KYNFERÐISEINELTI Í ÍSLENSKRI SKÓLAMENNINGU

Size: px
Start display at page:

Download "KYNFERÐISEINELTI Í ÍSLENSKRI SKÓLAMENNINGU"

Transcription

1 KYNFERÐISEINELTI Í ÍSLENSKRI SKÓLAMENNINGU RANNVEIG ÁGÚSTA GUÐJÓNSDÓTTIR LEIÐBEINANDI: GYÐA MARGRÉT PÉTURSDÓTTIR RANNSÓKNIN ER UNNIN FYRIR TILSTUÐLAN STYRKTARSJÓÐS MARGARETAR OG BENTS SCHEVINGS THORSTEINSSONAR VIÐ HÁSKÓLA ÍSLANDS

2 Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir Reykjavík, 2017 Skýrsla þessi er óútgefin og því er óheimilt að afrita hana á nokkurn hátt nema með leyfi höfunda. 1

3 Helstu niðurstöður Kynferðiseinelti er regnhlífarhugtak sem nær yfir birtingarmyndir þess eineltis sem beinist að kynferði þess sem fyrir því verður, undir þeim formerkjum að viðkomandi sýni ekki ásættanlegan kvenleika eða karlmennsku. Kynferðiseinelti getur meðal annars komið fram í kynferðislegri áreitni, druslustimplun og hinsegineinelti. Hunsun á kynjamisrétti meðal barna og unglinga í skólamenningunni virðist skapa jarðveg fyrir kynferðiseinelti. Skortur er á fræðslu um kynjanorm, jafnréttismál, hinseginmálefni, ofbeldi og áreitni. Skortur á fræðslu virtist eiga stóran þátt í því að kynferðiseinelti var viðtekið í skólamenningu viðmælenda. Kynferðiseinelti getur átt þátt í að móta kvenleika og karlmennsku barna og unglinga. Það að hafa upplifað kynferðislega áreitni, druslustimplun eða hinsegineinelti gerði það að verkum að viðmælendur reyndu að breyta hegðun sinni og laga hana á einhvern hátt að hugmyndum um ásættanlegan kvenleika eða karlmennsku. Reynslan hafði mikil áhrif á alla viðmælendur og afleiðingar hennar komu meðal annars fram í hamlandi óöryggi, neikvæðum áhrifum á nám og skólagöngu ásamt þeim áhrifum sem reynslan hafði á kynverund viðmælenda. Afleiðingar kynferðiseineltis birtust einnig í mikilli skömm og þeir viðmælendur sem urðu fyrir kynferðislegri áreitni og druslustimplun upplifðu sig flekkaðar og um leið heppnar að ekki fór verr. Að mati viðmælenda gat það að stofna til gagnkynhneigðra sambanda virkað sem sönnun þess að stúlka sé nógu kvenleg til að laða að sér mann, en sé þó ekki of kynferðisleg eða drusla. Það að eiga kærasta virðist þannig geta losað unglingsstúlkur undan druslustimplun. 2

4 Efnisyfirlit Inngangur... 4 Kynferðiseinelti... 5 Af hverju kynferðiseinelti?... 5 Hvað er kynferðiseinelti?... 5 Kynjamisrétti í skólamenningunni Gögn og aðferðir Þátttakendur Framkvæmd Greining og siðferðilegir þættir Niðurstöður Kynjamisrétti viðtekið Samantekt Skortur á fræðslu Samantekt Mótun kyngervis og kynhneigðar Samantekt Afleiðingar Áhrif á nám Áhrif á kynverund Heppin og um leið flekkuð Samantekt Tillögur að úrbótum Heimildir

5 Inngangur Langflestar rannsóknir um ofbeldi og áreitni í skólum snúast um líkamlegt eða andlegt einelti auk þess sem sjónum hefur nýlega einnig verið beint að rafrænu einelti. Mun minna er af rannsóknum og umfjöllun um kynferðislega áreitni og einelti sem beinist að kyni brotaþola innan skóla (Helseth, 2007; Witkowska, 2005). Lítið sem ekkert virðist vera til hérlendis af fræðilegu efni um tengsl eineltis við valdamisræmi kynjanna í samfélaginu og birtingamyndir kynjaðs valdamisræmis í upplifunum barna og unglinga af einelti og skólamenningu. Þær viðbragðsáætlanir og rannsóknir sem eru til staðar um einelti í íslenskri skólamenningu gefa til kynna að einelti þrífist en einnig að meðvitund sé um vandann og reynt sé að vinna gegn honum. Það sést til að mynda í því að íslenskir skólar eru skyldugir til að hafa einhverskonar áætlun til að sporna gegn einelti auk þess að vera aðgerðaskildir ef eineltismál koma upp (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2012; Mennta- og menningarmálaráðurneytið, 2014). Því má ætla að almennt sé tekið mjög alvarlega á einelti í skólum og virðist forvarnarstarf, meðvitund og viðbragðsáætlanir mun markvissari þegar um eineltismál er að ræða en kynferðislega áreitni og einelti sem snýr að kynferði brotaþola (Lipson, 2001). Í umfjöllun um einelti virðist gjarnan horft fram hjá samþættingu ýmissa mismunarbreyta á borð við kynferði og kynhneigð þegar kemur að einelti. Einelti sem snýr að kynferði einstaklinga er gjarnan útskýrt sem náttúrulegur eða eðlilegur hluti af þroskaferli barna og unglinga auk þess sem umfjöllun um einelti er oftast kynhlutlaus (Aaltonen, 2003; Lehtonen, 2003). Markmið þessarar könnunarrannsóknar (e. exploratory research) er tvíþætt, annars vegar að skýra og þróa hugtakið kynferðiseinelti og hins vegar að lýsa upplifun níu ungmenna af kynferðiseinelti í íslenskri skólamenningu. Í skýrslunni er spurt: Hvað er kynferðiseinelti, hvernig birtist það í íslenskri skólamenningu og hverjar eru afleiðingar þess? 4

6 Kynferðiseinelti Af hverju kynferðiseinelti? Orðið kynferðiseinelti hefur ekki fengið fræðilega umfjöllun hérlendis áður. Því er mikilvægt að gera grein fyrir því hvers vegna einmitt þetta orð er talið henta betur en önnur. Þar sem að hugtakið kynferðiseinelti er hér sett fram sem regnhlífarhugtak sem hýsir margar ólíkar birtingarmyndir er mikilvægt að það orð sem er notað nái utan um þær birtingarmyndir. Kynferði hefur bæði verið notað sem þýðing á kyni (e. sex) og kyngervi (e. gender). Orðið getur þannig bæði náð utan um líffræðilegan mun kynjanna, flokkun við fæðingu sem kona eða karl, en felur einnig í sér ákveðinn samfélagslegan mun sem gerður er á kynjunum, í karlmennsku og kvenleika, með því að vísa til ólíkra kynhlutverka og kynhegðunar. Notkun á orðinu kynferði virðist yfirleitt gera ráð fyrir að kyn og kyngervi passi saman og sé innan tvíhyggju karl- eða kvenkyns, með öðrum orðum þá er gert ráð fyrir því að fólk sé sís-kynja (e. cisgender). Það að vera kynsegin felur í sér að kynvitund viðkomandi fellur fyrir utan tvíhyggju karl eða kvenkyns (Samtökin 78 og Reykjavíkurborg, 2015). Hér verður orðið kynferði notað í þessu víðara samhengi. Orðið kynferðiseinelti er einnig að hluta til byggt á enska hugtakinu gendered bullying sem vísar til kyngervis sem aðal útgangspunkt eineltisins. Fyrir utan það hvað kyngerviseinelti er óþjált þá þótti það orð ekki ná nægilega vel utan um þá birtingarmynd eineltisins sem beinist að kyni, kyngervi og kynvitund. Hvað er kynferðiseinelti? Megintilgangur kynferðiseineltis er að móta viðkomandi inn í ásættanlegan kvenleika eða karlmennsku (Gustavsson, 2012; Jämställdhetsombudsmannen, 2000). Með því að tala um ásættanlegan kvenleika og karlmennsku er átt við að á hverjum tíma og á hverjum stað sé til einhverskonar samfélagslega ráðandi karlmennska og viðurkenndur kvenleiki sem fólki sé mótað inn í og gert að sýna (R. Connell, 2005; Jämställdhetsombudsmannen, 2000; Schippers, 2007). Með mótun er átt við félagsmótun á áðurnefndri karlmennsku og kvenleika, sem byggir á skyldubundinni gagnkynhneigð, en sú mótun fer að miklu leiti fram í skólakerfinu og er partur af hinni duldu námskrá skólakerfisins (sjá einnig Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2004). 5

7 Kynferðiseinelti getur þannig haft kyn, kyngervi, kynvitund og kynhneigð þess sem fyrir því verður sem útgangspunkt. Kynferðiseinelti í skólum á rætur að rekja til viðtekinna viðhorfa og staðalímynda um kynhlutverk. Kynferðiseinelti byggir einnig á kynjuðu valdamisræmi sem ríkir í skólamenningunni og getur birst í niðrandi orðum, hegðun og andrúmslofti (Gustavsson, 2012; Helseth, 2007; Jämställdhetsombudsmannen, 2000; Lehtonen, 2003). Í reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum (nr. 1009/2015: 1) er einelti skilgreint sem [s]íendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Kynferðiseinelti getur, líkt og annað einelti, verið líkamlegt, andlegt og kynferðislegt, komið fram í orðum, hunsunum eða rafrænt (Helseth, 2007). En auk þess getur kynferðiseinelti einnig komið fram í öráreitni. Öráreitni (e. microaggressions) var fyrst sett fram í tengslum við rasisma þó að hugtakið nái vissulega einnig yfir upplifun annarra jaðarhópa á borð við hinsegin fólk og fatlað fólk. Öráreitni er dulin og lúmsk mismunun eða fordómar sem er aðalega beint að jaðarsettum hópum. Undir öráreitni falla orð, raddblær, hunsun og viðmót, í samskiptum fólks. Þessi atvik getur oft reynst erfitt að útskýra eða greina nákvæmlega og þau virðast því smávægileg ein og sér en hafa mikil áhrif þegar fólk í jaðarsettri stöðu upplifir slík atvik jafnvel oft á dag (Keller og Galgay, 2010; Pierce, Carew, Pierce- Gonzalez og Willis, 1978). Kynferðiseinelti er ekki aðeins eitthvað sem gerist á milli drengja og stúlkna heldur einnig innan drengja- og stúlknahópa, sem hafa aðlagast skólamenningunni og standa vörð um þau viðmið og gildi sem ríkja um karlmennsku og kvenleika (Gustavsson, 2012). Hér verða útskýrðar helstu birtingarmyndir kynferðiseineltis: Kynferðisleg áreitni Kynferðisleg áreitni er [h]vers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi það á einkum við þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg (lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 : 2.gr). Kynferðisleg áreitni viðgengst í grunnskólum og menntaskólum, stúlkur eru líklegri til að verða fyrir kynferðislegri áreitni en drengir og það eru yfirleitt drengir á sama aldri og stúlkurnar sem beita henni. Algengast er að stúlkur verði fyrir kynferðislegri áreitni í formi kynferðislegra og niðurlægjandi orða eða brandara. Flestar forðast 6

