Vefurinn hverfuli: Mannfræði Internetsins Hrafnhildur Faulk Lokaverkefni til BA gráðu í Mannfræði Félagsvísindasvið

Size: px
Start display at page:

Download "Vefurinn hverfuli: Mannfræði Internetsins Hrafnhildur Faulk Lokaverkefni til BA gráðu í Mannfræði Félagsvísindasvið"

Transcription

1 Vefurinn hverfuli: Mannfræði Internetsins Hrafnhildur Faulk Lokaverkefni til BA gráðu í Mannfræði Félagsvísindasvið

2 Vefurinn hverfuli: Mannfræði Internetsins Hrafnhildur Faulk Lokaverkefni til BA-gráðu í Mannfræði Leiðbeinandi: Unnur Dís Skaptadóttir Félags- og mannvísindadeild Félagsvísindasvið Háskóla Íslands Júní 2014

3 Ritgerð þessi er lokaverkefni til BA-gráðu í Mannfræði og er óheimilt að afrita ritgerðina á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa. Hrafnhildur Faulk Prentun: Háskólaprent Reykjavík, Ísland 2014

4 Útdráttur Umfjöllunarefni ritgerðarinnar er mannfræði Internetsins og þverrandi skil milli heimanna innan nets og utan. Ýmsir þættir netsins eru teknir fyrir og áhersla lögð á þær breytingar sem tilkoma þess hefur haft í för með sér. Áhrif netsins eru skoðuð heildrænt með því að rýna í ólíkar hliðar þess, en með því móti fæst nokkuð góð innsýn í netheima. Kaflarnir fjalla um mannfræðina og Internetið. Leik, leiki og leikjavæðingu. Skil veruleika og stafræns veruleika. Stafræna frumbyggja. Einelti, utan nets og innan. Netfíkn, netsjálfsvíg og áhrif netvæðingar á sambönd para og fjölskyldubönd. Allt eru þetta atriði sem snerta daglegt líf mikils hluta nettengds almennings. Niðurstöðurnar leiða í ljós tilhneigingu fólks til að nota netið sem framlengingu á heiminum utan nets, í stað þess að nýta takmarkaleysi þess til að umbylta ríkjandi hugmyndum og formum. Jafnframt hefur Internetið haft gríðarlegar breytingar í för með sér og þörf er á að rannsaka þær breytingar og áhrif þeirra, nánar. 3

5 Efnisyfirlit Inngangur Mannfræðin og Internetið Leikur, leikir og leikjavæðing Skil veruleika og stafræns veruleika Stafrænir frumbyggjar Einelti, utan nets og innan Netfíkn Netsjálfsvíg Áhrif netvæðingar á sambönd para og fjölskyldubönd...21 Niðurstöður og umræður...25 Heimildir

6 Inngangur Internetið varð fyrst til á 7. áratug síðustu aldar en það liðu þó nokkrir áratugir þar til það varð til í þeirri mynd sem við þekkjum það nú. Ritgerð þessi fjallar um tilurð Internetsins, þróun þess, margbreytileika og áhrif. Þrátt fyrir að Internetið hafi ekki verið til staðar nema í tiltölulega stuttan tíma, ef litið er til veraldarsögunnar, á meðal maðurinn sem á annað borð hefur aðgang að því erfitt með að vera án þess. Það má kannski líkja því við rafmagn. Mannkynið hafði öldum saman komist af án rafmagns og hluti þess gerir það enn, en fyrir fólk sem reiðir sig á það, væri nánast óhugsandi að lifa rafmagnslaust. Tengsl fólks við Internetið virðast vera að þróast í svipaða átt. Fólk reiðir sig á netið til upplýsingaöflunar, samskipta, afþreyingar og svona mætti lengi telja. Því sem áður var flett upp í bókum er nú googlað og fyrirbæri á borð við símaskránna, sem áður þóttu ómissandi, eru óðum að tapa gildi sínu. Rannsóknir hafa sýnt fram á aukna tíðni þunglyndis og kvíða hjá fólki sem er vant því að komast á netið og verður fyrir því að vera netsambandslaust, þó ekki sé nema í örfáa daga. Það er áhugaverð en jafnframt nokkuð óhugnaleg þróun og bendir sterklega til netfíknar sem mögulega er mun algengari en fólk gerir sér grein fyrir. Auk þess að valda fíkn hjá fólki hefur netið margar aðrar neikvæðar hliðar en nýtt form eineltis hefur litið dagsins ljós með tilkomu þess, svokallað neteinelti, en nánar verður fjallað um það síðar. Dreifing kláms í mörgum miður æskilegum myndum er jafnframt einn af fylgifiskum netsins svo og ýmsar vefsíður sem ala á hatri gagnvart mönnum og málefnum. Leiðbeiningar um hvernig búa á til vopn og sprengjur eru einnig aðgengilegar á netinu. Það má því færa rök fyrir því að Internetið sé gróðrastía fyrir alls konar ófögnuð og að neikvæð áhrif þess kunni að vera meiri en þau jákvæðu. Ef aftur á móti er litið til allra þeirra jákvæðu þátta sem Internetið býður upp á verður ljóst að kostir þess vega upp á móti göllunum. Ljótleikinn hefur alltaf fylgt mannkyninu og hann finnur sér leið, ef ekki gegnum Internetið, þá á einhvern annan hátt. Þær breytingar sem Internetið hefur haft í för með sér eru verðugt rannsóknarefni fyrir félagsvísindin og ekki síst mannfræðina, vegna áhuga greinarinnar á öllu því sem viðkemur mannlegu eðli. Þar sem tilkoma netsins hefur gjörbylt samskiptum fólks, hugsunarhætti og lífsmynstri má segja að það hafi valdið alheims breytingu á paradigma. Þar sem netið er of yfirgripsmikið og þættir þess of margir og fjölbreytilegir til að hægt sé að gera þeim fyllilega skil í svona stuttri ritgerð, verða afmarkaðir þættir þess teknir fyrir. Þessir þættir eiga það sameiginlegt að vera stór hluti af daglegu lífi hins nettengda mannkyns og eru vel til þess fallnir að varpa ljósi á þær breytingar sem netið hefur leitt af sér. Í fyrsta kafla verður fjallað 5

7 um um tengsl mannfræðinnar við Internetrannsóknir. Annar kaflinn fjallar um leiki og leikjavæðingu. Sá þriðji um afmáun marka veruleika og stafræns veruleika. Fjórði kaflinn fjallar um stafræna frumbyggja, sem einnig hafa verið nefndir Y- kynslóðin. Sá fimmti um einelti, bæði á netinu og utan þess. Í sjötta kafla er fjallað um netfíkn og þeim sjöunda um netsjálfsvíg. Áttundi kafli fjallar svo um áhrif netsins á samskipti fjölskyldna og para. Að lokum er efnið dregið saman og grein gerð fyrir niðurstöðum. En áður en lengra er haldið er rétt að fara stuttlega yfir sögu og þróun Internetsins. Á sjötta áratug 20. aldar, hóf bandaríska varnarmálaráðuneytið rannsóknir á netkerfum sem gerðu tölvum kleift að hafa samskipti sín á milli. Þannig varð til fyrsti vísirinn að Internetinu, þó í nokkuð annarri og einfaldari mynd en við þekkjum það í dag. Í fyrstu voru fjórar tölvur tengdar gegnum þetta netkerfi og mynduðu þær svokallað Arpanet. Tölvurnar fjórar tilheyrðu hver sínum háskólanum: Hákólanum í Utah, Stanford, Kaliforníuháskóla í Los Angeles og Kaliforníuháskóla í Santa Barbara. Á næstu árum bættust fleiri háskólar í hópinn og í byrjun sjöunda áratugarins voru nettengdar tölvur orðnar um 50. Heimilistölvan hafði þó enn ekki litið dagsins ljós. Árið 1982 var farið að nota TCP/IP tækni til að auðvelda samskipti milli tölva. TCP/IP var búið til, til þess að hjálpa tölvum að hluta sundur gagnapakka (Packets) og setja þá aftur saman. Stærð hvers gagnapakka ákvarðast af stillingum á tengdum tölvum. IPtölurnar gæta þess að gagnapakkarnir berist á réttan ákvörðunarstað. Netbeinar stýra flæði gagna milli tölva með því að senda upplýsingar á aðra netbeina sem eru nær þeim tölvum sem upplýsingarnar eiga að berast til. Árið 1983 voru um þúsund tölvur nettengdar. Vegna þess hversu tölvurnar voru orðnar margar gat verið erfitt að finna ákveðnar síður, en sem lausn á því vandamáli urðu nafnaþjónar til. Nafnaþjónar eru tölvur sem hafa að geyma töflur og tölur. Beiðni sem inniheldur nafn er send á nafnaþjóninn og hann finnur út úr því hvaða IP- tala er tengd nafninu. Árið 1991 varð Veraldarvefurinn eða The World Wide Web, fyrst til. Það var í stuttu máli mun notendavænni útgáfa af netinu en áður hafði verið til. Í fyrstu voru samskiptin þó eingöngu byggð á texta. Á næstu árum bættist síðan grafík við textann og Internetið fór að þróast yfir í það sem það er nú. Til gamans má geta að árið 1993 voru vefsvæði á netinu 130 talsins en árið 1995 voru þau orðin fleiri en (Day, 2003). Í dag eru að minnsta kosti um 1,07 milljarður vefsíðna á netinu og þeim fer fjölgandi (WorldWideWebSize, 2014). 6

8 1. Mannfræðin og Internetið Á undanförnum árum hafa æ fleiri mannfræðingar beint sjónum sínum að Internetinu og ólíkum þáttum þess. Bókin Digital Anthropology, sem ritstýrt er af þeim Daniel Miller og Heather A. Horst (2012) inniheldur nokkrar greinar eftir mannfræðinga um mannfræði Internetsins. Í inngangi bókarinnar fjalla þau um hvatann að baki þess að skrifa bókina og sex undirstöðuatriði sem þau telja að myndi grunninn að stafrænni mannfræði, en sú grein er tiltölulega ný af nálinni. Fyrsta atriðið er að hið stafræna ýtir undir díalektískt (rökþróunarlegt) eðli menningar. Hugtakið díalektískt á í þessu samhengi við um sambandið milli sérstöðu netsins og tengsl jákvæðra og neikvæðra áhrifa þess. Annað atriðið er að stafræn mannfræði muni þróast upp að því marki sem hið stafræna gerir okkur kleyft að fletta ofan af niðurnjörfuðum hugmyndum um að lífið fyrir tilkomu netsins sé á einhvern hátt raunverulegra og frekar hægt að tala um það sem menningu. Þriðja atriðið snýr að undirstöðu mannfræðilegs sjónarhorns á mannkynið. Fjórða atriðið undirstrikar mikilvægi menningarlegs afstæðis og hnattrænt eðli samfundar okkar við hið stafræna. Það eyðir jafnframt hugmyndum um að hið stafræna sé til þess fallið að sameina heimsbyggðina og veitir þeim sem eru á jaðrinum vegna þess að þeir hafa orðið útundan í stafrænu þróuninni, sýnileika og rödd. Fimmta atriðið snýr að eðlislægri tvíræðni stafrænnar menningar og stigvaxandi skort á afmörkunum innan hennar. Sjötta og síðasta atriðið viðurkennir efnislega eiginleika stafrænna heima sem eru hvorki meira né minna efnislegir en heimarnir sem komu á undan þeim. Nálganir byggðar á efnismenningu sýna fram á að hið efnislega er gangverkið á bak við sjötta atriðið, sem jafnframt er megin réttlætingin á mannfræðilegri nálgun (Horst og Miller, 2012). Þessi atriði er vert að hafa í huga, ef beita á mannfræðilegri nálgun við skoðun Internetsins. Þar sem Internetrannsóknir eru tiltölulega nýjar af nálinni er aðferðafræðin enn sem komið er nokkuð illa skilgreind, en rannsóknir og skrif Horst og Miller mynda þó grunn sem hægt er að styðjast við. Við rannsóknir á netinu hafa mannfræðingar einna helst lagt áherslu á að skoða netsamfélög, enda eru samfélög sérsvið þeirra. Rannsókn sem unnin var af mannfræðingunum Samuel M. Wilson og Leighton C. Peterson leiddi í ljós að netsamfélög minna um margt á raunveruleg samfélög og að í raun megi beita sambærilegum aðferðum við rannsóknir á þeim. Þeir benda þó á að netið sé margslungið og enn í þróun og því kunni að reynast þörf á því að endurskoða aðferðirnar með reglulegu millibili (Wilson og Peterson, 2002). Mannfræðin hefur um langt skeið lagt áherslu á rými, merkingu þess og félagslega sköpun (Gupta og Ferguson, 1992). 7

