BA ritgerð. Meira en bara besti vinur mannsins?

Size: px
Start display at page:

Download "BA ritgerð. Meira en bara besti vinur mannsins?"

Transcription

1 BA ritgerð Mannfræði Meira en bara besti vinur mannsins? Hversu nánir mega menn verða dýrum og hvar grípa menningarleg tabú þar inn í? Kristín Björg Björnsdóttir Leiðbeinandi Sveinn Eggertsson Febrúar 2018

2 Meira en bara besti vinur mannsins? Hversu nánir mega menn verða dýrum og hvar grípa menningarleg tabú inn í? Kristín Björg Björnsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði Leiðbeinandi: Sveinn Eggertsson 12 einingar Félags og mannvísindadeild Félagsvísindasvið Háskóla Íslands Febrúar, 2018

3 Meira en bara besti vinur mannsins? Ritgerð þessi er lokaverkefni til BA í mannfræði og er óheimilt að afrita ritgerðina á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa. Kristín Björg Björnsdóttir, 2018 Prentun: Háskólaprent Reykjavík, Ísland, 2018

4 Útdráttur Ritgerðin fjallar um hvernig sambönd manna og dýra geta verið eins ólík og þau eru mörg. Maðurinn hefur lifað samhliða dýrum í þúsundir ára og virðast sambönd manna og dýra frekar vera að styrkjast með tímanum og algengt er að fólk eigi gæludýr. Til dæmis er talið að gæludýr í Bandaríkjunum séu jafnmörg og fullorðið fólk í landinu. Maðurinn hefur alla tíð nýtt dýr til ýmissa hluta; til manneldis og sem vinnudýr. Í augum manna eru dýr allt frá því að vera veraldlega yfir í að vera heilög og í hlutverki lífsförunauta. Lögð verður áhersla á að skoða kynferðisleg sambönd milli manna og dýra og þeirra einstaklinga sem upplifa sig sem dýrkynhneigða (e. zoophilia). Umræðan um kynlíf manna og dýra er eitt sterkasta tabúið á Vesturlöndum í dag og vekur upp óhug hjá mörgum. Skoðað verður hvernig háskólasamfélagið hefur rannsakað þetta viðfangsefni og hvernig viðhorf samfélagsins eru í garð þeirra sem hafa þessa kynlöngun. Þeir einstaklingar sem teljast dýrkynhneigðir hafa lengi vel litið á sig sem útskúfaða úr sínu veraldlega samfélagi. Þeir hafa annað hvort einangrað sig eða leitað á mið internetsins, þar sem þeir hafa fundið stuðning hjá fólki með sams konar kenndir, fólki sem getur miðlað af reynslu sinni og upplifun. Þá verður velt upp spurningunni um hvort skoða megi betur tilfinningalega hlið dýranna, þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á að mæling á framleiðslu oxítósins-sameinda getur mögulega sýnt fram á tilfinningar dýra í garð þeirra sem hneigjast til þeirra. Rannsóknir af þessu tagi gætu þar af leiðandi sýnt fram á hvort dýrin geti í raun gefið samþykki til kynlífs með manneskju og hvort þau geti í raun orðið ástfangin af dýri af annarri tegund.

5 Formáli Í ritgerðinni sem er lokaritgerð til BA gráðu í mannfræði verður gerð grein fyrir kynferðislegum samböndum milli manna og dýra. Leitast verður við að skoða hvort sambönd sem þessi séu tabú og hvaða viðhorf séu ríkjandi til þeirra í hinum vestræna heimi. Endurspeglar neikvætt álit almennings, sem vissulega er fyrir hendi, á þeim sem stunda kynlíf með dýrum þann veruleika sem hinir dýrkynhneigðu einstaklingar upplifa sjálfir. Er ástæða til að taka umræðuna upp með hlutlausari hætti? Samspil menningar og náttúru fær sinn sess í umfjölluninni og velt verður upp hvort hægt sé að yfirfæra þá hugmynd yfir á þetta tiltekna viðfangsefni; það er á þá fullyrðingu að fólk hefur stundað kynlíf með dýrum í þúsundir ára. Leiðbeinandi minn er Sveinn Eggertsson og vil ég þakka honum kærlega fyrir þá aðstoð og stuðning sem hann veitti við gerð þessarar ritgerðar, einkum í upphafi þegar ég hafði í raun ekki hugmynd um hvernig ég ætti að hefja þessi skrif. Einnig vil ég þakka Arndísi Þorgeirsdóttur fyrir yfirlestur á ritgerðinni og fyrir að vera einstaklega frábær í alla staði. Fjölskylda og vinir eiga skilið mikið þakklæti fyrir að hlusta á væl og barlóm í mér, einkum á lokasprettinum og síðast en alls ekki síst vil ég þakka föður mínum fyrir opinn hug og mikla þolinmæði, ekki aðeins í gegnum það ferli sem fór í að lesa yfir þessa tilteknu ritgerð, heldur einnig í gegnum háskólagönguna síðastliðin ár, þar sem hann hefur lesið yfir nánast hvert og eitt einasta verkefni sem ég hef gert á minni námsleið. 4

6 Efnisyfirlit Útdráttur... 4 Formáli... 4 Efnisyfirlit Inngangur Eru dýr fyrir mönnum það sem náttúra er fyrir menningu? Ýmiss konar sambönd manna og dýra og notkun mannsins á dýrum Sambönd manna og dýra eru flókin TABÚ Erum við að gera lítið úr dýrum með því að segja að þau geti ekki gefið samþykki? Umræður og lokaorð Heimildir

7 1 Inngangur Fyrst þegar ég heyrði rætt um dýrkynhneigð af einhverri alvöru, þá á ég ekki við,,súrt grín eða þegar verið er að bölva eitthverjum einstaklingi á ljótan hátt, var ég í skiptinámi við Durham-háskólann á Norður-Englandi. Ég var í áfanga sem kallaðist Sex, gender og sexuality, eða Kynlíf, kyn og kynhneigð og var kenndur innan félagsfræðinnar. Kennarinn lagði fyrir okkur að lesa viðtal við mann sem var ástfanginn af hestinum sínum. Viðtalið vakti mikla forvitni hjá mér þar sem mér fannst ég vera að lesa um manneskju sem væri í raun kúguð af sínu samfélagi. Efni viðtalsins vakti með mér óhug, sem dýraníð, en á sama tíma fann ég til samúðar með manninum sem stundaði þetta tiltekna níð. Áhugaverðar umræður spruttu um efni viðtalsins, bæði í kennslustundum sem í samtölum sem ég átti um þetta efni við fólk. Viðbrögð fólks voru með ýmsum hætti; ekki þarf að koma á óvart að flestir sögðust fyllast óhug við tilhugsunina og að þeirra áliti væri maðurinn dýraníðingur. Ég sjálf átti erfitt með að skilgreina og skýra fyrir sjálfri mér hvernig bæri að líta á þessa tilteknu kynhneigð. Afhverju ætti aðeins að berjast fyrir réttindum sumra til að fá að vera þeir sjálfir, kynferðislega, en ekki allra ef okkur er kennt að allir eigi rétt á að vera þeir sjálfir? Hér á eftir mun ég grafa dýpra í þessar spurningar sem og fleiri. Til að mynda má velta fyrir sér spurningunni um hvort við getum verið viss um að dýr geti ekki gefið samþykki þegar kemur að kynlífi með mannfólki? Og flokkast það þá ekki sem dýraníði ef tvö dýr, hvort af sinni tegundinni, eru pöruð saman. Geta ólíkar dýrategundir laðast hvor að annarri og er dýrum yfirhöfuð mögulegt að finna fyrir rómantískri ást? Sambönd manna og dýra verða einnig skoðuð í víðara samengi. Hvar liggja náttúrulegu mörkin við það að eiga dýr og með hvaða hætti megum við nýta þau? Erum við að misnota vald okkar sem húsbændur og sem æðra vald yfir dýrunum þegar kemur að manna- og dýrasamböndum? Að vissu leyti mætti líta svo á að maðurinn sjái sig æðri náttúrunni. Hann búi yfir æðra valdi þegar kemur að því að temja hið náttúrulega. Maðurinn nýtir náttúruna til hins ítrasta og sama gildir um dýrin. Svoleiðis hefur það verið allt frá því maðurinn lærði að nota boga og örvar og fór að drepa dýr sér til matar. Maðurinn tók sér síðan húsdýr, nýtti afurðir þeirra, styrk þeirra við ýmis bústörf og ylinn af þeim til að halda sér hita og skjóls. 6

8 Þannig hefur maðurinn nýtt dýr jarðarinnar til matar, fata- og skjólgerðar svo dæmi séu tekin. Allir mögulegir líkamspartar dýra hafa verið nýttir í hagnýtum tilgangi fyrir manninn. Einstaklingi þarf að vera skipað ansi lágt á stall ef hann er settur neðar í goggunarröðinni en önnur dýr í hinum vestræna heimi. Þrátt fyrir þessi viðhorf gagnvart dýrum og náttúrunni í tímans rás þá hafa mennirnir, á undanförum áratugum, í auknum mæli gert sér grein fyrir mikilvægi þess að virða náttúruna og koma vel fram við dýr. Fólk sér nú marga heilsusamlega kosti við að halda dýr á heimilum og á stofnunum og eru réttindabaráttur fyrir þessa raddlausu vini okkar sífallt að fara í aukana. 7

9 2 Eru dýr fyrir mönnum það sem náttúra er fyrir menningu? S. Ortner fjallar í grein sinni frá 1972, Is female to male as nature is to culture? um hvernig líkja má sambandi kvenna og karla við sambönd náttúru og menningar; um hvernig konan er undirgefin karlmanninum af náttúrulegum ástæðum og hvernig náttúran á til að verða fyrir barðinu á menningunni. Líkami konunnar sé þannig gerður að hún sé alltaf að þóknast öðrum en henni sjálfri. Konan er annað hvort að undirbúa sig fyrir getnað eða að ganga með barn og á því á hættu að verða, að einhverju leyti, undir í nánast öllum samfélögum. Að sama skapi má líta svo á að náttúran sé undirgefin menningunni. Það sem mennirnir skapa og gera á það til að móta náttúruna og að vissu leyti temja hana. En hvað lítum við á sem menningu og náttúru? Hvar liggja skilin og hvernig getum við skilgreint hvað er menning og hvað er náttúra án þess að hugtökin skarist? Þessar vangaveltur hafa verið áberandi í mannfræðinni allt frá upphafi og má jafnvel líta svo á að samanburður náttúru og menningar sé einn af megin áherslupunktum fræðigreinarinnar. Það er hægt að skoða hlutverk náttúru og menningar í allflestum etnógrafíum og öðrum mannfræðiritum. Hvaða þátt á náttúran í mýtum og ritúölum samfélaga sem skipa stóran þátt í menningu hvers samfélags fyrir sig (Gísli Pálsson og Descola, 1996, Ortner, 1972). Í raun er ekki hægt að segja með vissu hver sé náttúruleg hegðun mannsins, hvað það er sem okkur er alfarið eðlilegt og algjörlega óháð menningu, án þess að teljast til líkamlegra grunnþarfa. Mannleg hegðun er menningarlega sköpuð og menning manna nokkuð auðmótanleg. Menning er í raun táknræn hugsun að því leyti að við getum litið svo á að hún sé hugtak sem nær yfir allar gjörðir okkar í daglegu lífi. Ólíkur uppruni hugmyndafræði og menningar samfélaga, út frá sögu og menningu, mótar hlutverk og viðhorf stofnana samfélagsins. En þar með getum við, með daglegum athöfnum okkar, haft áhrif á hlutverk grunnstofnana og viðhorf samfélagsins og þar með breytt samfélaginu sem heild (E. Spiro, 1987). En hvaða hlutverk skipar náttúran ef allt sem við gerum og snertum er menningarlega skapað? Náttúran hefur gríðarlega víðtækt hlutverk þegar kemur að því að móta menningu og hvernig við tökumst á við daglega hluti. Það eitt að klæðast fötum er menningarlega skapað en ástæðan fyrir því að maðurinn klæðist fötum er náttúran. Við erum ýmist að reyna að verja okkur fyrir hita eða kulda. Formgerðarhyggja og táknræn mannfræði hafa lagt upp með að nota tenginguna á milli náttúru og menningar sem greiningartæki til þess að gera grein fyrir hinum ýmsu 8

