýst að mestu leyti um túlkun á því efni sem verið er að skoða, auk þess að koma auga á mótsagnir og áhrif 23

24 orðræðunnar á þá sem eiga í hlut. Því vilja margir meina að rannsakandi geti í raun ekki að vera hlutlaus við túlkun gagnanna né í frásögn sinni því hann miðar alltaf út frá eigin reynslu og þekkingu (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2006, bls. 190). Gögnin sem eru notuð við greininguna eru heldur ekki hlutlaus þar sem í flestum tilvikum er það rannsakandinn sjálfur sem velur hver koma til greina og hver ekki. Þess vegna þarf að færa rök fyrir því af hverju tiltekin skjöl voru valin og ákveða lykilspurningar sem unnið er með við úrvinnslu gagnanna svo niðurstöðurnar verði sem réttmætastar (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2006, bls ). Í orðræðugreiningu þessarar ritgerðar verða skoðaðar opinberar yfirlýsingar bandarískra og íslenskra kvenna sem stigu fram saman með sambærilega reynslu af kynferðislegri áreitni í kjölfar útbreiðslu myllumerkisins #MeToo á samfélagsmiðlum. Hér verður stuðst við yfirlýsingar hópanna í stað einstakra frásagna þar sem þær eru líklegri til þess að endurspegla skoðanir stéttarinnar sem heild. Yfirlýsingarnar innihéldu einnig margar hverjar ákall um breytingar, sem einstaka frásagnir gerðu aðeins í örfáum tilvikum. Umræðan verður greind með ákveðnar spurningar að leiðarljósi, það er hvernig hugmyndir um kyngervi birtast í umræðunni, hvernig valdatengslum kynjanna er háttað í orðræðunni, hvernig áhrif feðraveldisins koma í ljós og hvernig hugmyndir um kynferðislegt ofbeldi og áreitni birtast í yfirlýsingunum. 24

25 3 #MeToo-byltingin Kynbundið ofbeldi fyrirfinnst í öllum kimum samfélagsins en líkt og kemur fram í greinargerð Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninnar (WHO, 2014) um ofbeldi hefur ein af hverjum fimm konum orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku og ein af hverjum þremur konum verið beitt líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi af hálfu náins aðila á lífsleiðinni. Samkvæmt greinargerðinni eru 38% morða á konum framin af karlkyns maka þeirra, en aðeins 6% karla eru myrtir af kvenkyns maka sínum. Í greinargerðinni er einnig tekið fram að þessi tegund ofbeldis, auk ofbeldis gegn börnum eða eldri borgurum, fer aðeins í um helmingi tilvika í gegnum lagakerfi þeirra landa sem skoðuð voru. Það gefur til kynna að mikil þöggun ríki um málaflokkinn um heim allan. Þessi mikli kynjahalli í morð- og ofbeldismálum er ekki tengdur við ákveðin samfélög heldur virðist vandamálið vera hnattrænt. Í grein sinni um ofbeldi og karlmennsku fjallar Gary Barker (2016, bls. 318) um hvernig félagsmótun eða menningarleg gildi hljóti að vera ástæða þess að karlar séu meirihluti gerenda í ofbeldistengdum málum. Hann vill taka upp umræðuna um áhrif feðraveldisins á félagsmótun karla, þar sem ofbeldi er hluti af valdastrúktúr samfélagsins og körlum sé kennt að kúga hina valdaminni til þess að styrkja eigin stöðu. Barker (2016, bls ) veltir fyrir sér hvernig sé hægt að fjalla um ofbeldi án þess að það sé talið sem hluti af karlmennsku, því hann telur það ekki vera nokkurri manneskju eðlislægt að beita aðra ofbeldi, þess í stað sé samkennd og umhyggja í garð annarra ofar öðrum kenndum í eðlisfari okkar. Þess vegna segir Barker ofbeldi vera algjörlega félagslega eða menningarlega mótað fyrirbæri og þar af leiðandi eitthvað sem við getum unnið í og breytt. Allt frá því að almenningur fór að hafa þann aðgang sem hann hefur í dag að samfélagsmiðlum hefur fólk nýtt sér þá sem vettvang til þess að ræða um málefni sem því eru hugleikin. Undirokaðir hópar hafa ekki síður en aðrir nýtt miðlana til þess að berjast fyrir jöfnum réttindum og þar hafa konur ekki verið undantekning. Nýjasta byltingin og sú sem fjallað verður um hér er #MeToo-byltingin sem í upphafi snerist um að sýna fórnarlömbum kynferðislegs ofbeldi eða áreitni samstöðu ásamt því að vekja athygli á hversu algengt vandamálið væri í raun og veru. Notkun myllumerkisins #MeToo hófst á miðlinum Twitter en átti eftir að breiðast út á öðrum miðlum, svo sem Facebook 25