9 Tilkoma netsins hefur að vissu leyti gert skilgreiningar á rými flóknari, en vegna tilhneigingar stafræna heimsins að bergmála heiminn utan nets, má segja að svipuð lögmál gildi um rými beggja heima. Tom Boellstorff, hefur unnið mikið við rannsóknir á netsamfélögum, en þau eru gott dæmi um rými sem ekki þekktist áður. Boellstorff framkvæmdi vettvangsrannsókn í sýndarheiminum Second Life og skrifaði upp úr henni etnógrafíuna, Coming of Age in Second Life. Í bókinni ræðir hann meðal annars rannsóknaraðferðir sínar, en hann framkvæmdi rannsóknina eingöngu innan Secon Life og studdist bæði við þáttökuathuganir og viðtöl. Hann telur nauðsynlegt að sýndarheimar séu rannsakaðir á þeirra eigin forsendum ef þróa eigi rannsóknaraðferðir sem séu í takt við þær tæknilegu breytingar sem heimurinn er að ganga í gegnum (Boellstorff, 2008). Boellstorff leggur jafnframt áherslu á mikilvægi þess að litið sé á netsamfélög sem annan vettvang, samhliða samfélögum utan nets og að þess sé gætt að annarri tegundinni sé ekki gert hærra undir höfði á kostnað hinnar. Að kalla samfélög utan nets raunveruleg, en hin ekki, telur hann grafa undan mikilvægi rannsókna á þeim síðarnefndu (Horst og Miller, 2012). Grein þeirra Wilson og Peterson er frá árinu 2002 og vissulega hefur ýmislegt breyst á rúmum áratug, sérstaklega ef tekið er tillit til þess hversu hratt Internetið hefur þróast. Það er samt áhugavert að lesa lýsingar þeirra á væntingum ýmissa fræðimanna rúmum áratug áður en greinin þeirra er skrifuð eða í kringum árið Ýmsar útópískar hugmyndir um það hvernig netið myndi breyta hugsunarhætti fólks og að jafnvel yrði til einhverskonar netlýðræði var nokkuð sem fólk velti raunverulega fyrir sér. Aðrir sáu fyrir sér þróun í anda vísindaskáldsagnahöfundarins Orwell. Þessar spár gengu ekki eftir. Netið hefur mun frekar myndað framlengingu á þeim samfélögum sem við þekkjum í stað þess að gjörbylta þeim og það út af fyrir sig er verðugt umhugsunarefni fyrir mannfræðinga ( Wilson og Peterson, 2002). Fólk notar Internetið í öllum mögulegum og ómögulegum tilgangi. Eitt af því sem er gríðarlega vinsælt og veltir milljörðum árlega, er netleikjaiðnaðurinn. Fyrirbærið er gríðarlega umdeilt ekki síst vegna netfíknar sem gjarnan tengist slíkum leikjum, en í næsta kafla verður fjallað um hugtakið leikjavæðingu og ýmislegt sem viðkemur leik og leikjum. 2. Leikur, leikir og leikjavæðing Eitt af því sem alltaf hefur fylgt mannkyninu er leikur. Hann hefur gjarnan verið tengdur bernskunni og æskunni, en þó leikur fólk á öllum aldri sér á einn eða annan hátt. Áður var leikur gjarnan talinn gagnslaus og jafnvel tímaeyðsla, en á undanförnum áratugum hafa fræðimenn í auknum mæli verið að átta sig á gagnsemi hans. Með tilkomu netsins opnaðist ný vídd með ótölulegum tækifærum til leikja og þess að sameina þá námi og starfi. Ekki eru þó 8

10 allir á eitt sáttir um þetta tiltekna málefni eða nauðsyn þess að rannsaka það með fræðilegum hætti. Bandaríski blaðamaðurinn David DeBolt virtist til að mynda líta á það sem hálfgerðan brandara að vísindamaður við Kaliforníuháskóla í Bandaríkjunum skyldi fá styrk til að stunda netleikjarannsóknir. A hundred thousand dollars to study a video game that pits ax-wielding ogres against a cast of other fanciful characters? That would buy about 50,000 cans of Red Bull to support those late-night gaming, er, 'research' sessions.- (DeBolt, 2008). Tilvitnunin hér að framan er frá árinu 2008 og segir mikið um viðhorf fólks til leikjarannsókna. Þrátt fyrir að tölvuleikir og áhrif þeirra hafi verið rannsökuð frá árinu 1990 er enn mikið um fordóma gagnvart þeim (Baker, 2010). Fordómar þessir eru, eins og títt er um fordóma, sprottnir af vanþekkingu. Í greininni; The Rise of Digital Game Studies, fjallar höfundurinn Neal Baker um rannsóknir á tölvuleikjum. Hann bendir á að þrátt fyrir að kvikmyndarannsóknir hafi verið stundaðar um langt skeið og séu teknar alvarlega séu tölvuleikjarannsóknir enn umdeildar og í raun vanræktar. Baker fjallar samt sem áður um nokkuð margar rannsóknir á efninu og bendir á hversu þverfaglegar þær séu. Hann nefnir einnig að vegna þess hversu ör þróun tölvuleikja er, séu allar niðurstöður fljótar að úreltast. Í lok greinar veltir hann vöngum yfir því hvort tölvuleikjarannsóknir nútímans eigi ekki frekar eftir að koma að gagni sem sagnfræðilegar heimildir í framtíðinni en að nýtast á annan hátt. Hann fjallar einnig um gamaldags viðhorf gagnvart leikjum og að þeir kunni að vera, þvert á gagnstæðar fullyrðingar fortíðarinnar, eitt það mikilvægasta í lífi fólks (Baker, 2010). Hvað svo sem framtíðinni líður þá er ljóst að tölvuleikir í hverskonar myndum, skipa stóran sess í lífi milljóna manna og þar með hlýtur að vera æskilegt að skoða áhrif þeirra. Hvort að þær rannsóknir komi til með að nýtast komandi kynslóðum mun koma í ljós síðar. Þekking hlýtur þó alltaf að vera af hinu góða, þó að rannsóknarefnið falli ekki endilega að staðalmyndum vísindasamfélagsins. Mannfræðin er ein þeirra fræðigreina sem hvað best eru til þess fallnar að skoða fyrirbæri á borð við tölvuleiki á netinu, ekki síst vegna áherslna sinna við rannsóknir á hverskyns samfélögum. Það er því nokkuð sérstakt að mannfræðingar hafi ekki sýnt netinu og öllu því sem því tengist, meiri áhuga en raun ber vitni. Áhuginn hefur þó vaxið á undanförnum árum. Í grein sinni; Anthropology and Play: The Contours of Playful Experience, gagnrýnir höfundurinn Thomas M. Malaby (2009), mannfræðina fyrir að hafa ekki í auknum mæli beint sjónum sínum að leik og leikjum. Samkvæmt Malaby er mikilvægt að fræðigreinin 9

11 endurskoði hugtakið leik. Áður hafi mannfræðin skilgreint leik á tvo vegu, annars vegar að hann væri andstæðan við vinnu og hins vegar að hann gengi út á að setja sig í hlutverk einhvers annars. Malaby bendir á að þrátt fyrir að mannfræðin hafi vanrækt rannsóknir á leik, þá sé hún vel til þess fallin að skoða fyrirbærið í ljósi núverandi aðstæðna sem eru að skil milli vinnu og leikjar séu stöðugt að verða óskýrari, að miklu leiti vegna tilkomu netsins og þess vegna þurfi að taka tillit til þess við endurskilgreininguna. Hann fjallar um að mannfræði vinnu sé með þónokkuð mikið bákn í kringum sig, en að mannfræði leikja hafi einhvern veginn orðið útundan. Hann bendir á áhrif Marx á bandaríska mannfræðinga og hvernig skilgreiningin á leik er lituð af hugmyndafræði hans. Vitnað er í höfundinn Roger Caillois sem fullyrti að leikur væri hrein sóun, bæði á tíma og peningum. Malaby fjallar einnig um Geertz og áhrif Webers á hugmyndafræði hans. Geertz skrifaði nokkuð um hanaat á Bali sem hann sagði að mætti líta á sem myndbirtingu balískrar menningar. Hanaatið er beintengt heiðri og stöðu fólks og því er mun meira en fjármunir í húfi þegar lagt er undir. Eitthvað sem í eðli sínu er leikur, er í raun mun meira og rótgróið menningunni og útkoman getur haft víðtæk áhrif á líf þátttakendanna (Malaby, 2009). Önnur grein, eftir Suellen S. Adams (2009), fjallar um rannsókn á leikjum og leikjahegðun. Í rannsókninni er sjónum beint að hlutverkaleikjum á netinu. Höfundur rekur í stuttu máli sögu hlutverkaleikja, en þeir urðu fyrst til um Fyrstu hlutverkaleikirnir voru spilaðir þannig að þátttakendur sátu við borð, með blöð, blýanta og sérstaka marghliða teninga. Menn bjuggu til persónur sem höfðu ákveðna hæfileika og útlit og saman tóku þessar persónur þátt í ævintýrum sem voru samin og stjórnað af leikjastjórnandanum eða (the game master) skammstafað GM. Þessi tegund hlutverkaleikja nýtur enn vinsælda í dag, en fljótlega þróuðust aðrar aðferðir við að leika hlutverkaleiki. Menn færðu leikina út fyrir borðstofuborðið og fóru að setja ævintýrin upp utandyra og þannig varð til svokallað Live action roleplay eða LARP (Adams, 2009). (Það er mikið um enskuslettur í kringum hlutverkaleiki á Íslandi og þannig er oftast talað um að Rolelplay(a) eða Larp(a)). Með tilkomu netsins urðu til hlutverkaleikir á netinu og einn þeirra, City of Heroes, er sá sem rannsókn Adams fjallar um. Rannsóknin gengur út á að skoða gagnsemi leikja við nám og upplýsingaöflun og hvort að gagnlegt kunni að vera að færa leiki meira inn á bókasöfnin. Adams vitnar í rannsóknir sem gefa til kynna að um 50% fullorðinna Bandaríkjamanna spili einhverskonar leiki á netinu. Hún talar einnig um skiptar skoðanir fólks á því hvort rétt sé að færa tölvuleiki inn á bókasöfnin. Fólk hafi mjög ólíkar skoðanir á gagnsemi eða skaðsemi tölvuleikja og friðhelgi bókasafnsins. Adams fjallar jafnframt um áhugaverðar niðurstöður rannsókna sem benda til þess að skurðlæknar sem 10