10 stofnunum, hefðum, mýtum og ritúölum samfélaga. Hin ýmsu samfélög nota mýtur og ritúöl til að útskýra náttúruna, til þess að skýra atburði sem eru eða hafa verið mönnum óskiljanlegir (Gísli Pálsson og Descola, 1996). Í bók Leví-Strauss, The Savage Mind (1962) greinir hann frá því hvernig hin ýmsu samfélög eru hugfangin af plönturíkinu. Til að mynda nefnir hann hvernig pygmies (eða smáfólk) á Filippseyjum, sem kallast Negrito, hafa gríðarlega þekkingu á plöntum sem vaxa í umhverfi þeirra, sem og á dýraríkinu. Þau þekkja ekki einungis hverja tegund fyrir sig heldur búa þau yfir vitneskju á venjum og hegðunarmynstri plantna og dýra. Áhugi þeirra snýr ekki aðeins að plöntum, sem nýtast þeim sjálfum, heldur líka plöntum sem hafa önnur hlutverk og tengja þau betur við lifnaðarhætti dýra og skordýra í umhverfinu. Þetta fólk veit að líf dýra og planta er mjög nátengt. Allir, jafnvel smábörn, geta gert greinarmun á ólíkum trjám einungis með því að líta á börk trjágreinar eða greint ólíkar leðurblöku- og skordýrategundir, svo fátt eitt sé nefnt. Því hefur gjarna verið haldið fram að maðurinn sé yfir aðrar tegundir hafinn. Hann standi efst í þróunarstiganum og litið sé svo á að mennirnir séu við og aðrar lífverur dýraríkisins séu hinir. Heili mannsins er þróaðri en annarra lífvera og maðurinn því æðri. Getan til rökhugsunar er líka meiri hjá manninum en öðrum dýrum og má þar taka inn í myndina þá kenningu að rökhugsun sé æðri tilfinningum og að menningin geti verið sterkari en náttúran (Ortner, 1972). Signe Howell (1996) rannsakaði Che Wong-fólkið, sem býr á hálendi Mið-Malasíu, og skoðaði hvernig hugmyndir þess í garð dýra og planta eru gjörólíkar hugmyndum hins vestræna heims. Howell komst að því að hugmyndir Che Wong-fólksins um náttúruna eru ólíkar því sem við þekkjum í vestrænu samfélagi. Che Wong-fólkið lítur svo á að allar lífverur séu jafnar. Dýr, skordýr, plöntur, tré, steinar, ár falla öll undir sama hugtakið, ruwai, sem merkir að hvert og eitt þeirra býr yfir persónuleika. Allar lífverur eru persónugerðar og álitnar jafnar. Che Wong-fólkið setur manninn ekki í sérflokk heldur tilheyrir hann sama flokki og aðrar náttúrulegar verur. Þau gera ekki greinarmun á líkama, og sál, rökhugsun og tilfinningum. Che Wong-fólkið lítur svo á að um ruwai sé að ræða ef lífvera sýnir einhvers konar lífsmark og persónuleika en þau flokka þó ekki lífverur eftir útlitslegum einkennum eða ham (e. cloak) hvers og eins. 9

11 Til eru ýmis stig ruwai en í víðum skilningi þá aðskilur það dauða hluti frá þeim sem að hafa líflega eiginleika. Ruwai getur andað og borið raka. Það er hægt að eiga í þýðingarmiklu sambandi við ruwai, í hvaða ham sem er. Sambönd á milli tveggja eða fleiri ruwai geta verið alls konar og þurfa ekki að vera lík því sem við þekkjum í mannlegum samböndum, heldur geta til dæmis myndast sambönd á milli ruwai sem við myndum líta á sem mannveru og snák, en í huga Che Wong-fólksins væri aðeins um tvær lífverur, tvö ruwai, að ræða. Howell segir Che Wong-fólkið líta svo á að líkaminn sé einfaldlega hamur sem hýsir sálina og að hún geti flust á milli hama en þó með þeim hætti að flytji sálin sig um set þá glatar hún minningum frá fyrri ham. Á tungumáli Che Wong er ekki til annað orð en ruwai sem getur aðskilið lifandi veru frá annarri, óháð útliti. Þeir sem hafa lært malasísku kunna orð yfir ólík dýr en innan Che Wong-samfélagsins skipta þessar skilgreiningar ekki máli. Skógurinn er menning Che Wong-fólksins, hann sé skapaður af þeim og öðrum ruwai og þar af leiðandi líta þau ekki á skóginn sem náttúru heldur er hann og menning þeirra eitt og sama fyrirbærið (Howell, 1996). Innan læknavísindanna er viðhorf gagnvart dýrum mjög ólíkt því sem fyrirfinnst á meðal Che Wong-fólksins þar sem ríkjandi viðhorf er að líta á allar lífverur sem jafningja. Þetta á til dæmis við um hugmyndir um að nýta líffæri dýra í lækningaskyni fyrir menn, svo sem með ígræðslu. Í grein Eleni Papagaroufali (1996), Xenotransplantation and transgenesis, er fjallað um líffæragjafir frá dýrum til manna og hvernig siðferði spilar þar inn í. Með hjálp nútímavísinda hafa verið þróaðar leiðir við ræktun dýra, svo sem svína, með að markmiði að líffæri úr þeim yrðu nýtt til ígræðslu í menn. Papagaroufali rannsakaði viðhorf almennings til þessa og komst að því að algeng skoðun viðmælenda hennar væri sú að með slíkri ræktun væri verið að afmennska fólk og gera skilin á milli dýra og manna óskýrari. Viðmælendur sýndu þessu ákveðinn skilning með tilliti til vísindalegra hugsjóna og þróunar. Almennt er litið svo á að dýr gegni mikilvægu hlutverki í menningu okkar, þau sinni þjónustuhlutverki, svo sem hestar og fílar. Dýr eru ræktuð til manneldis eða höfð sem gæludýr og eru þannig hluti af fjölskyldu. Þrátt fyrir dýr séu stundum talin til 10

12 fjölskyldumeðlima þá er meginreglan samt sem áður sú að þeim er skipað skör lægra en mannfólkinu. Hvað ef kafað væri dýpra, hvar hvar liggja mörkin, hvaða dýr teljast æðri öðrum dýrum? Papagaroufali rannsakaði líka viðhorf vísindamanna og kom sú skoðun í ljós að því mannlegri sem dýrin voru því meiri virðingar nutu þau innan vísindaheimsins. Ef til þessi kæmi að drepa þyrfti górillu eða aðra stór-apa (e. great ape) þá ætti að gera það eins mannúðlega og mögulegt væri. Aðrir litu svo á að í stað þess að rækta æðri dýrin, górillur og stór-apa, til líffæragjafar væri ákjósanlegra að nýta frekar fólk sem væri í ástandi á borð við langtímadá, væri heiladautt eða lífvana. Þegar Papagaroufali bar þetta viðhorf vísindamanna undir almenning þá var viðtekin skoðun að frekar ætti að fórna mönnum en dýrum þegar líffæragjöf væri annars vegar. Þetta er í nokkurri andstöðu við það sem okkur er jafnan kennt og vitnað hefur verið til hér á undan. Dýr eru hér æðra sett en mannfólk undir ákveðnum kringumstæðum (Papagaroufali, 1996). Mörk náttúru og menningar eru ekki alltaf skýr, til dæmis ef borin eru saman viðhorf Negritos, Che Wong-fólksins og vísindamannanna í rannsókn Papagaroufali, sem getið er um hér að framan. Ef litið er til kaflaheitisins, Eru dýr fyrir mönnum það sem náttúra er fyrir menningu? þá er um að ræða skírskotun í grein eftir S. Ortner (1972) Is female to male as nature is to culture? Þar er borinn saman sá ójöfnuður sem ríkir á milli konu og karls og hvernig menningin getur yfirbugað náttúruna, til dæmis með hinum ýmsu uppfinningum manna í aldanna rás. Ef þessi viðmið eru notuð til þess að bera sambönd dýra og manna má velta því fyri sér hvort að maðurinn (menning) sé búinn að gera sig að æðri veru en önnur dýr (náttúra) og hafi yfirhöndina þegar kemur að samböndum þeirra á milli. 11

13 3 Ýmiss konar sambönd manna og dýra og notkun mannsins á dýrum Menn og dýr hafa átt samleið langt aftur í árþúsundir. Talið er að fyrstu dýrin sem fóru frá því að lifa villt og í að lifa með mönnum hafi verið úlfar, forfeður hunda, fyrir um 12 til 14 þúsund árum. Fljótlega á eftir fylgdu geitur og kindur og fyrir um 9 þúsund árum hófu menn að stunda búskap með kúm og svínum. Fyrir 3 til 4 þúsund árum voru hestar, asnar, kameldýr, vatnavísundar og fuglar komin í flokk húsdýra og kettir voru gæludýr í Egyptalandi fyrir 5 þúsund árum. Á svipuðum tíma og húsdýr komu til sögunnar voru menn farnir að rækta jurtir og plöntur. Í Evrópu og Asíu var farið að rækta hveiti og bygg ásamt ýmsum öðrum plöntum og í Ameríku var ræktuðu menn maís, kartöflur og baunir ásamt skepnum, svo sem lamadýrum, alpaca og naggrísum. Um 4000 fyrir Krist var búið að temja nánast öll helstu húsdýr sem eru þekkt í dag. (Serpell, 1996, Pennisi, 2004). Það var þó ekki fyrr en á 19. öld að menn hófu að líta á dýr sem gæludýr og báru sama hug til þeirra og þekkt er meðal gæludýraeigenda í dag. Vinsældir gæludýra hafa vaxið mjög síðustu áratugi og til dæmis var fjöldi hunda og katta, sem flokkast sem gæludýr, fyrir 30 árum aðeins helmingur þess fjölda sem talinn er til sömu gæludýra í dag. Nú á dögum á annar hver Bandaríkjamanna gæludýr eða einhvers konar húsdýr. Þrátt fyrir að mikill fjöldi manna víða um heim eyði stórum hluta af lífi sínu í að annast gæludýr og njóta samvista við þau þá eru enn mörg samfélög þar sem allt annað viðhorf er ríkjandi; eða það að heimilisdýr eða gæludýr eigi ekki heima í samfélagi manna. Færa má rök fyrir því að íslenska þjóðin sé ekki komin langt á veg í þessum efnum þar sem hérlendis gæludýr hafa ekki verið leyfð í almannarými, svo sem á veitingahúsum og kaffihúsum, strætisvögnum og víðar, fyrr en mjög nýlega. Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra skrifaði undir breytingu á reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti þann 26. október 2017 sem heimilar eigendum eða rekstraraðilum að leyfa að komið sé með hunda og ketti inn á matsölu- og kaffihús að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Til að setja fjölda hús- og gæludýra í Bandaríkjunum, sem getið er hér að framan, í samhengi þá eru dýrin álíka mörg og fullorðið fólk (Spencer et al, 2006). Þrátt fyrir þennan mikla fjölda hús- og gæludýra á heimilum hefur dýrahald af þessu tagi ekki mikið verið rannsakað. Af hverju kýs maðurinn að halda dýr á heimili sínu? Serpell (1996:24) bendir á að algengasta tilgátan, og sú sem hann telur vera líklegasta, er að menn nota dýr til að koma í staðinn fyrir eðlileg mannleg sambönd. Sumir hafa bent á að sambönd dýra og 12