26 og Instagram. Það náði til kvenna á alþjóðavísu en hér verður fjallað um þróun byltingarinnar innan Bandaríkjanna, þar sem hún hófst, og síðan áhrif hennar á Íslandi. Einnig verður farið yfir stuttlega yfir kvenréttindabyltingar bandarískra og íslenskra kvenna, en með því að skoða ólíkar andófshreyfingar kvenna er hægt að sjá hvernig þær tengjast í raun allar saman. Að sama leyti hjálpar það okkur að skilja hversu flókið samspil andófs og valds er í raun og veru. Þegar valdakerfi eru margþætt, sem yfirleitt er raunin, getur andófshreyfing á einu stigi náð til fólks á öðrum stigum þess (Abu-Lughod, 1990, bls. 53). Með því að vera meðvituð um kvenréttindabyltingar sem hafa átt sér stað á Íslandi áður en myllumerkið #MeToo breiddist út er hægt að skilja betur ástæðu byltingarinnar og áhrifin sem hún hafði. Í því samhengi ber einnig að nefna að andóf er menningarlega mótað og birtist á ólíkan hátt eftir sögulegu samhengi þess (Abu-Lughod, 1990, bls. 52). Ef ekki væri til dæmis fyrir Internetið sem valdeflandi vettvang fyrir konur og leið fyrir þær til að leyfa röddum sínum að heyrast hefði #MeToo-byltingin aldrei átt sér stað í því formi sem hún birtist okkur nú. 3.1 Bandaríkin Í þessum hluta verður farið í stuttu máli yfir sögu réttindabaráttu kvenna í Bandaríkjunum og þróun #MeToo-byltingarinnar sem breiddist hratt út eftir þátttöku kvenna úr skemmtanaiðnaði landsins. Því næst verður farið yfir hvernig umræðan þróaðist í fjölmiðlum og þau áhrif sem byltingin hefur nú þegar haft Upphaf byltingarinnar Barátta kvenna um allan heim fyrir jöfnum réttindum kynjanna nær langt aftur í aldir. Einn mikilvægasti atburðurinn sem markaði upphaf kvenréttindabaráttunnar í Bandaríkjunum er ráðstefna sem haldin var við Seneca Falls í New York árið 1848 (McMillen, 2008). Súffragettuhreyfingin hófst í kjölfarið en hún stóð fyrir áralangri baráttu um jöfn réttindi kynjanna til náms og vinnu, auk kosningaréttar sem bandarískar konur fengu ekki fyrr en í ágúst 1920 (Flexner, 1966). Þó mörgum hafi þótt mikill sigur hafa unnist þegar konur gátu kosið var langt í land og baráttan fyrir jöfnum réttindum kynjanna í Bandaríkjunum, líkt og öðrum löndum, átti eftir að vera háð í langan tíma í viðbót. Kvennahreyfingar sjöunda, áttunda og níunda áratugarins börðust fyrir bættri stöðu kvenna á vinnumarkaðnum en beindu einnig athygli sinni að kynjahlutverkum (e. 26

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni Aðferð til að Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni hvað er það?? Málsýni þýðing á enska orðinu language sample Dæmi um málsýni Notað í rannsóknum um máltöku

More information

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir 1 Hvað er stjórnun viðskiptatengsla (CRM)? Stjórnun viðskiptatengsla er hugmyndafræði Stjórnun viðskiptatengsla er stefna Stjórnun viðskiptatengsla

More information

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Rannsóknarspurningin Treystir fólk sínum viðskiptabanka betur en öðrum og gæti það verið

More information

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept Gagnasafnsfræði Páll Melsted 16. sept Endurtekin gildi Ef við viljum losna við endurtekin gildi er hægt að nota DISTINCT SELECT DISTINCT name FROM MovieExec, Movie, StarsIn WHERE cert = producerc AND title

More information

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.)

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) www.landspitali.is Nafn Læknir Hjúkrunarfræðingur Símanúmer Ræddu eftirfarandi

More information

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver 14 1 Excel Solver Excel Solver er viðbót (e. add-in) við Excel sem hjálpar til að finna bestu lausn á viðfangsefnum eins og þegar um er að ræða takmarkaðar

More information

Femínismi. - kenningar í mannfræði og íslenskur veruleiki. Assa Sólveig Jónsdóttir Hansen. Lokaverkefni til BA-gráðu í mann- og fjölmiðlafræði

Femínismi. - kenningar í mannfræði og íslenskur veruleiki. Assa Sólveig Jónsdóttir Hansen. Lokaverkefni til BA-gráðu í mann- og fjölmiðlafræði Femínismi - kenningar í mannfræði og íslenskur veruleiki Assa Sólveig Jónsdóttir Hansen Lokaverkefni til BA-gráðu í mann- og fjölmiðlafræði Félagsvísindasvið Femínismi - kenningar í mannfræði og íslenskur

More information

Eðlishyggja í endurskoðun

Eðlishyggja í endurskoðun Eðlishyggja í endurskoðun Komiði sæl. Gaman að sjá ykkur svona mörg hér. Eins og Sigríður sagði er ég að vinna að doktorsritgerð í heimspeki þar sem reyni að færa frumspekileg rök fyrir konstrúktivisma

More information

GREINAR UM BÆKUR ÁSTA KRISTJANA SVEINSDÓTTIR. Kvenna megin

GREINAR UM BÆKUR ÁSTA KRISTJANA SVEINSDÓTTIR. Kvenna megin GREINAR UM BÆKUR ÁSTA KRISTJANA SVEINSDÓTTIR Kvenna megin Sigríður Þorgeirsdóttir Kvenna megin: ritgerðir um femíníska heimspeki Hið íslenska bókmenntafélag, 2001 Mikið gleðiefni er að út sé komin bók

More information

4) Þá ertu kominn inná routerinn og ætti valmyndin að líta út eins og sýnt er hér til hægri. 5) Því næst er smellt á Wizard setup