12 spilað hafi tölvuleiki standi sig betur í starfi og það sama eigi við um hermenn og jafnvel fólk sem fæst við viðskipti. Rökin sem höfundur færir eru að leikurinn hvetji fólk til upplýsingaöflunar til þess að ná betri árangri í leiknum. Leikir séu jafnframt almennt byggðir þannig upp að þeir verði smám saman erfiðari og það virki hvetjandi á fólk og geri það smám saman hæfara. Í rannsókn Adams var mestmegnis stuðst við þátttökuathugun. Rannsakendur tóku þátt í hlutverkaleiknum á netinu og skráðu niður upplýsingar, ýmist með því að hljóðrita, skrá hjá sér eða með því að taka skjáskot. Adams bendir á að vegna þess að rannsakandinn sé jafnframt þátttakandi í leiknum blandist skoðanir hans, tilfinningar og hugmyndir óhjákvæmilega inn í rannsóknina og því sé mikilvægt að vera meðvitaður um það við úrvinnslu gagnanna. Við úrvinnsluna studdist höfundurinn meðal annars við dramatúrgíu (dramaturgy), en hugtakið á uppruna sinn í leikhúsfræðum. Við dramatúrgíska greiningu er stuðst við hugtök og hugmyndir úr leikhúsfræðum við greiningu félagslegra fyrirbæra. Dramatúrgar hafa í raun meiri áhuga á því hvernig fólk gerir það sem það gerir en hvað það gerir og hvers vegna. Höfundur telur þessa aðferð henta mjög vel við þessa tilteknu gagnavinnslu. Þar sem verið er að rannsaka hlutverkaleiki má finna ýmsar hliðstæður við leiklist. Hún bendir samt sem áður á að aðferðin hafi sætt gagnrýni, meðal annars vegna þess að hún þykir ekki nægilega kerfisbundin og skorta tengsl við aðrar kenningar. Einnig hefur verið bent á að engar ákveðnar prófunaraðferðir séu notaðar og að auðvelt sé fyrir rannsakendur að túlka niðurstöðurnar eftir eigin höfði, sem er sambærileg gagnrýni og beinst hefur að eigindlegum rannsóknum. Í niðurstöðum rannsóknarinnar fjallar höfundur um gagnsemi þess að nýta aðferðir dramatúrgíunnar við frekari sambærilegar rannsóknir. Hún talar jafnramt um að mikilvægt sé að skoða betur hvernig fólk lærir gegnum leik. Að lokum fjallar hún um aukna tilhneigingu fólks til að vilja leika sér og spila leiki og mikilvægi þess að skoða betur hvernig hægt sé að fletta saman nám og leik. Höfundur virðist ekki alveg geta gert upp við sig hvort hann telji að tölvuleikir eigi heima á bókasöfnum, heldur leggur megin áherslu á að skoða þurfi málið betur (Adams, 2009). Hvað svo sem líður ósvöruðum spurningum í fyrrgreindri rannsókn, þá er hún gott dæmi um aukinn áhuga fræðimanna á netrannsóknum og bendir til aukins áhuga fullorðins fólk á leikjum, með tilkomu netsins. Notkun Adams á dramatúrgíu er jafnframt áhugaverð og gæti mögulega reynst gagnleg við frekari rannsóknir. Önnur rannsókn sem snýr að hlutverkaleikjum, en þó ekki endilega í tengslum við netið, er þýsk rannsókn sem gerð var á notkun korta í hlutverkaleikjum. Greinin sem byggir á rannsókninni nefnist; Mapping the Imaginary-Maps in Fantasy Role-Playing Games og er 11

13 eftir þau Tobias Röhl og Regine Herbrik. Þau skoðuðu hlutverkaleiki utan nets og komust að því að allir þeir hópar sem þau fylgdust með, notuðu kort og uppdrætti til að staðsetja sig í ævintýrinu og til að miðla hugmyndum sínum til annarra. Rannsóknin gengur í raun út á að sýna fram á tilhneigingu fólks til að tjá ímyndanir sínar með kortum og nota hlutverkaleiki sem dæmi um þetta (Röhl og Herbrik, 2008). Tilgangur korta er vitanlega sá að hjálpa fólki að staðsetja sig, átta sig á fjarlægðum og rata, en þau hjálpa fólki einnig við að hafa yfirsýn yfir stærri svæði en það er fært um án korta. Kort hjálpa fólki að sjá veröldina sem heild, hvort sem sú veröld er ímynduð eða raunveruleg, utan nets eða innan. Það er því kannski ekki skrýtið að kort skuli gegna jafn mikilvægu hlutverki og þau gera í velflestum hlutverkaleikjum á netinu. Sumir eru jafnvel alfarið leiknir á korti, en dæmi um það er fjölspilunarleikurinn Civilazation. Civilazation er til í fleiri en einni útgáfu, en leikurinn gengur í grófum dráttum út á að ná yfirráðum ákveðins svæðis eða svæða og halda þeim yfirráðum (Civilazation, e.d.) Í greininni; Anthropology of an Idea Gamifacation, fjallar höfundurinn Ty McCormick (2013), um hugtakið leikjavæðingu (gamifacation). Hugtakið kom fyrst fram árið 1978 og var hugsmíð Richard Bartle. Hann hafði ásamt bekkjarfélaga sínum Roy Trubshaw búið til fyrsta fjölspilunarleikinn í almennri notkun, en hann bar nafnið Mud sem er stytting á multi- user dungeon. Leikurinn sem byggður var á texta, var fyrirrennari leikja á borð við World of Warcraft. Síðar uppfærði Bartle leikinn, gerði hann flóknari og meira eins og leik og kallaði það leikjavæðingu. McCormick bendir á að þrátt fyrir að hugtakið leikjavæðing hafi ekki komið fram fyrr en á 8. áratug síðust aldar, hafi ýmis fyrirtæki í raun stundað leikjavæðingu síðan snemma á síðustu öld. Hann nefnir ókeypis smáhluti á borð við límmiða í morgunkornsog sælgætispökkum sem dæmi um þetta. Þannig er verið að höfða til skemmtanalöngunar fólks með því að blanda leikföngum saman við neysluvöru. Leikjavæðing felur í sér að bæta leik og skemmtun inn í hversdagslegar athafnir á borð við neyslu matar, vinnu og síðast en ekki síst lærdóm, en alveg síðan á 9. áratug síðustu aldar hafa fræðimenn velt fyrir sér hvernig nota megi tölvuleiki til lærdóms. Höfundur bendir einnig á að hugtakið hafi farið úr því að merkja uppfærslu og betrumbætur á tölvuleikjum, eins og þegar það fyrst kom fram, yfir í að eiga við um grundvallarþætti leikja, takmark, keppni og söguþráð og hvernig þeir eru tengdir daglegu lífi ( McCormick, 2013). Fólk hefur æði misjafnar skoðanir á leikjavæðingu, allt frá því að álíta hana geta gjörbyllt öllu frá menntakerfum til krabbameinslækninga eða líta á hana sem markaðsbrellu. Þrátt fyrir þær 12

14 gagnrýniraddir virðist leikjavæðing vera á góðri leið með að tröllríða iðnaði, menntakerfum, vinnusálfræði og jafnvel löggæslu um víða veröld. McCormick tekur dæmi um hraðamyndavélalottó í Svíþjóð, þar sem framkvæmd var þriggja daga tilraun um hvort lottópottur fyrir fólk sem hélt sig innan hraðatakmarkana, bæri árangur. Það kom í ljós að fólk ók um 22% hægar meðan á tilrauninni stóð (McCormick, 2013). Þessi tilraun rennir stoðum undir þá kenningu að það sé auðveldara að ná til fólks með því að skemmta því en að hræða það og hún er aðeins eitt af mörgum dæmum um áhrif leikjavæðingarinnar. Jafnvel forvarnarhópar eru farnir að beita aðferðum sem vekja fremur upp gleði en hræðslu. Gott dæmi um þetta er auglýsingaherferð ástralska járnbrautarfélagsins Metro. Heferðin gengur út á að vekja fólk til umhugsunar um öryggi kringum lestar. En í stað þess að sýna óhugnalegt myndband sem sýnir blákaldan veruleika lestarslysa, nota þeir fjörugt lag sem fjallar um heimskulega hegðun sem leiðir til dauða og sætir og litskrúðugir teiknimyndakarlar deyja hver á fætur öðrum á afar kjánalegan hátt (Metro, e.d.). Lagið er mjög grípandi, höfðar bæði til barna og fullorðinna og hafði fengið meira en áhorf á Youtube í apríl 2014 (Youtube, e.d.). Þó að leikir skipi stóran sess í netsamskiptum eru þeir ekki það eina sem finna má á netinu. Spjallrásir af ýmsum gerðum eru mjög áberandi og mikið notaðar á netinu. Margar þeirra hafa sprottið upp í kringum tiltekna tölvuleiki en aðrar snúast um annað. Það er samt nokkuð erfitt að ætla að hólfa innviði netsins mikið niður þar sem það má segja að það sé í reynd nokkuð fljótandi fyrirbæri þar sem eitt rennur saman við annað. Sýndarheimar eru dæmi um vefsvæði, sem erfitt getur verið að skilgreina sem leiki en eru það samt á vissan hátt, en þó ekki. Þeir sem heimsótt hafa sýndarheima áborð við Second Life átta sig á skilgreiningarvandanum. Eitt af því sem einkennir þessa sýndarheima er óskýr mörk veruleika og stafræns veruleika. 3. Skil veruleika og stafræns veruleika Vegna vaxandi netnotkunar almennings telja margir nauðsynlegt að áhrif hennar séu skoðuð út frá sem flestum hliðum. Mannfræðingurinn Bridget Jordan hefur meðal annars einbeitt sér að þróun og uppbyggingu þekkingar og leggur áherslu á þróun þekkingarsamfélaga og mikilvægi þess að lagður sé grunnur að þeim fyrir framtíðina (Jordan, 2009). Í grein sinni; Blurring Boundaries: The "Real" and the "Virtual" in Hybrid Space, fjallar hún um hvernig skilin milli þess sem hún kallar raunverulega heiminn og hins stafræna eru stöðugt að verða óskýrari og að færa megi rök fyrir því að stór hluti mannskyns tilheyri meira og minna báðum heimum. Rannsóknir Tom Boellstorff á mannfræði Internetsins og sérstaklega 13

15 sýndarheiminum Second Life varpa ljósi á þetta. Tilhneiging fólks til að endurskapa þann veruleika sem það þekkir, á netinu, kemur bersýnilega í ljós í Second Life. Fólk hefur möguleikann á að búa sér til persónu, svokallaðann avatar, byggja sér hús og jafnvel mæta í partý og sækja trúarsamkomur. Flest af því sem finna má í Second Life má einnig finna utan nets, en það endurspeglar hvernig netið er meira eins og framlenging á lífinu eins og við þekkjum það í stað þess að vera framandi (Boellstorff, 2008). Í raun gætu netsamfélög, hegðan fólks kringum netið og netnotkun verið allt öðruvísi en hún er. Tæknin býður upp á óþrjótandi möguleika til afstæðrar tjáningar og endursköpunar ríkjandi gilda, en af einhverjum ástæðum leitar fólk í öryggi þess sem það þekkir sem aftur er verðugt rannsóknarefni fyrir mannfræðinga. Í bókinni, Coming of age in Second Life, fjallar Boellstorff um umrædda vettvangsrannsókn sem hann vann á Second Life. Hann bjó sér til persónu og varð hluti af samfélaginu. Eitt af því sem hann gerði var að spjalla við fólk sem hann hitti á förnum vegi og ein þessarra persóna var múslimsk kona. Það vakti athygli höfundar að konan kaus að klæða persónu sína að hefðbundnum hætti kvenna sem aðhyllast Islam. Hún kaus líka að halda til í og við mosku innan leiksins, því þar taldi hún minnstar líkur á að hitta óæskilegt fólk. Það er umhugsunarefni hvers vegna þessi tiltekna kona kýs að að vera þátttakandi í netheimi sem býður upp á frelsi til að vera og gera hvað sem er, en gera nákvæmlega það sama og hún gerir í daglegu lífi sínu utan nets. Fyrir fólk sem alið er upp við vestræn gildi kann þessi notkun konunnar á Second Life að endurspegla þann skort á frelsi sem hún býr við á vestrænan mælikvarða, en í raun er hún að gera það sama og flestir aðrir. Að leita í öryggi þess sem hún þekkir. Svo er náttúrlega líka sá möguleiki fyrir hendi að einhver fylgist með netnotkun hennar og hún þori ekki að stíga út fyrir rammann af ótta við neikvæð viðbrögð ( Boellstorff, 2008). Eitt af því sem gerir Internetið jafn aðlaðandi og raun ber vitni, er félagslega hliðin. Fólk flakkar milli heima á fleiri en einn hátt og eitt af því sem laðar marga að og fólk eyðir miklum tíma í, eru samfélagsmiðlar á borð við Facebook, Twitter og Reddit. Stór hluti fólks notar tölvu við vinnu sína og stór hluti vinnunnar er unninn á netinu með einum eða öðrum hætti. Tölvupóstssamskipti, upplýsingaöflun og verkefnavinna, fara meira og minna fram á netinu og svo heimsækir fólk samskiptamiðlana í kaffitímanum eða spilar leiki. Þannig er viðkomandi að vissu leyti á tveimur eða jafnvel fleiri stöðum í einu. Bæði utan nets og innan (Lifescapes, 2014). Ein afleiðing þess hversu óskýr mörkin eru orðin milli heimsins innan nets og utan, er að mörkin milli frítíma og vinnu hafa einnig orðið óskýr. Núna er hægt að ná í fólk, nánast hvar og hvenær sem er, gegnum farsíma eða tölvupóst og það verður stöðugt 14