14 manna séu eins konar fix fyrir skort á öðrum mannlegum samskiptum, eða leið til að örva tilfinningar sem þessir einstaklingar hefðu annars fengið frá öðru fólki (Serpell, 1996). Einnig eru dýr notuð til þess að mynda eða halda við eðlilegum samskiptum á meðal manna, svo sem og inni á stofnunum þar sem fólk fær að hafa dýr hjá sér til að auka vellíðan og jafnvel til þess að hafa sem umræðuefni á milli þeirra sem sækja þessar tilteknu stofnanir (Banks og Banks, 2002). Aðrir halda því fram að dýrahald sé leið til að fá útrás fyrir einhvers konar valdafíkn tengda leikjum (e. play). Sumir telja að verið sé að uppfylla kynhvöt sumra einstaklinga en aðrir vilja útiloka allar framantaldar ástæður og segja að ástæðan fyrir að halda gæludýr sé einfaldlega að veita mannfólkinu gleði. Líkt og Serpell tekur fram þá er síðastnefnda kenningin alls ekki ósönn en hinar eiga líka rétt á sér (Serpell, 1996). Sambönd manna og dýra taka á sig alls kyns myndir. Þau geta til dæmis verið menningarleg, félagsleg, þau geta verið líffræðileg og efnisleg (e. materialistic) og það sem flestum þykir óþægilegt að viðurkenna, þá geta þau einnig verið kynferðisleg. (Howell, 1996, Serpell, 1996, Papagaroufali, 1996). En hvað er átt við með efnislegu sambandi manna og dýra? Það er hægt að rekja nýtingu dýraafurða aftur til þess tíma sem flestir menn voru veiðimenn og safnarar (Serpell, 1996). Þá voru afurðir dýranna nýttar til hins ýtrasta, bæði til að búa til fatnað, skjól og áhöld. Í grein Tim Ingold, Materials agains materiality (2007) er fjallað um hvað efnisleg menning er í raun og veru og höfundur tekur sem dæmi hvernig hirðingjar nýta skinn og bein dýra við gerð tjalda. Skinnið er venjulega mýkt upp, barið og nýtt sem yfirlag. Ull er mótuð og gerð að eins konar filtefni sem veitir hlýju. Beinin eru nýtt til ýmissa hluta, þau eru gjarnan brotin niður og nýtt sem tjaldhælar eða saumnálar til þess að festa tjaldið saman. Horn, hófar og klær eru jafnvel mulin niður og úr þeim myndaðar eins konar gluggarúður. Hægt er að búa til lím úr beinum og innyflum og fiski roði og málningu úr eggjum og mjólk (Ingold, 2007). 13

15 4 Sambönd manna og dýra eru flókin Dýr gefa af sér afurðir, þau eru nýtt sem vinnuafl, þau veita félagsskap og þykja geta haft góð áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu manna. Þessi tenging manna og dýra, sem nær langt aftur í aldir, hefur sett stóran svip á hvernig viðhorf manna til dýra eru í dag. En hvar liggja mörkin þegar rýnt er í sambönd manna og dýra? Geta sambönd dýra og manna verið of náin? Í bókinni The Kinsey Institute New Report on Sex (1990) sem byggir á rannsóknum Kinsey et al. (1948) er fjallað um þekkingu fólks og skoðun þess á kynlífi. Höfundarnir, Reinisch og Beasley, lýsa mjög lauslega hugtakinu dýrkynhneigð (e. zoophilia) sem rangkynhneigð til dýra. Það er að dýrkynhneigðir einstaklingar laðist aðeins að dýrum en ekki þeim hópi fólks sem gæti talist eðlilegur fyrir viðkomandi einstakling, sem í flestum tilfellum væru einstaklingur af gagnstæðu kyni og helst innan sama samfélagslega hóps (Reinisch og Beasley, 1990). Nútímalegri og ítarlegri lýsingu á hugtakinu má finna í grein Bolliger og Goetschel (2005), Sexual relations with animals (zoophilia). Þeir nefna nokkur mismunandi hugtök yfir þessa tilteknu kynhneigð fólks, til dæmis má nefna Bestiality sem mætti þýða sem kynferðislegt dýraníð. Í þessari ritgerð verður hugtakið,,dýrkynhneigð notað til einföldunar, en það er þó ekki opinbert hugtak hér á landi. Líta má á þetta hugtak sem eins konar regnhlífarhugtak yfir önnur hugtök sem hafa þrengri merkingu innan sama flokks. Bein þýðing orðsins merkir hugfengi eða ást til dýrs eða dýra, þó svo að merkingin sjálf eigi við um kynferðislega löngun til dýra, með að markmiði að stunda með þeim kynlíf til að kynörva sjálfan sig, dýrið eða þriðja (eða fleiri) aðila. Ef kynferðislegur ásetningur er ekki að baki sambandinu heldur einungis ást og umhyggja, sem lýsir sér í knúsum, kossum og klappi eða öðrum gjörðum sem teljast ekki kynferðislegar, þá telst viðkomandi ekki dýrkynhneigður. Líkt og með aðrar kynhneigðir þá eru til margir ólíkir undirhópar dýrkynhneigðar en mörkin á milli þeirra geta þó verið mjög óskýr. Til að forðast of mikla flokkun þá nota Bolliger og Goetschel aðeins tvo undirhópa; annars vegar ofbeldistengda dýrkynhneigð (e. violent zoophilia) og hins vegar ó-ofbeldistengda dýrkynhneigð (e. nonviolent zoophilia). En þar sem ekki eru öll dýr viljug til að stunda kynlíf með fólki þá gerist það að ofbeldi eða afli af einhverju tagi er beitt (Bolliger og Goetschel, 2005). 14

16 Í grein eftir Andreu M. Beetz (2005), Bestiality and Zoophilia: Associations with Violence and Sex Offending, er farið ítarlega í skilgreiningu á hugtökum um dýrkynhneigð og kynferðislegt dýraníð (e. bestiality). Þessi hugtök eru mjög víð og snerta allt frá því að menn dagdreymi um dýr í kynferðislegum fantasíum yfir í að opinberlega laðast að dýrum og jafnvel verða ástfanginn af þeim og jafnvel laðast einvörðungu að dýrum en ekki fólki. Sumir heillast af því að fólk hagi sér eða klæði sig upp sem dýr og svo er hægt að nefna enn meiri öfgar þar sem fólk verður háð ofbeldinu og sækist eftir því að meiða dýrið eða jafnvel drepa það; annað hvort fyrir samfarir, meðan á atlotunum stendur eða eftir að kynlífinu lýkur (Beetz, 2005). Ef litið er aftur í tímann þá má finna merki um að dýrkynhneigð hafi þekkst allt frá upphafi mannkyns. Það eru til hellamyndir frá ísöld, steinöld og járnöld sem sýna kynlífsathafnir fólks með bæði ljónum og ösnum. Þó svo að það sé ekki endilega bein heimild um að kynlíf með þessum tilteknu dýrum hafi verið stundað að staðaldri þá eru hugmyndirnar til staðar (Miletski, 2005). Miletski fer í gegnum sögu dýrkynhneigðar í mjög grófum dráttum í grein sinni A history of bestiality (2005). Í Egyptalandi til forna var alls ekki óalgengt, né óeðlilegt, að stunda kynlíf með hinum ýmsu dýrum. Eðlilegt var að karlmenn væru að eiga við asna og önnur stærri húsdýr en konur væru meira með þeim minni, til að mynda hundum. Þá eru til sögusagnir um að Kleópatra hafi notað box fyllt með býflugum sem eins konar víbrator. Á meðal Forn-Grikkja var dýrkynhneigð aldrei bönnuð. Sagan segir að Fasífae, eiginkona Mínosar konungs á Krít, hafi orðið ástfangin af nauti. Hún átti þá að hafa falið sig inni í trégerðri kú og notið ástar með nautinu. Síðan hefur nautið verið tákn um frjósemi meðal Grikkja. Rómverjar höfðu gaman af að horfa á dýrkynhneigðar sýningar til að heiðra guðina og gátu þær gengið mjög langt og orðið mjög grófar. Einnig er vitað til þess að rómverskar konur þjálfuðu snáka til þess að veita sér unað og að smalar áttu oft við féð sem þeir sátu yfir. En þegar fram liðu stundir og Rómaveldi stækkaði voru lög um dýrkynhneigð hert og varðaði hún við dauðarefsingu (Miletski, 2005). Frá falli Rómaveldis, í kringum 476 e. Kr., og þar til Ameríka fannst árið 1492 var dýrkynhneigð hvað mest áberandi og helst samþykkt í vestrænum samfélögum. Á þeim tíma taldist eðlilegt að húsdýr byggju undir sama þaki og eigendur þeirra. Nálægðin var því mikil og samneytið náið. Var álitið að kynlíf með dýrum væri heilsusamlegt og gæti 15

17 læknað hina ýmsu sjúkdóma og kvilla, en á sama tíma var það einnig tengt við svarta galdur og töfra (e. witchcraft). Í grein sinni vitnar Miletski í greiningu (Salisbury, 1994) sem var gerð á sambandi kristni og dýrkynhneigðar. Gamla testamentið nefnir fjórum sinnum kynlíf milli karla og dýra og tvisvar milli kvenna og dýra. Er það þá yfirleitt í neikvæðri merkingu, til að mynda er ekkju bannað að halda hund sem gæludýr þar sem hún gæti freistast til að hafa við hann samræði. Þessi greining sýnir að frumhugsuðir kristninnar erfðu tvær meginhefðir þegar kom að mótun viðhorfs til dýrkynhneigðar. Önnur þeirra var sú að germanskar hetjur bjuggu yfir styrk sem þær fengu frá forfeðrum sem voru dýr. Þannig segir í germönskum þjóðsögum að fyrsti danski konungurinn hafi verið dæmi um slíka hetju, en hann var sagður getinn af konu og birni. Hin erfðahefðin kom úr grískrómverskum hugmyndaheimi en þar birtust guðir í dýrsformi til að eiga í atlotum við menn. Áttu hugmyndasmiðir frum-kristninnar erfitt með að gera sér grein fyrir hvernig ætti að taka á þessum rótgrónu hefðum. Að lokum var niðurstaðan sú að dýr og menn væru algjörlega aðskilin og að menn mættu ekki eiga í líkamlegu ástarsambandi við dýr. Slík sambönd gætu ekki orðið til fjölgunar, farið var að refsa fyrir slíka hegðun og dýrkynhneigð gerð að synd líkt og sjálfsfróun (Miletski, 2005). Snemma á sjöttu öld var á Spáni litið á dýrkynhneigð sem jafn alvarlegt brot og samkynhneigð og lá 20 ára fangelsisdómur við slíku broti. Eftir að dýrkynhneigð hafði verið sett í sama flokk og samkynhneigð var ekki aðeins að refsingin fyrir brotið væri hert, heldur breyttist einnig viðhorfið til hennar. Allt í einu færðist dýrið frá því að vera álitið hlutur sem hefði það hlutverk að fullnægja þörfum einstaklinga yfir í að verða þátttakandi í kynlífsathöfn. Við þetta færðist í aukana að drepa þyrfti dýrin eftir atlotin til þess að eyða verksummerkjum um verknaðinn (Miletski, 2005). Á þrettándu öld var álitið að öll kynhegðun, sem ekki leiddi til fólksfjölgunar, væri alvarleg synd gegn náttúrunni og þar var kynlíf með dýrum litið hvað alvarlegustum augum. Þar á eftir var samkynhneigð, kynlíf sem var stundað í ósiðlegum stellingum, þ.e. öðrum en trúboðastellingunni, og sjálfsfróun sem voru einnig taldar mjög alvarlegar syndir á miðöldum (Salisbury, 1994). Við upphaf 17. aldar var viðhorf fólks til kynlífs orðið jákvæðara og frjálsræði í kynferðismálum hafði aukist frá því sem verið hafði aldirnar á undan. Ekki var mikið um 16

18 leyndarmál og almennt var viðhorf fólks til kynlífs frekar afslappað. Eins og Foucault orðar það þá var þetta tími beinna tákna (e. direct gestures), opinna samtala og frjálsra synda [ ] þetta voru tímar þar sem líkamar voru greinilega til sýnis (Foucault, 1981). Á Viktoríutímanum ( ) breyttust þessi frjálslegu viðhorf og kynhegðun fólks hætti að vera fyrir almannaaugum og fluttist inn á heimilin. Einnig varð það viðhorf ráðandi að kynlíf ætti einungis að stunda til getnaðar. Þögnin tók yfir. Fólk var vissulega meðvitað um hvernig börn væru búin til en kynhegðun fólks var ekki lengur umræðuefni sem átti heima á meðal almennings eða var rædd yfir höfuð (Foucault, 1981). Að vissu leyti er hægt að halda því fram að enn sjáist merki um viðhorf Viktoríutímans til kynlífs í umræðunni í dag. Fólk sem hefur hneigðir sem eru ólíkar því sem telst,,eðlilegt hefur ekki hátt um sig. Þetta er þó vissulega að breytast hægt og rólega. 5 TABÚ Mary Douglas fjallar um tabú í bók sinni Purity and Danger: An Analysis of Concepts of Pollutions and Taboo (2003) og þar útskýrir hún hugtakið tabú nokkuð vel. Í hverju og einu samfélagi er fjöldi lögmála sem gildir um samfélagslega hegðun. Þessum lögmálum er gjarna stjórnað af eins konar yfirvaldi. Oft snúast þau um hag samfélagsins, en þau geta einnig snúist um hag yfirvalds, hvort sem það er konungsætt eða annars konar stjórnarfyrirkomulag. Tabú er hugtak yfir málefni eða hegðun sem telst ekki samfélaginu til sóma og er þar af leiðandi ekki viðurkennd eða almennt rædd (e. unspeakable) (Douglas, 2003). Algengt er að þegar viðfangsefnið er tabú þá er það álitið óhugnanlegt, dularfullt en á sama tíma áhugavert og efni í góðar sögusagnir (Turner & Maryanski, 2015). James Cook kynntist hugtakinu þegar hann ferðaðist um Tonga í Pólýnesíu og bar með sér til Evrópu. Í Pólýnesíu notaði fólkið orðið tabú yfir málefni og hluti sem voru bannaðir en Cook tók þó fram að merking orðsins væri mun víðtækari (Cook [1777], 1967, Turner og Maryanski, 2015). Í dag getur tabú verið mismunandi eftir því hvaða trú og hefðir ríkja í hverju samfélagi fyrir sig og er tabúinu ætlað viðhalda skipulagi innan samfélagsins. Til að mynda er eitt alþjóðlegt tabú sem á við um öll samfélög en það er tabúið um sifjaspell. Það eru ólíkar ástæður fyrir því innan samfélaga hvers vegna sifjaspell er tabú en oft og tíðum er það 17