4) Þá ertu kominn inná routerinn og ætti valmyndin að líta út eins og sýnt er hér til hægri. 5) Því næst er smellt á Wizard setup Hægt er að tengjast við Zyxel 660W beininn bæði þráðlaust eða með netkapli í netkort tölvunnar. Stilla þarf tölvuna þannig að hún sæki sjálfkrafa IP tölu (Optain an IP Address Automatically). Mismunandi

More information

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Fólkstegundir. Um veitingu félagslegra eiginleika

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Fólkstegundir. Um veitingu félagslegra eiginleika Hugur 21. ár, 2009 s. 52 62 Ásta Kristjana Sveinsdóttir Fólkstegundir Um veitingu félagslegra eiginleika Um langt skeið hefur verið umræða í fræðaheiminum, jafnt sem annars staðar, um hvort ýmis fyrirbæri

More information

Róma. Etnísk skilgreining og sköpun. Silja Lind Haraldsdóttir. Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði. Félagsvísindasvið

Róma. Etnísk skilgreining og sköpun. Silja Lind Haraldsdóttir. Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði. Félagsvísindasvið Róma Etnísk skilgreining og sköpun Silja Lind Haraldsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði Félagsvísindasvið Róma Etnísk skilgreining og sköpun Silja Lind Haraldsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu

More information

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Umfjöllun 1. Stutt lýsing á Mati á stuðningsþörf: SIS 2. Einstaklingsbundnar

More information

Þú fæðist ekki kona, heldur verður kona.

Þú fæðist ekki kona, heldur verður kona. Félagsvísindasvið Þú fæðist ekki kona, heldur verður kona. Birtingarmynd kyngervis á vefsíðu Krakkarúv og hugsanleg áhrif þess á börn. Ritgerð til BA gráðu Nafn nemanda: Anna Kristjana Ó. Hjaltested Leiðbeinandi:

More information

Hvert er heimurinn að stefna? Mannfræðileg sýn á póstkapítalisma í nútímasamfélögum

Hvert er heimurinn að stefna? Mannfræðileg sýn á póstkapítalisma í nútímasamfélögum Hvert er heimurinn að stefna? Mannfræðileg sýn á póstkapítalisma í nútímasamfélögum Regína Márusdóttir Lokaverkefni til BA- gráðu í mannfræði Félagsvísindasvið Hvert er heimurinn að stefna? Mannfræðileg

More information

Sjálfið á tímum stafræns veruleika

Sjálfið á tímum stafræns veruleika Sjálfið á tímum stafræns veruleika Upplifun einstaklinga af samskiptum í gegnum samfélagsmiðla, togstreita, áhrifastjórnun og skert geta til alhæfingar um mótleikara í stafrænum samskiptum. Lokaverkefni

More information

Facebook og flokkarnir: Rannsókn á notkun íslenskra stjórnmálaflokka á samfélagsmiðlum

Facebook og flokkarnir: Rannsókn á notkun íslenskra stjórnmálaflokka á samfélagsmiðlum n Fræðigreinar STJÓRNMÁL Facebook og flokkarnir: Rannsókn á notkun íslenskra stjórnmálaflokka á samfélagsmiðlum Baldvin Þór Bergsson, doktorsnemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands Útdráttur Vægi samfélagsmiðla

More information

Í hvernig nærfötum ertu núna?

Í hvernig nærfötum ertu núna? Í hvernig nærfötum ertu núna? Upplifun trans fólks af transtengdri heilbrigðisþjónustu á Íslandi Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir Lokaverkefni til MA-gráðu í kynjafræði Félagsvísindasvið Júní 2017

More information

Áhrif aldurs á skammtímaminni

Áhrif aldurs á skammtímaminni Háskóli Íslands 7.5.2000 Félagsvísindadeild Þroski og lífstíðarþróun (10.02.02) Áhrif aldurs á skammtímaminni Tryggvi R. Jónsson (191177-3989) Ólafur Magnússon Kennari: Sigurður J. Grétarsson Rannsókn

More information

Fastar á jaðrinum? Staða farandverkakvenna í Peking. Sigrún K. Valsdóttir. Lokaverkefni til MA gráðu í mannfræði.

Fastar á jaðrinum? Staða farandverkakvenna í Peking. Sigrún K. Valsdóttir. Lokaverkefni til MA gráðu í mannfræði. Fastar á jaðrinum? Staða farandverkakvenna í Peking Sigrún K. Valsdóttir Lokaverkefni til MA gráðu í mannfræði Félagsvísindasvið Fastar á jaðrinum? Staða farandverkakvenna í Peking Sigrún K. Valsdóttir

More information

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR)

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) Aldur nemenda: 10 ára og upp úr Viðfangsefni: ofbeldi, einelti, samskipti Færnimarkmið: Hugtakaleikir ná að þjálfa flesta færniþætti samræðunnar Viðhorfamarkmið: Hugtakaleikir ná

More information

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu?