8 þær hins vegar að skilgreina hegðunina sem kynferðislega áreitni, meðal annars vegna þess að þær vilja ekki vera álitnar fórnarlömb (Ambjörnsson, 2004; Gådin, 2012; Osbeck, 2003; Witkowska, 2005). Kynferðiseinelti í formi kynferðislegrar áreitni birtist sem sífelldur þrýstingur um að sýna brjóst eða kynfæri, tala um kynlíf, horfa á klám auk þess sem menningin í skólastofunni eða í frímínútum er með þeim hætti að nemendur, oftast stúlkur, eru hlutgerðar í orðum og hegðun (Gådin, 2012; Gustavsson, 2012; Helseth, 2007; Huuki, 2003; Jämställdhetsombudsmannen, 2000; Witkowska, 2005). Druslustimplun Stúlkur sem haga sér á skjön við venjur um það sem þykir viðeigandi samkvæmt hefðbundnum hugmyndum um konur og kvenleika geta verið kallaðar druslur. Silja Bára Ómarsdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir (2015) hafa þýtt enska hugtakið slut-shaming sem drusluskömm eða druslusmánun og telja það fela í sér framkomu gagnvart, sér í lagi konum og stúlkum, sem einkennist af tilraunum til að láta þær skammast sín fyrir að sýna tiltekna kynferðislega hegðun. Hugtakið drusluskömm nær utan um þá djúpstæðu skömm sem fylgir því að vera talin drusla og þannig gerð ábyrgð fyrir neikvæðum upplifunum, ofbeldi eða áreitni undir þeim formerkjum að druslur geti sjálfum sér um kennt. Karen Dögg Bryndísar-og Karlsdóttir (2015) hefur valið að þýða slut-shaming sem druslustimplun þar sem það lýsi betur eineltinu sem druslustimplun felur í sér. Félagsfræðikenningar um stimplun lýsa því að hegðun, sem skilgreind hefur verið frávikshegðun af samfélaginu, kallar oft á félagsleg viðbrögð sem verða til þess að gjörbreyta samfélagslegri stöðu og sjálfsmynd hins stimplaða fráviks (Jón Gunnar Bernburg, 2005). Hér verður notast við orðið druslustimplun þar sem það fellur betur að upplifun viðmælenda. Reynsla kvenna og stúlkna einkennist því oft þeirri upplifun að vera fordæmdar fyrir að hegða sér eða vera á ákveðinn hátt en líka fordæmdar fyrir að vera það ekki (e. damned if you do, damned if you don t). Leið unglingsstúlkna að hinum ásættanlega kvenleika liggur þannig í gegnum það finna að jafnvægi á milli tveggja óæskilegra ímynda: 1) óaðlaðandi, ókvenlegu konunnar 2) lauslátu, alltof kynferðislega virku druslunnar (Aaltonen, 2003; Ambjörnsson, 2004; Reay, 2001). Hinseginseinelti 7

9 Það að vera með aðra kynhneigð en gagnkynhneigð eða kyngervi sem ekki rímar við líffræðilegt kyn getur truflað hugmyndir, reglur og orðræðu um karlmennsku og kvenleika (Jón Ingvar Kjaran og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2013). Hinsegin einelti er kynferðiseinelti sem hefur kynhneigð og kynvitund brotaþola sem útgangspunkt (Helseth, 2007). Hinsegin börn og unglingar eru líklegri til að verða fyrir einelti en gagnkynhneigðir og sís-kynja samnemendur þeirra (Hoffman, 2016; Kosciw, Greytak, Giga, Villenas og Danischewski, 2016). Öráreitni sem safnast saman og stigmagnast er algeng birtingarmynd hinsegineineltis. Hómófóbísk uppnefni eru oft algeng og viðtekin í skólamenningunni og geta verið algeng blótsyrði. Hómófóbísk uppnefni virðast sérstaklega algeng í tengslum við karlmennsku og er þannig niðrandi fyrir þá sem uppnefnum er beint að en getur styrkt stöðu þess sem uppnefnir í stigveldi skólamenningarinnar (Lehtonen, 2003). Búningsklefa einelti Það kynferðiseinelti sem drengir og karlar virðast helst verða fyrir felur í sér mótun karlmennsku, þar sem lagðar eru línurnar um hvað þarf til að falla að hugmyndum um ásættanlega karlmennsku. Drengur (eða karlmaður), sem er síendurtekið kallaður hommi eða kerling á niðrandi hátt, eru send þau skilaboð að hann falli ekki að hugmyndum um ásættanlega karlmennsku vegna þess að ásættanleg karlmennska er hvorki samkynhneigð né kvenleg (Berdahl, 2007). Niðurstöður Jóns Ingvars Kjaran og Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar (2010; 2011) sýna að drengir í íslenskum framhaldsskólum sem ekki sýndu karlmennsku sem þótti ásættanleg þá vegna kynhneigðar eða áhugasviðs virtust valda ákveðnum usla í hetrónormatívu rými búningsklefa. Mörgum viðmælenda þeirra leið því ekki vel í leikfimi eða búningsklefum fyrir og eftir leikfimi og sumir urðu jafnvel fyrir einelti. Þeir segja að heterónormatívu rými, til dæmis í leikfimitímum, sé viðhaldið með fordómum, einelti, heterósexískum viðhorfum og brandörum, hvort sem það er gert á meðvitaðan hátt eða ekki. Það á með öðrum orðum þátt í að gera slík viðhorf viðtekin í skólamenningunni, það sem kallað er stofnanabundinn hetrósexismi. Þrátt fyrir að hér sé sérstaklega vísað í umfjöllun Jóns Ingvars og Ingólfs Ásgeirs um hetrónormatívt rými búningsklefanna þá átti það einnig við um skólastofuna. Þó ekki sé minnst á hugtakið kynferðiseinelti í grein Jóns Ingvars og Ingólfs Ásgeirs er mikilvægt að átta sig á að um birtingarmynd kynferðiseineltis er að ræða. Búningsklefa einelti sem drengir verða fyrir er því ekki eingöngu bundið við búningsklefa heldur er hugtakið í þessu samhengi talið ná yfir það 8

10 einelti sem drengir verða fyrir og birtist í því að síendurtekið sé gefið í skyn að þeir séu kerlingar eða hommar og sýni þannig ekki ásættanlega karlmennsku. Kynferðiseinelti er því hluti af stofnanabundnum hetrósexisma. Kynverund og kynhneigð fatlaðra barna og unglinga hunsuð Kynferðiseinelti af þessu tagi er ekki aðeins afurð kynjamisréttis í samfélaginu heldur samtvinnuð ableisma 1. Gengið er út frá því að fatlað fólk sé ekki kynverur og ekki er gert ráð fyrir að það geti verið annað en gagnkynhneigt. Hunsun á kynverund og kynhneigð fatlaðra barna og unglinga birtist meðal annars í því að fatlað fólk sé ósýnilegt til dæmis í kynfræðsluefni. Hunsun á kynverund fatlaðs fólks birtist einnig í því að ekki sé gert ráð fyrir því í umræðu nemenda eða starfsfólks skóla að börn og unglingar með fötlun vilji eða geti stofnað til náinna sambanda, stundi kynlíf eða sjálfsfróun (Embla Guðrúnar Ágústsdóttir, 2014, 2015; Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Freyja Haraldsdóttir, 2014; Garland-Thomson, 1997; Tabú, 2014a, 2014b, 2014c, 2016; Wendell, 1996). Kynferðiseineltið kemur fram í stanslausum skilaboðum sem fatlað fólk fær um að líkamar þeirra og tilvera sé ekki eðlileg eða venjuleg og geti því ekki fallið að hugmyndum um ásættanlegan kvenleika eða karlmennsku. Ekki fengust viðmælendur sem bjuggu yfir reynslu af þessu tagi til þátttöku þrátt fyrir að sérstaklega hefði verið auglýst eftir þeim. Það þýðir hins vegar ekki að fatlað fólk upplifi ekki kynferðiseinelti heldur gefur það mun frekar til kynna rótgróinn abelisma í samfélaginu og innhverfingu fatlaðs fólks á kúgun og kynferðiseinelti. Óhefðbundið náms- og/eða starfsval Kynferðiseinelti getur einnig birst í því að nemendum sé strítt, komið sé með neikvæð ummæli eða þeir útilokaðir úr hópnum ef þeir hafa áhuga á röngum fögum í skólanum, til dæmis þegar drengjum gengur vel í textílmennt eða stúlkur hafa áhuga á bifvélavirkjun (Jämställdhetsombudsmannen, 2000). Óhefðbundið náms- eða starfsval er dæmi um að viðkomandi trufli viðteknar hugmyndir um ásættanlegan kvenleika eða karlmennsku. 1 Kristín Björnsdóttir fötlunarfræðingur hefur þýtt hugtakið abelism sem hæfishroki. Femíníska grasrótarhreyfingin Tabú beinir sjónum að margþættri mismunun gagnvart fötluðu fólki. Tabú hefur gefið frá sér að þeim finnist íslenska orðið hæfishroki ekki ná að koma merkingunni nægilega vel til skila þannig þær velja að þýða orðið ekki, heldur bæta við íslensku endingunni -ismi og tala frekar um abelisma. 9

11 Kynjamisrétti í skólamenningunni Skólamenning eru þau viðhorf og venjur sem eru einkennandi eða dæmigerð fyrir viðkomandi skólastofnun. Skólamenning mótast fyrst og fremst af þeim skráðu og óskráðu reglum sem starfsfólk hefur í heiðri. Skólastjórar gegna lykilhlutverki í mótun, viðhaldi og breytingum á skólamenningu en viðhorf og gildismat kennara hefur auk þess verið tengt skilvirkni skóla (Amalía Björnsdóttir, Baldur Kristjánsson og Börkur Hansen, 2011; Börkur Hansen, 1994; Ingvar Sigurgeirsson o.fl., 2005). Skólamenning hefur margvísleg áhrif á bæði starfsfólk og nemendur skóla og hefur til að mynda verið tengd líðan, einelti og námsárangri (Amalía Björnsdóttir o.fl., 2011; Börkur Hansen, 1994; Thapa, Cohen, Guffey og Higgins-D Alessandro, 2013). Í sænskri handbók um kynferðiseinelti er tekið fram að samskipti unglingsstúlkna og unglingsdrengja séu sífellt meira undir áhrifum frá ójöfnum og kynferðislega niðurlægjandi skilaboðum og gildum frá fjölmiðlum, auglýsingum og viðhorfum fólks í kring um þau. Börnum og unglingum skortir auk þess oft stuðning og leiðbeiningar frá fullorðnum um kynferðiseinelti og kynferðislega áreitni. Mikilvægt er að ekki sé tekið á kynferðiseinelti og kynferðislegri áreitni sem einangruðum atvikum í skólanum. Þess í stað verður að skoða samskipti nemenda í heild, bæði innan og utan kennslustofunnar og skoða þau í samhengi við kynjamisrétti í samfélaginu. Kynjað valdamisræmi í samfélaginu og skólamenningunni gerir það að verkum að niðurlægjandi orð eða hegðun getur haft ólík áhrif eftir því hver stendur fyrir því. Það getur reynst drengjum auðveldara að takast á við niðrandi ummæli frá stúlku, þar sem að þau eru ekki samtvinnuð almennri tilfinningu af því að vera minna virði eða mismunað (Jämställdhetsombudsmannen, 2000). Gådin (2012) hefur rannsakað kynferðislega áreitni meðal barna allt niður í sex ára og segir mikilvægt að muna að þrátt fyrir að kynferðisleg áreitni sé algeng meðal unglinga að þá birtist hún ekki allt í einu á kynþroskaskeiðinu eins og sumir haldi fram heldur séu viðhorfin og hegðunin til staðar mun fyrr. Gådin segir að áhersla í skólamenningunni á gagnkynhneigð rómantísk sambönd geri það að verkum að það sé eftirsóknarvert fyrir, stúlkur sérstaklega, að eiga kærasta en þess konar menning afskrifar áreitnina sem daður eða leik. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (2004) hefur fjallað um drengjaorðræðuna og eitt einkenni þeirrar orðræðu er að strákar verði alltaf strákar (e. boys will be boys). Orðræðan um að strákar verði alltaf strákar ber með sér þau viðhorf að strákar þurfi á hreyfingu að halda, þeim sé jafnvel eðlislægt að vera 10

12 svolítið árásargjarnir, þeir séu umfram allt ekki kvenlegir eða hommalegir. Holland, Ramazanoglu, Sharpe og Thomson (1998) benda á að kvenleikinn mótist í tengslum við gagnkynhneigð og á yfirráðasvæði karlmennskunnar. Fanny Ambjörnsson (2004) tekur í sama streng og segir mótun kyngervis samtvinnaða mótun gagnkynhneigðar. Hún hefur skoðað þá mótun sérstaklega út frá unglingsstúlkum og telur ásættanlegan kvenleika fela í sér ákveðna skyldubundna gagnkynhneigð. Ambjörnsson telur viðtekin viðhorf í skólamenningunni búa til hið venjulega og það fylgi því jafnframt mikið vald að tilheyra hinu venjulega. Það að vera stúlka telur Ambjörnsson bundið ólíkum tegundum valds sem meðal annars komi fram í sjálfsskólun og hversdags samskiptum. Konur og stúlkur sem spilla því sambandi karlmennsku og kvenleika sem byggir á yfirráðum karla og undirskipun kvenna, með því að fara á skjön við hegðun sem talin er tilheyra kvenleikanum sýna það sem Schippers (2007) fjallar um sem mengandi kvenleika (e. pariah femininity). Kvenleiki er aftur á móti styðjandi þegar hann viðheldur þessum hefðbundnu samfélagslegu viðmiðum sem gera ráð fyrir yfirráðum karla og undirskipun kvenna (R. W. Connell, 1987). Hér hefur verið fjallað um kynferðiseinelti með fræðilegum hætti og hugtakið tengt við skólamenningu. Næst verður farið yfir þau gögn og aðferðir sem notast var við í rannsókninni. 11