19 hagfræðilegt. Það telst betra að finna sér maka utan fjölskyldunnar til þess að efla hag hennar og jafnvel ættarinnar (Douglas, 2003). En sifjaspells-tabúið hefur verið mönnum mjög ofarlega í huga allt frá því að maðurinn fór að mynda samfélög. Það hefur alltaf verið álitið óviðeigandi og jafnvel óhugnanlegt að nánustu fjölskyldumeðlimir gætu átt í ástarsambandi. En þrátt fyrir það má víða finna merki um forvitni manna um sifjaspell, bæði í þjóðsögum, skáldsögum og öðrum ritum en yfirleitt hefur verið litið svo á að sifjaspell sé tabú. Sifjaspell þekkist þó og frægustu brot á þessu tabúi er í evrópskum konungsfjölskyldum (Alvarez, Ceballos, & Quinteiro, 2009). Álitið var að konungborið fólk ætti rætur nær guði en almenningur. Þar af leiðandi væri almenningur ekki samboðinn konungbornu fólki og því komu aðrar konungsfjölskyldur einvörðungu til greina þegar kom að makaleit. Þetta varð til þess að mjög náskyldir ættingjar, jafnvel systkini, voru einu verðugu kostirnir við makaval. (Bixler, 1982). Þrátt fyrir að við gerum okkur grein fyrir því að kynlíf á milli manna og dýra eigi sér stað í nútímanum og hafi gert allt frá upphafi mannkyns, þá getum við samt sem áður kallað þetta eitt síðasta stóra tabúið. Þetta er efni sem fólki finnst erfitt eða óþægilegt að ræða og vill helst ekki horfast í augu við. Líklegasta ástæðan er sú að fólk tengir athafnir dýrkynhneigðar við barnaníð. Það er litið svo á að það sé verið að stunda kynlíf með dýri sem hefur ekki möguleika á að gefa samþykki (Beetz, 2005). Á síðustu árum hefur verið umræða um vændishús þar sem fólki gafst tækifæri til þess að stunda kynlíf með húsdýrum. Umræðan varð mjög hávær, einkum í og gagnvart Danmörku þar sem kynlíf með dýrum var lengi vel ekki ólöglegt. Upp spratt eins konar ferðamannaiðnaður í kringum fyrirbærið þar sem fólk kom víða að til þess eins að sækja þessi tilteknu vændishús. Háværar raddir risu upp gegn þessari starfsemi þar sem fólki fannst siðlaust að bjóða upp á slíka þjónustu. Eftir mikinn þrýsting frá almenningi og dýraverndarsamtökum féllst danska þingið á það snemma árs 2016 að banna kynlíf með dýrum og getur brot á því varðað allt að tveggja ára fangelsi (Olds, 2014, Gore, 2017, Vice, 2014, Nadeau, 2014, Nordal, 2015 og BBC, 2015). Annað merki um að kynlíf milli manna og dýra sé tabú endurspeglast í háskólasamfélaginu. Ekki hafa verið gerðar margar vísindalegar rannsóknir á þessu sambandi fólks og dýra. Helst mætti nefna fjóra fræðimenn sem hafa verið áberandi á þessu sviði; Beetz (ásamt fleirum) (2002, 2004, 2005, 2005, 2005), Miletski (2001, 2002, 18

20 2005a, 2005), og Williams og Weinberg (2003) en þau eiga öll sameiginlegt að hafa gert rannsóknir meðal fólks sem játar að laðast að dýrum og tekur af fúsum og frjálsum vilja þátt í rannsóknunum. Rannsóknirnar fóru fram annað hvort í gegnum viðtöl eða með spurningalistum á netinu. Í grein Beetz frá árinu 2005 New insights into bestiality and zoophilia ber hún saman eigin rannsókn, rannsókn Williams og Weinberg (2003) og rannsókn Miletski frá árinu Það sem helst einkenndi þessar rannsóknir var að meginþorri þeirra sem tóku þátt voru karlkyns. Þá kviknar spurningin, laðast karlmenn frekar að dýrum en konur eða eru konur einfaldlega feimnari við það að láta verða af löngunum sínum, eða þora þær einfaldlega ekki að stíga fram líkt og karlarnir? Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á ólíkum viðhorfum til dýraníðs út frá kyni fólks, þar sem er reynt hefur verið að svara spurningunni: hvað er dýraníð? Í rannsókn sem var gerð af Hills og Lalich (1998), Judgments of Cruelty Toward Animals: Sex Differences and Effect of Awareness of Suffering kom fram nánast einróma samþykki (99 prósent) meðal þátttakenda um að dýraníð væri rangt. Þar kom einnig fram að fólk hefur mismunandi skilning á því hvað telst vera rétt og rangt og þar af leiðandi hvað telst til dýraníðs (Hills og Lalich, 1998). Það sem flækist fyrir fólki þegar kemur að skilningi á hugtakinu dýraníð er í raun alvarleikastig verknaðarins en að mati þátttakenda þyrfti að greina hvert tilvik hverju sinni eða hvernig þolandinn, dýrið, kæmi út úr verknaðinum. Hills og Lalich vitna í rannsókn sinni í rit eftir Ascione (1993) þar sem hann segir að um dýraníð sé að ræða þegar gerandi kveðst njóta þess að veita dýrinu sársauka á einn eða annan hátt. Þeir sem aftur á móti vinna við rannsóknir þar sem notast er við dýr í tilraunaskyni viðurkenna að í sumum tilfellum valdi tilraunirnar dýrunum sársauka, en að það sé óhjákvæmilegur fylgifiskur rannsóknanna en slíkt sé ekki gert vísindamönnum til ánægju en mætti þó teljast til dýraníði (Martin, 1990). Hills og Lalich velta fyrir sér spurningunni um að ef tveir dýraeigendur koma jafn illa fram við dýrin sín, en annar gerir það viljandi og til að veita dýrinu sársauka, en hinn af vanþekkingu og án þess að ætla sér það, hvort dæma eigi báða á sama hátt (Hills og Lalich, 1998). Þeir sem aðhyllast dýrkynhneigð telja sig koma fram við dýrið af ást og að það taki viljugt þátt í kynlífinu, sé jafnvel spennt fyrir því. Því sé ekki verið að níðast á dýrinu í þeim tilvikum (Beetz, 2005). 19

21 Flestar þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á kynlífi á milli manna og dýra eru almennt gerðar á mönnum sem eru dýrkynhneigðir (zoophiliar) en vilja ekki viðurkenna að þeir stundi þvingað kynlíf eða valdi dýrinu miska að nokkru leyti. Ástæðan fyrir því gæti verið sú að fólk sem beitir dýr ofbeldi og stundar dýraníð í kynlífinu (bestiality) vill yfirleitt ekki taka þátt í rannsóknum þar sem slíkir einstaklingar eru litnir illu auga (Beetz, 2005). Kynlíf manna og dýra er enn samfélagslega ósamþykkt og er líkleg ástæðan sú að fólk lítur á kynlífið sem ósamþykkt og þar af leiðandi nátengt nauðgun. Fólki finnst óþægilegt að ræða dýrkynhneigð og endurspeglast það í lítilli umræðu, og þegar hún sprettur fram þá er hún af neikvæðum toga. Þar af leiðandi má líta á dýrkynhneigð sem eitt stærsta tabúið sem eru enn lifir í vestrænu samfélagi. 20

22 6 Erum við að gera lítið úr dýrum með því að segja að þau geti ekki gefið samþykki? Margar rannsóknir (Odendaal, 2000, Serpell, 1996) sýna að ást manna til dýra er líkamlega og andlega holl og að það geri manninum gott að eiga í ástríku sambandi við dýr. Um leið og ástin verður kynferðisleg þá er hún orðin óeðlileg. Er það þá skrítið að þessi mörk séu sumu fólki ekki skýr? Samkvæmt því sem kemur fram hér á undan er dýrkynhneigð þekkt fyrirbæri í gjörvallri mannkynssögunni. Þrátt fyrir að kynhegðun sem þessi eigi sér stað og hafi alltaf verið til staðar, þá finnst fólki erfitt að horfast í augu við hana, líkt og kemur fram í kaflanum um tabú hér að framan. Þetta viðhorf, að dýrkynhneigð sé óeðlileg, endurspeglast einnig í flestum þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið og skoðaðar voru við vinnslu þessarar ritgerðar. Þá reyndist einnig erfitt að finna greinar og annað efni sem uppfyllti akademískar kröfur og er það ályktun höfundar að dýrkynhneigð hafi ekki verið mikið skoðuð af fræðimönnum. En þrátt fyrir að ekki hafi fundist margar heimildir um rannsóknir á kynferðislegum samböndum manna og dýra þá eru þær samt sem áður nokkrar (Alvarez og Freinhar, 1991, Hunt, 1974, Kinsey et al., 1948, Miletski, 1999, Peretti og Rowan, 1982, Sandnabba, Santtila, Nordling, Beetz, & Alison, 2002, Weigand, Schmidt og Kleiber, 1999). Flestar rannsóknirnar hafa ólíkar áherslur í því úrtaki af fólki sem þær ná yfir. Í rannsókn sem gerð var af Kinsey et al. á hvítum bandarískum karlmönnum og gefin var út 1948 kom fram að um það bil 8 prósent þeirra höfðu átt í kynferðislegu sambandi við dýr. Þegar úthverfi og sveitir voru skoðaðar sérstaklega var hlutfallið mun hærra. Einna hæst var það meðal ungra manna sem aldir voru upp í sveit, en samkvæmt rannsókninni höfðu milli 40 og 50 prósent þeirra stundað kynlíf með dýri. Enn þann dag í dag er þessi rannsókn ein sú víðtækasta sem gerð hefur verið á dýrkynhneigð. Seinni rannsóknir endurspegla þó ekki þessar tölur (Miletski, 1999, Hunt, 1974 ). Gæti ástæðan verið að ekki eins margir búa í sveitum í dag og á þeim tíma sem rannsókn Kinsey og félaga fór fram. Í rannsókn Miletski (1999) rannsakar hún 82 einstaklinga sem viðurkenna að stunda kynlíf með dýrum. Aðeins fimmtungur þeirra ólst upp í sveit. Í rannsókn Hunt sem hann gerði á 932 karlmönnum í Bandaríkjunum kom fram að 4,9 prósent þeirra höfðu átt í kynferðislegu sambandi við dýr. Ekki var sérstaklega litið til búsvæðis (Hunt, 1974, Hensley, Tallichet og Singer, 2006). 21