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? 8 janúar 2015 Áður en kaupferlið hefst Í kaupferlinu Eftir að kaupferlinu lýkur Í kaupferlinu Áður en kaupferlið hefst Vörulýsing og myndir Neytendur

More information

10. kafli fordómar og mismunun

10. kafli fordómar og mismunun 10. kafli fordómar og mismunun Eðli og víddir fordóma (nature and dimensions of prejudice) Þegar einn hópur fólks hatar annan hóp svo mikið að þeir geta af ásettu ráði pynt og myrt saklausa óbreytta borgara

More information

Femínísk þekkingarfræði

Femínísk þekkingarfræði Hugvísindasvið Femínísk þekkingarfræði Kynbundin þekking og femínísk sjónarhornsfræði Ritgerð til B.A.-prófs Hrund Malín Þorgeirsdóttir Maí 2012 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Femínísk þekkingarfræði

More information

Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir

Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir Ásthildur Embla Friðgeirsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði Júní 2015 Eru börn gerendur eða bjargarlausar

More information

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban 8. febrúar 2013 Eiríkur Gestsson Um mig Eiríkur Gestsson Tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík 2004 Hugur hf. og HugurAx frá 2004 til

More information

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði.

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði. Spilin á borðið Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Spilin á borðið: Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum

More information

MA ritgerð. Ofbeldi karla gegn konum í parsamböndum

MA ritgerð. Ofbeldi karla gegn konum í parsamböndum MA ritgerð Félagsráðgjöf Ofbeldi karla gegn konum í parsamböndum Úttekt á gerendum sem leita til Karlar til ábyrgðar Ingibjörg Þórðardóttir Leiðbeinandi dr. Freydís Jóna Freysteinsdóttir Janúar 2014 Ofbeldi

More information

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum:

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild-menntavísindabraut Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Endurskoðun á forvörnum og eineltisstefnum í framhaldsskóla Eva Dröfn Möller Akureyri Júní, 2013 Háskólinn

More information

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun. Þar sem margbreytileikinn lifir

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun. Þar sem margbreytileikinn lifir MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun Þar sem margbreytileikinn lifir stofnanafrumkvöðlakraftar í fjölmenningu Hildur Hrönn Oddsdóttir Leiðbeinandi: Margrét Sigrún Sigurðardóttir Viðskiptafræðideild Júní

More information

Tónlist og einstaklingar

Tónlist og einstaklingar Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar Kristinn Arnar Benjamínsson Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar

More information

Mánaðarleg skömm? Staða tíðablóðs í vestrænum heimi. Guðbjörg Runólfsdóttir. Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði.

Mánaðarleg skömm? Staða tíðablóðs í vestrænum heimi. Guðbjörg Runólfsdóttir. Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði. Mánaðarleg skömm? Staða tíðablóðs í vestrænum heimi Guðbjörg Runólfsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði Félagsvísindasvið Mánaðarleg skömm? Staða tíðablóðs í vestrænum heimi Guðbjörg Runólfsdóttir

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina Kennsluáætlun haust 2018 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

Stúlkur og Asperger-heilkenni

Stúlkur og Asperger-heilkenni Stúlkur og Asperger-heilkenni Kynbundin áhrif heilkennisins á sjálfsmynd og félagslega stöðu Berglind Harpa Björnsdóttir Sally Ann Vokes Lokaverkefni til B.A.-prófs Þroskaþjálfadeild Stúlkur og Asperger-heilkenni

More information

BA ritgerð. Meira en bara besti vinur mannsins?

BA ritgerð. Meira en bara besti vinur mannsins? BA ritgerð Mannfræði Meira en bara besti vinur mannsins? Hversu nánir mega menn verða dýrum og hvar grípa menningarleg tabú þar inn í? Kristín Björg Björnsdóttir Leiðbeinandi Sveinn Eggertsson Febrúar

More information

Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla. Tryggvi Guðbjörn Benediktsson. B.Sc. í Viðskiptafræði

Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla. Tryggvi Guðbjörn Benediktsson. B.Sc. í Viðskiptafræði Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla Tryggvi Guðbjörn Benediktsson B.Sc. í Viðskiptafræði Vor 2012 Tryggvi Benediktsson Leiðbeinandi: Kt. 240789-2809 Arney Einarsdóttir Ágrip Persónuleiki

More information

Beauty tips byltingin

Beauty tips byltingin Beauty tips byltingin Rannsókn á samfélagsmiðlasíðunni Beauty tips byggð á félagsvísindum Kolfinna María Níelsdóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni til BA gráðu í félagsvísindum Hug- og félagsvísindasvið

More information

Að efla félagshæfni leikskólabarna

Að efla félagshæfni leikskólabarna Að efla félagshæfni leikskólabarna Heiða María Angantýsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs Kennaradeild Að efla félagshæfni leikskólabarna Heiða María Angantýsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í leikskólakennarafræði

More information

Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið

Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni

More information

ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki

ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki Árni H. Kristinsson arni.kristinsson@bsigroup.com Framkvæmdastjóri BSI á Íslandi 1 Dagskrá Breyttur heimur Forsendur breytinga Af hverju ISO 9001 er mikilvægur Hverjar

More information

Blæðir og flæðir: Yfir líkama og landamæri

Blæðir og flæðir: Yfir líkama og landamæri Blæðir og flæðir: Yfir líkama og landamæri Áslaug Sif Guðjónsdóttir Lokaverkefni til BA- gráðu í mannfræði Leiðbeinandi: Helga Björnsdóttir Félags- og mannvísindadeild Félagsvísindasvið Háskóla Íslands

More information

Skilgreining á hugtakinu tómstundir

Skilgreining á hugtakinu tómstundir Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2010 Vanda Sigurgeirsdóttir Skilgreining á hugtakinu tómstundir Í greininni er leitast við að skilgreina hugtakið tómstundir (e. leisure).