13 Gögn og aðferðir Rannsóknin er eigindleg og leggur því áherslu á að skoða þá merkingu sem einstaklingar sjálfir leggja í upplifun sína og reynslu (Esterberg, 2002; Hart, 2005). Í þessum kafla er greint frá gagnaöflun rannsóknarinnar, fjallað er um þátttakendur og framkvæmd. Þá er farið yfir greiningu gagna og þau siðferðilegu álitamál sem hafa varð í huga við framkvæmd rannsóknarinnar. Þátttakendur Þátttakendur voru níu ungmenni á aldrinum 18 til 25 ára sem höfðu upplifað kynferðiseinelti í grunnskóla og/eða framhaldsskóla. Leitað var eftir þátttöku einstaklinga sem höfðu upplifað kynferðiseinelti á skólagöngu sinni. Það var gert með því að birta auglýsingu á samskiptamiðlinum Facebook þar sem verkefninu var lýst með dæmum um birtingarmyndir kynferðiseineltis eins og um það hefur verið fjallað í erlendum rannsóknum (Gustavsson, 2012; Jämställdhetsombudsmannen, 2000) og óskað eftir þátttakendum sem bjuggu yfir reynslu af fyrirbærinu. Facebook auglýsingin hafði þann kost að hún dreifðist víða og því er líklegt að náðst hafi til fjölbreyttari flóru fólks en ella. Einnig var farin sú leið að spyrja nokkra viðmælendur hvort þeir þekktu til fleiri ungmenna sem byggju yfir svipaðri reynslu og því einnig beitt veltiúrtaki (e. snowball sampling). Viðmælendur voru sex konur, tveir karlar og einn viðmælandi var kynsegin en notaðist við kvenkyns fornafn. Því verður vísað til viðmælenda sem notuðust við kvenkyns fornöfn, þar sem þær eiga það allar sameiginlegt, í stað þess að tala um konurnar. Tveir viðmælendur voru samkynhneigðir. Reynsla þátttakenda af kynferðiseinelti var ýmiskonar og hafði kynferðiseineltið staðið frá einu ári og upp í fimm ár. Fjórir viðmælendur upplifðu kynferðiseinelti í framhaldsskóla, tveir í grunnskóla og þrír upplifðu kynferðiseinelti bæði í grunn- og framhaldsskóla. Viðmælendur komu úr ólíkum skólum, víðsvegar af landinu og þrátt fyrir að hafa upplifað ólíkar birtingarmyndir kynferðiseineltis, ýmist í grunnskóla eða framhaldsskóla þá var reynsla þeirra og viðhorf um margt afar keimlík. Það kom fram ákveðin mettun á upplifun þeirra af kynferðiseinelti í skólamenningunni sem skapaði heildarmynd þannig að ekki var talin þörf á fleiri viðmælendum. Markmið eigindlegra rannsóknaraðferða er jafnframt ekki að alhæfa út frá niðurstöðunum heldur að öðlast dýpri skilning á félagslegum fyrirbærum og samfélaginu í heild (Esterberg, 2002). 12

14 Framkvæmd Gagnasöfnun fór fram með hálfopnum einstaklingsviðtölum, það felur í sér að upplifun og reynsla hvers viðmælenda stjórnar því í hvaða röð spurningar af viðtalsramma eru bornar upp og um hvað er spurt í framhaldinu (Braun og Clarke, 2013; Esterberg, 2002; Hennink, Hutter og Bailey, 2010). Spurt var út í bakgrunn og skólagöngu viðmælenda, reynslu þeirra af kynferðiseinelti og afleiðingar þess. Viðtölin fóru fram á tímabilinu ágúst 2016 til nóvember 2016 og tók fyrri greinarhöfundur öll viðtölin. Viðtölin voru á bilinu 32 til 100 mínútur á lengd. Þrjú viðtalanna fóru fram í fundarstofum eða rólegum stað í Háskóla Íslands, þrjú fóru fram á heimilum viðmælenda, tvö voru tekin í gegnum skype og eitt viðtal fór fram á kaffihúsi að ósk viðmælandans. Viðtölin voru hljóðrituð með stafrænum hætti og síðan afrituð orðrétt í kjölfarið með samþykki viðmælenda. Greining og siðferðilegir þættir Við greiningu gagnanna var nálgun grundaðrar kenningar (e. grounded theory approach) beitt á gögnin sem felur meðal annars í sér opna og markvissa kóðun. Opinni og markvissri kóðun er beitt til þess að flokka gögnin í þemu og koma á þau skipulagi (Kvale og Brinkmann, 2009). Viðfangsefni rannsóknarinnar var viðkvæmt og gat ýft upp gömul sár viðmælenda. Allir viðmælendur höfðu hins vegar unnið úr reynslu sinni með einhverjum hætti og þau virtust jafnframt meðvituð um hin ýmsu meðferðarúrræði sem stóðu þeim til boða. Lögð var áhersla á að gæta fyllsta trúnaðar og virðingu við þátttakendur í viðtölunum, við úrvinnslu og meðferð gagna (Hennink o.fl., 2010; Kvale og Brinkmann, 2009). Rannsóknin var tilkynnt til Persónuverndar. Nauðsynlegt er að taka niðurstöðunum með fyrirvara. Um tiltölulega lítinn og einsleitan hóp viðmælenda er að ræða og hér er einna helst vísað til viðmælenda sem notast við kvenkyns fornöfn og því má búast við að upplifun og reynsla þeirra geti verið ólík upplifun og reynslu til dæmis fatlaðs fólks, transfólks, samkynhneigðra eða karla þar sem aðrir þættir spila inn í. Markmið rannsóknarinnar var að fá innsýn í reynslu þeirra sem tóku þátt en ekki er unnt að alhæfa um reynslu annarra byggt á þessum niðurstöðum. 13

15 Niðurstöður Umfjöllun um niðurstöður skiptist í fjóra meginkafla. Í þeim fyrsta er greint frá því hvernig kynjamisrétti er viðtekið í skólamenningu viðmælenda. Í öðrum kafla er skortur á kynjajafnréttisfræðslu skoðaður. Í þriðja kafla er fjallað um þátt kynferðiseineltis í að móta einstaklinga inn í hugmyndir um ásættanlegan kvenleika og karlmennsku. Það er gert með því að skoða reynslu viðmælenda af kynferðislegri áreitni, druslustimplun og hinsegineinelti, þeim birtingarmyndum kynferðiseineltis sem komu sterkast fram í orðum þeirra. Í fjórða kafla er greint frá afleiðingum kynferðiseineltis, þeim áhrifum sem reynslan hafði á nám og kynverund viðmælenda. Í umfjöllun um áhrif á kynverund er rýnt í reynslu viðmælenda af því að upplifa sig heppin en um leið flekkuð. Kynjamisrétti viðtekið Það kom endurtekið fram í viðtölunum að kynjamisrétti meðal unglinga væri hunsað í skólamenningunni og gert ráð fyrir að börn og unglingar væru jafn valdamikil. Þannig er þó horft fram hjá því að það valdamisræmi og valdastrúktúrar eins og kynjamisrétti, stéttaskipting, fötlunarfordómar, fordómar fyrir hinseginfólki og kynþáttafordómar sem ríkja í samfélaginu hafa einnig áhrif á börn og unglinga og geta því auðveldlega smitast inn í skólamenninguna. Vilborg lýsti skólamenningunni í þeim skóla sem hún varð fyrir kynferðiseinelti á þá leið að flestir strákarnir hefðu verið með mikla kynferðislega áreitni við stelpurnar en nemendurnir hefðu samt verið ávörpuð sem heild í þau fáu skipti sem talað var um vandann og þannig horft fram hjá því að um kynjað valdamisræmi var að ræða: [Þ]etta var ekki þannig að þeir ættu ekki að hegða sér svona eða þeir kallaðir til, þetta var bara svona við (með áherslu) eigum ekki að hegða okkur svona (þögn) þetta hormónaflug sem væri í gangi á göngunum skilurðu að við (með áherslu) ættum ekki að hegða okkur svoleiðis. Orð Vilborgar benda til þess að hormónaflug unglinga sé nýtt sem einhverskonar afsökun eða útskýring á kynferðislegri áreitni og kynferðiseinelti í skólamenningunni. Það kom einnig fram hjá Svandísi sem sagði kynferðiseinelti og kynferðislega áreitni hafa verið viðtekna og álitna eitthvað sem unglingar gera bara án þess að horfa sérstaklega á aðra þætti eins og kynjað 14

16 valdamisræmi: mín upplifun er einhvernvegin að það hafi ekkert rosalega mikið verið skipt sér af. Bara unglingarnir eru svona. Bríet lýsti þeim áhrifum sem mýtur, um að strákar og stelpur geti ekki verið vinir heldur séu sambönd þeirra alltaf kynferðislegt, hafði á líf hennar. Hún sagði upplifun sína af því að vera stimpluð drusla hafa verið samtvinnaða upplifun af öðru kynjamisrétti í skólamenningunni: Ég átti eiginlega bara strákavini í menntaskóla og auðvitað þegar stelpa, ég, á bara strákavini þá hlýtur hún að vera að sofa hjá þeim öllum. Þannig að ég var eiginlega út hrópuð hóra í gegnum öll síðustu tvö árin í menntaskóla. Upplifun Bríetar varpar ljósi á þá mýtu að strákar og stelpur geti ekki verið vinir heldur séu samskipti þeirra alltaf kynferðisleg að einhverju leyti. Aaltonen (2003) segir áherslu í skólamenningunni á gagnkynhneigð rómantísk sambönd auka bilið á milli reynsluheims stúlkna og drengja auk þess sem það geri það að verkum að bæði nemendur og starfsfólk líti gjarnan fram hjá áreitni og einelti milli drengja og stúlkna og afskrifi það sem daður, leiki eða grín. Sigríður sagði lítið hafa verið tekið á kynferðislegri áreitni í skólamenningunni: þetta var bara svona stríðni oft, sem hefði mátt stoppa en var bara afmáð af því að strákar eru strákar. Þetta var svolítið þannig menning. Þau viðhorf að strákar verði bara strákar, sem felur til að mynda í sér að þeir eigi erfitt með að stjórna hegðun sinni (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2004), áttu þátt í að gera lítið úr reynslu stúlknanna af kynferðiseinelti. Það var áberandi í orðum þátttakenda að þeir litu á reynslu sína sem óhjákvæmilega. Vilborg sagðist því ekki hafa áttað sig á að það væri eitthvað athugavert við það kynferðiseinelti sem hún upplifði í grunnskóla: En fyrir mér var þetta líka bara einhvernvegin svo eðlilegt. Þetta var bara svona, já svona er bara lífið, það er komið svona fram við alla hérna, í kring um mig, Ég er bara að lenda verst í þessu af því að ég er með stærstu brjóstin. Skilurðu eða eitthvað svona (hlær). Það er bara það sem maður heyrði. Í orðum Vilborgar birtist sú hlutgerving kvenna sem ríkti í skólamenningunni og hve viðtekið valdamisræmi kynjanna var þar sem henni þótti eðlilegt að hún yrði fyrir mestu kynferðiseinelti vegna þess að hún var með stærstu brjóstin. Hún bætti við: En það var engin samkennd eða stuðningur á meðan á þessu stóð sko. En það var kannski bara af því að það voru allir að lenda í 15