23 En líkt og kemur fram í kaflanum um tabú þá er þetta viðfangsefni ekki auðvelt umræðu þar sem mikil skömm fylgir þessari kynhegðun. En ástæðan fyrir því að fólk stundar kynlíf með dýrum getur verið mjög misjöfn. Til að mynda má nefna samfélag í Norður-Kólumbíu sem er strang-kaþólskt og þar er konum bannað að stunda kynlíf fyrir hjónaband. Þá er litið svo á að kynferðisleg örvun sé eingöngu fyrir karlinn en ekki konuna. Jafnframt er samkynhneigð mjög illa séð og fá karlmenn því ekki að kynferðislega útrás hver hjá öðrum. En þar sem kynferðisleg örvun er viðurkennd meðal karla, en engin úrlausn í boði, hefur verið samþykkt að þeir megi hafa mök við asna. Þegar þeir loks ganga í hjónaband hafa margir þeirra því stundað kynlíf með ösnum í mörg ár, allt frá unga aldri. (Streicker, 1993). Dæmið frá Kólumbíu er lýsandi fyrir það sem fólki dettur fyrst í hug þegar minnst er á dýrkynhneigð eða kynferðislegt dýraníð. Fyrir utan viðhorf margra um óeðlið sem felst í dýrkynhneigð, og nefnt hefur verið hér að framan, kemur einnig fram viðhorf um að dýrin sem fólk stundar kynlíf með sæti pyntingum. Í rannsókn, sem Williams & Weinberg gerðu árið 2003, fylgdust þeir með hópi fólks sem kom saman á lokuðu vefsvæði. Þetta fólk átti það sameiginlegt að laðast kynferðislega að dýrum. Þarna gat fólk rætt kynhneigð sína við aðra sem höfðu sömu hneigðir og voru í svipuðum sporum og höfðu því skilning á viðhorfum og sjónarmiðum þátttakenda. Þar sem dýrkynhneigð er víðast hvar fordæmd af samfélaginu og víða ólögleg leiðir það til þess að þeir einstaklingar sem hneigjast til dýra einangrast með hneigðir sínar innan þess veraldlega samfélags sem þeir annars tilheyra. Flestir þeirra 114 einstaklinga sem tóku þátt í rannsókninni álitu sig haldna dýrkynhneigð og tóku fram að þeir vildu ekki skaða dýrin á nokkurn hátt. Sumir þeirra lýstu ást til dýranna líkt og rómantískri ást á manneskjum. Aðrir sögðu að ást manns og dýrs væri öðru vísi og ekki sambærileg við ást manna í millum (Williams og Weinberg, 2003). Árið 2014 steig 42 ára kanadískur maður fram í viðtali á vefsíðunni nymag.com og opnaði sig um ástarsamband sem hann átti með meri. Hann lýsir sambandi sínu á svipaðan hátt og hver annar myndi lýsa ástarsambandi með manneskju. Maðurinn bauð merinni á stefnumót og eyddi ári í að kynnast henni betur áður en þau fóru að stunda kynlíf. Hann talar um að merin taki jafn mikinn þátt í ástarlotunum og hann. Einnig nefnir hann að hann hafi hitt á bilinu 150 til 200 aðra dýrkynhneigða einstaklinga og enginn 22

24 þeirra stundi það að pynta dýr á nokkurn hátt. Hann minnist á hvernig hann laðast alls ekki að öllum hestum, heldur þurfa þeir að vera sérstakir og hann laðast einkum að merum, ekki að folum. Hann hafi þó látið á það reyna að sofa hjá karlkyns hrossum þegar hann var ungur og að prófa sig áfram í þessum efnum. Þegar viðtalið var tekið hafði hann verið með sömu merinni í fimm ár. Það er einnig athyglisvert að hann er í lokuðu sambandi með merinni og myndi ekki vilja deila henni með annarri manneskju, en hann er einnig giftur konu og hafði verið það í 19 ár á þessum tíma. Konan hans var meðvituð um samband hans við merina og studdi hann. Hann vildi óska að hann gæti verið opinn um ástarsamband sitt og merarinnar, en þar sem samfélagslegt álit á samböndum sem þessum er ekki jákvætt og víða ólöglegt þá hefur hann hljótt um þessa hlið lífs síns (Tsoilis- Reay, 2014). Það er nokkuð áhugavert að sjá hvernig margir þeirra einstaklinga sem líta á sig sem dýrkynhneigða og stunda kynlíf með dýrum sjá oft og tíðum tengingu á milli þeirrar upplifunar sem þeir eru að ganga í gegnum nú á dögum og því sem samkynhneigðir gengu í gegnum á sínum tíma (og gera víða enn). Þar sem þessir einstaklingar væru mjög gjarnan viljugir til þess að vera í opinberum samböndum með dýrum og getað talað um þau opinskátt en það er þeim ómögulegt vegna viðhorfa samfélagsins (Williams og Weinberg, 2003). Ein helsta röksemd þeirra sem eru andvígir kynlífi manna og dýra er að um dýraníð sé að ræða, þar sem dýrin geta ekki gefið samþykki fyrir þátttöku í kynlífinu. Það er vissulega satt og dýraníð í þessu sambandi mjög vanrannsakað efni. Ein helsta ástæða þess hversu dýraníð hefur lítið verið rannsakað er að þeir einstaklingar sem það stunda vilja ekki taka þátt í rannsóknum á efninu, af fúsum og frjálsum vilja. Þær rannsóknir sem hefur verið vitnað til í þessari ritgerð eiga það sameiginlegt að þeir einstaklingar sem tekið hafa þátt, hafa gert það sjálfviljugir en ekki verið skipað til þess af yfirvaldi, sálfræðingi eða öðrum. Líklegt er að þeir sjái í því tækifæri til að deila upplifun sinni, sýn og viðhorfum með því að taka þátt (Beetz, 2005). Þeir sem hafa tekið þátt í þessum rannsóknum hafa verið nánast einróma um það að þeir myndu ekki undir neinum kringumstæðum meiða þau dýr sem þeir eiga í ástarsambandi við (Beetz 2002, Miletski 2002, Williams og Weinberg 2003). Víkjum þá að spurningunni, hvernig getum við verið svona viss um að dýrin geti ekki gefið samþykki? Vísindamaðurinn Paul Zak (2014) hefur um langt skeið rannsakað 23

25 tilfinningasameindir, eða oxitósín (e. oxytocin) sameindir bæði í mönnum og dýrum. Upphaflega var litið á þessar sameindir sem móðursameindirnar þar sem mæður framkalla mjög mikið af þeim við fæðingu. Einnig tengir Zak oxitósín við gjafmildi og almenna góðmennsku og ef framleiðslan er mjög mikil þá getur hún kallað fram ást. Í bloggi sínu segir Zak frá því þegar hann prófaði að mæla oxitósín-framleiðslu hjá dýrapari sem var vel til vina en þó ekki af sömu tegund. Annað þeirra var geit og hitt var hundur. Zak tók sýni fyrir og eftir 15 mínútna leik dýranna. Oxítósin-aukningin hjá hundinum var 48 prósent sem sýndi fram á að hundurinn leit á geitina sem vin og leið vel í návist hennar. Þegar oxitósín var mælt hjá geitinni reyndist aukningin hjá henni vera 210 prósent. Slíka aukningu mætti líta á sem rómantíska ást og mun meira en bara vinalega ást ef hún er borin saman við hvernig oxitósín-aukning mælist hjá mannfólki sem er ástfangið (Zak, 2014). Rannsókn Zak felur ekki í sér vísindalega sönnun enda um litla rannsókn að ræða, en hún gefur þó ákveðna hugmynd um líðan þessara dýra. Þegar náttúran er skoðuð er ekki hægt að segja með vissu að rómantísk sambönd milli dýra af ólíkum tegundum séu algeng. Vissulega hafa komið fram afkvæmi sem hafa orðið til vegna blöndunar ólíkra tegunda eins og milli ljóns og tígrisdýrs, hests og asna, en mökun sem þessi er mjög sjaldgjæf og hefur yfirleitt gerst með aðstoð mannfólks. Þó eru nokkur dýr sem sýnt hefur verið fram á að stunda kynlíf með öðrum tegundum, þá aðallega fiskar og froskar (Ward, Axford og Krause, 2002, Rayan og Rand, 1993, Clarke, 2005). Eins og hefur komið fram þá býður þetta efni upp á mikla rannsóknarvinnu og mikil tækifæri innan hins akademíska heims á mörgum sviðum. Einnig mætti benda á að í þeim rannsóknum sem hafa verið gerðar á dýrkynhneigð hafa karlmenn alltaf verið í meirihluta þátttakenda og vert að benda á að konur eru í það miklum minnihluta að þær teljast ekki marktækar þegar niðurstöður eru unnar (Williams og Weinberg 2003). Í grein eftir Herzog (2007) fjallar hann um ólík viðhorf til dýra og meðferð á þeim eftir kyni fólks. Í rannsókninni, sem greinin er byggð á, er skoðað meðal annars hversu háðir einstaklingar eru gæludýrum sínum, almenn meðferð á dýrum, hamstur á dýrum (e. animal hoarding), veiðimennska, dýraníð og kynferðislegt dýraníð (e. bestiality). Almennt eru kynin jöfn þegar kemur að gæludýrahaldi og þau fara jafnoft í dýragarða. Ekki er heldur marktækur munur í kynbundinni umhyggju karla og kvenna í garð gæludýra sinna. 24

26 Þó kemur fram að það er marktækur munur á milli kynjanna þegar kemur að jákvæðri og neikvæðri meðferð í garð dýra almennt. Konur koma sterkari inn þegar átt er við jákvæða meðferð. Þær eru sýnilegri þegar kemur að aktívisma og baráttu fyrir réttindum dýra. Á móti kemur að þær eru líklegri en karlar til þess að halda mikinn fjölda dýra inni á heimili sínu. Menn eru svo aftur á móti meira áberandi kynið þegar kemur að neikvæðri meðferð á dýrum. Karlar stunda frekar dýraveiðar, dýraníð og eru ekki mjög líklegir til þess að tala gegn dýraníði. Þegar kemur að kynferðislegu dýraníði þá er það sú gerð dýraníðs sem er hvað minnst rannsökuð. Líkt og komið hefur fram hér að framan (Beetz 2002, Miletski 2002, Williams og Weinberg, 2003) þá er greinilegur kynjamunur á þátttöku í þeim rannsóknum sem hafa verið gerðar á viðfangsefninu og karlmenn í töluverðum meirihluta. Vert er þó að taka fram að hlutfall dýrkynhneigðra mælist ekki gríðarlega hátt í þeim rannsóknum sem hafa verið gerðar. Hæst mældist það í rannsókn Kinsey at al árið 1948 en samkvæmt henni reyndust 8 prósent karla og 3,6 prósent kvenna hafa stundað kynlíf með dýrum. Árið 1974 kom fram í niðurstöðum rannsóknar Hunt að 4,9 prósent karla og 1,9 prósent bandarískra kvenna höfðu stundað kynlíf með dýrum. Hlutfall dýrkynhneigðra var enn lægra hjá Fynn (1999) en þar sögðust 2,4 prósent karla og 1,1 prósent kvenna annað hvort hafa stundað kynlíf með dýri eða hafa áhuga á að gera slíkt. Í rannsókn sem Pretti og Rowan (1983) lögðu fyrir 27 karla og 24 konur kom fram að konurnar voru líklegri til að hafa sterkari tilfinningar til dýrsins sem þær stunduðu kynlíf með heldur en karlarnir. Gerbasi (2004) birtir í grein sinni tölur yfir einstaklinga sem hafa verið handteknir fyrir kynferðislegt dýraníð. Í tuttugu málum, sem hann fjallar um, voru karlar einir að verki í 17 þeirra og í aðeins einu málanna var kona ein að verki. Hafa ber í huga, þrátt fyrir þær tölur sem hér hafa verið til umfjöllunar, að um er að ræða einstaklinga sem hafa játað að þeir laðist að dýrum eða hafa fundnir sekir um kynferðisbrot gegn dýrum og þarf því ekki endilega að endurspegla raunveruleg hlutföll (Herzog, 2007). Enn sem komið er getum við ekki sagt með vissu um hvort dýrin geti veitt samþykki. Við getum vissulega sagt að oft og tíðum sé um dýraníð að ræða þegar fólk stundar kynlíf með dýrum en það að segja að engin dýr séu viljug er erfitt að fullyrða. Samkvæmt hinum dýrkynhneigðu einstaklingum, sem hafa tekið þátt í þeim rannsóknum sem gerðar hafa 25

27 verið, kemur fram að dýrin séu að njóta sín jafn vel og mennirnir sem taka þátt í kynlífinu (Beetz 2002, Miletski 2002, Williams og Weinberg 2003). Þá væri áhugavert að bera saman tilraun Zak (2014) og frásögn kanadíska mannsins (Tsoilis-Reay, 2014) og mæla oxitósin-framleiðsluna hjá merinni til að sjá hvort hún sé einnig ástfangin af manninum líkt og hann gefur til kynna. 26

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Rannsóknarspurningin Treystir fólk sínum viðskiptabanka betur en öðrum og gæti það verið

More information

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni Aðferð til að Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni hvað er það?? Málsýni þýðing á enska orðinu language sample Dæmi um málsýni Notað í rannsóknum um máltöku

More information

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir 1 Hvað er stjórnun viðskiptatengsla (CRM)? Stjórnun viðskiptatengsla er hugmyndafræði Stjórnun viðskiptatengsla er stefna Stjórnun viðskiptatengsla

More information

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.)