16 algengara að fólk vinni hluta vinnu sinnar í fjarvinnu. Þrátt fyrir að þetta skapi ákveðinn sveigjanleika fyrir fólk, hefur það áhrif á samvistir fjölskyldna, þar sem það getur verið erfitt fyrir foreldra að veita börnum sínum og maka óskipta athygli ef vinnan er stöðugt að trufla. Sama vandamál á líka við um vinnuframlag fólks, því vegna þess hversu auðvelt það er að ná í fólk gegnum farsíma eða gegnum vefmiðla, er hætt við að fólk verði fyrir truflunum við vinnu sína frá fjölskyldmeðlimum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að vandamál tengd skilum milli fjölskyldu og vinnu eru algengari meðal kvenna (Hertlein, 2012). Líkt og minnst var á í kaflanum um leiki og leikjavæðingu hefur netið jafnframt að geyma fjöldan allan af spjallrásum og netleikjum, þar sem fólk getur með einföldum og tiltölulega öruggum hætti kynnst fólki með svipuð áhugamál og viðhorf. Vinsælir leikir eru meðal annarra; EVE Online, World of Warcraft og Star Wars: The Old Republic. Það er mikið lagt í þessa leiki og framleiðsla þeirra minnir um margt á framleiðslu kvikmynda. Þrátt fyrir það eru enn starfandi hópar umhverfis hlutverkaleiki, sem einungis byggjast upp á rituðum texta. Í rannsókn þar sem skoðuð voru tvö leikjasamfélög sem spiluðu slíka leiki kom í ljós að einn þeirra þátta sem höfðu áhrif á það að slíkir leikir voru enn í spilun var að þeir voru ókeypis. Fólk þurfti heldur ekki að eiga sérstaklega góðar græjur til að geta spilað þá. Umrædd leikjasamfélög voru á Ítalíu og í Kanada. Þrátt fyrir að hnattræn staðsetning ætti ekki að hafa áhrif á þáttöku fólks í slíkum leikjum hafði hún samt sem áður áhrif í þeim samfélögum sem voru til skoðunar. Annar leikurinn var ítalskur og fór fram á ítölsku og þar með skírir það sig sjálft að flestir spilaranna voru Ítalir. Hinn leikurinn var kanadískur frá enskumælandi hluta Kanada, en þrátt fyrir að enska sé töluð um víða veröld var samt stór hluti spilaranna kanadískur (Isabella, 2007). Það vekur upp spurningar um hvort landfræðileg lega hafi ekki eitthvað að segja um þróun og vinsældir leikja. Þrátt fyrir að fjarlægðir og staðsetning skipti ekki máli á netinu sjálfu og fólk sé meira og meira með annan fótinn á netinu, þá hittist það samt sem áður utan nets og ræðir saman. Þannig er mögulegt að einhverjir leikir nái fótfestu innan ákveðins samfélags. Fylgifiskur þess að skilin milli netheima og heimsins utan nets eru alltaf að þynnast, er þróun upplýsingatækni og endurskoðun á stofnunum, aðferðum og gildum. Meðal þess sem skoðað hefur verið er hvort tengja megi saman Second Life og bókasöfn. Gögnum var aflað og fólk látið meta jákvæðar og neikvæðar hliðar þess að þróa gagnaöflun og miðlun innan sýndarheima, á borð við Second Life. Niðurstöðurnar reyndust einkum neikvæðar, þar sem fólk taldi Second Life of flókið og hægfara til að það nýttist vel við upplýsingaöflun. Fólk 15

17 bennti þó á vissa jákvæða eiginleika, sem hugsanlega mætti nýta við þróun einhverskonar stafræns bókasafns. Meðal þess sem menn töldu jákvætt var möguleikinn að geta hitt aðra safngesti og haft samskipti við þá. Fólk virtist upplifa samskipti gegnum avatara sem raunverulegri en samskipti á spjallrásum eða félagsnetum og minna meira á raunverulega heimsókn á bókasafnið. Fólk hafði jafnframt gaman að því að búa sér til avatar og einhverjir heilluðust af grafíkinni og töldu sig vilja dvelja lengur inni á Second Life til að skoða hana nánar (Clarke, 2012). Þrátt fyrir að niðurstöðurnar hafi leitt það í ljós að Second Life sé kannski ekki nægilega vel til þess fallið að hýsa stafrænt bókasafn, þá eru niðurstöðurnar hjálplegar og gefa ákveðna hugmynd um hvað þurfi að hafa í huga ef ætlunin er að skapa eftirsóknarvert bókasafnsumhverfi á netinu. Það er mjög áhugavert hvað fólk notar netið á fjölbreytilegan hátt og má segja að þar fyrirfinnist allt sem viðkemur mannlegri tilveru. Margt af því sem fólk sækist eftir á netinu snýst um að fullnægja líkamlegum þörfum og má þar nefna kynlíf eða mataruppskriftir. En andlegar þarfir fólks fá einnig sinn skerf af athygli. Það er erfitt að vafra um á netinu án þess að hnjóta um einhverskonar stjörnuspá og þar er fjöldinn allur af síðum sem fjalla um hugleiðslutækni, andleg málefni og trúarbrögð. Í greininni; Seeking the Sacred Online: Internet and the Individualization of Religious Life in Quebec, fjallar höfundurinn Deirdre Meintel um rannsókn sem unnin var á tengslum trúarbragða og Internetsins í Quebeck, en hún leiddi meðal annars í ljós að trúarstofnanir nýti sér í auknum mæli netið til að að miðla boðskap sínum. Einstaklingar nota netið líka til að afla sér upplýsinga um ólík trúarbrögð, komast í samband við aðra af sömu trú og miðla þekkingu sinni og reynslu. Netið hefur gert landslag trúarbragðanna fjölbreyttara og meira er um að fólk blandi saman mismunandi trúarbrögðum og hefðum. Meintel talar um afstofnanavæðingu trúarbragða og um aukna tilhneigingu fólks til að stunda það sem það kallar andlega iðkun, frekar en að telja sig tilheyra ákveðnum trúarbrögðum. Með hjálp netsins kynnist fólk og fræðist um ný sjónarhorn sem það hafði mögulega ekki aðgang að áður og bætir þeim inn í líf sitt, án þess þó endilega að losa sig við það gamla. Þannig verður til nýtt og fjölbreytilegra trúarlandslag þar sem fólk býr til sínar eigin reglur og sníður hefðir og venjur að sjálfu sér (Meintel, 2012). Trúarbrögð eiga sér, samkvæmt þessu, bæði efnislegt líf, utan nets og stafrænt líf, innan þess. Það eru jafnframt til dæmi um söfnuði sem einungis eru til á netinu. Moskan, í sýndarheiminum Second Life, sem sumir spilaranna fara í til þess að biðja og minnst var á hér að framan er gott dæmi um þetta (Boelstorff, 2008). 16

18 4. Stafrænir frumbyggjar Vegna þess hversu hröð þróun Internetsins hefur verið á undanförnum árum og ýmsar tækninýjungar komnar fram á sjónarsviðið á tiltölulega skömmum tíma, er núna nokkuð stór hópur fólks alinn upp við þessa tækni og telur hana sjálfsagða og annar stór hópur sem er það ekki og finnst hún ekki jafn sjálfsögð. Í nýlegri rannsókn þeirra Su- Ting Yong og Peter Gates beina þau sjónum sínum að ungu fólki og tæknilæsi þess. Eitt af því sem þau velta fyrir sér er hvort hægt sé að líta á ungt fólk sem er alið upp innan um nýjustu tækni, sem digital natives eða stafræna frumbyggja (Yong og Gates, 2014). Marc Prensky, sem er bandarískur kennari og rithöfundur sem hefur fjallað mikið um menntun og menntamál, er upphafsmaður hugtakanna digital native (stafrænn frumbyggi) og digital immigrant (stafrænn innflytjandi). Hugtakið digital native á við um þá kynslóð fólks sem er fætt inn í tækniheim, fullan af tölvuleikjum, snjallsímum og annarri stafrænni tækni, sem er samofinn lífi þess frá fæðingu. Digital immigrant á þá við um fólk sem ekki er fætt inn í þennan tækniheim, en aðlagast tækninni síðar á ævinni og tileinkar sé hana (Prensky, 2001). Prensky er með mjög byltingakenndar hugmyndir um hvernig skólakerfið sé úrelt og henti ekki lengur þar sem aðstæður hafi breyst. Börn og ungt fólk hafa breyst og skólayfirvöld verða að átta sig á því að nýrra kennsluaðferða sé þörf. Hann færir rök fyrir því að flestir kennarar í dag séu digital immigrants en nemendurnir digital natives og það skapi togstreitu (Prensky, 2001). Samkvæmt kenningum Prenskys eiga digital natives það sameiginlegt, að kjósa og eiga auðvelt með að gera fleiri en einn hlut í einu, að vera alin upp við tölvu og tækninotkun, að reiða sig á grafísk samskipti og kjósa stöðuga umbun (Prensky, 2001). Þau Yong og Gates gerðu könnun um net og tækninotkun ungs fólks. Úrtakið samanstóð af malasískum ungmennum á aldrinum ára, sem stunduðu fornám við malasískann háskóla. Niðurstöðurnar voru þær að meirihlutinn taldi fullyrðingarnar sem eiga við um digital natives, eiga við um sig. Það var niðurstaða þeirra Yong og Gates að út frá þessarri rannsókn mætti flokka ungt fólk sem digital natives og að nauðsynlegt væri að gera breytingar á skólakerfinu til að mæta þörfum þess. Rannsóknin leiddi jafnframt í ljós mun á tækni- og tölvunotkun kynjanna, en algengara var að stúlkur notuðu símann, sendu skilaboð, hlustuðu á tónlist og ynnu heimanám en strákar spiluðu tölvuleiki (Yong og Gates, 2014). Ef marka má skrif Prenskys og rannsókn Yong og Gates, virðist Internetið og tæknin tengd því hafa meiri áhrif en virðist við fyrstu sýn. Þær kynslóðir sem núna eru að vaxa úr grasi eru frábrugðnar hinum fyrri á ýmsan hátt og þær breytingar eru beintengdar því tækniumhverfi sem þær alast upp við. 17