17 þessu af einhverri gráðu. Orð Vilborgar ná vel utan um hve óhjákvæmileg kynferðisleg áreitni þótti í skólamenningunni. Ástæður þess að hún fann ekki fyrir samkennd eða stuðningi frá öðrum nemendum á meðan á þessu stóð geta verið að með því væru samnemendur hennar að taka sér virka stöðu á móti slíkri hegðun og viðhorfum sem gæti í kjölfarið aukið hættu á að þau yrðu tekin fyrir sjálf (Hägg, 2003). Kennarar og annað starfsfólk skólans átti oft þátt í að viðhalda kynferðiseinelti í skólamenningunni, oftast með aðgerðaleysi gagnvart slíkri hegðun en einnig lýstu tveir viðmælendur því að kennarar þeirra hefðu átt þátt í að stimpla stúlkur druslur. Það kom fram í því að kennararnir höfðu orð á því fyrir framan aðra nemendur að það sæist of mikið í brjóst ákveðinna stúlkna eða að hegðun þeirra væri of kynferðisleg. Gerður sagði: Það var einn kennari sem, ég var oft í svona hlýrabolum og það var kona sem var alltaf að tala um brjóstin mín fyrir framan allan bekkinn. Ég var mjög sein þroska, þannig ég var ekkert komin með brjóst þarna í níunda bekk. En hún var alltaf að segja eitthvað svona Gerður, ég sé nú bara hérna allt of mikið þannig að allir í bekknum heyrðu. Og þannig að krakkarnir voru alltaf að tala um þetta og hlægja að þessu. Kennarar taka virkan þátt í mótun kvenleikans með því að koma með athugasemdir sem ýta undir druslustimplun. Mótun kvenleikans á sér þannig stað víða í skólamenningunni og allir taka þátt í henni, kennarar og samnemendur. Viðmælendur höfðu öll orðið vör við einelti í skólamenningunni. Þrátt fyrir að þau væru gagnrýnin á að ekki hefði verið tekið á einelti í skólamenningunni með fullnægjandi hætti þá var ljóst að það voru til staðar aðgerðaráætlanir og meiri meðvitund um það einelti sem féll inn í hefðbundnar skilgreiningar á einelti. Það var áberandi í orðum viðmælenda að reynsla þeirra af kynferðiseinelti í skóla var ekki tekin alvarlega. Ástæðurnar virtust einmitt liggja í því að eineltið sneri að kynferði og þeir aðilar sem eiga að bregðast við og koma í veg fyrir það eru hluti af sömu menningu þar sem kynjað valdamisræmi og kynferðisofbeldi af ýmsu tagi er inngróið og viðgengst. Markús tengdi það að ekki hefði verið tekið mark á reynslu hans skort á umræðu: Hvað sem það er sem tengist kynferði. Það er svo klikkað sko. Ég líka held að það sé, af því að þetta hefur alveg jafn mikil áhrif og að vera stimplaður eða uppnefndur eitthvað annað. Og maður getur einhvernvegin ekki heldur alveg sett fingur á það hvað það nákvæmlega er, sérstaklega af því að ég 16

18 upplifði þetta aldrei sem einelti á þessum tíma. Ég upplifði bara svona endalausa skömm og vanlíðan og óöryggi[ ][Það er eins og] það sé eitthvað minna ofbeldi eða minna einelti ef það byggir á kynhneigð einhvers. Hvort sem það er kynhneigð eða kynferði, það er alltaf jafn mikið ofbeldi og einelti. Orð Markúsar ná vel utan um sameiginlega upplifun viðmælenda af því að einelti sem snýr að kynferði eða kynhneigð til dæmis, sé flóknara og meira samþykkt heldur en til dæmis að lemja. Hann bætti við: Það er eins og einelti sé ekki einelti ef enginn er laminn. Það að ekki væri tekið á kynferðiseinelti í skólamenningunni gerði það að verkum að meirihluti viðmælenda gerði lítið úr reynslu sinni og þótti hún ekki komast á nógu alvarlegt stig til þess að gera þyrfti mál úr henni eins og sést í orðum Sigríðar: Af því manni fannst það aldrei komast á það agressive level [árásagjarnt stig]. Eins og maður þurfi að komast á eitthvað stig til að fá þennan stimpil sko. Kynferðiseinelti virtist yfirleitt álitið einstaklingsvandi en þannig fékk skólamenningin að vera óáreitt. Nína lýsti til dæmis viðbrögðum skólans þegar farið var að ávarpa opinberlega druslustimplun innan framhaldsskólans hennar sem hún sagði einkennast af því að vandinn væri tengdur við fortíðina: Mér fannst umræðan verða strax að einhverri svona hálfgerðri vörn sko, að þetta væri ekki svona lengur. En einnig sagði hún að skólinn og samfélagsumræðan í heild hefði að mestu snúist um skólablaðið sem var þó aðeins einn vettvangur druslustimplunarinnar innan skólans: [Þ]á var alltaf bara talað um þetta blað sko. Eins og blaðið væri vandamálið, það væri ekki bara attitude-ið[viðhorfið] allir að verja skólablaðið, já það er nú búið að skána síðan þetta var það er ekki vandamálið. Það er attitude-ið[viðhorfið] og þessi hegðun og þetta viðhorf til kvenna sem að fær bara að vera hérna í menntaskóla. Og að það hafi ekki verið stuðningur fyrir nemendur og fyrir stelpur og að enginn skildi standa upp og segja eitthvað. Af því að krakkarnir voru allir of óöruggir og litlir í sér til þess að segja eitthvað og þess vegna er ég ekki reið út í neinn. Ég er ekki reið út í vini mína og ég er ekki reið út í einu sinni gerendurnar vegna þess að ég veit að við vorum öll bara á einhverju svona bara óöryggis[ ]þannig það eru bara, allir hugsa 17

19 um sig og allir vilja bara passa sjálfan sig. Og þá finnst mér að kennarar geti haft þessi [áhrif]. Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir og Rakel Magnúsdóttir (2014) gerðu úttekt á félagslífi framhaldsskólanema og niðurstöður þeirra leiddu í ljós að kynjaðar birtingarmyndir og orðræða, sem einkennast af hefðbundnum staðalímyndum, grófu tali, kvenfyrirlitningu og kynferðislegri áreitni, hafa færst frá skólablöðum yfir á efni frá myndbandaráðum skólanna. Þannig að þrátt fyrir að skólaböðin séu búin að skána þýðir það ekki að vandamálið sé horfið eða að viðteknar hugmyndir um kvenleika og karlmennsku hafi breyst. Talsverð áhersla hefur verið lögð á hlutverk samfélagsmiðla og internetsins í einelti undanfarið (Helga Lind Pálsdóttir, 2012; SAFT, 2014). Netið og samfélagsmiðlar komu hins vegar ekki fram með áberandi hætti í orðum viðmælenda heldur virtust það mun frekar vera einn vettvangur af mörgum þar sem kynferðiseinelti þrífst. Viðbót við aðrar birtingarmyndir kynferðiseineltisins en ekki orsök. Netið gerði það vissulega að verkum hægt var að ná til margra á stuttum tíma, þannig að fjandsamlegum eða niðrandi orðrómi og augnaráðum fjölgaði. Netið gat þannig átt þátt í að ýkja upplifun brotaþola, sem gerðu sér í hugarlund að allir vissu, auk þess sem netið virtist framlengja eineltið umfram skólatíma og gera það að verkum að viðmælendur upplifðu að þeir gætu aldrei verið í friði. Samantekt Kynjamisrétti meðal unglinga virðist hunsað í skólamenningunni og gert ráð fyrir að börn og unglingar séu jafn valdamikil. Valdamisræmi og valdastrúktúrar sem ríkja í samfélaginu smitast hins vegar auðveldlega inn í skólamenninguna og geta þannig haft áhrif á börn og unglinga. Kynferðiseinelti var viðtekið í skólamenningu viðmælenda og útskýrt eða afsakað með hormónaflugi eða kynþroskaskeiði unglinga, því að strákar séu bara strákar, að um einstaklingsvanda væri að ræða eða með því að tengja vandann við fortíðina. Ekki virðist tekið eins mikið mark á eða brugðist við því einelti sem snýr að kynferði eða kynhneigð viðkomandi með sama þunga og hefðbundnu einelti. Þrátt fyrir að netið og samfélagsmiðlar komi fram sem einn vettvangur kynferðiseineltis virðist það þó ekki orsök vandans, heldur viðhorf í skólamenningunni. 18

20 Skortur á fræðslu Viðmælendur voru allir sammála um að þeir hefðu fengið of litla kynfræðslu og að skortur hefði verið á jafnréttisfræðslu á skólagöngu þeirra. Sú fræðsla sem skorti hvað helst var fræðsla um kynlíf, kynjajafnrétti, kynjanorm, hinseginmálefni, samþykki og samskipti, svo eitthvað sé nefnt. Vilborg gagnrýndi þá kynfræðslu sem hún fékk í grunnskóla með þessum orðum: Þetta var ekkert um samskipti kynjanna, eða þú veist femínisma eða neitt, sem að mér finnst að ætti að vera í þessu. Nína lýsti einnig upplifun sinni og sagði jafnréttisfræðslu á skólagöngu hennar hafa verið afar ábótavant: Sko ég man eftir einum einhverjum svona fyrirlestri um kynja, ég man bara eftir einu mómenti þar sem var verið að tala um eitthvað svona kynjajafnrétti. Og það var eins og meira bara svona eitt slide show. Orð viðmælenda náðu vel utan um þann skort sem var á fræðslu um kynjamisrétti og kynbundið ofbeldi. Sigríður sagði að skortur á fræðslu um kynferðislega áreitni hefði átt stóran þátt í því hve viðtekin slík hegðun varð í skólamenningunni: En þarna, það var heldur engin fræðsla um það, að þetta væri ekki í lagi. Af því að það er líka eins og ég segi, þetta var athygli. Segjum að strákar hafi verið að eitthvað svona tala um rassinn á manni eða eitthvað, þá var það alltaf já það er gaman af því að ég vek athygli þetta var miklu meira þannig attitude[viðhorf]. Valdimar sagði fræðsluskort um hinseginmálefni geta haft alvarleg áhrif og taldi greinagóða fræðslu um samkynhneigð snemma í grunnskóla hafa getað breytt miklu fyrir hann: Af því að það til dæmis hefði, það hefði gjörbreytt öllu hefði ég til dæmis vitað, þegar þetta einelti vegna kynferðis byrjaði, ef ég hefði vitað hvað ég væri og hefði getað brugðist við, því þá hefði þetta farið allt öðruvísi. En þegar þetta kemur fyrst á fyrsta ári í menntaskóla þá sérðu á eftir öllum þessum tíma sem þú lifðir í óvissunni og vissir ekki neitt og lifðir ef til vill líka í lygi. Ég þurfti mikla hjálp við að rjúfa þennan vítahring [ ] ef það hefði verið gripið fyrr inn í, ef það hefði verið talað um þessi mál fyrr þá náttúrlega væri staðan talsvert önnur í dag. 19

21 Eva Reimers (2007) hefur fjallað um heterónormatív viðhorf sænskra kennaranema. Hún segir að það sé almennt talið sjálfsagt að kennarar séu opnir og jafnréttissinnaðir. Meðal þeirra kennaranema sem rannsókn hennar náði til virtist hins vegar tilhneiging til að gera ráð fyrir að hinsegin fólk séu ekki kennarar eða nemendur, heldur fólk einhverstaðar annarstaðar en í kennslustofunni. Það telur Reimers eina ástæðu þess að oft þyki nauðsynlegt að fá utanaðkomandi fræðslu frá hinseginfólki inn í skóla, en með því að styðjast eingöngu við utanaðkomandi fræðslu telur hún hugmyndir um að hinsegin fólk séu hvorki kennarar né nemendur fá byr undir báða vængi. Í rannsókn Reimers kom einnig fram að kennaranemarnir virtust staðsetja andóf eða fordóma gagnvart hinsegin fólki utan skólamenningarinnar, oft meðal innflytjenda, sem hafa verið talin sérstök hindrun í framgangi jafnréttismála. Reimers bendir á að þannig fái viðtekin viðhorf og valdamisræmi að vera óáreitt og skólaumhverfið haldi áfram að vera staður fyrir skyldubundna gagnkynhneigð. Markús sagðist hafa orðið var við minni fordóma í bæjarfélögum á landsbyggðinni þar sem krakkar hefðu alist upp með nemendum sem væru komin út sem hinsegin. Hann tók undir að þörf hefði verið á meiri fræðslu um hinsegin málefni og sagði sérstaka þörf á slíku á landsbyggðinni: [A]f því að nú bý ég út á landi og ég var einn, bara út af því að þetta var svo mikið sjokk. Og það er líka það sem mér finnst svo slæmt og sem mér finnst að vanti svo mikið út á land. Af því að það er engin fræðsla. Reykjavíkurborg og Samtökin 78 eru með samninga sín á milli um þjónustu og fræðslu. Samtökin 78 eru einnig með samning við Hafnarfjarðarbæ um fræðslu til starfsfólks grunnskóla. Aðrir grunnskólar á höfuðborgarsvæðinu, framhaldsskólar og skólar á landsbyggðinni óska sjálfir eftir fræðslu frá Samtökunum 78 ef þau hafa áhuga á því (Fræðslufulltrúi Samtakanna 78, 16. mars 2017). Reynslusögur hinseginfólks af landsbyggðinni styðja þó við orð viðmælenda um að þar sé víða mikill skortur á fræðslu um hinseginmálefni (Þorvaldur Kristinsson, 2005). Hinseginfræðsla er mikilvægur þáttur í að koma í veg fyrir einelti, sjálfsvíg og fordóma (Hoffman, 2016; Kosciw o.fl., 2016; Þorvaldur Kristinsson, 2005). Bríet lýsti einnig skýrt óánægju sinni með þá fræðslu sem hún fékk í grunnskóla: En það var náttúrlega engin kynfræðsla, engin jafnréttisfræðsla. Við fengum mikið af eineltisfræðslu. Eins mikið og það gagnaðist nú. Orð Bríetar styðja við það sem komið hefur fram um að einelti hljóti meiri athygli innan skólakerfisins þegar það birtist með hefðbundnum hætti. Fræðsla um 20