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) www.landspitali.is Nafn Læknir Hjúkrunarfræðingur Símanúmer Ræddu eftirfarandi

More information

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu?

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? 8 janúar 2015 Áður en kaupferlið hefst Í kaupferlinu Eftir að kaupferlinu lýkur Í kaupferlinu Áður en kaupferlið hefst Vörulýsing og myndir Neytendur

More information

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept Gagnasafnsfræði Páll Melsted 16. sept Endurtekin gildi Ef við viljum losna við endurtekin gildi er hægt að nota DISTINCT SELECT DISTINCT name FROM MovieExec, Movie, StarsIn WHERE cert = producerc AND title

More information

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver 14 1 Excel Solver Excel Solver er viðbót (e. add-in) við Excel sem hjálpar til að finna bestu lausn á viðfangsefnum eins og þegar um er að ræða takmarkaðar

More information

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei 1 2 3 3_1 4 5 6 6_1 7 pige ísl nei hlutlaus vel mikið læri mikið á dönsku tímum og ef ég ætla í nám til dk þá er betra að kunna dönsku veit ekki pige ísl nei hlutlaus vel mikið eg læri nytt tungumal veit

More information

Eðlishyggja í endurskoðun

Eðlishyggja í endurskoðun Eðlishyggja í endurskoðun Komiði sæl. Gaman að sjá ykkur svona mörg hér. Eins og Sigríður sagði er ég að vinna að doktorsritgerð í heimspeki þar sem reyni að færa frumspekileg rök fyrir konstrúktivisma

More information

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála

Samtök iðnaðarins. - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Samtök iðnaðarins - Viðhorf félagsmanna til Evrópumála Framkvæmdarlýsing - félagsmannakönnun Unnið fyrir Markmið Samtök iðnaðarins Að kanna viðhorf félagsmanna SI til Evrópumála og þróun þar á Framkvæmdatími

More information

Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið

Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni

More information

Tónlist og einstaklingar

Tónlist og einstaklingar Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar Kristinn Arnar Benjamínsson Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar

More information

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði.

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði. Spilin á borðið Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Spilin á borðið: Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina Kennsluáætlun haust 2018 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla. Tryggvi Guðbjörn Benediktsson. B.Sc. í Viðskiptafræði

Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla. Tryggvi Guðbjörn Benediktsson. B.Sc. í Viðskiptafræði Áhættusækni og kerfishugsun Persónueinkenni frumkvöðla Tryggvi Guðbjörn Benediktsson B.Sc. í Viðskiptafræði Vor 2012 Tryggvi Benediktsson Leiðbeinandi: Kt. 240789-2809 Arney Einarsdóttir Ágrip Persónuleiki

More information

Þetta var eiginlega nauðgun

Þetta var eiginlega nauðgun Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Þetta var eiginlega nauðgun Tælingar og blekkingar í kynferðislegum samskiptum Ritgerð til BA prófs í heimspeki Edda Thorarensen Kt.: 130484-2639 Leiðbeinandi:

More information

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Fólkstegundir. Um veitingu félagslegra eiginleika

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Fólkstegundir. Um veitingu félagslegra eiginleika Hugur 21. ár, 2009 s. 52 62 Ásta Kristjana Sveinsdóttir Fólkstegundir Um veitingu félagslegra eiginleika Um langt skeið hefur verið umræða í fræðaheiminum, jafnt sem annars staðar, um hvort ýmis fyrirbæri

More information

Atriði úr Mastering Metrics

Atriði úr Mastering Metrics Atriði úr Mastering Metrics Helgi Tómasson 13. september 2015 Helgi Tómasson Atriði úr Mastering Metrics 13. september 2015 1 / 11 Ýmis atriði ACA= Care Act er umdeilt efni í USA. Hafa heilbrigðistryggingar

More information

Áherslur Íslandsstofu á Asíu og aðra. vaxandi markaði. Kynning fyrir Íslensk Kínverska viðskiptaráðið 13. maí Þorleifur Þór Jónsson

Áherslur Íslandsstofu á Asíu og aðra. vaxandi markaði. Kynning fyrir Íslensk Kínverska viðskiptaráðið 13. maí Þorleifur Þór Jónsson Áherslur Íslandsstofu á Asíu og aðra vaxandi markaði Kynning fyrir Íslensk Kínverska viðskiptaráðið 13. maí 2015 Þorleifur Þór Jónsson Meginstoðir stefnu og lykilárangursþættir Aukning á gjaldeyristekjum

More information

Áhrif aldurs á skammtímaminni

Áhrif aldurs á skammtímaminni Háskóli Íslands 7.5.2000 Félagsvísindadeild Þroski og lífstíðarþróun (10.02.02) Áhrif aldurs á skammtímaminni Tryggvi R. Jónsson (191177-3989) Ólafur Magnússon Kennari: Sigurður J. Grétarsson Rannsókn

More information

BA ritgerð. Ég fékk sjálfa mig ekki einu sinni til að hvísla... ég líka

BA ritgerð. Ég fékk sjálfa mig ekki einu sinni til að hvísla... ég líka BA ritgerð Mannfræði Ég fékk sjálfa mig ekki einu sinni til að hvísla... ég líka #MeToo, bylting á samfélagsmiðlum Eygló Karlsdóttir Leiðbeinandi: Helga Þórey Björnsdóttir Júní 2018 Ég fékk sjálfa mig

More information

Náttúruhyggja Kants. Háskóli Íslands. Hugvísindasvið Heimspeki. Ævarandi friður sem markmið mannkynsins. Ritgerð til B.A.-prófs

Náttúruhyggja Kants. Háskóli Íslands. Hugvísindasvið Heimspeki. Ævarandi friður sem markmið mannkynsins. Ritgerð til B.A.-prófs Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Náttúruhyggja Kants Ævarandi friður sem markmið mannkynsins Ritgerð til B.A.-prófs Baldur Hrafn Vilmundarson Kt.: 180881-3879 Leiðbeinandi: Gunnar Harðarson Maí

More information

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR)

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) Aldur nemenda: 10 ára og upp úr Viðfangsefni: ofbeldi, einelti, samskipti Færnimarkmið: Hugtakaleikir ná að þjálfa flesta færniþætti samræðunnar Viðhorfamarkmið: Hugtakaleikir ná

More information

MA ritgerð. Ofbeldi karla gegn konum í parsamböndum

MA ritgerð. Ofbeldi karla gegn konum í parsamböndum MA ritgerð Félagsráðgjöf Ofbeldi karla gegn konum í parsamböndum Úttekt á gerendum sem leita til Karlar til ábyrgðar Ingibjörg Þórðardóttir Leiðbeinandi dr. Freydís Jóna Freysteinsdóttir Janúar 2014 Ofbeldi

More information

Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012

Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012 Þjónustukönnun 2012-1 Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012 Niðurstöður könnunar á viðhorfum fullorðinna legudeildarsjúklinga til þjónustu á Landspítala. Ábyrgðarmenn Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri

More information

Þú fæðist ekki kona, heldur verður kona.

Þú fæðist ekki kona, heldur verður kona. Félagsvísindasvið Þú fæðist ekki kona, heldur verður kona. Birtingarmynd kyngervis á vefsíðu Krakkarúv og hugsanleg áhrif þess á börn. Ritgerð til BA gráðu Nafn nemanda: Anna Kristjana Ó. Hjaltested Leiðbeinandi:

More information

Hugvísindasvið. Ábyrgð Vesturlanda. Berum við ábyrgð á að hjálpa fólki í þriðja heiminum? Ritgerð til B.A.-prófs.

Hugvísindasvið. Ábyrgð Vesturlanda. Berum við ábyrgð á að hjálpa fólki í þriðja heiminum? Ritgerð til B.A.-prófs. Hugvísindasvið Ábyrgð Vesturlanda Berum við ábyrgð á að hjálpa fólki í þriðja heiminum? Ritgerð til B.A.-prófs Naomi Lea Grosman Janúar 2010 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Ábyrgð Vesturlanda

More information

Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on.

Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on. Mánudagur 6. nóvember 2017. http://www.capfrance-terrou.com/ Rene about vocabulary Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on. Dvelopment

More information

Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu

Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu Ritgerð til BA prófs í listfræði Þóra Vilhjálmsdóttir Maí 2014 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Listfræði Sjáið og sannfærist! Máttur ímynda í sjónmenningu

More information

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban 8. febrúar 2013 Eiríkur Gestsson Um mig Eiríkur Gestsson Tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík 2004 Hugur hf. og HugurAx frá 2004 til

More information

Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi

Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2015 Yfirlit greina Guðrún V. Stefánsdóttir Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu

More information

Druslustimplun. Þetta er ekki manneskja fyrir þér, þetta er bara netið. Karen Dögg Bryndísar- og Karlsdóttir

Druslustimplun. Þetta er ekki manneskja fyrir þér, þetta er bara netið. Karen Dögg Bryndísar- og Karlsdóttir Druslustimplun Þetta er ekki manneskja fyrir þér, þetta er bara netið Karen Dögg Bryndísar- og Karlsdóttir Lokaverkefni til MA-gráðu í menntun framhaldsskólakennara Félags- og mannvísindadeild Háskóla

More information

Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft mér að

Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft mér að March 2008 Volume 3, Number 1 Flavio Baroncelli - Staðalímyndir og sannleikur 1 translated by Egill Arnarson Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft

More information

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Gagnvirkar töflur Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum Hólmfríður Ásmundsdóttir 270369-5459 Háskóli Íslands Menntavísindasvið Kennaradeild, grunnskólakennarafræði

More information

MA ritgerð. Drengir sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku af hálfu kvenna

MA ritgerð. Drengir sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku af hálfu kvenna MA ritgerð Félagsráðgjöf til starfsréttinda Drengir sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku af hálfu kvenna Áhrif á líf og líðan karlkyns þolenda Hilmar Jón Stefánsson Leiðbeinandi: Dr. Freydís Jóna

More information

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín Kennaraháskóli Íslands Kennsluréttindabraut Kennslufræði greinasviða og æfingakennsla Kennari: Elín María Thayer Ég sem kennari: Starfskenning mín Guðlaug Erlendsdóttir Nóvember 2007 Efnisyfirlit EFNISYFIRLIT...

More information

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Umfjöllun 1. Stutt lýsing á Mati á stuðningsþörf: SIS 2. Einstaklingsbundnar

More information

Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir

Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir Eru börn gerendur eða bjargarlausar verur? Stuðningur við börn foreldra með geðraskanir Ásthildur Embla Friðgeirsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði Júní 2015 Eru börn gerendur eða bjargarlausar

More information

Tengsl líkamsmyndar við kynhegðun unglinga

Tengsl líkamsmyndar við kynhegðun unglinga Hug- og félagsvísindasvið Sálfræði 2014 Tengsl líkamsmyndar við kynhegðun unglinga Andrea Elsa Ágústsdóttir Lokaverkefni við Hug- og félagsvísindasvið Hug- og félagsvísindasvið Sálfræði 2014 Tengsl líkamsmyndar

More information

Hugvísindasvið. Annað líf. Er réttlætanlegt að ætla samþykki fyrir líffæragjöf? Ritgerð til MA-prófs í hagnýtri siðfræði.