More information

Kona með vindinn í andlitið

Kona með vindinn í andlitið Kona með vindinn í andlitið Skynjun á umhverfi út frá habitus og hlutverki Linda Friðjónsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði Félagsvísindasvið Kona með vindinn í andlitið Skynjun á umhverfi út

More information

Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara

Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara Edda Kjartansdóttir Þegar skynjanir vorar, hugsanir og hugsjónir hræra strengi tilfinninganna þá fyrst kemst rót á oss, þá losnar viljinn úr læðingi og knýr

More information

Uppsetning á Opus SMS Service

Uppsetning á Opus SMS Service Uppsetning á Opus SMS Service Undirbúningur Þetta þarf að vera til staðar: Opus SMS Service á að vera sett upp móðurtölvunni sem hýsir gagnagrunninn. Notandinn sem er innskráður á tölvunni þarf að vera

More information

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Samtök iðnaðarins - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Framkvæmdarlýsing - félagsmannakönnun Unnið fyrir Markmið Samtök iðnaðarins Að kanna viðhorf félagsmanna SI til Evrópumála og þróun þar á Framkvæmdatími

More information

Er gildismat íslenskra skólastjóra ólíkt eftir kynferði?

Er gildismat íslenskra skólastjóra ólíkt eftir kynferði? Tímarit um menntarannsóknir, 1. árg. 2004, 71-82 71 Er gildismat íslenskra skólastjóra ólíkt eftir kynferði? Anna Guðrún Edvardsdóttir Náttúrustofa Vestfjarða Í þessari grein er fjallað um niðurstöðu rannsóknar

More information

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei 1 2 3 3_1 4 5 6 6_1 7 pige ísl nei hlutlaus vel mikið læri mikið á dönsku tímum og ef ég ætla í nám til dk þá er betra að kunna dönsku veit ekki pige ísl nei hlutlaus vel mikið eg læri nytt tungumal veit

More information

Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft mér að

Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft mér að March 2008 Volume 3, Number 1 Flavio Baroncelli - Staðalímyndir og sannleikur 1 translated by Egill Arnarson Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft

More information

Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla. Þórunn Kjartansdóttir. Lokaverkefni til MA gráðu í þjóðfræði.

Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla. Þórunn Kjartansdóttir. Lokaverkefni til MA gráðu í þjóðfræði. Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla Þórunn Kjartansdóttir Lokaverkefni til MA gráðu í þjóðfræði Félagsvísindasvið Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla Þórunn

More information

Tengsl skotleikjaspilunar og árásarhneigðar.

Tengsl skotleikjaspilunar og árásarhneigðar. Tengsl skotleikjaspilunar og árásarhneigðar. Greining á rannsókn meðal grunnskólabarna á Íslandi Arnór Helgi Knútsson HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni til BA gráðu í Sálfræði Sálfræðideild Maí 2015

More information

Áherslur Íslandsstofu á Asíu og aðra. vaxandi markaði. Kynning fyrir Íslensk Kínverska viðskiptaráðið 13. maí Þorleifur Þór Jónsson

Áherslur Íslandsstofu á Asíu og aðra. vaxandi markaði. Kynning fyrir Íslensk Kínverska viðskiptaráðið 13. maí Þorleifur Þór Jónsson Áherslur Íslandsstofu á Asíu og aðra vaxandi markaði Kynning fyrir Íslensk Kínverska viðskiptaráðið 13. maí 2015 Þorleifur Þór Jónsson Meginstoðir stefnu og lykilárangursþættir Aukning á gjaldeyristekjum

More information

Sjúkdómsvæðing hegðunar:

Sjúkdómsvæðing hegðunar: Lokaverkefni til MA prófs í félagsfræði Sjúkdómsvæðing hegðunar: Hlutverk skólans í greiningarferli ADHD Anna Soffía Víkingsdóttir Febrúar 2016 Sjúkdómsvæðing hegðunar: Hlutverk skólans í greiningarferli

More information

,,Getur nokkur stöðvað Hillary?

,,Getur nokkur stöðvað Hillary? ,,Getur nokkur stöðvað Hillary? Orðræða bandarískra fjölmiðla um Hillary Rodham Clinton Berglind Jónsdóttir Lokaverkefni til BA-gráðu í stjórnmálafræði Félagsvísindasvið Júní 2014 ,,Getur nokkur stöðvað

More information

Orðaforðanám barna Barnabók

Orðaforðanám barna Barnabók Orðaforðanám barna Barnabók Hrund Hermannsdóttir Lokaverkefni til B.ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari: Sigurður Konráðsson Kennaradeild Menntavísindasvið Háskóla Íslands Febrúar 2012 Ágrip

More information

Náttúruhyggja Kants. Háskóli Íslands. Hugvísindasvið Heimspeki. Ævarandi friður sem markmið mannkynsins. Ritgerð til B.A.-prófs

Náttúruhyggja Kants. Háskóli Íslands. Hugvísindasvið Heimspeki. Ævarandi friður sem markmið mannkynsins. Ritgerð til B.A.-prófs Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Náttúruhyggja Kants Ævarandi friður sem markmið mannkynsins Ritgerð til B.A.-prófs Baldur Hrafn Vilmundarson Kt.: 180881-3879 Leiðbeinandi: Gunnar Harðarson Maí

More information

BA ritgerð. Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna

BA ritgerð. Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna BA ritgerð Félagsráðgjöf Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna Úrræði Hekla Dögg Ásmundsdóttir Gyða Hjartardóttir Maí 2017 Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna Úrræði

More information

Skýrsla starfshóps sem á að finna leiðir til að sporna gegn heimilisofbeldi sem hinsegin fólk verður fyrir

Skýrsla starfshóps sem á að finna leiðir til að sporna gegn heimilisofbeldi sem hinsegin fólk verður fyrir 12.01.2018 Skýrsla starfshóps sem á að finna leiðir til að sporna gegn heimilisofbeldi sem hinsegin fólk verður fyrir Efnisyfirlit 1. Inngangur... 2 2. Skilgreiningar... 3 3. Hinsegin fólk og heimilisofbeldi...