22 hefðbundið einelti virðist einnig fá meiri athygli innan skólamenningarinnar en fræðsla sem snýr að kynferði eða jafnréttismálum. Hins vegar segir Bríet eineltisfræðsluna ekki hafa skilað miklum árangri og orð hennar gefa til kynna að vandinn liggi ekki hjá einstaka nemendum eða einstaka kennurum heldur sé þörf á að taka á skólamenningunni í heild: [K]ennarinn var alltaf með allskonar svona eineltis fræðslu, það bara gagnaðist ekki. Þú veist það náttúrlega, ég veit ekki hvernig er hægt að stoppa þetta, en það allavega gagnaðist ekki. Kennarinn var meðvitaður og var ótrúlega mikið að taka á þessu en það breyttist ekkert. Vilborg var á sama máli og Bríet, en einn kennarinn hennar hafi gert tilraun til að tala við bekkinn og binda endi á kynferðiseinelti í bekknum sem birtist í kynferðislegri áreitni með því að segja þeim einfaldlega að þau ættu ekki að haga sér svona. Það bar hins vegar ekki árangur: En ég held að það hafi svolítið verið swing and miss [skot út í bláinn] af því það hætti ekkert. En hún reyndi og svo kannski fannst henni erfitt að tala við krakka um kynlíf skilurðu, það gæti alveg verið og þetta er ekki inn í the curriculum [aðalnámsskrá] þannig henni gæti alveg hafa fundist þetta svolítið flókið. Vilborg virtist hafa þó nokkra samúð með kennaranum og þótti líklegt að henni hafi fundist óþægilegt að ræða við nemendur sína um kynferðislega áreitni og gefa henni plús fyrir að hafa reynt. Skólar eru skyldugir til að veita fræðslu um kynlíf og siðfræði kynlífs (lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir, fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir nr. 25/1975). Það var hins vegar áberandi í orðum viðmælenda að kyn- og jafnréttisfræðsla hefði verið var bundin við áhuga og kunnáttu einstaka kennara. Tveir viðmælendur höfðu fengið fræðslu um upplýst samþykki. Valdimar var annar þeirra og sagði hann þá fræðslu sem hann fékk um ofbeldi í nánum samböndum hafa skilið mikið eftir. Fleiri viðmælendur minntust ekki á að hafa fengið fræðslu um upplýst samþykki. Valdimar sagði: Þetta er eiginlega meira svona fullorðins fræðsla en mér fannst þetta samt líka virðing fyrir fólki að gera þetta svona[ ]þetta er eitthvað sem ég man alveg enn þá í dag og hef alveg þurft að nota, kannski eitthvað í þessa átt og þá hefur maður vitnað í þetta. Mér fannst þetta rosalega flottur fræðslupakki af því að það var ýmislegt sem hefði alveg mátt skipta út 21

23 fyrir allskonar fræðslu í staðin en þetta var eitthvað sem skilaði sér. Og var mjög áhugavert. Fimm viðmælendur sögðust til að mynda hafa fengið kynfræðslu á öðrum vettvangi en í skólanum, þar sem fræðslan í skólanum hefði ekki verið fullnægjandi. Þau höfðu nálgast fræðslu í borgaralegri fermingafræðslu, í æskulýðsstarfi, hjá samtökunum 78 eða sjálf í gegnum femínískt efni. Ítrekað hefur verið bent á þörf fyrir aukna kynjajafnréttisfræðslu fyrir kennara (Eygló Árnadóttir, 2009; Guðný Guðbjörnsdóttir og Steinunn Helga Lárusdóttir, 2012; Rósa Björk Bergþórsdóttir, 2014; Þorgerður Einarsdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2011). Höfundur komst að því við eftirgrennslan að kennd eru valnámskeið í framhaldsnámi kennaradeildar og uppeldis- og menntunarfræðideildar Háskóla Íslands sem snúa að kynjajafnréttisfræðslu og að hægt er að taka kjörsvið í meistaranámi, menntun framhaldsskólakennara um kyn og jafnrétti. Við Háskólann á Akureyri er námskeið um kynjafræði, jafnrétti og lýðræði skylda í meistaranámi bæði fyrir menntun grunnskólakennara og framhaldsskólakennara. Endurtekið hefur einnig verið sýnt fram á þörf fyrir aukna kynjajafnréttisfræðslu fyrir börn og unglinga. Auk þess sem lagt er til að fræðslan hefjist fyrr þannig að börn og unglingar búi yfir einhverskonar mótvægi eða síu fyrir klámi og skaðlegum skilaboðum samfélagsins um karlmennsku og kvenleika (Gustavsson, 2012; Jämställdhetsombudsmannen, 2000; Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, 2015; Krug, Mercy, Dahlberg og Zwi, 2002; Rósa Björk Bergþórsdóttir, 2014; Thomas Brorsen Smidt, 2013). Það er mikilvægt að kynjajafnréttisfræðsla sé aukin bæði hjá kennurum og nemendum. Weiner og Higgins (2017) hafa sýnt fram á að þegar kennarar og nemendur deila sameiginlegum viðhorfum stuðlar það að jákvæðum breytingum á skólamenningunni. Nokkrir viðmælendur töldu mikilvægt að auka fræðslu sem gagnrýnir ríkjandi valdastrúktúra samfélagsins og stuðlar að fjölbreytni í samfélaginu, Valdimar sagði til að mynda: [M]ér finnst grunnskóli vera vettvangur fyrir fjölbreytileika. Af því grunnskólinn er þessi staður þar sem allir koma saman. Við erum með fólk frá mismunandi þjóðernum, við erum yfirleitt með fatlaða einstaklinga. Við erum með, skulum bara segja mjög almennt, erum með fólk með allskonar hneigðir frá allskonar bakgrunnum og þetta á að vera tækifæri til að kynnast einhverju sem er þér framandi. 22

24 Kennsluefni sem gagnrýnir valdamisræmi og viðtekin viðhorf í samfélaginu (s. normkritisk pedagogik 2 ) hefur verið notað í Svíþjóð og Finnlandi. Þar er lögð áhersla á að draga fram í dagsljósið valdastrúktúra sem jaðarsetja ákveðna hópa fólks. Með þess konar námsefni og vinnuaðferðum er unnið að því að koma auga á, ávarpa og breyta viðteknum venjum auk þess að sýna fram á þau forréttindi sem fylgja því að vera hluti af því sem er samþykkt sem venjulegt eða æskilegt (Bromseth og Darj, 2010; Gustavsson, 2012; Jämställdhetsombudsmannen, 2000; The Living History Forum og RFSL Ungdom, 2009). Slík fræðsla er ákveðið mótsvar við þeirri fræðslu um hinseginmálefni sem hefur verið hvað mest áberandi undanfarin ár, þar sem áhersla hefur verið lögð á að kenna umburðarlyndi og samkennd gagnvart ýmsum jaðarhópum samfélagsins. Það að kenna nemendum sem tilheyra hinu venjulega umburðarlyndi og samkennd gagnvart þeim manneskjum sem ekki falla að hugmyndum um hið venjulega, er ekki líklegt til að hafa í för með sér raunverulegar breytingar. Umburðarlyndi er þannig oft sett fram sem velviljaverk á forsendum forréttindahóps, án þess að valdamisræmi og viðtekin viðhorf eða forréttindi séu sett í kastljósið eða gagnrýnd. Fræðsla sem leggur áherslu á umburðarlyndi á jafnframt þátt í að skapa stigveldi í skólamenningunni þar sem gert er ráð fyrir að bæði nemendur og starfsfólk skólans séu við á meðan hinir, hinseginfólkið, sé annarstaðar (Bromseth, 2010; Darj, 2010; Reimers, 2007; Rosén, 2010). Í sænsku og finnsku námsefni um kynferðiseinelti er lykilatriði þess að geta komið í veg fyrir kynferðiseinelti í skólum talið liggja í því að gera viðtækar venjur um kynhlutverk sýnileg og ræða staðalímyndir og hugmyndir um kvenleika og karlmennsku (Gustavsson, 2012; Jämställdhetsombudsmannen, 2000). Skortur á fræðslu gerði það að verkum að viðmælendum reyndist erfitt að átta sig á reynslu sinni. Skortur á fræðslu virtist jafnframt geta ýtt undir skömm og óöryggi auk þess að eiga þátt í því að flestir viðmælendur veigruðu sér við því að leita sér aðstoðar til að vinna úr reynslunni með formlegum hætti. Vilborg útskýrði hvernig viðtekin viðhorf í skólamenningunni gerðu það að verkum að hún átti erfitt með að standa með sér: Það einmitt tengist alveg inn í það og líka bara inn í það að geta einhvernvegin ekki staðið upp fyrir sjálfum sér og halda að þetta sé einhvernvegin sé bara hvernig hlutirnir virka. Flest tengdu viðmælendur það hve flókið þeim þótti að koma auga á reynsluna einnig ungum aldri. Herdís náði að draga vel saman upplifun viðmælenda af því að hafa ekki áttað sig á reynslu sinni fyrr en hún var orðin eldri: þetta eru svona hlutir sem maður áttar sig á seinna meir. Þetta er ekki, maður sá þetta ekki sem krakki. 2 Höfundur leggur til þýðinguna venjugagnrýnið fræðsluefni 23

25 Hún útskýrði það nánar: okey maður er orðinn 16 ára en maður er samt bara krakki. Maður er ógeðslega lítill og einmitt ótrúlega brothættur. Líkt og með ungan aldur þá þótti viðmælendum gjarnan skortur á fræðslu hafa átt þátt í því að þau vissu ekki betur. Skortur á fræðslu var jafnframt tengdur því að skaðleg viðhorf fengu að viðgagnast og voru samþykkt í skólamenningunni. Samantekt Viðmælendur lýstu öll skorti á kynjajafnréttisfræðslu á skólagöngu sinni og þá einna helst skort á fræðslu um kynlíf, kynjanorm, samskipti, jafnrétti, samþykki og hinseginmálefni. Kennsluefni og fræðsla sem gagnrýnir viðtekin viðhorf leitast við að gera þá samfélagsstöðu sem þykir sjálfsögð og venjuleg sýnilega og koma þannig í veg fyrir að skapa og viðhalda aðskilnaði með hugmyndum um hina. Fræðsla um ýmsa jaðarhópa innan samfélagsins hefur víða haft það sem markmið að auka umburðarlyndi og samkennd fyrir hinum". Hinir eru þá annað fólk, sem þarf á samþykki og meðaumkun okkar að halda. Hinir eru í þessu samhengi ekki aðeins samkynhneigt fólk eða fólk sem ekki er gagnkynhneigt, heldur einnig fatlað fólk, transfólk, fólk af erlendum uppruna eða með aðra trú en kristna trú. Til þess að stuðla að raunverulegum árangri og breytingum hefur þó verið lagt til að áhersla verði frekar lögð á að setja spurningarmerki við þau viðhorf og valdastrúktúra sem þykja sjálfsagðir og venjulegir í samfélaginu. Fræðsla sem gerir grein fyrir fjölbreytni í samfélaginu, gerir forréttindi, staðalímyndir um kynhlutverk og viðtekin viðhorf sýnileg er lykilatriði til að koma í veg fyrir kynferðiseinelti í skólum. Kynjajafnréttisfræðslu er ábótavant bæði fyrir nemendur og kennara. Sérstakur skortur er á hinseginfræðslu á landsbyggðinni. Skortur á fræðslu átti stóran þátt í því að kynferðiseineltið var viðtekið í skólamenningu viðmælenda. Þau gerðu sér oft ekki grein fyrir að þau hefðu orðið fyrir einelti og áttu því erfitt með að vinna úr afleiðingum þess. Mótun kyngervis og kynhneigðar Niðurstöðurnar varpa skýru ljósi á mótun kvenleikans. Ekki unnt að skoða mótun kvenleikans án þess að skoða einnig viðteknar hugmyndir um karlmennsku í skólamenningunni (Reay, 2001). Þrátt fyrir að karlkyns viðmælendur hefðu aðeins verið tveir mátti greina í orðum nær allra viðmælenda ráðandi hugmyndir um karlmennsku í skólamenningunni sem gátu reynst drengjunum sjálfum eða öðrum í kring um þá skaðlegar. Með ráðandi karlmennsku er átt við 24

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir

Málsýni. Aðferð til að meta málþroska barna. Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni Aðferð til að Jóhanna Einarsdóttir, Ester Sighvatsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir Málsýni hvað er það?? Málsýni þýðing á enska orðinu language sample Dæmi um málsýni Notað í rannsóknum um máltöku

More information

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt

Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins. Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Tryggð viðskiptavina við banka í kjölfar bankahrunsins Þórhallur Guðlaugsson dósent Friðrik Eysteinsson aðjunkt Rannsóknarspurningin Treystir fólk sínum viðskiptabanka betur en öðrum og gæti það verið

More information

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.)

Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) Sykursýkisdagbók ÚTGEFANDI: LANDSPÍTALI JANÚAR 2014 (BYGGT Á DIABETES HEALTH RECORD FRÁ THE DIABETES COALTILATION OF CALIFORNIA.) www.landspitali.is Nafn Læknir Hjúkrunarfræðingur Símanúmer Ræddu eftirfarandi

More information

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver

Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver Kennaraglósur Excel Flóknari aðgerðir: Solver 14 1 Excel Solver Excel Solver er viðbót (e. add-in) við Excel sem hjálpar til að finna bestu lausn á viðfangsefnum eins og þegar um er að ræða takmarkaðar

More information

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir

Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir Hugbúnaður kemur ekki í stað fólks! Camilla Ósk Hákonardóttir 1 Hvað er stjórnun viðskiptatengsla (CRM)? Stjórnun viðskiptatengsla er hugmyndafræði Stjórnun viðskiptatengsla er stefna Stjórnun viðskiptatengsla

More information

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept

Gagnasafnsfræði. Páll Melsted 16. sept Gagnasafnsfræði Páll Melsted 16. sept Endurtekin gildi Ef við viljum losna við endurtekin gildi er hægt að nota DISTINCT SELECT DISTINCT name FROM MovieExec, Movie, StarsIn WHERE cert = producerc AND title

More information

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum:

Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild-menntavísindabraut Þekkingarstig eineltis í framhaldsskólum: Endurskoðun á forvörnum og eineltisstefnum í framhaldsskóla Eva Dröfn Möller Akureyri Júní, 2013 Háskólinn

More information

UPPLIFUN KARLA INNAN LÖGREGLUNNAR AF VINNUMENNINGU LÖGREGLUNNAR

UPPLIFUN KARLA INNAN LÖGREGLUNNAR AF VINNUMENNINGU LÖGREGLUNNAR UPPLIFUN KARLA INNAN LÖGREGLUNNAR AF VINNUMENNINGU LÖGREGLUNNAR RANNVEIG ÁGÚSTA GUÐJÓNSDÓTTIR LEIÐBEINANDI: DR. GYÐA MARGRÉT PÉTURSDÓTTIR Efnisyfirlit 1. Helstu niðurstöður... 2 2. Inngangur... 3 Markmið...

More information

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban

Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban Reynsla hugbúnaðardeildar Símans við notkun Scrum og Kanban 8. febrúar 2013 Eiríkur Gestsson Um mig Eiríkur Gestsson Tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík 2004 Hugur hf. og HugurAx frá 2004 til

More information

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei

pige pólska já já 10 ár gaman vel hlutlaus ja pige ísl nei mjög leiðinlegt ekki vel ekki mikið þarf ekki á dönsku að halda nei 1 2 3 3_1 4 5 6 6_1 7 pige ísl nei hlutlaus vel mikið læri mikið á dönsku tímum og ef ég ætla í nám til dk þá er betra að kunna dönsku veit ekki pige ísl nei hlutlaus vel mikið eg læri nytt tungumal veit

More information

Í hvernig nærfötum ertu núna?

Í hvernig nærfötum ertu núna? Í hvernig nærfötum ertu núna? Upplifun trans fólks af transtengdri heilbrigðisþjónustu á Íslandi Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir Lokaverkefni til MA-gráðu í kynjafræði Félagsvísindasvið Júní 2017

More information

Skýrsla starfshóps sem á að finna leiðir til að sporna gegn heimilisofbeldi sem hinsegin fólk verður fyrir

Skýrsla starfshóps sem á að finna leiðir til að sporna gegn heimilisofbeldi sem hinsegin fólk verður fyrir 12.01.2018 Skýrsla starfshóps sem á að finna leiðir til að sporna gegn heimilisofbeldi sem hinsegin fólk verður fyrir Efnisyfirlit 1. Inngangur... 2 2. Skilgreiningar... 3 3. Hinsegin fólk og heimilisofbeldi...

More information

4) Þá ertu kominn inná routerinn og ætti valmyndin að líta út eins og sýnt er hér til hægri. 5) Því næst er smellt á Wizard setup

4) Þá ertu kominn inná routerinn og ætti valmyndin að líta út eins og sýnt er hér til hægri. 5) Því næst er smellt á Wizard setup Hægt er að tengjast við Zyxel 660W beininn bæði þráðlaust eða með netkapli í netkort tölvunnar. Stilla þarf tölvuna þannig að hún sæki sjálfkrafa IP tölu (Optain an IP Address Automatically). Mismunandi

More information

Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild Einelti. og samskipti kennara við foreldra gerenda eineltis

Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild Einelti. og samskipti kennara við foreldra gerenda eineltis Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild 2012 Einelti og samskipti kennara við foreldra gerenda eineltis Bjarnheiður Jónsdóttir og Elín Birna Vigfúsdóttir Lokaverkefni Hug- og félagsvísindasvið Kennaradeild

More information

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR)

OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) OFBELDI (HUGTAKALEIKUR) Aldur nemenda: 10 ára og upp úr Viðfangsefni: ofbeldi, einelti, samskipti Færnimarkmið: Hugtakaleikir ná að þjálfa flesta færniþætti samræðunnar Viðhorfamarkmið: Hugtakaleikir ná

More information

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu?

Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? Hvernig getum við uppfyllt þarfir kaupenda á netinu? 8 janúar 2015 Áður en kaupferlið hefst Í kaupferlinu Eftir að kaupferlinu lýkur Í kaupferlinu Áður en kaupferlið hefst Vörulýsing og myndir Neytendur

More information

Eðlishyggja í endurskoðun

Eðlishyggja í endurskoðun Eðlishyggja í endurskoðun Komiði sæl. Gaman að sjá ykkur svona mörg hér. Eins og Sigríður sagði er ég að vinna að doktorsritgerð í heimspeki þar sem reyni að færa frumspekileg rök fyrir konstrúktivisma

More information

Strákar geta haft svo mikil völd

Strákar geta haft svo mikil völd Strákar geta haft svo mikil völd Upplifun stúlkna á kynlífsmenningu framhaldsskólanema Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir Lokaverkefni til MA-gráðu í kynjafræði Leiðbeinandi: Dr. Þorgerður Einarsdóttir Stjórnmálafræðideild

More information

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir

Lokaverkefni til B.Ed. -prófs. Gagnvirkar töflur. Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum. Hólmfríður Ásmundsdóttir Lokaverkefni til B.Ed. -prófs Gagnvirkar töflur Greinargerð með heimasíðu og kennslumyndböndum Hólmfríður Ásmundsdóttir 270369-5459 Háskóli Íslands Menntavísindasvið Kennaradeild, grunnskólakennarafræði

More information

Algengi kynferðislegrar áreitni og ofbeldis gegn íslenskum unglingum

Algengi kynferðislegrar áreitni og ofbeldis gegn íslenskum unglingum http://dx.doi.org/10.17992/lbl.2016.06.87 RANNSÓKN Algengi kynferðislegrar áreitni og ofbeldis gegn íslenskum unglingum Ársæll Már Arnarsson 1 faraldsfræðingur, Kristín Heba Gísladóttir 1 sérfræðingur

More information

Tónlist og einstaklingar

Tónlist og einstaklingar Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar Kristinn Arnar Benjamínsson Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Tónlist og einstaklingar Áhrif tónlistariðkunar og áheyrnar

More information

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín

og æfingakennsla Ég sem kennari: Starfskenning mín Kennaraháskóli Íslands Kennsluréttindabraut Kennslufræði greinasviða og æfingakennsla Kennari: Elín María Thayer Ég sem kennari: Starfskenning mín Guðlaug Erlendsdóttir Nóvember 2007 Efnisyfirlit EFNISYFIRLIT...

More information

Mennta- og menningaráðuneytið

Mennta- og menningaráðuneytið Mennta- og menningaráðuneytið Námsgagnastofnun 08877 Jafnrétti er hugtak sem nær til margra þátta eins og aldurs, búsetu, fötlunar, kyns, kynhneigðar, litarháttar, lífsskoðana, menningar, stéttar, trúarbragða,

More information

Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið

Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni til BA-gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Bundin við annað BDSM sem umlykjandi áhugamál Eyþór Kamban Þrastarson Lokaverkefni

More information

Þetta er starfið sem fer fram, ekki staðurinn Rannsókn á vettvangi ungmennahúsa

Þetta er starfið sem fer fram, ekki staðurinn Rannsókn á vettvangi ungmennahúsa Þetta er starfið sem fer fram, ekki staðurinn Rannsókn á vettvangi ungmennahúsa Hafsteinn Bjarnason Kristján Ari Halldórsson Lokaverkefni til BA-prófs Íþrótta-, tómstunda og þroskaþjálfadeild Þetta er

More information

Þú fæðist ekki kona, heldur verður kona.

Þú fæðist ekki kona, heldur verður kona. Félagsvísindasvið Þú fæðist ekki kona, heldur verður kona. Birtingarmynd kyngervis á vefsíðu Krakkarúv og hugsanleg áhrif þess á börn. Ritgerð til BA gráðu Nafn nemanda: Anna Kristjana Ó. Hjaltested Leiðbeinandi:

More information

Druslustimplun. Þetta er ekki manneskja fyrir þér, þetta er bara netið. Karen Dögg Bryndísar- og Karlsdóttir

Druslustimplun. Þetta er ekki manneskja fyrir þér, þetta er bara netið. Karen Dögg Bryndísar- og Karlsdóttir Druslustimplun Þetta er ekki manneskja fyrir þér, þetta er bara netið Karen Dögg Bryndísar- og Karlsdóttir Lokaverkefni til MA-gráðu í menntun framhaldsskólakennara Félags- og mannvísindadeild Háskóla

More information

Strákunum gengur ágætlega en stelpunum gengur alltaf vel...

Strákunum gengur ágætlega en stelpunum gengur alltaf vel... Hug- og félagsvísindasvið Samfélags- og hagþróunarfræði 2010 Strákunum gengur ágætlega en stelpunum gengur alltaf vel... Mismunur á hegðun stelpna og stráka í kennslustundum og árangri í stöðluðum prófum

More information

Uppsetning á Opus SMS Service

Uppsetning á Opus SMS Service Uppsetning á Opus SMS Service Undirbúningur Þetta þarf að vera til staðar: Opus SMS Service á að vera sett upp móðurtölvunni sem hýsir gagnagrunninn. Notandinn sem er innskráður á tölvunni þarf að vera

More information

BA ritgerð. Ég fékk sjálfa mig ekki einu sinni til að hvísla... ég líka

BA ritgerð. Ég fékk sjálfa mig ekki einu sinni til að hvísla... ég líka BA ritgerð Mannfræði Ég fékk sjálfa mig ekki einu sinni til að hvísla... ég líka #MeToo, bylting á samfélagsmiðlum Eygló Karlsdóttir Leiðbeinandi: Helga Þórey Björnsdóttir Júní 2018 Ég fékk sjálfa mig

More information

Áhrif aldurs á skammtímaminni

Áhrif aldurs á skammtímaminni Háskóli Íslands 7.5.2000 Félagsvísindadeild Þroski og lífstíðarþróun (10.02.02) Áhrif aldurs á skammtímaminni Tryggvi R. Jónsson (191177-3989) Ólafur Magnússon Kennari: Sigurður J. Grétarsson Rannsókn

More information

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness

Hagir og líðan barna í Grunnskóla Seltjarnarness Hagir og líðan barna í Grunnskóla s Niðurstöður rannsókna meðal nemenda í., 6. og 7. bekk á i árið 27 Birna Baldursdóttir Margrét Lilja Guðmundsdóttir Álfgeir Logi Kristjánsson Inga Dóra Sigfúsdóttir Jón

More information

Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft mér að

Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft mér að March 2008 Volume 3, Number 1 Flavio Baroncelli - Staðalímyndir og sannleikur 1 translated by Egill Arnarson Eins og ég sagði í byrjun, þegar ég var að leita að öfgadæmi, þá get ég ef til vill ekki leyft

More information

Einelti í grunnskóla

Einelti í grunnskóla Einelti í grunnskóla Hvað getur umsjónarkennarinn gert? Þórdís Friðbergsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið 2 Einelti í grunnskóla Hvað getur umsjónarkennarinn gert? Þórdís

More information

Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt.

Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt. Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt. Inga Sif Ingimundardóttir Lokaverkefni til BA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Ég varð fyrir lúmsku einelti því þetta var aldrei líkamlegt

More information

Sjálfræði og ófrjósemisaðgerðir á konum með þroskahömlun

Sjálfræði og ófrjósemisaðgerðir á konum með þroskahömlun Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2011 Guðrún V. Stefánsdóttir Sjálfræði og ófrjósemisaðgerðir á konum með þroskahömlun Greinin fjallar um eigindlega rannsókn sem beinist

More information

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta?

Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? www.ibr.hi.is Hvað þurfa markaðsstjórar að kunna og geta? Erna Rós Kristinsdóttir Friðrik Eysteinsson Ritstjórar: Auður Hermannsdóttir Jón Snorri Snorrason Þóra Christiansen Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar

More information

Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna: Niðurstöður kannana í framhaldsskólum frá 2000 til 2016

Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna: Niðurstöður kannana í framhaldsskólum frá 2000 til 2016 Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna: Niðurstöður kannana í framhaldsskólum frá 2000 til 2016 September 2018 Sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna:

More information

Skóli án aðgreiningar

Skóli án aðgreiningar Skóli án aðgreiningar Hugmyndir skólastjóra í grunnskólum um skóla án aðgreiningar? Ólafía María Gunnarsdóttir Lokaverkefni til M.Ed. prófs Uppeldis og menntunarfræðideild 1 Skóli án aðgreiningar Hugmyndir

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ. Nemendur vinna hópverkefni þar sem þau þurfa að kynna sér helstu markverðu staðina Kennsluáætlun haust 2018 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

Gagnkynhneigt forræði:

Gagnkynhneigt forræði: Gagnkynhneigt forræði: Hinsegin mæður frá aðlögun til usla Rakel Kemp Guðnadóttir Maí 2017 Lokaverkefni til MA-prófs Uppeldis- og menntunarfræðideild Gagnkynhneigt forræði: Hinsegin mæður frá aðlögun

More information

Er gildismat íslenskra skólastjóra ólíkt eftir kynferði?

Er gildismat íslenskra skólastjóra ólíkt eftir kynferði? Tímarit um menntarannsóknir, 1. árg. 2004, 71-82 71 Er gildismat íslenskra skólastjóra ólíkt eftir kynferði? Anna Guðrún Edvardsdóttir Náttúrustofa Vestfjarða Í þessari grein er fjallað um niðurstöðu rannsóknar

More information

Mín skoðun skiptir máli Þátttaka nemenda í skólaráði grunnskóla

Mín skoðun skiptir máli Þátttaka nemenda í skólaráði grunnskóla Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Sérrit 2016 Menntun, mannvit og margbreytileiki. Greinar frá Menntakviku Menntavísindasvið Háskóli Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2016 Yfirlit greina Þorbjörg

More information

Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf. Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir og Kristín Dýrfjörð

Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf. Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir og Kristín Dýrfjörð Athugið ritið er ekki prófarkalesið Röggur Tímarit íslenska Reggionetsins um leikskólastarf Ritstjórn og ábyrgðarmenn: Guðrún Alda Harðardóttir gudrun@unak.is og Kristín Dýrfjörð dyr@unak.is 1 tbl. 4.

More information

Þetta er minn líkami en ekki þinn

Þetta er minn líkami en ekki þinn Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2011 Kristín Björnsdóttir Þetta er minn líkami en ekki þinn Sjálfræði og kynverund kvenna með þroskahömlun Í samningi Sameinuðu þjóðanna

More information

Leiðsagnarmat í Menntaskóla Borgarfjarðar Hvernig hefur okkur miðað?

Leiðsagnarmat í Menntaskóla Borgarfjarðar Hvernig hefur okkur miðað? Endurmenntun HÍ - Að vanda til námsmats Umsjón: Ingvar Sigurgeirsson Leiðsagnarmat í Menntaskóla Borgarfjarðar Hvernig hefur okkur miðað? Júní 2009 Lilja S. Ólafsdóttir Efnisyfirlit Inngangur... 3 Menntaskóli

More information

Hegðun foreldra sem áhrifaþáttur þess að unglingar á Íslandi leggja í einelti

Hegðun foreldra sem áhrifaþáttur þess að unglingar á Íslandi leggja í einelti Running head: HEGÐUN FORELDRA TENGT EINELTI UNGLINGA 1 Hegðun foreldra sem áhrifaþáttur þess að unglingar á Íslandi leggja í einelti Sandra Melberg Pálsdóttir 2013 BSc í Sálfræði Höfundur: Sandra Melberg

More information

Ungt fólk Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna

Ungt fólk Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna Ungt fólk 2004 Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna Rannsóknir meðal nemenda í framhaldsskólum á Íslandi 2004 og 2000 Álfgeir Logi Kristjánsson Silja Björk Baldursdóttir

More information

Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012

Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012 Þjónustukönnun 2012-1 Þjónustukönnun Landspítala, maí 2012 Niðurstöður könnunar á viðhorfum fullorðinna legudeildarsjúklinga til þjónustu á Landspítala. Ábyrgðarmenn Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri

More information

Sjúkdómsvæðing hegðunar:

Sjúkdómsvæðing hegðunar: Lokaverkefni til MA prófs í félagsfræði Sjúkdómsvæðing hegðunar: Hlutverk skólans í greiningarferli ADHD Anna Soffía Víkingsdóttir Febrúar 2016 Sjúkdómsvæðing hegðunar: Hlutverk skólans í greiningarferli

More information

Enginn hefur kvartað :

Enginn hefur kvartað : Enginn hefur kvartað : Könnun á reynslu, þekkingu og viðbrögðum stjórnenda varðandi einelti á vinnustað Svava Jónsdóttir og Inga Jóna Jónsdóttir Viðskiptafræðideild Ritstjóri: Ingi Rúnar Eðvaldsson Rannsóknir

More information

Stúlkur og Asperger-heilkenni

Stúlkur og Asperger-heilkenni Stúlkur og Asperger-heilkenni Kynbundin áhrif heilkennisins á sjálfsmynd og félagslega stöðu Berglind Harpa Björnsdóttir Sally Ann Vokes Lokaverkefni til B.A.-prófs Þroskaþjálfadeild Stúlkur og Asperger-heilkenni

More information

GREINAR UM BÆKUR ÁSTA KRISTJANA SVEINSDÓTTIR. Kvenna megin

GREINAR UM BÆKUR ÁSTA KRISTJANA SVEINSDÓTTIR. Kvenna megin GREINAR UM BÆKUR ÁSTA KRISTJANA SVEINSDÓTTIR Kvenna megin Sigríður Þorgeirsdóttir Kvenna megin: ritgerðir um femíníska heimspeki Hið íslenska bókmenntafélag, 2001 Mikið gleðiefni er að út sé komin bók

More information

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði.

Spilin á borðið. Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson. Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði. Spilin á borðið Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum. Sævar Skúli Þorleifsson Lokaverkefni til BA gráðu í Félagsfræði Félagsvísindasvið Spilin á borðið: Eigindleg rannsókn á íslenskum pókerspilurum

More information

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri

Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Gerð einstaklingsbundinna áætlana um stuðning, byggðar á niðurstöðum um mat á stuðningsþörf (SIS) Tryggvi Sigurðsson, sviðsstjóri Umfjöllun 1. Stutt lýsing á Mati á stuðningsþörf: SIS 2. Einstaklingsbundnar

More information

Ég nota alla lausa tíma sem ég hef

Ég nota alla lausa tíma sem ég hef Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 22. desember 2014 Yfirlit greina Hjördís Sigursteinsdóttir, Eva Halapi og Kjartan Ólafsson Ég nota alla lausa tíma sem ég hef Netnotkun íslenskra ungmenna

More information

10. kafli fordómar og mismunun

10. kafli fordómar og mismunun 10. kafli fordómar og mismunun Eðli og víddir fordóma (nature and dimensions of prejudice) Þegar einn hópur fólks hatar annan hóp svo mikið að þeir geta af ásettu ráði pynt og myrt saklausa óbreytta borgara

More information

Við viljum börnunum okkar alltaf það besta

Við viljum börnunum okkar alltaf það besta Við viljum börnunum okkar alltaf það besta Upplifun foreldra sem eru Vottar Jehóva á skólakerfinu á Íslandi og á Spáni Harpa Gísladóttir Júní 2017 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Við viljum

More information

Stundum finnst mér þeir horfa á mig eins og ég sé geimvera : Upplifun flóttakvenna í litlu bæjarfélagi á Íslandi

Stundum finnst mér þeir horfa á mig eins og ég sé geimvera : Upplifun flóttakvenna í litlu bæjarfélagi á Íslandi Stundum finnst mér þeir horfa á mig eins og ég sé geimvera : Upplifun flóttakvenna í litlu bæjarfélagi á Íslandi Unnur Dís Skaptadóttir Háskóla Íslands Erla S. Kristjánsdóttir Háskóla Íslands Útdráttur:

More information

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Fólkstegundir. Um veitingu félagslegra eiginleika

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. Fólkstegundir. Um veitingu félagslegra eiginleika Hugur 21. ár, 2009 s. 52 62 Ásta Kristjana Sveinsdóttir Fólkstegundir Um veitingu félagslegra eiginleika Um langt skeið hefur verið umræða í fræðaheiminum, jafnt sem annars staðar, um hvort ýmis fyrirbæri

More information

Tak burt minn myrka kvíða

Tak burt minn myrka kvíða Lokaverkefni til BA-prófs í félagsfræði Tak burt minn myrka kvíða Sorgarferli aðstandenda eftir sjálfsvíg Katrín Gunnarsdóttir febrúar 2017 Tak burt minn myrka kvíða Sorgarferli aðstandenda eftir sjálfsvíg

More information

Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi

Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2015 Yfirlit greina Guðrún V. Stefánsdóttir Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu

More information

Sjálfið á tímum stafræns veruleika

Sjálfið á tímum stafræns veruleika Sjálfið á tímum stafræns veruleika Upplifun einstaklinga af samskiptum í gegnum samfélagsmiðla, togstreita, áhrifastjórnun og skert geta til alhæfingar um mótleikara í stafrænum samskiptum. Lokaverkefni

More information

Skólaskrifstofa Austurlands. Virknimat

Skólaskrifstofa Austurlands. Virknimat Skólaskrifstofa Austurlands Búðareyri 4, 730 Reyðarfjörður Virknimat Virknimat (functional behavioral assessment) er skipulagt ferli til að (Yell, Meadows, Drasgow & Shriner, 2009; Kern, O Neill & Starosta,

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vorönn 2019 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

Atriði úr Mastering Metrics

Atriði úr Mastering Metrics Atriði úr Mastering Metrics Helgi Tómasson 13. september 2015 Helgi Tómasson Atriði úr Mastering Metrics 13. september 2015 1 / 11 Ýmis atriði ACA= Care Act er umdeilt efni í USA. Hafa heilbrigðistryggingar

More information

Jákvæð samskipti af hverju eru þau mikilvæg? Páll Ólafsson Félagsráðgjafi

Jákvæð samskipti af hverju eru þau mikilvæg? Páll Ólafsson Félagsráðgjafi Jákvæð samskipti af hverju eru þau mikilvæg? Páll Ólafsson Félagsráðgjafi Getur verið að þetta sé svona einfalt? Að börn þroskist best - ef þau eru elskuð fyrir það sem þau ERU en ekki vegna þess sem þau

More information

Kynferðisleg áreitni gagnvart starfsfólki í þjónustustörfum Rannsókn á upplifun starfsfólks á kynferðislegri áreitni á vinnustað

Kynferðisleg áreitni gagnvart starfsfólki í þjónustustörfum Rannsókn á upplifun starfsfólks á kynferðislegri áreitni á vinnustað Kynferðisleg áreitni gagnvart starfsfólki í þjónustustörfum Rannsókn á upplifun starfsfólks á kynferðislegri áreitni á vinnustað Höfundur skýrslu: Steinunn Rögnvaldsdóttir Hin síðari ár hefur umræðan um

More information

Ofbeldissamband yfirgefið

Ofbeldissamband yfirgefið Ritrýndar greinar Ofbeldissamband yfirgefið Ingólfur V. Gíslason, fil. dr. í félagsfræði, dósent við Háskóla Íslands. Valgerður S. Kristjánsdóttir, MA í félagsfræði, hjá Leikskólanum Grænuborg. Ingólfur

More information

Leikskóli margbreytileikans. Sérkennsla í nýju ljósi

Leikskóli margbreytileikans. Sérkennsla í nýju ljósi Leikskóli margbreytileikans Sérkennsla í nýju ljósi Starfsþróunarverkefni Sigrún Arna Elvarsdóttir Lokaverkefni til M.ed. - prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið Leikskóli margbreytileikans Sérkennsla

More information

Drög að kafla í handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa

Drög að kafla í handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa Drög að kafla í handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa Leiðarvísir um mat á jafnréttisáhrifum frumvarpa Leiðarvísir um mat á jafnréttisáhrifum frumvarpa Í þessum kafla er að finna leiðarvísi um

More information

Þeir vilja ekki leika, bara tala saman

Þeir vilja ekki leika, bara tala saman Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóli Íslands Ritrýnd grein birt 28. desember 2017 Yfirlit greina Sara M. Ólafsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir Þeir vilja ekki leika, bara tala

More information

Hvað mótar hugmyndir háskólakennara um skipulag náms og kennslu?