Hugvísindasvið. Annað líf. Er réttlætanlegt að ætla samþykki fyrir líffæragjöf? Ritgerð til MA-prófs í hagnýtri siðfræði. Hugvísindasvið Annað líf Er réttlætanlegt að ætla samþykki fyrir líffæragjöf? Ritgerð til MA-prófs í hagnýtri siðfræði Héðinn Árnason September 2012 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Hagnýt siðfræði Annað

More information

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum:

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild-menntavísindabraut Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Endurskoðun á forvörnum og eineltisstefnum í framhaldsskóla Eva Dröfn Möller Akureyri Júní, 2013 Háskólinn

More information

GREINAR UM BÆKUR ÁSTA KRISTJANA SVEINSDÓTTIR. Kvenna megin

GREINAR UM BÆKUR ÁSTA KRISTJANA SVEINSDÓTTIR. Kvenna megin GREINAR UM BÆKUR ÁSTA KRISTJANA SVEINSDÓTTIR Kvenna megin Sigríður Þorgeirsdóttir Kvenna megin: ritgerðir um femíníska heimspeki Hið íslenska bókmenntafélag, 2001 Mikið gleðiefni er að út sé komin bók

More information

Orðaforðanám barna Barnabók

Orðaforðanám barna Barnabók Orðaforðanám barna Barnabók Hrund Hermannsdóttir Lokaverkefni til B.ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari: Sigurður Konráðsson Kennaradeild Menntavísindasvið Háskóla Íslands Febrúar 2012 Ágrip

More information

Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra gatnamóta á umferðaröryggi

Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra gatnamóta á umferðaröryggi Áhrif staðsetningar og útfærslu mislægra Rannsóknarverkefni Vegagerðarinnar Janúar 206 www.vso.is Borgartún 20 585 9000 05 Reykjavík vso@vso.is 575 S:\205\575\v\Greinagerð\575_Greinargerð.docx Janúar 206

More information

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta?

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? www.ibr.hi.is Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? Erna Rós Kristinsdóttir Friðrik Eysteinsson Ritstjórar: Auður Hermannsdóttir Jón Snorri Snorrason Þóra Christiansen Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar

More information

Samtöl um dauðann. Fyrirbærafræðileg rannsókn á viðhorfum aldraðra til lífs og dauða og til meðferðar við lífslok. Ágrip

Samtöl um dauðann. Fyrirbærafræðileg rannsókn á viðhorfum aldraðra til lífs og dauða og til meðferðar við lífslok. Ágrip Samtöl um dauðann Fyrirbærafræðileg rannsókn á viðhorfum aldraðra til lífs og dauða og til meðferðar við lífslok Helga Hansdóttir 1 sérfræðingur í lyf- og öldrunarlækningum Sigríður Halldórsdóttir 2 hjúkrunarfræðingur,

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vorönn 2019 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

Skýrsla starfshóps sem á að finna leiðir til að sporna gegn heimilisofbeldi sem hinsegin fólk verður fyrir

Skýrsla starfshóps sem á að finna leiðir til að sporna gegn heimilisofbeldi sem hinsegin fólk verður fyrir 12.01.2018 Skýrsla starfshóps sem á að finna leiðir til að sporna gegn heimilisofbeldi sem hinsegin fólk verður fyrir Efnisyfirlit 1. Inngangur... 2 2. Skilgreiningar... 3 3. Hinsegin fólk og heimilisofbeldi...

More information

Kona með vindinn í andlitið

Kona með vindinn í andlitið Kona með vindinn í andlitið Skynjun á umhverfi út frá habitus og hlutverki Linda Friðjónsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði Félagsvísindasvið Kona með vindinn í andlitið Skynjun á umhverfi út

More information

Ferhyrningurinn: Myndræn framsetning á ársreikningi

Ferhyrningurinn: Myndræn framsetning á ársreikningi www.ibr.hi.is Ferhyrningurinn: Myndræn framsetning á ársreikningi Einar Guðbjartsson Ritstjórar: Kári Kristinsson Magnús Pálsson Þórður Óskarsson Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands: Erindi

More information

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness Hagir og líðan barna í Grunnskóla s Niðurstöður rannsókna meðal nemenda í., 6. og 7. bekk á i árið 27 Birna Baldursdóttir Margrét Lilja Guðmundsdóttir Álfgeir Logi Kristjánsson Inga Dóra Sigfúsdóttir Jón

More information

Sjálfið á tímum stafræns veruleika

Sjálfið á tímum stafræns veruleika Sjálfið á tímum stafræns veruleika Upplifun einstaklinga af samskiptum í gegnum samfélagsmiðla, togstreita, áhrifastjórnun og skert geta til alhæfingar um mótleikara í stafrænum samskiptum. Lokaverkefni

More information

Stúlkur og Asperger-heilkenni

Stúlkur og Asperger-heilkenni Stúlkur og Asperger-heilkenni Kynbundin áhrif heilkennisins á sjálfsmynd og félagslega stöðu Berglind Harpa Björnsdóttir Sally Ann Vokes Lokaverkefni til B.A.-prófs Þroskaþjálfadeild Stúlkur og Asperger-heilkenni

More information

Sjúkdómsvæðing hegðunar:

Sjúkdómsvæðing hegðunar: Lokaverkefni til MA prófs í félagsfræði Sjúkdómsvæðing hegðunar: Hlutverk skólans í greiningarferli ADHD Anna Soffía Víkingsdóttir Febrúar 2016 Sjúkdómsvæðing hegðunar: Hlutverk skólans í greiningarferli

More information

Tengsl skotleikjaspilunar og árásarhneigðar.

Tengsl skotleikjaspilunar og árásarhneigðar. Tengsl skotleikjaspilunar og árásarhneigðar. Greining á rannsókn meðal grunnskólabarna á Íslandi Arnór Helgi Knútsson HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni til BA gráðu í Sálfræði Sálfræðideild Maí 2015

More information

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn?

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut 29 Lesum saman Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Guðríður Anna Sveinsdóttir Lokaverkefni Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild

More information

10. kafli fordómar og mismunun

10. kafli fordómar og mismunun 10. kafli fordómar og mismunun Eðli og víddir fordóma (nature and dimensions of prejudice) Þegar einn hópur fólks hatar annan hóp svo mikið að þeir geta af ásettu ráði pynt og myrt saklausa óbreytta borgara

More information

Sjálfræði og ófrjósemisaðgerðir á konum með þroskahömlun

Sjálfræði og ófrjósemisaðgerðir á konum með þroskahömlun Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2011 Guðrún V. Stefánsdóttir Sjálfræði og ófrjósemisaðgerðir á konum með þroskahömlun Greinin fjallar um eigindlega rannsókn sem beinist

More information

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun Eru hjúkrunarfræðinemar fórnfúsari en hjúkrunarfræðingar?

MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun Eru hjúkrunarfræðinemar fórnfúsari en hjúkrunarfræðingar? MS ritgerð Stjórnun og stefnumótun Eru hjúkrunarfræðinemar fórnfúsari en hjúkrunarfræðingar? Eva Rún Michelsen Leiðbeinandi Kári Kristinsson Viðskiptafræðideild September 2011 Eru hjúkrunarfræðinemar fórnfúsari

More information

Ronald Postma: Kitchen appliance to grow mushrooms was the project. Plugin Neon for Rhino and downloaded Bongo.

Ronald Postma: Kitchen appliance to grow mushrooms was the project. Plugin Neon for Rhino and downloaded Bongo. Week 3: Computer Controlled Cutting 11.2. 2015 This week we will learn about the mechanical application of computer aided design. The assignment for this week is to design, make, and document a press-

More information

Tak burt minn myrka kvíða

Tak burt minn myrka kvíða Lokaverkefni til BA-prófs í félagsfræði Tak burt minn myrka kvíða Sorgarferli aðstandenda eftir sjálfsvíg Katrín Gunnarsdóttir febrúar 2017 Tak burt minn myrka kvíða Sorgarferli aðstandenda eftir sjálfsvíg

More information

Ágúst Einarsson. Erindi á málstofu um menningarhagfræði 11. nóv. 2003

Ágúst Einarsson. Erindi á málstofu um menningarhagfræði 11. nóv. 2003 Ágúst Einarsson Erindi á málstofu um menningarhagfræði 11. nóv. 2003 1. Lesefni og skilgreining (glærur 2-3) 2. List innan hagfræðinnar (glærur 4-10) 3. Hagræn áhrif menningar á Íslandi (glærur 11-17)

More information

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu

Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Háskóli Íslands 3.4.2006 Viðskipta- og hagfræðideild Vinnusálfræði Vor 2006 Val starfsmanna og starfa til fjarvinnu Tryggvi R. Jónsson Kennari: Hafsteinn Bragason og Ægir Már Þórisson Fjarvinna 2 Val starfa

More information

Ég nota alla lausa tíma sem ég hef

Ég nota alla lausa tíma sem ég hef Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 22. desember 2014 Yfirlit greina Hjördís Sigursteinsdóttir, Eva Halapi og Kjartan Ólafsson Ég nota alla lausa tíma sem ég hef Netnotkun íslenskra ungmenna

More information

Á meðan það er eftirspurn er framboð Klám- og kynlífsvæðing í vestrænni menningu. Jónína Guðný Bogadóttir. Lokaverkefni til BA gráðu í félagsfræði

Á meðan það er eftirspurn er framboð Klám- og kynlífsvæðing í vestrænni menningu. Jónína Guðný Bogadóttir. Lokaverkefni til BA gráðu í félagsfræði Á meðan það er eftirspurn er framboð Klám- og kynlífsvæðing í vestrænni menningu Jónína Guðný Bogadóttir Lokaverkefni til BA gráðu í félagsfræði Félagsvísindasvið Á meðan það er eftirspurn er framboð Klám

More information

Úrskurður Einkaleyfastofunnar. í andmælamáli. nr. 2/2012. Rolex SA, Sviss. gegn. Prolex ehf, Íslandi

Úrskurður Einkaleyfastofunnar. í andmælamáli. nr. 2/2012. Rolex SA, Sviss. gegn. Prolex ehf, Íslandi Úrskurður Einkaleyfastofunnar í andmælamáli nr. 2/2012 Rolex SA, Sviss gegn Prolex ehf, Íslandi Málsatvik: Þann 8. febrúar 2011 lagði Unnar Steinn Bjarndal, f.h Prolex ehf., Hafnargötu 51-55, 230 Reykjanesbæ,

More information

Atferlisgreining sem einn af hornsteinum markaðsfræðinnar

Atferlisgreining sem einn af hornsteinum markaðsfræðinnar ISSN 1670-7168 INSTITUTE OF BUSINESS RESEARCH WORKING PAPER SERIES W06:01 September 2006 Atferlisgreining sem einn af hornsteinum markaðsfræðinnar Valdimar Sigurðsson Þórhallur Guðlaugsson Valdimar Sigurðsson,

More information

Skilgreining á hugtakinu tómstundir

Skilgreining á hugtakinu tómstundir Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2010 Vanda Sigurgeirsdóttir Skilgreining á hugtakinu tómstundir Í greininni er leitast við að skilgreina hugtakið tómstundir (e. leisure).

More information

Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf. Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir og Kristín Dýrfjörð

Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf. Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir og Kristín Dýrfjörð Athugið ritið er ekki prófarkalesið Röggur Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir gudrun@unak.is og Kristín Dýrfjörð dyr@unak.is 1 tbl. 4.

More information

Fastar á jaðrinum? Staða farandverkakvenna í Peking. Sigrún K. Valsdóttir. Lokaverkefni til MA gráðu í mannfræði.

Fastar á jaðrinum? Staða farandverkakvenna í Peking. Sigrún K. Valsdóttir. Lokaverkefni til MA gráðu í mannfræði. Fastar á jaðrinum? Staða farandverkakvenna í Peking Sigrún K. Valsdóttir Lokaverkefni til MA gráðu í mannfræði Félagsvísindasvið Fastar á jaðrinum? Staða farandverkakvenna í Peking Sigrún K. Valsdóttir

More information

Vefurinn hverfuli: Mannfræði Internetsins Hrafnhildur Faulk Lokaverkefni til BA gráðu í Mannfræði Félagsvísindasvið

Vefurinn hverfuli: Mannfræði Internetsins Hrafnhildur Faulk Lokaverkefni til BA gráðu í Mannfræði Félagsvísindasvið Vefurinn hverfuli: Mannfræði Internetsins Hrafnhildur Faulk Lokaverkefni til BA gráðu í Mannfræði Félagsvísindasvið Vefurinn hverfuli: Mannfræði Internetsins Hrafnhildur Faulk Lokaverkefni til BA-gráðu

More information

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Syngjum saman. -vefur með sönglögum, texta og gripum- Dagmar Þórdísardóttir

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Syngjum saman. -vefur með sönglögum, texta og gripum- Dagmar Þórdísardóttir Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Syngjum saman -vefur með sönglögum, texta og gripum- Dagmar Þórdísardóttir Kennaraháskóli Íslands Kennarabraut, leikskólakennarafræði Maí 2008 Lokaverkefni til B.Ed. -prófs

More information

Tengsl ófrjósemi og tilfinninga

Tengsl ófrjósemi og tilfinninga Tengsl ófrjósemi og tilfinninga Áhrif ófrjósemi á einstaklinga Elín Heiða Ólafsdóttir Íris Stella Sverrisdóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni til BA gráðu í sálfræði Hug- og félagsvísindadeild

More information

Íslenskir kynferðisbrotamenn.