More information

MA ritgerð. Drengir sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku af hálfu kvenna

MA ritgerð. Drengir sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku af hálfu kvenna MA ritgerð Félagsráðgjöf til starfsréttinda Drengir sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku af hálfu kvenna Áhrif á líf og líðan karlkyns þolenda Hilmar Jón Stefánsson Leiðbeinandi: Dr. Freydís Jóna

More information

Druslustimplun. Þetta er ekki manneskja fyrir þér, þetta er bara netið. Karen Dögg Bryndísar- og Karlsdóttir

Druslustimplun. Þetta er ekki manneskja fyrir þér, þetta er bara netið. Karen Dögg Bryndísar- og Karlsdóttir Druslustimplun Þetta er ekki manneskja fyrir þér, þetta er bara netið Karen Dögg Bryndísar- og Karlsdóttir Lokaverkefni til MA-gráðu í menntun framhaldsskólakennara Félags- og mannvísindadeild Háskóla

More information

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Háskóli Íslands 3.4.2006 Viðskipta- og hagfræðideild Vinnusálfræði Vor 2006 Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Tryggvi R. Jónsson Kennari: Hafsteinn Bragason og Ægir Már Þórisson Fjarvinna 2 Val starfa

More information

Hugvísindasvið. Ábyrgð Vesturlanda. Berum við ábyrgð á að hjálpa fólki í þriðja heiminum? Ritgerð til B.A.-prófs.

Hugvísindasvið. Ábyrgð Vesturlanda. Berum við ábyrgð á að hjálpa fólki í þriðja heiminum? Ritgerð til B.A.-prófs. Hugvísindasvið Ábyrgð Vesturlanda Berum við ábyrgð á að hjálpa fólki í þriðja heiminum? Ritgerð til B.A.-prófs Naomi Lea Grosman Janúar 2010 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Ábyrgð Vesturlanda

More information

Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna

Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna Tímarit um menntarannsóknir, 1. árg. 2004, 9-17 9 Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna M. Allyson Macdonald Kennaraháskóla Íslands Inngangserindi á ráðstefnu 22. nóvember

More information

Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi

Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2015 Yfirlit greina Guðrún V. Stefánsdóttir Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu

More information

Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu

Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu Ritgerð til BA prófs í listfræði Þóra Vilhjálmsdóttir Maí 2014 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Listfræði Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu

More information

Á vegferð til fortíðar?

Á vegferð til fortíðar? Á vegferð til fortíðar? Rússland undir stjórn Pútín Ármann Snævarr Lokaverkefni til MA-gráðu í alþjóðasamskiptum Félagsvísindasvið Júní 2015 Á vegferð til fortíðar? Rússland undir stjórn Pútíns Ármann

More information

Drög að kafla í handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa

Drög að kafla í handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa Drög að kafla í handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa Leiðarvísir um mat á jafnréttisáhrifum frumvarpa Leiðarvísir um mat á jafnréttisáhrifum frumvarpa Í þessum kafla er að finna leiðarvísi um

More information

Vefurinn hverfuli: Mannfræði Internetsins Hrafnhildur Faulk Lokaverkefni til BA gráðu í Mannfræði Félagsvísindasvið

Vefurinn hverfuli: Mannfræði Internetsins Hrafnhildur Faulk Lokaverkefni til BA gráðu í Mannfræði Félagsvísindasvið Vefurinn hverfuli: Mannfræði Internetsins Hrafnhildur Faulk Lokaverkefni til BA gráðu í Mannfræði Félagsvísindasvið Vefurinn hverfuli: Mannfræði Internetsins Hrafnhildur Faulk Lokaverkefni til BA-gráðu

More information

Þetta er minn líkami en ekki þinn

Þetta er minn líkami en ekki þinn Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2011 Kristín Björnsdóttir Þetta er minn líkami en ekki þinn Sjálfræði og kynverund kvenna með þroskahömlun Í samningi Sameinuðu þjóðanna

More information

Atferlisgreining sem einn af hornsteinum markaðsfræðinnar

Atferlisgreining sem einn af hornsteinum markaðsfræðinnar ISSN 1670-7168 INSTITUTE OF BUSINESS RESEARCH WORKING PAPER SERIES W06:01 September 2006 Atferlisgreining sem einn af hornsteinum markaðsfræðinnar Valdimar Sigurðsson Þórhallur Guðlaugsson Valdimar Sigurðsson,

More information

Henry Miller: Listamaðurinn gegn heiminum

Henry Miller: Listamaðurinn gegn heiminum Hugvísindasvið Henry Miller: Listamaðurinn gegn heiminum Greining á virkni listamannsins í verkum Henry Millers Ritgerð til M.A.-prófs Atli Sigurjónsson Maí 2011 2 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Almenn

More information

Listaháskóli Íslands Leiklistar og dansdeild Samtímadans. Getur dans og hreyfimeðferð haft jákvæð og gagnleg áhrif á einstaklinga með geðhvarfasýki?