Hvað mótar hugmyndir háskólakennara um skipulag náms og kennslu? Tímarit um menntarannsóknir, 1. árg. 2004, 163-173 163 Hvað mótar hugmyndir háskólakennara um skipulag náms og kennslu? Guðrún Geirsdóttir Háskóla Íslands Eitt af því sem greinir háskólakennara frá kennurum

More information

Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla. Þórunn Kjartansdóttir. Lokaverkefni til MA gráðu í þjóðfræði.

Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla. Þórunn Kjartansdóttir. Lokaverkefni til MA gráðu í þjóðfræði. Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla Þórunn Kjartansdóttir Lokaverkefni til MA gráðu í þjóðfræði Félagsvísindasvið Þjóðfræði hvað? Kennsluefni í þjóðfræði fyrir framhaldsskóla Þórunn

More information

Fartölvur í námi og kennslu í Menntaskólanum á Akureyri

Fartölvur í námi og kennslu í Menntaskólanum á Akureyri Fartölvur í námi og kennslu í Menntaskólanum á Akureyri 1999-2002 Lára Stefánsdóttir Meistaraprófsverkefni lagt fram til fullnaðar M.Ed.-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði við Kennaraháskóla Íslands með

More information

Samtöl um dauðann. Fyrirbærafræðileg rannsókn á viðhorfum aldraðra til lífs og dauða og til meðferðar við lífslok. Ágrip

Samtöl um dauðann. Fyrirbærafræðileg rannsókn á viðhorfum aldraðra til lífs og dauða og til meðferðar við lífslok. Ágrip Samtöl um dauðann Fyrirbærafræðileg rannsókn á viðhorfum aldraðra til lífs og dauða og til meðferðar við lífslok Helga Hansdóttir 1 sérfræðingur í lyf- og öldrunarlækningum Sigríður Halldórsdóttir 2 hjúkrunarfræðingur,

More information

MA ritgerð. Drengir sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku af hálfu kvenna

MA ritgerð. Drengir sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku af hálfu kvenna MA ritgerð Félagsráðgjöf til starfsréttinda Drengir sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku af hálfu kvenna Áhrif á líf og líðan karlkyns þolenda Hilmar Jón Stefánsson Leiðbeinandi: Dr. Freydís Jóna

More information

Rannsókn á starfsþróun kennara og stjórnenda í fjórum grunnskólum

Rannsókn á starfsþróun kennara og stjórnenda í fjórum grunnskólum Von er ekki aðferð Rannsókn á starfsþróun kennara og stjórnenda í fjórum grunnskólum Gunnar Gíslason Kennaradeild Hug- og félagsvísindasvið Háskólinn á Akureyri 2015 Von er ekki aðferð Rannsókn á starfsþróun

More information

Reynsla skólastjóra af meistaranámi í stjórnun skólastofnana

Reynsla skólastjóra af meistaranámi í stjórnun skólastofnana Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóli Íslands Ritrýnd grein birt 16. nóvember 2016 Yfirlit greina Anna Þóra Baldursdóttir og Sigríður Margrét Sigurðardóttir Reynsla skólastjóra

More information

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands

VIÐSKIPTASVIÐ. Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands VIÐSKIPTASVIÐ Hvaða þættir skipta máli í innleiðingu CRM? Út frá reynslu stærstu fyrirtækja Íslands Ritgerð til BS gráðu Nafn nemanda: Guðrún Erna Hafsteinsdóttir Leiðbeinandi: Haraldur Daði Ragnarsson

More information

BA ritgerð. Meira en bara besti vinur mannsins?

BA ritgerð. Meira en bara besti vinur mannsins? BA ritgerð Mannfræði Meira en bara besti vinur mannsins? Hversu nánir mega menn verða dýrum og hvar grípa menningarleg tabú þar inn í? Kristín Björg Björnsdóttir Leiðbeinandi Sveinn Eggertsson Febrúar

More information

Að flytja úr foreldrahúsum

Að flytja úr foreldrahúsum Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Sérrit 2015 Hlutverk og menntun þroskaþjálfa Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2015 Yfirlit greina Sigrún Þ. Broddadóttir og Guðrún

More information

MA ritgerð. Ofbeldi karla gegn konum í parsamböndum

MA ritgerð. Ofbeldi karla gegn konum í parsamböndum MA ritgerð Félagsráðgjöf Ofbeldi karla gegn konum í parsamböndum Úttekt á gerendum sem leita til Karlar til ábyrgðar Ingibjörg Þórðardóttir Leiðbeinandi dr. Freydís Jóna Freysteinsdóttir Janúar 2014 Ofbeldi

More information

Kynjanámskrá Hjallastefnunnar í ljósi nýrrar orðræðu

Kynjanámskrá Hjallastefnunnar í ljósi nýrrar orðræðu Lilja S. Sigurðardóttir: Kynjanámskrá Hjallastefnunnar í ljósi nýrrar orðræðu Forsaga Hjallastefnunnar Margrét Pála Ólafsdóttir höfundur Hjallastefnunnar tók árið 1989 við stjórn á nýbyggðum leikskóla;

More information

Kynáttunarvandi barna og unglinga

Kynáttunarvandi barna og unglinga Kynáttunarvandi barna og unglinga Inga Dóra Jónsdóttir Lokaverkefni til BA-gráðu í félagsráðgjöf Háskóli Íslands Félagsvísindasvið Kynáttunarvandi barna og unglinga Inga Dóra Jónsdóttir 110659-5719 Lokaverkefni

More information

Að bera kennsl á kynferðisofbeldi hjá börnum á leikskólaaldri Hvernig taka leikskólastjórar á málefninu í starfi?

Að bera kennsl á kynferðisofbeldi hjá börnum á leikskólaaldri Hvernig taka leikskólastjórar á málefninu í starfi? Að bera kennsl á kynferðisofbeldi hjá börnum á leikskólaaldri Hvernig taka leikskólastjórar á málefninu í starfi? Vigdís Guðmundsdóttir Lokaverkefni til M.Ed.-gráðu Háskóli Íslands Menntavísindasvið Að

More information

Að efla félagshæfni leikskólabarna

Að efla félagshæfni leikskólabarna Að efla félagshæfni leikskólabarna Heiða María Angantýsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs Kennaradeild Að efla félagshæfni leikskólabarna Heiða María Angantýsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í leikskólakennarafræði

More information

Uppeldi fatlaðra barna

Uppeldi fatlaðra barna Uppeldi fatlaðra barna Sigríður Ásta Hilmarsdóttir Lokaverkefni lagt fram til fullnaðar B.A.-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands, Menntavísindasvið Febrúar 2010 Lokaverkefni til B.A.-prófs

More information

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn?

Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut Lesum saman. Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild Kennaraskor Leikskólabraut 29 Lesum saman Hvaða áhrif hefur lestur á börn? Guðríður Anna Sveinsdóttir Lokaverkefni Háskólinn á Akureyri Hug- og félagsvísindadeild

More information

Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on.

Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on. Mánudagur 6. nóvember 2017. http://www.capfrance-terrou.com/ Rene about vocabulary Develop Implement a process, develop yourself is a personal thing. developed is something that has been worked on. Dvelopment

More information

Hvert liggur leiðin? Leit sjónskertrar stúlku að framhaldsskóla

Hvert liggur leiðin? Leit sjónskertrar stúlku að framhaldsskóla Hvert liggur leiðin? Leit sjónskertrar stúlku að framhaldsskóla Aðalbjörg Óskarsdóttir Lokaverkefni lagt fram til fullnaðar B.Ed.-gráðu í grunnskólakennarafræði við Háskóla Íslands, Menntavísindasvið Apríl

More information

Háskólinn á Akureyri Kennaradeild Kennari í starfi (KÍS1155) Vor Ígrundunardagbók Verkefni 6

Háskólinn á Akureyri Kennaradeild Kennari í starfi (KÍS1155) Vor Ígrundunardagbók Verkefni 6 Háskólinn á Akureyri 5.2.2006 Kennaradeild Kennari í starfi (KÍS1155) Vor 2006 Ígrundunardagbók Verkefni 6 Tryggvi R. Jónsson Kennari: Eygló Björnsdóttir Guðmundur H. Frímansson 2 Katrín Fjóla Guðmundsdóttir

More information

ENDURMAT Á STUÐNINGSÞÖRF

ENDURMAT Á STUÐNINGSÞÖRF ENDURMAT Á STUÐNINGSÞÖRF Aðdragandi Framkvæmd Niðurstöður Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins Október 2015 Endurmat á stuðningsþörf Aðdragandi Framkvæmd Niðurstöður Tryggvi Sigurðsson Greiningar- og

More information

Hér og nú. Núvitund sem leið til að efla tilfinningalegt jafnvægi, jákvæða hegðun og vellíðan nemenda og kennara í leik- og grunnskóla

Hér og nú. Núvitund sem leið til að efla tilfinningalegt jafnvægi, jákvæða hegðun og vellíðan nemenda og kennara í leik- og grunnskóla Hér og nú Núvitund sem leið til að efla tilfinningalegt jafnvægi, jákvæða hegðun og vellíðan nemenda og kennara í leik- og grunnskóla Heilsuleikskólinn Krókur og Grunnskóli Grindavíkur Verkefnisstjórar:

More information

ART á Suðurlandi. Mat á framkvæmd og ávinningi verkefnisins. Júlí Andrea G. Dofradóttir Hrefna Guðmundsdóttir

ART á Suðurlandi. Mat á framkvæmd og ávinningi verkefnisins. Júlí Andrea G. Dofradóttir Hrefna Guðmundsdóttir ART á Suðurlandi Mat á framkvæmd og ávinningi verkefnisins Júlí 2009 Andrea G. Dofradóttir Hrefna Guðmundsdóttir Efnisyfirlit Yfirlit um helstu niðurstöður... 2 Inngangur... 4 ART á Suðurlandi... 4 ART

More information

Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi

Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi Viðhorf erlendra foreldra til lestrar og skriftarkennslu leikskólabarna á Íslandi Maduvanthi Kumari Abeyrathne Lokaverkefni til B.Ed. prófs í Leikskólakennarafræði Leiðsögukennari: Hildur Blöndal Sveinsdóttir

More information

Orðaforðanám barna Barnabók

Orðaforðanám barna Barnabók Orðaforðanám barna Barnabók Hrund Hermannsdóttir Lokaverkefni til B.ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðsögukennari: Sigurður Konráðsson Kennaradeild Menntavísindasvið Háskóla Íslands Febrúar 2012 Ágrip

More information

Sköpunarkraftur og sköpunarferli í skólastarfi

Sköpunarkraftur og sköpunarferli í skólastarfi Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2013 Yfirlit greina Hrafnhildur Eiðsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir Sköpunarkraftur og sköpunarferli

More information

Tengsl líkamsmyndar við kynhegðun unglinga

Tengsl líkamsmyndar við kynhegðun unglinga Hug- og félagsvísindasvið Sálfræði 2014 Tengsl líkamsmyndar við kynhegðun unglinga Andrea Elsa Ágústsdóttir Lokaverkefni við Hug- og félagsvísindasvið Hug- og félagsvísindasvið Sálfræði 2014 Tengsl líkamsmyndar

More information

Mat í þágu náms eða nám í þágu mats

Mat í þágu náms eða nám í þágu mats Kennaraháskóli Íslands Doktorsvörn 9. maí 2008 Rúnar Sigþórsson Mat í þágu náms eða nám í þágu mats Samræmd próf, kennsluhugmyndir kennara, kennsla og nám í náttúrufræði og íslensku í fjórum íslenskum

More information