Íslenskir kynferðisbrotamenn. Tímarit félagsráðgjafa, 2. árgangur 2007, 15 24 15 Íslenskir kynferðisbrotamenn. Greining út frá svörum brotaþola Hildigunnur Magnúsardóttir, Félagsráðgjafi, Kvenna- og barnasvið, Landspítali Háskólasjúkrahús

More information

BA ritgerð. Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna

BA ritgerð. Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna BA ritgerð Félagsráðgjöf Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna Úrræði Hekla Dögg Ásmundsdóttir Gyða Hjartardóttir Maí 2017 Tengsl milli ADHD og vímuefnaneyslu barna og ungmenna Úrræði

More information

Á vaktinni með sveigjanlegum stöðugleika. Hildur Fjóla Antonsdóttir Guðbjörg Linda Rafnsdóttir Herdís Sveinsdóttir Hólmfríður K.

Á vaktinni með sveigjanlegum stöðugleika. Hildur Fjóla Antonsdóttir Guðbjörg Linda Rafnsdóttir Herdís Sveinsdóttir Hólmfríður K. Á vaktinni með sveigjanlegum stöðugleika Hildur Fjóla Antonsdóttir Guðbjörg Linda Rafnsdóttir Herdís Sveinsdóttir Hólmfríður K. Gunnarsdóttir Skýrsla Rannsóknastofu í vinnuvernd unnin fyrir starfshóp um

More information

Algengi kynferðislegrar áreitni og ofbeldis gegn íslenskum unglingum

Algengi kynferðislegrar áreitni og ofbeldis gegn íslenskum unglingum http://dx.doi.org/10.17992/lbl.2016.06.87 RANNSÓKN Algengi kynferðislegrar áreitni og ofbeldis gegn íslenskum unglingum Ársæll Már Arnarsson 1 faraldsfræðingur, Kristín Heba Gísladóttir 1 sérfræðingur

More information

2

2 Hugvísindadeild Þar sem hættan er... Vandamálið um gleymsku í heimspeki Kierkegaards og Heideggers Ritgerð til BA. prófs Jóhann Helgi Heiðdal Maí 2009 2 Háskóli Íslands Hugvísindadeild Heimspekiskor Þar

More information

Facebook og flokkarnir: Rannsókn á notkun íslenskra stjórnmálaflokka á samfélagsmiðlum

Facebook og flokkarnir: Rannsókn á notkun íslenskra stjórnmálaflokka á samfélagsmiðlum n Fræðigreinar STJÓRNMÁL Facebook og flokkarnir: Rannsókn á notkun íslenskra stjórnmálaflokka á samfélagsmiðlum Baldvin Þór Bergsson, doktorsnemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands Útdráttur Vægi samfélagsmiðla

More information

Félags- og mannvísindadeild

Félags- og mannvísindadeild Félags- og mannvísindadeild MA-ritgerð Þjóðfræði kryddar sig sjálft Náttúra-Hefð-Staður Jón Þór Pétursson Október 2009 1 Leiðbeinandi: Valdimar Tr. Hafstein Nemandi: Jón Þór Pétursson Kennitala: 271179-4649

More information

Henry Miller: Listamaðurinn gegn heiminum

Henry Miller: Listamaðurinn gegn heiminum Hugvísindasvið Henry Miller: Listamaðurinn gegn heiminum Greining á virkni listamannsins í verkum Henry Millers Ritgerð til M.A.-prófs Atli Sigurjónsson Maí 2011 2 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Almenn

More information

Þetta er minn líkami en ekki þinn

Þetta er minn líkami en ekki þinn Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2011 Kristín Björnsdóttir Þetta er minn líkami en ekki þinn Sjálfræði og kynverund kvenna með þroskahömlun Í samningi Sameinuðu þjóðanna

More information

Hvert er heimurinn að stefna? Mannfræðileg sýn á póstkapítalisma í nútímasamfélögum

Hvert er heimurinn að stefna? Mannfræðileg sýn á póstkapítalisma í nútímasamfélögum Hvert er heimurinn að stefna? Mannfræðileg sýn á póstkapítalisma í nútímasamfélögum Regína Márusdóttir Lokaverkefni til BA- gráðu í mannfræði Félagsvísindasvið Hvert er heimurinn að stefna? Mannfræðileg

More information

Umhverfissálfræði. Áhrif fjölbreytilegra götumynda á sálfræðilega endurheimt. Sigurgeir Thoroddsen

Umhverfissálfræði. Áhrif fjölbreytilegra götumynda á sálfræðilega endurheimt. Sigurgeir Thoroddsen Umhverfissálfræði Áhrif fjölbreytilegra götumynda á sálfræðilega endurheimt Sigurgeir Thoroddsen Lokaverkefni til BS-gráðu Sálfræðideild Heilbrigðisvísindasvið Umhverfissálfræði Áhrif fjölbreytilegra götumynda

More information

Elli. Ari Hlynur Guðmundsson. Lokaritgerð til BA-prófs Listaháskóli Íslands Hönnunar- og arkitektúrdeild

Elli. Ari Hlynur Guðmundsson. Lokaritgerð til BA-prófs Listaháskóli Íslands Hönnunar- og arkitektúrdeild Elli Barnabók um ADHD Ari Hlynur Guðmundsson Lokaritgerð til BA-prófs Listaháskóli Íslands Hönnunar- og arkitektúrdeild Elli Barnabók um ADHD Ari Hlynur Guðmundsson Lokaverkefni til BA-prófs í grafískri

More information

Forspjall um forvera

Forspjall um forvera Efnisyfirlit Forspjall um forvera... 2 Garðurinn I... 3 Þekkingarfræði... 6 Leiðin að farsæld líkaminn... 11 Ánægja, farsæld og hið góða líf... 14 Leiðin að farsæld hugurinn... 18 Ánægja og sársauki...

More information

Þeir vilja ekki leika, bara tala saman

Þeir vilja ekki leika, bara tala saman Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóli Íslands Ritrýnd grein birt 28. desember 2017 Yfirlit greina Sara M. Ólafsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir Þeir vilja ekki leika, bara tala

More information

KYNFERÐISOFBELDI GEGN BÖRNUM. Sifjaspell og afleiðingar þeirra

KYNFERÐISOFBELDI GEGN BÖRNUM. Sifjaspell og afleiðingar þeirra KYNFERÐISOFBELDI GEGN BÖRNUM Sifjaspell og afleiðingar þeirra KYNFERÐISOFBELDI GEGN BÖRNUM sifjaspell og afleiðingar þeirra Dr. Guðrún Jónsdóttir félags ráð gjafi tók bækling inn saman í samvinnu við konur

More information

Strákar geta haft svo mikil völd

Strákar geta haft svo mikil völd Strákar geta haft svo mikil völd Upplifun stúlkna á kynlífsmenningu framhaldsskólanema Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir Lokaverkefni til MA-gráðu í kynjafræði Leiðbeinandi: Dr. Þorgerður Einarsdóttir Stjórnmálafræðideild

More information

Alzheimers-sjúkdómur. Jón Snædal yfirlæknir, öldrunarlækningadeild

Alzheimers-sjúkdómur. Jón Snædal yfirlæknir, öldrunarlækningadeild Alzheimers-sjúkdómur Jón Snædal yfirlæknir, öldrunarlækningadeild LSH Landakoti Hvað er Alzheimers-sjúkdómur? Alzheimers-sjúkdómur er hrörnunarsjúkdómur í heila og er án þekktrar ástæðu í flestum tilfellum.

More information

Samtal er sorgar læknir

Samtal er sorgar læknir Samtal er sorgar læknir Leiðirnar til betra lífs Áslaug Tóka Gunnlaugsdóttir 221274-6019 Lokaverkefni til MA- prófs í Hagnýtri Menningarmiðlun Leiðbeinendur; Ármann H. Gunnarsson og Sumarliði Ísleifsson

More information

Er gildismat íslenskra skólastjóra ólíkt eftir kynferði?

Er gildismat íslenskra skólastjóra ólíkt eftir kynferði? Tímarit um menntarannsóknir, 1. árg. 2004, 71-82 71 Er gildismat íslenskra skólastjóra ólíkt eftir kynferði? Anna Guðrún Edvardsdóttir Náttúrustofa Vestfjarða Í þessari grein er fjallað um niðurstöðu rannsóknar

More information

Máltaka barna. Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir

Máltaka barna. Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir Máltaka barna Hvernig fer hún fram og hvernig má örva hana? Elsa Hannesdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari: Sigurður Konráðsson Kennaradeild Menntavísindasvið Háskóla

More information

Að heiman. Aðskilnaður og heimþrá. Ágrip. Aðskilnaður frá foreldrum til styttri eða lengri tíma getur haft ýmsar afleiðingar í för með sér.

Að heiman. Aðskilnaður og heimþrá. Ágrip. Aðskilnaður frá foreldrum til styttri eða lengri tíma getur haft ýmsar afleiðingar í för með sér. Að heiman Aðskilnaður og heimþrá Guðrún Helga Ástríðardóttir, ghe8@hi.is Nemi í uppeldis og menntunarfræði Sveinbjörg Zophoníasdóttir, svz2@hi.is Nemi í uppeldis og menntunarfræði Ágrip Aðskilnaður frá

More information

Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna

Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna Tímarit um menntarannsóknir, 1. árg. 2004, 9-17 9 Engin er rós án þyrna : Hlutverk, reglur og verkfæri í þróun rannsókna M. Allyson Macdonald Kennaraháskóla Íslands Inngangserindi á ráðstefnu 22. nóvember

More information

Listaháskóli Íslands Leiklistar og dansdeild Samtímadans. Getur dans og hreyfimeðferð haft jákvæð og gagnleg áhrif á einstaklinga með geðhvarfasýki?

Listaháskóli Íslands Leiklistar og dansdeild Samtímadans. Getur dans og hreyfimeðferð haft jákvæð og gagnleg áhrif á einstaklinga með geðhvarfasýki? Listaháskóli Íslands Leiklistar og dansdeild Samtímadans Getur dans og hreyfimeðferð haft jákvæð og gagnleg áhrif á einstaklinga með geðhvarfasýki? Arndís Benediktsdóttir Leiðbeinandi: Ásgerður G. Gunnarsdóttir

More information

Femínismi. - kenningar í mannfræði og íslenskur veruleiki. Assa Sólveig Jónsdóttir Hansen. Lokaverkefni til BA-gráðu í mann- og fjölmiðlafræði

Femínismi. - kenningar í mannfræði og íslenskur veruleiki. Assa Sólveig Jónsdóttir Hansen. Lokaverkefni til BA-gráðu í mann- og fjölmiðlafræði Femínismi - kenningar í mannfræði og íslenskur veruleiki Assa Sólveig Jónsdóttir Hansen Lokaverkefni til BA-gráðu í mann- og fjölmiðlafræði Félagsvísindasvið Femínismi - kenningar í mannfræði og íslenskur

More information

Róma. Etnísk skilgreining og sköpun. Silja Lind Haraldsdóttir. Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði. Félagsvísindasvið

Róma. Etnísk skilgreining og sköpun. Silja Lind Haraldsdóttir. Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði. Félagsvísindasvið Róma Etnísk skilgreining og sköpun Silja Lind Haraldsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu í mannfræði Félagsvísindasvið Róma Etnísk skilgreining og sköpun Silja Lind Haraldsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu

More information

Femínísk þekkingarfræði

Femínísk þekkingarfræði Hugvísindasvið Femínísk þekkingarfræði Kynbundin þekking og femínísk sjónarhornsfræði Ritgerð til B.A.-prófs Hrund Malín Þorgeirsdóttir Maí 2012 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Femínísk þekkingarfræði

More information

Undir himni fjarstæðunnar

Undir himni fjarstæðunnar Hugvísindasvið Undir himni fjarstæðunnar Úttekt á fjarstæðri rökhugsun Alberts Camus Ritgerð til B.A.-prófs Alexander Stefánsson Janúar 2012 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Heimspeki Undir himni fjarstæðunnar

More information