Listaháskóli Íslands Leiklistar og dansdeild Samtímadans. Getur dans og hreyfimeðferð haft jákvæð og gagnleg áhrif á einstaklinga með geðhvarfasýki? Listaháskóli Íslands Leiklistar og dansdeild Samtímadans Getur dans og hreyfimeðferð haft jákvæð og gagnleg áhrif á einstaklinga með geðhvarfasýki? Arndís Benediktsdóttir Leiðbeinandi: Ásgerður G. Gunnarsdóttir

More information

Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on.

Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on. Mánudagur 6. nóvember 2017. http://www.capfrance-terrou.com/ Rene about vocabulary Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on. Dvelopment

More information

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Gagnvirkar töflur Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum Hólmfríður Ásmundsdóttir 270369-5459 Háskóli Íslands Menntavísindasvið Kennaradeild, grunnskólakennarafræði

More information

Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra gatnamóta á umferðaröryggi

Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra gatnamóta á umferðaröryggi Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra Rannsóknarverkefni Vegagerðarinnar Janúar 206 www.vso.is Borgartún 20 585 9000 05 Reykjavík vso@vso.is 575 S:\205\575\v\Greinagerð\575_Greinargerð.docx Janúar 206

More information

Vormisseri Ekki bara leikur. Knattspyrna: Lífstíll og menning eða trú? Gunnar Stígur Reynisson

Vormisseri Ekki bara leikur. Knattspyrna: Lífstíll og menning eða trú? Gunnar Stígur Reynisson Háskóli Íslands Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Vormisseri 2009 GFR402G BA-ritgerð í guðfræði Dr. Pétur Pétursson Ekki bara leikur Knattspyrna: Lífstíll og menning eða trú? Gunnar Stígur Reynisson 271081-5109

More information

Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt.

Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt. Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt. Inga Sif Ingimundardóttir Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt

More information

Maður er svo öryggislaus... - verk Svövu Jakobsdóttur í femínísku, heimspekilegu og félagsfræðilegu samhengi

Maður er svo öryggislaus... - verk Svövu Jakobsdóttur í femínísku, heimspekilegu og félagsfræðilegu samhengi Háskóli Íslands Hugvísindasvið Almenn bókmenntafræði Maður er svo öryggislaus... - verk Svövu Jakobsdóttur í femínísku, heimspekilegu og félagsfræðilegu samhengi Ritgerð til BA-prófs í almennri bókmenntafræði

More information

Ronald Postma: Kitchen appliance to grow mushrooms was the project. Plugin Neon for Rhino and downloaded Bongo.

Ronald Postma: Kitchen appliance to grow mushrooms was the project. Plugin Neon for Rhino and downloaded Bongo. Week 3: Computer Controlled Cutting 11.2. 2015 This week we will learn about the mechanical application of computer aided design. The assignment for this week is to design, make, and document a press-

More information

Atriði úr Mastering Metrics

Atriði úr Mastering Metrics Atriði úr Mastering Metrics Helgi Tómasson 13. september 2015 Helgi Tómasson Atriði úr Mastering Metrics 13. september 2015 1 / 11 Ýmis atriði ACA= Care Act er umdeilt efni í USA. Hafa heilbrigðistryggingar

More information

Málsástæður og lagarök Greinargerð andmælanda

Málsástæður og lagarök Greinargerð andmælanda Úrskurður nr. 11/2017 23. nóvember 2017 Andmæli gegn skráningu merkisins North Rock nr. V0102054 IIC-Intersport International Corporation GmbH, Sviss gegn Umboðssölunni Art Málavextir Þann 26. september

More information

Skólaskrifstofa Austurlands. Virknimat

Skólaskrifstofa Austurlands. Virknimat Skólaskrifstofa Austurlands Búðareyri 4, 730 Reyðarfjörður Virknimat Virknimat (functional behavioral assessment) er skipulagt ferli til að (Yell, Meadows, Drasgow & Shriner, 2009; Kern, O Neill & Starosta,

More information

Ímyndarsköpun kynþáttahyggju. Sanna Magdalena Mörtudóttir

Ímyndarsköpun kynþáttahyggju. Sanna Magdalena Mörtudóttir Ímyndarsköpun kynþáttahyggju Áhrif hugtaksins negri á mótun sjálfsmyndar Sanna Magdalena Mörtudóttir Lokaverkefni til BA-gráðu í mannfræði Leiðbeinandi: Kristín Loftsdóttir Félags- og mannvísindadeild

More information

Staðgöngumæðrun á Íslandi

Staðgöngumæðrun á Íslandi Staðgöngumæðrun á Íslandi opinber umræða, lagasmíð og ólík sjónarmið Helga Finnsdóttir Lokaverkefni til MA gráðu í mannfræði Félagsvísindasvið Staðgöngumæðrun á Íslandi: opinber umræða, lagasmíð og ólík

More information

Ferhyrningurinn: Myndræn framsetning á ársreikningi

Ferhyrningurinn: Myndræn framsetning á ársreikningi www.ibr.hi.is Ferhyrningurinn: Myndræn framsetning á ársreikningi Einar Guðbjartsson Ritstjórar: Kári Kristinsson Magnús Pálsson Þórður Óskarsson Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands: Erindi

More information

Þetta er starfið sem fer fram, ekki staðurinn Rannsókn á vettvangi ungmennahúsa

Þetta er starfið sem fer fram, ekki staðurinn Rannsókn á vettvangi ungmennahúsa Þetta er starfið sem fer fram, ekki staðurinn Rannsókn á vettvangi ungmennahúsa Hafsteinn Bjarnason Kristján Ari Halldórsson Lokaverkefni til BA-prófs Íþrótta-, tómstunda og þroskaþjálfadeild Þetta er

More information

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta?