19 5. Einelti, utan nets og innan Eitt af því sem stafræna kynslóðin glímir við og fyrri kynslóðir þekktu ekki, er rafrænt einelti eða neteinelti. Einelti má skilgreina sem síendurtekið ofbeldi að hálfu einstaklings eða hóps í garð einstaklings sem oft er illa í stakk búinn til að verja sig. Einelti má skipta niður í fjóra flokka; líkamlegt, andlegt, félagslega einangrun og óbeint einelti. Samkvæmt nýlegum rannsóknum segjast um 20-35% unglinga ýmist hafa orðið fyrir einelti, beitt einelti eða bæði. (Bannink, Broeren, Jansen, Waart og Raat. 2014). Fórnarlömb eineltis upplifa gjarnan líkamleg einkenni á borð við magaverki, höfuðverki, svefnleysi og þunglyndi. Einnig er algengt að þau komi fram með sjálfsvígshótanir og kjósi að ganga með vopn, til að geta varið sig (Reuter-Rice, 2008). Til aðgreiningar frá rafrænu einelti mun ég tala um einelti utan nets sem hefðbundið einelti. Hefðbundið einelti er enn stundað af kappi, eins og það hefur alltaf verið, en nú hefur það teygt anga sína inn á netið, með tilheyrandi flækjum. Rafrænt einelti er eins og nafnið gefur til kynna, einelti sem fram fer á netinu, gegnum síma eða tölvur. Í nýútgefinni grein, sem byggir á rannsókn sem byggð var á einelti meðal hollenskra unglinga, kemur fram viss fylgni milli geðsjúkdóma og þess að hafa orðið fyrir einelti. Rannsakendurnir skoðuðu bæði rafrænt einelti og einelti utan nets og báru saman niðurstöður kynja. Einnig var rannsökuð fylgni milli sjálfsvíga og eineltis, bæði rafræns og hefðbundins sem og geðsjúkdóma og eineltis, bæði rafræns og hefðbundis. Það kom í ljós að fylgni var milli sjálfsvíga og þess að hafa orðið fyrir hefðbundnu einelti. Rafrænt einelti í ofanálag virtist ekki hafa áhrif á sjálfsvígshegðun. Jafnframt kom fram að stúlkur sem höfðu orðið fyrir einelti, bæði rafrænu og hefðbundnu, voru í aukinni hættu á að fá geðsjúkdóma, en það átti ekki við um drengi. Rannsakendur telja að út frá niðurstöðunum sé brýnt að fyrirbyggja einelti, meðal annars vegna hættu á að geðræn vandamál kunni að vinda upp á sig og versna með aldrinum (Bannink o.fl. 2014). Með reglulegu millibili birtast í fjölmiðlum ömurlegar frásagnir um einelti og afleiðingar þess. Meðal þess sem hefur verið rannsakað er hvort hægt sé að finna tengsl milli eineltis og skotárása í bandarískum skólum. Þrátt fyrir að reynt hafi verið að finna sameiginleg persónueinkenni meðal árásarmannanna, hefur ekki verið hægt að sýna fram á að þeir falli inn í neinn ákveðinn flokk. Það eina sem hægt er sýna fram á að þeir eigi sameiginlegt er að þeir voru allir karlkyns og á aldrinum ára. Annað sem þeir virtust eiga sameiginlegt var einverskonar einangrun, en hún tengdist ekki endilega jafningjum eða einelti, heldur alveg eins fjölskyldu. Þrátt fyrir að í einhverjum tilfellum hafi einelti verið undanfari skotárásar eru 18

20 tilfellin of fá til þess að hægt sé að tala um almennt orsakasamband þar á milli (Reuter-Rice, 2008). Sumir þessarra drengja höfðu jafnframt birt hótanir í garð skólafélaga sinna á bloggsíðum sínum og margir þeirra höfðu notað skotleiki á netinu til þess að æfa sig fyrir verknaðinn (O Gorman, 2010). Hvort sem fórnarlömb eineltis bregðast við með ofbeldisfullum hætti, sem virðist almennt ekki vera raunin ef marka má ofangreindar rannsóknir eða með því að taka eigið líf, er ljóst að um grafalvarlegt samfélagsmein er að ræða. Rafrænt einelti er ekki annað en framlenging á fyrirbæri sem líklegast hefur alltaf verið til staðar í einhverri mynd. Ef ætlunin er að stemma stigu við einelti er mikilvægt að þróa fyrirbyggjandi aðferðir sem virka. Þrátt fyrir að mikið og gott starf hafi þegar verið unnið væri æskilegt að mann,- félags- og sálfræðingar færu nánar í saumana á því. Það mætti síðan nota netið til að miðla niðurstöðunum, í forvarnarskyni. Netfíkn er annað grafalvarlegt mein sem mikilvægt er að skoða nánar. Vegna þess hversu ný hún er af nálinni eru afleiðingar hennar enn ekki fyllilega ljósar, en hún hefur verið rannsökuð að einhverju leyti og niðurstöðurnar gefa til kynna að hún sé jafn alvarleg og annarskonar fíkn. 6. Netfíkn Tuttugu og sex ára bandarískur karlmaður sagði frá því að hann spilaði fjölspilunarleikinn Ever Quest að lágmarki tólf tíma á dag. Hann sagðist fyrirlíta sjálfan sig fyrir það og vera með stöðugt samviskubit. Hann taldi sig eiga að vera eyða tímanum í margt annað og mikilvægara, eins og að bæta við sig menntun eða vinna að starfsframa sínum, en að hann réði ekki við sig. Hann sagðist hafa verið atvinnulaus í um mánuð og finna fyrir mikilli streitu og þunglyndi. Það eina sem hjálpaði til við að deyfa einkennin, var að spila leikinn. En þegar hann hætti að spila biðu öll vandamálin eftir honum og honum leið enn verr en áður (Yee, 2002). Fíkn má skilgreina sem síendurtekna hegðun einstaklings, sem er bæði óheilbrigð og sjálfsmeiðandi og hann á erfitt með að láta af þrátt fyrir það (Yee, 2002). Á undanförnum árum hefur netfíkn dregið að sér athygli æ fleiri fræðimanna og áhyggjur af henni og afleiðingum hennar farið vaxandi. Sálfræðingar hafa markvisst verið að finna tól til að rannsaka netfíkn og flokka og fundið ýmsa samnefnara milli hennar og annarskonar fíknar til að mynda spilafíknar. Einn liður í þessu ferli er greiningarlisti sem byggður er á greiningu á spilafíkn og hefur skammstöfunina YDQ, sem stendur fyrir Young s Diagnostic Questionnaire for Internet Addiction. Listinn byggir greiningu sína á netfíkn, á ákveðnu hegðunarmynstri og netnotkun fólks á undanförnum sex mánuðum. Hann þykir hafa sannað gildi sitt, þrátt fyrir að greining á 19

21 netfíkn þyki ekki falla alveg að stöðlum og sé að vissu leiti umdeild (Durkee, T., Hadlaczky, G., Westerlund, M. og Carli, V. 2011). Eitt af því sem gerir netið svo aðlaðandi, er félagslega hliðin. Fólk getur með einföldum og tiltölulega öruggum hætti kynnst fólki með svipuð áhugamál og viðhorf. Meðal þess sem veldur og viðheldur netfíkn eru samskipti við aðra á netinu (Park og Chen, 2007). Í grein sinni; Ariadne- Understanding MMORPG Addiction, leitast höfundurinn, Nicholas Yee við að varpa ljósi á netfíkn tengda fjölspilunarleikjum. Yee fjallar meðal annars um hversu erfitt það getur verið að ræða netleikjafíkn, bæði vegna þess að margir spilaranna telja að fyrirbærið sé ekki annað en hræðsluáróður og vegna þess að ýmsir fræðimenn telja að fíkn verði að stafa af líkamlegum orsökum til þess að geta talist fíkn og nefna þar eiturlyfjaneyslu og áhrif hennar á heilastarfsemina máli sínu til stuðnings. Aðrir benda á að hægt sé að sýna fram á spilafíkn og kaupfíkn og að netfíkn falli í sama flokk (Yee, 2002). Samkvæmt Yee, þá kannast margir spilarar við einkenni netleikjafíknar hjá sjálfum sér, þrátt fyrir að hluti þeirra telji fyrirbærið stórlega ýkt eða byggt á misskilningi. Hann bendir á að einhverjir kunni að gera lítið út vísbendingunum og halda að frekar sé um mjög áhugasama spilara að ræða, en sumir þeirra spilara sem hann ræddi við lýsa hegðunarmynstri sem bendir stórlega til fíknar. Sumt fólk upplifði kvíða og pirring ef það spilaði ekki í einhverja klukkutíma, aðrir áttu erfitt með að hætta og enn aðrir lokuðu sig algjörlega af og gerðu lítið annað en að spila, mánuðum saman (Yee, 2002). Þegar svo illa er komið fyrir fólki að það hættir að vinna eða sækja skóla, borðar varla, þrífur sig hvorki né sefur neitt að ráði, allt til að spila leik, hlýtur að vera hægt að tala um fíkn. Yee talar einnig um þá þrjá helstu þætti fjölspilunarleikja sem gefa þeim það aðdráttarafl sem þeir hafa og valda því að fólk tengist þeim og leggur jafn mikinn tíma í þá og raun ber vitni. Sá fyrsti er gulrótaráhrifin sem fyrirframákveðin hringrás umbununar hefur í för með sér. Í byrjun leiks er mjög auðvelt að vinna stig og fá verðlaun, en eftir því sem líður á leikinn verður það stöðugt erfiðara. Leikirnir eru líka oft byggðir þannig upp að spilarinn er alltaf næstum því að fara að ná næstu verðlaunum. Annar þátturinn er tengslanetið sem spilarinn byggir upp við reglubundna spilun. Það verður mjög mikilvægt að viðhalda þessu tengslaneti og það krefst viðveru. Þriðji þátturinn er hversu grípandi leikurinn er. Fólk lifir sig inn í persónuna sína og heillast af umhverfi leiksins og sögu, líkt og þegar fólk heillast af ævintýrum. Fólk er látið fá á tilfinninguna að það sé hluti af einhverju stóru og mikilvægu (Yee, 2002). Annað sem er svo heillandi fyrir fólk, er að innan leiksins getur það verið einhver annar, manneskja með ofurkrafta eða peninga, völd og vinsældir. Slíkt getur haft mikið aðdráttarafl, sérstaklega fyrir einstaklinga sem eiga við einhverskonar erfiðleika að stríða, eru með lágt sjálfsmat eða yfirhöfuð þreyttir á lífinu utan nets (Ahlstrom, Lundberg, Zabriskie o.fl., 2012). 23 ára 20

22 bandarísk kona sem þjáðst hafði af netfíkn, lýsti því hvernig hún og kærastinn hennar höfðu spilað fjölspilunarleik á netinu í meira en 90 klukkustundir á viku. Þau borguðu leiguna með því að selja eigur sínar á e-bay, sem er þekkt sölusíða á netinu. Þau lokuðu sig af inni í í agnarsmárri íbúðinni dögum saman og fóru einungis út til að kaupa mat og sígarettur. Þau útbjuggu eingöngu mat sem var fljótlegt að elda og höfðu mjög takmarkað samband við fjölskyldur sínar, sem bjuggu annarsstaðar í Bandaríkjunum. Þau höfðu ekkert samband við vini eða kunningja. Að lokum misstu þau húsnæðið, hættu saman og konan flutti aftur heim til fjölskyldu sinnar. Eftir að hafa flutt aftur heim gerði hún tilraun til að hafa samskipti við fólk og hafði samband við gamla kunningja, en henni fannst óbærilegt að vera með fleiri en einni manneskju í einu. Hávaðinn var alveg að gera út af við hana (Yee, 2002). Þetta er lýsandi dæmi um hvernig netnotkun getur farið algjörlega úr böndunum og tekið yfir líf fólks með ófyrirséðum afleiðingum. Eftir að hafa losað sig úr vítahringnum, virðist konan hafa þurft að kljást við slæma félagsfælni sem hafði mjög víðtæk áhrif á líf hennar. Rannsókn sem gerð var á suður- kóreskum unglingum leiddi jafnframt í ljós fylgni milli netfíknar og annars vegar áráttu- og þráhyggjuröskunar og þunglyndis hinsvegar. Rannsakendurnir töldu mikilvægt að starfsfólk skóla væri sérstaklega á varðbergi gagnvart einkennum netfíknar hjá nemendum, svo hægt væri að grípa inn í með fyrirbyggjandi aðgerðum (Jang, Hwang og Choi, 2008). 7. Netsjálfsvíg Þeir Tony Durkee, Gergo Hadlaczky, Michael Westerlund og Vladimir hafa rannsakað sjálfsvíg tengd Internetinu. Þeir skoðuðu bæði vefsíður sem hvöttu til sjálfsvíga og ýmsar forvarnir gegn sjálfsvígum, sem aðgengilegar voru á netinu. Þeir töldu það ákveðna þversögn að þrátt fyrir að netið byggi til vissa hættu, með því að veita aðgang að svæðum sem beinlínis hvöttu fólk til að fremja sjálfsvíg væri það einn besti vettvangurinn til forvarna. Í greininni er farið yfir tölulegar staðreyndir, þar sem fram kemur að sjálfsvíg séu önnur stærsta dánarorsök fólks á aldrinum ára í Evrópu. Þar kemur jafnframt fram að 66% ungs fólks sem fellur fyrir eigin hendi séu karlmenn, en 66% þess unga fólks sem gerir misheppnaða tilraun til sjálfsvígs séu konur. Rannsakendurnir segja einnig rannsóknir sína fram á að á bakvið hvert sjálfsvíg séu á bilinu sjálfsvígtilraunir. Tíðni sjálfsvíga er líka mjög mismunandi milli landa eða allt frá 4,1% til 23,5% meðal unglinga á aldrinum ára (Durkee o.fl. 2011) Durkee og félagar fjalla nánar um vefsíður og spjallrásir þar sem hvatt er til sjálfsvíga. Síður sem þessar hafa aðdráttarafl fyrir fólk sem er viðkvæmt fyrir og finnst það félagslega einangrað. Allmörg dæmi eru um að þátttaekndur slíkra vefsíðna taki sig saman og myndi 21