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? www.ibr.hi.is Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? Erna Rós Kristinsdóttir Friðrik Eysteinsson Ritstjórar: Auður Hermannsdóttir Jón Snorri Snorrason Þóra Christiansen Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar

More information

MS ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti. Notkun Facebook til markaðsfærslu á Íslandi

MS ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti. Notkun Facebook til markaðsfærslu á Íslandi MS ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti Notkun Facebook til markaðsfærslu á Íslandi Eigindleg og megindleg rannsókn Guðjón Aðalsteinn Guðmundsson Leiðbeinandi: Auður Hermannsdóttir Viðskiptafræðideild

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vorönn 2019 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

2

2 Hugvísindadeild Þar sem hættan er... Vandamálið um gleymsku í heimspeki Kierkegaards og Heideggers Ritgerð til BA. prófs Jóhann Helgi Heiðdal Maí 2009 2 Háskóli Íslands Hugvísindadeild Heimspekiskor Þar

More information

Strákar geta haft svo mikil völd

Strákar geta haft svo mikil völd Strákar geta haft svo mikil völd Upplifun stúlkna á kynlífsmenningu framhaldsskólanema Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir Lokaverkefni til MA-gráðu í kynjafræði Leiðbeinandi: Dr. Þorgerður Einarsdóttir Stjórnmálafræðideild

More information

Þvingun og valdbeiting á heimilum fatlaðs fólks

Þvingun og valdbeiting á heimilum fatlaðs fólks Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Þvingun og valdbeiting á heimilum fatlaðs fólks Ritgerð til BA-prófs í heimspeki Friðrik Atlason Kt.: 051275-4389 Leiðbeinandi: Vilhjálmur Árnason Febrúar 2017

More information

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín Kennaraháskóli Íslands Kennsluréttindabraut Kennslufræði greinasviða og æfingakennsla Kennari: Elín María Thayer Ég sem kennari: Starfskenning mín Guðlaug Erlendsdóttir Nóvember 2007 Efnisyfirlit EFNISYFIRLIT...

More information

Vefskoðarinn Internet Explorer

Vefskoðarinn Internet Explorer Vefskoðarinn Internet Explorer Sitt lítið af hverju um IE6 Í flestum tilfellum er hægt að opna IE með því að tvísmella á táknmynd þess á skjáborðinu eða smella einu sinni á tákn þess á flýtistikunni (Quick

More information

Af hverju dansar þú salsa?

Af hverju dansar þú salsa? FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Af hverju dansar þú salsa? Viðhorf áhuga salsadansara til salsadans á Íslandi Ritgerð til MA gráðu Nafn nemanda: Leiðbeinandi: Gauti Sigþórsson Haust 2015 ÚTDRÁTTUR Viðfangsefni þessarar

More information

Viðskiptasvið. Markaðssetning nýrrar hönnunar Lykilþættir í markaðssetningu

Viðskiptasvið. Markaðssetning nýrrar hönnunar Lykilþættir í markaðssetningu Viðskiptasvið Markaðssetning nýrrar hönnunar Lykilþættir í markaðssetningu Ritgerð til BA gráðu Nafn nemanda: Úlfhildur E. Þ. Bjarnasen Leiðbeinandi: Ragnar Már Vilhjálmsson vor 2014 Markaðssetning nýrrar

More information

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn?

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut 29 Lesum saman Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Guðríður Anna Sveinsdóttir Lokaverkefni Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild

More information

KYNFERÐISEINELTI Í ÍSLENSKRI SKÓLAMENNINGU

KYNFERÐISEINELTI Í ÍSLENSKRI SKÓLAMENNINGU KYNFERÐISEINELTI Í ÍSLENSKRI SKÓLAMENNINGU RANNVEIG ÁGÚSTA GUÐJÓNSDÓTTIR LEIÐBEINANDI: GYÐA MARGRÉT PÉTURSDÓTTIR RANNSÓKNIN ER UNNIN FYRIR TILSTUÐLAN STYRKTARSJÓÐS MARGARETAR OG BENTS SCHEVINGS THORSTEINSSONAR

More information

Hegðun foreldra sem áhrifaþáttur þess að unglingar á Íslandi leggja í einelti

Hegðun foreldra sem áhrifaþáttur þess að unglingar á Íslandi leggja í einelti Running head: HEGÐUN FORELDRA TENGT EINELTI UNGLINGA 1 Hegðun foreldra sem áhrifaþáttur þess að unglingar á Íslandi leggja í einelti Sandra Melberg Pálsdóttir 2013 BSc í Sálfræði Höfundur: Sandra Melberg

More information

Frá útilokun til jafnréttis. Harpa Jóhannsdóttir

Frá útilokun til jafnréttis. Harpa Jóhannsdóttir Frá útilokun til jafnréttis Harpa Jóhannsdóttir Listaháskóli Íslands Tónlistardeild Mennt og miðlun Frá útilokun til jafnréttis Harpa Jóhannsdóttir Leiðbeinandi: Þorbjörg Daphne Hall Haustönn 2011 Áður

More information