23 einhverskonar sjálfsvígssamninga. Fólk ákveður þannig að taka eigið líf í hóp, annaðhvort gegnum netið eða á einhverjum fyrirfram ákveðnum stað. Þannig styður fólk hvert annað í ákvörðun sinni um að taka sjálfsvíg og hvetur áfram. Aðrir meðlimir vefsvæðanna, sem ekki eru endilega hluti af tilteknum sjálfsvígshópum, þrýsta líka á hina um að láta til skarar skríða. Sjálfsvígsaðferðum er jafnframt deilt á þessum síðum og vart hefur verið við auknar vinsældir vissra aðferða, eftir að þeim var líst á netinu. Síður sem þessar halda því á lofti að sjálfsvíg séu sjálfsagður réttur fólks, að þau geti verið lausn á vandamálum og ákveðin uppreisn gagnvart ríkjandi gildum samfélagsins. Þær eru vel sýnilegar, aðgengilegar hverjum sem er og geta skapað gríðarlega hættu fyrir fólk sem á við geðræn vandamál að stríða, sérstaklega sé það ungt og óþroskað (Durkee, T., Hadlaczky, G., Westerlund, M. og Carli, V. 2011). Þetta er vissulega gríðarlegt áhyggjumál og ein versta myndbirting áhrifa Internetsins. 8. Áhrif netvæðingar á sambönd para og fjölskyldubönd Netvæðingin hefur haft gríðarleg áhrif á samskipti para og fjölskyldna. Nokkuð hefur verið um rannsóknir á áhrifum netsins á pör og hjón, en minna um rannsóknir á fjölskyldum. Eitt af því sem netvæðingin hefur haft í för með sér er breytt form samskipta. Bandarískar rannsóknir hafa meðal annars leitt í ljós að um 42% foreldra hringja í börn sín að minnsta kosti einu sinni á dag og um 70% para, þar sem báðir aðilar eru með gsm síma. Þrátt fyrir þann aukna sveigjanleika í samskiptum sem farsímatækninni fylgir, telur fólk hana ekki hafa jákvæð áhrif á samband sitt við makann (Hertlein, 2012). Nokkuð sem hefur tvímælalaust áhrif á sambönd para er aðgengileiki kláms og ýmis konar kynferðislegs efnis á netinu. Karlmenn í föstum samböndum eru líklegri til að leita uppi ýmsar upplýsingar og leiðbeiningar sem snúa að kynlífi, oft með það fyrir augum að bæta kynlífið. Konur í föstum samböndum eru líklegri til að finna fyrir afbrýðisemi vegna áhuga hins aðilans á kynferðislegu efni á netinu. Sumar konur urðu einnig varar við að fegurðarstaðlar eiginmannanna breyttust og að þeir vildu prófa ýmislegt nýtt, sem konurnar voru ekki tilbúnar að taka þátt í. Þannig geta kynlífsupplýsingar og klám á netinu haft mjög neikvæð áhrif á sambönd. Þrátt fyrir þetta tengjast sum pör dýpri böndum með því að skoða kynferðislegt efni og bæta því inn í sitt venjubundna kynlíf (Hertlein, 2012). Aðgengi kláms á netinu hefur einnig áhrif á börn og foreldra, en netið veitir börnum auðveldan aðgang að ýmiskonar efni sem þau hafa ekki endilega þroska til að skilja. Þrátt fyrir að til séu síur sem eiga að loka fyrir óæskilegt efni nýtir ekki nema hluti foreldra sér þær og jafnframt komast allskonar síður framhjá síunni. Netsíur geta því alið á fölsku öryggi. Fólk 22

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni Aðferð til að Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni hvað er það?? Málsýni þýðing á enska orðinu language sample Dæmi um málsýni Notað í rannsóknum um máltöku

More information

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Rannsóknarspurningin Treystir fólk sínum viðskiptabanka betur en öðrum og gæti það verið

More information

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir 1 Hvað er stjórnun viðskiptatengsla (CRM)? Stjórnun viðskiptatengsla er hugmyndafræði Stjórnun viðskiptatengsla er stefna Stjórnun viðskiptatengsla

More information

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu?

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? 8 janúar 2015 Áður en kaupferlið hefst Í kaupferlinu Eftir að kaupferlinu lýkur Í kaupferlinu Áður en kaupferlið hefst Vörulýsing og myndir Neytendur

More information

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.)

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) www.landspitali.is Nafn Læknir Hjúkrunarfræðingur Símanúmer Ræddu eftirfarandi

More information

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver 14 1 Excel Solver Excel Solver er viðbót (e. add-in) við Excel sem hjálpar til að finna bestu lausn á viðfangsefnum eins og þegar um er að ræða takmarkaðar

More information

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept Gagnasafnsfræði Páll Melsted 16. sept Endurtekin gildi Ef við viljum losna við endurtekin gildi er hægt að nota DISTINCT SELECT DISTINCT name FROM MovieExec, Movie, StarsIn WHERE cert = producerc AND title

More information

Tengsl skotleikjaspilunar og árásarhneigðar.

Tengsl skotleikjaspilunar og árásarhneigðar. Tengsl skotleikjaspilunar og árásarhneigðar. Greining á rannsókn meðal grunnskólabarna á Íslandi Arnór Helgi Knútsson HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni til BA gráðu í Sálfræði Sálfræðideild Maí 2015

More information

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban 8. febrúar 2013 Eiríkur Gestsson Um mig Eiríkur Gestsson Tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík 2004 Hugur hf. og HugurAx frá 2004 til

More information

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Samtök iðnaðarins - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Framkvæmdarlýsing - félagsmannakönnun Unnið fyrir Markmið Samtök iðnaðarins Að kanna viðhorf félagsmanna SI til Evrópumála og þróun þar á Framkvæmdatími

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina Kennsluáætlun haust 2018 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei 1 2 3 3_1 4 5 6 6_1 7 pige ísl nei hlutlaus vel mikið læri mikið á dönsku tímum og ef ég ætla í nám til dk þá er betra að kunna dönsku veit ekki pige ísl nei hlutlaus vel mikið eg læri nytt tungumal veit

More information

Tónlist og einstaklingar

Tónlist og einstaklingar Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar Kristinn Arnar Benjamínsson Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar

More information

4) Þá ertu kominn inná routerinn og ætti valmyndin að líta út eins og sýnt er hér til hægri. 5) Því næst er smellt á Wizard setup

4) Þá ertu kominn inná routerinn og ætti valmyndin að líta út eins og sýnt er hér til hægri. 5) Því næst er smellt á Wizard setup Hægt er að tengjast við Zyxel 660W beininn bæði þráðlaust eða með netkapli í netkort tölvunnar. Stilla þarf tölvuna þannig að hún sæki sjálfkrafa IP tölu (Optain an IP Address Automatically). Mismunandi

More information

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Umfjöllun 1. Stutt lýsing á Mati á stuðningsþörf: SIS 2. Einstaklingsbundnar

More information

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði.

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði. Spilin á borðið Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Spilin á borðið: Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum

More information

Atriði úr Mastering Metrics

Atriði úr Mastering Metrics Atriði úr Mastering Metrics Helgi Tómasson 13. september 2015 Helgi Tómasson Atriði úr Mastering Metrics 13. september 2015 1 / 11 Ýmis atriði ACA= Care Act er umdeilt efni í USA. Hafa heilbrigðistryggingar

More information

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Háskóli Íslands 3.4.2006 Viðskipta- og hagfræðideild Vinnusálfræði Vor 2006 Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Tryggvi R. Jónsson Kennari: Hafsteinn Bragason og Ægir Már Þórisson Fjarvinna 2 Val starfa

More information

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum:

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild-menntavísindabraut Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Endurskoðun á forvörnum og eineltisstefnum í framhaldsskóla Eva Dröfn Möller Akureyri Júní, 2013 Háskólinn

More information

Modding, moddarinn og tölvuleikurinn

Modding, moddarinn og tölvuleikurinn Hugvísindasvið Modding, moddarinn og tölvuleikurinn Notandinn og þróun RPG-leikjarins Elder Scrolls IV: Skyrim Ritgerð til MA-prófs í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu Alexandra Eyfjörð Ellertsdóttir September

More information

spjaldtölvur í skólastarfi

spjaldtölvur í skólastarfi spjaldtölvur í skólastarfi Á tímabilinu október 2012 til febrúar 2013 hef ég, Ómar Örn Magnússon aðstoðarskólastjóri í Hagaskóla, unnið að verkefni fyrir SFS sem miðar að því að skoða kosti, möguleika

More information

Ég nota alla lausa tíma sem ég hef

Ég nota alla lausa tíma sem ég hef Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 22. desember 2014 Yfirlit greina Hjördís Sigursteinsdóttir, Eva Halapi og Kjartan Ólafsson Ég nota alla lausa tíma sem ég hef Netnotkun íslenskra ungmenna

More information

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness Hagir og líðan barna í Grunnskóla s Niðurstöður rannsókna meðal nemenda í., 6. og 7. bekk á i árið 27 Birna Baldursdóttir Margrét Lilja Guðmundsdóttir Álfgeir Logi Kristjánsson Inga Dóra Sigfúsdóttir Jón

More information

Hvert er heimurinn að stefna? Mannfræðileg sýn á póstkapítalisma í nútímasamfélögum

Hvert er heimurinn að stefna? Mannfræðileg sýn á póstkapítalisma í nútímasamfélögum Hvert er heimurinn að stefna? Mannfræðileg sýn á póstkapítalisma í nútímasamfélögum Regína Márusdóttir Lokaverkefni til BA- gráðu í mannfræði Félagsvísindasvið Hvert er heimurinn að stefna? Mannfræðileg

More information

BA ritgerð. Meira en bara besti vinur mannsins?

BA ritgerð. Meira en bara besti vinur mannsins? BA ritgerð Mannfræði Meira en bara besti vinur mannsins? Hversu nánir mega menn verða dýrum og hvar grípa menningarleg tabú þar inn í? Kristín Björg Björnsdóttir Leiðbeinandi Sveinn Eggertsson Febrúar

More information

Áhrif tölvuleikjaspilunar á námsárangur

Áhrif tölvuleikjaspilunar á námsárangur Áhrif tölvuleikjaspilunar á námsárangur Tölvuleikjaspilun og námsárangur Rannveig Dögg Haraldsdóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni til 180 eininga BA gráðu í sálfræði Hug- og félagsvísindasvið

More information

Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir

Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir Ásthildur Embla Friðgeirsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði Júní 2015 Eru börn gerendur eða bjargarlausar

More information

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR)

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) Aldur nemenda: 10 ára og upp úr Viðfangsefni: ofbeldi, einelti, samskipti Færnimarkmið: Hugtakaleikir ná að þjálfa flesta færniþætti samræðunnar Viðhorfamarkmið: Hugtakaleikir ná

More information

Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið

Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni

More information

Áhrif aldurs á skammtímaminni

Áhrif aldurs á skammtímaminni Háskóli Íslands 7.5.2000 Félagsvísindadeild Þroski og lífstíðarþróun (10.02.02) Áhrif aldurs á skammtímaminni Tryggvi R. Jónsson (191177-3989) Ólafur Magnússon Kennari: Sigurður J. Grétarsson Rannsókn

More information

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Fólkstegundir. Um veitingu félagslegra eiginleika

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Fólkstegundir. Um veitingu félagslegra eiginleika Hugur 21. ár, 2009 s. 52 62 Ásta Kristjana Sveinsdóttir Fólkstegundir Um veitingu félagslegra eiginleika Um langt skeið hefur verið umræða í fræðaheiminum, jafnt sem annars staðar, um hvort ýmis fyrirbæri

More information

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Gagnvirkar töflur Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum Hólmfríður Ásmundsdóttir 270369-5459 Háskóli Íslands Menntavísindasvið Kennaradeild, grunnskólakennarafræði

More information

Að efla félagshæfni leikskólabarna

Að efla félagshæfni leikskólabarna Að efla félagshæfni leikskólabarna Heiða María Angantýsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs Kennaradeild Að efla félagshæfni leikskólabarna Heiða María Angantýsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í leikskólakennarafræði

More information

Skólaskrifstofa Austurlands. Virknimat

Skólaskrifstofa Austurlands. Virknimat Skólaskrifstofa Austurlands Búðareyri 4, 730 Reyðarfjörður Virknimat Virknimat (functional behavioral assessment) er skipulagt ferli til að (Yell, Meadows, Drasgow & Shriner, 2009; Kern, O Neill & Starosta,

More information

Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on.

Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on. Mánudagur 6. nóvember 2017. http://www.capfrance-terrou.com/ Rene about vocabulary Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on. Dvelopment

More information

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands VIÐSKIPTASVIÐ Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands Ritgerð til BS gráðu Nafn nemanda: Guðrún Erna Hafsteinsdóttir Leiðbeinandi: Haraldur Daði Ragnarsson

More information

Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna

Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna Tímarit um menntarannsóknir, 1. árg. 2004, 9-17 9 Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna M. Allyson Macdonald Kennaraháskóla Íslands Inngangserindi á ráðstefnu 22. nóvember

More information

10. kafli fordómar og mismunun

10. kafli fordómar og mismunun 10. kafli fordómar og mismunun Eðli og víddir fordóma (nature and dimensions of prejudice) Þegar einn hópur fólks hatar annan hóp svo mikið að þeir geta af ásettu ráði pynt og myrt saklausa óbreytta borgara

More information

Facebook og flokkarnir: Rannsókn á notkun íslenskra stjórnmálaflokka á samfélagsmiðlum

Facebook og flokkarnir: Rannsókn á notkun íslenskra stjórnmálaflokka á samfélagsmiðlum n Fræðigreinar STJÓRNMÁL Facebook og flokkarnir: Rannsókn á notkun íslenskra stjórnmálaflokka á samfélagsmiðlum Baldvin Þór Bergsson, doktorsnemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands Útdráttur Vægi samfélagsmiðla

More information

Henry Miller: Listamaðurinn gegn heiminum

Henry Miller: Listamaðurinn gegn heiminum Hugvísindasvið Henry Miller: Listamaðurinn gegn heiminum Greining á virkni listamannsins í verkum Henry Millers Ritgerð til M.A.-prófs Atli Sigurjónsson Maí 2011 2 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Almenn

More information

Internetið og íslensk ungmenni

Internetið og íslensk ungmenni Háskóli Íslands Félagsvísindadeild Maí 2004 Internetið og íslensk ungmenni Umsjónarkennari: Guðmundur Þorkell Guðmundsson Þorbjörn Broddason 280579-4839 Útdráttur Þessari ritgerð er ætlað að sýna að hve

More information

Uppsetning á Opus SMS Service

Uppsetning á Opus SMS Service Uppsetning á Opus SMS Service Undirbúningur Þetta þarf að vera til staðar: Opus SMS Service á að vera sett upp móðurtölvunni sem hýsir gagnagrunninn. Notandinn sem er innskráður á tölvunni þarf að vera

More information

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn?

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut 29 Lesum saman Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Guðríður Anna Sveinsdóttir Lokaverkefni Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild

More information

HVAÐ SKAL SEGJA? Ásrún Matthíasdóttir 1

HVAÐ SKAL SEGJA? Ásrún Matthíasdóttir 1 HVAÐ SKAL SEGJA? "Would you tell me, please, which way I ought to go from here?" "That depends a good deal on where you want to get to", said the Cat. "I don't much care where," said Alice. "Then it doesn

More information

Ungt fólk Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna

Ungt fólk Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna Ungt fólk 2004 Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna Rannsóknir meðal nemenda í framhaldsskólum á Íslandi 2004 og 2000 Álfgeir Logi Kristjánsson Silja Björk Baldursdóttir

More information

GREINAR UM BÆKUR ÁSTA KRISTJANA SVEINSDÓTTIR. Kvenna megin

GREINAR UM BÆKUR ÁSTA KRISTJANA SVEINSDÓTTIR. Kvenna megin GREINAR UM BÆKUR ÁSTA KRISTJANA SVEINSDÓTTIR Kvenna megin Sigríður Þorgeirsdóttir Kvenna megin: ritgerðir um femíníska heimspeki Hið íslenska bókmenntafélag, 2001 Mikið gleðiefni er að út sé komin bók

More information

Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft mér að

Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft mér að March 2008 Volume 3, Number 1 Flavio Baroncelli - Staðalímyndir og sannleikur 1 translated by Egill Arnarson Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft

More information

Sköpun í stafrænum heimi

Sköpun í stafrænum heimi Sköpun í stafrænum heimi Sjónarmið myndmenntakennara Sigríður Ólafsdóttir Október 2017 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Sköpun í stafrænum heimi Sjónarmið myndmenntakennara Sigríður Ólafsdóttir

More information

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín Kennaraháskóli Íslands Kennsluréttindabraut Kennslufræði greinasviða og æfingakennsla Kennari: Elín María Thayer Ég sem kennari: Starfskenning mín Guðlaug Erlendsdóttir Nóvember 2007 Efnisyfirlit EFNISYFIRLIT...

More information

Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara

Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara Starfendarannsóknir til valdeflingar kennara Edda Kjartansdóttir Þegar skynjanir vorar, hugsanir og hugsjónir hræra strengi tilfinninganna þá fyrst kemst rót á oss, þá losnar viljinn úr læðingi og knýr

More information

Sjálfið á tímum stafræns veruleika

Sjálfið á tímum stafræns veruleika Sjálfið á tímum stafræns veruleika Upplifun einstaklinga af samskiptum í gegnum samfélagsmiðla, togstreita, áhrifastjórnun og skert geta til alhæfingar um mótleikara í stafrænum samskiptum. Lokaverkefni

More information

The students sat in serried ranks, They wrote with all their might. But as they wrote it all by rote, They did not write it right.

The students sat in serried ranks, They wrote with all their might. But as they wrote it all by rote, They did not write it right. NÁMSMAT Á NÝRRI ÖLD The students sat in serried ranks, They wrote with all their might. But as they wrote it all by rote, They did not write it right. The studetns wrote in serried ranks, Their writing

More information

Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla. Tryggvi Guðbjörn Benediktsson. B.Sc. í Viðskiptafræði

Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla. Tryggvi Guðbjörn Benediktsson. B.Sc. í Viðskiptafræði Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla Tryggvi Guðbjörn Benediktsson B.Sc. í Viðskiptafræði Vor 2012 Tryggvi Benediktsson Leiðbeinandi: Kt. 240789-2809 Arney Einarsdóttir Ágrip Persónuleiki

More information

Leiðbeinandi: Sigrún Júlíusdóttir Nemandi: Rakel María Oddsdóttir Kennitala:

Leiðbeinandi: Sigrún Júlíusdóttir Nemandi: Rakel María Oddsdóttir Kennitala: Leiðbeinandi: Sigrún Júlíusdóttir Nemandi: Rakel María Oddsdóttir Kennitala: 120478 3549 Útdráttur Heimildaritgerð þessi er BA ritgerð nemanda í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands en efni ritgerðarinnar

More information

MA ritgerð. Ofbeldi karla gegn konum í parsamböndum

MA ritgerð. Ofbeldi karla gegn konum í parsamböndum MA ritgerð Félagsráðgjöf Ofbeldi karla gegn konum í parsamböndum Úttekt á gerendum sem leita til Karlar til ábyrgðar Ingibjörg Þórðardóttir Leiðbeinandi dr. Freydís Jóna Freysteinsdóttir Janúar 2014 Ofbeldi

More information

Tilfinningagreind í hlutverkaleik þriggja til fjögurra ára barna. Birgitta Ósk Sveinbjörnsdóttir

Tilfinningagreind í hlutverkaleik þriggja til fjögurra ára barna. Birgitta Ósk Sveinbjörnsdóttir Tilfinningagreind í hlutverkaleik þriggja til fjögurra ára barna Birgitta Ósk Sveinbjörnsdóttir Kennaradeild Hug- og félagsvísindasvið Háskólinn á Akureyri 2015 Tilfinningagreind í hlutverkaleik þriggja

More information

Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu

Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu Ritgerð til BA prófs í listfræði Þóra Vilhjálmsdóttir Maí 2014 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Listfræði Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu

More information

ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki

ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki ISO 9001:2015 Áhrif á vottuð fyrirtæki Árni H. Kristinsson arni.kristinsson@bsigroup.com Framkvæmdastjóri BSI á Íslandi 1 Dagskrá Breyttur heimur Forsendur breytinga Af hverju ISO 9001 er mikilvægur Hverjar

More information

Kona með vindinn í andlitið

Kona með vindinn í andlitið Kona með vindinn í andlitið Skynjun á umhverfi út frá habitus og hlutverki Linda Friðjónsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði Félagsvísindasvið Kona með vindinn í andlitið Skynjun á umhverfi út

More information

Ferhyrningurinn: Myndræn framsetning á ársreikningi

Ferhyrningurinn: Myndræn framsetning á ársreikningi www.ibr.hi.is Ferhyrningurinn: Myndræn framsetning á ársreikningi Einar Guðbjartsson Ritstjórar: Kári Kristinsson Magnús Pálsson Þórður Óskarsson Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands: Erindi

More information

Undir himni fjarstæðunnar

Undir himni fjarstæðunnar Hugvísindasvið Undir himni fjarstæðunnar Úttekt á fjarstæðri rökhugsun Alberts Camus Ritgerð til B.A.-prófs Alexander Stefánsson Janúar 2012 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Undir himni fjarstæðunnar

More information

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta?

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? www.ibr.hi.is Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? Erna Rós Kristinsdóttir Friðrik Eysteinsson Ritstjórar: Auður Hermannsdóttir Jón Snorri Snorrason Þóra Christiansen Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar

More information

Stúlkur og Asperger-heilkenni

Stúlkur og Asperger-heilkenni Stúlkur og Asperger-heilkenni Kynbundin áhrif heilkennisins á sjálfsmynd og félagslega stöðu Berglind Harpa Björnsdóttir Sally Ann Vokes Lokaverkefni til B.A.-prófs Þroskaþjálfadeild Stúlkur og Asperger-heilkenni

More information

1 Inngangur Hvað er frammistöðumat og hvernig á að mæla það? gráðu mat/endurgjöf Gagnrýni á 360 gráðu mat...

1 Inngangur Hvað er frammistöðumat og hvernig á að mæla það? gráðu mat/endurgjöf Gagnrýni á 360 gráðu mat... Efnisyfirlit 1 Inngangur... 1 2 Hvað er frammistöðumat og hvernig á að mæla það?... 2 2.1 Ávinningur frammistöðumats... 4 2.2 Framkvæmd frammistöðumatsins... 5 2.3 Hver á að meta hvern?... 5 3 360 gráðu

More information

Tak burt minn myrka kvíða

Tak burt minn myrka kvíða Lokaverkefni til BA-prófs í félagsfræði Tak burt minn myrka kvíða Sorgarferli aðstandenda eftir sjálfsvíg Katrín Gunnarsdóttir febrúar 2017 Tak burt minn myrka kvíða Sorgarferli aðstandenda eftir sjálfsvíg

More information

Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla. Þórunn Kjartansdóttir. Lokaverkefni til MA gráðu í þjóðfræði.

Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla. Þórunn Kjartansdóttir. Lokaverkefni til MA gráðu í þjóðfræði. Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla Þórunn Kjartansdóttir Lokaverkefni til MA gráðu í þjóðfræði Félagsvísindasvið Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla Þórunn

More information

BA ritgerð. Ég fékk sjálfa mig ekki einu sinni til að hvísla... ég líka

BA ritgerð. Ég fékk sjálfa mig ekki einu sinni til að hvísla... ég líka BA ritgerð Mannfræði Ég fékk sjálfa mig ekki einu sinni til að hvísla... ég líka #MeToo, bylting á samfélagsmiðlum Eygló Karlsdóttir Leiðbeinandi: Helga Þórey Björnsdóttir Júní 2018 Ég fékk sjálfa mig

More information

Máltaka barna. Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir

Máltaka barna. Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir Máltaka barna Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari: Sigurður Konráðsson Kennaradeild Menntavísindasvið Háskóla

More information

Eðlishyggja í endurskoðun

Eðlishyggja í endurskoðun Eðlishyggja í endurskoðun Komiði sæl. Gaman að sjá ykkur svona mörg hér. Eins og Sigríður sagði er ég að vinna að doktorsritgerð í heimspeki þar sem reyni að færa frumspekileg rök fyrir konstrúktivisma

More information

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Syngjum saman. -vefur með sönglögum, texta og gripum- Dagmar Þórdísardóttir

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Syngjum saman. -vefur með sönglögum, texta og gripum- Dagmar Þórdísardóttir Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Syngjum saman -vefur með sönglögum, texta og gripum- Dagmar Þórdísardóttir Kennaraháskóli Íslands Kennarabraut, leikskólakennarafræði Maí 2008 Lokaverkefni til B.Ed. -prófs

More information

Félagsráðgjafardeild

Félagsráðgjafardeild Félagsráðgjafardeild BA-ritgerð Áhrif fjölskyldugerðar á lífsgæði og öryggi barna Guðbjörg María Árnadóttir Júní 2010 Félagsráðgjafardeild BA-ritgerð Áhrif fjölskyldugerðar á lífsgæði og öryggi barna Guðbjörg

More information

Við viljum börnunum okkar alltaf það besta

Við viljum börnunum okkar alltaf það besta Við viljum börnunum okkar alltaf það besta Upplifun foreldra sem eru Vottar Jehóva á skólakerfinu á Íslandi og á Spáni Harpa Gísladóttir Júní 2017 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Við viljum

More information

BA ritgerð. Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna

BA ritgerð. Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna BA ritgerð Félagsráðgjöf Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna Úrræði Hekla Dögg Ásmundsdóttir Gyða Hjartardóttir Maí 2017 Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna Úrræði

More information

Algengi kynferðislegrar áreitni og ofbeldis gegn íslenskum unglingum

Algengi kynferðislegrar áreitni og ofbeldis gegn íslenskum unglingum http://dx.doi.org/10.17992/lbl.2016.06.87 RANNSÓKN Algengi kynferðislegrar áreitni og ofbeldis gegn íslenskum unglingum Ársæll Már Arnarsson 1 faraldsfræðingur, Kristín Heba Gísladóttir 1 sérfræðingur

More information

Beauty tips byltingin

Beauty tips byltingin Beauty tips byltingin Rannsókn á samfélagsmiðlasíðunni Beauty tips byggð á félagsvísindum Kolfinna María Níelsdóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni til BA gráðu í félagsvísindum Hug- og félagsvísindasvið

More information

Þeir vilja ekki leika, bara tala saman

Þeir vilja ekki leika, bara tala saman Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóli Íslands Ritrýnd grein birt 28. desember 2017 Yfirlit greina Sara M. Ólafsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir Þeir vilja ekki leika, bara tala

More information

Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna: Niðurstöður kannana í framhaldsskólum frá 2000 til 2016

Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna: Niðurstöður kannana í framhaldsskólum frá 2000 til 2016 Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna: Niðurstöður kannana í framhaldsskólum frá 2000 til 2016 September 2018 Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna:

More information

Sjúkdómsvæðing hegðunar:

Sjúkdómsvæðing hegðunar: Lokaverkefni til MA prófs í félagsfræði Sjúkdómsvæðing hegðunar: Hlutverk skólans í greiningarferli ADHD Anna Soffía Víkingsdóttir Febrúar 2016 Sjúkdómsvæðing hegðunar: Hlutverk skólans í greiningarferli

More information

Tengsl líkamsmyndar við kynhegðun unglinga

Tengsl líkamsmyndar við kynhegðun unglinga Hug- og félagsvísindasvið Sálfræði 2014 Tengsl líkamsmyndar við kynhegðun unglinga Andrea Elsa Ágústsdóttir Lokaverkefni við Hug- og félagsvísindasvið Hug- og félagsvísindasvið Sálfræði 2014 Tengsl líkamsmyndar

More information

Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf. Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir og Kristín Dýrfjörð

Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf. Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir og Kristín Dýrfjörð Athugið ritið er ekki prófarkalesið Röggur Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir gudrun@unak.is og Kristín Dýrfjörð dyr@unak.is 1 tbl. 4.

More information

Internetlist. Hrefna Sigurðardóttir

Internetlist. Hrefna Sigurðardóttir Internetlist Hrefna Sigurðardóttir Listaháskóli Íslands Hönnun og arkitektrúr Grafísk hönnun Internetlist Hrefna Sigurðardóttir Leiðbeinandi: Hlynur Helgason Vorönn 2012 Úrdráttur Internetið hefur auðveldað

More information

Orðaforðanám barna Barnabók

Orðaforðanám barna Barnabók Orðaforðanám barna Barnabók Hrund Hermannsdóttir Lokaverkefni til B.ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari: Sigurður Konráðsson Kennaradeild Menntavísindasvið Háskóla Íslands Febrúar 2012 Ágrip

More information

MA ritgerð. Ungar ekkjur, áfallaviðbrögð í kjölfar andláts maka og úrvinnsla

MA ritgerð. Ungar ekkjur, áfallaviðbrögð í kjölfar andláts maka og úrvinnsla MA ritgerð Félagsráðgjöf til starfsréttinda Ungar ekkjur, áfallaviðbrögð í kjölfar andláts maka og úrvinnsla Matthildur Jóhannsdóttir Hrefna Ólafsdóttir Félagsvísindasvið Ungar ekkjur, áfallaviðbrögð

More information

Efnisyfirlit. Inngangur Saga Harry Potters Harry Potter og heimavistarskólasögur Þemu í Harry Potter bókunum Dauðinn...

Efnisyfirlit. Inngangur Saga Harry Potters Harry Potter og heimavistarskólasögur Þemu í Harry Potter bókunum Dauðinn... Efnisyfirlit. Inngangur.... 1 Saga Harry Potters.... 2 Harry Potter og heimavistarskólasögur... 5 Þemu í Harry Potter bókunum.... 8 Dauðinn... 9 Ástin: Munurinn á Harry og Voldemort.... 12 Harry Potter

More information

Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi

Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi Maduvanthi Kumari Abeyrathne Lokaverkefni til B.Ed. prófs í Leikskólakennarafræði Leiðsögukennari: Hildur Blöndal Sveinsdóttir

More information

Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra gatnamóta á umferðaröryggi

Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra gatnamóta á umferðaröryggi Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra Rannsóknarverkefni Vegagerðarinnar Janúar 206 www.vso.is Borgartún 20 585 9000 05 Reykjavík vso@vso.is 575 S:\205\575\v\Greinagerð\575_Greinargerð.docx Janúar 206

More information

Þú fæðist ekki kona, heldur verður kona.

Þú fæðist ekki kona, heldur verður kona. Félagsvísindasvið Þú fæðist ekki kona, heldur verður kona. Birtingarmynd kyngervis á vefsíðu Krakkarúv og hugsanleg áhrif þess á börn. Ritgerð til BA gráðu Nafn nemanda: Anna Kristjana Ó. Hjaltested Leiðbeinandi:

More information

Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi

Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2015 Yfirlit greina Guðrún V. Stefánsdóttir Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu

More information

Leikskóli margbreytileikans. Sérkennsla í nýju ljósi

Leikskóli margbreytileikans. Sérkennsla í nýju ljósi Leikskóli margbreytileikans Sérkennsla í nýju ljósi Starfsþróunarverkefni Sigrún Arna Elvarsdóttir Lokaverkefni til M.ed. - prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið Leikskóli margbreytileikans Sérkennsla

More information

Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt.

Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt. Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt. Inga Sif Ingimundardóttir Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt

More information

Háskóli Íslands Menntavísindasvið leikskólakennaradeild Leikir sem kennsluaðferð GLF034G-V09 Ingvar Sigurgeirsson

Háskóli Íslands Menntavísindasvið leikskólakennaradeild Leikir sem kennsluaðferð GLF034G-V09 Ingvar Sigurgeirsson Háskóli Íslands Menntavísindasvið leikskólakennaradeild Leikir sem kennsluaðferð GLF034G-V09 Ingvar Sigurgeirsson Anna Egilsdóttir 080781-3269 ane8@hi.is Sólvellir 19 600 Akureyri 1 Efnisyfirlit 1 Inngangur...

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vorönn 2019 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012

Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012 Þjónustukönnun 2012-1 Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012 Niðurstöður könnunar á viðhorfum fullorðinna legudeildarsjúklinga til þjónustu á Landspítala. Ábyrgðarmenn Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri

More information

Náttúruhyggja Kants. Háskóli Íslands. Hugvísindasvið Heimspeki. Ævarandi friður sem markmið mannkynsins. Ritgerð til B.A.-prófs

Náttúruhyggja Kants. Háskóli Íslands. Hugvísindasvið Heimspeki. Ævarandi friður sem markmið mannkynsins. Ritgerð til B.A.-prófs Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Náttúruhyggja Kants Ævarandi friður sem markmið mannkynsins Ritgerð til B.A.-prófs Baldur Hrafn Vilmundarson Kt.: 180881-3879 Leiðbeinandi: Gunnar Harðarson Maí

More information

Þetta er starfið sem fer fram, ekki staðurinn Rannsókn á vettvangi ungmennahúsa

Þetta er starfið sem fer fram, ekki staðurinn Rannsókn á vettvangi ungmennahúsa Þetta er starfið sem fer fram, ekki staðurinn Rannsókn á vettvangi ungmennahúsa Hafsteinn Bjarnason Kristján Ari Halldórsson Lokaverkefni til BA-prófs Íþrótta-, tómstunda og þroskaþjálfadeild Þetta er

More information

Ronald Postma: Kitchen appliance to grow mushrooms was the project. Plugin Neon for Rhino and downloaded Bongo.

Ronald Postma: Kitchen appliance to grow mushrooms was the project. Plugin Neon for Rhino and downloaded Bongo. Week 3: Computer Controlled Cutting 11.2. 2015 This week we will learn about the mechanical application of computer aided design. The assignment for this week is to design, make, and document a press-

More information

Vefskoðarinn Internet Explorer

Vefskoðarinn Internet Explorer Vefskoðarinn Internet Explorer Sitt lítið af hverju um IE6 Í flestum tilfellum er hægt að opna IE með því að tvísmella á táknmynd þess á skjáborðinu eða smella einu sinni á tákn þess á flýtistikunni (Quick

More information

Claudia Hausfeld. neptún magazine #02. Myndlist Art

Claudia Hausfeld. neptún magazine #02. Myndlist Art Claudia Hausfeld fæddist í Austur-Berlín árið 1980, en er nú búsett á Íslandi. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2012. Í verkum sínum vinnur Claudia með ýmsa miðla, einkum innsetningar og

More information

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun Eru hjúkrunarfræðinemar fórnfúsari en hjúkrunarfræðingar?

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun Eru hjúkrunarfræðinemar fórnfúsari en hjúkrunarfræðingar? MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun Eru hjúkrunarfræðinemar fórnfúsari en hjúkrunarfræðingar? Eva Rún Michelsen Leiðbeinandi Kári Kristinsson Viðskiptafræðideild September 2011 Eru hjúkrunarfræðinemar fórnfúsari

More information

Druslustimplun. Þetta er ekki manneskja fyrir þér, þetta er bara netið. Karen Dögg Bryndísar- og Karlsdóttir

Druslustimplun. Þetta er ekki manneskja fyrir þér, þetta er bara netið. Karen Dögg Bryndísar- og Karlsdóttir Druslustimplun Þetta er ekki manneskja fyrir þér, þetta er bara netið Karen Dögg Bryndísar- og Karlsdóttir Lokaverkefni til MA-gráðu í menntun framhaldsskólakennara Félags- og mannvísindadeild Háskóla

More information